Ferill 791. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1252  —  791. mál.
Stjórnartillaga.Tillaga til þingsályktunar


um breytingu á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.


Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.    Alþingi ályktar að við A-lið, Almenn atriði er varða uppbyggingu flutningskerfis raforku, í þingsályktun nr. 26/148 bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Ekki verður ráðist í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis. Skal það samþykki liggja fyrir áður en framkvæmdir sem varða slíka tengingu geta farið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Til grundvallar slíkri ákvörðun Alþingis skal liggja heildstætt mat á umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum áhrifum slíkrar tengingar og framkvæmda vegna hennar.

Greinargerð.

    Hinn 11. júní 2018 samþykkti Alþingi þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Í þeirri þingsályktun er að finna almenn atriði sem hafa ber að leiðarljósi við uppbyggingu flutningskerfis raforku, þ.m.t. við gerð kerfisáætlunar.
    Hafa þau áhersluatriði ákveðna stöðu að lögum þar sem fram kemur í 1. mgr. 9. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, að flutningsfyrirtækið skuli byggja flutningskerfið upp að teknu tilliti til stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Að sama skapi kemur fram í 5. mgr. 9. gr. a raforkulaga að nánari útfærsla mannvirkja vegna uppbyggingar flutningskerfisins ráðist af stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
    Í núgildandi þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku er að finna skýrar áherslur sem eru bindandi við gerð kerfisáætlunar, t.d. í 4. tölul. um að „ekki verði ráðist í línulagnir yfir hálendið“ og í 10. tölul. um að „við val á línuleið fyrir raflínur skal gæta að verndarákvæðum friðlýstra svæða“.
    Með breytingartillögu þeirri sem hér er lögð fram er lagt til að nýtt áhersluatriði bætist við í A-lið þingsályktunarinnar, sem varðar mögulegar tengingar raforkukerfisins við raforkukerfi annarra landa.
    Tilefni breytingarinnar má rekja til þess að um nokkurra ára skeið hefur verið til skoðunar að tengja íslenska raforkukerfið við raforkukerfi annarra landa. Hefur þar fyrst og fremst verið horft til Bretlands. Má þar meðal annars vísa til skýrslna sem starfshópur á vegum stjórnvalda skilaði í júlí 2016 þar sem fram komu ýmsar greiningar varðandi raforkusæstreng á milli Íslands og Evrópu.
    Með hliðsjón af umfangi slíks verkefnis og þeim miklu áhrifum sem ákvörðun þar um getur haft á mikilvæga almannahagsmuni er talið eðlilegt og nauðsynlegt að tekinn sé af allur vafi um að Alþingi þurfi að koma að ákvörðunartöku um hvort í slíkt verkefni skuli ráðist. Áður en leitað verður eftir afstöðu Alþingis, komi til þess, er rétt að fram fari ítarleg og heildstæð kostnaðar- og ábatagreiningu þar sem lagt er mat á umhverfisleg, samfélagsleg og efnahagsleg áhrif tengingar með sæstreng og framkvæmda innanlands sem henni tengjast. Til að undirstrika þetta er talið rétt að kveða sérstaklega á um það í fyrirliggjandi þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, sem samþykkt var sem áður segir á Alþingi 11. júní 2018.
    Frá því að skýrslum starfshóps verkefnisstjórnar sæstrengs var skilað til þáverandi ríkisstjórnar í júlí 2016 hefur lítið verið unnið að frekari skoðun á þeim möguleika að tengja raforkukerfi Íslands við raforkukerfi Evrópu með sæstreng. Ýmis atriði þarf að kanna nánar varðandi slíkt verkefni, eins og nánar er bent á og gerð grein fyrir í framangreindum skýrslum. Með breytingartillögu þessari er aðkoma Alþingis að slíkri ákvarðanatöku undirstrikuð.
    Almennt er litið svo á að ákvörðun um hvort íslenska raforkukerfið verði einhvern tímann tengt við raforkukerfi annars lands sé ávallt alfarið á forræði íslenskra stjórnvalda. Með því að fela Alþingi að taka afstöðu á grundvelli mats á áhrifum tengingar út frá umhverfislegum, samfélagslegum og efnahagslegum sjónarmiðum er litið svo á að ekki sé farið gegn skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum.
    Bent hefur verið á að innleiðing þriðja orkupakka ESB leggur engar skyldur á herðar Íslandi að samþykkja hugsanlegan sæstreng. Um efnisatriði þriðja orkupakka ESB vísast almennt til tillögu utanríkisráðherra til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sam-eiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 frá 5. maí 2017 um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.
    Enginn vafi leikur á því að íslensk stjórnvöld ákveða hvaða innlendi aðili veitir leyfi fyrir slíkum streng og á hvaða forsendum. Nefna má að í yfirlýsingu norskra stjórnvalda í tengslum við innleiðingu þriðja orkupakkans er skýrt tekið fram að ákvörðun um lagningu nýrra sæstrengja sé ávallt á forræði norskra stjórnvalda („Any decision on new interconnectors must remain a sovereign decision that is made by the Norwegian authorities.“). Hið sama gildir um Ísland. Því er óhugsandi að sæstrengur yrði lagður til landsins gegn vilja Íslendinga og það er á valdi íslenskra stjórnvalda að ákveða hvort heimila skuli að leggja, eiga og reka raforkusæstreng til og frá Íslandi.
    Í norskum raforkulögum er krafist sérstaks leyfis ráðherra fyrir því að eiga og reka millilandatengingar. Við mat á því hvort leyfið er veitt skal taka mið af efnahags- og samfélagslegum áhrifum framkvæmdarinnar. Leyfi til að eiga og reka millilandatengingar er til viðbótar við þau leyfi sem almennt þarf til að byggja, eiga og reka flutningsvirki samkvæmt norskum lögum.
    Hvað varðar forsendur fyrir slíkri ákvörðun varðar þá skiptir máli að sveitarfélög á Íslandi fara með skipulagsvald og hafa á þeim forsendum ákvörðunarvald um hvaða uppbygging skuli leyfð og á hvaða forsendum. Í því sambandi koma óhjákvæmilega til skoðunar þættir eins og áhrif á umhverfi, samfélag o.fl.
    Verði slík ákvörðun tekin á einhverjum tímapunkti er jafnframt ljóst að gera þarf ýmsar breytingar á lögum varðandi leyfisveitingar fyrir slíkri framkvæmd, sem og varðandi atriði er lúta að rekstri og eignarhaldi á slíkri framkvæmd og mannvirkjum hennar. Fjölda leyfa innlendra stofnana þarf fyrir slíkri framkvæmd og þyrfti að fara mjög ítarlega í gegnum þá þætti málsins á vettvangi Alþingis.
    Að sama skapi er ljóst að ekki verður unnt að taka slíka ákvörðun nema að lokinni ítarlegri kostnaðar- og ábatagreiningu þar sem farið er yfir öll áhrif þess að íslenska raforkukerfið tengist við raforkukerfi annars lands. Nær það jafnt til efnahagslegra, umhverfislegra og samfélagslegra áhrifa.
    Efnisatriði þeirrar breytingartillögu sem hér er lögð fram lúta að því að ná yfir framangreint. Í fyrsta lagi verði tekið skýrt fram í þingsályktuninni að ekki verði ráðist í tengingu íslenska raforkukerfisins við raforkukerfi annars lands nema að undangengnu samþykki Alþingis. Í öðru lagi er með breytingartillögunni kveðið á um að áður en framkvæmdir sem varða slíka tengingu fara á þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar Landsnets skuli fara fram heildstæð kostnaðar- og ábatagreiningu á áhrifum slíkrar framkvæmdar. Er hér undirstrikað að lokaorðið í slíkri ákvarðanatöku er ávallt á hendi Alþingis. Að sama skapi er þetta í samræmi við hlutverk og stöðu kerfisáætlunar lögum samkvæmt, sem og þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
    Samþykki Alþingis er því samkvæmt tillögunni nauðsynlegur undanfari þess að unnt sé að óska eftir heimildum frá stjórnvöldum vegna framkvæmdarinnar, í samræmi við lög hverju sinni.
    Taka ber fram að til að fylgja framangreindu ferli eftir, ef að því kemur, þyrfti að gera ýmsar breytingar á lögum. Ekki er tímabært að leggja slíkt frumvarp fram fyrr en áform liggja fyrir um að leggja ákvörðun um tengingu með sæstreng fyrir Alþingi. Könnun á því að leggja raforkusæstreng frá Íslandi til Evrópu er ekki komin á það stig.
    Verði breytingartillagan samþykkt mun það ekki hafa áhrif á einstaka hagsmunaaðila umfram aðra. Segja má að hagsmunaaðilar tillögunnar séu öll íslenska þjóðin þar sem markmið breytingarinnar er að undirstrika að Alþingi hafi úrslitavald varðandi ákvörðun um hvort tengja eigi íslenska raforkukerfið við raforkukerfi annarra landa. Tillagan er því lögð fram með almannahagsmuni að leiðarljósi.