Ferill 409. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1631  —  409. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Broddadóttur og Lovísu Lilliendahl frá félagsmálaráðuneyti, Hinriku Söndru Ingimundardóttur frá dómsmálaráðuneyti, Ásthildi Knútsdóttur frá heilbrigðisráðuneyti, Jónu Pálsdóttur og Guðna Olgeirsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Magnús Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands, Dagnýju Ósk Aradóttur Pind frá BSRB, Þóru Jónsdóttur frá Barnaheillum, Sigríði Björnsdóttur og Gná Guðjónsdóttur frá Blátt áfram, Jennýju Ingudóttur, Rafn M. Jónsson og Guðrúnu Kristínu Guðfinnsdóttur frá embætti landlæknis, Þórunni Sveinbjörnsdóttur frá Landssambandi eldri borgara, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Guðríði Bolladóttur frá umboðsmanni barna, Auði Ingu Þorsteinsdóttur frá Ungmennafélagi Íslands, Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur frá Kvenréttindafélagi Íslands, Sigþrúði Guðmundsdóttur frá Samtökum um kvennaathvarf, Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur frá Stígamótum, Helgu Lind Mar og Þorra Líndal Guðnason fyrir hönd Druslugöngunnar, Árna Múla Jónasson frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Heiðdísi Lilju Magnúsdóttur frá Fjölmiðlanefnd, Fríðu Rós Valdimarsdóttur frá Jafnréttisstofu, Heiðrúnu Fivelstad og Þorbjörgu Þorvaldsdóttur frá Samtökunum '78, Kristínu I. Pálsdóttur frá Rótinni – félagi um málefni kvenna, Höllu Bergþóru Björnsdóttur frá lögreglunni á Norðurlandi eystra, Ásthildi Sturludóttur og Vilborgu Þórarinsdóttur frá Akureyrarbæ, Nichole Leigh Mosty frá Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, Sigrúnu Sigurðardóttur frá Háskólanum á Akureyri, Kolbrúnu Hrund Sigurgeirsdóttur og Helga Grímsson frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, Hönnu S. Gunnsteinsdóttur og Jóhann Friðrik Friðriksson frá Vinnueftirlitinu, Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ingu Amal Hasan og Þórð Sveinsson frá Persónuvernd, Ólaf Helga Kjartansson og Öldu Hrönn Jóhannsdóttur frá lögreglunni á Suðurnesjum, Kolfinnu Tómasdóttur frá Ungum athafnakonum, Erlu Kristínu Árnadóttur og Guðrúnu Eddu Guðmundsdóttur frá Fangelsismálastofnun, Ástu Glódísi V. Ágústsdóttur, Soffíu M. Kristjánsdóttur og Eydísi Ernu Guðmundsdóttur frá Ungmennaráði Samfés, Gerði Ævarsdóttur frá Ungmennaráði UNICEF, Þóreyju Guðmundsdóttur, Olgu Ólafsdóttur, Hjördísi Svan Aðalheiðardóttur og Sigrúnu Sif Jóelsdóttur frá Íslandsdeild gegn ofbeldi og Ingu Huld Ármann, Eið Axelsson Welding og Vigdísi Sóleyju Vignisdóttur frá ráðgjafarhópi umboðsmanns barna.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Akureyrarbæ, Alþýðusambandi Íslands, Barnaheillum, Blátt áfram, BSRB, Druslugöngunni, embætti landlæknis, Fjölmiðlanefnd, Háskólanum á Akureyri, Jafnréttisstofu, Kvenréttindafélagi Íslands, Landssambandi eldri borgara, Landssamtökunum Þroskahjálp, lögreglunni á Norðurlandi eystra, lögreglunni á Suðurnesjum, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Persónuvernd, Rótinni – félagi um málefni kvenna, SAFT – Samfélagi, fjölskyldu og tækni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, Samtökum um kvennaathvarf, Samtökunum '78, skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, Stígamótum, umboðsmanni barna, Ungmennafélagi Íslands, Ungum athafnakonum, Vinnueftirlitinu og Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar.
    Tillaga til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess er lögð fram á grundvelli samstarfsyfirlýsingar þriggja ráðherra frá 2014 sem var endurnýjuð árið 2017. Ný ríkisstjórn sem mynduð var síðar á árinu 2017 tók síðan við málinu. Þingsályktunartillagan er unnin í samstarfi dómsmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis (nú annars vegar félagsmálaráðuneytis og hins vegar heilbrigðisráðuneytis) og mennta- og menningarmálaráðuneytis. Hlutaðeigandi ráðuneyti bera ábyrgð á framkvæmd hennar eftir því sem við á. Félags- og barnamálaráðherra leggur tillögu þessa til þingsályktunar fram og ber á henni stjórnsýslulega ábyrgð.
    Með þingsályktunartillögu þessari er fjallað um alls 28 aðgerðir sem hafa það meginmarkmið að stuðla að vakningu um málefnin með forvörnum og fræðslu, bæta verklag og málsmeðferð innan réttarvörslukerfisins og efla stuðning við þolendur.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Með þingsályktunartillögunni er í fyrsta sinn lögð fram heildstæð áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess í íslensku samfélagi. Við meðferð málsins hafa verið reifuð ýmis ólík sjónarmið, en samhljómur var á meðal umsagnaraðila um mikilvægi þess að ráðast í stefnumótun af þessu tagi. Undanfarin missiri hefur ítrekað komið í ljós hversu rótgróið og víðtækt vandamál ofbeldi er.
    Á þeim fjórum árum sem vinna hefur staðið yfir við undirbúning áætlunarinnar hafa margar bylgjur riðið yfir samfélagið og vakið athygli á ólíkum birtingarmyndum ofbeldis, þær áhrifaríkustu á samfélagsmiðlum. Þar má nefna #MeToo, þar sem konur um allan heim greindu frá kynferðislegu ofbeldi og kynbundinni og kynferðislegri áreitni; einnig #FreeTheNipple, sem vakti máls á stafrænu kynferðisofbeldi; og sömuleiðis #þöggun og #konurtala, þar sem þolendur kynferðisofbeldis merktu sig með appelsínugulum andlitum á samfélagsmiðlum og gul andlit urðu táknmynd allra hinna sem þekkja þolendur kynferðisofbeldis. Þótt þessi áætlun fjalli um ofbeldi þá er rétt að geta þess að þessar samfélagsmiðlabylgjur náðu að vekja athygli á og sköpuðu umræðu um margvísleg samfélagsleg vandamál. Í tilfelli kynbundins ofbeldis og kynferðislegs ofbeldis byggðist umræðan á traustum grunni grasrótarstarfs á borð við Druslugönguna, sem hefur verið haldin árlega frá árinu 2011, og á grunni hinna ýmsu kvenréttindasamtaka sem hafa barist fyrir þeim sjálfsögðu mannréttindum fólks að lifa frjálst undan ofbeldi í samfélaginu.
    Þessi mikla breyting sem orðið hefur á umfjöllun um málaflokkinn á undanförnum árum endurspeglar hversu kvikur málaflokkurinn er og áherslur breytilegar. Nefndin telur að með samþykkt þessarar áætlunar verði komist nær því að draga saman á einn stað meginatriði baráttunnar gegn ofbeldi. Að mati nefndarinnar er með áætlun þessari aðeins tekið fyrsta skrefið í átt að samræmingu aðgerða. Jafnframt leggur nefndin áherslu á mikilvægi þess að verkefnisstjórn áætlunarinnar taki mið af þeim áherslubreytingum og nýju viðhorfum sem kunna að verða eftir samþykkt áætlunarinnar, breytingum sem ekki er hægt að sjá fyrir, og bregðist við þeim með nýjum aðgerðum og nauðsynlegu fjármagni.

Samráð.
    Með framlagningu þessarar tillögu var stigið mikilvægt skref til að festa í sessi samráð á milli þriggja ráðuneyta, sem unnið hafði verið að á grundvelli samstarfsyfirlýsingar ráðherra frá 2014. Þessi breiða aðkoma endurspeglar hversu víða aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess þurfa að teygja sig, eigi að nást árangur. Boðað var til landssamráðsfundar í þeim tilgangi að kynna samstarfsyfirlýsinguna og verkefnið fram undan fyrir stofnunum og félagasamtökum. Sá fundur var haldinn í Iðnó í janúar 2016 og var sóttur af ríflega 100 manns, en þar var grunnur lagður að aðgerðaáætlun þessari.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að eftir upphaflegan landssamráðsfund hefði mátt hafa meira samráð, einna helst við frjáls félagasamtök, Jafnréttisstofu, foreldrasamtök og hagsmunasamtök sértækra hópa, auk þess sem betur hefði mátt tengja áætlunina við háskólasamfélagið. Nefndin telur mikilvægt að þessi áætlun sé unnin í nánu samráði við þá sem best þekkja til, en þar má sérstaklega nefna þau mörgu grasrótarsamtök sem hafa gert ofbeldi að hluta samfélagsumræðunnar og munu halda áfram að leika lykilhlutverk í baráttunni gegn ofbeldi. Leggur nefndin því til að styrkja enn frekar í sessi þá árlegu landssamráðsfundi sem mælt er fyrir um í aðgerð C.12. Auk þess leggur nefndin til nýja aðgerð, C.14, um endurskoðun áætlunarinnar undir lok gildistíma hennar, eins og nánar verður greint frá hér að aftan.
    Í sumum tilvikum óskuðu umsagnaraðilar eftir því að verða tilgreindir sem einn af samstarfsaðilum í ákveðnum verkefnum og verður gerð grein fyrir því þar sem við á. Nefndin tekur undir nauðsyn þess að tryggja víðtækt samráð við hlutaðeigandi aðila svo að sátt ríki um þær aðgerðir sem boðaðar eru með þingsályktunartillögu þessari. Með hliðsjón af því leggur nefndin til breytingar á samstarfsaðilum þar sem við á. Nefndin áréttar þó að líta skal á upptalningu á samstarfsaðilum fyrst og fremst í dæmaskyni, en ekki sem tæmandi upptalningu. Þannig er ábyrgðaraðila fengið ákveðið svigrúm til að meta hvernig samráði skuli háttað en nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að huga í heild að samráði við frjáls félagasamtök, þótt þau séu ekki sérstaklega nefnd sem samstarfsaðili við ákveðnar aðgerðir.
Þá var nefndinni bent á að stjórnvöldum væri skylt að gæta þess að sérstaklega yrði hugað að þeim skyldum sem á þeim hvíldu samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Við gerð áætlunarinnar hefði ekki verið leitað til fulltrúa fatlaðs fólks eða samtaka þeirra, en fatlað fólk væri sérstaklega berskjaldað fyrir ofbeldi. Nefndin beinir því til stjórnvalda að huga að samráðsskyldu sinni samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum og leggur áherslu á að við framkvæmd áætlunarinnar og endurskoðun hennar verði þessa gætt.
Nefndin telur hins vegar afar jákvætt að svo virðist sem í vinnu stýrihóps ráðuneytanna hafi verið haft samráð við ungmenni, enda gerir samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna kröfu um þátttöku barna í ákvarðanatöku um öll mál sem þau varða og ber að taka tillit til skoðana þeirra. Nefndin áréttar mikilvægi þess að stjórnvöld hafi virkt samráð við börn og ungmenni, sérstaklega þegar um er að ræða mál sem snerta hagsmuni þeirra, og mikilvægt að sjónarmið þeirra liggi fyrir. Nefndin hvetur til þess að áframhaldandi samráð verði við ungmenni við framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar.
    Auk þess var nefndinni bent á að þörf væri á heildstæðari nálgun á aðkomu lögreglu að einstökum liðum aðgerðaáætlunarinnar en þó væru mismunandi embætti lögreglunnar nefnd sem samstarfsaðilar. Nefndin tekur undir þetta og leggur til breytingar þess efnis en gerð verður nánari grein fyrir þeim breytingum þar sem við á. Í þessu samhengi má nefna að auk þess sem lögregluembætti hafa sum sérhæft sig í afgreiðslu tiltekinnar gerðar mála, m.a. vegna aðstæðna í hverju umdæmi fyrir sig, þá hafa þau víða lagt vinnu í að innleiða nýtt verklag á ólíkum sviðum. Slík tilraunaverkefni hjá stöku embættum, oft í samstarfi við grasrótarsamtök og fræðasamfélagið, eru dæmi um nýsköpun sem mikilvægt er að verkefnastjórn áætlunarinnar hlúi að.

#MeToo-hreyfingin.
    Árið 2017 fór af stað hreyfing undir myllumerkinu #metoo þegar konur um allan heim greindu frá kynferðislegu ofbeldi og kynbundinni og kynferðislegri áreitni. Frásagnir þessara kvenna hafa afhjúpað umfangsmikinn samfélagsvanda. Konur hafa krafist aðgerða til að bregðast við og binda enda á kynbundið ofbeldi og mismunun gagnvart konum. Ísland hefur ekki farið varhluta af vakningunni í þessum efnum og fjöldi starfsstétta hefur gefið út yfirlýsingar þar sem kynferðislegri áreitni, ofbeldi og mismunun er mótmælt. Flestir hóparnir tengjast starfsstéttum og atvikin sem lýst var í frásögnum kvennanna gerðust á vinnustöðum. Í því samhengi má nefna skýrslu Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, BSRB, Kennarasambands Íslands og Kvenréttindafélags Íslands frá því í apríl 2018 þar sem m.a. kemur fram að stjórnvöld þurfi að styðja við aðgerðir í þágu byltingarinnar og þá þurfi hvert ráðuneyti að vinna aðgerðaáætlun í tengslum við málaflokka og starfsemi sem og innan hverrar stofnunar.
    Á Norðurlöndunum hafa umfang og áhrif #MeToo-byltingarinnar verið mismunandi. Þar má nefna að í Svíþjóð hefur verið brugðist við hreyfingunni með þeim hætti að 120 millj. sænskra króna hefur verið ráðstafað í menntakerfið, til stéttarfélaga, stofnana vinnumarkaðarins og réttarkerfisins.
    Alþingi brást við #MeToo-ákalli kvenna í stjórnmálum, sem hlaut heitið Í skugga valdsins, með því að boða til rakarastofuráðstefnu 9. febrúar 2018. Þar voru skipulagðar umræður í vinnustofum þar sem þingmenn þvert á flokka ræddu opinskátt um kynferðisofbeldi, kynferðislega áreitni, kynjamisrétti og hvaða leiðir mætti fara til að uppræta þá rótgrónu kynjamismunun sem frásagnir stjórnmálakvennanna höfðu sýnt. Í framhaldinu var siðareglum fyrir þingmenn breytt með þingsályktun nr. 18/148, þar sem hafnað er hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu.
    Íslensk stjórnvöld hafa brugðist við #MeToo-hreyfingunni m.a. með því að setja á fót stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi, en meðal verkefna hópsins er að gera tillögur um viðbrögð annars vegar innan Stjórnarráðsins og hins vegar gagnvart samfélaginu almennt. Þá mun stýrihópurinn standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um #MeToo í september 2019. Að auki hefur hópurinn farið ítarlega yfir viðbrögð ráðuneyta við #MeToo-byltingunni og yfirfarið verkferla í tengslum við kynferðislega áreitni og einelti.
Þá hafa verið samþykkt á Alþingi tvö mál sem hafa snertifleti við #MeToo-hreyfinguna, annars vegar þingsályktun nr. 19/149 um Jafnréttissjóð Íslands (570. mál), og hins vegar lög um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs (417. mál). Auk þess hafa aðgerðir í þingsályktunartillögu þessari verið tengdar frásögnum sem fram hafa komið undir myllumerkinu #MeToo enda þykir full ástæða til að skoða stöðu viðkvæmra hópa enn frekar í því ljósi.
    Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að bregðast við umfangi áreitninnar og ofbeldisins sem var afhjúpað í #MeToo-hreyfingunni, ekki síst á vinnumarkaðnum, og áréttar um leið að um er að ræða umfangsmikið verkefni, sem þarf m.a. að fela í sér markvissa fræðslu um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum.

Samspil við önnur verkefni.
    Við meðferð málsins var nefndinni bent á að tilteknar aðgerðir vantaði í þingsályktunartillöguna eða að unnið væri að ákveðnum verkefnum samhliða þessari þingsályktun. Nefndin leggur áherslu á að þingsályktunartillaga þessi er hluti af víðfeðmri og umfangsmikilli heildarmynd. Í eftirfarandi umfjöllun um aðgerðir í áætluninni verður minnst á þau verkefni sem snerta svið áætlunarinnar með einhverjum hætti eftir því sem við á, en auk þess verða nefnd þau verkefni og þær aðgerðaáætlanir sem hafa snertiflöt við áætlun þessa. Þá er mikilvægt að hafa hugfast að samfélagsþróun komandi missira kann að breyta áherslum þannig að upp spretti ný verkefni sem ábyrgðaraðilar áætlunarinnar þurfi að tengja við framkvæmd hennar. Þegar kemur að vinnu við aðgerðir C.13, um eftirfylgni, og C.14, um endurskoðun áætlunar þessarar, telur nefndin einsýnt að áherslu verði að leggja á að styrkja þessa heildarsýn, þannig að næsta áætlun af þessu tagi komist enn nær því að taka á öllum þáttum aðgerða gegn ofbeldi og afleiðingum þess, í sem víðustum skilningi.

Fjármagn.
    Flestir gestir voru á einu máli um að það heildarfjármagn sem er ætlað til aðgerða gegn ofbeldi og afleiðingum þess mundi duga skammt og að kostnaðaráætlun fyrir einstakar aðgerðir væri oft og tíðum algjörlega óraunhæf og mundi ekki leiða til þess að markmiðum aðgerðaáætlunar yrði náð. Þá var áhersla lögð á mikilvægi þess að fjárfesta í forvörnum og fræðslu til foreldra og allra þeirra sem vinna með börnum og fyrir börn.
    Nefndin áréttar að um er að ræða umfangsmikið vandamál í samfélaginu. Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar Áfallasaga kvenna, sem voru birtar í nóvember 2018, sýna fram á að fjórðungur kvenna hefur orðið fyrir nauðgun eða tilraun til nauðgunar á lífsleiðinni og sama hlutfall hefur verið beitt líkamlegu ofbeldi. Þá var gerð rannsókn á vegum embættis landlæknis, Heilsa og líðan Íslendinga, á árunum 2012 og 2017 þar sem spurt var m.a. um ofbeldi eftir aldri og kyni. Niðurstöður rannsóknarinnar benda m.a. til þess að árið 2017 hafi um 30% Íslendinga á aldrinum 18–44 orðið fyrir líkamlegu ofbeldi. Um þetta er vísað í fylgiskjal með nefndaráliti þessu þar sem finna má úrvinnslu úr gögnum rannsóknarinnar og útskýringar.
    Við meðferð málsins var nefndinni einnig bent á að óljóst væri hvort kostnaðaráætlun þingsályktunartillögunnar næði eingöngu utan um kostnað ríkisins eða hvort kostnaðaráætlun ætti einnig að standa undir kostnaði sem samstarfsaðilar yrðu fyrir við vinnu og innleiðingu hennar. Sérstaklega var rætt um aðkomu sveitarfélaga þar sem ekki væri að sjá að ríkið mundi leggja fjármagn til sveitarfélaga til að fylgja eftir verkefnum en auk þess þyrfti að hafa til hliðsjónar 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, sem kveður á um að fara þurfi fram kostnaðarmat ef fyrirsjáanlegt er að tillaga að lagafrumvarpi, tillaga að stjórnvaldsfyrirmælum eða aðrar stefnumarkandi ákvarðanir af hálfu stjórnvalda ríkisins muni hafa fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög.
    Þá var bent á mikilvægi þess að huga að því hvaða kostnaður lægi í að þýða og miðla til fólks, þar á meðal barna af erlendum uppruna.
    Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin augljóst að fjárfesta þurfi í málefnasviðinu. Ofbeldi er víðtækt samfélagsmein sem hefur miklar líkamlegar og andlegar afleiðingar fyrir einstaklinga, en jafnframt kostnað sem meta má beint til fjármuna. Fjárfesting hins opinbera í aðgerðum til að draga úr ofbeldi mun því þegar til lengri tíma er litið að auki skila þjóðhagslegum ávinningi. Líkur má telja til þess að kostnaðaráætlun margra aðgerða muni taka talsverðum breytingum þegar nánari greining hefur farið fram á því hvernig markmiðum þeirra verði náð. Til dæmis má nefna aðgerð C.12, um árlegan landssamráðsfund um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, þar sem áætlaður er 1 millj. kr. árlegur kostnaður. Eðli máls samkvæmt getur sú upphæð sveiflast á hvorn veginn sem er, allt eftir því hversu hagstæð aðstaða finnst undir fundinn, hversu umfangsmikil dagskrá er talin nauðsynleg hvert skiptið og hversu margir sækja fundinn. Eins er hægt að benda á aðgerð B.3, um heimildir stofnana og félagasamtaka til að afla upplýsinga úr sakaskrá ríkisins. Það verkefni er skýrt afmarkað í tíma og er gert ráð fyrir að kostnaður vegna þess falli innan ramma viðkomandi ráðuneytis. Það er hins vegar ljóst að mögulegar úrbætur á því sviði geti haft kostnað í för með sér, sem gæti fallið til innan gildistíma aðgerðaáætlunarinnar, þótt ekki sé hægt að meta áhrif þess á þessum tímapunkti.
    Nefndin telur hins vegar ekki tímabært að leggja til breytingar á þeirri kostnaðaráætlun sem fylgir tillögunni þar sem slík endurskoðun mundi kalla á ítarlegri greiningu á hverju verkefni en efni standa til. Beinir nefndin því til ábyrgðaraðila hverrar aðgerðar að leggja áherslu á að ná fram þeim markmiðum sem aðgerðin á að ná fram með því að leggja raunhæft mat á kostnað þeirra þegar nánari útfærsla hverrar aðgerðar liggur fyrir, og minnir nefndin á ábyrgð hvers ráðuneytis til að tryggja þá fjármuni sem útfærðar aðgerðir kalla eftir. Verði miklar breytingar á kostnaðaráætlun aðgerða sem heyra undir áætlunina hvetur nefndin ráðuneytin til að vekja athygli fjárlaganefndar á slíkri þróun við vinnslu fjármálaáætlunar að vori eða fjárlaga að hausti.
    Beinir nefndin því til ábyrgðaraðila hverrar aðgerðar að leggja áherslu á að ná fram þeim markmiðum sem aðgerðin á að ná fram og að tilsvarandi ráðuneyti tryggi þá fjármuni sem útfærðar aðgerðir kalla eftir.

Breytt skipan ráðuneyta.
    Í þingsályktunartillögunni fer velferðarráðuneytið með ábyrgð á 17 aðgerðum en auk þess er ráðuneytið nefnt sem samstarfsaðili í fjórum aðgerðum. Fyrri umræða um þingsályktunartillögu þessa fór fram 4. desember 2018. Daginn eftir, 5. desember, samþykkti Alþingi með þingsályktun nr. 1/149 breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem fól í sér að í stað velferðarráðuneytis kom annars vegar félagsmálaráðuneyti og hins vegar heilbrigðisráðuneyti. Nýr forsetaúrskurður um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti kom til framkvæmda 1. janúar 2019. Nefndin leggur þess vegna til breytingar á því hver fer með ábyrgð á þeim aðgerðum sem voru á ábyrgð velferðarráðuneytis en eru nú á ábyrgð félagsmálaráðuneytis eða heilbrigðisráðuneytis, sem og breytingar á samstarfsaðilum þar sem það á við.

I. Framtíðarsýn og viðfangsefni.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að aðgerðaáætlun sem þessi ætti einnig að leggja sérstaka áherslu á bætt verklag og málsmeðferð innan heilbrigðis- og menntakerfisins. Auk þess þyrfti markvisst að koma forvörnum inn í mennta-, heilbrigðis-, félagsmála- og réttarvörslukerfið. Þá þyrftu aðgerðir og stefnumótun að byggjast á nýjustu þekkingu í málaflokknum og þyrfti sú þekking að verða aðgengileg og hluti af menntun þeirra fagstétta sem koma að málefnasviðinu. Að mati nefndarinnar er um að ræða málaflokk sem snertir mörg málefnasvið. Nefndin tekur undir nauðsyn þess að jafnframt þurfi að leggja áherslu á að fara yfir verklag og málsmeðferð innan heilbrigðis- og menntakerfisins, en sumar aðgerðir þingsályktunartillögu þessarar hafa snertifleti við þessi kerfi. Nefndin beinir því þó til mennta- og menningarmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis að skoða betur hvar megi bæta verklag og málsmeðferð í þessum efnum innan kerfisins.
    Við meðferð málsins var einnig bent á að hugtakið „ofbeldi“ í I. kafla aðgerðaáætlunarinnar væri skilgreint of þröngt en auk þess þyrfti að samræma skilgreiningu þess við aðgerðir í áætluninni. Þannig er t.d. fjallað um fjárhagslegt ofbeldi í aðgerð C.8 en skilgreining hugtaksins „ofbeldi“ í I. kafla virðist ekki ná til slíks ofbeldis. Þá sé ekki getið um vanrækslu þegar börn eða aldraðir eiga í hlut. Nefndin leggur áherslu á að ekki á að vera um að ræða tæmandi talningu á því hvað telst vera ofbeldi enda er áætluninni ætlað að ná yfir viðamikið svið. Nefndin leggur þess vegna til að víkka skilgreininguna þannig að ekki verði um tæmandi talningu að ræða en leggur einnig til að talið verði upp fjárhagslegt ofbeldi til að gæta samræmis við orðalag í aðgerðaáætluninni. Að því sögðu telur nefndin að aðgerðaáætlunin geti t.d. náð til vanrækslu þótt hún sé ekki sérstaklega tilgreind í upptalningunni.

II. Markmið og áherslur.
    Við meðferð málsins komu einnig fram sjónarmið um að í áætluninni þyrfti jafnframt að leggja áherslu á siðareglur og starfsreglur þeirra stofnana sem starfa með og fyrir börn. Nefndin tekur undir þetta og telur að slík áhersla rími vel við þá fræðslu sem lagt er til að veita þeim sem starfa með og fyrir börn samkvæmt ýmsum aðgerðum áætlunarinnar.
    Auk þess kom fram ábending um að í A-kafla mætti taka fram með skýrum hætti hvaða aðilum væru veittar forvarnir og fræðsla. Nefndin bendir á að almennt er tilgreint nánar í hverri aðgerð fyrir sig hvaða aðilar það eru. Þó telur nefndin ástæðu til að árétta við ábyrgðaraðila að líta ekki á upptalningu samstarfsaðila sem tæmandi, heldur geti endanlegir samstarfsaðilar ráðist af þeirri þörf sem ábyrgðaraðili telur vera þegar til kastanna kemur.
    Þá leggur nefndin til orðalagsbreytingar á II. kafla til lagfæringar og til að gæta samræmis, en auk þess telur nefndin mikilvægt að leggja áherslu á að markviss fræðsla og forvarnir nái einnig til ofbeldis í nánum samböndum.

III. Aðgerðaáætlun.
    Nefndin leggur til minni háttar orðalagsbreytingar á 1. mgr. kaflans.

A. Vakning – fræðsla og forvarnir.
    Þessi hluti áætlunarinnar fjallar um margvíslegar aðgerðir til að efla fræðslu og forvarnir gegn hvers konar ofbeldi. Þessi aukna áhersla á fræðslu og forvarnir til barna og ungmenna, sérstaklega aðgerðir A.1, A.2, A.4, A.6 og A.7, er einnig í samræmi við þingsályktun nr. 19/149, um Jafnréttissjóð Íslands. Þingsályktunin felur í sér að fjölgað verði málefnasviðum sjóðsins þannig að hann geti styrkt verkefni sem stuðla að fræðslu og forvörnum með það að markmiði að útrýma kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi. Einnig er lagt til að sjóðurinn styrki verkefni sem stuðla að fræðslu fyrir ungt fólk um ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms og kynbundins ofbeldis, sem og verkefni sem stuðla að aukinni þekkingu á vörnum og samræmdum viðbrögðum við ofbeldi í nánum samböndum.

A.1. Fræðsla um ofbeldi til þeirra sem vinna með börnum í skóla-, íþrótta- og æskulýðsstarfi.
    Nokkuð var rætt um mikilvægi þess að tryggja fræðslu í þessum efnum, bæði í menntun þeirra fagstétta sem vinna með börnum og til starfsfólks. Til að efla starfsfólk í ofbeldisforvörnum þyrfti að vanda vel til verka og skipuleggja fræðsluna á markvissan hátt í víðtæku samráði. Þá yrði að leggja áherslu á mikilvægi tilkynningarskyldu þessara aðila í samræmi við barnaverndarlög. Auk þess var rætt um að menntamálayfirvöld og Menntamálastofnun stæðu fyrir útgáfu fræðsluefnis um verkefni samkvæmt aðgerðum A.1 og A.2. Að mati nefndarinnar ríkir samhljómur um mikilvægi slíkrar fræðslu og að hún sé reglubundin og skipulögð og unnin í víðtæku samráði. Að því sögðu telur nefndin ástæðu til að háskólasamfélagið verði einnig tilgreint sem samstarfsaðili, sérstaklega út frá því sjónarmiði að aðkoma háskólanna að aðgerðinni verði einkum á fræðilegum grundvelli, þ.e. geti m.a. veitt hvers konar fræðslu sem þörf er á hverju sinni. Hins vegar telur nefndin að mælikvarði aðgerðarinnar þurfi að samræmast betur markmiðum hennar og leggur þess vegna til að mælikvarði aðgerðarinnar verði að reglubundin fræðsla verði komin á í árslok 2021.
    Fyrir nefndinni var lögð áhersla á að þessi fræðsla ætti sér stað á öllum skólastigum. Jafnframt var rætt um hvort fræðslan ætti eigi að vera t.d. hvort hún eigi að tíðkast í tómstundastarfi. Að mati nefndarinnar er full ástæða fyrir ábyrgðaraðila aðgerðarinnar, mennta- og menningarmálaráðuneyti, að kanna á hversu breiðum grundvelli fræðslan eigi að vera, t.d. hvort hún eigi að tíðkast í tómstundastarfi.
    Samkvæmt i-lið 3. mgr. 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, vinnur Jafnréttisstofa að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi í samstarfi við önnur stjórnvöld og samtök sem sinna slíkum forvörnum sérstaklega. Þá hefur Jafnréttisstofa eftirlit með lögunum og kallar til að mynda eftir jafnréttisáætlunum. Í ljósi lögbundins hlutverks stofunnar telur nefndin rétt að Jafnréttisstofa verði tilgreind sérstaklega sem samstarfsaðili vegna aðgerða A.1, A.2, A.3, A.5, A.9 og A.10, og leggur nefndin því til breytingar þess efnis.

A.2. Þekking á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins verði efld og hann verði grundvöllur í starfi með börnum.
    Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að tryggja yrði aukna fræðslu um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í námi fagstétta, svo sem kennara, tómstundafræðinga og félagsfræðinga. Jafnframt þyrfti að leggja áherslu á fræðslu til foreldra. Í raun þyrfti allt samfélagið að vera meðvitað og þar á meðal stjórnvöld. Þá var rætt um mikilvægi þess að barnasáttmálinn væri aðgengilegur öllum börnum og tiltækur á íslensku táknmáli og á punktaletri. Nefndin tekur undir að fræðsla um barnasáttmálann eigi að vera hluti af námi þeirra fagstétta sem vinna með börnum og telur æskilegt að umfjöllun um barnasáttmálann eigi að vera samhliða fræðslu um ofbeldi handa þeim sem vinna með börnum í skóla-, íþrótta- og æskulýðsstarfi, sbr. aðgerð A.1. Nefndin leggur þess vegna til að háskólasamfélaginu verði einnig bætt við sem samstarfsaðila í aðgerð A.2. Þá beinir nefndin því til mennta- og menningarmálaráðuneytis að kanna hvernig aðgengi að barnasáttmálanum er háttað.
    Að því er greinir í 1. málsl. 1. mgr. 98. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, er Samband íslenskra sveitarfélaga sameiginlegur málsvari sveitarfélaga í landinu. Í ljósi lögbundins hlutverks sambandsins telur nefndin ástæðu til að bæta því einnig við sem samstarfsaðila þar sem sambandið hefur sérstaklega óskað eftir því. Nefndin leggur því til breytingar þess efnis að Samband íslenskra sveitarfélaga verði tilgreint sem samstarfsaðili í aðgerð A.2 og B.3.

A.3. Gæðakröfur og vottun um fyrirmyndarstarf í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
    Nefndinni var bent á mikilvægi þess að fjármagni yrði sérstaklega varið í að styðja íþrótta- og æskulýðsstarf við innleiðingu á auknu gæðastarfi þar sem auknar gæðakröfur mundu leiða til aukins kostnaðar en óljóst væri hvernig slíkt yrði fjármagnað. Þá var einnig rætt um að auka gegnsæi í íþrótta- og æskulýðsstarfi, svo sem með setningu siða- og starfsreglna, en auk þess þyrfti að samræma kröfur til þeirra aðila sem starfa á þessum vettvangi. Við innleiðinguna þyrfti einnig að taka mið af þörfum og hagsmunum barna og tryggja þeim vernd gegn ofbeldi og uppbyggilegar aðstæður í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þá var hvatt til samráðs á breiðum grundvelli. Nefndin tekur undir framangreint og beinir því til mennta- og menningarmálaráðuneytis að hafa þau sjónarmið til hliðsjónar við vinnuna.
    Nefndin vekur athygli á því að Alþingi hefur samþykkt frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs (417. mál) þar sem stofnað er til starfs samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs sem skuli hafa það meginhlutverk að bæta umgjörð íþrótta- og félagsstarfs með því að stuðla að öryggi þeirra sem taka þátt í starfi þeirra samtaka og félaga sem lögin taka til. Beinir nefndin því til mennta- og menningarmálaráðuneytis að haft verði samráð við samskiptaráðgjafann í þessum efnum og að ráðuneytið kanni hvort aðgerðin eigi jafnframt að ná til þeirra sem falla undir gildissvið laganna, svo sem aðila sem gera samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið um rekstrarframlag vegna sambærilegrar starfsemi.
    Þá var nefndinni bent á að notað væri hugtakið „æskulýðsvettvangur“ yfir ákveðið samstarf og því færi betur á að nota annað hugtak. Því leggur nefndin til að í staðinn fyrir íþrótta- og æskulýðsvettvanginn komi frjáls félagasamtök í æskulýðs- og íþróttastarfi ásamt því að tilgreina Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands sem samstarfsaðila.

A.4. Fagráð eineltismála fyrir öll skólastig og íþrótta- og æskulýðsstarf.
    Með aðgerðinni á að koma á heildstæðu fagráði eineltismála sem veiti ráðgjöf um einelti og úrlausn einstakra flókinna eineltismála sem ekki hefur tekist að leysa innan stofnunar, félags eða sveitarfélags. Á fundum nefndarinnar var bent á að slík mál gætu oft verið flókin og erfið úrlausnar. Miðað við umfang og hlutverk verði starfsfólk að vera í fullu starfi frá stofnun fagráðsins. Fyrir nefndinni komu einnig fram sjónarmið um mikilvægi þess að fagráð yrði ávallt skipað sérfræðingum sem væru hlutlausir og utanaðkomandi. Jafnframt var rætt hvort fulltrúi ungmenna ætti að eiga sæti í fagráðinu eða hafa einhverja aðkomu að því ráði. Nefndin beinir því til mennta- og menningarmálaráðuneytis að huga að framangreindum sjónarmiðum við vinnu aðgerðarinnar. Þá beinir nefndin því einnig til ráðuneytisins að tryggja samræmi milli aðgerðarinnar og hlutverks samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs en gert er ráð fyrir að samskiptaráðgjafinn leiðbeini þeim einstaklingum sem til hans leita vegna atvika eða misgerða sem orðið hafa í skipulögðu starfi félaga og samtaka um þau úrræði sem standa til boða, hvernig kvörtun er komið á framfæri við rétt yfirvöld og eftir atvikum um þá þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna. Einnig á samskiptaráðgjafinn að aðstoða samtök og félög við að gera viðbragðsáætlanir vegna atvika og misgerða sem verða í starfi þeirra og stuðla að samræmingu á landsvísu, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna. Þá þarf ráðuneytið að taka það til skoðunar hvort fagráð eigi einnig að taka til þeirra aðila sem falla undir gildissvið laganna, svo sem þá sem gera samning við ráðuneyti um rekstrarframlag vegna sambærilegrar starfsemi.

A.5. Fræðsluefni um ofbeldi fyrir leikskólabörn.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að fræðsluefni verði lagað að aldri og þroska leikskólabarna. Í því sambandi var einnig bent á að framleitt hefði verið forvarnafræðsluefni sem ætlað væri leikskólum eða fyrstu bekkjum grunnskóla, svo sem Vinátta sem er forvarnaverkefni gegn einelti. Nefndin beinir því til mennta- og menningarmálaráðuneytis að kanna hvaða efni er nú þegar til og hvort hægt sé að byggja á þeim grunni.
    Mikil áhersla var lögð á kennslu og leiðbeiningar til starfsfólks leikskóla. Þannig þyrfti að endurskoða verkferla er vörðuðu tilkynningarskyldu þeirra sem vinna með börnum samkvæmt barnaverndarlögum og samskipti þeirra við forsjáraðila. Þá væri brýnt að starfsfólk fengi leiðbeiningar um eðli ofbeldis og afleiðingar þess á börn. Að auki þyrfti að skoða hvort fræðsluefni um ofbeldi ætti að vera hluti af kennsluskrá leikskólakennaranema. Nefndin tekur fram að svipuð sjónarmið eru reifuð varðandi aðgerð A.1 er varðar fræðslu um ofbeldi til þeirra sem vinna með börnum í skóla-, íþrótta- og æskulýðsstarfi. Nefndin leggur til að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi framangreint jafnframt til hliðsjónar við vinnu þeirrar aðgerðar.
    Nefndin leggur til orðalagsbreytingar á markmiðum aðgerðarinnar en auk þess leggur hún til breytingar á mælikvarða hennar til að samræma við lýsingu aðgerðarinnar.

A.6. Kennsla um kynheilbrigði og kynhegðun í grunn- og framhaldsskólum.
    Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að kennsla um kynheilbrigði og kynhegðun ætti að hefjast í leikskóla og vera stöðug og markviss út alla skólagönguna. Samhliða því þyrfti mun meiri þjálfun og kennslu á því sviði í kennaranáminu og virkt samstarf milli kennara og skólahjúkrunarfræðinga. Þá vantaði meira námsefni fyrir yngsta stig og miðstig grunnskóla er varðar kynheilbrigði. Auk þess þyrfti að gera kynjafræði að skyldufagi í kennaranámi og í grunnskólum. Þá var bent á að leggja ætti áherslu á kennsluefni er varðar samþykki og mörk, t.d. í samskiptum, og ætti slík kennsla að hefjast í leikskóla.
    Við meðferð málsins var nefndinni bent á verkefni eins og Sjúk ást og Þekktu rauðu ljósin sem hægt væri að nýta til að fjalla um samþykki og mörk. Að auki var rætt á fundum nefndarinnar um tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar sem byggist á markvissri kynfræðslu frá 1. til 10. bekkjar. Verkefnið er til komið eftir að ungmennaráð Reykjavíkurborgar óskaði eftir slíkri fræðslu. Verkefnið byggist á samstarfi skólahjúkrunarfræðinga, frístundaráðgjafa og kennara þar sem viðfangsefni er skipt á milli stétta.
    Auk þess var lögð áhersla á að fræðsla yrði opin og aðgengileg börnum og að utanaðkomandi einstaklingur eða félagasamtök veitti þá fræðslu. Einnig var rætt um mikilvægi þess að fá fræðslu frá þeim einstaklingum sem hafa sjálfir persónulega reynslu en jafnframt þyrfti að hafa í huga að bjóða upp á jafningjafræðslu. Þá var nefndinni bent á að auka mætti samstarf milli félagsmiðstöðva og skóla í þessum efnum. Nefndinni var einnig bent á mikilvægi þess að slíkt kennsluefni væri jafnframt aðgengilegt þegar börn væru sjálf tilbúin til að afla sér upplýsinga.
    Að mati nefndarinnar virðist vera löngu tímabært að efla kennslu um kynheilbrigði, kynhegðun og samþykki og mörk á öllum skólastigum. Benda má á að með lögum nr. 16/2018 um breytingu á almennum hegningarlögum var tekin upp svokölluð samþykkisregla við skilgreiningu á nauðgun og hefur hún þýðingu í þessu samhengi. Þá beinir nefndin því til mennta- og menningarmálaráðuneytisins að kanna samhliða hvort efla þurfi sambærilega kennslu í leikskólum, t.d. um samþykki og mörk. Einnig þyrfti ráðuneytið að hafa til hliðsjónar þau verkefni sem eru á þessum sviðum og kanna hvort tilefni er til að halda áfram þeim verkefnum. Þá leggur nefndin mikla áherslu á að sjónarmið ungmennaráða hafi mikið vægi þegar rætt er um fyrirkomulag fræðslunnar, svo sem um aðgengi og miðlun hennar. Nefndin telur mikilvægt að hafa í huga ólíkar og fjölbreyttar leiðir til að koma skilaboðum á framfæri þegar unnið er fræðsluefni fyrir ungmenni.
    Nefndin tekur jafnframt fram að fyrir liggur að hafin er vinna við endurskoðun á aðalnámskrá grunnskóla á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis. Ráðuneytið hefur sett fram áætlun um reglulega endurskoðun greinasviða aðalnámskrár grunnskóla. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að við endurskoðun aðalnámskrárinnar verði m.a. athugað hvort hefja þurfi kennslu fyrr en verið hefur og kenna kynjafræði á öllum skólastigum.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni voru gerðar athugasemdir við notkun hugtaksins „hefndarklám“ í athugasemdum um aðgerðina. Nefndin tekur fram að umræðan í samfélaginu hefur leitt til þess að framangreint hugtak hefur tekið breytingum og er í mótun. Þannig hefur hugtakið „stafrænt kynferðisofbeldi“ eða „myndrænt kynferðisofbeldi“ verið notað í staðinn fyrir „hefndarklám“, en undanfarið hefur einna helst í opinberri umræðu verið notað hugtakið „stafrænt kynferðisofbeldi“. Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að notuð séu hugtök sem eru lýsandi fyrir verknaðinn sem um ræðir.
    Nefndin leggur til orðalagsbreytingar á aðgerðinni til leiðréttingar og lagfæringar.

A.7. Samræmd heilsuvernd skólabarna á landsvísu.
    Markmið aðgerðarinnar er að nemendur fái samræmda skipulagða árangursmetna fræðslu um kynþroska og kynheilbrigði. Í greinargerð kemur fram að fræðsla um kynþroska og kynheilbrigði fari fram í 5.–10. bekk og fræðsla um líðan fari fram í öllum bekkjum. Í 1., 4., 7. og 9. bekk fái allir nemendur heilsueflingarviðtal þar sem þeir eru hvattir til að tjá sig um líðan og heilsuhegðun með áhugahvetjandi samtali. Að lokum er að finna yfirlit yfir skipulagða fræðslu í skólaheilsugæslunni fyrir 1.–10. bekk.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að bæta þyrfti slíkri kennslu markvisst inn í kennsluskrá fyrir menntun heilbrigðisstétta. Þá þyrfti jafnframt að vera til staðar fræðsla fyrir starfsfólk og kennara sem bæru ábyrgð á að miðla fræðslunni til barna en auk þess þyrfti kennarar meiri stuðning frá öðrum stéttum innan skólans til að halda utan um slíka fræðslu.
Á fundum nefndarinnar var einnig rætt um mælikvarða aðgerðarinnar og gerðar athugasemdir við að hann næði ekki til allra nemenda í 9. bekk heldur væri aðeins gert ráð fyrir að a.m.k. 80% nemenda í 9. bekk fengju fræðslu um kynþroska og kynheilbrigðis í skipulagðri heilbrigðisfræðslu fyrir árslok 2022. Þannig virkaði markmið aðgerðarinnar mun víðtækara en mælikvarðinn sem settur væri fram. Nefndin leggur þess vegna til að samræma mælikvarða aðgerðarinnar við markmið hennar þannig að nemendur í 9. bekk fái viðkomandi fræðslu fyrir árslok 2022.
    Nefndinni var einnig bent á að ólíklegt væri að miklar breytingar yrðu á núverandi fræðslu ef ekki væri sett viðbótarfjármagn til verkefnisins. Þar að auki var nefndinni bent á ýmis atriði er vörðuðu yfirlit yfir skipulagða fræðslu. Í fyrsta lagi þyrfti að vera fræðsla um snemmtæka íhlutun og áfallamiðaða þjónustu í skólaumhverfi. Í öðru lagi að á öllum skólastigum þyrfti að vera fræðsla til starfsfólks og barna um kynferðisofbeldi. Í þriðja lagi kæmi ekki fram að fræðslunni í 1. bekk er oft fylgt eftir með myndinni Leyndarmálið – segjum nei, segjum frá! Í fjórða lagi væri ekki tilgreind forvarnafræðsla til allra barna í 2. bekk, þ.e. brúðuleikhúsið Krakkarnir í hverfinu sem var hluti af vitundarvakningu um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum á vegum innanríkis-, velferðar- og mennta- og menningarmálaráðuneytis á árunum 2012–2015.
    Nefndin telur svipuð sjónarmið eiga við hér og reifuð voru varðandi aðgerð A.6, svo sem um miðlun fræðsluefnisins sem og aðgengi. Þá telur nefndin að einnig þurfi að huga hér að því hvort uppfæra þurfi yfirlit yfir skipulagða fræðslu í skólaheilsugæslunni sem og kanna hvort hefja eigi kennslu fyrr í ákveðnum efnum, t.d. um samskipti. Þá þurfi einnig að leggja áherslu á markvissa og skipulagða fræðslu til þeirra sem miðla heilbrigðisfræðslu til skólabarna. Nefndin leggur þess vegna til að háskólasamfélagið verði einn af samstarfsaðilum aðgerðarinnar, m.a. svo að hægt verði að huga að því að bæta slíkri kennslu við hjá viðkomandi fagstéttum. Að auki mætti ef til vill hafa til hliðsjónar tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar sem minnst er á í aðgerð A.6.
    Nefndinni var einnig bent á mikilvægi þess að heilbrigðisfræðslu barna væri sinnt með samræmdum hætti óháð búsetu, en mönnunarvandi úti á landi gæti komið í veg fyrir að hægt væri að sinna öllum þeim verkefnum sem séu lögbundin. Nefndin beinir því til heilbrigðisráðuneytisins að kanna jafnframt hvort hægt sé að nýta rafrænar leiðir til að miðla fræðslunni.

A.8. Vitundarvakning í samfélaginu gegn haturstali.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um nauðsyn fræðslu og forvarna í þessum efnum. Bent var á mikilvægi þess að samhliða aðgerðum gegn haturstali verði sjónarmiðum um lögbundinn rétt til tjáningarfrelsis haldið á lofti. Nefndin tekur undir nauðsyn þess að ráðast í slíka aðgerð en haturstal gegn tilteknum hópum getur verið skaðlegt lýðræðissamfélögum sem og haft kælandi áhrif á tjáningarfrelsið. Auk SAFT-verkefnisins „Ekkert hatur“ sem rakið er í greinargerð hefur t.d. fjölmiðlanefnd, samkvæmt lögbundnu hlutverki sínu, unnið að fjölmiðlalæsi í samstarfi við frjáls félagasamtök og stofnanir, t.d. hefur nefndin haldið málþing um hatursorðræðu í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands. Þeir samstarfsaðilar sem eru tilgreindir í aðgerðinni ættu því að vera vel til þess fallnir að búa yfir þekkingu á því hvernig sporna megi við haturstali. Nefndin er sammála því að aukin þekking í samfélaginu um eðli og afleiðingar haturstals leiði til þess að fólk taki afstöðu gegn því en leggur þó til að sá texti falli brott þar sem um er að ræða skýringartexta. Að auki leggur nefndin til minni háttar breytingar á samstarfsaðilum.

A.9. Vitundarvakning um einelti og ofbeldi á vinnustöðum.
    Við meðferð málsins var áhersla lögð á mikilvægi þess að gefa út skýrar og aðgengilegar leiðbeiningar, gátlista og önnur verkfæri fyrir fyrirtæki og stofnanir um gerð áhættumats hvað varðar sálfélagslega þætti. Þá þyrfti að bæta aðgengi að ráðgjöf sérfræðinga og hvetja til þess að starfsmenn verði meðvitaðir um réttindi sín og ábyrgð atvinnurekenda. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og beinir því til félagsmálaráðuneytisins að þau sjónarmið verði höfð til hliðsjónar við vinnu aðgerðarinnar.
    Á fundum nefndarinnar var einnig rætt um hvort setja ætti á fót viðbragðsteymi fagaðila sem leiðbeini vinnustöðum þegar upp koma mál, sérstaklega flókin og erfið, sem varða einelti og ofbeldi á vinnustöðum, en stéttarfélög þyrftu oft að gæta hagsmuna bæði þolenda og gerenda. Þá var einnig rætt um hvort veita ætti vinnustöðum viðurkenningu frá Vinnueftirlitinu sem gætu sýnt fram á skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað að undangenginni úttekt óháðs fagaðila. Fram komu athugasemdir þess efnis að markmið aðgerðarinnar gerði ráð fyrir að einungis 60% vinnustaða á innlendum vinnumarkaði hefðu gert tilgreindar áætlanir en nauðsynlegt væri að allir vinnustaðir landsins tækju þátt. Það þyrfti að leggja meira fjármagn til að bregðast við #MeToo-byltingunni svo hægt verði að tryggja fullnægjandi fræðslu til vinnustaða.
    Nefndin bendir á að í febrúar 2018 var skipuð nefnd til að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði sem og aðgerðir vinnuveitenda í tengslum við slík mál á vinnustöðum. Átti nefndin að skila niðurstöðum rannsóknarinnar fyrir 30. apríl 2019. Þá hefur jafnframt verið skipaður aðgerðahópur í því skyni að vinna gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Gert er ráð fyrir að hópurinn vinni að nánari útfærslu á einstökum verkefnum hópsins og líti í því sambandi m.a. til aðgerða annarra ríkja hvað þetta varðar. Jafnframt er gert ráð fyrir að aðgerðahópurinn miði aðgerðir sínar við niðurstöður rannsókna fyrrgreindrar nefndar. Nefndin telur að vinna þessarar aðgerðar verði að vera í samráði við aðgerðahópinn og beinir því til félagsmálaráðuneytisins hvort tilefni sé til þess að umræddur aðgerðahópur kanni nánar þau sjónarmið sem hafa komið fram. Þá telur nefndin mikilvægt að slík vitundarvakning sem boðuð er í aðgerð A.9 verði unnin í víðtæku samráði við stéttarfélög, samtök aðila vinnumarkaðarins og Jafnréttisstofu. Nefndin leggur þess vegna til breytingar þess efnis. Þá taki ábyrgðaraðili aðgerðarinnar til skoðunar hvort sveitarfélögin komi að þessari vinnu, en um er að ræða stóran hluta vinnumarkaðar.
    Að auki leggur nefndin til orðalagsbreytingar á aðgerðinni til leiðréttingar og lagfæringar.

A.10. Fræðsla um úrræði fyrir þolendur ofbeldis um allt land.
    Nokkuð var fjallað um fræðslu um úrræði fyrir þolendur ofbeldis um allt land. Samkvæmt aðgerðaáætluninni er ætlunin að dreifa bæklingi skipulega um land allt og er sérstök áhersla lögð á að fræðslan nái til fatlaðs fólks, aldraðra og fólks af erlendum uppruna.
    Við meðferð málsins var gagnrýnd sú aðferðafræði að dreifa bæklingum í stað þess að nota fjármagnið til að veita fagaðilum eða einstaklingum upplýsingar. Þar að auki komu fram sjónarmið að betur færi á því að dreifa upplýsingum á samfélagsmiðlum, svo sem með stuttu myndbandi, en slíkt myndi frekar ná til ungmenna. Hins vegar væri mikilvægt við gerð slíks efnis að hafa samráð við frjáls félagasamtök. Nefndin er sammála því að ekki eigi að afmarka aðgerðina við gerð bæklings heldur við fræðsluefni almennt. Þannig gefst samstarfsaðilum kostur á nánari útfærslu á því hvernig eigi að koma slíkri fræðslu á framfæri, en samhliða væri hægt að nýta aðgerð C.2. Nefndin leggur því til breytingar þess efnis.
    Fram komu sjónarmið um að leggja þyrfti áherslu á að fræðslan næði til fleiri viðkvæmra hópa, svo sem hinsegin fólks. Jafnframt var rætt um mikilvægi fræðslu til foreldra og aðstandenda barna sem hafa orðið fyrir einhvers konar ofbeldi, en einnig til barna, fanga og einstaklinga í neyslu eða í vændi. Nefndinni var þess vegna bent á fleiri samstarfsaðila, svo sem á Fangelsismálastofnun og háskóla. Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til að sérstök áhersla verði lögð á fleiri viðkvæma hópa í aðgerðinni. Auk þess leggur nefndin til að breyta samstarfsaðilum, svo sem með því að tilgreina sérstaklega Jafnréttisstofu sem samstarfsaðila, sbr. umfjöllun um aðgerð A.1. Nefndin bendir viðkomandi ráðuneyti á að Fangelsismálastofnun, háskólasamfélagið, Fjölmenningarsetur, Afstaða – félag fanga eða Samtökin ´78 geta t.d. talist samstarfsaðilar sem hlutaðeigandi stofnanir eða samtök, og leggur áherslu á að haft verði samstarf við þá aðila, sérstaklega þá sem koma að málefnum viðkvæmra hópa.
    Verkefnið Byggjum brýr – Brjótum múra hefur leitt til aukins samstarfs um varnir og viðbrögð við ofbeldi í nánum samböndum. Fyrir nefndinni var lögð áhersla á að fræðsla til fagfólks þyrfti að vera unnin í áframhaldandi ferli og þess vegna var lagt til við nefndina að verkefnið yrði fjármagnað áfram undir þessari aðgerðaáætlun. Fagfólk hefði komið upp ríku tengslaneti þar sem finna mætti mikla þekkingu og fræðslu. Þannig hefði verkefnið lagt grunn að vettvangi sem hægt væri að nýta til að koma að fræðslu um forvarnir, viðbrögð og úrræði í ofbeldismálum almennt. Nefndin beinir því til félagsmálaráðuneytisins að kanna hvort byggja megi á þeirri þekkingu og fræðslu sem skapast hefur við framangreint verkefni við vinnu aðgerðarinnar sem hér um ræðir.

A.11. Stofnun miðstöðvar um ofbeldi gegn börnum.
    Börn eru sérstaklega berskjölduð fyrir ofbeldi og geta afleiðingar þess að þau upplifa slíkt, beint eða óbeint, verið alvarlegar. Nýlegar rannsóknir og skýrslur, líkt og skýrsla UNICEF á Íslandi um stöðu barna á Íslandi frá maí 2019, hafa m.a. varpað ljósi á að stjórnvöld virðast ekki hafa fullnægjandi upplýsingar um rannsóknir og tölfræði um ofbeldi gegn börnum sem nauðsynlegar verða að teljast til þess að þau geti brugðist við tímanlega og með fullnægjandi hætti. Því er talin þörf á að koma á fót miðstöð sem hafi það hlutverk að halda utan um upplýsingar, rannsóknir, tölfræði og fleira er varðar ofbeldi gegn börnum sem verði þá stjórnvöldum til ráðgjafar og leggi fram tillögur þegar kemur að mótun stefnu og aðgerða í málaflokknum, m.a. er varðar barnavernd og aðra þjónustu við fjölskyldur og börn.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til að bætt verði við nýrri aðgerð um stofnun miðstöðvar um ofbeldi gegn börnum og að verkefnisstjóri sem ráðinn verður samkvæmt aðgerð C.13 muni einnig leiða þessa vinnu í þeim tilgangi að skapa nauðsynlegan samstarfsvettvang þar á milli. Samhliða því leggur nefndin til breytingar þess efnis á aðgerð C.13 og að kostnaður verkefnisstjórans verði samnýttur við þessa nýju aðgerð.

B. Viðbrögð – verklag og málsmeðferð.
    Þessi hluti áætlunarinnar fjallar um aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að bæta verklag og meðferð ofbeldismála hjá lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að árið 2016 var skipaður samráðshópur um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins. Hópnum var falið að setja fram tillögur um aðgerðir með það að markmiði að tryggja vandaða, skilvirka og réttláta málsmeðferð við rannsókn mála á þessu sviði og auka traust á réttarvörslukerfinu. Stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi hefur meðal annars verið falið að fylgja eftir framkvæmd aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins.

B.1. Stuðlað að menntun um ofbeldismál fyrir þá sem starfa innan réttarvörslukerfisins.
    Með aðgerðinni á að ýta úr vör fræðslu um ofbeldismál í víðu samhengi til þeirra sem starfa innan réttarvörslukerfisins. Ábyrgð verkefnisins er hjá dómsmálaráðuneytinu og eru samstarfsaðilar mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar, embætti ríkislögreglustjóra, embætti ríkissaksóknara, neyðarmóttaka og áfallateymi Landspítalans og réttindagæslumenn fatlaðs fólks. Nefndinni var bent á að réttarvörslukerfið ætti einnig að ná til þeirra lögmanna sem starfa í réttarvörslukerfinu. Nefndin tekur undir að fræðslan þurfi einnig að ná til lögmanna en auk þess er nauðsynlegt að slík fræðsla nái einnig til dómstóla. Nefndin leggur því til að ábyrgðaraðili aðgerðarinnar hugi jafnframt að samstarfi við félag lögfræðinga, félag lögmanna og félag dómara sem og við Dómstólasýsluna, eftir því sem við á í þessum efnum, þó slík félög verði ekki sérstaklega tilgreind sem samstarfsaðilar. Þá telur nefndin að einnig þurfi að huga að samstarfi við þá háskóla sem annast menntun viðkomandi fagstétta.
    Þá áréttar nefndin að hinsegin fólk getur einnig talist til viðkvæmra hópa. Nefndin telur þess vegna æskilegt að nefna þann hóp sérstaklega í dæmaskyni í aðgerðinni sem viðkvæman hóp. Að auki leggur nefndin til orðalagsbreytingar við aðgerðina til leiðréttingar og lagfæringar.

B.2. Lagaákvæði og reglur um þagnarskyldu.
    Hluti gesta benti á mikilvægi þess að kanna hvort takmarkað aðgengi stofnana að upplýsingum vegna þagnarskyldu hindraði framvindu ofbeldismála. Í aðgerðinni er sérstaklega tekið fram að athugað verði sérstaklega hvort nauðsynlegt sé að rýmka heimildir lögreglu til að miðla nauðsynlegum upplýsingum til viðeigandi stofnana við rannsókn einstakra mála. Fram komu sjónarmið um nauðsyn þess að taka það einnig til skoðunar hvort rýmka þyrfti heimildir viðeigandi stofnana til að miðla nauðsynlegum upplýsingum t.d. til lögreglunnar. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að kanna þurfi jafnframt miðlun upplýsinga til lögreglunnar við rannsókn mála og leggur því til breytingar þess efnis.
    Þá telur nefndin æskilegt að öll lögregluembætti séu samstarfsaðilar þessarar aðgerðar og leggur því til breytingar þess efnis.

B.3. Heimildir stofnana og félagasamtaka til að afla upplýsinga úr sakaskrá ríkisins.
    Samkvæmt aðgerðinni skal skipa starfshóp sem verði falið að greina núverandi heimildir stofnana og félagasamtaka sem starfa með börnum til að afla upplýsinga úr sakaskrá og meta þörfina á mögulegum úrbótum. Markmið aðgerðarinnar er að stofnanir geti með fullnægjandi hætti tryggt öryggi skjólstæðinga sinna með því að afla allra upplýsinga úr sakaskrá ríkisins. Nefndinni var bent á að eðlilegra væri að heimild til þessarar upplýsingaöflunar myndi afmarkast við þau brot sem hefðu eitthvert vægi í tengslum við starf með börnum, svo sem kynferðis- eða ofbeldisbrot. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og ítrekar að við vinnslu persónuupplýsinga skuli þess gætt að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar. Að því sögðu leggur nefndin til að breyta markmiði aðgerðarinnar á þann veg að stofnanir geti aflað nægilegra, viðeigandi og nauðsynlegra upplýsinga úr sakaskrá ríkisins í stað allra upplýsinga úr sakaskrá. Um nánari útfærslu á upplýsingaöfluninni verði síðan kveðið á í lögum. Að auki leggur nefndin til að breyta mælikvarða aðgerðarinnar á þann veg að tillögur liggi fyrir í árslok 2020.
    Í ljósi þess að greina á núverandi heimildir stofnana og félagasamtaka leggur nefndin til að bæta við hlutaðeigandi stofnunum og frjálsum félagasamtökum við samstarfsaðila. Síðan er einnig, að beiðni Sambands íslenskra sveitarfélaga, sambandinu bætt við sem samstarfsaðila.
    Nefndin bendir einnig á að við meðferð 417. máls, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, var fjallað nokkuð um rafrænar og einfaldar lausnir í þessum efnum fyrir félög og samtök í íþrótta- og æskulýðsstarfi og í þeim efnum verði litið til þeirrar framkvæmdar sem hefur verið í Danmörku. Nefndin beinir því til dómsmálaráðuneytisins að kanna slíkar lausnir samhliða þessari aðgerð.

B.4. Sáttamiðlun í sakamálum.
    Nokkuð var rætt um sáttamiðlun í ofbeldismálum. Skiptar skoðanir hafa verið uppi um hvort heppilegt sé að beita sáttamiðlun í ofbeldismálum, svo sem vegna ofbeldis í nánum samböndum eða vegna valdaójafnvægis milli þolanda og geranda í þessum málum. Þá væri nauðsynlegt að gera greinarmun á ofbeldi í nánum samböndum og því ofbeldi sem fellur undir skilgreininguna heimilisofbeldi annars vegar og annað ofbeldi hins vegar. Leggja þyrfti áherslu á að nálgast ofbeldisbrot út frá uppbyggjandi réttvísi fyrir þolendur. Þá komu fram sjónarmið um að skilgreina þyrfti aðgerðina betur og í hvaða tilvikum aðgerðin ætti að ná til og hvort um sé að ræða úrræði sem eigi að koma í stað refsingar. Hins vegar komu fram sjónarmið um að sáttamiðlun í ofbeldismálum gæti verið mikilvægur möguleiki í ofbeldismálum barna sem eru undir lögaldri en forsenda slíkrar leiðar yrði að vera að gerandi hefði játað brot.
    Nefndin var upplýst um að um er að ræða aðgerð sem eigi fyrst og fremst að ná til ungra gerenda. Mikilvægt væri að geta gripið inn í þær aðstæður þar sem ungir gerendur sýni t.d. ofbeldishegðun. Ekki væri um að ræða sáttamiðlun í kynferðisbrotamálum eða í meiri háttar líkamsárásum heldur þvert á móti í minni háttar brotum eða minni háttar líkamsárásum. Nefndin telur mikilvægt að lögð verði áhersla á uppbyggilega réttvísi og að sjónum sé einnig beint að ungum gerendum. Hins vegar leggur nefndin til að víkka aðgerðina þannig að skoðuð verði fleiri úrræði eða aðferðir sem miða að uppbyggilegri réttvísi og heiti aðgerðarinnar verði samræmt með hliðsjón af þeirri tillögu. Nefndin beinir því til ábyrgðaraðila að huga að samráði við frjáls félagasamtök og fræðafólk svo að hægt verði að tryggja að aðgerðin taki jafnframt mið af þolendavænum sjónarmiðum.

B.5. Bætt áverkaskráning í Slysaskrá Íslands.
    Við meðferð málsins var nefndinni bent á að bæta mætti við íþrótta- og æskulýðshreyfingunni sem samstarfsaðila. Að mati nefndarinnar virðist sem markmið aðgerðarinnar sé að ná fleiri aðilum sem myndu skrá í Slysaskrá Íslands. Að mati nefndarinnar kemur orðalag aðgerðarinnar ekki í veg fyrir að haft verði samráð við frjáls félagasamtök í íþrótta- og æskulýðsstarfi, þar á meðal Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands. Nefndin beinir því þess vegna til heilbrigðisráðuneytis að huga að samráði við þann vettvang við vinnu aðgerðarinnar.

C. Valdefling – samstarf og samhæfing.
    Þessi hluti áætlunarinnar fjallar um valdeflingu og stuðning við fullorðna þolendur ofbeldis. Aðgerðir í þessum hluta fjalla um greiðan aðgang að upplýsingum, þjónustu og úrræðum, vernd viðkvæmra hópa gegn ofbeldi og umsjón og eftirfylgni með þessari aðgerðaáætlun í heild sinni.

C.1. Starfsemi Bjarkarhlíðar – þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis fest í sessi.
    Á fundum nefndarinnar var nokkuð rætt um starfsemi Bjarkarhlíðar enda verður sá samstarfsvettvangur opinberra stofnana og frjálsra félagasamtaka mikilvægur samstarfsaðili í þessari aðgerðaáætlun. Að frátalinni þessari aðgerð er Bjarkarhlíð nefndur samstarfsaðili í fimm öðrum aðgerðum (C.2, C.4, C.9, C.10 og C.11). Fram komu sjónarmið um ósamræmi í tilgreiningu samstarfsaðila þegar Bjarkarhlíð væri nefnt sem einn af samstarfsaðilum tilgreindra aðgerða en óljóst væri hvort gera ætti ráð fyrir öllum samstarfsaðilum Bjarkarhlíðar því í einhverjum tilvikum væru einstaka samstarfsaðilar Bjarkarhlíðar tilgreindir en aðrir ekki. Nefndinni var bent á að þar sem Bjarkarhlíð væri þverfaglegur samstarfsvettvangur færi betur á að tilgreina þá aðila sem standi að úrræðinu í þeim tilvikum þar sem Bjarkarhlíð væri nefnt sem samstarfsaðili. Nefndin telur að líta verði til þeirra aðgerða þar sem Bjarkarhlíð er tilgreind sem samstarfsaðili og hvaða hlutverk þess samstarfsvettvangs er ætlað að hafa hverju sinni. Nefndin mun gera nánari grein fyrir því þar sem við á. Í þessari aðgerð, C.1, leggur nefndin til að tilgreindir verði þeir samstarfsaðilar sem standa að Bjarkarhlíð en jafnframt sveitarfélög, lögregluembætti og önnur frjáls félagasamtök enda er unnið að því að fá fleiri til þátttöku í verkefninu.
    Þá var samhljómur um mikilvægi þess að tryggja rekstur Bjarkarhlíðar til frambúðar en auk þess komu fram sjónarmið um nauðsyn þess að tryggja fjármagn fyrir þau verkefni sem samstarfsaðilar Bjarkarhlíðar taka að sér en um leið þyrfti að endurskoða stöðugildi og rekstrarlíkan með tilliti til hvað þurfi meðfram grunnrekstri í núverandi hlutverki til að geta framkvæmt öll þau verkefni sem kveðið er á um í aðgerðaáætlun þessari. Nefndin telur æskilegt að þetta verði skoðað samhliða þeim aðgerðum sem Bjarkarhlíð er ætlað að taka þátt í.
    Á fundum nefndarinnar var einnig bent á að hér væri tækifæri til að hanna sambærilegt úrræði og Bjarkarhlíð fyrir börn sem væru þolendur ofbeldis og veita þeim samhæfða þjónustu og ráðgjöf. Nefndin tekur fram að hafin er vinna við endurskoðun félagslega kerfisins eins og það snýr að börnum og fjölskyldum þeirra. Lýtur vinnan m.a. að því að endurskoða barnaverndarlögin, innleiða í auknum mæli snemmtæka íhlutun og styrkja réttindi barna almennt. Nefndin beinir því til félagsmálaráðuneytis að kanna hvort viðkomandi nefnd skuli skoða hvort hanna eigi sambærilegt úrræði og Bjarkarhlíð fyrir börn.
    Að auki leggur nefndin til orðalagsbreytingar á aðgerðinni til lagfæringar og leiðréttingar ásamt því að fella brott texta um að framlag velferðarráðuneytisins hafi verið 20 millj. kr. á ári sem renni út í árslok 2018 þar sem ekki er um að ræða ályktunartexta.

C.2. Upplýsingavefur um ofbeldi.
    Í áætluninni er gert ráð fyrir að opnaður verði upplýsingavefur með margþættu efni um ofbeldismál. Gert er ráð fyrir að upplýsingavefurinn verði vistaður hjá Bjarkarhlíð. Gerðar voru athugasemdir þess efnis að ekki virtist standa til að fjalla um kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi á þeim vef eða um vinnumarkaðinn í þessu samhengi. Nefndin sér ekki ástæðu til annars en að fjallað verði m.a. um framangreint á umræddum vef. Nefndin beinir því til ábyrgðaraðila, félagsmálaráðuneytis, að tryggja slíka umfjöllun á vefnum sem og að vefurinn verði aðgengilegur á fleiri tungumálum.
    Við meðferð málsins var nefndinni bent á upplýsingavef sem er unnin af Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri gegn ofbeldi og hefur að geyma viðamiklar upplýsingar um ofbeldi, www.alltumofbeldi.is. Nefndin beinir því til félagsmálaráðuneytis að nýta efni sem þegar hefur verið unnið og vinni með þeim aðilum sem hafa komið upplýsingum um ofbeldi til almennings, svo sem háskólasamfélaginu. Nefndin leggur auk þess til að frjáls félagasamtök verði samstarfsaðilar að verkefninu.
    Þá er í greinargerð með aðgerðaáætluninni vikið sérstaklega að samstarfsverkefni undir verkefnastjórn Jafnréttisstofu, Byggjum brýr – brjótum múra. Nefndinni var bent á að fjögur lögregluumdæmi væru aðilar að því verkefni; embætti ríkislögreglustjóra, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, lögreglan á Norðurlandi eystra og lögreglan á Suðurnesjum. Þó virðist aðeins lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vera nefnd sem samstarfsaðili þrátt fyrir að öll framangreind embætti búi yfir yfirgripsmikilli þekkingu um heimilisofbeldi. Nefndin leggur þess vegna til að lögreglan og embætti ríkislögreglustjóra séu tilgreind sem samstarfsaðilar til að tryggja að nýtt verði sú þekking og reynsla sem er til staðar.
    Varðandi Bjarkarhlíð þá er tekið fram að vefurinn á að vera hýstur þar. Því er eðlilegt að Bjarkarhlíð sé tilgreind sem samstarfsaðili án þess að allir samstarfsaðilar þess vettvangs séu tilgreindir sérstaklega. Aðrir sem tilgreindir eru sem samstarfsaðilar eru þeir aðilar sem leggja eiga efni til vefsins.

C.3. Stuðningur við þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi.
    Samhljómur var á meðal gesta um mikilvægi þess að setja á fót þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi sem staðsett verði á Akureyri. Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um þörf á föstum úrræðum á landsbyggðinni og mikilvægi þess að verkefnið verði að langtímaúrræði en ekki einungis þróunarverkefni til tveggja ára. Samkvæmt tölum ríkislögreglustjóra virðist tíðni ofbeldis í nánum samböndum í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra vera hærri en víða annars staðar. Um sé því að ræða gríðarlega mikilvægt tæki til að ná til þolenda. Þá var nefndinni bent á nauðsyn þess að tryggja fjármagn svo að hægt verði að ráða starfsmann í fullt starf.
    Rétt er að taka fram að þjónustumiðstöðin tók til starfa 1. apríl 2019. Þar hefur verið tryggt heilt stöðugildi með aðkomu félagsmálaráðuneytis sem ábyrgðaraðila aðgerðarinnar en jafnframt með aðkomu dómsmálaráðuneytis. Nefndin telur brýnt að aðgerðin kveði jafnframt á um að tekin verði ákvörðun um áframhaldandi rekstur og leggur því til breytingar þess efnis auk orðalagsbreytinga til leiðréttingar og lagfæringar í ljósi þess að starfsemin er nú þegar hafin.

C.4. Viðbragðsteymi um sérhæfða ráðgjöf til þolenda ofbeldis á landsbyggðinni.
    Með aðgerðaáætluninni á að setja af stað tilraunaverkefni, í umsjá Bjarkarhlíðar, þar sem myndað verði teymi félagsráðgjafa, geðlækna, sálfræðinga og eftir atvikum annarra sérfræðinga sem veiti þolendum ofbeldis á landsbyggðinni viðeigandi aðstoð í kjölfar ofbeldis. Við meðferð málsins var bent á að eðlilegt væri að þeir aðilar sem koma að undirbúningi fyrir þjónustumiðstöð á Norðurlandi væru nefndir sem samstarfsaðilar í þessu verkefni. Nefndin tekur undir slíkt og telur það styrkja verkefnið að þeir samstarfsaðilar komi jafnframt að verkefninu. Þess má geta að hafið er samstarfsverkefni hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra sem er ætlað að koma til móts við þarfir þolenda kynferðisbrota þar sem þeim er m.a. boðið að þiggja sálfræðiviðtal að lokinni skýrslutöku og þeim kynnt niðurfelling kynferðisbrotamáls með viðtali en ekki bréfi. Nefndin leggur því til breytingar þess efnis ásamt orðalagsbreytingum til leiðréttingar og lagfæringar. Þá telur nefndin nægja að nefna eingöngu samstarfsvettvanginn Bjarkarhlíð í stað þess að tilgreina alla þá samstarfsaðila sem að henni standa. Það sama gildir um þjónustumiðstöðina fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi.

C.5. Tímabundið leyfi frá störfum í kjölfar ofbeldis.
    Nefndin leggur til að mælikvarða aðgerðarinnar verði breytt á þann veg að hópurinn skili tillögum í júní 2020.

C.6. Stuðningur við svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi.
    Með aðgerðinni á að verja árlega tilteknu fjármagni af safnliðum fjárlaga, vegna verkefna á sviði félagsmála, til styrktar svæðisbundnu samstarfi eða til ákveðinna verkefna sem styðja við aðgerðir gegn ofbeldi. Gert er ráð fyrir að fyrsta úthlutun fari fram vorið 2020 og mat lagt á árangur árið 2023.
    Að mati nefndarinnar er um brýnt verkefni að ræða. Hér má nefna nokkur tilraunaverkefni hjá lögreglunni sem eiga það sameiginlegt að vera svæðisbundin; nálgunarbann hjá lögreglunni á Suðurlandi, nýtt verklag í málum er varðar ofbeldi í nánu sambandi hjá lögreglunni á Suðurnesjum og þjónusta við þolendur kynferðisbrota hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Slík tilraunaverkefni geta síðan leitt af sér að annað verklag er tekið upp um land allt.
    Nefndin áréttar jafnframt mikilvægi þess að háskólasamfélagið komi að slíku samstarfi.
    Að lokum leggur nefndin til þær breytingar að mat verði lagt á árangur árið 2022 í stað ársins 2023.

C.7. Fjölbreyttari meðferðarúrræði fyrir gerendur í ofbeldismálum.
    Félags- og barnamálaráðherra hefur skipað starfshóp sem á að kortleggja og skilgreina úrræði og þjónustuþörf fyrir gerendur í hvers kyns ofbeldismálum og leggja fram tillögur um úrbætur. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili niðurstöðum í árslok 2019. Þá er í gildi samstarfssamningur félagsmálaráðuneytis og verkefnisins Heimilisfriðar. Heimilisfriður er meðferðarúrræði fyrir einstaklinga sem beita ofbeldi í nánum samböndum sem sálfræðingar hafa veitt um árabil samkvæmt samningi við stjórnvöld, áður undir heitinu Karlar til ábyrgðar. Auk þess hefur verið skipaður aðgerðahópur um verkefnið karlar og jafnrétti en viðfangsefni hópsins er m.a. að gera tillögur um aðgerðir til að efla sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu við þolendur og gerendur kynferðisofbeldis. Samhliða þessu má benda á aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins þar sem farið er ítarlega yfir aðgerðir er snúa að virkari úrræðum fyrir sakborninga í kynferðisbrotamálum.
    Fram komu sjónarmið um að tryggja yrði að meðferðarúrræði ætluð gerendum ofbeldis væru ávallt samþætt meðferð við vímuefnavanda og að í vímuefnameðferð væri einnig veitt sérhæfð meðferð fagfólks fyrir þá sem beita ofbeldi. Við meðferð málsins var einnig lögð áhersla á það að huga að gerendum sem hafa ekki náð 18 ára aldri og að þeir fengju viðeigandi ráðgjöf og stuðning eins fljótt og auðið er. Þá þyrfti að tryggja aukið aðgengi kvenna að meðferðarúrræðum en um leið að þær væru ekki í meðferð með gerendum sínum. Nefndin beinir því til félagsmálaráðuneytis að taka framangreind sjónarmið til skoðunar við vinnu aðgerðarinnar og jafnvel kanna hvort slíkri vinnu eigi að beina til þeirra hópa sem hafa verið skipaðir í þessum efnum.
    Þá komu einnig fram athugasemdir að meðal samstarfsaðila væru ekki nefnd samtök sem vinna með brotaþolum en mikilvægt væri að tryggja brotaþolavæn sjónarmið. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og leggur til að bæta frjálsum félagasamtökum við sem samstarfsaðilum en bendir jafnframt á að mikilvægt er að sjónarmið samtaka eins og Afstöðu, félags fanga komi jafnframt fram.

C.8. Hagsmunagæsla aldraðra þegar grunur er um að þeir séu beittir ofbeldi.
    Í áætluninni er gert ráð fyrir að skipaður verði starfshópur sem fari yfir tiltæk úrræði þar sem grunur leikur á að aldrað fólk hafi verið beitt ofbeldi og leggi fram tillögur þar um. Á fundum nefndarinnar kom meðal annars fram að ekki er mikið til af rannsóknum eða könnunum um ofbeldi gegn öldruðum. Að mati nefndarinnar virðist því vera þörf fyrir frekari rannsóknir, t.d. um tíðni og eðli ofbeldis gegn öldruðum. Nefndin telur því tilefni til að slíkt verði hluti af þeirri vinnu sem aðgerðin boðar en auk þess þurfi að kanna stöðu mála hjá öldruðum á ólíkum stöðum í samfélaginu, þar á meðal öldruðum sem eru af erlendu bergi brotnir.
    Fyrir nefndinni var einnig lögð áhersla á að allar rannsóknir á ofbeldi og einelti gegn öldruðum svo og tillögur til úrbóta séu gerðar í samstarfi við Landssamband eldri borgara en jafnframt sé samráð haft við þau samtök eða aðila sem hafa þekkingu á ofbeldi og afleiðingum þess. Nefndin leggur þess vegna til að háskólasamfélagið almennt verði tilgreint sem samstarfsaðili í þessum efnum. Að auki leggur nefndin til að mælikvarða aðgerðarinnar verði breytt þannig að starfshópurinn skili skýrslu með tillögum í júní 2020.

C.9. Mat á þörf fyrir kvennaathvörf á landsbyggðinni.
    Samkvæmt aðgerðinni á að stofna starfshóp sem falið verður að kortleggja og meta hvort þörf sé fyrir úrræði á borð við kvennaathvarf á landsbyggðinni til að tryggja þolendum ofbeldis aðgang að sérhæfðum stuðningsúrræðum óháð búsetu.
    Fram komu sjónarmið um að tryggja þyrfti aðgengi kvenna í vímuefnaneyslu að kvennaathvörfum og nauðsyn þess að bjóða upp á alhliða þverfaglega aðstoð við þennan hóp. Þá þyrfti einnig að huga að þjónustu við barnshafandi konur. Nefndin telur mikilvægt að kvennaathvörf geti þjónað sem breiðustum hópi kvenna, ekki síst þeim sem standa höllum fæti vegna stöðu sinnar að öðru leyti. Nefndin beinir því til ábyrgðaraðila að kortleggja jafnframt þessa þörf.
    Við meðferð málsins var nefndinni einnig bent á að mikilvægt væri að tengja starfshópinn við þjónustu í heimabyggð og að nýtt yrði sú reynsla og þekking sem er þar til staðar. Nefndin bendir á að þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi á Akureyri hefur nú þegar tekið til starfa, sbr. aðgerð C.3. Nefndin telur því eðlilegt að þeir samstarfsaðilar sem koma að þjónustuúrræðinu á Akureyri komi einnig að þessu verkefni.

C.10. Samræmd velferðarþjónusta fyrir þolendur mansals fest í sessi.
    Með aðgerðinni er ætlunin að festa í sessi framkvæmdateymi um mansalsmál og því fundið viðeigandi aðsetur í Bjarkarhlíð. Þá á að tryggja betur aðgengi þjónustuaðila á landsbyggðinni að ráðgjöf um úrræði þegar þeir hafa mansalsmál til meðferðar.
    Nefndinni var bent á að um umfangsmikið starf væri um að ræða. Slíkt þyrfti að kostnaðarmeta með betri hætti með tilliti til menntunar sérfræðinga, húsnæðisúrræða, aðgerða til að tryggja vernd og öryggi þolenda. Þá þarf að verja mun meira fjármagni í fyrirbyggjandi aðgerðir, vitundarvakningu, greiningu þolenda og aðstoð, saksókn og rannsókn þessara mála og fleira þess háttar.
    Nefndin áréttar að með aðgerðum sem eru í aðgerðaáætlun þessari er einkum lögð áhersla á velferðarþjónustu fyrir þolendur mansals. Nefndin tekur fram að stjórnvöld hafa sett fram stefnu í mansalsmálum en í mars 2019 voru birtar áherslur stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að stefna stjórnvalda taki mið af framangreindum sjónarmiðum og að áherslurnar verði rýndar út frá fjárveitingum. Þá bendir nefndin á að áherslur stjórnvalda á þessu málefnasviði gera ráð fyrir stofnun samhæfingarmiðstöðvar sem verði komið á fót ekki síðar en á árinu 2020. Meginhlutverk þeirrar stöðvar verði að samræma verklag og viðbrögð þegar grunur leikur á mansali. Nefndin beinir því til ábyrgðaraðila þeirrar aðgerðar, dómsmálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis, tryggja samráð við þá samstarfsaðila, sem koma að aðgerðum C.10 og C.11. Auk þess leggur nefndin til að haft verði samráð við þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi.
    Á fundum nefndarinnar komu einnig fram sjónarmið um að óraunhæft væri að Bjarkarhlíð hefði tekið við verkefninu í janúar 2019 en áður en til þess kæmi væri nauðsynlegt að setja verklag um aðkomu hverrar stofnunar svo þjónustan verði frá upphafi skilvirk. Til að koma til móts við þau sjónarmið og veita ákveðið svigrúm, leggur nefndin til breytingar á mælikvarða aðgerðarinnar með þeim hætti að Bjarkarhlíð taki við verkefninu eigi síðar en árið 2020.

C.11. Leiðbeinandi reglur um velferðarþjónustu fyrir þolendur mansals.
    Fram komu sjónarmið um að eðlilegt væri að öll lögregluembættin hefðu aðkomu að gerð leiðbeinandi reglna um velferðarþjónustu fyrir þolendur mansals á sama hátt og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, enda víðar en þar um mikla sérþekkingu að ræða í málaflokknum. Auk þess munu önnur lögregluembætti þurfa að óska eftir þjónustu fyrir þolendur mansals og eðlilegt að þau hafi aðkomu að gerð leiðbeinandi reglna á sama hátt og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og leggur til að verkefnið verði unnið í samvinnu við lögregluembættin. Að auki leggur nefndin til að mælikvarða aðgerðarinnar verði breytt þannig að leiðbeinandi reglur verði tilbúnar í júní 2020.

C.12. Árlegur landssamráðsfundur um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.
    Á fundum nefndarinnar var bent á að kostnaðaráætlun um árlegan landssamráðsfund stæðist engan veginn, sérstaklega ef tryggja ætti aðgengi allra að fundinum varðandi aðgengi fatlaðra, túlkun á táknmál og erlend mál ef nauðsyn þykir, stafræna deilingu og jafnvel ferðastyrki til frjálsra félagasamtaka sem staðsett eru utan höfuðborgarsvæðisins.
    Að mati nefndarinnar er um að ræða mikilvægan vettvang til að stuðla að auknu samstarfi milli stofnana, frjálsra félagasamtaka, fræðasamfélagsins og annarra sem láta sig málefnasviðið varða. Jafnframt er um að ræða vettvang til að fara yfir nýjar áherslur í samfélaginu með það að markmiði að þær áherslur verði hluti af aðgerðaáætluninni. Að því sögðu telur nefndin brýnt að ráðuneytin tryggi aðgengi og fjármögnun svo að slíkur fundur nái markmiðum sínum.

C.13. Eftirfylgni með aðgerðaáætlun þessari.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að tryggja eftirfylgni með aðgerðaáætluninni sem og meta hvort markmið muni nást. Þá var nefndinni bent á mikilvægi þess að fylgst verði með árangri aðgerða með tölulegum upplýsingum á hverju ári og þær geymdar og aðgengilegar almenningi og fræðasamfélaginu. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og leggur áherslu á áframhaldandi samstarf ráðuneytanna. Að auki leggur nefndin til minni háttar orðalagsbreytingar til lagfæringar og leiðréttingar.

C.14. Endurskoðun aðgerðaáætlunar þessarar.
    Samhljómur var á meðal gesta og umsagnaraðila að vinna þyrfti gegn því alvarlega þjóðfélagsmeini sem ofbeldi væri. Sérstök áhersla væri lögð á samstarf þegar stuðlað er að vitundarvakningu um málefnið með forvörnum og fræðslu, bættu verklagi og málsmeðferð og efldur stuðningur við þolendur. Um er að ræða umfangsmikinn vanda í samfélaginu. Í ljósi þess telur nefndin nauðsynlegt að aðgerðaáætlun þessi verði tekin til endurskoðunar og að sú endurskoðun byggist m.a. á samstarfi við opinberar stofnanir, frjáls félagasamtök og fræðasamfélagið. Nefndin telur m.a. æskilegt að nýta árlegan landssamráðsfund, sbr. aðgerð C.12, til að hefja slíkt samráð. Endurskoðuð aðgerðaáætlun verði lögð fyrir Alþingi á haustþingi 2022 og taki gildi í byrjun árs 2023. Nefndin leggur þess vegna til að bæta við aðgerð sem kveður á um endurskoðun aðgerðaáætlunar þessarar.

Annað.
    Umfjöllun nefndarinnar var víðtæk og komu fram sjónarmið sem nefndin telur rétt að reifa sérstaklega. Nefndin beinir því til ráðuneytanna að hafa þessi sjónarmið til hliðsjónar við vinnslu áætlunarinnar og taka til skoðunar hvort ástæða sé til að bæta verkefnum við aðgerðaáætlunina þar sem við á.

Ólíkar birtingarmyndir ofbeldis.
    Nefndinni var bent á að bæta þyrfti við nýrri aðgerð sem snúi að fræðsluátaki til viðbragðsaðila um ólíkar birtingarmyndir ofbeldis í samráði við hagsmunasamtök á borð við Samtökin '78, Tabú og W.O.M.E.N. Mismunarbreytur gerðu það einnig að verkum að ákveðnir hópar fólks væru frekar beittir ofbeldi en aðrir. Þannig þyrfti að taka skýrar fram hver staða ólíkra hópa brotaþola væri í málaflokknum og hvernig ætti að rétta sérstaklega af stöðu þessara hópa. Einnig þyrfti að taka sérstakt tillit til þeirra einstaklinga sem tilheyra fleiri en einum minnihlutahópi.

Sértækir hópar.
    Fram komu sjónarmið um að frjáls félagasamtök ættu að fá mikið vægi í aðgerðum gegn ofbeldi. Nokkuð var rætt um að skortur væri á sértækum aðgerðum vegna ofbeldis gegn fólki í viðkvæmri stöðu, svo sem fólki með fötlun, öldruðum, fólki af erlendum uppruna og hinsegin fólki. Við meðferð málsins var nefndinni bent á að hátt hlutfall ofbeldis væri kynbundið og beindist að fólki sérstaklega vegna kyns þess. Þannig skorti á að kveða skýrt á um kynjasjónarhorn í áætluninni.
    Fyrir nefndinni var gagnrýnt að ekki væri gert ráð fyrir hinsegin fólki í aðgerðinni. Á fundum nefndarinnar var til dæmis fjallað um ofbeldi sem hinsegin fólk verður fyrir á grundvelli kynhneigðar, kyntjáningar, kynvitundar eða kyneinkenna. Hins vegar eru fáar rannsóknir til um ofbeldi vegna hinseginleika en fram komu sjónarmið um mikilvægi þess að meta umfang vandans í þessum efnum. Þá var bent á að í tengslum við átak Reykjavíkurborgar og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við Kvennaathvarfið og Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu gegn heimilisofbeldi, Saman gegn ofbeldi, var starfshópur skipaður árið 2017 sem skilaði skýrslu um leiðir til að sporna gegn heimilisofbeldi sem hinsegin fólk verður fyrir.
    Á fundum nefndarinnar var einnig rætt um réttindi fatlaðs fólks og jafnframt mikilvægi þess að efla þekkingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Rannsóknir sýna einnig að fatlað fólk er sérstaklega berskjaldað fyrir ofbeldi af öllu tagi. Jafnframt þarf að safna áreiðanlegum tölfræðilegum upplýsingum í þessum efnum.
    Nefndinni var bent á að komin er ákveðin vinna af stað innan réttarvörslukerfisins sem snýr að því að tryggja betri málsmeðferð þegar fatlað fólk hefur orðið fyrir ofbeldi. Þá liggur fyrir skýrsla starfshóps frá júní 2018 um meðferð kynferðisbrotamála þegar um fatlaða sakborninga og/eða brotaþola er að ræða sem unnin var fyrir ríkissaksóknara. Sú skýrsla leiddi til þess að gefnar voru leiðbeiningar til lögreglu og ákærenda um meðferð kynferðisbrotamála þegar fatlað fólk á í hlut, en leiðbeiningarnar geta einnig átt við um meðferð annarra mála þegar fatlaðir eiga hlut að máli.
    Þá var gagnrýnt að hvergi væri lýst yfir í aðgerðaáætluninni hvernig unnið yrði markvisst við að styðja konur af erlendum uppruna, hvorki í forvarnaskyni né við valdeflingu vegna afleiðinga ofbeldis og mismununar. Ekki væri nóg af úrræðum fyrir þennan hóp. Til hliðsjónar væri hægt að hafa framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016–2019, sérstaklega aðgerðir B.7. Stuðningur við konur sem hafa búið við heimilisofbeldi og B.8. Ofbeldi.
    Að lokum kom fram að einnig þyrfti að huga að hópum sem væru meira útsettir fyrir ofbeldi en aðrir, t.d. fíklar. Vímuefnameðferðir þyrftu jafnframt að taka jafnt á afleiðingum ofbeldis sem og að innihalda meðferð fyrir gerendur.

Stafrænt kynferðisofbeldi.
    Vakin var athygli á því að svo virtist sem ekki væri að finna neitt sérstakt verkefni sem tæki á stafrænu kynferðisofbeldi. Í aðgerðaáætluninni væri til að mynda ekki gert ráð fyrir aðgerðum til að styðja þolendur stafræns kynferðisofbeldis, aðgerðum til að fræða aðila í réttarvörslukerfinu eða aðgerðum til að efla vitund almennings á eðli og skaðsemi stafræns kynferðisofbeldi. Í þessu samhengi vísar nefndin til þess að stýrihópi um heildstæðar úrbætur er varða kynferðislegt ofbeldi hefur verið falið að móta stefnu um aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi.

Tengsl áfengis eða vímuefna og ofbeldis.
    Við meðferð málsins var nefndinni bent á að í aðgerðaáætluninni væri ekki minnst á tengsl áfengis og ofbeldis, en mikilvægt væri að hafa slíkt í huga við setningu laga, mótun stefnu, úrræði eða aðgerðir um hvort tveggja. Leggja þarf áherslu á mikilvægi forvarna og hlutverk heilbrigðiskerfisins í því að koma í veg fyrir ofbeldi í nánum samböndum sem og draga úr ofbeldi sem tengist áfengi eða vímuefnum. Nefndin áréttar að um er að ræða eitt af þeim verkefnum sem ábyrgðaraðilar aðgerðaáætlunarinnar þurfa að tengja framkvæmd hennar við. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að hlutaðeigandi ráðuneyti skoði slíka aðgerð nánar í samráði við viðeigandi aðila en hér þyrfti m.a. að hafa til hliðsjónar samspil slíkrar aðgerðar við geðheilbrigðisáætlun.

Efling hegðunarfærni og félags- og tilfinningafærni.
    Við meðferð málsins var lagt til að bæta við aðgerð með það að markmiði að efla hegðunarfærni og félags- og tilfinningafærni barna á skólastigi. Þannig þyrfti að veita börnum sem dragast aftur úr jafnöldrum sínum aukinn stuðning án tafar í samræmi við gagnreyndar aðferðir. Þá þyrfti að auka skilning og þekkingu allra þeirra sem starfa með börnum á áhrifaþáttum hegðunar og árangursríkum leiðum til að auka færni barna á sviði hegðunar og samskipta. Jafnframt þyrfti að leggja meiri áherslu á stuðning við foreldra í áætluninni, svo sem aukið aðgengi að lágþröskulda uppeldis- og fjölskylduráðgjöf í nærumhverfi ásamt bættu aðgengi að sérhæfðari úrræðum vegna hegðunar- og fjölskylduvanda á byrjunarstigi. Einnig þyrfti að vera möguleiki á vægari úrræðum sem krefjast ekki tilvísunar í barnavernd. Nefndin beinir því til ráðuneytanna að hafa framangreint til hliðsjónar þegar vinna við áætlunina hefst og hvort tilefni er til að útfæra slíka aðgerð á landssamráðsfundi.

Öryggi á skemmtistöðum.
    Á fundum nefndarinnar komu fram spurningar um hvort aðgerð um öryggi á skemmtistöðum ætti að vera hluti af vitundarvakningu aðgerðaáætlunarinnar. Áætlunin endurspeglaði ekki nægilega þá þætti sem rannsóknir sýna að spá fyrir um þróun ofbeldishegðunar hjá ungmennum og áfengis- og vímuefnaneyslu. Innleiða þyrfti námskeið fyrir starfsfólk um öruggt skemmtanalíf að erlendri fyrirmynd og þannig auka þekkingu starfsfólks á veitinga- og skemmtistöðum á eigin öryggi og öryggi gesta. Aðrar aðgerðir gætu falið í sér að sporna við markaðssetningu áfengis. Að mati nefndarinnar er tilefni til að skoða nánar og útfæra slíka aðgerð á landssamráðsfundi sem og í víðtæku samráði við hlutaðeigandi aðila.

Ofbeldi gegn frelsissviptum einstaklingum.
    Á fundum nefndarinnar var nokkuð fjallað um ofbeldi gegn frelsissviptum einstaklingum og viðbrögð og fræðslu starfsmanna á slíkum stofnunum sem og tilkynningarskyldu starfsmanna og hvort til staðar væri samræmt skráningarkerfi. Við umfjöllun nefndarinnar var sérstaklega fjallað um fanga í þessum efnum.
    Nefndin tekur fram að umboðsmaður Alþingis hefur nú með höndum eftirlit með aðstæðum frelsissviptra (OPCAT) en markmið þess er að koma á reglubundnum heimsóknum óháðra, alþjóðlegra og innlendra aðila á staði þar sem einstaklingar eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu, með það fyrir augum að koma í veg fyrir pyndingar og aðra illa meðferð þeirra. Í því samhengi er rétt að nefna að skipaður hefur verið stýrihópur Stjórnarráðsins um mannréttindi en meðal viðfangsefna hópsins eru meðal annars að fylgja eftir tilmælum vegna úttekta mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála hérlendis sem og úttekta annarra alþjóðlegra eftirlitsaðila.
    Að mati nefndarinnar getur verið full ástæða til að fella slíka aðgerð inn í aðgerðaáætlun um ofbeldi á síðari stigum, og þá verði sérstaklega hafðar til hliðsjónar skýrslur umboðsmanns Alþingis í þeim efnum.

Ofbeldi gegn börnum.
    Á fundum nefndarinnar var jafnframt fjallað um ofbeldi gegn börnum og mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða. Samkvæmt greinargerð þingsályktunartillögu þessarar kemur fram að margar aðgerðir lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi. Þær taka einkum til forvarna og fræðslu og falla undir A-hlutann en einnig eru nokkrar aðgerðir í B-hluta til þess fallnar að vernda börn og bæta málsmeðferð í málum er varða þau. C-hlutinn felur hins vegar ekki í sér tillögur að aðgerðum í málum barna sem hafa verið beitt ofbeldi. Þá kemur fram að stuðningur, ráðgjöf og önnur úrræði fyrir börn í kjölfar ofbeldis fer eftir ákvæðum barnaverndarlaga, nr. 80/2002.
    Nefndin tekur fram að hafin er vinna við endurskoðun félagslega kerfisins eins og það snýr að börnum og fjölskyldum þeirra. Lýtur vinnan m.a. að því að endurskoða barnaverndarlögin, innleiða í auknum mæli snemmtæka íhlutun og styrkja réttindi barna almennt. Nefndin áréttar mikilvægi þess að tryggja samspil milli þessarar aðgerðaáætlunar, þar sem við á, og þeirrar endurskoðunar sem á sér stað á félagslega kerfinu.
    Nefndin leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Guðmundur Andri Thorsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Jón Steindór Valdimarsson skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara um fjármögnun þeirra verkefna sem tillagan gerir ráð fyrir. Þingmennirnir telja ekki vera samræmi milli þess metnaðar og markmiða sem sett eru fram um fjölda verkefna og þeirra fjármuna sem gert er ráð fyrir að veita til þeirra. Gera þarf bragarbót og það er mjög óheppilegt að vekja vonir og væntingar um að góðum verkefnum verði hrint í framkvæmd en tryggja það ekki með fullnægjandi fjármunum. Þá skrifar Helgi Hrafn Gunnarsson einnig undir með fyrirvara um að allar aðgerðir gegn haturstali og hatursáróðri verði að vera í fullu samræmi við tjáningarfrelsi.
    Jón Steindór Valdimarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Anna Kolbrún Árnadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 24. maí 2019.

Páll Magnússon,
form.
Andrés Ingi Jónsson, frsm. Birgir Ármannsson.
Guðmundur Andri Thorsson, með fyrirvara. Halla Gunnarsdóttir. Helgi Hrafn Gunnarsson, með fyrirvara.
Hjálmar Bogi Hafliðason. Jón Steindór Valdimarsson, með fyrirvara.


Fylgiskjal.

Landlæknir:


Heilsa og líðan Íslendinga.

    Í eftirfarandi skjali er úrvinnsla úr gögnum rannsóknarinnar Heilsa og líðan Íslendinga frá árunum 2012 og 2017 samkvæmt beiðni. Í úrtaki (úrtökum) rannsóknarinnar eru aðeins íslenskir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, með skráða búsetu á Íslandi og byggist úrvinnslan á svörum u.þ.b. 6.500 þátttakenda árið 2012 og 6.400 árið 2017.
    Hlutföll eru vigtuð og brotin niður eftir kyni og aldri. Fjölda svara að baki greiningunum (nefnarann) má sjá til hliðar í skjalinu.
    Um er að ræða úrtakskönnun. Niðurstöður úr öllum úrtakskönnunum þarf að taka með fyrirvara. Flökt í niðurstöðum kemur fram vegna þess þær innihalda ekki mælingar á öllum landsmönnum heldur tilviljunarúrtaki. Möguleikar á kefisbundnum skekkjum eru einnig til staðar, t.d. ef þeir sem hafna þátttöku eru frábrugðnir þeim sem svara.
    Dæmi um túlkun:
     *      Niðurstöður rannsóknarinnar Heilsa og líðan Íslendinga benda til þess að árið 2017 hafi 70,1% (67,7%–72,4% þegar vikmörk eru reiknuð) Íslendinga á aldrinum 18–44 ára aldrei orðið fyrir líkamlegu ofbeldi, 63% (59,2%–67,3% með vikmörkum) karla og 77% (74,4%–79,9% með vikmörkum) kvenna í sama aldurshópi.
     *      Áætla má að árið 2017 hafi 20,0% (16,7%–23,4% með vikmörkum) íslenskra karla á aldrinum 18–44 ára einhvern tíma verið beittir líkamlegu ofbeldi af ókunnugum.
    Frekari upplýsingar um rannsóknina Heilsa og líðan Íslendinga má finna hér:
www.landlaeknir.is/tolfraedi-og-rannsoknir/rannsoknir/heilsa-og-lidan-islendinga/

Rannsóknin Heilsa og líðan Íslendinga 2017.

Greining á spurningum um ofbeldi (spurningar nr. 53 og 54) eftir kyni og aldri.
Hlutföll eru vigtuð svo þau endurspegli þýði með tilliti til kyns, aldurs og tvískiptrar búsetu (innan eða utan höfuðborgarsvæðis).

sp53a. Hefur þú orðið fyrir líkamlegu ofbeldi?
Aldur Karlar Konur Alls
18–44 ára Nei, aldrei 63,2% 77,2% 70,1%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 1,9% 1,4% 1,7%
Já, en fyrir meira en 12 mánuðum 34,8% 21,5% 28,3%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
45–66 ára Nei, aldrei 75,8% 81,2% 78,5%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 0,8% 0,8% 0,8%
Já, en fyrir meira en 12 mánuðum 23,4% 18,0% 20,7%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
67 ára og eldri Nei, aldrei 90,8% 91,2% 91,0%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 0,1% 0,2% 0,1%
Já, en fyrir meira en 12 mánuðum 9,1% 8,6% 8,9%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
Alls (18+) Nei, aldrei 72,5% 81,2% 76,8%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 1,2% 1,0% 1,1%
Já, en fyrir meira en 12 mánuðum 26,3% 17,9% 22,1%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
sp53b. Hefur þú orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi?
Aldur Karlar Konur Alls
18–44 ára Nei, aldrei 91,2% 69,6% 80,6%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 0,3% 1,5% 0,9%
Já, en fyrir meira en 12 mánuðum 8,5% 28,9% 18,6%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
45–66 ára Nei, aldrei 93,6% 77,2% 85,3%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 0,1% 0,1% 0,1%
Já, en fyrir meira en 12 mánuðum 6,4% 22,7% 14,6%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
67 ára og eldri Nei, aldrei 97,2% 90,6% 93,8%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 0,0% 0,5% 0,3%
Já, en fyrir meira en 12 mánuðum 2,8% 8,9% 5,9%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
Alls (18+) Nei, aldrei 93,1% 76,1% 84,5%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 0,2% 0,8% 0,5%
Já, en fyrir meira en 12 mánuðum 6,8% 23,1% 15,0%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
sp53c. Hefur þú orðið fyrir andlegu ofbeldi?
Aldur Karlar Konur Alls
18–44 ára Nei, aldrei 63,6% 59,5% 61,6%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 6,3% 8,8% 7,6%
Já, en fyrir meira en 12 mánuðum 30,1% 31,7% 30,9%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
45–66 ára Nei, aldrei 74,6% 63,7% 69,1%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 5,6% 6,0% 5,8%
Já, en fyrir meira en 12 mánuðum 19,7% 30,3% 25,0%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
67 ára og eldri Nei, aldrei 87,3% 81,4% 84,2%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 1,6% 2,2% 1,9%
Já, en fyrir meira en 12 mánuðum 11,1% 16,3% 13,8%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
Alls (18+) Nei, aldrei 71,5% 65,0% 68,3%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 5,3% 6,6% 6,0%
Já, en fyrir meira en 12 mánuðum 23,2% 28,4% 25,8%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
sp54a. Líkamlegt ofbeldi – hlutfallsleg dreifing eftir því hver beitti ofbeldinu.
Kyn Aldur Maki/ kærasti/-a Fyrrum maki/ kærasti/-a Vinur/ félagi Ókunnugur Ættingi Annar Hef ekki orðið fyrir ofbeldi
Karlar 18–44 ára 0,7% 3,0% 5,2% 20,0% 3,2% 10,9% 63,2%
45–66 ára 1,1% 0,6% 2,0% 14,1% 3,4% 5,6% 75,2%
67 ára og eldri 0,6% 0,4% 0,6% 4,4% 1,1% 2,5% 90,8%
Alls (18+) 0,8% 1,7% 3,3% 15,2% 2,9% 7,5% 72,3%
Konur 18–44 ára 3,1% 6,5% 2,6% 4,4% 6,4% 4,4% 77,4%
45–66 ára 3,7% 5,9% 0,5% 2,9% 5,0% 2,5% 81,0%
67 ára og eldri 2,6% 3,6% 0,5% 0,3% 1,5% 0,5% 91,2%
Alls (18+) 3,2% 5,7% 1,5% 3,1% 5,0% 3,0% 81,2%
Alls 18–44 ára 1,8% 4,7% 3,9% 12,4% 4,8% 7,7% 70,2%
45–66 ára 2,4% 3,2% 1,3% 8,5% 4,2% 4,1% 78,1%
67 ára og eldri 1,7% 2,0% 0,5% 2,3% 1,3% 1,5% 91,0%
Alls (18+) 2,0% 3,7% 2,4% 9,2% 4,0% 5,3% 76,7%

sp54b. Kynferðislegt ofbeldi – hlutfallsleg dreifing eftir því hver beitti ofbeldinu.
Kyn Aldur Maki/ kærasti/-a Fyrrum maki/ kærasti/-a Vinur/ félagi Ókunnugur Ættingi Annar Hef ekki orðið fyrir ofbeldi
Karlar 18–44 ára 0,0% 0,7% 1,3% 3,6% 1,0% 2,9% 91,3%
45–66 ára 0,5% 0,2% 0,8% 1,5% 1,8% 2,2% 93,5%
67 ára og eldri 0,3% 0,0% 0,4% 0,8% 0,2% 1,1% 97,2%
Alls (18+) 0,2% 0,4% 1,0% 2,4% 1,2% 2,3% 93,1%
Konur 18–44 ára 1,4% 4,0% 8,4% 9,7% 6,0% 6,9% 69,8%
45–66 ára 1,2% 2,5% 3,5% 5,2% 6,3% 6,7% 77,5%
67 ára og eldri 0,9% 1,2% 1,4% 1,2% 2,2% 2,8% 90,7%
Alls (18+) 1,2% 3,0% 5,4% 6,6% 5,4% 6,1% 76,3%
Alls 18–44 ára 0,7% 2,3% 4,8% 6,6% 3,5% 4,8% 80,7%
45–66 ára 0,8% 1,4% 2,2% 3,3% 4,1% 4,5% 85,5%
67 ára og eldri 0,6% 0,6% 0,9% 1,0% 1,2% 1,9% 93,9%
Alls (18+) 0,7% 1,7% 3,2% 4,5% 3,3% 4,2% 84,7%


Rannsóknin Heilsa og líðan Íslendinga 2012.
Greining á spurningum um ofbeldi (spurningar nr. 43, 44, 45, 46, 47, 48) eftir kyni og aldri. Hlutföll eru vigtuð svo þau endurspegli þýði með tilliti til kyns, aldurs og tvískiptrar búsetu (innan eða utan höfuðborgarsvæðis).

sp43. Hefur þú orðið fyrir líkamlegu ofbeldi (t.d. barsmíðum, þ.m.t. heimilisofbeldi)?
Aldur Karlar Konur Alls
18–44 ára Nei, aldrei 84,1% 88,0% 86,0%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 2,3% 0,8% 1,5%
Já, fyrir meira en 12 mánuðum síðan 13,6% 11,3% 12,5%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
45–66 ára Nei, aldrei 92,5% 90,4% 91,5%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 0,7% 0,3% 0,5%
Já, fyrir meira en 12 mánuðum síðan 6,8% 9,3% 8,0%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
67 ára og eldri Nei, aldrei 96,9% 94,6% 95,7%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 0,4% 0,2% 0,3%
Já, fyrir meira en 12 mánuðum síðan 2,7% 5,2% 4,0%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
Alls (18+) Nei, aldrei 88,8% 89,8% 89,3%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 1,5% 0,5% 1,0%
Já, fyrir meira en 12 mánuðum síðan 9,7% 9,7% 9,7%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
sp44a. Líkamleg vandamál / áverkar í kjölfar líkamlegs ofbeldis.
Aldur Karlar Konur Alls
18–44 ára Nei, aldrei 7,3% 4,4% 5,9%
Já, finn fyrir núna 1,2% 0,3% 0,8%
Já, fann fyrir áður en ekki núna 6,1% 6,5% 6,3%
Aldrei orðið fyrir líkamlegu ofbeldi 85,4% 88,8% 87,1%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
45–66 ára Nei, aldrei 3,0% 2,8% 2,9%
Já, finn fyrir núna 0,3% 0,5% 0,4%
Já, fann fyrir áður en ekki núna 3,2% 5,4% 4,3%
Aldrei orðið fyrir líkamlegu ofbeldi 93,4% 91,3% 92,4%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
67 ára og eldri Nei, aldrei 0,7% 2,0% 1,4%
Já, finn fyrir núna 0,4% 0,3% 0,3%
Já, fann fyrir áður en ekki núna 1,1% 2,4% 1,8%
Aldrei orðið fyrir líkamlegu ofbeldi 97,8% 95,3% 96,5%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
Alls (18+) Nei, aldrei 4,9% 3,5% 4,2%
Já, finn fyrir núna 0,8% 0,4% 0,6%
Já, fann fyrir áður en ekki núna 4,4% 5,5% 5,0%
Aldrei orðið fyrir líkamlegu ofbeldi 89,9% 90,6% 90,3%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
sp44b. Andleg vanlíðan (t.d. kvíði, depurð, svefntruflanir) í kjölfar líkamlegs ofbeldis.
Aldur Karlar Konur Alls
18–44 ára Nei, aldrei 9,2% 1,7% 5,5%
Já, finn fyrir núna 0,3% 2,0% 1,2%
Já, fann fyrir áður en ekki núna 5,0% 7,9% 6,4%
Aldrei orðið fyrir líkamlegu ofbeldi 85,5% 88,4% 86,9%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
45–66 ára Nei, aldrei 3,2% 1,2% 2,2%
Já, finn fyrir núna 0,7% 1,1% 0,9%
Já, fann fyrir áður en ekki núna 2,9% 6,7% 4,8%
Aldrei orðið fyrir líkamlegu ofbeldi 93,2% 91,0% 92,1%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
67 ára og eldri Nei, aldrei 1,3% 1,5% 1,4%
Já, finn fyrir núna 0,1% 0,4% 0,2%
Já, fann fyrir áður en ekki núna 1,2% 2,9% 2,1%
Aldrei orðið fyrir líkamlegu ofbeldi 97,5% 95,2% 96,3%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
Alls (18+) Nei, aldrei 6,0% 1,5% 3,8%
Já, finn fyrir núna 0,4% 1,4% 0,9%
Já, fann fyrir áður en ekki núna 3,7% 6,8% 5,3%
Aldrei orðið fyrir líkamlegu ofbeldi 89,8% 90,2% 90,0%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
sp45. Leitað til fagaðila vegna vandamála í kjölfar líkamlegs ofbeldis.
Aldur Karlar Konur Alls
18–44 ára Leitað til læknis/hjúkrunarfræðings 5,0% 2,9% 4,0%
Leitað til sálfræðings 0,5% 3,6% 2,1%
Leitað til félagsráðgjafa 0,0% 1,2% 0,6%
Leitað til annars fagaðila 0,7% 1,5% 1,1%
Tilgreinir vandamál en tilgreinir ekki neinn fagaðila sem leitað til 4,9% 5,5% 5,2%
Tilgreinir ekki að hafa fundið fyrir vandamálum 5,3% 0,9% 3,1%
Hefur ekki orðið fyrir líkamlegu ofbeldi 83,8% 87,7% 85,7%
45–66 ára Leitað til læknis/hjúkrunarfræðings 2,6% 2,6% 2,6%
Leitað til sálfræðings 1,2% 2,0% 1,6%
Leitað til félagsráðgjafa 0,5% 0,9% 0,7%
Leitað til annars fagaðila 0,6% 1,8% 1,1%
Tilgreinir vandamál en tilgreinir ekki neinn fagaðila sem leitað til 2,7% 4,3% 3,5%
Tilgreinir ekki að hafa fundið fyrir vandamálum 1,6% 0,7% 1,2%
Hefur ekki orðið fyrir líkamlegu ofbeldi 92,2% 89,8% 91,0%
67 ára og eldri Leitað til læknis/hjúkrunarfræðings 2,1% 2,2% 2,1%
Leitað til sálfræðings 0,6% 0,2% 0,4%
Leitað til félagsráðgjafa 0,4% 0,1% 0,2%
Leitað til annars fagaðila 1,0% 0,3% 0,6%
Tilgreinir vandamál en tilgreinir ekki neinn fagaðila sem leitað til 1,9% 4,5% 3,3%
Tilgreinir ekki að hafa fundið fyrir vandamálum 0,5% 1,4% 1,0%
Hefur ekki orðið fyrir líkamlegu ofbeldi 94,8% 91,5% 93,1%
Alls (18+) Leitað til læknis/hjúkrunarfræðings 3,8% 2,7% 3,2%
Leitað til sálfræðings 0,8% 2,6% 1,7%
Leitað til félagsráðgjafa 0,2% 0,9% 0,6%
Leitað til annars fagaðila 0,7% 1,4% 1,0%
Tilgreinir vandamál en tilgreinir ekki neinn fagaðila sem leitað til 3,7% 4,9% 4,3%
Tilgreinir ekki að hafa fundið fyrir vandamálum 3,3% 0,9% 2,1%
Hefur ekki orðið fyrir líkamlegu ofbeldi 88,3% 89,0% 88,6%


sp46. Hefur þú orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi (þvingun til samfara, tilraun til nauðgunar eða kynferðislegri snertingu / athöfn gegn vilja þínum)?
Aldur Karlar Konur Alls
18–44 ára Nei, aldrei 96,8% 77,0% 87,0%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 0,6% 0,9% 0,8%
Já, fyrir meira en 12 mánuðum síðan 2,6% 22,1% 12,3%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
45–66 ára Nei, aldrei 96,5% 84,4% 90,6%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 0,2% 0,1% 0,2%
Já, fyrir meira en 12 mánuðum síðan 3,3% 15,5% 9,3%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
67 ára og eldri Nei, aldrei 99,0% 93,7% 96,2%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 0,1% 0,1% 0,1%
Já, fyrir meira en 12 mánuðum síðan 1,0% 6,2% 3,7%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
Alls (18+) Nei, aldrei 97,0% 81,9% 89,5%
Já, á síðastliðnum 12 mánuðum 0,4% 0,5% 0,4%
Já, fyrir meira en 12 mánuðum síðan 2,6% 17,6% 10,1%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
sp47a. Líkamleg vandamál / áverkar í kjölfar kynferðislegs ofbeldis.
Aldur Karlar Konur Alls
18–44 ára Nei, aldrei 2,2% 15,5% 8,8%
Já, finn fyrir núna 0,0% 0,5% 0,2%
Já, fann fyrir áður en ekki núna 0,5% 5,9% 3,2%
Aldrei orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi 97,3% 78,1% 87,8%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
45–66 ára Nei, aldrei 2,3% 9,1% 5,6%
Já, finn fyrir núna 0,1% 0,2% 0,1%
Já, fann fyrir áður en ekki núna 0,5% 3,7% 2,1%
Aldrei orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi 97,1% 87,0% 92,2%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
67 ára og eldri Nei, aldrei 1,0% 3,6% 2,3%
Já, finn fyrir núna 0,0% 0,2% 0,1%
Já, fann fyrir áður en ekki núna 0,0% 1,0% 0,5%
Aldrei orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi 99,0% 95,2% 97,1%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
Alls (18+) Nei, aldrei 2,1% 11,6% 6,8%
Já, finn fyrir núna 0,0% 0,3% 0,2%
Já, fann fyrir áður en ekki núna 0,4% 4,5% 2,4%
Aldrei orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi 97,4% 83,6% 90,6%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
sp47b. Andleg vanlíðan (t.d. kvíði, depurð, svefntruflanir) í kjölfar kynferðislegs ofbeldis.
Aldur Karlar Konur Alls
18–44 ára Nei, aldrei 1,3% 2,8% 2,1%
Já, finn fyrir núna 0,1% 4,7% 2,4%
Já, fann fyrir áður en ekki núna 1,4% 14,9% 8,1%
Aldrei orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi 97,1% 77,6% 87,4%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
45–66 ára Nei, aldrei 1,5% 2,7% 2,1%
Já, finn fyrir núna 0,4% 1,9% 1,2%
Já, fann fyrir áður en ekki núna 1,3% 10,6% 5,9%
Aldrei orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi 96,8% 84,7% 90,9%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
67 ára og eldri Nei, aldrei 0,8% 1,6% 1,2%
Já, finn fyrir núna 0,1% 1,0% 0,5%
Já, fann fyrir áður en ekki núna 0,3% 3,7% 2,1%
Aldrei orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi 98,9% 93,7% 96,2%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
Alls (18+) Nei, aldrei 1,3% 2,6% 2,0%
Já, finn fyrir núna 0,2% 3,2% 1,7%
Já, fann fyrir áður en ekki núna 1,2% 11,9% 6,5%
Aldrei orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi 97,2% 82,3% 89,8%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
sp48. Leitað til fagaðila vegna vandamála í kjölfar kynferðislegs ofbeldis.
Aldur Karlar Konur Alls
18–44 Leitað til læknis/hjúkrunarfræðings 0,2% 3,5% 1,8%
Leitað til sálfræðings 0,0% 7,4% 3,7%
Leitað til félagsráðgjafa 0,0% 1,9% 0,9%
Leitað til annars fagaðila 0,7% 4,1% 2,4%
Tilgreinir vandamál en tilgreinir ekki neinn fagaðila sem leitað til 1,2% 9,4% 5,3%
Tilgreinir ekki að hafa fundið fyrir vandamálum 1,1% 3,0% 2,0%
Hefur ekki orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi 96,9% 77,2% 87,1%
45–66 Leitað til læknis/hjúkrunarfræðings 0,4% 1,8% 1,1%
Leitað til sálfræðings 0,4% 2,1% 1,2%
Leitað til félagsráðgjafa 0,1% 1,1% 0,6%
Leitað til annars fagaðila 0,6% 2,7% 1,7%
Tilgreinir vandamál en tilgreinir ekki neinn fagaðila sem leitað til 1,2% 7,7% 4,4%
Tilgreinir ekki að hafa fundið fyrir vandamálum 1,4% 2,5% 2,0%
Hefur ekki orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi 96,4% 84,3% 90,4%
67+ Leitað til læknis/hjúkrunarfræðings 0,2% 0,5% 0,4%
Leitað til sálfræðings 0,1% 0,6% 0,3%
Leitað til félagsráðgjafa 0,1% 0,4% 0,2%
Leitað til annars fagaðila 0,4% 0,5% 0,4%
Tilgreinir vandamál en tilgreinir ekki neinn fagaðila sem leitað til 0,7% 4,9% 2,9%
Tilgreinir ekki að hafa fundið fyrir vandamálum 0,8% 1,5% 1,2%
Hefur ekki orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi 98,0% 91,9% 94,8%
Alls (18+) Leitað til læknis/hjúkrunarfræðings 0,3% 2,5% 1,4%
Leitað til sálfræðings 0,1% 4,6% 2,3%
Leitað til félagsráðgjafa 0,0% 1,4% 0,7%
Leitað til annars fagaðila 0,6% 3,1% 1,9%
Tilgreinir vandamál en tilgreinir ekki neinn fagaðila sem leitað til 1,1% 8,2% 4,6%
Tilgreinir ekki að hafa fundið fyrir vandamálum 1,1% 2,7% 1,9%
Hefur ekki orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi 96,9% 81,7% 89,3%