Ferill 570. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 959  —  570. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um breytingu á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands, nr. 13/144.


Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson, Inga Sæland, Logi Einarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að eftirfarandi breytingar verði gerðar á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands, nr. 13/144:
     1.      Á eftir c-lið 1. mgr. komi fjórir nýir stafliðir, d–g-liður, svohljóðandi, og breytist röð annarra liða samkvæmt því:
                  d.      verkefni sem stuðla að fræðslu og forvörnum með það að markmiði að útrýma kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi,
                  e.      verkefni sem stuðla að fræðslu og forvarnastarfi fyrir ungt fólk um ofbeldi, áreitni og einelti og orðræðu sem ýtir undir slíkt,
                  f.      verkefni sem stuðla að fræðslu fyrir ungt fólk um ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms og kynbundins ofbeldis,
                  g.      verkefni sem stuðla að aukinni þekkingu á vörnum og samræmdum viðbrögðum við ofbeldi í nánum samböndum.
     2.      2. mgr. orðist svo:
                  Ráðherra sem fer með jafnréttismál skipi sjóðstjórn til ársloka 2020, þrjá aðalmenn og þrjá til vara. Einn skal tilnefndur af Samstarfsnefnd háskólastigsins, einn af Jafnréttisstofu og einn án tilnefningar sem jafnframt verði formaður sjóðsins. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
     3.      7. mgr. orðist svo:
                  Stjórnsýsla Jafnréttissjóðs Íslands, þ.m.t. varsla sjóðsins og dagleg umsýsla hans, verði hjá Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands.
     4.      Í stað orðsins „Forsætisráðherra“ í 8. mgr. komi: Ráðherra sem fer með jafnréttismál.

Greinargerð.

    Hinn 19. júní 2015, í tilefni 100 ára afmælis kosningarréttar íslenskra kvenna, var samþykkt á Alþingi tillaga til þingsályktunar um að stofna Jafnréttissjóð Íslands sem nyti framlaga af fjárlögum í fimm ár, 2016–2020, 100 millj. kr. á ári. Jafnréttissjóði Íslands er ætlað að styrkja rannsóknir og verkefni sem auka jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Í þingsályktuninni segir að sjóðurinn skuli hafa að markmiði að styrkja verkefni sem varpa ljósi á samfélagslegan, umhverfislegan og efnahagslegan ávinning af auknu jafnrétti; verkefni sem vinna gegn launamun kynjanna og efla almennt jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði; verkefni sem er ætlað að vinna gegn kynbundnu ofbeldi; þróunarverkefni í skólakerfinu; verkefni sem eru til þess fallin að hvetja ungt fólk af báðum kynjum til aukinnar samfélagslegrar þátttöku og rannsóknarverkefni sem eru til þess fallin að varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð. Sjóðurinn starfar samkvæmt reglum nr. 365/2016, um úthlutun styrkja úr Jafnréttissjóði Íslands, og í starfsreglum stjórnar sjóðsins er nánar kveðið á um afgreiðslu styrkumsókna.
    Stjórnsýsla sjóðsins, bæði varsla hans og umsýsla, hefur heyrt undir velferðarráðuneytið, sbr. forsetaúrskurð nr. 27/2016, en fluttist með jafnréttismálunum til forsætisráðuneytisins í ársbyrjun 2019, sbr. forsetaúrskurð nr. 119/2018, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Stjórn Jafnréttissjóðs Íslands var kosin á Alþingi 15. mars 2016. Hún annast mat á umsóknum um styrki í samræmi við reglur sjóðsins og stendur fyrir athöfn 19. júní ár hvert þar sem úthlutað er úr sjóðnum. Stjórn sjóðsins á jafnframt að eiga samvinnu við samtök kvenna, aðila á vinnumarkaði, ráðuneyti, skóla, sjóði og stofnanir um viðfangsefni hans. Í samræmi við ákvæði þetta stendur stjórn sjóðsins árlega fyrir kynningarfundi um starfsemi hans.
    Með bréfi til forsætisráðherra, dags. 13. desember sl., gerði meiri hluti stjórnar sjóðsins tillögu um að fyrirkomulagi um skipan stjórnarmanna yrði breytt og leitað yrði nýrra leiða til að velja fulltrúa í stjórn sjóðsins svo tryggja mætti framtíð hans og starfsemi. Með vísan til framangreinds er lagt til að forsætisráðherra skipi stjórn sjóðsins til ársloka 2020, þrjá aðalmenn og þrjá til vara. Jafnframt er gerð tillaga um að stjórnsýsla sjóðsins, þ.m.t. varsla hans og dagleg umsýsla, verði hjá Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands. Ætlunin er að sérfræðingur á skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu verði tengiliður ráðuneytisins við stjórn og Rannís vegna starfsemi sjóðsins.
    Á undanförnum misserum hefur orðið mikil vitundarvakning um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni í íslensku samfélagi, ekki síst í tengslum við #ég líka-hreyfinguna. Til að Jafnréttissjóður Íslands geti sem best rækt hlutverk sitt og styrkt verkefni og rannsóknir sem hafa að markmiði að auka jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi er hér lagt til að við úthlutun áranna 2019 og 2020 verði kallað eftir umsóknum til verkefna og rannsókna sem stuðla að fræðslu og forvörnum með það að markmiði að útrýma kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi. Einnig er lagt til að sjóðurinn styrki verkefni sem stuðli að fræðslu fyrir ungt fólk um ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms og kynbundins ofbeldis sem og verkefni sem stuðli að aukinni þekkingu á vörnum og samræmdum viðbrögðum við ofbeldi í nánum samböndum.