Ferill 658. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1307  —  658. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pétur Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti og Ernu Hjaltested, Gunnlaug Helgason og Mörtu Margréti Rúnarsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2019 frá 8. febrúar 2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/751 frá 29. apríl 2015 um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur.
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 9. ágúst 2019. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Reglugerðinni er ætlað að lækka kostnað söluaðila og neytenda, bæta samkeppni og stuðla að samþættingu greiðslukortamarkaða þvert á landamæri innan Evrópu. Í reglugerðinni eru sett hámörk á milligjöld sem færsluhirðar greiða kortaútgefendum vegna notkunar neytendagreiðslukorta, 0,2% af fjárhæð greiðslu vegna debetkorta og 0,3% vegna kreditkorta. Þá er kveðið á um bann við svæðisbundnum takmörkunum í leyfissamningum eða í reglum um greiðslukortakerfi og mælt fyrir um aðskilnað greiðslukortakerfa og vinnsluaðila, aukin úrræði korthafa og söluaðila til að ákveða greiðslumáta, sundurliðun þjónustugjalda færsluhirða og upplýsingagjöf færsluhirða til söluaðila.
    Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar og hefur fjármála- og efnahagsráðherra lagt fram frumvarp til innleiðingar á gerðinni.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 3. apríl 2019.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, form. Bryndís Haraldsdóttir, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. Logi Einarsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Smári McCarthy. Þorgerður K. Gunnarsdóttir.