Ferill 413. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1551  —  413. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð, nr. 130/2016, með síðari breytingum (launafyrirkomulag).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnar Björnsson, Björn Rögnvaldsson og Pétur Jónasson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Henný Hinz frá Alþýðusambandi Íslands, Þórunni Sveinbjarnardóttur og Georg Brynjólfsson frá Bandalagi háskólamanna, Hrannar Má Gunnarsson frá BSRB, Konráð Guðjónsson og Ísak Rúnarsson frá Viðskiptaráði Íslands, Ninnu Sif Svavarsdóttur og Bryndísi Möllu Elídóttur frá Prestafélagi Íslands, Úlfar Lúðvíksson frá Lögreglustjórafélagi Íslands, Kjartan Bjarna Björgvinsson frá Dómarafélagi Íslands, Ástu Þórarinsdóttur og Önnu Mjöll Karlsdóttur frá Fjármálaeftirlitinu, Guðrúnu S. Gunnarsdóttur og Sigríði Logadóttur frá Seðlabanka Íslands og Hrafnhildi Arnkelsdóttur og Margréti Indriðadóttur frá Hagstofu Íslands. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Dómarafélagi Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Kennarasambandi Íslands, Lögreglustjórafélagi Íslands, Prestafélagi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Seðlabanka Íslands, Sigurði Ólafssyni og Viðskiptaráði Íslands. Þá barst nefndinni minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Með frumvarpinu er komið á breyttu fyrirkomulagi við ákvörðun laun þeirra sem féllu undir úrskurðarvald kjararáðs samkvæmt lögum nr. 130/2016 sem felld voru úr gildi með lögum nr. 60/2018. Lagt er til að laun þjóðkjörinna manna annars vegar og dómara, saksóknara, ráðherra, ráðuneytisstjóra, ríkissáttasemjara, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra hins vegar verði ákvörðuð með fastri krónutölufjárhæð og þau síðan endurákvörðuð 1. júlí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.
    Frumvarpið byggist á tillögum starfshóps sem forsætisráðherra skipaði í samráði við aðila vinnumarkaðarins í janúar 2018. Starfshópurinn bar saman fyrirkomulag um ákvörðun launa hjá kjörnum fulltrúum, dómurum og embættismönnum í nágrannalöndum og lagði fram tillögur að breyttu fyrirkomulagi með það að markmiði að skapa meiri sátt um ákvörðun launa þeirra sem stöðu sinnar vegna njóta ekki samningsréttar til framtíðar.
    Með fyrirkomulaginu sem lagt er til í frumvarpinu er komið í veg fyrir að laun æðstu embættismanna eða kjörinna fulltrúa verði leiðandi um þróun launa. Þess í stað taki laun hlutfallslegum breytingum í samræmi við þróun meðaltals reglulegra launa starfsmanna ríkisins næstliðið ár. Þannig er unnið gegn því að misræmi skapist í launaþróun. Þar sem laun þeirra hópa sem frumvarpið nær til verða endurskoðuð árlega samkvæmt framangreindum forsendum eykst jafnframt gagnsæi og fyrirsjáanleiki launanna.

Breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar.
    Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á frumvarpinu og eru þær í samræmi við ábendingar aðila vinnumarkaðarins og fleiri aðila.

Launahækkun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna.
    Í fyrsta lagi leggur meiri hlutinn til að í bráðabirgðaákvæði verði kveðið á um að laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna taki ekki breytingum fyrr en 1. janúar 2020 og þá í samræmi við þróun á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna árið 2018. Frá og með 1. júlí 2021 taki laun þessara aðila breytingum 1. júlí ár hvert líkt og mælt er fyrir um í frumvarpinu. Þetta gildi þó ekki um laun dómara og þeirra er fara með ákæruvald en laun þeirra skulu taka breytingum strax 1. júlí 2019 og árlega þaðan í frá líkt og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Lögreglustjórar.
    Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til breytingar á frumvarpinu sem miða að því að launafyrirkomulagið sem þar er mælt fyrir um gildi um laun lögreglustjóra líkt og annarra ákærenda sem taldir eru upp í 1. málsl. 1. mgr. 18. gr. laga um meðferð sakamála. Meiri hlutinn leggur áherslu á að við ákvörðun launa dómara og handhafa ákæruvalds verður að gæta að sérstöðu þeirra og tryggja starfskjör og sjálfstæði þeirra gagnvart öðrum greinum ríkisvaldsins.
    Laun lögreglustjóra voru endurmetin í grunnmati starfa forstöðumanna sem tók gildi 1. janúar sl. og hækkuðu laun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Suðurnesjum vegna þessa. Til að gæta samræmis við aðra lögreglustjóra leggur meiri hlutinn til að í ákvæði til bráðabirgða komi fram að fyrsta launabreyting þessara tveggja embætta eftir gildistöku frumvarpsins taki mið af heildarlaunum áður en til hækkunar samkvæmt grunnmati kom. Leiði sú niðurstaða til lægri launa en þeirra sem nú eru skulu þau haldast óbreytt þar til næsta breyting verður gerð, þ.e. 1. júlí 2020.

Tíðni launahækkana.
    Í þriðja lagi leggur meiri hlutinn til þá breytingu á ýmsum greinum frumvarpsins að heimild ráðherra til að ákveða að laun hækki hlutfallslega 1. janúar ár hvert til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins, sbr. einnig 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í frumvarpinu, falli brott. Skýrt verði að laun skuli aðeins taka breytingum 1. júlí ár hvert í samræmi við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna á næstliðnu ári samkvæmt birtum útreikningum Hagstofunnar. Með þessu vill meiri hlutinn annars vegar koma í veg fyrir að laun ráðamanna og æðstu embættismanna hækki tvisvar á ári og hins vegar tryggja að hækkun launa miðist aðeins við staðfesta útreikninga Hagstofunnar en ekki áætlanir.

Kjör presta.
    Í fjórða lagi leggur meiri hlutinn til breytingu á 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í frumvarpinu sem varðar kjör presta og annarra fulltrúa þjóðkirkjunnar sem taldir eru upp í 60. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Í ákvæðinu er tekið fram að laun þessara aðila skuli ekki taka breytingum fyrr en samkomulag næst við þjóðkirkjuna um breytt fyrirkomulag um framlög ríkisins til hennar. Dráttur hefur orðið á að slíkt samkomulag náist. Því leggur meiri hlutinn til, að höfðu samráði við ráðuneytið, að kveðið verði á um að laun þessara aðila, sem tóku síðast breytingum samkvæmt ákvörðun kjararáðs frá 17. desember 2017, breytist 1. júlí ár hvert samkvæmt sömu aðferð og önnur laun sem kveðið er á um í frumvarpinu þar til nýtt samkomulag milli ríkis og kirkju hefur náðst.

Starfskjör ráðherra.
    Nefndinni hafa borist ábendingar um að tilefni sé til að gera breytingar á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað annars vegar og lögum um Stjórnarráð Íslands hins vegar til að skýra til hlítar verkaskiptingu milli Alþingis og Stjórnarráðsins þegar kemur að greiðslu starfskostnaðar, þ.m.t. ferðakostnaðar, ráðherra. Í 1. mgr. 5. gr. laga um þingfararkaup og þingfararkostnað, sbr. 23. gr. laga nr. 141/2003, segir að ráðherra eigi rétt til greiðslna samkvæmt lögunum að undanskildum 7. gr. og 1. mgr. 9. gr. þeirra, en þær greinar varða ferðakostnað innan lands og kostnað vegna skrifstofu og nauðsynlegs búnaðar. Í 8. gr. laganna kemur fram að Alþingi greiði kostnað við ferðir þingmanna á vegum þingsins til útlanda og skv. 2. mgr. 9. gr. skal endurgreiða þingmönnum annan starfskostnað samkvæmt reglum sem forsætisnefnd setur. Í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 141/2003, þar sem 5. gr. laga um þingfararkaup var breytt, kom m.a. fram að lagt væri til að lögfesta þá venju að Alþingi greiddi ekki ferðakostnað ráðherra.
    Til að taka af allan vafa um að ráðherra eigi rétt til greiðslna ferðakostnaðar innan lands sem utan frá því ráðuneyti sem hann fer með, en ekki frá Alþingi, óháð því hvort um er að ræða embættisferð eða ferð í stjórnmálalegum tilgangi eða hvort tveggja í senn, og óháð því hvort ráðherra er kjörinn alþingismaður eða ekki, leggur meiri hlutinn til að 8. gr. og 2. mgr. 9. gr. laga um þingfararkaup bætist við upptalningu þeirra ákvæða sem ráðherra á ekki rétt til greiðslna samkvæmt, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Samhliða bætist ákvæði við lög um Stjórnarráð Íslands þess efnis að ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins setji almennar reglur um starfskostnað og önnur starfskjör ráðherra í samráði við forsætisráðherra og að í þeim reglum skuli gæta samræmis við ákvæði laga um þingfararkaup og reglna sem forsætisnefnd Alþingis setur á grundvelli þeirra um rétt alþingismanna og formanna stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi.

Aðrar breytingar.
    Auk framangreinds leggur meiri hlutinn til breytingu til leiðréttingar á 9. gr. frumvarpsins þar sem viðbót við úrskurð kjararáðs um laun og starfskjör héraðssaksóknara, varahéraðssaksóknara og saksóknara við embætti héraðssaksóknara, sem bókað var um með bréfi dags. 19. júní 2018, lá ekki ljós fyrir þegar frumvarpið var samið. Í bókuninni kemur fram ákvörðun kjararáðs um laun og starfskjör saksóknara við embætti héraðssaksóknara sem jafnframt stýra sviði eða skrifstofu. Leggur meiri hlutinn til að sú launafjárhæð sem þar var ákveðin bætist við 1. efnismgr. 9. gr. frumvarpsins.
    Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku skjali.

Alþingi, 17. maí 2019.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Hanna Katrín Friðriksson. Bryndís Haraldsdóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Sigríður Á. Andersen. Silja Dögg Gunnarsdóttir.