Ferill 172. máls. Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 879  —  172. og 173. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019–2023 og tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033.

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málin og fengið á sinn fund Sigurð Inga Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Ingveldi Sæmundsdóttur, aðstoðarmann ráðherra, Ragnhildi Hjaltadóttur og Sigurberg Björnsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Bergþóru Þorkelsdóttur og Jónas Snæbjörnsson frá Vegagerðinni, Ingólf Bender fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Lárus M.K. Ólafsson frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Jóhannes Þór Skúlason og Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Konráð Guðjónsson frá Viðskiptaráði, Hauk Reynisson frá Icelandair, Ingvar Tryggvason og Ragnar Friðrik Ragnars frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna, Dag B. Eggertsson og Þorstein Rúnar Hermannsson frá Reykjavíkurborg, Einar Má Sigurðsson og Gunnar Jónsson frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Stefán Boga Sveinsson frá Fljótsdalshéraði, Oddnýju Björk Daníelsdóttur, Hildi Þórisdóttur, Aðalheiði Borgþórsdóttur, Rúnar Gunnarsson og Vilhjálm Jónsson frá Seyðisfjarðarkaupstað, Gauta Jóhannesson frá Djúpavogshreppi, Karl Óttar Pétursson frá Fjarðabyggð, Sigríði Kristjánsdóttur, Hafdísi Gunnarsdóttur og Aðalstein Óskarsson frá Vestfjarðastofu, Rebekku Hilmarsdóttur og Iðu Marsibil Jónsdóttur frá Vesturbyggð, Guðmund Gunnarsson og Daníel Jakobsson frá Ísafjarðarbæ, Ármann Kr. Ólafsson og Birki Jón Jónsson frá Kópavogsbæ, Einar Á. E. Sæmundsen frá Þjóðgarðinum á Þingvöllum, Valgerði Grétu Benediktsdóttur frá Strætó bs., Árna Davíðsson og Hauk Eggertsson frá Landssamtökum hjólreiðamanna, Þránd Arnþórsson og Tryggva M. Þórðarson frá Akstursíþróttasambandi Íslands, Runólf Ágústsson og Guðmund Guðnason frá Fluglestinni – þróunarfélagi ehf., Sigfús Inga Sigfússon, Ingibjörgu Huld Þórðardóttur, Gísla Sigurðsson og Ólaf Bjarna Haraldsson frá Sveitarfélaginu Skagafirði, Einar Kristján Jónsson frá Húnavatnshreppi, Magnús Magnússon frá Húnaþingi vestra, Evu Björk Harðardóttur og Bjarna Guðmundsson frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Einar Frey Elínarson frá Mýrdalshreppi, Ásu Valdísi Árnadóttur, Steinar Sigurjónsson og Björn Kristin Pálmarsson frá Grímsnes- og Grafningshreppi, Matthildi Ásmundardóttur frá Sveitarfélaginu Hornafirði, Ástu Stefánsdóttur frá Bláskógabyggð, Jón G. Valgeirsson og Halldóru Hjörleifsdóttur frá Hrunamannahreppi, Rakel Sveinsdóttur frá Sveitarfélaginu Ölfusi, Hildi Jönu Gísladóttur og Pál Björgvin Guðmundsson frá Eyþingi, Finn Yngva Kristinsson og Jón Stefánsson frá Eyjafjarðarsveit, Ásthildi Sturludóttur frá Akureyrarbæ, Þorstein K. Björnsson og Katrínu Sigurjónsdóttur frá Dalvíkurbyggð, Arnór Benónýsson frá Þingeyjarsveit, Gísla Gíslason og Kristínu Soffíu Jónsdóttur frá Faxaflóahöfnum sf., Eggert Kjartansson, Elsu Láru Arnardóttur, Ólaf Adolfsson og Pál S. Brynjarsson frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Sævar Frey Þráinsson frá Akraneskaupstað, Einar Jón Geirsson, Kristján Sturluson og Sigríði Huld Skúladóttur frá Dalabyggð, Lilju Björgu Ágústsdóttur og Gunnlaug A. Júlíusson frá Borgarbyggð, Guðjón Jónasson og Björgvin Helgason frá Hvalfjarðarsveit, Ólaf Guðmundsson umferðaröryggissérfræðing og Hrein Haraldsson fyrrverandi vegamálastjóra, Kára Kárason frá Flugmálafélagi Íslands, Jón Kristján Sigurðsson, Ólaf Hauksson og Runólf Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Ísak Erni Kristinsson, Guðberg Reynisson og Þórólf Júlían Dagsson frá hópnum Stopp, hingað og ekki lengra, Elías Pétursson frá Langanesbyggð, Guðrúnu Vöku Steingrímsdóttur frá Bændasamtökum Íslands, Björk Grétarsdóttur, Engilbert Olgeirsson og Viðar Steinarsson frá Rangárþingi ytra, Magneu Huld Ingólfsdóttur, Sigurð Ólafsson og Björn Óla Hauksson frá Isavia, Berglindi Kristinsdóttur, Hjálmar Hallgrímsson, Kolbrúnu Jónu Pétursdóttur og Einar Jón Pálsson frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Fannar Jónasson frá Grindavíkurbæ, Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur og Birnu Björk Árnadóttur frá Skipulagsstofnun, Bergþóru Þorkelsdóttur, Guðmund Val Guðmundsson, Sigurð Áss Grétarsson, Hannes Má Sigurðsson, Jónas Snæbjörnsson og Valtý Þórisson frá Vegagerðinni, Írisi Róbertsdóttur frá Vestmannaeyjabæ, Eggert Sólberg Jónsson, Karín Ólu Eiríksdóttur, Friðrik Þór Sigurðsson og Hrafnhildi Unu Magnúsdóttur frá ungmennaráði Grindavíkurbæjar, Þórð Sveinsson frá Persónuvernd og Karl Björnsson og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Nefndinni bárust vel á annað þúsund umsagnir og erindi um 173. mál, samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033, og einnig um 172. mál, fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019– 2023. Listi yfir umsagnaraðila um bæði málin fylgir áliti þessu sem fylgiskjal.
    Tillögur til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019–2023 og um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 eru lagðar fram á grundvelli laga um samgönguáætlun, nr. 33/2008. Skv. 2. gr. laganna leggur ráðherra á a.m.k. þriggja ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun þar sem mörkuð skal stefna fyrir allar greinar samgangna næstu fimmtán árin. Skv. 3. gr. laganna skal gera aðgerðaáætlun fyrir fyrsta fimm ára tímabil hverrar samgönguáætlunar. Er þetta í fyrsta skipti sem samgönguáætlun verður til 15 ára og aðgerðaáætlun til 5 ára í kjölfar gildistöku laga um breytingu á ýmsum lögum til samræmingar á áætlunum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála, nr. 53/2018. Nú er í gildi ályktun Alþingis nr. 48/140, um samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022. 12. október 2016 var með ályktun Alþingis samþykkt fjögurra ára áætlun fyrir árin 2015–2018, nr. 65/145.
    Meiri hlutinn tekur heils hugar undir markmið samgönguáætlana, þ.e. markmið um að samgöngur séu greiðar, öruggar, hagkvæmar og umhverfislega sjálfbærar og markmið skýr um jákvæða byggðaþróun.

Vinna og áherslur nefndarinnar.
    Nefndin hefur tekið á móti fjölda gesta við meðferð málsins og hafa verið reifuð ýmis sjónarmið er varða samgönguáætlun. Gestir voru einróma í þeirri afstöðu að gera þyrfti átak í vegaframkvæmdum um allt land, viðhaldi og nýframkvæmdum á öllum flokkum vega. Uppsafnaður vandi væri mikill og brýnt að framkvæmdahraði yrði meiri en áætlað er í samgönguáætlun. Bent hefur verið á að Ísland er strjálbýlt og vegakerfið umfangsmikið miðað við fólksfjölda, og uppbygging þess hefur alla tíð verið á eftir nágrannalöndunum. Fjárfestingarþörfin í heild er á milli 350–400 milljarðar kr. Þá verður að líta til þess að fjöldi ferðamanna sem fer um landið hefur margfaldast síðustu árin og þróun atvinnulífsins hefur stóraukið þungaflutninga um vegi landsins með auknu álagi og sliti á vegum. Fjöldi ferðamanna á árinu 2017 var rúmar 2,2 milljónir samkvæmt upplýsingum Ferðamálastofu og hefur þeim heldur fjölgað 2018. Allur þessi fjöldi hefur gríðarleg áhrif á samgöngukerfið enda fara þá rúmar 2,5 milljónir manna um vegi landsins (2018). Atvinnusvæði eru orðin stærri og fólki sem býr í dreifbýli og vinnur í þéttbýli fer fjölgandi. Meiri hlutinn telur brýnt að brugðist verði hratt við þeim vanda sem safnast hefur upp síðustu ár og unnið verði markvisst að því að bæta vegakerfið og samgöngur eins hratt og kostur er með tilliti til hagkvæmni, markmiða í loftslagsmálum, jafnræðis og öryggissjónarmiða. Mikilvægt er að leita leiða til að flýta brýnustu samgöngubótum sem mest. Bent var á að samkvæmt hagvaxtarspá Hagstofu Íslands dregur úr hagvexti strax á þessu ári, úr 3,8% í 2,5%. Þar með losnar um framleiðsluþætti í hagkerfinu og mun þess strax farið að gæta, t.d. hjá verkfræðistofum og verktökum. Nú eru því að skapast kjöraðstæður til að fara í innviðauppbyggingu. Með henni verður byggt undir framfarir í samfélags- og efnahagsmálum í landinu.
    Meiri hlutinn leggur sérstaka áherslu á að ýmsar tillögur í samgönguáætluninni og einnig breytingar á fjármögnunarleiðum tengdum henni eru mikilvægar í skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum og liður í orkuskiptum. Styttri ökuleiðir, betri vegir, greiðari akstur með minni orkueyðslu, aukið farþegaflug með sparneytnum flugvélum innan lands á löngum eða örðugum leiðum, styrkar almenningssamgöngur og fleiri framfarir stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda. Enn fremur ber að minna á að tekjur ríkisins af olíu- og bensíngjaldi minnka með aukinni umferð ökutækja án jarðefnaeldsneytis um leið og fjárþörf til samgöngubóta eykst. Meiri hlutinn telur að með hóflegum veggjöldum sem flýta úrbótum í samgöngum væri komið til móts við fjárþörfina næstkomandi ár án þess að hvatning til orkuskipta í samgöngum minnki; þvert á móti. Meiri hlutinn leggur áherslu á að við endurskoðun almennu gjaldanna, þ.e. olíu- og bensíngjalds og bifreiðaskatts, þarf að tryggja að sértæk gjaldtaka eins og veggjöld auki ekki álögur á bifreiðaeigendur, umfram ábata af greiðara og öruggara umferðarflæði og bættu umhverfi. Þannig er ýtt undir orkuskipti í bráð og lengd. Einnig bendir meiri hlutinn á að fyrirkomulag almennra gjalda af umferð þarfnast heildarendurskoðunar þegar fram í sækir og orkuskiptum hefur fleygt fram. Er sú vinna þegar hafin á vegum stjórnvalda.

Fjármögnun vegaframkvæmda – gjaldtaka.
    Samgönguáætlun er nú lögð fram fullfjármögnuð í samræmi við samþykkta fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ljóst er að samgönguáætlun eru ætlaðir afmarkaðir fjármunir eða 190 milljarðar kr., þar af 160 milljarðar kr. í viðhald og vegaframkvæmdir á næstu fimm árum og taka framkvæmdir og framkvæmdahraði mið af því. Mikilvægt er að finna leiðir til að hraða framkvæmdum. Samhliða vinnu við samgönguáætlun skipaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þrjá starfshópa á mismunandi stigum vinnunnar. Þeim var ætlað að fjalla um þær áskoranir sem eru uppi í samgöngumálum og koma með tillögur að lausnum. Vinna starfshópanna hefur verið kynnt nefndinni og einnig hafa áskoranirnar og lausnir verið ræddar fyrir nefndinni. Með hliðsjón af framansögðu leggur meiri hlutinn til breytingu á markmiði 5. tölul. í kafla 4.3 í fimm ára samgönguáætlun á þá leið að þar komi fram með skýrum hætti að unnið skuli að útfærslu nýrra fjármögnunarleiða og nauðsynlegri frumvarpsgerð á yfirstandandi ári með það að markmiði að flýta framkvæmdum á áætluninni og skapa fjárhagslegt rými fyrir nýjar framkvæmdir. Lykilatriði þar, að mati meiri hlutans, er sú ætlan að jafnt lántaka sem innheimta veggjalda verði á forræði hins opinbera. Vegagerðin hefði eftir sem áður umsjón með framkvæmdum í vegakerfinu og þær yrðu hluti af samgönguáætlun. Mikilvægt er að tryggja skilvirkni og gagnsæi í því kerfi sem komið verður á.
    Þá beinir meiri hlutinn því til ráðherra að tryggja að tilteknar framkvæmdir verði fjármagnaðar með sértækri gjaldtöku sem ráðherra útfæri í samræmi við áherslur meiri hlutans. Meiri hluti gesta sem komu fyrir nefndina tók vel í hugmyndir um gjaldtöku á vegum og samgöngumannvirkjum ef slíkt gæti hraðað framkvæmdum og gjöld væru hófleg og tilgangur þeirra skýr. Meiri hlutinn leggur jafnframt áherslu á að gjaldtöku verði hagað á þann veg að jafnræðis sé gætt milli landsmanna og þeir gestir sem koma til landsins taki þátt í uppbyggingu samgöngukerfisins sem þeir njóta á meðan á dvöl þeirra stendur, hvort sem er akandi á einkabílum, bílaleigubílum eða langferðabílum, og þá umfram almenn gjöld af akstri. Með breyttri fjármögnun í samgöngum, bæði á vegum og flugi, skapast svigrúm til að flýta framkvæmdum, auka notkunarmöguleika samgangna, stuðla að stórauknu öryggi í samgöngum og taka jákvæð skref í loftslagsmálum.

Veggjald í samfélagsþágu.
    Umræða um veggjöld eða sérstök notendagjöld sem viðbót við almenna skattlagningu á umferð til að ráðast í eða flýta framkvæmdum er ekki ný af nálinni á Íslandi. Má í því sambandi benda á þá miklu og augljósu samgöngubót sem varð með tilkomu Hvalfjarðarganga en gjaldtökuleiðin var forsenda þess að hægt var að ráðast í þá framkvæmd á sínum tíma. Göngin hafa nú verið greidd upp að fullu og þeim skilað til ríkisins og líkanið, í þessu tilviki með stofnun sérstaks sjálfstæðs félags, gengið upp og sannað gildi sitt. Þá er gjaldtaka hafin í Vaðlaheiðargöngum og er hún sömuleiðis forsenda þess að sú framkvæmd komst í gagnið. Á árunum 2009 og framan af ári 2010 voru uppi hugmyndir um að flýta framkvæmdum við meginumferðaræðar til og frá höfuðborgarsvæðinu með gjaldtöku og var þá bæði horft til brýnnar þarfar og þjóðhagslegs ávinnings af því að halda uppi framkvæmdastiginu í landinu og sporna við atvinnuleysi á erfiðustu árunum eftir hrun.
    Þörf fyrir breytt fyrirkomulag skattlagningar eða gjaldtöku af umferð hefur einnig legið fyrir um árabil. Allt frá því að hafist var handa við að hvetja til notkunar umhverfisvænna orkugjafa með skattaívilnunum, þ.e. að fella niður eða lækka aðflutningsgjöld af umhverfisvænum bílum og gera koltvísýringslosun að andlagi bæði aðflutningsgjalda og bifreiðagjalda, hefur ný framtíð blasað við í þeim efnum. Eftir því sem bílar knúnir rafmagni, metangasi, vetni eða öðrum vistvænum orkugjöfum verða æ stærri hluti bílaflotans eykst þörf fyrir nýja nálgun varðandi tekjuöflun (almenn gjöld) í þágu uppbyggingar og reksturs vegakerfisins. Samkvæmt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum eru orkuskipti í vegasamgöngum tiltekin sem annað af tveimur mikilvægustu verkefnunum í að ná markmiði stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2040. Því er stefnt að því að hraða eins og kostur er orkuskiptum í samgöngum og hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis. Þá verður ekki lengur undan því vikist að takast á við að afla tekna til viðbótar almennum gjöldum með nýjum hætti; ákvarða notkunargjöld eftir því sem eldra fyrirkomulag skilar minni tekjum til samgöngumála og málaflokka sem þeim tengjast. Tekjur af sköttum af jarðefnaeldsneyti falla vonandi hratt á næstu árum. Þá geta notendagjöld af tilteknum, brýnum framkvæmdum (sérgjöld) sem stytta leiðir, draga úr orkunotkun og sliti ökutækja, auk þess að auka umferðaröryggi, vegið þar nokkuð upp á móti. Þær framkvæmdir eru jákvæðar í andófi gegn og aðlögun að hlýnandi loftslagi. Meiri hlutinn ítrekar þó að nauðsyn er að ráðast sem fyrst í heildarendurskoðun almennrar gjaldtöku af umferð enda stefnt að því að hætta innheimtu sértækra gjalda þegar framkvæmdir hafa verið greiddar upp.
    Samkvæmt þingmálaskrá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra er áætlað að leggja fram frumvarp til laga um gjaldtöku í samgöngum í marsmánuði 2019. Frumvarpinu er ætlað að fylgja eftir stefnu um framtíðarfjármögnun vegakerfisins sem unnin var af starfshópi ráðherra um fjármögnun samgöngukerfisins. Meiri hlutinn telur mikil tækifæri felast í hugmyndum um veggjöld en með þeim megi auka og flýta samgönguframkvæmdum til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Nánari útfærslur byggjast á því að viðbótarfjármögnun með veggjöldum nái fram að ganga og samkomulag náist fljótlega milli ríkis og sveitarfélaga um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Útfærslurnar, þ.m.t. upphæðir veggjalda, verða unnar eftir samþykkt samgönguáætlunar og með hliðsjón af grunnhugmyndum um frekari fjáröflunarleiðir sem starfshópar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra leggja fram, m.a. í samvinnu við sveitarfélög.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að gætt verði meðalhófs við ákvörðun fjárhæðar gjalds og þess gætt í hvívetna að fjárhæð veggjalds verði ekki hærri en svo að notanda verði tryggður ávinningur af nýrri framkvæmd þrátt fyrir veggjald. Þá verði litið til sjónarmiða um magnafslætti, þ.e. að þeir sem nota vegina mikið njóti afsláttarkjara eins og tíðkast hefur til að mynda í Hvalfjarðargöngum en einskiptisgjöld séu hærri. Gjaldtakan skal einnig vera rafræn og án óþæginda og tafa fyrir umferð. Meiri hlutinn leggur sérstaka áherslu á að gætt verði að persónuverndarsjónarmiðum í hvívetna við útfærslu á innheimtu veggjalda. Verði að einhverju leyti stuðst við myndavélaeftirlit telur meiri hlutinn rétt að ráðuneytið hafi samráð við Persónuvernd við útfærslu slíks kerfis. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra haldi umhverfis- og samgöngunefnd upplýstri um vinnslu frumvarps til útfærslu veggjalda.

Vegaframkvæmdir fjármagnaðar með gjaldtöku.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að gjaldtöku verði háttað með eftirfarandi hætti:
     1.      Á þremur meginstofnæðum, þ.e. Reykjanesbraut að Keflavíkurflugvelli, Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi, út frá höfuðborgarsvæðinu. Markmið gjaldtöku á þessum leiðum er að flýta framkvæmdum eins og skipulag og undirbúningur leyfa og gera stofnæðarnar enn betur úr garði en núverandi áætlanir gera ráð fyrir, með mislægum gatnamótum og lengri 2+2 köflum. Til að hefja framkvæmdir þarf að tryggja hagstæða lántöku sem greidd verður með veggjöldum. Innheimtu þeirra verði hætt um leið og lánið verður greitt upp að fullu.
     2.      Skoðað verði með jafnræði fyrir augum hvort ákveðnar leiðir á landsbyggðinni sem stytta vegalengdir verði fjármagnaðar með blandaðri fjármögnun; að hluta til með fjárframlögum af samgönguáætlun og að hluta til með lántöku sem verði greidd upp með gjaldtöku. Gjaldtöku verði hætt þegar lán verður greitt upp. Dæmi um framkvæmdir sem fallið gætu í þennan flokk eru hringvegur um Hornafjarðarfljót og Axarvegur.
     3.      Innheimta megi veggjald í jarðgöngum á Íslandi samkvæmt nánari útfærslu, með undantekningum þar sem svo er ákveðið. Gjaldtöku í jarðgöngum verði ætlað að standa undir þjónustu og rekstri jarðganga, sem er hærri fjárhæð en á samsvarandi löngum stofnvegakafla, og einnig hlut í nýbyggingum. Gjaldtakan verði liður í nýrri jarðgangaáætlun sem væri hluti af samgönguáætlun með það að markmiði að ekki verði hlé á uppbyggingu jarðganga. Í þeirri áætlun verði jafnframt tilgreint hvaða jarðgöng falla undir gjaldtöku og í hversu langan tíma.
    Þær vegaframkvæmdir sem meiri hlutinn leggur til að verði fjármagnaðar með gjaldtöku samkvæmt lið 1 koma fram í eftirfarandi töflu. Gjaldtaka yrði, eftir útfærslu, sennilega þannig að á hverri leið fyrir sig er greitt gjald en ekki á hverjum legg leiðanna. Upphæðir í töflunni eru áætlaðar miðað við ýtrustu öryggiskröfur.
Suðursvæði I
Vegnr. Vegheiti Lengd kafla [km]

Kostnaður millj. kr.

Kaflanr. Kaflaheiti
1 Hringvegur
d2–d5     Norðaustan Selfoss, brú á Ölfusá 5 5.500
d6– d8 Biskupstungnabraut–Kambar 11,9 10.000
d2 Skeiðavegamót–Selfoss 13 2.600
39 Þrengslavegur
um Skógarhlíðarbrekku, breikkun
5 1.000
Suðursvæði II (Reykjavík og Suðvestursvæði)
1 Hringvegur
e1–e2 Fossvellir–Bæjarháls 10,6 4.700
f5–f6 Um Kjalarnes 11 4.200
41 Reykjanesbraut
04– 11 Holtavegur–Stekkjarbakki 3 2.000
12 Gatnamót við Bústaðaveg 0,5 1.000
13 Álftanesvegur–Lækjargata 2,5 9.000
14 Kaldárselsvegur–Krýsuvíkurvegur 3,3 2.400
15 Krýsuvíkurvegur–Hvassahraun 5,5 3.000
43 Grindavíkurvegur
01 Reykjanesbraut–Grindavík 6 1.000
19– 22 Fitjar–Flugstöð 4 3.500
413 Breiðholtsbraut
01 Hringvegur–Jaðarsel 3 1.200
Vestursvæði
1 Hringvegur
g1– g5 Akrafjallsvegur–Borgarnes
30

6.000

57.100
    
    Ekki er gert ráð fyrir að fjárframlög ríkissjóðs til samgönguframkvæmda lækki vegna gjaldtökunnar. Rétt er að taka fram að verði ríkiseignir seldar er mikilvægt að það svigrúm til samgöngubóta sem myndast nýtist einnig til uppbyggingar innviða, enda þörfin brýn. Með fjölbreyttari fjármögnunarmöguleikum verður til svigrúm til að flýta öðrum samgöngubótum, þ.e. færa framkvæmdir í tímabilum samgönguáætlunar 2019–2033 framar en þær eru. Meiri hlutinn leggur áherslu á að það svigrúm sem myndast verði nýtt til að flýta tilteknum framkvæmdum í samræmi við markmið samgönguáætlunar og til að auka fé til viðhalds og framkvæmda á tengivegum og styrkvegum.

Ýmsir vegir á vegáætlun.
    Eins og áður sagði leggur meiri hlutinn til að svigrúm sem myndast í samgönguáætlun næstu ára með fjármögnun stórra framkvæmda með veggjöldum verði m.a. notað til að auka heildarframlög til tengivega og styrkvega. Meiri hlutinn leggur til breytingartillögu þess efnis að 10 millj. kr. færist frá héraðsvegum yfir á styrkvegi árin 2019 og 2020. Þess utan verði bætt við 40 millj. kr. í styrkvegi þau ár. Sú fjárveiting kemur af viðhaldsfé. Ráðstöfun þessa fjármagns verði unnin í nánu samráði við sveitarfélögin á hverju svæði. Við ráðstöfun þeirra sjóða sem nú þegar eru í áætlun og þessa svigrúms beinir meiri hlutinn því til Vegagerðarinnar að áhersla verði lögð á leiðir þar sem íbúar, þ.m.t. börn, eiga daglega leið um til vinnu og skóla. Þá verði einnig lögð áhersla á vegi er tengjast ferðamannaleiðum inn á hálendið. Fyrir nefndinni var lögð áhersla á verkefni í öllum landshlutum. Þeirra á meðal má helst nefna Skógarstrandarveg, Laxárdalsveg, Vatnsnesveg, Jökuldalsveg, Gilsá–Arnórsstaðamúla, breytta legu vegar við Hrafnagil í Eyjafirði, Garðskagaveg, Garður–Sandgerði, Þingvallaveg, Skógarhóla, veg um Borgarnes og Innstrandaveg. Meiri hlutinn bendir á að það kann að vera þörf á að bæta umferðartalningu á þessum vegum þar sem breytt hegðun ferðamanna getur breytt umferðarþunga hlutfallslega mikið á stuttum tíma. Þá leggur meiri hlutinn til að flýtt verði sérstaklega framkvæmdum í þágu tveggja jaðarsvæða, þ.e. Árneshrepps á Ströndum og Langanesbyggðar á Norðausturhorninu, með vegi um Veiðileysuháls annars vegar og endurbætur á vegi um Langanesströnd ásamt uppbyggingu vegar um Brekknaheiði hins vegar.
    Samkvæmt samþykktu frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2019 er hagræðingarkrafa á málaflokkinn 11 Samgöngu- og fjarskiptamál 535,5 millj. kr., þar af 400 millj. kr. vegna framkvæmda á vegakerfinu. Um áramótin var 300 millj. kr. fjárveiting ársins 2018 til vegar um Gufudalssveit ónotuð. Stefnt er að því að nota hana til framkvæmda á yfirstandandi ári. Meiri hlutinn leggur því til að fjárveiting til vegagerðar um Gufudalssveit verði lækkuð um 400 millj. kr. á árinu 2019 til þess að mæta hagræðingarkröfu fjárlaga og leggur þess í stað til fjárveitingu á árinu 2023 þannig að ekki þurfi að koma til seinkunar verkloka. Enn ríkir óvissa um hvort og hvenær sveitarfélagið veitir framkvæmdaleyfi til að hefjast handa við vegagerð og leggur meiri hlutinn áherslu á að allra leiða verði leitað til að framkvæmdir geti hafist sem fyrst.
    Í ár stendur til að skilja akstursstefnur á Grindavíkurvegi. Kostnaðaráætlun vegna þess verkefnis hefur hækkað og til að unnt sé að tryggja að framkvæmdir geti hafist þarf að hækka fjárveitingu til verksins úr 500 millj. kr. í 700 millj. kr. Þeir fjármunir eru fluttir af fjárveitingu til framkvæmda á Hringvegi um Kjalarnes. Verkhönnun og samningum við landeigendur vegna þess verkefnis er ólokið og því ljóst að ekki verður hægt að fara í það fyrr en í fyrsta lagi seint á árinu 2019. Lækkun fjárveitingar um 200 millj. kr. ætti því ekki að hafa áhrif á framvindu verksins eða seinka því enda er gert ráð fyrir gjaldtöku á þeirri leið, sbr. töflu í kafla um vegaframkvæmdir fjármagnaðar með gjaldtöku.
    Vegna niðurrifs Sementsverksmiðju ríkisins eru breyttar aðstæður á Faxabraut á Akranesi sem er skilgreind sem stofnvegur. Sjór gengur yfir veginn og hamlar uppbyggingu á svæðinu þar sem íbúðarbyggð er fyrirhuguð. Fjárþörf til sjóvarna og vegagerðar er um 550 millj. kr. Meiri hlutinn leggur til að 200 millj. kr. verði varið til sjóvarna á svæðinu á árunum 2019 og 2020, þ.e. 100 millj. kr. hvort ár, og farið verði í aðrar framkvæmdir við veginn í kjölfar aukins svigrúms á árunum 2021 og 2022. Brýnt er að ljúka verkinu sem allra fyrst. Fjármunir til framkvæmdarinnar eru fluttir af fjárveitingu til Vestfjarðavegar um Gufudalssveit á árunum 2019 og 2020 en fyrir liggur að framkvæmdir við lagningu vegarins geta fyrst hafist árið 2020.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að framkvæmdum við Arnarnesveg verði hraðað eins og mögulegt er þannig að framkvæmdir geti hafist um leið og skipulagi og hönnun verður lokið. Fjármögnun vegarins tengist þó bæði svigrúminu sem myndast vegna sérstakrar fjármögnunar stórra framkvæmda og samningum um forgangsröðun framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu.
    Í samgönguáætlun eru áætlaðar 450 millj. kr. til vegar um Gatnabrún. Meiri hlutinn leggur áherslu á að þeir fjármunir verði nýttir til umferðaröryggisráðstafana í þéttbýlinu í Vík og við Gatnabrún, auk vinnu við rannsóknir, umhverfismat og annan undirbúning framtíðarlegu láglendisvegar í Mýrdal.
    Ríkisstjórnin samþykkti 23. nóvember sl. tillögur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um eflingu byggðar við Bakkaflóa. Tillögurnar voru settar fram í skýrslu nefndar sem ráðherra skipaði til að fjalla um málefni byggðarinnar. Þar á meðal er eindregið lagt til að lagning bundins slitlags á Langanesströnd hefjist á árinu 2019 og að verkinu ljúki eigi síðar en 2021. Í beinu framhaldi verði hafist handa við vegagerð um Brekknaheiði sem er á samgönguáætlun. Meiri hlutinn áréttar að lokið verði við veg um Langanesströnd á næstu 2–3 árum af tengivegafé. Framkvæmdir við Brekknaheiði hefjist árið 2023 og ljúki á öðru tímabili samkvæmt samgönguáætlun.
    Fyrir nefndinni kom fram nauðsyn þess að viðhalda vegum sem nýttir eru til akstursíþrótta. Meiri hlutinn telur æskilegt að akstursíþróttafélög eigi í samstarfi við viðkomandi sveitarfélög og Vegagerðina eftir því sem við á um afnot og viðhald vega.

Samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
    Í lok nóvember sl. kom út skýrsla um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til 2033. Skýrslan var unnin af verkefnishópi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í samráði við stýrihóp um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Í skýrslunni er lögð áhersla á að til þess að draga úr umferðarteppum þurfi að bæta flæði umferðar á vissum gatnamótum og breyta ferðavenjum. Í skýrslunni kemur fram að verði ekki breyting á ferðavenjum til 2030 muni umferð bíla aukast um 40% en með breyttum ferðavenjum um 24%. Breyttar ferðavenjur felast í því að fleiri nýti sér almenningssamgöngur eða verði hjólandi eða gangandi. Þá er horft til þess í skýrslunni að ef Ísland á að geta mætt alþjóðlegum og innlendum skuldbindingum sínum um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda þarf að breyta ferðavenjum.
    Í skýrslunni er horft til allra samgöngumáta á höfuðborgarsvæðinu og tenginga við höfuðborgarsvæðið í heild sinni. Verkefnishópurinn leggur áherslu á að uppbygging hágæða almenningssamgangna verði framar í forgangsröð samgönguáætlunar, hugað verði sérstaklega að greiðu og öruggu flæði einka- og þungaumferðar á meginstofnvegum höfuðborgarsvæðisins og uppbyggingu göngu- og hjólastíga. Í vinnu sinni hefur nefndin rætt mikilvægi eflingar samgönguása á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. fyrrgreindra þriggja stofnleiða í samgöngum. Þá minnir meiri hlutinn á að stuðst verði við uppfært umferðarlíkan af höfuðborgarsvæðinu til að tryggja sem mestan árangur við uppbyggingu samgöngumannvirkja þess.

Almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
    Í skýrslunni kemur fram að Borgarlínan er lykilþáttur í því að gera almenningssamgöngur að raunverulegum valkosti innan höfuðborgarsvæðisins. Í skýrslunni er Borgarlína skilgreind sem hágæða almenningssamgöngukerfi í sérrými. Á fundi nefndarinnar kom fram að um væri að ræða strætisvagna sem gætu tekið allt að 160 manns. Gert væri ráð fyrir að þeir væru í sérrými eða á sérstökum akreinum en þar með skerðir Borgarlínan ekki afkastagetu stofnveganna sem er mikilvægt með hliðsjón af fyrrnefndri áætlaðri aukningu umferðar bíla um 24%. Borgarlínan verði aðgreind frá annarri umferð, ýmist með vegriði eða með lituðu malbiki. Þá hefði umferð vagnanna forgang á gatnamótum og gert ráð fyrir hárri tíðni ferða. Sérstakar biðstöðvar verði byggðar og upplýsingar verði í rauntíma á biðstöðvum og í vögnum. Í áðurnefndri skýrslu leggur verkefnishópurinn áherslu á að uppbygging stofnleiða fyrir samgöngur á höfuðborgarsvæðinu verði framar í forgangsröð samgönguáætlunar auk þess sem lögð er áhersla á mikilvægi þess að á meginstofnvegunum Reykjanesbraut frá Sundabraut til Suðurnesja og Vesturlandsvegi frá Reykjanesbraut og norður úr ásamt Suðurlandsvegi frá Vesturlandsvegi og austur úr sé sérstaklega hugað að greiðu og öruggu flæði einka- og þungaumferðar. Í viljayfirlýsingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og sveitarfélaga frá því í lok september kom fram að á grundvelli skýrslunnar yrðu gerðar tillögur að breytingum á samgönguáætlun. Meiri hlutinn tekur undir þau meginsjónarmið sem koma fram í skýrslunni. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að almenningssamgöngur verði byggðar upp hratt á þeim svæðum þar sem ódýrt íbúðarhúsnæði er til staðar eða uppbygging er fyrirhuguð á næstunni innan og utan höfuðborgarsvæðisins.

Fjármögnun og framkvæmdir við Borgarlínu.
    Komið hefur fram að ríkisstjórnin hefur lýst sig reiðubúna til að fjármagna allt að 50% áætlaðs kostnaðar við uppbyggingu innviða Borgarlínu. Í skýrslu verkefnishópsins er gert ráð fyrir að heildarkostnaður við framkvæmdirnar muni nema um 5,5 milljörðum kr. árlega á árunum 2021–2023. Miðað við 50% þátttöku í kostnaði yrði því hlutur ríkisins í þeim framkvæmdum 2,75 milljarðar kr. á ári á tímabilinu. Í samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 er gert ráð fyrir Borgarlínu en engu fjármagni úthlutað enda var vinnu verkefnishópsins ekki lokið við framlagningu samgönguáætlana á Alþingi og til þess horft að samgönguáætlun verði endurskoðuð haustið 2019. Þá liggi jafnframt fyrir samkomulag ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um fjármögnun, samstarf og markmið. Taka verður skýrt fram að tilteknar framkvæmdir í áætluninni eru í raun hluti af uppbyggingu Borgarlínu og stofnleiða á höfuðborgarsvæðinu. Þeim er unnt að flýta með veggjöldum á stofnleiðum sem beina umferð inn á höfuðborgarsvæðið og liggja innan þess.
    Í skýrslu verkefnishópsins er gerð tillaga um að gert verði ráð fyrir 300 millj. kr. framlagi til uppbyggingar innviða Borgarlínu árið 2019 og 500 millj. kr. árið 2020. Meiri hlutinn telur afar mikilvægt að framkvæmdir við uppbyggingu hefjist sem allra fyrst enda er um að ræða lykilverkefni í því markmiði stjórnvalda að efla almenningssamgöngur sem og að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Leggur því meiri hlutinn til breytingu á fimm ára samgönguáætlun sem ætlað er að tryggja að hafist verði handa þegar á þessu ári við uppbyggingu innviða hágæða almenningssamgangna í náinni samvinnu ríkisins og allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Meiri hlutinn áréttar að framlagið er háð því skilyrði að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu leggi til 800 millj. kr. til verkefnisins. Lagt er til að liðurinn verði á árunum 2019–2020 fjármagnaður af viðhaldsfé Vegagerðarinnar sem lækkar samsvarandi en að fjármögnun á árunum 2021–2023 verði í samræmi við niðurstöðu viðræðna milli ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
    Í skýrslunni leggur verkefnishópurinn til að leitað verði nýrra leiða til að afla fjármagns til framkvæmda við endurgerð almenningssamgangnanna. Nefnd hafa verið stokkagjöld eða svæðisgjöld í því sambandi, líkt og innheimt eru í Noregi. Leggur meiri hlutinn áherslu á að ríkið og sveitarfélög komist að niðurstöðu í þeirri vinnu sem fyrst og niðurstaðan rími við frumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um gjaldtöku í samgöngum.
    Áfram verður unnið að þróun núverandi almenningsvagnakerfis og er miðað við að það muni snúast að hluta um að koma farþegum að og frá Borgarlínu og þjóna einstökum hverfum sveitarfélaganna. Þá er horft til þess að Strætó geti að einhverju marki nýtt innviði Borgarlínu til að bæta ferðatíma, áreiðanleika og þjónustu. Meiri hlutinn bendir á að nauðsynlegt er að unnið sé að eflingu strætisvagnakerfisins samhliða áformum um uppbyggingu Borgarlínu. Framkvæmdir við uppbyggingu Borgarlínu taka tíma en þær komast fyrst á fullan skrið árið 2021 samkvæmt skýrslu verkefnishópsins, og eru áfangaskiptar. Þá bendir meiri hlutinn á að það færist í aukana að fólk búi í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og sæki vinnu eða skóla til borgarinnar. Í því ljósi leggur meiri hlutinn sérstaka áherslu á tengingar vagnakerfisins og Borgarlínu við almenningssamgöngur á landsbyggðinni, jafnt á landi, í legi sem lofti.
    Í gildi er samningur við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu og rekstur almenningssamgangna og markvissar stuðningsaðgerðir í tilraunaverkefni til 10 ára. Í samningnum er kveðið á um frestun umfangsmikilla vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu en hann gildir til ársins 2022. Í ljósi þess að nú er lagt til að hefja á ný umfangsmiklar vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu er ljóst að endurskoða þarf samninginn. Nýr samningur þarf að kveða á um úrbætur í núverandi almenningssamgöngum, kostnaðarhlutdeild ríkis og sveitarfélaga í uppbyggingu hágæða almenningssamgangna og úrbætur á stofnvegum og gerð hjóla- og göngustíga. Leggur meiri hlutinn því til að nýjum tölulið verði bætt við kafla 4.1 í fimm ára samgönguáætlun um markmið um greiðar samgöngur og nýjum tölulið þess efnis í kafla 2.1 í samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033. Þar komi fram að unnið verði að samningi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2033. Meiri hlutinn bendir á að einnig er mikil þörf á að bæta stofnstíga víða á landsbyggðinni. Lagt er til að fjármunir sem losna vegna nýrrar fjármögnunar verði nýttir til að leggja göngu- og hjólastíga bæði á höfuðborgarsvæðinu og í auknum mæli á landsbyggðinni.

Hjólreiðar.
    Bent hefur verið á að hjólreiðar hafa aukist mjög á örfáum árum og samkvæmt könnun á ferðavenjum haustið 2017 jókst hlutdeild hjólreiða úr 4% í 6% frá könnun 2014. Vísbendingar eru um að stígaframkvæmdir hafi skilað verulegum árangri í þá átt að stuðla að vexti hjólreiða. Í skýrslunni er gerð tillaga um að samhliða uppbyggingu Borgarlínu verði gert átak í stofnstígaframkvæmdum til að styrkja enn frekar núverandi samgöngustíga og uppbyggingu nýrra. Tillagan felur í sér að fjárveiting til verkefnisins verði 1,5 milljarðar kr. á árunum 2019–2023 en að fjárveitingunni verði mætt með lækkun á 2. og 3. tímabili 15 ára áætlunar. Meiri hlutinn telur mikilvægt að meginhluti þessarar fjárveitingar fari til stofnstígakerfis á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu. Meiri hlutinn bendir einnig á nauðsyn hjólastíga á landsbyggðinni. Uppbygging slíkra stíga er nauðsynleg með tilliti til umferðaröryggis og má þar t.d. horfa til þeirrar uppbyggingar sem átt hefur sér stað meðfram Grindavíkurvegi.

Almenningssamgöngur utan höfuðborgarsvæðisins.
    Á fundum nefndarinnar var töluvert rætt um almenningssamgöngur. Fram kom að miklir hnökrar hafa verið á framkvæmd almenningssamgangna milli og innan landshluta. Árið 2012 tókust samningar milli Vegagerðarinnar fyrir hönd ríkisins við landshlutasamtök sveitarfélaga á landsbyggðinni hvert um sig um að þau fengju þá fjármuni sem áður var ráðstafað í sérleyfi á svæðinu til þess að skipuleggja almenningssamgöngur í sínum landshluta. Verkefnið fór víðast hvar vel af stað og óx farþegafjöldi víða um tugi prósenta. Þó voru ýmsir hnökrar við reksturinn sem ráðuneytið vann að lausn á í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtökin. Árið 2017 fækkaði farþegum í almenningssamgöngum á landsbyggðinni og aftur árið 2018 sem leiddi til hallareksturs í kerfinu. Á því ári sögðu svo landshlutasamtökin upp öllum framangreindum samningum. Vegagerðin vann að framlengingu samninganna út árið 2019 og er því lokið. Samningar við landshlutasamtökin kveða á um að tryggja skuli hallalausan rekstur árið 2019 og að gengið verði frá uppsöfnuðum hallarekstri þegar nýtt fyrirkomulag tekur gildi.
    Á árinu 2018 var í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu unnið að mótun heildstæðrar stefnu í almenningssamgöngum sem næði til samgangna á landi, í lofti og á sjó. Liður í því er að móta fyrirkomulag fyrir almenningssamgöngur á landi til frambúðar. Samhliða hafa landshlutasamtökin kannað fýsileika þess að stofna eitt sameiginlegt félag til þess að halda utan um almenningssamgöngur í landshlutunum á einum stað. Reiknað er með að nýtt fyrirkomulag taki gildi um áramótin 2019–2020.
    Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) stendur nú utan við framangreint fyrirkomulag. Sveitarfélögin hófu málssókn á hendur ríkinu vegna samnings samtakanna við Vegagerðina og kröfðust skaðabóta vegna tekjumissis vegna afturköllunar á tilteknu ákvæði í samningum um Flugrútuna. Samtökin höfnuðu tilboði Vegagerðarinnar um að framlengja samninginn á sömu nótum og önnur landshlutasamtök um að tryggður yrði hallalaus rekstur 2019 og fundin leið til þess að losa samtökin undan uppsöfnuðum skuldum vegna rekstrarins. SSS kaus að halda málssókninni áfram og krefjast skaðabóta frá ríkinu. Uppsögn samnings Vegagerðarinnar og SSS tók því gildi og Vegagerðin tekið yfir ábyrgð á almenningssamgöngum á svæðinu út árið 2019. Að því loknu er brýnt að koma almenningssamgöngum í það horf sem sveitarfélögunum þykir hæfa.
    Meiri hlutinn telur brýnt að almenningssamgöngur séu fyrir hendi í öllum landshlutum, enda eru þær mikilvægar fyrir atvinnu- og námsskilyrði innan landshlutanna, og að þær séu raunhæfur valkostur fyrir íbúa og ferðamenn. Þar verði sérstaklega að horfa til tíðni ferða, fjárhæðar fargjalda og leiðakerfis. Í þessu efni verður einnig að horfa til aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum þar sem mikil áhersla er lögð á eflingu almenningssamgangna.
    Skýrt kom fram á fundum nefndarinnar hversu mikilvægt innanlandsflugið er fyrir Norðurland, Austurland og Vestfirði. Meiri hlutinn tekur því heils hugar undir það markmið samgönguáætlunar að íbúar landsbyggðarinnar eigi kost á að komast til höfuðborgarsvæðisins á um 3,5 klst. samþættum ferðatíma, akandi, með ferju og/eða í flugi.

Samskipti sveitarfélaga og Vegagerðarinnar.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að samráð Vegagerðarinnar við sveitarfélög væri ekki nægilega mikið og náið. Landshlutasamtök sveitarfélaga væru í mörgum tilvikum búin að sammælast um þau samgönguverkefni sem brýnust væru á svæðinu og móta sér sameiginlega stefnu þar um. Miðað við fyrirliggjandi samgönguáætlun hefði Vegagerðin töluvert aðra sýn á forgangsröðun verkefna í landshlutum án þess að fyrir því væru auðsjáanleg rök að mati sveitarfélaganna.
    Meiri hlutinn áréttar að brýnt er að Vegagerðin eigi í nánu sambandi við sveitarfélög um allt land. Það eru jafnan íbúar svæðisins sem búa yfir hve mestri þekkingu á staðnum og nota samgöngumannvirkin mest. Undirbúningur og vinnsla fyrirliggjandi samgönguáætlana hófst í ársbyrjun 2018 og var haft samráð við landshlutasamtök sveitarfélaga og aðra hagaðila víðs vegar um landið. Á fundum með samgönguráði kynntu landshlutasamtökin samþykktir sínar og settu fram sjónarmið sín um áherslur í samgöngumálum. Við gerð samgönguáætlunar þarf þó alltaf að horfa til öryggissjónarmiða og getur það í sumum tilvikum leitt til þess að forgangsröðun á svæðinu verður önnur en landshlutasamtök sveitarfélaga á svæðinu hafa lagt til. Meiri hlutinn ítrekar mikilvægi náins samráðs milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaga og telur æskilegt að Vegagerðin myndi fastmótaða ferla fyrir samráð við sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra svo að það verði markvisst og nýtist sem best. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að samráð verði haft við sveitarfélög varðandi kröfur í útboðslýsingum, t.d. fyrir vegþjónustu og dýpkunarframkvæmdir við hafnir.

Umferðaröryggi skiptir sköpum.
    Að mati meiri hlutans er ástæða til að árétta mikilvægi þess að unnið verði að umferðaröryggismálum. Á árinu 2017 létust 13 einstaklingar í umferðarslysum og 189 slösuðust alvarlega en banaslys 2018 voru 15 talsins. Árið 2016 létust 18 einstaklingar og 215 slösuðust alvarlega. Fjöldi slasaðra og látinna á ári hverju vegna umferðarslysa er því mikið áhyggjuefni. Árlegur samfélagslegur kostnaður af umferðarslysum er 40–60 milljarðar kr. og er því til mikils að vinna að auka umferðaröryggi eftir öllum leiðum.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um umferðaröryggi ungmenna, sér í lagi á hættulegum vegum. Um einstaklinga er að ræða sem eru að taka sín fyrstu skref í umferðinni og þurfa í mörgum tilfellum að aka um hættulega vegi til að sækja nám. Meiri hlutinn telur rétt að hugað verði sérstaklega að úrbótum á vegum og gatnamótum þar sem börn og ungmenni þurfa að fara um til að sækja skóla. Þá kom fram að efla þyrfti forvarnir og fræðslu til þeirra sem vegakerfið nota. Fræðsla barna færi vel af stað, t.d. með bókunum Krakkarnir í Kátugötu sem Samgöngustofa gefur út fyrir leikskólabörn, en fræðslu fyrir eldri börn væri ábótavant. Þá væri brýnt að auka fræðslu til erlendra ferðamanna sem eru óvanir að keyra í íslenskum aðstæðum. Mikil hætta stafaði af því að ferðamenn stöðva bíla sína í vegkanti og væri því nauðsynlegt að bæta við vegútskotum og merkja þau vel. Þá mætti skoða að gerðar verði lágmarkskröfur til erlendra ferðamanna varðandi aksturskunnáttu við töku bílaleigubíls. Einnig hefur komið fram sú gagnrýni að gallaðar vegmerkingar og ófullnægjandi umferðarmerki séu víða um land, sem kalla á úrbætur. Meiri hlutinn tekur heils hugar undir framangreind sjónarmið.
    Vetrarþjónusta á vegum er mikilvægur þáttur í umferðaröryggi. Nauðsynlegt er að halda vegum opnum og í ökufæru ástandi fyrir jafnt almenning sem atvinnulíf. Slík þjónusta er jafnframt forsenda fyrir tryggum flutningum á aðföngum yfir vetrartíma. Mikilvægt er að hafa samræmdar öryggisáætlanir allra samgöngugreina. Meiri hlutinn tekur undir áherslur sem lagðar eru fram í samgönguáætlun um umferðaröryggi og telur mikilvægt að forgangsröðun verkefna taki mið af öryggissjónarmiðum. Í því efni telur meiri hlutinn að horfa eigi til EuroRAP-verkefnisins (European Road Assessment Programme) sem Félag íslenskra bifreiðaeigenda er aðili að og sér um framkvæmd á hér á landi. Í verkefninu felst að vegir eru metnir með tilliti til umferðaröryggisþátta í umhverfi þeirra og þeim gefnar stjörnur eftir öryggi. Að mati meiri hlutans ber að stefna að því að sem flestir vegir hér á landi og þá sérstaklega þeir umferðarþyngstu fái góða öryggiseinkunn í EuroRAP-verkefninu og horfa beri til þess þegar vegir eru lagfærðir með tilliti til öryggisþátta að hættulegustu vegarkaflarnir séu þar teknir til skoðunar.

Flug innan og utan lands og flugvellir landsins.
    Á fundum nefndarinnar lýstu flugrekendur og aðrir hagsmunaaðilar yfir áhyggjum af flugöryggi í millilandaflugi í ljósi ört vaxandi flugumferðar og stöðu millilandaflugvalla landsins. Síðastliðinn áratug hefur umferð um Keflavíkurflugvöll aukist mikið og farþegaflugvélum í millilandaflugflota Íslendinga fjölgað hratt á undanförnum árum. Árið 2010 samanstóð flugfloti Icelandair og Iceland Express af 16 vélum. Samanlagður flugfloti Icelandair og Wow air árið 2018 var 55 farþegaflugvélar. Þar að auki hefur fjöldi erlendra flugfélaga sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli farið mjög vaxandi. Allt að 30 flugfélög hafa flogið til Íslands yfir sumarið og 15 yfir veturinn. Þá hefur frakt- og ferjuflug ásamt komu minni farþegaflugvéla í millilandaflugi aukist. Flugstarfsemin hefur margfaldast á tiltölulega fáum árum.
    Fyrir nefndinni kom fram að mikil uppbygging hefur átt sér stað á Keflavíkurflugvelli en aftur á móti var eftir hrun fjármálakerfisins dregið verulega úr framlögum til uppbyggingar á flugvöllum innan lands sem reknir eru samkvæmt þjónustusamningi við Isavia. Viðhald og nýframkvæmdir hafa setið á hakanum og lendingarstöðum hefur verið lokað. Á sama tíma og umferð farþegaflugvéla um Keflavíkurflugvöll hefur margfaldast hafa innviðir varaflugvallanna á Akureyri, í Reykjavík og á Egilsstöðum ekki verið byggðir upp. Því hafa aðrir millilandaflugvellir ekki þróast í takt við aukna flugumferð til og frá landinu. Lokist Keflavíkurflugvöllur á annatíma eru aðrir millilandaflugvellir vanbúnir til að takast á við slíkar aðstæður sem geta komið upp þegar margar flugvélar þurfa á varaflugvelli að halda á sama tíma. Við núverandi aðstæður verða flugstjórar því að tilkynna varaflugvöll í Evrópu til þess að uppfylla kröfur um flugöryggi á álagstíma Keflavíkurflugvallar. Því þurfa flugvélar á leið til landsins að bera mun meira eldsneyti en ella. Þetta leiðir til aukins kostnaðar fyrir flugrekendur og takmarkar burðargetu vélanna, og aukinna neikvæðra umhverfisáhrifa. Í umsögnum kemur fram að flugvellirnir á Akureyri og Egilsstöðum séu mikið notaðir sem varavellir í daglegu áætlunarflugi til og frá landinu og kallað er eftir verulegum úrbótum á aðstöðu í átt að bættu öryggi. Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur í skýrslum sínum minnt á að millilandaflug minni flugvéla þyrfti að vera heimilt inn á fleiri flugvelli miðað við flugleiðir þeirra að landinu. Meiri hlutinn telur brýnt að unnið verði skipulega að því að bæta net millilandaflugvalla á Íslandi til að tryggja að það hafi getu til að þjóna sem varaflugvellir fyrir vaxandi flugumferð til og frá landinu með fullnægjandi hætti. Leggur meiri hlutinn því til að nýjum tölulið verði bætt við kafla 4.2 í fimm ára samgönguáætlun þess efnis.

Samþætting í flugvallarekstri.
    Í ágúst 2017 skipaði þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra starfshóp sem var falið að setja fram tillögur að breyttu rekstrarformi flugvalla innan lands með það markmið að „ná fram hagkvæmari rekstri á innanlandsflugi og skilvirkari rekstri flugvalla sem skilar sér til neytenda“. Við stjórnarskipti í nóvember 2017 ákvað núverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að starfshópurinn héldi vinnu sinni áfram með áherslu á nýjan stjórnarsáttmála um að móta jafnframt tillögu um að gera innanlandsflugið að hagkvæmum kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar og að almenningssamgöngur verði áfram byggðar upp um land allt. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum í byrjun desember 2018. Ein af tillögum starfshópsins er að frá og með 1. janúar 2020 verði millilandaflugvellirnir Keflavíkurflugvöllur, Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur skilgreindir sem kerfi flugvalla með sameiginlegum kostnaðargrunni og Isavia falin fjárhagsleg ábyrgð á rekstri, viðhaldi og uppbyggingu þeirra. Með því geti Isavia lagt á og innheimt þjónustugjöld í samræmi við kostnað félagsins af rekstri kerfisins. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið skuli hefja viðræður við Isavia um breytingar á þjónustusamningi sem tekur tillit til hins nýja fyrirkomulags og þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar eru, svo sem að auka tekjustreymi flugvallakerfisins um leið og nauðsynlegu þjónustustigi er viðhaldið. Samhliða verði hafnar viðræður á milli samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins um mótun eigendastefnu Isavia eins og stjórnarsáttmálinn kveður á um. Í viðræðunum verði sett upp áætlun um uppbyggingu flugvallanna sem er til þess fallin að styrkja millilandaflug og öryggi þess fyrir landið í heild. Í vinnunni verði einnig farið yfir hvort og hvaða lögum þarf að breyta til þess að koma nýju fyrirkomulagi til leiðar. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur mikilvægt að innanlandsflugvellir verði efldir og leggur til að nýr töluliður bætist við kafla 4.3 í fimm ára samgönguáætlun þessu til samræmis. Meiri hlutinn beinir því til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að tryggja við endurskoðun samgönguáætlunar að nýtt fyrirkomulag rekstrar Reykjavíkurflugvallar, Akureyrarflugvallar og Egilsstaðaflugvallar leiði til þess að þeir fjármunir sem ætlaðir voru til viðhalds og endurnýjunar á þeim á árunum 2020–2023 færist til eflingar á innanlandsflugvallakerfinu og annarra flugvalla í grunnneti þar sem viðhald og endurnýjun er orðið aðkallandi, m.a. með hliðsjón af öryggissjónarmiðum. Meiri hlutinn telur einnig að uppbygging innanlandsflugvalla muni stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna um land allt. Með því verður flæði ferðamanna jafnara, bæði um landið og yfir árið. Þá hefur verið bent á að þjóðfélagslegur ábati af innanlandsflugvöllum sé mikill, einkum fyrir samfélög þar sem vegalengd í nauðsynlega þjónustu er með mesta móti. Einnig er innanlandsflug gríðarlega mikilvægt fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni, ekki síst vegna þess ferðatíma sem þannig sparast.

Áréttingar í málefnum flugsins.
    Meiri hlutinn áréttar nokkur atriði sem verði höfð að leiðarljósi við framangreinda vinnu. Það þolir enga bið að hefja vinnu við aukið flugöryggi með eflingu varaflugvallanna og því mikilvægt að ná áhrifum af breyttu fyrirkomulagi eins fljótt og auðið er á árinu 2019 þó að þjónustugjöld verði ekki innheimt fyrr en frá og með 1. janúar 2020. Jafnframt vill meiri hlutinn að minni vélum í millilandaflugi verði veitt heimild til að lenda á Hornafirði, í Vestmannaeyjum og á Ísafirði. Slíkt gæti hjálpað mikið til við dreifingu ferðamanna auk þess sem það minnkar álag á Keflavíkurflugvelli og eykur öryggi í flugi eins og rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur bent á í skýrslum sínum. Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki við mestallt sjúkraflug, sem miðstöð innanlandsflugs og sem varaflugvöllur í millilandaflugi. Fram kom fyrir nefndinni að 15–20 ár tæki að byggja upp nýjan flugvöll á öðrum stað, eins og lagt er til m.a. í skýrslum um málefnið. Meiri hlutinn leggur því áherslu á að Reykjavíkurflugvelli verði vel við haldið og hann byggður upp að því marki að hann sinni því hlutverki sem hann skipar á öruggan og viðunandi hátt, þar til sambærileg, fullbúin lausn finnst, flytjist flugvöllurinn úr Vatnsmýri. Það verður tryggt með hinu breytta fyrirkomulagi þar sem rekstur hans, viðhald og endurnýjun verður á ábyrgð Isavia enda gegnir hann mikilvægu hlutverki sem einn af varaflugvöllum landsins.
    Þjónustugjöld eru gjöld sem ætlað er að standa undir fyrir fram skilgreindum kostnaði og mega ekki vera umfram þann kostnað, í þessu tilfelli til að standa undir öflugu alþjóðaflugvallakerfi á Íslandi. Til að draga úr áhrifum á samkeppnishæfni Íslands í flugi og draga úr áhrifum á flugrekendur leggur meiri hlutinn áherslu á að allir möguleikar verði kannaðir við að skipta þjónustugjaldinu á alla notendur flugvallanna til að það megi verða sem lægst. Þar má nefna fraktflug, ferjuflug og einnig þá sem skrá flugvellina sem varaflugvelli í íslensku loftstjórnarrými. Í þessu efni verði jafnframt skoðað hvernig megi fá aukið fjármagn eða heimildir til ráðstöfunar á fjármagni til viðhalds og uppbyggingar millilandaflugvalla á Íslandi í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga Íslands. Í þeirri vinnu skal lögð áhersla á legu Íslands og aðra þætti sem gera flugsamgöngur erfiðar en jafnt nauðsynlegar borið saman við lönd á meginlandi Evrópu. Millilandaflugvellirnir skipa mikilvægt hlutverk, ekki síst með tilliti til flug- og almannaöryggis.
    Við endurskipulagningu og uppbyggingu flugvallakerfisins á Íslandi er mikilvægt að tekið sé mið af þörfum flugkennslu sem er mikilvægur þáttur í uppbyggingu flugsins í íslensku efnahagslífi.
    Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að hefja viðræður við Isavia um að finna leiðir innan þjónustusamnings til að bregðast við þörf á yfirborðsviðhaldi sem fyrirhugað var á árinu 2018 á flugvöllunum í Vestmannaeyjum og á Ísafirði ásamt því að finna leiðir til að greiða fyrir móttöku aukins fjölda farþega í millilandaflugi til Akureyrar.

Niðurgreiðsla flugfargjalda innan lands.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir m.a. að unnið verði að því að gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Meðalverð á fargjöldum hefur heldur hækkað og ljóst er að flest flugfargjöld eru of há til að flug sé raunhæfur valkostur í innanlandssamgöngum. Háu flugfargjöldin innan lands draga mjög úr getu almennings til að nýta sér flug sem ferðamáta og hefta um leið möguleika þeirra sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu til að nýta sér ýmiss konar þjónustu sem íbúar þurfa að sækja þangað, t.d. heilbrigðisþjónustu, grunnnám og símenntun. Þá virka þau hamlandi á hvers konar atvinnuuppbyggingu, þ.m.t. á ferðaþjónustuna. Til að flugið verði raunhæfur valkostur sem almenningssamgöngumáti þarf að koma til umtalsverð lækkun á fargjöldunum. Til þess þarf ríkið að grípa inn í með afgerandi hætti. Um tvær leiðir er að ræða, að ríkið ákvarði hámarksfargjald á flugleið eða ríkið niðurgreiði flugfargjöld á markaði.
    Eins og fram kemur í skýrslu um uppbyggingu flugvallakerfisins á Íslandi og eflingu innanlandsflugs hefur verið til skoðunar leið sem gengur út á að endurgreiða hluta flugfargjalda íbúa í afskekktari héruðum Skotlands í samræmi við reglur EES um ríkisstyrki. Þetta fyrirkomulag er einnig þekkt í öðrum EES-ríkjum. Ein af tillögum áðurnefnds starfshóps ráðherra um eflingu innanlandsflugs og rekstur flugvalla er að farmiðar íbúa með lögheimili á tilgreindum svæðum á landsbyggðinni verði niðurgreiddir. Skilgreind verði svæði landsins þar sem íbúar sem ferðast í einkaerindum njóta 50% niðurgreiðslu á flugfargjöldum til og frá svæðinu, þó að hámarki fjórar ferðir (8 leggir á ári) á hvern einstakling á meðan reynsla er að komast á kerfið. Lagt er til að við ákvörðun svæðisins verði miðað við 200–300 km akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu eftir aðstæðum á hverjum stað.
    Meiri hlutinn tekur undir tillögu starfshópsins og leggur til breytingu á kafla 4.5 um markmið um jákvæða byggðaþróun í samgönguáætlun til næstu fimm ára þess efnis að unnið verði að útfærslu þess að niðurgreiða flugfargjöld íbúa á landsbyggðinni og stefnt að því að nýtt fyrirkomulag taki gildi í ársbyrjun 2020 en á þessu ári á að fara í endurskipulagningu á framlögum til innanlandsflugs. Með breyttu rekstrarfyrirkomulagi innanlandsflugvallanna og framangreindri endurskipulagningu má ætla að hægt verði að fjármagna nýtt fyrirkomulag á hagkvæmari hátt fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Meiri hlutinn bendir á að með þessu verður greitt fyrir aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að þjónustu sem eingöngu er veitt á höfuðborgarsvæðinu. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að vanda þarf til verka við útfærslu tillögunnar, svo sem að taka tillit til umhverfisáhrifa og jafnvægis á milli samgöngumáta í almenningssamgöngum.
    Nefndin ræddi umhverfisáhrif af auknum farþegafjölda í innanlandsflugi. Í niðurstöðum félagshagfræðilegrar greiningar á innanlandsflugi frá 2013–2014 kom fram að loftslagslegur ávinningur af innanlandsflugi gagnvart vegasamgöngum var umtalsverður. Í skýrslu Umhverfisstofnunar um losunarbókhald Íslands kemur fram að árið 2016 var heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í innanlandsflugi 22,8 kílótonn. Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í vegasamgöngum það ár var 923 kílótonn. Samkvæmt samanburði sem unninn var á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins var losun á hvern farþega í innanlandsflugi með Fokker 50-flugvél álíka mikil eða minni á leiðinni Reykjavík–Akureyri og losun á hvern farþega í meðalfólksbíl, með einum til ríflega tveimur (2,7) mönnum. Nýrri Bombardier- vélar í innanlandsflugi eyða 30% minna eldsneyti en flestar aðrar sambærilegar flugvélar og er því þessi samanburður hagstæðari en áður var.

Sjóvarnir og hafnir.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að bæta við fjármögnun hafnarframkvæmda enda gegna þær lykilhlutverki í mörgum bæjarfélögum í tengslum við atvinnulíf og verðmætasköpun. Nefndin óskaði eftir upplýsingum frá Vegagerðinni hvort brýnt væri að fara í frekari framkvæmdir á höfnum. Fram kom að auka þurfi fjármagn til lengingar Norðurgarðs í Ólafsvík árin 2019 og 2020 en áætlaður heildarkostnaður verks hækki um tæpar 20 millj. kr. og fjárveiting hækki því um 3,5 millj. kr. árið 2019 og um 5,8 millj. kr. árið 2020. Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að þörf sé á að lengja garðinn um 80 m, en áætluð lenging samkvæmt fyrirliggjandi samgönguáætlun sé 60 m. Vegagerðin benti einnig á að þörf væri á auknu fjármagni til gerðar sandfangara við Einholtskletta á Hornafirði. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þessara framkvæmda og leggur til breytingartillögur við töflu 8 Hafnabótasjóður sem felur í sér tilfærslu frá óskiptri fjárveitingu Hafnabótasjóðs til viðkomandi framkvæmda. Þá leggur meiri hlutinn til breytingartillögu þess efnis að lenging Norðurgarðs í Ólafsvík verði 80 m.
    Bent var á að auka þurfi dýpið í innsiglingu hafnar í Þorlákshöfn yfir veturinn. Áætlað sé að dýpka þurfi um 60.000 rúmmetra árlega til að halda nauðsynlegu dýpi og til þess þurfi 41,3 millj. kr. á ári. Meiri hlutinn telur verkefnið afar brýnt og leggur til að nýr liður bætist við í töflu 8 Hafnabótasjóður. Nýi liðurinn kveði á um dýpkun í innsiglingu Þorlákshafnar. Hluti ríkissjóðs af verkefninu verður 60% eða 20 millj. kr. á árinu 2019. Fjárveiting til endurbyggingar Svartaskersbryggju á árinu 2019 lækkar sem þessu nemur. Meiri hlutinn leggur áherslu á að við endurskoðun samgönguáætlunar verði gert ráð fyrir árlegri viðhaldsdýpkun Þorlákshafnar og lúkningu endurbyggingar Svartaskersbryggju.
    Í fyrirliggjandi samgönguáætlun er gert ráð fyrir áframhaldandi vinnu að sjóvörnum á áætlunartímabilinu, en gert er ráð fyrir að framkvæmdaþörf aukist vegna hækkandi sjávarstöðu sem orsakast af hnattrænni hlýnun og jarðskorpuhreyfingum. Töluvert er um að sjóvarnir séu orðnar gamlar og þörf á endurbyggingu og styrkingu. Vegagerðin taldi rétt að bæta við verkefni í Hvalfjarðarsveit, sjóvörn við Belgsholt á árinu 2023. Kostnaður verði 14,5 millj. kr. en fjárveiting 12,7 millj. kr. sem ráðstafað er af liðnum óskipt til sjóvarna. Meiri hlutinn leggur til breytingu þess efnis við töflu 9 Sjóvarnir.
    Í fyrirliggjandi samgönguáætlun er gert ráð fyrir framkvæmdum við endurbótum á Landeyjahöfn. Framlögum er ætlað að standa undir kostnaði við rannsóknir, öryggismál, gerð óháðrar úttektar og framkvæmdum sem auðvelda eiga að halda nægu dýpi í höfninni. Þá er gert ráð fyrir að koma upp dælum og lögnum við hafnarmynnið til að dýpka yfir veturinn.
Nefndinni bárust frekari ábendingar um nauðsynlegar hafnarframkvæmdir víðs vegar um landið og áréttar mikilvægi þess að þeim verði flýtt eins og unnt er og endurskoðuð forgangsröðun verði gerð við undirbúning næstu samgönguáætlunar.
    Meiri hlutinn leggur sérstaka áherslu á að rafvæðingu helstu hafna landsins verði flýtt eins og kostur er, bæði með tilliti til umhverfis- og efnahagsmála og bendir á að ein aðgerðanna í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er „Orkuskipti í ferjum“. Þá er ljóst að tryggja verður að ferjur séu búnar með viðeigandi hætti, þ.e. rafgeymum og tengibúnaði þannig að unnt sé að hlaða þær rafmagni. Smíði Vestmannaeyjaferju er langt komin og mun hún ganga fyrir rafmagni. Viðbótarkostnaður vegna raftengingar ferjunnar nemur 800 millj. kr. Með vísan til umhverfissjónarmiða og áherslna í loftslagsmálum leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að veitt verði fjármagn í þessa mikilvægu framkvæmd. Til að mæta kostnaði við framkvæmdina lækkar fjárveiting til framkvæmda við Hringveg, Bæjarháls–Vesturlandsveg, um 400 millj. kr. og Skarhólabraut–Hafravatnsveg um 400 millj. kr. árið 2019. Því verður síðan mætt með auknum fjárveitingum á árunum 2020 og 2021.

Skipulagsmál og mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.
    Á fundum nefndarinnar voru skipulagsmál töluvert til umræðu. Nefndinni var bent á að lega Sundabrautar í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar væri þvert í gegnum farmsvæði Sundahafnar sem er megingátt vöruflutninga til og frá Íslandi. Skerðing á farmsvæðinu hefði til lengri tíma neikvæð áhrif á nýtingu svæðisins þar sem 4–6 hektarar lands yrðu ekki nýtilegir fyrir höfnina auk þess sem þverun svæðisins með vegamannvirki hefði áhrif á innri starfsemi þess. Sundabraut þvert í gegnum farmsvæði Sundahafnar hefði þannig veruleg og neikvæð áhrif á skipulag og þróun Sundahafnar. Verkefnahópur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem skilaði af sér skýrslu um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu í lok nóvember 2018 var falið að leiða til lykta málefni Sundabrautar í framhaldi af vinnu við gerð skýrslunnar og hefst sú vinna nú í upphafi árs 2019. Meiri hlutinn beinir því til verkefnahópsins að taka mið af framangreindum ábendingum varðandi áhrif legu Sundabrautar á Sundahöfn við vinnu sína.
    Þá var bent á nauðsyn þess að vinnsla við aðal- og deiliskipulag sveitarfélaga gengi hratt og vel fyrir sig. Ótækt væri að brýnar framkvæmdir sem eru í samþykktri samgönguáætlun og jafnvel byrjað að undirbúa af hálfu Vegagerðarinnar tefðust vegna tafa við gerð skipulags sveitarfélags. Til eru dæmi um að samgönguframkvæmdir tefjist í fjölda ára þar sem deilur hafa staðið um vegstæði og viðhaldsdýpkun í höfnum. Þó bendir meiri hlutinn á að lög og reglugerðir gera ráð fyrir tímafrestum, kæruleiðum og leyfum til álitsgerða um framkvæmdir sem geta tafið umsagnir og leyfisveitingar.
    Nú er unnið að endurskoðun á heildarlögum um mat á umhverfisáhrifum áætlana og framkvæmda á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í því augnamiði að auka gegnsæi og skilvirkni allrar matsvinnu í þessum efnum. Meiri hlutinn fagnar því og telur að þannig megi bæta alla undirbúningsvinnu, samráð um framkvæmdir eða áætlanir við samgöngubætur jafnt á landi sem í lofti og á sjó sem og að draga úr töfum.
    Ef tillögur meiri hlutans ganga eftir um stórátak í samgöngumálum er ljóst að styttra er í að framkvæmdir komist af stað en ætlað var. Því er mikilvægt að undirbúningur hefjist sem fyrst og mikilvægar rannsóknir séu gerðar og unnið í skipulagsáætlunum.

Rannsóknir, þróun og umhverfismál Samgöngustofu.
    Nefndinni var bent á að við vinnslu fimm ára samgönguáætlunar hefði texti í greinargerð við kafla 1.2.6. Rannsóknir, þróun og umhverfismál fallið brott fyrir mistök. Í honum er gerð grein fyrir verkefnum á sviði rannsóknar og þróunar sem Samgöngustofa framfylgir. Nauðsynlegt er að þær upplýsingar komi fram enda er fjármunum varið til þessa þáttar í áætluninni. Textinn er eftirfarandi: „Á áætlun eru m.a. verkefni er snúa að öflun ýmissa grunnupplýsinga og rannsóknir sem stuðla að öryggi sjófarenda. Að auki má nefna rannsóknir á umhverfisvænum og endurnýjanlegum orkugjöfum og rannsóknir sem stuðla eiga að minni losun gróðurhúsalofttegunda frá skipum. Aðrir verkefnaflokkar eru m.a. umhverfisrannsóknir þar sem lögð verður sérstök áhersla á verkefni er tengjast siglingu stórra skipa um Norðurslóðir og í íslenskri efnahagslögsögu. Einnig eru verkefni um rek stórra skipa, hafíss og mengandi efni ásamt könnun á sjávarflóðum, rannsóknum og undirstöðukönnun á virkjun vinds, öldu og sjávarfalla. Þá er unnið að verkefnum er snúa að loftgæðum og loftræstikerfum skipa, eigin skoðunum skipa, umhverfisvænum og endurnýjanlegum orkugjöfum í samgöngum, afgashreinsun frá aðalvélum skipa auk verkefna um veiðar og orkugreiningu skipa.“

Aðhaldskrafa fjárlaga.
    Samkvæmt samþykktu frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2019 er hagræðingarkrafa á málaflokkinn 11 Samgöngu- og fjarskiptamál 535,5 millj. kr., þar af 400 millj. kr. vegna framkvæmda á vegakerfinu. Þá þarf að lækka framlög til almenns reksturs Vegagerðarinnar um 7,3 millj. kr., þjónustu Vegagerðarinnar um 40 millj. kr., styrki Vegagerðarinnar til almenningssamgangna um 27,6 millj. kr. og framkvæmdir við vita og hafnir um 2 millj. kr. Þá þarf að lækka fjárveitingu til Samgöngustofu um 37 millj. kr. og til flugvalla og flugleiðsögu um 21 millj. kr. Meiri hlutinn leggur til breytingar þessu til samræmis og áréttar að 400 millj. kr. aðhaldskröfu vegna framkvæmda á vegakerfi er mætt með því að lækka fjárveitingu til framkvæmda í Gufudalssveit, sbr. umfjöllun í kafla um vegáætlun. Aðrir liðir eru lækkaðir og beinir meiri hlutinn því til Vegagerðarinnar og Samgöngustofu að tryggja að rekstur sé innan þessara breytinga á fjárveitingum sem samþykktar voru með fjárlögum.

Endurskoðun samgönguáætlunar.
    Meiri hlutinn bendir á að samkvæmt lögum um samgönguáætlun, nr. 33/2008, skal leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun á að minnsta kosti þriggja ára fresti. Miðað við þá þörf sem nú er fyrir samgöngubætur um land allt, vinnu við útfærslu á samningi um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og boðað frumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um gjaldtöku í samgöngum, sem ætlað er að fylgja eftir stefnu um framtíðarfjármögnun vegakerfisins, telur meiri hlutinn eðlilegt að ný samgönguáætlun verði lögð fram fyrr en að þremur árum liðnum. Þar verði jafnframt útfærð nánar gjaldtaka á þeim leiðum sem tilteknar eru í töflu í kaflanum um vegaframkvæmdir fjármagnaðar með gjaldtöku. Enn fremur verði útfært það svigrúm sem myndast vegna nýrra leiða í fjármögnun framkvæmda sem taki mið af skýringum í nefndaráliti þessu.
    Þær breytingar sem eru gerðar á töflum í samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 leiðir af breytingum sem gerðar eru á fimm ára samgönguáætlun og hafa verið útskýrðar í nefndaráliti þessu.
    Meiri hlutinn leggur til að málin verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstökum þingskjölum.
    Karl Gauti Hjaltason styður nefndarálit þetta í megindráttum en með fyrirvara. Nauðsynlegt sé að kveða skýrt á um fjárhæð veggjalda og útfærslu afsláttarkjara og leggja þurfi sérstaka áherslu á lækkun gjalda á bifreiðaeigendur samhliða upptöku veggjalda. Þá eigi að nota fjármagn sem fyrirhugað er að renni í væntanlegan þjóðarsjóð að hluta til að kosta framkvæmdir í samgönguáætlun, m.a. við Sundabraut. Forðast beri margfeldisinnheimtu veggjalda af þeim sem þurfa að fara um mörg veggjaldahlið til að sækja þjónustu til höfuðborgarinnar. Grípa verði til raunhæfra aðgerða til að flýta brýnum úrbótum í samgöngumálum.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara.


Alþingi, 29. janúar 2019.

Bergþór Ólason,
form.
Jón Gunnarsson, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Karl Gauti Hjaltason, með fyrirvara. Líneik Anna Sævarsdóttir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, með fyrirvara.
Vilhjálmur Árnason.Fylgiskjal.


Umsagnir og erindi til umhverfis- og samgöngunefndar um 172. og 173. mál.
    Umhverfis- og samgöngunefnd sendi 12. október 2018 112 aðilum til umsagnar tillögur til þingsályktunar um samgönguáætlun, 172. og 173. mál. Umsagnaraðilar eru eftirfarandi, í stafrófsröð:

Aðilar.
    Akranesbær, Akstursíþróttasamband Íslands, Akureyrarbær, Bláskógabyggð, Borgarbyggð, Byggðastofnun, Bændasamtök Íslands, Dalabyggð, Dalvíkurbyggð, Djúpavogshreppur, Eyjafjarðarsveit, Eyþing, Faxaflóahafnir sf., Félag íslenskra atvinnuflugmanna, Félag íslenskra bifreiðaeigenda, Fjallabyggð, Fjarðabyggð, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Fljótsdalshérað, Flugmálafélag Íslands, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Hvalfjarðarsveit, Hveragerðisbær, Icelandair ehf., Isavia ohf., Ísafjarðarbær, Kópavogsbær, Landssamband hestamannafélaga, Landssamtök hjólreiðamanna, Langanesbyggð, Mýrdalshreppur, Norðurþing, Rangárþing ytra, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samband sveitarfélaga á Austurlandi, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samgöngufélagið, Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Samtök um betri byggð Seyðisfjarðarkaupstaður, Skipulagsstofnun, Sveitarfélagið Árborg, Sveitarfélagið Hornafjörður, Sveitarfélagið Skagafjörður, Sveitarfélagið Ölfus, SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, Vestfjarðastofa, Vestmannaeyjabær, Vesturbyggð, Vinir vegfarandans, Viðskiptaráð Íslands, Wow air og öryggisnefnd íslenska flugmannafélagsins, Þingeyjarsveit, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

Einstaklingar.
A. Hlín Brynjólfsdóttir
Adam Örn Þorvaldsson
Aðalbjörg Hrafnsdóttir
Aðalgeir Sigurgeirsson
Aðalheiður Arnljótsdóttir
Aðalsteinn Vestmann
Agnar Guðmundsson
Agnar Ingi Svansson
Agnar Már Júlíusson
Agnar S. Agnarsson
Agnes Björk Jóhannsdóttir
Agnes Erna Estherardóttir
Agnieszka Piotrowska
Albert Snorrason
Albert Svan Sigurðsson
Alexander Friðriksson
Alexander Ólafsson
Alexander Sigurgeirsson
Alexander Smári Davíðsson
Alexander Vestfjörð Kárason
Alfa Ágústa Pálsdóttir
Alfreð Hafsteinsson
Alfreð Mortensen
Alma Hlín Þórarinsdóttir
Andrea Bergþórsdóttir
Andrea Guðmundsdóttir
Andrea Helgadóttir
Andrés Daníel Kristjánsson
Andrés Zoran Ivanovic
Andri Hrafn Ingvason
Andri Már Sigurðsson
Andri Óskarsson
Andri Snær Axelsson
Anikó Kolcsar
Anita Engley Guðbergsdóttir
Anna G. Kristinsdóttir
Anna Guðmundsdóttir
Anna Guðrún Ísleifsdóttir
Anna Guðrún Sigurðardóttir
Anna Guðrún Sigurðardóttir
Anna Karakulina
Anna Karlsdóttir
Anna Kristín Pétursdóttir
Anna Kristín Sævarsdóttir
Anna Kristrún Björnsdóttir
Anna Linda Sigurðardóttir
Anna Margrét Haukdal
Anna María Friðgeirsdóttir
Anna María Sigurbjörnsdóttir
Anna María Torfadóttir
Anna Runólfsdóttir
Anna S. Ólafsdóttir
Anna S. Sigurðardóttir
Anna Sigríður Stefánsdóttir
Anna Silvía Þorvarðardóttir
Anna Soffía Ryan
Anna Steinunn Jónsdóttir
Anneleen De Saegher
Anný Elín Bentsdóttir
Anton Gunnlaugur Kristinsson
Anton Karl Kristensen
Anton Kristvinsson
Anton Örn Árnason
Antonía Helga Guðmundsdóttir
Ari Gauti Arinbjörnsson
Ari Jónsson
Ari Karlsson
Arilíus Óskarsson
Arna Björk Unnsteinsdóttir
Arnar Freyr Antonsson
Arnar Ólafsson
Arnar Ragnarsson
Arnar Valgarðsson
Arnbjörg Sveinsdóttir
Arndís Gísladóttir
Arndís R Magnúsdóttir
Arnór Dan Arnarson
Arnór Hrannar Karlsson
Arnór Valdimarsson
Arnþór Lúðvíksson
Aron Daníel Arnarson
Aron Sigurbjörnsson
Aron Örn Birkisson
Atli Ásgeirsson
Atli Gunnarsson
Atli M. Sveinsson
Atli Már Atlason
Atli Már Hilmarsson
Atli Þór Gunnarsson
Auðun Jóhann Elvarsson
Auður Hermannsdóttir og Þórir Kristinsson
Axel D. Björnsson
Ágúst Óðinn Ómarsson
Axel Finnur Gylfason
Axel Kjartan Baldursson
Ágúst Elíasson
Ágúst Fylkisson
Ágúst Jónsson
Ágúst Kolbeinn Sigurlaugsson
Ágúst Valdísarson
Ágúst Þór Skarphéðinsson
Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir
Álfheiður H. Guðmundsdóttir
Ámundi Kristjánsson
Árdís Ívarsdóttir
Ármann Jóhannsson
Árni Baldursson
Árni Elísson
Árni Grant
Árni Grétar Torfason
Árni Guðmundsson
Árni Gunnar Haraldsson
Árni Gunnarsson
Árni H. Kristjánsson
Árni Ingi Ríkarðsson
Árni Jón Gissurarson
Árni Jónsson
Árni Magnússon
Árni Páll Hafþórsson
Árni Stefán Gunnarsson
Árni Steinsson
Árni Tómasson
Árni V. Margeirsson
Árni Þór Einarsson
Árni Þór Guðjónsson
Árný Anna Svavarsdóttir
Árný Guðfinnsdóttir
Ársæll Einar Ársælsson
Ársæll Hauksson
Ásbjörn Torfason
Ásdís Alexandra Lee
Ásdís Dröfn Valdimarsdóttir
Ásgeir Ásgeirsson
Ásgeir Ásgeirsson
Ásgeir Geirsson
Ásgeir Guðnason
Ásgeir Ragnar Ásgeirsson
Ásgeir Þór Ólafsson
Ásgeir Þór Ólafsson
Ásgeir Örn Rúnarsson
Ásgrímur Guðmundsson
Ásgrímur Hartmannsson
Ásmundur Helguson
Ásmundur Rafnar Ólafsson
Ásrún Matthíasdóttir
Ásta Andrésdóttir
Ásta Björk Vilhjálmsdóttir
Ásta María Guðmundsdóttir
Ásta P. Sigurbjörnsd.
Ásthildur Lísa Guðmundsdóttir
Ásthildur Þorsteinsdóttir
Ástmar Sigurjónsson
Ástráður Aron Ágústsson
Ástþór Ágústsson
Baldur Bjarman Teitsson
Baldur Bjarnason
Baldur H Magnússon
Baldur Ingi Halldórsson
Baldur Már Kristmundsson
Baldur Þorsteinsson
Baldur Þór Sveinsson
Baldur Þórsson
Baldvin Gunnar Ringsted
Baldvin Hróar Jónsson
Baldvin Jónsson
Baldvin Örn Einarsson
Baltasar Leví Elíasson
Bárður Eyþórsson
Benedikt Björgvinsson
Benedikt Guðmundsson
Benedikt Jónsson
Benedikt Olafsson
Benedikt Ólafur Kristinsson
Benedikt Sævarsson
Benedikt Viggósson
Benedikt Þorgilsson
Bergdís Arna Guðbjartsdóttir
Bergdís Heiða Eiríksdóttir
Berglind Silja Aradóttir
Bergur Geirsson
Bergur Ingi Ólafsson
Bergur Kristinsson
Bergur M. Sigmundsson
Bergþór Njáll Sigurðsson
Bergþór Sigurður Atlason
Bergþóra Stefánsdóttir
Birgir Guðmundsson
Birgir Haukdal Rúnarsson
Birgir Hrafn Hallgrímsson
Birgir Ingvar Jóhannesson
Birgir Karlsson
Birgir Loftsson
Birgir Páll Guðjónsson
Birgir Pálmason
Birgir Rúnar Sæmundsson
Birgir Stefánsson
Birgir Steinarsson
Birgir Þór Kristinsson
Birgitta Baldursdóttir
Birkir Helgason
Birkir Þór Sigurðsson
Birna Björt Eyjólfsdóttir
Bjarki Eiríksson
Bjarki Frímann Helgason
Bjarki Guðlaugsson
Bjarki Hilmarsson
Bjarki Hrafn Thorarensen
Bjarki Jónsson
Bjarki Karlsson
Bjarki Reynir Bragason
Bjarnheiður Jóhannsdóttir
Bjarni Antonsson
Bjarni Gestsson
Bjarni Guðjón Samúelsson
Bjarni Gunnarsson
Bjarni Kristjánsson
Bjarni Másson
Bjarni Pétur Magnússon
Bjarni Rúnar Rafnsson
Bjarni Sigurðsson
Bjarni Þ. Bjarnason
Bjartur Thorlacius
Björg Jónsdóttir
Björg Kara Elefsen
Björg Kristjánsdóttir
Björgvin Steinarsson
Björgvin Sævar Ármannsson
Björgvin Þorvaldsson
Björgvin Ölversson
Björk Sigurgeirsdóttir
Björn Birnir
Björn Breiðfjörð Kristþórsson
Björn Búi Jónsson
Björn Eyjólfsson
Björn Flygenring
Björn Friðriksson
Björn Gunnlaugsson
Björn Halldór Björnsson
Björn Ingiberg Jónsson
Björn J. Gunnarsson
Björn Pálsson
Björn Sindri Eiríksson
Björn Steinar Árnason
Björn Steinar Hauksson
Björn Þór Helgason
Borgar Valgeirsson
Bóas Eðvaldsson
Bragi Björnsson
Bragi Guðlaugsson
Bríet Sunna Valdemarsdóttir
Bryndís G. Thoroddsen
Bryndís Kristinsdóttir
Brynja Birgisdóttir
Brynja Ísfeld Eyjólfsdóttir
Brynja Jóhannsdóttir
Brynja Júlíusdóttir
Brynjar Emilsson
Brynjar Hjartarson
Brynjar Svansson
Brynleifur Siglaugsson
Bubbi Morthens
Búi Guðmundsson
Bylgja Sjöfn Jónsdóttir
Böðvar Bjarnason
Böðvar Björgvinsson
Böðvar Haukdal Jónasson
Böðvar Stefánsson
Dagbjört Hlín Emilsdóttir
Dagfinnur Smári Ómarsson
Dagmar Hauksdóttir
Daníel Björnsson
Daníel Ingi Eggertsson
Daníel Rúnar Jónasson
Daníel Karlsson
Daníel Olsen
Davíð Ben Maitsland
Davíð Davíðsson
Davíð Ólafsson
Davíð Páll Sigurðsson
Davíð R.M.A. Höjgaard
Davíð Rósinkarsson
Davíð Snæhólm Baldursson
Davíð Steinar Ásgrimsson
Díana Björg Sveinbjörnsdóttir
Dolores Rós Valencia
Dóra Kristín Jónasdóttir
Drífa Thorstensen
Dúi J. Landmark
Dögg Halldórsdóttir
Edda Hagalín
Edda Hrafnsdóttir
Eduardo Pereira dos Reis
Eðvarð Atli Bjarnason
Eggert Sigurbergsson
Egill Andrés Sveinsson
Egill Helgi Guðjónsson
Egill Hermannsson
Eiður Atli Axelsson
Eiður Páll Sveinn Kristmannsson
Einar Aron Kjartansson
Einar Bergmann Sigurðarson
Einar Bjarni Sigurpálsson
Einar Gilbert Einarsson
Einar Gunnar Einarsson
Einar H. Árnason
Einar Hjaltason
Einar Hjalti Steinþórsson
Einar Ingi Einarsson
Einar Ísfjörð
Einar Jón Gunnarsson
Einar Kr. Haraldsson
Einar Logi Andrésson
Einar Lyng
Einar Már Atlason
Einar Michael Guðjónsson
Einar Mýrdal Guðmundsson
Einar Ólafsson
Einar Pálsson
Einar Svanlaugsson
Einar Tryggvason
Einar Örn Finnsson
Eirikur Bjarki Eysteinsson
Eiríkur Ingi Bengtsson Helgason
Eiríkur Ingimagnsson
Eiríkur Kristvinsson
Eiríkur Steinsson
Elfar Eiðsson
Elías Oddsson
Elías Snær Einarsson
Elín Kjartansdóttir
Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir
Elís Viktor Kjartansson
Elísa Sjöfn Reynisdóttir
Elísabet Margrét Bjarnadóttir
Elísabet Rakel Sigurðardóttir
Ellen Drífa Ragnarsdóttir
Ellert Jósteinsson
Ellert Scheving Markússon
Elmar Freyr Torfason
Elvar Freyr Jónsteinsson
Elvar Þór Magnússon
Elvar Örn Jonsson
Elvar Örn Ægisson
Embla Magnusdottir
Embla Rán Gísladóttir
Emil Ingólfsson
Emilía Karlsdóttir
Emma Geirsdóttir
Erla Baldursdóttir
Erla Rut Haraldsdóttir
Erlingur Arthursson
Erna Gísladóttir
Erna Ósk Arnardóttir
Erpur Snær Hansen
Eva Hlín Haraldsdóttir
Eva Rún Guðmundsdóttir
Eygló Einarsdóttir
Eygló Hjálmarsdóttir
Eymar Andri Birgisson
Eyrún Ída Guðjónsdóttir
Eyrún Linda Gunnarsdóttir
Eyþór Gunnarsson
Eyþór Ingi Kristinsson
Eyþór Ingi Ólafsson
Eyþór Þorvaldsson
Eyþór Örlygsson
Eyþór Örn Óskarsson
Fannar Sigurpálsson
Fannar Steinn Steinsson
Fannar Þór Bergsson
Fanndís Huld Valdimarsdóttir
Fanný Adela Österby Christensen
Finnbogi Lýðsson
Finnbogi P. Finnbogason
Finnbogi Steinarsson
Fjóla Lárusdóttir
Frank Heiðar Sigurðsson
Frank Höybye
Frantz Pétursson
Freyja Lárusdóttir
Freyr Brynjarsson
Freyr Geirdal
Freyr Helgason
Freyr Jónsson
Freyr Melsteð
Freyr Þórsson
Friðfinnur Finnbjörnsson
Friðgeir Axfjörð
Friðgeir Örn Gunnarsson
Friðgerður Auðunsdóttir
Friðjón Ingi Guðmundsson
Friðrik Bergmannsson
Friðrik Elí Bernhardsson
Friðrik Ottósson
Friðrik Ólafsson
Friðrik Sigurðsson
Fríða Björk Elíasdóttir
Frímann Gústaf Frímannsson
Gabríel Sveinsson
Garðar Ingi Steinsson
Garðar Steingrímsson
Garpur Dagsson
Geir Elvar Gylfason Hansen
Geir Konráð Theodórsson
Geir Thorsteinsson
Georg Kulp
Gestur Andrés Grjetarsson
Gestur Arnarson
Gestur Gunnar Björnsson
Gestur Helgi Friðjónsson
Gestur Sigþórsson
Gestur Skarphéðinsson
Gissur Gunnarsson
Gísli Birgir Gíslason
Gísli Birgir Sigurðarson
Gísli Einar Árnason
Gísli H. Sverrisson
Gísli J. Sigurðsson
Gísli Páll Jónsson
Gretar Felixson
Gretar Már Bárðarson
Gréta Björg Björnsdóttir
Grétar William Guðbergsson
Grétar Þór Þorsteinsson
Guðbergur Jens Haraldsson
Guðbjartur Nilsson
Guðbjörg Jónatansdóttir
Guðbjörg Kristjánsdóttir
Guðbjörg Rós Guðjónsdóttir
Guðbjörg Skjaldardóttir
Guðbjörn Smári Hauksson
Guðbrandur Jónsson
Guðfinna Kristinsdóttir
Guðfinna Þórdís Gunnarsdóttir
Guðjón Guðmundsson
Guðjón Helgi Guðjónsson
Guðjón Helgi Ólafsson
Guðjón Hólm Sigurðsson
Guðjón Ingi Eide Sævarsson
Guðjón Jónsson
Guðjón Karl Guðmundsson
Guðjón Magnússon
Guðjón Rúnarsson
Guðjón Sigfússon
Guðjón Sigurbjartsson
Guðjón Sólmundsson
Guðjón Sverrir Guðmundsson
Guðjón Þ. Guðjónsson
Guðlaug Björgvinsdóttir
Guðlaug Heiðdìs Sveinsdóttir
Guðlaug Jónasdóttir
Guðlaugur Ásólfsson
Guðlaugur Gauti Jónsson
Guðlaugur J Snorrason og Hulda B. Pálsdóttir
Guðlaugur Kristinn Gunnarsson
Guðlaugur Kristinn Jónsson
Guðlaugur Valtýsson
Guðlaugur Þ. Nielsen
Guðmann Bjarnason
Guðmunda Erlendsdóttir
Guðmundur Ágúst Guðmundsson
Guðmundur Baldursson
Guðmundur Búason
Guðmundur E. Jóelsson
Guðmundur Freyr Gunnlaugsson
Guðmundur G. Sigurðsson
Guðmundur Geir Einarsson
Guðmundur Grétar Guðmundsson
Guðmundur Gunnar Hallgrímsson
Guðmundur H Jóhannsson
Guðmundur Hall Ólafsson
Guðmundur Halldór Halldórsson
Guðmundur Hallgrímsson
Guðmundur Heiðar Hauksson
Guðmundur Hreinsson
Guðmundur Ingi Ingason
Guðmundur Ingi Kristjánsson
Guðmundur Jón Pálmason
Guðmundur K. Birkisson
Guðmundur Magnússon
Guðmundur Mjöllnir Þorsteinsson
Guðmundur Ólafsson
Guðmundur Óli Jónsson
Guðmundur Sigurbjörnsson
Guðmundur Sigurðsson
Guðmundur Sigurður Jónsson Bek
Guðmundur Skúlason
Guðmundur Steinar Jónsson
Guðmundur Steinar Zebitz
Guðmundur Viðar Árnason
Guðmundur Y. Hraunfjörð
Guðmundur Þorgrímsson
Guðni Magni Kristjánsson
Guðni Oddur Jónsson
Guðni Þór Gunnarsson
Guðný Adolfsdóttir
Guðný Ásta Ragnarsdóttir
Guðný Benediktsdóttir
Guðný Halldóra Pálmadóttir
Guðný K. Böðvarsdóttir
Guðný Ragnarsdóttir
Guðríður Magnúsdóttir
Guðríður Margrét Guðmundsdóttir
Guðrún Aðalheiður Matthíasdóttir
Guðrún Ásta Björgvinsdóttir
Guðrún Birna Leifsdóttir
Guðrún Bjarnþórsdóttir
Guðrún Hulda Guðmundsdóttir
Guðrún Kristín Björnsdóttir
Guðrún Pála Hannesdóttir
Gunnar Ársæll Ársælsson
Gunnar Ásgeir Gunnarsson
Gunnar Egilsson
Gunnar Ellert Geirsson
Gunnar Felix Rúnarsson
Gunnar Frans Brynjarsson
Gunnar Geir Kristjánsson
Gunnar Geirsson
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
Gunnar Karlsson
Gunnar Kristinsson
Gunnar Kristinsson
Gunnar Laxfoss Þorsteinsson
Gunnar Logi Björnsson
Gunnar Már Gunnarsson
Gunnar Óskarsson
Gunnar Pétur Jónsson
Gunnar Rúnarsson
Gunnar Sigurðsson
Gunnar Sigurðsson
Gunnar Sigurjónsson
Gunnar Sverrisson
Gunnar T. Gunnarsson
Gunnar Tryggvi Ómarsson
Gunnar Vagna Aðalsteinsson
Gunnar Yngvi Rúnarsson
Gunnar Þór Árnason
Gunnar Þór Jónsson
Gunnar Þór Þorkelsson
Gunnar Þórarinsson
Gunnbjörn Skúli Magnússon
Gunnhildur Brynjólfsdóttir
Gunnlaugur Ásgeirsson
Gunnlaugur E. Sævarsson
Gunnlaugur Helgason
Gunnlaugur Jónsson
Gunnlaugur Lárusson
Gunnlaugur Magnússon
Gunnvör Björnsdóttir
Gunnþór Ægir Gunnarsson
Gunnþóra H. Önundardóttir
Gyða Guðmundsdóttir
Gyða Kolbrún Guðjónsdóttir
Gylfi Garðarsson
Gylfi R. Guðmundsson
Gylfi Sigurðsson
Gylfi Þorkelsson
Hafdís Helgadóttir
Hafdís Inga Karlsdóttir
Hafrún Gróa Árnadóttir
Hafsteinn Árnason
Hafsteinn Hafsteinsson
Hafsteinn Sigmarsson
Hafsteinn Þórðarson
Hafþór Guðmundsson
Hafþór Ingi Bjarnason
Hafþór Kolbeinsson
Hafþór Magnússon
Hafþór Torfason
Halla Ósk Haraldsdóttir
Halla Pálsdóttir
Halla Sigrún Sveinbjörnsdóttir
Halla Þórhallsdóttir
Halldór Arason
Halldór Björnsson
Halldór Elfar Hauksson
Halldór Fannberg Svansson
Halldór Freyr Halldórsson
Halldór Grétarsson
Halldór Jón Einarsson
Halldór Sigurðsson
Halldór Svanur Örnólfsson
Halldór Sveinsson
Halldór Vagn Jónsson
Halldór Vilberg Ómarsson
Halldór Örn Guðmundsson
Hallgrímur Brynjólfsson
Hallgrímur Harðarson
Hallgrímur Magnús Sigurjónsson
Hallgrímur Óskarsson
Hallgrímur Óskarsson
Hallgrímur Þór Axelsson
Hanna Dóra Magnúsdóttir
Hannes Ármann Baldursson
Hannes Birgir Hjálmarsson
Hannes Sigmarsson
Hannibal Páll Jónsson
Hans Jónsson
Haraldur Eggertsson
Haraldur Freyr Haraldsson Owen
Haraldur Guðbjartsson
Haraldur Ingi Haraldsson
Haraldur Ólafsson
Harpa Vignisdóttir
Harpa Þ. Jónsd. Reykdal
Haukur Ágústsson
Haukur Baldvinsson
Haukur Birgisson
Haukur Claessen
Haukur Harðarson
Haukur Ísleifsson
Haukur Jens Úlfarsson
Haukur Óli Ottesen
Haukur Þórarinsson
Hákon Jóhannesson
Hákon Þórðarson
Heiða Björg Valdimarsdóttir
Heiðar Júlíus Sveinsson
Heiðar Kristóbertsson
Heiðar Sigurjón Erlendsson
Heiðar Þór Hafþórsson
Heiðar Þórhallsson
Heimir Andri Jónsson
Heimir Hjartarson
Heimir Ólafsson
Heimir Ólafsson
Heimir Örn Heiðarsson
Hekla Eir Bergsdóttir
Helena Dýrfjörð
Helena Mjöll Pétursdóttir
Helena Ósk Sigurðardóttir
Helga Björg Gunnarsdóttir
Helga Geirsdóttir
Helga Haraldsdóttir
Helga Hreiðarsdóttir
Helga Óskarsdóttir
Helga Salbjörg Guðmundsdóttir
Helga Sigríður Halldórsdóttir
Helga Svanlaug Bjarnadóttir
Helgi Berg Sigurbjörnsson
Helgi Birkir Þórisson
Helgi Bjarnason
Helgi Gunnarsson
Helgi Haraldsson
Helgi Haraldsson
Helgi Jónsson
Helgi Jónsson
Helgi Laxdal
Helgi Njálsson
Helgi S. Gunnlaugsson
Helgi Sveinbjörn Jóhannsson
Helgi Þór Gunnarsson
Henríetta Ósk Melsen
Herdís Kristinsdóttir
Hermann Arason
Hermann Árnason
Hermann Hafsteinsson
Hermann Jakobsson
Hermann Nökkvi Gunnarsson
Hermann Valur Árnason
Hermann Vestri Guðmundsson
Hermundur R. Sigurðsson
Hermundur Sigurðsson
Hildur Björg Einarsdóttir
Hildur Hlín Jónsdóttir
Hildur Margrét Ægisdóttir
Hildur Mekkín Draupnisdóttir
Hilmar Þór Jónsson
Hilmar Þór Sigurðsson
Hilmir Vilhjálmsson
Hilmir Þór Einarsson
Hjalti Búi Kristbjörnsson
Hjalti Hjaltason og Guðrún Guðmundsdóttir
Hjalti Ríkharðsson
Hjalti Vignisson
Hjalti Ævarsson
Hjálmar Guðjónsson
Hjálmar Sigurjónsson
Hjálmtýr Guðmundsson
Hjördís Davíðsdóttir
Hjördís Jensdóttir
Hjörleifur Ólafsson
Hjörtur Gunnar Jóhannesson
Hjörtur Már Helgason
Hjörvar O. Jensson
Hlynur Kristjónsson
Hlynur Ólafsson og Sólborg Guðmundsdóttir
Hlynur Sigurðsson
Hlöðver Pétur Hlöðversson
Hólmar Hreggviðsson
Hrafnhildur Fönn Ingjaldsdóttir
Hrafnhildur Ósk Halldórsdóttir
Hrafnhildur Svendsen
Hrafnhildur Ýr Denke Vilbertsdóttir
Hrafnkell Brimar Hallmundsson
Hrefna Björk Sigurðardóttir
Hreggviður G. Þorsteinsson
Hreiðar Júlíusson
Hreiðar Karlsson
Hreiðar Ögmundsson
Hreinn Jóhannsson
Hrönn Auður Gestsdóttir
Hugrún Jóna Hilmarsdóttir
Hulda Dröfn Atladóttir
Hulda Hauksdóttir
Hulda Helgadóttir
Hulda Ingólfsdóttir
Hulda María Einarsdóttir
Hulda Sigurðardóttir
Hædý Hjördís Heiða Björnsdóttir
Hörður Bachmann
Hörður Gunnarsson
Hörður Ingólfsson
Hörður Sigmundsson
Höskuldur Einarsson
Indiana K. Bouhlali Ólafsdóttir
Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir
Ingi Fannar Jónsson
Ingibergur Þór Kristinsson
Ingibjörg Jóhannesdóttir
Ingibjörg Ólöf Benediktsdóttir
Ingimagn Eiríksson
Ingimar Ísak Bjargarson
Ingimundur Árnason
Ingimundur Þórmar Guðnason
Ingólfur Steingrímsson
Ingólfur Valur Þrastarson
Ingólfur Þorláksson
Ingrún Vala Hlynsdóttir
Ingunn H. Rögnvaldsdóttir
Ingunn Hallgrímsdóttir
Ingunn Mýrdal
Ingunn Snædal
Ingvar Bergsson
Ingvar Bremnes
Ingvar Sigurðsson
Ingvar Steinar Vilbergsson
Ingvi Eðvarðsson
Ingvi Þór Ástþórsson
Irena Guðrún Kojic
Iwona M. Samson
Íris Dögg Guðjónsdóttir
Íris Dögg Hauksdóttir
Íris Gunnarsdóttir
Íris Ósk Ágústsdóttir
Ísak Jansson
Ísleifur Gíslason
Ísold Jónsdóttir
Ívar Björgvinsson
Ívar Gunnarsson
Ívar Örn Hlynsson
Ívar Örn Smárason
Jakob Björnsson
Jakob Helgason
Jakob Maríasson
Jakob Sigurðsson
Jakob Símon Jakobsson
Jenný Jensdóttir
Jens Ásgrímsson
Jens B. Baldursson
Jensína Guðmundsdóttir
Jóhann Davíð Snorrason
Jóhann Emil Kolbeins
Jóhann Halldórsson
Jóhann Haukur Gunnarsson
Jóhann Helgi Gíslason
Jóhann Kristjánsson
Jóhann Már Sigurbjörnsson
Jóhann Ó. Guðmundsson
Jóhann Óskarsson
Jóhann Sævar Ragnarsson
Jóhann Valdimarsson
Jóhann Valdórsson
Jóhann Þórðarson
Jóhann Þórðarson
Jóhanna Berndsen
Jóhanna Eivinsdóttir Christiansen
Jóhanna Eyjólfsdóttir
Jóhanna P Björgvinsdóttir
Jóhannes Andri Kjartansson
Jóhannes Diego Rodriguez
Jóhannes Egilsson
Jóhannes H. Laxdal
Jóhannes Ingi Böðvarsson
Jóhannes Kristinn Steinsson
Jóhannes Laxdal
Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Sigvaldason
Jóhannes Þ. Jóhannesson
Jóhannes Örn Kristjánsson
Jón A. Jónsson
Jón Arnarr Einarsson
Jón Árni Þórðarson
Jón Bjarnason
Jón Brynjar Sigmundsson
Jón Egill Sveinbjörnsson
Jón Erling Jónsson
Jón F. Oddsson
Jón Gíslason
Jón Grétar Jónasson
Jón Gunnar Borgþórsson
Jón Gunnar Kristinsson
Jón H Sigurðsson
Jón H. Þórisson
Jón Harrý Njarðarson
Jón Ingibergur Guðmundsson
Jón Ingvar Gunnarsson
Jón Leví Grétarsson
Jón Magnús Katarínusson
Jón Magnússon
Jón Mar Jónsson
Jón Ólafsson
Jón Ólafur Árnason
Jón Ólafur Sigurðsson
Jón Óskar Valdimarsson
Jón Páll Garðarsson
Jón Ragnar Jónsson
Jón Ragnarsson
Jón Rúnar Gunnarsson
Jón Sigmar Ævarsson
Jón Stefánsson
Jón Steingrímur Kjartansson
Jón Svan Grétarsson
Jón Sævar Jónsson
Jón Trausti Gunnarsson
Jón Tryggvi Arason
Jón Valdimar Kristjánsson
Jón Valsson
Jón Viðar Ásmundsson
Jón Þ. Jóhannsson
Jón Þór Bjarnason
Jón Þór Guðjónsson
Jón Þór Jónsson
Jón Örn Guðjónsson
Jóna Júlía Henningsdóttir
Jóna Ósk Jónasdóttir
Jónas Hólmgeirsson
Jónas Jakobsson
Jónas Sigfússon
Jónas Unnarsson
Jónas Yngvi Ásgrímsson
Jónas Þór Karlsson
Jónas Þór Sigurbjörnsson
Jónbjörg Sesselja Hansen
Jónína Kristín Jónsdóttir
Jósef Heimir Guðbjörnsson
Jósep Þorbjörnsson
Júlíana Jónsdóttir
Júlíus Már Baldursson
Júlíus Viggó Ólafsson
Jökull Einarsson
Jökull Veigarsson
Jörgen Pétur Jörgensson
Karel Pétur Ólafsson
Karen Jósefs Tómasdóttir
Karen Ósk Birgisdóttir
Karen Ósk Sigurðardóttir
Karin Pálsson
Karítas Sif Halldórsdóttir
Karl Antonsson
Karl B. Hjálmarsson
Karl Guðjónsson
Karl Gunnlaugsson
Karl Halldór Valsson
Karl Valur Bek
Karólína Stefanía Þórisdóttir
Katla Gunnarsdóttir
Katrín Auðbjörg Aðalsteinsdóttir
Katrín Helga Steinþórsdóttir
Katrín Jakobsdóttir
Katrín Júlía Júlíusdóttir
Katrín Lára Lárusdóttir
Katrín Lilja Hraunfjörð
Katrín Ósk Sigurdórsdóttir
Katrín Valdís Hjartardóttir
Katrín Ösp Þorsteinsdóttir
Kári Gunnar Stefánsson
Kári Jónsson
Kári Olgeir Sæþórsson
Kári Ragnarsson
Kári Þorgrímsson
Kári Össurarson
Ketill Már Björnsson
Kjartan Birgisson
Kjartan Kjartansson
Kjartan Rafn Bjarnason
Kjartan S. Þorsteinsson
Kjartan Sigurgeirsson
Kjartan Stefánsson
Kjartan Steinar Lorange
Kjartan Þór Þorvaldsson
Kolbeinn G. Engilbertsson
Kolbeinn Kolbeinsson
Kolbrún H.H. Biering.
Kolbrún Lind Karlsdóttir
Kolbrún Roe
Kolbrún Svansdóttir
Kolbrún Valbergsdóttir
Konráð Gylfason
Konráð Jón Birgisson
Konráð Logn Haraldsson
Kópur Guðjónsson
Krisján Þór Zoega
Kristbjörg S. Bech Níelsdóttir
Kristbjörn Einarsson
Kristbjörn Hjalti Tómasson
Kristin Röver
Kristinn Atlason
Kristinn Benediktsson
Kristinn Bjarnason
Kristinn G. Þormar
Kristinn Gunnarsson
Kristinn Lárusson
Kristinn Magnússon
Kristinn Snær Sigurjónsson
Kristinn Sveinsson
Kristinn Þór Gunnarsson
Kristinn Þór Jakobsson
Kristín Bjarnadóttir
Kristín Björnsdóttir
Kristín Dögg Kristinsdóttir
Kristín Gunnarsdóttir
Kristín Lilja Sölvadóttir
Kristín Lind Magnúsdóttir
Kristín Rós Birgisdóttir
Kristín S. Jónsdóttir
Kristín Scheving
Kristín Stella Lorange
Kristín Telma Hermannsdóttir
Kristín V. Valdimarsdóttir
Kristín Þórðardóttir
Kristín Þyri Þorsteinsdóttir
Kristjana Hlín Valgarðsdóttir
Kristjana M. Harðardóttir
Kristján Ásgeirsson
Kristján B. Heiðarsson
Kristján Finnbjörnsson
Kristján Freyr Helgason
Kristján Friðrik Einarsson
Kristján Hafliðason
Kristján Ólafsson
Kristján Stefánsson
Kristmundur R. Carter
Kristofer Máni Árnason
Kristófer Jóhannesson
Kristófer Karlsson
Kristófer Orri Guðmundsson
Kristófer Þorgrímsson
Kristrún Una Thoroddsen
Lasse Lund Christensen
Laufey Vattar
Lára Margrét Pálsdóttir
Lárus Dagbjartarson
Lárus S. Aðalsteinsson
Leifur Ingi Vilhelmsson
Leifur Magnússon
Lilja Dögg Jóhannsdóttir
Lilja Karlsdóttir
Lilja Kristrún Hallgrímsdóttir
Lilja Rut Bjarnadóttir
Linda Guðmundsdóttir
Linda Ósk Heimisdóttir
Linda Rós Helgadóttir
Linda Sigurgeirsdóttir
Lína Dagbjört Friðriksdóttir
Loftur Jónsson
Logi Júlíusson
Logi Þórir Jónsson
Lovísa Hafsteinsdóttir
Lóa Bergljót Þorsteinsdóttir
Lórey Rán Rafnsdóttir
Lukasz Jan Kieltyka
Lúðvík Finnsson
Lýður Geir Guðmundsson
Maggy Mýrdal
Magnhildur Erla Halldórsdóttir
Magnús Aðalvíkingur Finnbjörnsson
Magnús Á. Sigurgeirsson
Magnús Ársælsson
Magnús E. Sigurðsson
Magnús Einarsson
Magnús Helgason
Magnús Ingberg Jónsson
Magnús Jónsson
Magnús Orri Einarsson
Magnús Ómar Jóhannsson
Magnús Óskar Guðnason
Magnús R. Guðmundsson
Magnús Sigurðsson
Magnús Sigurðsson
Magnús Sigurðsson
Magnús Sigurður Jónasson
Magnús Steinarr Norðdahl
Magnús Sturluson
Magnús Tryggvason
Magnús Þór Árnason
Magnús Þór Einarsson
Marel Snær Arnarson
Margit Hafsteinsdóttir
Margrét Anna Ágústsdóttir
Margrét Einarsdóttir
Margrét Kolbeinsdóttir
Margrét S. Þórólfsdóttir
Margrét Sturlaugsdóttir
Margrét Þórðardóttir
Maria Csizmas
María Ásmundsdóttir Shanko
María Gunnarsdóttir
María Gunnlaugsdóttir
María Hafsteinsdóttir
María Jónsdóttir
María Sif Gunnarsdóttir
Maríanna Óskarsdóttir
Markús Arnar Finnbjörnsson
Matthías Hagvaag
Matthías Þór Þóruson
Málfríður D Gunnarsdóttir
Málfríður Hafdís Ægisdóttir
Máni Ingólfsson
Már Gunnarsson
Mikkjal Davidsen
Milan Ilievski
Mille Toft Sörensen
Monika Abendroth
Morgane Priet-Mahéo
Morten Szmiedowicz
Nadine Elisabeth Walter
Nína Sif Pétursdóttir Thorarensen
Oddný Björk Daníelsdóttir
Oddný Jónsdóttir
Oddur Sveinsson
Oddur Þór Sveinsson
Oktavía Hrund Jónsdóttir
Olga Ellen Þorsteinsdóttir
Olgeir Gestsson
Óðinn Bragi Valdemarsson
Óðinn Pétur Vigfússon
Óðinn Svansson
Óðinn Örn Ágústsson
Ófeigur Lýðsson
Ólafía Ingibjörg Ingólfsdóttir
Ólafur Árnason
Ólafur Björn Ólafsson
Ólafur Fossdal
Ólafur G. Gunnarsson
Ólafur G. Ólafsson
Ólafur Garðar Rósinkarsson
Ólafur Helgi Jóhannsson
Ólafur Hrafn Halldórsson
Ólafur Ingi Brandsson
Ólafur Ingi Heimisson
Ólafur Jósef Ólafsson
Ólafur Jósefsson
Ólafur Njáll Óskarsson
Ólafur Pétursson
Ólafur R. Kristjánsson
Ólafur Sigurðsson
Ólafur Örn Haraldsson
Ólafur Örn Karlsson
Óli Friðbjörn Kárason
Óli Jón Sigurðsson
Ólöf Anna Ólafsdóttir
Ólöf Birna Klemensdóttir
Ólöf G. Karlsdóttir
Ólöf Jónsdóttir
Ólöf Viktoría Jónasdóttir
Ómar al Lahham
Ómar Bjarnþórsson
Ómar Haraldsson
Ómar Ingi Ómarsson
Ómar Líndal Magnússon
Ómar Már Þóroddsson
Ómar Smári Svarfdal Elíasson
Ómar Þ. Pálmason
Ómar Þorgils Pálmason
Ósk Elísdóttir
Óskar Freyr Hinriksson
Óskar Georg Jónsson
Óskar Guðjónsson
Óskar Júlíusson
Óskar Kristófer Leifsson
Óskar Marinó Sigurjónsson
Óskar Ragnarsson
Óskar Rudolf Kettler
Óskar Svanur Erlendsson
Óskar Þórðarson
Óttar Freyr Einarsson
Óttarr Þór Sigurðsson
Patrekur Sveinn Þorkelsson
Paul Ragnar Kummer
Páll E. Kristjánsson
Páll Einar Kristinsson
Páll H Sigvaldason
Páll Halldór Halldórsson
Páll Jónsson
Páll Reynir Pálsson
Pálmar Dan
Pálmi Alfreðsson
Pálmi Hamilton Lord
Perla Svandís Hilmarsdóttir
Pétur Birgisson
Pétur Bjarni Gíslason
Pétur Breiðfjörð Reynisson
Pétur Sigurðsson
Pétur Sæmundsen
Rafn Gíslason
Ragna Jónasdóttir
Ragnar Ágústsson
Ragnar Eiðsson
Ragnar Finnsson
Ragnar Heiðar Sigtryggsson
Ragnar Lárus Kristjánsson
Ragnar Magnússon
Ragnar Róbertsson
Ragnar Rögnvaldsson
Ragnar Þorláksson
Ragnar Örn Eiríksson
Ragnheiður Ásgeirsdóttir
Ragnheiður Hilmarsdóttir
Ragnheiður Karítas Hjálmarsdóttir
Ragnheiður Rut Reynisdóttir
Ragnheiður Sölvadóttir
Ragnheiður Þóra Grímsdóttir
Ragnhildur Eiríksdóttir
Ragnhildur G. Guðmundsdóttir
Ragnhildur L. Guðmundsdóttir
Ragnhildur Loftsdóttir
Ragnhildur Ólafsdóttir
Rakel Grettisdóttir
Rannveig Sveinbjörnsdóttir
Rannveig Söring Jónsdóttir
Rebekka R.V. Magnúsdóttir
Regína Jóhanna Guðlaugsdóttir
Reynir Böðvarsson
Reynir Freyr Pétursson
Reynir Njálsson
Reynir Zoëga
Reynir Þór Eyvindsson
Richard Brian Busching
Ríta Kristín Haraldsd. Prigge
Róbert Sigurvaldason
Róbert Sæmundsson
Rósa Sigurjónsdóttir
Rut Bech
Rúna Líndal
Rúna S.G. Hansen
Rúnar Einarsson
Rúnar Gunnarsson
Rúnar Harðarson
Rúnar Ingi Ásgeirsson
Rúnar Kristjánsson
Rúnar Már Bjarnason
Rúnar Þór Guðmundsson
Rúnar Þór Guðmundsson
Rúnar Örn Friðriksson
Rúrik Hreinsson
Samúel Kristjánsson
Samúel Sveinn Bjarnason
Sandra Dögg Jónsdóttir
Sandra Lyngmo
Sandra Sigurbergdóttir
Sara Ósk Halldórsdóttir
Sesselja Klara Einarsdóttir
Sigfrið Þormar
Sigfús Reynir Hermannsson
Sighvatur Jónsson
Sighvatur Lárusson
Sigmar Ari Valdimarsson
Sigmar Svavarsson
Sigmar Þór Rögnvaldsson
Sigmundur G. Sigurðsson
Sigmundur Magnússon
Sigmundur S. Guðlaugsson
Sigríður Alma Ómarsdóttir
Sigríður Arna Arnþórsdóttir
Sigríður Eva Magnúsdóttir
Sigríður Hulda Richardsdóttir
Sigríður Jónsdóttir
Sigríður Sigurðardóttir
Sigrún Anna Guðnadóttir
Sigrún Erna Kristinsdóttir
Sigrún Linda Guðmundsdóttir
Sigrún María Líndal
Sigrún Marta Gunnarsdóttir
Sigrún Sighvatsdóttir
Sigrún Theodórsdóttir
Sigryggur Jónsson
Sigurbaldur C. Kristinsson
Sigurbjörg Jónasdóttir
Sigurbjörg Pétursdóttir
Sigurbjörn Ragnarsson
Sigurdur K. Hardarson
Sigurður A. Georgsson
Sigurður Bachmann Sigurðsson
Sigurður Eiríksson
Sigurður G. Sigurðsson
Sigurður Garðar Sigurðsson
Sigurður Guðmundsson
Sigurður Hafsteinsson
Sigurður Helgi Þórisson
Sigurður Hólmar Jóhannesson
Sigurður Ingi Einarsson
Sigurður Ingvar Geirsson
Sigurður J. Haraldsson
Sigurður Jón Sveinsson
Sigurður Kristinsson
Sigurður Magnússon
Sigurður Marísson
Sigurður Ó. Gretarsson
Sigurður Reynir Bjarnason
Sigurður Sigurðsson
Sigurður Sigurðsson
Sigurður Sigurðsson
Sigurður Sigurðsson
Sigurður Smári Kristinsson
Sigurður Stefánsson
Sigurður Unnsteinn Sigurðsson
Sigurður Vignir Óðinsson
Sigurður Vignir Sigurðsson
Sigurður Þ. Sigurþórsson
Sigurður þórarinsson
Sigurjón Gíslason
Sigurjón Kjartansson
Sigurjón Norberg
Sigurjón Veigar Þórðarson
Sigurjón Örn Vilhjálmsson
Sigurlaugur Ágústsson
Sigurrós Ásta Sigurðardóttir
Sigurrós Eggertsdóttir
Sigursteinn Gunnarsson
Sigurvaldi R. Hafsteinsson
Sigurþór Sævarsson
Sigþór Ingi Óskarsson
Sigþrúður Rögnvaldsdóttir
Sindri Þór Bragason
Símon Haukur Guðmundsson
Sjöfn Anna Halldórsdóttir
Skúli Ágústsson
Skúli Bergmann Jónasson
Skúli Bjarnason
Skúli Freyr Brynjólfsson
Skúli Jónsson
Skúli Pálsson
Smári Jónsson
Snorri Bragason
Snorri Haraldsson
Snædís Lilja Ingadóttir
Sonja Leifsdóttir
Sonja Ósk Karlsdóttir
Sóldögg Naira Maggyardóttir
Sóley Soffaníasdóttir
Sólrún Hraunfjörð
Sólveig Heiða Foss
Sólveig Jóna Jónasdóttir
Sólveig Katrín Hallgrímsdóttir
Sólveig M. Guðjóns
Stefan C. Hardonk
Stefanía Á. Pálsdóttir
Stefanía Stefánsdóttir
Stefán Alfreðsson
Stefán Arnbjörnsson
Stefán Ásgrímsson
Stefán Bogi Aðalsteinsson
Stefán Brandur Jónsson
Stefán Einar Stefánsson
Stefán Friðrik Jóhannsson
Stefán Helgi Grétarsson
Stefán Magnússon
Stefán Már Haraldsson
Stefán Már Stefánsson
Stefán Rósinkrans Pálsson
Stefán Sigmar Símonarson
Stefán Skafti Steinólfsson
Stefán Þ. Birgisson
Stefán Örn Ólafsson
Stefán Örn Stefánsson
Stefán Örn Stefánsson
Stefán Örn Viðarsson
Stefnir Þór Kristinsson
Stefnir Ægir Berg Stefánsson
Steinar Aron Stefánsson
Steinar Ingi Gunnarsson
Steinar J. Kristjánsson
Steinar Kjartansson
Steinar Valur Steinarsson
Steinar Þór Kristinsson
Steindór Örn Jakobsson
Steindóra Kristín Þorleifsdóttir
Steingrímur B. Gunnarsson
Steingrímur Karl Jónsson
Steingrímur Óli Sigurðarson
Steinn Jónasson
Steinunn Birna Friðriksdóttir
Steinunn Björk Jónatansdóttir
Steinþór Bjarni Grímsson
Steinþór Ingi Þórsson
Steinþór Traustason
Stephen Albert Björnsson
Sturla Halldórsson
Styrmir Geir Jónsson
Sunna Björg Birgisdóttir
Sunna Lind Ægisdóttir
Sunneva Kjartansdóttir
Svafa H. Ásgeirsdóttir
Svanberg Hjelm Guðnason
Svanbjörg Vilbergsdóttir
Svandís Heiða Pálmadóttir
Svanhildur Rúnarsdóttir
Svanhildur Skúladóttir
Svanhvít Tómasdóttir
Svanhvít V. Sigurðardóttir
Svavar Elliði Svavarsson
Svavar Júlíus Gunnarsson
Sveinn Guðmundsson
Sveinn Henrysson
Sveinn Michaelson
Sveinn Þór Gíslason
Sverrir Garðarsson
Sverrir Hjaltason
Sverrir Ómar Ingason
Sverrir Sigurjónsson
Sæmundur Bjarnason
Sæmundur Bæringsson
Sæmundur Þór Hauksson
Særún Helgadóttir
Sævar Björnsson
Sævar Herbertsson
Sævar Siggeirsson
Sævar Örn Ágústsson
Sævar Örn Einarsson
Sævar Örn Sigurvinsson
Sæþór Árni Hrafnsson
Tanja Rut Sveinsdóttir
Thelma Rós Hermannsdóttir
Theodór Haraldsson
Thorsteinn H Kuld
Tinna Björnsdóttir
Tinna María Magnúsdóttir
Tinna Petersen
Torfi Þórðarson
Tómas Egilsson
Tómas Elí Jafetsson
Tómas Guðmundsson
Tómas Hansson
Tómas Tómasson
Trausti Breiðfjörð Magnússon
Trausti Sigurðsson
Trausti Veigar Hilmarsson
Tryggvi Gunnar Tryggvason
Tryggvi Már Meldal
Tryggvi Þór Hilmarsson
Unnar Þór Sæmundsson
Unndís Þorbjörnsdóttir
Unnur Edda Björnsdóttir
Unnur Huld Hagalín
Unnur Jónsdóttir
Unnur Óskarsdóttir
Unnur Sveinsdóttir
Úlfar Helgi Úlfarsson
Úlfar Þór Svavarsson
Úlfhildur Helga Guðbjartsdóttir
Úlfur Snæbjörn Magnússon
Úlfur Örn Ómarsson
Valberg Már Öfjörð
Valborg Sturludóttir
Valdimar Aðalsteinsson
Valdimar Eyvindsson
Valdimar Pétursson
Valdimar Sólbergsson
Valdimar Sveinsson
Valdimar Þorgeirsson
Valdimar Þórðarson
Valdimar Örn Magnússon
Valgarður Guðjónsson
Valgeir Sverrisson
Valgeir Valgeirsson
Valgerður María Gunnarsdóttir
Valtýr Gunnlaugsson
Valur Sigurðsson
Veigar Sigurðsson
Venný Sigurðardóttir
Viðar Egilsson
Viðar Gunnarsson
Viðar Jónsson
Viðar Zophoníasson
Vigdís Czzowitz
Vigfús Páll Auðbertsson
Vigfús Pétur Meekosha
Viggó M. Sigurðsson
Vignir Rúnar Kárason
Viktor Agnar Falk Guðmundsson
Viktor Pétursson
Viktoría Júlia Laxdal
Vilborg Hannesdóttir
Vilhelm Yngvi Kristinsson
Vilhjálmur H. Waltersson
Vilhjálmur Heimir Baldursson
Vilhjálmur Jón Guðjónsson
Vilhjálmur Þór Sigurjónsson
Vilmundur Þorgrímsson
Víðir I. Þrastarson
Þorbjörg Guðmundsdóttir
Þorbjörn Björnsson
Þorbjörn I. Bragason
Þorbjörn Ingi Ólason
Þorbjörn Jensson
Þorfinnur P. Eggertsson
Þorgeir Jón Gunnarsson
Þorgerður Pétursdóttir
Þorgils Þórarinsson
Þorgrímur Halfdánarson
Þorkell Ingimarsson
Þorkell Yngvason
Þorkell Þorleifsson
Þorsteinn Aðalsteinsson
Þorsteinn Ari Hallgrímsson
Þorsteinn Bjarnarson
Þorsteinn Ingi Karlsson
Þorsteinn Jóhannesson
Þorsteinn Valur Ágústsson
Þorsteinn Þorsteinsson
Þorvaldur Hafberg
Þorvaldur Helgi Sigurpálsson
Þorvaldur Jónasson
Þór G.V. Ólafsson
Þór Jónsson
Þóra Björg Einisdóttir
Þóra Einarsdóttir
Þórarinn B. Steingrímsson
Þórarinn Eggertsson
Þórarinn Ingi Tómasson
Þórarinn Torfi Finnbogason
Þórarinn Tómasson
Þórður Guðsteinn Pétursson
Þórður Hilmarsson
Þórður Ingi Ingileifsson
Þórður Jóhann Sigurðsson
Þórður M. Þórðarson
Þórður Óskarsson
Þórður Þorsteinsson
Þórður Þórisson
Þórey Dögg Pálmadóttir
Þórey Guðný Marinósdóttir
Þórhallur F. Þórhallsson
Þórhallur Ævar Birgisson
Þórir Jóhann Helgason
Þórleifur Ugluspegill Ásgeirsson
Þórmar Jónsson
Þórólfur Júlían Dagsson
Þórunn Grétarsdóttir
Þórunn Jónsdóttir
Þórunn Kristín M. Arnardóttir
Þráinn Sigurbjarnarson
Þröstur Erlingsson
Þröstur Garðarsson
Þröstur Jónasson
Þröstur Reyr Halldórsson
Þröstur Sigurðsson
Ægir Þórðarson
Ægir Ægisson
Ævar B. Jakobsson
Örn G. Steinólfsson
Örn Helgi Haraldsson
Örn Hlöðver Tyrfingsson
Örn Már Guðjónsson
Örn Pálsson
Örn S. Eyjólfsson
Örn Sigurðsson
Örn Steinar Arnarson
Örn Þór Emilsson
Örvar Már Kristinsson