Ferill 550. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 924  —  550. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (kyntjáning og kyneinkenni).

Flm.: Una Hildardóttir, Andrés Ingi Jónsson, Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Steinunn Þóra Árnadóttir.


1. gr.

    Í stað orðanna „kynhneigðar eða kynvitundar“ í 1. mgr. 180. gr. laganna kemur: kynhneigðar, kyntjáningar, kyneinkenna eða kynvitundar.

2. gr.

    Í stað orðanna „kynhneigðar eða kynvitundar“ í 233. gr. a. laganna kemur: kynhneigðar, kyntjáningar, kyneinkenna eða kynvitundar.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum 180. og 233. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Lagt er til að refsivert verði skv. 1. mgr. 180. gr. að mismuna einstaklingum á grundvelli kyntjáningar eða kyneinkenna í atvinnurekstri og þjónustustarfsemi auk þess sem kyntjáningu og kyneinkennum er bætt við upptalningu í 233. gr. a sem fjallar um ólögmæta tjáningu í garð þeirra hópa sem þar eru taldir upp. Markmiðið er að veita intersex fólki aukna vernd sem viðkvæmum samfélagshópi gegn hatursorðræðu og glæpum.
    Í 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Fleiri jafnræðisreglur eða reglur um bann við mismunun er jafnframt að finna í íslenskum rétti. Í 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, er regla um bann við mismunun en gildissvið hennar er takmarkað á þann hátt að bann við mismunun nær aðeins til þeirra réttinda sem vernduð eru af sáttmálanum. Í 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er mælt fyrir um að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Óheimilt er að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða sem byggð eru á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum. Þá eru í lögum ýmis ákvæði um bann við mismunun, svo sem 2. mgr. 1. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, og 3. mgr. 24. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008. Þá taka lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, til mismununar á grundvelli kynferðis. Grundvallarreglan um jafnræði er einnig útfærð í mörgum alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að, en gildissvið slíkra ákvæða getur takmarkast við vernd gegn mismunun á að njóta réttinda sem talin eru í samningunum.
    Í almennum jafnræðisreglum í íslenskum rétti er jafnan vísað til „stöðu að öðru leyti“ eða „annarra sambærilegra ástæðna“ á eftir upptalningu á mismununarástæðum í dæmaskyni. Þannig geta reglurnar gilt um hvers konar mismunun en hins vegar getur gildissvið þeirra verið takmarkað við tiltekin réttarsvið. Ákvæði sem tengjast banni við mismunun og jafnréttislöggjöf er einnig að finna í almennum hegningarlögum, þ.e. 180. gr. og 233. gr. a laganna. Í 1. mgr. 180. gr. er mælt fyrir um að það sé refsivert í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi að neita manni um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli þjóðernis hans, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar. Jafnframt segir í 2. mgr. að það sé refsivert að neita manni um aðgang til jafns við aðra að opinberum samkomustað eða öðrum stöðum sem opnir eru almenningi.
    Samkvæmt 233. gr. a er refsivert að opinberlega hæðast að, rógbera, smána eða ógna manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiða slíkt út.
    1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar segir að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Í 2. mgr. kemur fram að hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Þá segir í 3. mgr. að tjáningarfrelsinu verði ekki settar skorður nema með lögum og verði slíkar skorður að vera í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Ákvæði um vernd tjáningarfrelsisins er jafnframt að finna í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Telja verður að breytingin sem frumvarpið felur í sér að því er varðar upptalningu þeirra hópa sem eiga að njóta verndar skv. 233. gr. a almennra hegningarlaga samrýmist 73. gr. stjórnarskrárinnar sem og 10. gr. mannréttindasáttmálans enda er frumvarpinu ætlað að stuðla að aukinni réttarvernd intersex einstaklinga þannig að þeir fái, til jafns við aðra, notið þeirra mannréttinda sem meðal annars eru tryggð í 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
    Með lögum nr. 13/2014 voru gerðar breytingar á 180. gr. og 233. gr. a almennra hegningarlaga þannig að refsivert varð skv. 1. mgr. 180. gr. að mismuna einstaklingum á grundvelli kynvitundar í atvinnurekstri og þjónustustarfsemi auk þess sem kynvitund var bætt við upptalningu í 233. gr. a sem fjallar um ólögmæta tjáningu í garð þeirra hópa sem þar eru taldir upp. Nauðsynlegt er að breyta á ný ákvæðum 180. gr. og 233. gr. a almennra hegningarlaga með hliðsjón af stöðu intersex einstaklinga, en intersex vísar ekki til fjölbreytileika í kynvitund heldur er það hugtak yfir meðfæddan breytileika á líffræðilegum kyneinkennum. Verði frumvarpið samþykkt er réttindum intersex einstaklinga veitt aukin vernd og í því felst skýr yfirlýsing um að þeir njóti verndar á við aðra sem þurfa á sérstakri vernd að halda gegn m.a. hatursorðræðu og glæpum.