Ferill 539. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
2. uppprentun.

Þingskjal 1446  —  539. mál.
Undirskriftir.

Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristin F. Árnason, Katrínu Einarsdóttur og Davíð Loga Sigurðsson frá utanríkisráðuneyti, Birnu Guðmundsdóttur frá Íslandsdeild Amnesty International og Daníel E. Arnarsson frá Samtökunum '78. Þá barst nefndinni umsögn frá Íslandsdeild Amnesty International.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja sem undirritaður var í Bern í Sviss 28. apríl 2016.
    Í greinargerð með tillögunni kemur fram að fríverslunarsamningurinn við Filippseyjar kveður á um gagnkvæma niðurfellingu og lækkun tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar og óunnar landbúnaðarvörur. Þannig munu tollar á flestallar sjávarafurðir og iðnaðarvörur, sem fluttar eru út frá Íslandi til Filippseyja, falla niður og sama á við um helstu landbúnaðarvörur sem framleiddar eru hér á landi til útflutnings.
    Fríverslunarsamningurinn er af svokallaðri þriðju kynslóð fríverslunarsamninga og inniheldur ákvæði um vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjárfestingar, verndun hugverkaréttar, opinber innkaup, samkeppnismál og viðskipti og sjálfbæra þróun, auk hefðbundinna ákvæða um sameiginlega nefnd samningsaðila og lausn deilumála.
    Þá segir í greinargerð að útflutningur frá Íslandi til Filippseyja hafi verið lítill, eða sem nemur 30–100 millj. kr. á ári. Hefur þar fyrst og fremst verið um að ræða útflutning á tækjabúnaði, einkum vogum og búnaði í tengslum við jarðboranir, auk lítils háttar útflutnings á heilfrystum makríl. Einnig hafa íslenskir aðilar í talsverðum mæli selt þjónustu sína og þekkingu vegna rannsókna og nýtingar jarðhita á Filippseyjum. Innflutningur frá Filippseyjum hefur á undanförnum árum numið um 300–500 millj. kr. á ári. Með gagnkvæmri niðurfellingu og lækkun tolla skapast forsendur fyrir auknum viðskiptum milli landanna.
    Hin EFTA-ríkin, Noregur, Liechtenstein og Sviss, hafa þegar fullgilt fríverslunarsamninginn við Filippseyjar og tók hann gildi á milli þeirra 1. júní 2018.
    Við umfjöllun nefndarinnar um málið og í umsögn og máli gesta komu fram þungar áhyggjur af stöðu mannréttindamála á Filippseyjum í kjölfar þess að Rodrigo Roa Duterte tók við embætti forseta landsins í júní 2016. Fram kom hjá Amnesty International að víðtæk mannréttindabrot væru framin af hálfu og í nafni stjórnvalda á Filippseyjum og að í ársskýrslu samtakanna fyrir 2017–2018 væri m.a. fjallað um aftökur án dóms og laga í nafni herferðar gegn eiturlyfjum, árásir á baráttufólk fyrir mannréttindum, heft tjáningarfrelsi og pyndingar og illa meðferð í fangelsum landsins.
    Fram komu ólík sjónarmið um réttmæti þess að gera fríverslunarsamning við ríki þar sem ástand mannréttinda er jafnbágborið og á Filippseyjum. Með einföldun má segja að annars vegar hafi það sjónarmið komið fram að neitun um gerð slíkra samninga setji þrýsting á ríki sem brjóta mannréttindi sem getur leitt til bóta ef viðkomandi ríki leggja áherslu á aðgang að erlendum mörkuðum og hindranalaus alþjóðaviðskipti. Hins vegar var því sjónarmiði haldið á lofti að frjáls viðskipti milli ríkja geti stuðlað að úrbótum í lýðræðis- og mannréttindamálum. Fríverslunarsamningar bæti hag almennings í samningsríkjum og vinni gegn einangrunarstefnu auk þess sem slíkum samningum fylgi aukin samskipti og tækifæri til að koma á framfæri afstöðu Íslands varðandi lýðræði og mannréttindi.
    Meiri hlutinn bendir á að í formálsorðum samningsins er áréttuð skuldbinding samningsríkjanna til að styðja við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar að þjóðarétti, m.a. í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Þá skal bent á að sérstakur kafli í samningnum fjallar um viðskipti og sjálfbæra þróun eins og tíðkast hefur í nýlegum fríverslunarsamningum EFTA. Samningsaðilar viðurkenna að efnahagsleg þróun, félagsleg þróun og umhverfisvernd séu sjálfstæðir þættir sem styðja með gagnkvæmum hætti við sjálfbæra þróun. Samningsaðilar árétta einnig skyldur sínar til að virða, efla og framkvæma þær meginreglur um grundvallarréttindi sem er að finna í yfirlýsingu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um grundvallarviðmið og réttindi við vinnu og í áréttingu hennar sem Alþjóðavinnumálaþingið samþykkti árið 1998.
    Loks bendir meiri hlutinn á að Íslandsdeild Amnesty International er ekki mótfallin fríverslunarsamningi EFTA og Filippseyja og leggst ekki gegn fyrirliggjandi þingsályktunartillögu um fullgildingu hans. Það gera Samtökin '78 heldur ekki. Hins vegar skorar Íslandsdeild Amnesty International í umsögn sinni á íslensk stjórnvöld að nýta þau tækifæri sem gefast til að vekja athygli á slæmri stöðu mannréttindamála á Filippseyjum og hvetja þarlend stjórnvöld – þar á meðal í tengslum við umræddan fríverslunarsamning og framkvæmd hans – til að gera úrbætur í þeim málum. Meiri hlutinn tekur undir með Íslandsdeild Amnesty International og leggur ríka áherslu á það að íslensk stjórnvöld haldi á lofti stöðu mannréttinda á Filippseyjum eins og þau hafa gert að undanförnu á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna og hvetji áfram til tafarlausra úrbóta, jafnt í samskiptum við stjórnvöld á Filippseyjum sem og á alþjóðlegum vettvangi þar sem fjallað er um mannréttindamál. Þá hvetur meiri hlutinn til þess að stjórnvöld nýti sameiginlega nefnd EFTA og Filippseyja, sem komið er á fót með fríverslunarsamningnum, til að taka upp mannréttindamál þegar við á.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Ari Trausti Guðmundsson, Logi Einarsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Fyrirvari Ara Trausta Guðmundssonar lýtur að stöðu mannréttindamála á Filippseyjum.
    Gunnar Bragi Sveinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 6. maí 2019.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Gunnar Bragi Sveinsson,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson,
með fyrirvara.
Bryndís Haraldsdóttir. Logi Einarsson,
með fyrirvara.
Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir,
með fyrirvara.