Ferill 657. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1306  —  657. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 64/2018 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pétur Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti og Ernu Hjaltested, Gunnlaug Helgason og Mörtu Margréti Rúnarsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 64/2018 frá 23. mars 2018 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og að fella inn í samninginn eftirtaldar gerðir:
     1.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 345/2013 frá 17. apríl 2013 um evrópska áhættufjármagnssjóði.
     2.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 346/2013 frá 17. apríl 2013 um evrópska félagslega framtakssjóði.
     3.      Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 593/2014 frá 3. júní 2014 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar form tilkynninga skv. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 345/2013 um evrópska áhættufjármagnssjóði.
     4.      Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 594/2014 frá 3. júní 2014 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar form tilkynninga skv. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 346/2013 um evrópska félagslega framtakssjóði.
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 24. september 2019. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Með reglugerðum (ESB) nr. 345/2013 og 346/2013 er komið á samræmdu regluverki um evrópska félagslega framtakssjóði og áhættufjármagnssjóði. Markmið reglugerðar (ESB) nr. 345/2013 er að stuðla að vexti og nýsköpun lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá er markmið reglugerðar (ESB) nr. 346/2013 að auðvelda fjárfestum sem vilja fjárfesta í fyrirtækjum með félagsleg markmið að finna og velja evrópska félagslega framtakssjóði.
    Reglugerðir (ESB) nr. 593/2014 og 594/2014 kveða á um nánari útfærslu á reglugerðum (ESB) nr. 345/2013 og 346/2013 og mæla fyrir um form tilkynninga eftirlitsstjórnvalds heimaaðildarríkis evrópsks áhættufjármagnssjóðs til eftirlitsstjórnvalds í gistiríki, á milli eftirlitsstjórnvalda og frá eftirlitsstjórnvaldi til Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar (ESMA).

    Innleiðing reglugerðanna kallar á lagabreytingar og er gert ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðherra leggi á komandi löggjafarþingi fram frumvarp til innleiðingar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 3. apríl 2019.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Logi Einarsson, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Gunnar Bragi Sveinsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Smári McCarthy. Þorgerður K. Gunnarsdóttir.