Ferill 532. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 864  —  532. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2018 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2018, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 9. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/78/ESB frá 24. nóvember 2010 um breytingu á tilskipunum 98/26/EB, 2002/87/EB, 2003/6/EB, 2003/41/EB, 2003/71/EB, 2004/39/EB, 2004/109/EB, 2005/60/EB, 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2009/65/EB að því er varðar valdsvið Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska bankaeftirlitsstofnunin), Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) og Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin).

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2018, frá 27. apríl 2018, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 (sbr. fylgiskjal I), og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/78/ESB frá 24. nóvember 2010 um breytingu á tilskipunum 98/26/EB, 2002/87/EB, 2003/6/EB, 2003/41/EB, 2003/71/EB, 2004/39/EB, 2004/109/EB, 2005/60/EB, 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2009/65/EB að því er varðar valdsvið Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska bankaeftirlitsstofnunin), Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) og Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin) (sbr. fylgiskjal II).
    Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir fyrrgreindri tilskipun var ákvörðun nr. 92/2018 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni fyrrgreindrar gerðar en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.

2. Um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Á hverju ári er nokkur fjöldi ESB-gerða tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þó er um að ræða tiltölulega lágt hlutfall af heildarfjölda þeirra gerða sem ESB samþykkir. Í skýrslu utanríkisráðuneytisins, Gengið til góðs – skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins, kemur fram að á tímabilinu frá 1994 til ársloka 2016 tók Ísland upp 13,4% þeirra gerða sem ESB samþykkti á sama tímabili.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið gerður þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er breytt með lögum til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/78/ESB frá 24. nóvember 2010 um breyt-ingu á tilskipunum 98/26/EB, 2002/87/EB, 2003/6/EB, 2003/41/EB, 2003/71/EB, 2004/39/EB, 2004/109/EB, 2005/60/EB, 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2009/65/EB að því er varðar valdsvið Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska bankaeftirlitsstofnunin), Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) og Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin).
    Á árinu 2010 var samþykkt innan ESB að koma á fót nýju samevrópsku eftirlitskerfi á fjármálamarkaði. Eftirlitskerfinu er ætlað að vernda hagsmuni almennings og fjármálamarkaðarins með því að stuðla að stöðugleika og heilbrigði fjármálakerfisins á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Komið var á fót þremur eftirlitsstofnunum sem hafa eftirlit með fjármálastarfsemi á innri markaðnum, Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni (EBA), Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni (EIOPA) og Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnuninni (ESMA). Reglur um umgjörð og ramma um heimildir stofnananna þriggja er að finna í stofnreglugerðum þeirra, nr. 1093/2010, 1094/2010 og 1095/2010. Heimildir viðkomandi stofnana ber hins vegar að útlista nánar í efnislöggjöf ESB.
Tilskipun 2010/78/ESB, sem samþykkt var samhliða stofnreglugerðunum, breytti því gildandi efnislöggjöf ESB á ýmsum sviðum svo að hún endurspeglaði hið nýja eftirlitsumhverfi. Tilskipunin, sem nefnd hefur verið Omnibus I, er því eins konar safnlöggjöf. Með henni er tilteknum Evrópugerðum á fjármálamarkaði breytt og kveðið á um heimildir EBA, EIOPA og ESMA þar sem það á við. Í dæmaskyni má nefna heimildir til þess að leggja drög að tæknistöðlum, um upplýsingaskipti og hlutverk stofnananna með tilliti til eftirlits og í sáttameðferð milli eftirlitsaðila. Aðildarríkjum ESB bar að innleiða ákvæði tilskipunarinnar fyrir árslok 2011.
    Eftir að samkomulag náðist milli ESB- og EFTA-ríkjanna innan EES um aðlögun stofnreglugerðanna, sem fellur að tveggja stoða kerfi EES-samningsins, voru þær teknar upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 199-201/2016 hinn 30. september 2016. Aðlaganir í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2018 frá 27. apríl 2018, um upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn, eru í samræmi við nefndar aðlaganir stofnreglugerðanna. Það athugast að sumar þeirra gerða sem tilskipunin breytir hafa verið felldar úr gildi og önnur efnislöggjöf komið í þeirra stað innan ESB sem felur í sér ákvæði um heimildir stofnananna. Tilskipunin sjálf féll úr gildi innan ESB í ársbyrjun 2018. Eigi að síður var talið nauðsynlegt að taka hana upp í EES-samninginn og innleiða í löggjöf EFTA-ríkjanna innan EES.
    Stofnreglugerðirnar voru innleiddar í íslenskan rétt með lögum nr. 24/2017, um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði. Ákvæði tilskipunarinnar hafa hins vegar ekki enn verið innleidd í íslenskan rétt.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á breytingar á ýmsum lögum hér á landi þannig að kveðið verði á um hlutverk stofnananna þriggja gagnvart íslenskum aðilum í viðkomandi efnislöggjöf. Stefnt er að því að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram frumvörp til innleiðingar á þeim hlutum tilskipunarinnar sem falla undir málefnasvið fjármála- og efnahagsráðuneytisins á árinu 2019. Jafnframt voru þau ákvæði tilskipunarinnar sem varða breytingar á Evrópulöggjöf um varnir gegn peningaþvætti innleidd með lögum nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

5. Samráð við Alþingi.
    Í reglum Alþingis um þinglega meðferð EES-mála er kveðið á um að ESB-gerðir, sem fyrirhugað er að fella inn í EES-samninginn en munu ekki taka gildi á Íslandi nema að undangengnu samþykki Alþingis, skuli sendar utanríkismálanefnd til umfjöllunar. Tilskipun 2010/78/ESB var send utanríkismálanefnd til samræmis við framangreindar reglur. Í bréfi utanríkismálanefndar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að nefndin hafi fjallað um gerðina og fylgir bréfinu álit efnahags- og viðskiptanefndar þar sem gerðin fékk efnislega umfjöllun. Í bréfinu eru ekki gerðar athugasemdir við upptöku hennar í EES-samninginn.


Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2018, frá 24. apríl 2018,
um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.


www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s0864-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/78/ESB frá 24. nóvember 2010 um breytingu á tilskipunum 98/26/EB, 2002/87/EB, 2003/6/EB, 2003/41/EB, 2003/71/EB, 2004/39/EB, 2004/109/EB, 2005/60/EB, 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2009/65/EB að því er varðar valdsvið Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska bankaeftirlitsstofnunin), Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) og Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin).


www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s0864-f_II.pdf