Ferill 570. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Nr. 19/149.

Þingskjal 1286  —  570. mál.


Þingsályktun

um breytingu á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands, nr. 13/144.


    Alþingi ályktar að eftirfarandi breytingar verði gerðar á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands, nr. 13/144:
     1.      C-liður 1. mgr. orðist svo: verkefni sem er ætlað að vinna gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni, kynbundnu ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum.
     2.      Á eftir c-lið 1. mgr. komi fjórir nýir stafliðir, d–g-liður, svohljóðandi, og breytist röð annarra liða samkvæmt því:
                  d.      verkefni sem stuðla að fræðslu og forvörnum með það að markmiði að útrýma kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi,
                  e.      verkefni sem stuðla að fræðslu og forvarnastarfi fyrir ungt fólk um ofbeldi, áreitni og einelti og orðræðu sem ýtir undir slíkt,
                  f.      verkefni sem stuðla að fræðslu fyrir ungt fólk um ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms og kynbundins ofbeldis,
                  g.      verkefni sem stuðla að aukinni þekkingu á vörnum og samræmdum viðbrögðum við ofbeldi í nánum samböndum.
     3.      2. mgr. orðist svo:
                  Ráðherra sem fer með jafnréttismál skipi sjóðstjórn til ársloka 2020, þrjá aðalmenn og þrjá til vara. Einn skal tilnefndur af Samstarfsnefnd háskólastigsins, einn af Jafnréttisstofu og einn án tilnefningar sem jafnframt verði formaður sjóðsins. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
     4.      7. mgr. orðist svo:
                  Stjórnsýsla Jafnréttissjóðs Íslands, þ.m.t. varsla sjóðsins og dagleg umsýsla hans, verði hjá Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands.
     5.      Í stað orðsins „Forsætisráðherra“ í 8. mgr. komi: Ráðherra sem fer með jafnréttismál.

Samþykkt á Alþingi 2. apríl 2019.