Ferill 584. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1209  —  584. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 258/2018 um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon og Pétur Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 258/2018, frá 5. desember 2018, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn, frá 2. maí 1992, og að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/1794 frá 6. október 2015 um breytingu á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB, 2009/38/EB og 2002/14/EB og tilskipunum ráðsins 98/59/EB og 2001/23/EB, um farmenn.
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 6. júní 2019. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Tilskipunin kveður á um breytingar á fimm tilskipunum ESB á sviði vinnuréttar þar sem felldar voru úr gildi tilteknar undanþágur er varða farmenn. Markmiðið er að tryggja að farmenn geti nýtt sér að fullu rétt sinn til sanngjarnra og réttlátra vinnuskilyrða sem og rétt til upplýsingamiðlunar og samráðs. Innleiðing tilskipunarinnar felur í sér samþættingu lagarammans þar sem tryggt verður að áhafnir hafskipa njóti þeirra réttinda sem tilskipunin kveður á um.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar og hefur félags- og barnamálaráðherra á yfirstandandi löggjafarþingi lagt fram lagafrumvarp til innleiðingar á tilskipuninni.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. mars 2019.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Ásgerður K. Gylfadóttir. Bryndís Haraldsdóttir. Gunnar Bragi Sveinsson.
Logi Einarsson. Smári McCarthy.