Ferill 791. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 1554  —  791. mál.
Leiðréttur texti.

Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Birgi Tjörva Pétursson og Ólaf Jóhannes Einarsson, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Erlu Sigríði Gestsdóttur og Ingva Má Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur frá utanríkisráðuneyti, Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jón Ingimarsson og Geir Arnar Marelsson frá Landsvirkjun, Guðmund Inga Ásmundsson og Guðjón Axel Guðjónsson frá Landsneti, Pál Erland og Baldur Dýrfjörð frá Samorku – samtökum orku- og veitufyrirtækja, Valdimar Össurarson frá Valorku ehf., Pétur Reimarsson og Davíð Þorláksson frá Samtökum atvinnulífsins, Sigurð Hannesson og Lárus Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins, Hilmar Gunnlaugsson og Viðar Guðjohnsen, Frosta Sigurjónsson, Bjarna Jónsson og Harald Ólafsson frá samtökunum Orkan okkar, Hönnu Björgu Konráðsdóttur, Guðmund I. Bergþórsson og Rán Jónsdóttur frá Orkustofnun, Hjört Torfason og Eyjólf Ármannsson.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Bjarna Jónssyni, Eyjólfi Ármannssyni, Heimssýn, Hilmari Gunnlaugssyni, HS Orku hf., Landsneti hf., Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samorku – samtökum orku- og veitufyrirtækja, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Umhverfisstofnun og Valorku ehf.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að gerð verði breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Fyrir nefndinni var getið um stjórnskipuleg álitamál tengd innleiðingu þriðja orkupakka ESB. Þau heyra ekki efnislega undir nefndina og hafa fengið umfjöllun fyrir utanríkismálanefnd. Verður því ekki fjallað um þau atriði hér.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið með og á móti lagningu sæstrengs. Meiri hlutinn telur rétt að taka fram að með þingsályktunartillögu þessari er einungis verið að árétta að ákvörðunarvald um slíka framkvæmd liggur hjá Alþingi. Auk þess munu fjölmargir aðrir aðilar þurfa að koma að undirbúningi slíkrar ákvörðunar, jafnt opinberir sem einkaaðilar. Við það munu verða skoðaðir þættir eins og áhrif á umhverfi, samfélag o.fl. Fjölda leyfa innlendra stofnana þarf fyrir slíkri framkvæmd og þyrfti að fara mjög ítarlega í gegnum þá þætti á vettvangi Alþingis.
    Meiri hlutinn telur að í ljósi mögulegs umfangs slíks verkefnis og þeirra miklu áhrifa sem ákvörðun þar um getur haft á mikilvæga almannahagsmuni sé eðlilegt og nauðsynlegt að Alþingi veiti samþykki fyrir því að í slíkt verkefni skuli ráðist. Meiri hlutinn áréttar að áður en leitað verður eftir samþykki Alþingis skal liggja fyrir ítarleg og heildstæð kostnaðar- og ábatagreining þar sem lagt er mat á umhverfisleg, samfélagsleg og efnahagsleg áhrif tengingar með sæstreng og þeirra framkvæmda innan lands sem henni tengjast.
    Haldið hefur verið fram að ákvörðunarvald um lagningu sæstrengs kunni að færast frá íslenskum stjórnvöldum og gildi þingsályktunartillögunnar dregið í efa. Meiri hlutinn fellst ekki á þau sjónarmið. Að mati meiri hlutans er orðalag þingsályktunartillögunnar skýrt og tekur af öll tvímæli þar að lútandi. Ákvörðunarvald um lagningu sæstrengs mun ávallt og einvörðungu vera í höndum íslenska ríkisins. Auk þess fer ríkið með óskoruð yfirráð yfir náttúruauðlindum landsins. Þá fylgir reglugerð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði sem fylgiskjal með áliti þessu.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við tillögugrein:
     a.      Í stað orðanna „í gegnum“ í 1. málsl. komi: um.
     b.      Í stað orðanna „slíkri ákvörðun Alþingis“ í 2. málsl. komi: ákvörðun um tengingu með sæstreng.

    Þorgerður K. Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 17. maí 2019.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson,
frsm.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.
Birgir Ármannsson. Halla Signý Kristjánsdóttir. Kolbeinn Óttarsson Proppé.



Fylgiskjal.


REGLUGERÐ
um innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 frá 13. júlí 2009 um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði.


1. gr.
Gildistaka reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009.

    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 frá 13. júlí 2009 um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, skal öðlast gildi hér á landi, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 frá 5. maí 2017 um breytingu á í IV. viðauka (Orka) samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með þeim viðbótum sem leiðir af reglugerð þessari og bókun 1 við EES-samninginn.
    Reglugerðin skal gilda með þeirri aðlögun sem fram kemur í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 og þeim fyrirvara sem fram kemur í 3. gr.

2. gr.
Tilvísun.

    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 frá 5. maí 2017 er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 11 frá 7. febrúar 2019, bls. 53, og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 31 frá 18. maí 2017, bls. 555.
    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 er birt sem fylgiskjal með reglugerð þessari.

3. gr.
Fyrirvari.

    Þar sem íslenska raforkukerfið er ekki tengt raforkukerfi annars lands, með grunnvirkjum yfir landamæri, koma ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 sem varða raforkutengingar milli landa ekki til framkvæmda á Íslandi á meðan slíkri tengingu hefur ekki verið komið á.
    Grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verða ekki reist nema að undangengnu samþykki Alþingis og endurskoðun á stjórnskipulegum lagagrundvelli reglugerðarinnar.

4. gr.
Lagastoð og gildistaka.

    Reglugerð þessi er sett með stoð í 45. gr. raforkulaga nr. 65/2003, með síðari breytingum. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.


Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, ______.

F.h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,