Ferill 531. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1057  —  531. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Rán Tryggvadóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018, frá 6. júlí 2018, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, frá 2. maí 1992, og að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1128 frá 14. júní 2017 um flytjanleika efnisveituþjónustu á Netinu yfir landamæri á innri markaðnum.
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 7. janúar 2019. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Reglugerðin miðar að því að fjarlægja hindranir sem hamla því að neytendur geti notið þjónustu frá efnisveitum sem þeir eru áskrifendur að eða geti fengið aðgang að efni sem þeir hafa áður keypt eða leigt í heimalandi sínu þegar þeir ferðast til annarra ríkja innan EES. Áskriftarþjónusta verður því aðgengileg utan heimalands áskrifenda og er þjónustuveitendum óheimilt að láta áskrifendur greiða viðbótargjald fyrir þjónustuna. Gildissvið reglugerðarinnar nær til áskriftarþjónustu, þ.e. þegar notendum býðst áskrift að efnisveitum hljóð- og myndmiðlaþjónustu gegn gjaldi. Þjónusta Ríkisútvarpsins ohf. fellur því ekki undir reglugerðina.
    Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar og er fyrirhugað að mennta- og menningarmálaráðherra leggi fram frumvarp um flytjanleika efnisveituþjónustu á netinu yfir landamæri á innri markaðnum á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.


Alþingi, 4. mars 2019.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Logi Einarsson, frsm. Ásgerður K. Gylfadóttir.
Bryndís Haraldsdóttir. Fjölnir Sæmundsson. Gunnar Bragi Sveinsson.
Smári McCarthy.