Ferill 13. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1301  —  13. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit með frávísunartillögu


um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Sigríði Björk Guðjónsdóttur og Rannveigu Þórisdóttur frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Hjördísi Evu Þórðardóttur frá UNICEF, Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur og Rafn M. Jónsson frá embætti landlæknis og Salvöru Nordal og Guðríði Bolladóttur frá embætti umboðsmanns barna.
    Umsagnir bárust frá embætti landlæknis, embætti umboðsmanns barna, Félagi fósturforeldra, Landspítalanum, Landssamtökunum Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Miðstöð foreldra og barna ehf., Öryrkjabandalagi Íslands, Persónuvernd, Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, Umhyggju, félagi langveikra barna, og Ungmennafélagi Íslands.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun til þess að styrkja stöðu barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra hér á landi. Tillögurnar eru settar fram í sjö köflum og 49 liðum og innihalda aðgerðir þess til að bæta afkomu barnafjölskyldna, styðja við uppeldi og efla forvarnir.
    Með lögum um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 19/2013, var barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna lögfestur. Í almennum athugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um innleiðingu sáttmálans, nr. 5/2003, áréttar nefndin nauðsyn þess að aðildarríkin setji sér samræmda og heildstæða aðgerðaáætlun sem þau vinni samkvæmt í þeim tilgangi að styrkja og tryggja virðingu fyrir réttindum barna. Er vísað til þess m.a. að í slíkri aðgerðaáætlun skuli tekið mið af aðstæðum allra barna og skuli í því sambandi sérstaklega litið til þess hvernig megi styrkja stöðu viðkvæmra hópa. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að íslenska ríkið hefði ekki sett sér slíka aðgerðaáætlun. Hins vegar kom fram að þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra hefði skipað samráðsnefnd þingmanna sem hefði verið falið að endurskoða barnaverndarlög og leggja til aðrar breytingar sem kynnu að vera nauðsynlegar til að skapa heildarsýn í málefnum barna og þjónustu við þau. Telur nefndin að þær hugmyndir sem fram koma í þingsályktunartillögunni samræmist þeim verkefnum sem þingmannanefndinni hafa verið falin. Í samræmi við ábendingar barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna telur nefndin þó mikilvægt að þróun í málefnum barna birtist með skýrum hætti í fjármagnaðri aðgerðaáætlun sem unnin verði í samráði allra ráðuneyta til þess að tryggja að hugmyndir að úrbótum komi til framkvæmda og íslenska ríkið geti staðið að fullu við skuldbindingar sínar samkvæmt barnasáttmálanum.
    Í þingsályktunartillögunni er lagt til að ríkisstjórnin vinni slíka aðgerðaáætlun í málefnum barna. Tillagan er yfirgripsmikil og stefnir að því að bæta afkomu barnafjölskyldna, styðja við uppeldi og efla forvarnir. Lagðar eru til tillögur að úrbótum í þágu barna og ungmenna með þroskafrávik og geðraskanir, langveikra barna, innflytjenda, barna og ungmenna sem glíma við vímuefnavanda eða hegðunarvanda og til að vernda börn gegn heimilisofbeldi, kynferðisbrotum og vanrækslu.
    Þótt nefndin taki undir þau sjónarmið sem fram koma í þingsályktunartillögunni telur nefndin rétt að efni hennar verði nýtt við vinnu ríkisstjórnarinnar við að bregðast við athugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Undirstrikar nefndin í því sambandi almennar athugasemdir barnaréttarnefndarinnar, nr. 5/2003, um að unnin skuli aðgerðaáætlun í málefnum barna.Telur nefndin nauðsynlegt að ríkisstjórnin vinni þá aðgerðaáætlun svo tryggja megi þverfaglegt samráð allra ráðuneyta.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Guðjón S. Brjánsson, framsögumaður, og Vilhjálmur Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 3. apríl 2019.

Halldóra Mogensen,
form.
Guðjón S. Brjánsson,
frsm.
Ólafur Þór Gunnarsson.
Andrés Ingi Jónsson. Anna Kolbrún Árnadóttir. Guðmundur Ingi Kristinsson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Vilhjálmur Árnason.