Ferill 586. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1211  —  586. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 214/2018 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon og Pétur Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 214/2018, frá 26. október 2018, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, frá 2. maí 1992, og að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/97, frá 20. janúar 2016, um sölu vátrygginga (endurútgefin) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/411, frá 14. mars 2018, um breytingu á tilskipun (ESB) 2016/97 að því er varðar hvaða dag lögleiðingarráðstafanir aðildarríkjanna koma til framkvæmda.
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 27. apríl 2019. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Tilskipun (ESB) 2016/97 er ætlað að vernda hagsmuni þeirra sem fá þjónustu vegna kaupa eða væntanlegra kaupa á vátryggingum. Töluverðar breytingar verða á regluumhverfi vátryggingamiðlunar, einkum með tilliti til neytendaverndar. Helstu efnisbreytingar varða gildissvið reglnanna sem munu ná yfir vátryggingamiðlara, vátryggingafélög og aðila sem selja vátryggingar sem aukaafurð, auk þess sem skilgreiningar um hæfisskilyrði verða gerðar skýrari og gildissvið slíkra skilyrða rýmkað. Í tilskipuninni eru gerðar auknar kröfur um upplýsingaskyldu til vátryggingataka, hæfi þeirra sem selja vátryggingar og hvað teljist góðir og gildir viðskiptahættir. Þá eru nánari reglur um gagnkvæma viðurkenningu eftirlitsstjórnvalda og viðurlög.
    Tilskipun (ESB) 2018/411 felur einungis í sér breytingu á gildisdagsetningu tilskipunar (ESB) 2016/97 frá 23. febrúar 2018 til 1. október 2018.
    Innleiðing tilskipananna kallar á lagabreytingar og er fyrirhugað að fjármála- og efnahagsráðherra leggi á yfirstandandi löggjafarþingi fram lagafrumvörp til innleiðingar á tilskipuninni, annars vegar heildarlöggjöf um dreifingu vátrygginga sem kemur í stað laga nr. 32/2005, um miðlun vátrygginga, og hins vegar frumvarp til breytinga á lögum nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. mars 2019.


Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, form. Bryndís Haraldsdóttir, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Ásgerður K. Gylfadóttir. Gunnar Bragi Sveinsson. Logi Einarsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Smári McCarthy.