Ferill 954. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1655  —  954. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar (framfærsluuppbót og meðferð atvinnutekna).

Frá félags- og barnamálaráðherra.


I. KAFLI
Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „280.000 kr.“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: 310.800 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „227.883 kr.“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 247.183 kr.
     c.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fjárhæð uppbótarinnar skal reiknast í samræmi við réttindi til lífeyris, sbr. 1. og 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar.
     d.      Á eftir orðinu „almannatrygginga“ í 3. mgr. kemur: bætur samkvæmt lögum um slysatryggingar.
     e.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Eingreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga skal þó ekki telja til tekna lífeyrisþega.
     f.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu skv. 2. mgr. skal telja til tekna 65% af tekjum lífeyrisþega. Bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um almannatryggingar og lögum um slysatryggingar skulu þó teljast að fullu til tekna við útreikning uppbótarinnar, að því undanskildu að ekki skal telja til tekna 50% af fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar skv. 21. gr. laga um almannatryggingar.

II. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.
2. gr.

    Á eftir 11. mgr. 16. gr. laganna kemur ný málsgrein, sem verður 12. mgr., svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. er við útreikning á greiðslum skv. 17.–19. gr. og 21.–23. gr. laga þessara, sbr. einnig 13. gr. laga um félagslega aðstoð, heimilt að telja einungis til tekna bótaþega atvinnutekjur í þeim mánuði sem þeirra er aflað. Skal Tryggingastofnun ríkisins við endurreikning bótafjárhæða, sbr. 7. mgr., gera samanburð á útreikningi greiðslna hvers mánaðar annars vegar miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra er aflað. Beita skal þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi og koma til framkvæmda sem hér segir:
     a.      A–e-liður 1. gr. öðlast þegar gildi.
     b.      F-liður 1. gr. öðlast gildi 1. janúar 2019.
     c.      2. gr. öðlast gildi 1. janúar 2019 en kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2020 vegna tekna ársins 2019.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í félagsmálaráðuneytinu. Í frumvarpinu eru annars vegar lagðar til breytingar á 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum, hvað varðar greiðslur sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu og hins vegar á 16. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, hvað varðar meðferð atvinnutekna lífeyrisþega. Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Tryggingastofnun ríkisins sem annast framkvæmd laganna.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Markmið frumvarps þessa er einkum tvíþætt. Annars vegar er markmiðið að draga úr áhrifum annarra tekna en bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og afnema þar með það sem kallað hefur verið í daglegu tali „króna á móti krónu“ skerðing. Hefur það fyrirkomulag verið talsvert gagnrýnt í opinberri umræðu og þykir draga úr hvata lífeyrisþega til að afla sér tekna. Þykir nauðsynlegt að bregðast við því með því að lækka það hlutfall tekna lífeyrisþega sem hefur áhrif á útreikning uppbótarinnar. Þá hefur einnig komið fram gagnrýni á að bótaflokkurinn aldurstengd örorkuuppbót teljist að fullu til tekna við mat á þörf fyrir greiðslu sérstakrar uppbótar vegna framfærslu. Þykir nauðsynlegt að bregðast við því með því að draga úr áhrifum aldurstengdu örorkuuppbótarinnar við ákvörðun um það hvort lífeyrisþegi hafi þörf fyrir framfærsluuppbót. Hins vegar er markmiðið að auka sveigjanleika hvað varðar meðferð atvinnutekna lífeyrisþega við útreikning greiðslna þannig að það verði valkostur að tilfallandi eða tímabundnar atvinnutekjur hafi eingöngu áhrif á útreikning bóta í þeim mánuðum sem þeirra er aflað en skerði ekki rétt til bóta í öðrum mánuðum.
    Til að ná framangreindum markmiðum er talið nauðsynlegt að gera breytingar á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007. Þá munu þær lagabreytingar sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu krefjast breytinga á reglugerðum sem gilda um málaflokkinn og er stefnt að því að þær breytingar verði gerðar hið fyrsta verði frumvarpið að lögum.
    Í félagsmálaráðuneytinu er hafinn undirbúningur að gerð frumvarps til laga sem byggja mun á tillögum sem fram komu í skýrslu samráðshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga vegna skertrar starfsgetu. Hefur þar margoft verið rætt um nauðsyn þess að afnema sérstaka uppbót vegna framfærslu líkt og gert var í tilfelli ellilífeyrisþega með lögum um breytingu á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum, nr. 116/2016, þegar þrír bótaflokkar, ellilífeyrir, tekjutrygging og sérstök uppbót vegna framfærslu, voru sameinaðir í einn nýjan ellilífeyri. Er talið fara best á því að slík einföldun bótakerfisins verði gerð samhliða breyttu kerfi við mat á starfsgetu einstaklinga með skerta starfsgetu. Þar sem um mjög viðamiklar og flóknar breytingar er að ræða sem krefjast munu mikils undirbúnings við innleiðingu munu þær breytingar ekki koma til framkvæmda fyrr en að þeim undirbúningi loknum. Aftur á móti þykir brýnt að áður en að því kemur verði þær breytingar gerðar á sérstakri uppbót vegna framfærslu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu og þannig komið í veg fyrir hina svokölluðu „króna á móti krónu“ skerðingu. Með því móti munu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar t.d. geta aukið atvinnutekjur sínar án þess að uppbótin lækki um krónu á móti krónu sem er í samræmi við þær tillögur sem fram hafa komið um nýtt greiðslukerfi vegna skertrar starfsgetu um að draga úr vægi atvinnutekna sérstaklega. Eru breytingar þær sem felast í frumvarpinu þannig hugsaðar sem nokkurs konar brú yfir í nýtt greiðslukerfi vegna skertrar starfsgetu þar sem áhersla verður lögð á möguleika fólks til að auka ráðstöfunartekjur sínar með þátttöku á vinnumarkaði og þar sem dregið verði úr skerðingum bóta vegna tekna.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er að finna tillögur að breytingum sem lúta að greiðslu sérstakrar framfærsluuppbótar til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega skv. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.
    Fjárhæðir tekjuviðmiða vegna greiðslu sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu hækkuðu frá 1. janúar 2019 og eru nú 310.800 kr. hjá þeim sem fá greidda heimilisuppbót og 247.183 kr. fyrir þá sem ekki fá greidda heimilisuppbót. Þykir rétt að færa þær fjárhæðir í 2. mgr. 9. gr. laganna.
    Þá er gert ráð fyrir að bætur samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015, bætist í upptalningu á þeim tekjum sem teljast til tekna samkvæmt ákvæðinu.
Í þriðja lagi er gert ráð fyrir lögfestingu ákvæðis 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1200/2018, um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, um að fjárhæð sérstakrar uppbótar vegna framfærslu reiknist í samræmi við réttindi til örorkulífeyris hér á landi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar.
    Í fjórða lagi er lagt til að ákvæði 1. málsl. 3. mgr. 5. gr. reglugerðar um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri verði lögfest, en þar kemur fram að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og orlofs- og desemberuppbætur frá Tryggingastofnun ríkisins skuli ekki teljast til tekna lífeyrisþega við útreikning sérstakrar uppbótar vegna framfærslu.
    Þá er lagt til að gerðar verði breytingar á reglum er varða útreikning sérstakrar framfærsluuppbótar til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Er gert ráð fyrir því að í stað þess að miða útreikning á fjárhæð uppbótarinnar við allar (100%) tekjur lífeyrisþega verði miðað við 65% af tekjum lífeyrisþega. Þar með verði svokölluð „króna á móti krónu“ skerðing uppbótarinnar afnumin. Enn fremur er lögð til sú undantekning frá því að bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar teljist að fullu til tekna við útreikning framfærsluuppbótar að einungis skuli telja 50% af fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar skv. 21. gr. laga um almannatryggingar til tekna.
    Loks er lögð til breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, þannig að heimilt verði að telja einungis til tekna bótaþega þær atvinnutekjur sem aflað er á þeim tíma sem hann á rétt á greiðslum. Er það undantekning frá þeirri reglu samkvæmt gildandi lögum að árstekjum lífeyrisþega skuli jafnað niður á alla mánuði almanaksársins. Er jafnframt gert ráð fyrir því að við árlegan endurreikning bóta skuli Tryggingastofnun ríkisins gera samanburð á útreikningi greiðslna hvers mánaðar annars vegar miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra er aflað. Er lagt til að þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna lífeyrisþega skuli beitt.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Að mati félagsmálaráðuneytisins gefur efni frumvarpsins ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Á vinnslutíma frumvarpsins voru drög að því borin undir Tryggingastofnun sem annast framkvæmd laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð. Þá var málið kynnt á fundi með Öryrkjabandalagi Íslands. Efnisatriði frumvarpsins voru einnig ítarlega rædd á fundum samráðshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga þar sem samstaða var um að leggja til breytingar er varða sérstaka uppbót vegna framfærslu, einkum afnám „krónu á móti krónu“ skerðingar og meðferð atvinnutekna sem aflað hefur verið í mánuðum sem bótaréttur var ekki fyrir hendi í.

6. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpinu er lagt til að dregið verði úr áhrifum annarra tekna örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega við útreikning sérstakrar uppbótar vegna framfærslu en samkvæmt gildandi lögum teljast allar skattskyldar tekjur til tekna skv. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Einnig er lögð til sú undantekning frá því að bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar teljist að fullu til tekna við útreikning framfærsluuppbótar að einungis skuli telja 50% af fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar samkvæmt lögum um almannatryggingar til tekna.
    Fjöldi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fá uppbótina greidda hefur tvöfaldast frá árinu 2009 sem var fyrsta árið sem uppbótin var greidd allt árið. Mesta aukningin var árin 2011 og 2017 þegar uppbótin var hækkuð sérstaklega umfram bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.
    Í nóvember 2018 fengu um 7.800 einstaklingar greidda sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu, þar af um 1.250 endurhæfingarlífeyrisþegar og rúmlega 6.500 örorkulífeyrisþegar. Af 1.250 endurhæfingarlífeyrisþegum voru um 400 karlar og 850 konur og af rúmlega 6.500 örorkulífeyrisþegum voru 2.480 karlar og um 4.040 konur. Samþykkt frumvarpsins myndi því í ríkum mæli hafa jákvæð áhrif á hag tekjulægri kvenna í hópi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.
    Meðalfjárhæð sérstakrar uppbótar vegna framfærslu til endurhæfingarlífeyrisþega á árinu 2018 var 23.852 kr. á mánuði og meðalfjárhæðin var 24.470 kr. til örorkulífeyrisþega. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að ráðstöfunartekjur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fá uppbótina greidda muni aukast og mun meðalfjárhæð uppbótarinnar hækka mest hjá yngsta aldurshópnum, eins og nánar er vikið að í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er einnig kveðið á um meðferð atvinnutekna bæði elli- og örorkulífeyrisþega skv. 16. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt gildandi lögum er árstekjum lífeyrisþega jafnað niður á alla mánuði almanaksársins og skiptir ekki máli í því sambandi hvenær lífeyrisþegi afli teknanna eða hvort hann hafi fengið greiðslur á þeim tíma eða ekki. Í frumvarpinu er aftur á móti gert ráð fyrir að heimilt verði að telja einungis til tekna bótaþega þær atvinnutekjur sem aflað er á þeim tíma sem hann á rétt á greiðslum. Er jafnframt gert ráð fyrir því að við árlegan endurreikning bóta skuli Tryggingastofnun ríkisins gera samanburð á útreikningi greiðslna hvers mánaðar annars vegar miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra er aflað. Er gert ráð fyrir því að þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna lífeyrisþega skuli beitt. Verði frumvarpið að lögum mun það því leiða til þess að ráðstöfunartekjur lífeyrisþega sem fá atvinnutekjur geta aukist.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

     Um a- og b-lið.
    Tekjuviðmið skv. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, hækkaði 1. janúar 2019 og er nú 247.183 kr. á mánuði fyrir þá örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem búa með öðrum og 310.800 kr. á mánuði fyrir þá sem búa einir. Er í a- og b-lið lagt til að fjárhæðir þessar verði uppfærðar í lögunum.
     Um c-lið.
    Í c-lið er gert ráð fyrir lögfestingu þess að fjárhæð sérstakrar uppbótar vegna framfærslu reiknist í samræmi við réttindi til lífeyris hér á landi, sbr. 1. og 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, en nú er kveðið á um þessa reglu í 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1200/2018, um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri. Ákvæðið var upphaflega sett með reglugerð um sérstaka uppbót til framfærslu lífeyrisþega, nr. 878/2008, sem sett var með stoð í 2. mgr. 14. gr., sbr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, en skv. 2. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð er ráðherra veitt heimild til að setja með reglugerð frekari ákvæði um greiðslu félagslegrar aðstoðar samkvæmt lögunum og í 9. gr. er ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins. Ákvæðið var síðan tekið upp óbreytt í reglugerðum nr. 1052/2009 og 1200/2018, um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri. Hér er því ekki um að ræða breytingu frá gildandi reglum og framkvæmd en engu að síður er talin vera ástæða til að lögfesta regluna þar sem sérstök uppbót vegna framfærslu fylgir sömu reglum og aðrar greiðslur til örorkulífeyrisþega, sbr. 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, hvað varðar áhrif búsetu hér á landi á rétt til bóta og fjárhæðir greiðslna.
     Um d-lið.
    Lagt er til að bætur samkvæmt lögum um slysatryggingar, nr. 45/2015, bætist í upptalningu á þeim tekjum sem teljast til tekna samkvæmt ákvæðinu. Er það í samræmi við 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sem og 3. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, eins og henni var breytt með 3. gr. laga nr. 88/2015. Bætur samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga eru skattskyldar tekjur og teljast því til tekna skv. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð. Hér er því sömuleiðis ekki um að ræða breytingu frá gildandi reglum og framkvæmd heldur lögfestingu ákvæða reglugerðarinnar.
     Um e-lið.
    Í e-lið er gert ráð fyrir að kveðið verði á um það í lögum um félagslega aðstoð að þrátt fyrir meginregluna um að allar skattskyldar tekjur skuli teljast til tekna skv. 9. gr. laga um félagslega aðstoð þá skuli eingreiðslur, þ.e. orlofs- og desemberuppbætur, frá Tryggingastofnun ríkisins og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga ekki telja til tekna lífeyrisþega. Kveðið er á um þetta í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri og er því eingöngu lagt til að gildandi framkvæmd og ákvæði reglugerðarinnar verði lögfest.
     Um f-lið.
    Í f-lið er gert ráð fyrir að breytingar verði gerðar á reglum er varða útreikning sérstakrar framfærsluuppbótar til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Er í fyrsta lagi lagt til að í stað þess að miða útreikning á fjárhæð uppbótarinnar við 100% tekna lífeyrisþega verði miðað við 65% af tekjum. Aftur á móti er ekki gert ráð fyrir breytingum að því er varðar áhrif bóta almannatrygginga, slysatrygginga almannatrygginga og bóta samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, en bætur samkvæmt lögum þessum teljast lífeyrisþegum að fullu til tekna við mat á þörf samkvæmt ákvæðinu, með þeirri undantekningu sem lögð er til varðandi áhrif aldurstengdrar örorkuuppbótar skv. 21. gr. laga um almannatryggingar.
    Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð skulu allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki eru taldar fram hér á landi, teljast til tekna skv. 9. gr. laganna. Þetta hefur það í för með sér að allar tekjur lífeyrisþega, hvort sem um er að ræða atvinnutekjur, lífeyrissjóðstekjur, fjármagnstekjur, bætur almannatrygginga, bætur félagslegrar aðstoðar eða aðrar tekjur, koma að fullu til frádráttar þeirrar fjárhæðar sem lífeyrisþegar geta fengið í formi sérstakrar uppbótar vegna framfærslu. Þetta hefur í daglegu tali verið nefnt „króna á móti krónu“ skerðing og hefur verið gagnrýnt af mörgum sem telja að lífeyrisþegar sjái ekki hag í því að auka tekjur sínar og dragi þar með úr hvata til atvinnuþátttöku þar sem uppbótin lækkar á móti um sömu krónutölu. Til að mæta þessu er gert ráð fyrir því að í stað þess að útreikningur á fjárhæð uppbótarinnar miðist við 100% af tekjum lífeyrisþega verði miðað við 65% af tekjum þeirra. Er gert ráð fyrir að það eigi við um aðrar tekjur en bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, lögum um slysatrygginga og lögum um félagslega aðstoð, sem lagt er til að muni eftir sem áður teljast að fullu til tekna lífeyrisþega við útreikning uppbótarinnar, með fyrrgreindri undantekningu sem lagt er til að gildi um aldurstengda örorkuuppbót. Þá vísast til umfjöllunar um e-lið ákvæðisins þar sem lagt er til að lögfest verði að eingreiðslur (orlofs- og desemberuppbætur) frá Tryggingastofnun ríkisins og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga skuli ekki teljast til tekna lífeyrisþega við mat á þörf samkvæmt ákvæðinu þrátt fyrir að þær tekjur séu skattskyldar.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að þrátt fyrir meginregluna um að allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga, slysatrygginga almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, skuli teljast til tekna skv. 9. gr. laganna, þá skuli einungis telja til tekna 50% af fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar skv. 21. gr. laga um almannatryggingar. Fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar miðast við þann aldur sem einstaklingur var í fyrsta sinn metinn 75% öryrki eða uppfyllir skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð um greiðslu endurhæfingarlífeyris. Er fjárhæð uppbótarinnar ákveðið hlutfall af mánaðarlegum óskertum örorkulífeyri skv. 18. gr. almannatryggingalaga og því yngri sem einstaklingurinn er þegar hann er í fyrsta sinn metinn 75% öryrki eða fær greiddan endurhæfingarlífeyri því hærri er óskert fjárhæð uppbótarinnar. Breyting sú sem lögð er til í frumvarpi þessu þar sem gert er ráð fyrir að dregið verði úr áhrifum aldurstengdrar örorkuuppbótar við útreikning sérstakrar uppbótar vegna framfærslu lífeyrisþega mun því nýtast þeim mest sem voru ungir að árum þegar þeir voru í fyrsta sinn metnir 75% öryrkjar eða uppfylltu skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris. Mun meðalhækkun þeirra sem eru í yngsta aldurshópnum, þ.e. á aldrinum 18–30 ára, verða um 170.000 kr. á ári hjá körlum og um 180.000 kr. á ári hjá konum. Meðalhækkun þeirra sem eru á aldrinum 31–55 ára verður um 119.000 kr. á ári hjá körlum og um 116.000 kr. á ári hjá konum og meðalhækkun í elsta aldurshópnum, 56–66 ára, verður um 92.000 kr. á ári hjá körlum og um 104.000 kr. á ári hjá konum.

Um 2. gr.

    Í 2. gr. er gert ráð fyrir að þrátt fyrir þá meginreglu sem kemur fram í 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, um að leggja skuli til grundvallar bótaútreikning hvers mánaðar 1/12 af áætluðum tekjum bótaársins, skuli við útreikning á greiðslum skv. 17.–19. gr. og 21.–23. gr. laganna vera heimilt að telja einungis til tekna atvinnutekjur í þeim mánuði sem þeirra er aflað. Er hér um að ræða útreikning ellilífeyris, örorkulífeyris, örorkustyrks, aldurstengdrar örorkuuppbótar og tekjutryggingar. Gildir hið sama um endurhæfingarlífeyri og uppbætur á lífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sbr. 13. gr. þeirra laga sem kveður á um að ef greiðslur samkvæmt lögunum er grundvölluð á tekjum umsækjanda eða bótaþega skuli þær ákveðnar skv. 16. gr. laga um almannatryggingar. Er enn fremur gert ráð fyrir því að við endurreikning bótafjárhæða skv. 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar geri Tryggingastofnun samanburð á útreikningi greiðslna hvers mánaðar annars vegar miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra er aflað. Skal stofnunin beita þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna.
    Fram hefur komið að gildandi fyrirkomulag þykir í mörgum tilfellum vera ósanngjarnt og getur leitt til þess að skuld hefur myndast við endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar þegar endanlegar tekjur ársins liggja fyrir. Stafar það af því að samkvæmt gildandi lögum er tekjum fólks sem hefur verið metið til örorku en fær til dæmis tímabundið starf jafnað niður á alla mánuði ársins og skiptir þá ekki máli í því sambandi hvort viðkomandi fékk lífeyrisgreiðslur í þeim mánuðum eða ekki. Þessar tekjur geta þannig leitt til þess að skuld myndist vegna ofgreiddra bóta sem unnt væri að koma í veg fyrir með því að telja atvinnutekjur viðkomandi einungis til tekna í þeim mánuðum sem þeirra er aflað. Má í því sambandi geta þess að 45% lífeyrisþega eru með atvinnutekjur í mánuðum sem þeir fá ekki greiðslur bóta. Aftur á móti kann þessi breyting að leiða til þess að bætur ársins verði lægri en samkvæmt gildandi reglu, til dæmis ef jafndreifing teknanna á alla mánuði ársins leiðir til þess að þær verða undir frítekjumarki vegna atvinnutekna, sem nú er 109.600 kr. á mánuði. Er því lagt til að við endurreikning bóta þegar endanlegar tekjur ársins liggja fyrir verði gerður samanburður á útreikningi greiðslna hvers mánaðar annars vegar miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra er aflað og þeirri reglu beitt sem leiðir til hærri greiðslna. Er þannig tryggt að enginn fái lægri greiðslur við breytinguna.

Um 3. gr.

    Gert er ráð fyrir að a–e-liður 1. gr. öðlist þegar gildi en að ákvæði f-liðar 1. gr., þar sem kveðið er á um breytingar á útreikningi sérstakri uppbót vegna framfærslu, verði afturvirkt og gildi frá 1. janúar 2019. Mun það leiða til þess að þeir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar sem fengið hafa greidda sérstaka uppbót vegna framfærslu á árinu 2019 munu fá afturvirkar greiðslur frá 1. janúar 2019 í formi hærri uppbótar vegna framfærslu.
    Lagt er til að ákvæði 2. gr. öðlist gildi 1. janúar 2019 en komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2020 vegna tekna ársins 2019. Mun Tryggingastofnun ríkisins við endurreikning bóta ársins 2019, sem fram fer árið 2020 þegar endanlegar tekjur ársins liggja fyrir, gera samanburð á útreikningi greiðslna hvers mánaðar annars vegar miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra er aflað og þeirri reglu beitt sem leiðir til hærri greiðslna, líkt og gert er ráð fyrir í 2. gr. frumvarpsins. Frá 1. janúar 2020 verður umsækjendum og bótaþegum heimilt að velja hvort þeir kjósi að miða útreikning mánaðarlegra greiðslna við 1/12 af atvinnutekjum ársins eða við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra er aflað og verður í endurreikningi hvers árs gerður samanburður á útreikningi skv. 2. gr. frumvarps þessa.