Ferill 684. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1644  —  684. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit með frávísunartillögu


um tillögu til þingsályktunar um ráðgjafarnefnd um afnám stjórnsýsluhindrana til að greiða fyrir frjálsri för innan Norðurlanda.

Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Örn Guðleifsson frá forsætisráðuneyti og Bryndísi Helgadóttur og Guðmund Bjarna Ragnarsson frá dómsmálaráðuneyti.
    Umsagnir um málið bárust frá Þjóðskrá Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela forsætisráðherra að skipa ráðgjafarnefnd um afnám stjórnsýsluhindrana til að greiða fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda með því að efla og samræma starf stjórnsýslunnar og annarra aðila á þessu sviði. Ráðgjafarnefndin verði m.a. skipuð þeim þingmönnum Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sem sitja í stjórnsýsluhindranahópi Norðurlandaráðs.
    Á fundum nefndarinnar var fjallað nokkuð um tilurð málsins en það er tilkomið vegna samþykktar á Norðurlandaráðsþingi sem haldið var 29. október – 1. nóvember 2018. Íslandsdeild Norðurlandaráðs flytur málið til að fylgja samþykktinni eftir og vegna mikilvægis þeirra hagsmuna sem búa að baki frjálsri för innan Norðurlandanna.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um hlutverk ráðgjafarnefndarinnar og hvernig það gæti tengst þeirri vinnu sem þegar er unnin á samstarfsvettvangi ráðuneyta Stjórnarráðsins og Norðurlandanna. Fyrir nefndinni kom fram að þó nokkurt samstarf er milli ráðuneyta á Norðurlöndum þar sem stefnt er að samræmdum reglum og að ekki verði misræmi í löggjöf milli landanna. Í norræna stjórnsýsluhindranaráðinu eru fulltrúar ráðuneyta þar sem einstök tilfelli stjórnsýsluhindrana eru tekin til skoðunar og úrbóta. Þá er starfandi ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur sem forsætisráðherra skipaði og hefur það markmið að auka hagkvæmni og skilvirkni í opinberu eftirliti þannig að það nái markmiðum sínum um velferð, öryggi, heilbrigði og eðlilega viðskiptahætti en íþyngi einstaklingum og fyrirtækjum eins lítið og kostur er og leiði ekki til mismununar eða takmarki athafnafrelsi nema almannahagsmunir krefjist. Öryrkjabandalag Íslands hvetur til að ráðgjafarnefndinni verði komið á fót og bendir á að fatlað fólk þurfi að leita eftir margs konar stuðningi hjá hinu opinbera og því líklegra en aðrir til að verða fyrir stjórnsýsluhindrunum. Með slíkri ráðgjafarnefnd bindi bandalagið vonir við að settur verði aukinn kraftur í þessa vinnu.
    Nefndin telur mjög mikilvægt að unnið verði áfram að því að efla og samþætta þá vinnu sem unnin er á vegum ráðuneytanna og í samstarfi við önnur Norðurlönd og að einfalda regluverkið til hagsbóta fyrir borgarana. Nefndin leggur til að málinu verði vísað til forsætisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna.

Alþingi, 27. maí 2019.

Helga Vala Helgadóttir,
form.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, frsm. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Jón Þór Ólafsson. Brynjar Níelsson. Jón Steindór Valdimarsson.
Óli Björn Kárason. Þorsteinn Sæmundsson. Þórarinn Ingi Pétursson.