Ferill 499. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 934  —  499. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristin F. Árnason, Katrínu Einarsdóttur og Davíð Loga Sigurðsson frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands sem undirritaður var á Sauðárkróki 25. júní 2018.
    EFTA-ríkin og Tyrkland gerðu fríverslunarsamning árið 1992. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að helstu viðbætur og breytingar sem felast í uppfærslu samningsins eru þær að formálsorðum hefur verið breytt að mestu, samningurinn nær nú til þjónustuviðskipta, viðskipta og sjálfbærrar þróunar og lausnar deilumála auk þess sem ákvæði um hugverkaréttindi hafa verið uppfærð. Það eru þættir sem jafnan eru hafðir inni í þeim samningum sem EFTA gerir nú til dags.
    Þá kemur fram í greinargerðinni að ákvæðum um mannréttindi, sjálfbæra þróun og umhverfismál sé bætt við fríverslunarsamninginn við Tyrkland. Það sé í samræmi við utanríkisstefnu EFTA-ríkjanna að fullgilda viðskiptasamninga við ríki þrátt fyrir að samningsaðilar séu ósammála í ýmsum öðrum málum, eins og m.a. á sviði mannréttindamála. Framkvæmdin hefur verið hin sama í hinum EFTA-ríkjunum, þ.e. að gagnrýni á stöðu mannréttindamála hefur hingað til ekki komið í veg fyrir að fríverslunarsamningar séu gerðir og fullgiltir. Litið er svo á að almennt verði gagnrýni vegna stöðu mannréttindamála haldið uppi á vettvangi stofnana Sameinuðu þjóðanna fremur en á vettvangi EFTA. Að auki má færa rök fyrir því að frjáls viðskipti milli ríkja geti stuðlað að úrbótum í lýðræðis- og mannréttindamálum.
    Loks kemur fram að útflutningur frá Íslandi til Tyrklands, aðallega sjávarafurðir, vélar, húðir og skinn, nam 2,1 milljarði kr. árið 2017. Innflutningur frá Tyrklandi hefur sveiflast mikið milli ára og farið eftir því hvort Tyrkir hafi smíðað skip fyrir Íslendinga á viðkomandi ári. Andvirði innflutningsins hefur þannig sveiflast frá 2,4 milljörðum kr. árið 2010 í 24,4 milljarða árið 2017. Auk véla og samgöngutækja eru fluttar inn ýmsar vörur frá Tyrklandi, t.d. hráefni og matvæli. Útflutningur á sviði þjónustuviðskipta til Tyrklands nam 434 millj. kr. árið 2017 en innflutningur 698 millj. kr.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir skrifar undir nefndarálit þetta með fyrirvara sem lýtur að stöðu mannréttindamála í Tyrklandi og því að heildarendurskoðunar sé þörf með mannréttindi í huga þegar fríverslunarsamningar eru gerðir fyrir Íslands hönd.

    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 6. febrúar 2019.


Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form., frsm.
Ari Trausti Guðmundsson. Ásgerður K. Gylfadóttir.
Bryndís Haraldsdóttir. Gunnar Bragi Sveinsson. Logi Einarsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Smári McCarthy. Þorgerður K. Gunnarsdóttir,
með fyrirvara.