Ferill 811. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1279  —  811. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um niðurfellingu ábyrgða á eldri námslánum.


Flm.: Logi Einarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Einar Kárason, Guðjón S. Brjánsson, Helga Vala Helgadóttir, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að fella niður ábyrgðir á námslánum sem veitt voru fyrir 31. júlí 2009.

Greinargerð.

    Fram til 2009 þurfti námsmaður sem hugðist taka námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna að fá einhvern annan, t.d. foreldri, ættingja eða maka, til að ábyrgjast lánið.
    Með lögum nr. 78/2009, um breyting á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, var fallið frá því að krefja lántakendur um ábyrgðir á lánum þeirra nema í þeim tilfellum þegar námsmaður teldist ekki lánshæfur. Þrátt fyrir þetta var ákveðið að aflétta ekki ábyrgðum af lánum veittum fyrir lagabreytingarnar. Röksemdin fyrir þessu ósamræmi var fjárhagsleg þar sem talið var að afnám ábyrgðarmannakerfisins gæti komið niður á innheimtuhlutfalli lánanna.
    Mörg dæmi eru um að ábyrgð á eldri lánum hafi valdið fólki alls konar vandræðum jafnvel áratugum eftir að skrifað var undir og tengsl milli lántakanda og ábyrgðarmanns jafnvel gerbreyst.
    Að undanförnu hafa auk þess fallið dómar sem leiða í ljós vankanta á núgildandi fyrirkomulagi. Þeir hafa t.d. leitt í ljós að ábyrgðarmenn námslána njóta ekki jafnræðis við ábyrgðarmenn annars konar lána í fjármálakerfinu.
    Í athugasemdum við frumvarp til framangreindra breytingalaga kom fram það sjónarmið að krafan um ábyrgðarmenn samræmdist tæplega þeim tilgangi laga um lánasjóðinn að tryggja jafnrétti til náms því að ekki gætu allir námsmenn útvegað ábyrgðarmann. Samt var ákveðið að sjálfskuldarábyrgð ábyrgðarmanna yrði áfram virk á útistandandi námslánum.
    Núverandi ástand er ótæk mismunun og ekki í samræmi við félagslegt jöfnunarhlutverk sjóðsins. Því er réttlætismál að ábyrgðir á eldri námslánum verði felldar niður.