Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1603, 144. löggjafarþing 322. mál: almannatryggingar (bótaréttur, stjórnsýsla, EES-reglur o.fl.).
Lög nr. 88 10. júlí 2015.

Lög um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum (markmið, stjórnsýsla og almenn ákvæði).


1. gr.

     I. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Markmið, skilgreiningar og gildissvið, orðast svo, ásamt greinarfyrirsögnum:
     
     a. (1. gr.)
Markmið.
     Markmið laga þessara er að tryggja þeim sem lögin taka til og þess þurfa bætur og aðrar greiðslur vegna elli, örorku og framfærslu barna, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.
     Með bótum og greiðslum skv. 1. mgr., ásamt þjónustu og aðstoð sem kveðið er á um í öðrum lögum, skal stuðlað að því að þeir sem lögin taka til geti framfleytt sér og lifað sjálfstæðu lífi.
     
     b. (2. gr.)
Orðskýringar.
     Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:
 1. Lífeyrisþegi: Einstaklingur sem fær greiddan lífeyri sem hann hefur sjálfur áunnið sér samkvæmt lögum þessum.
 2. Greiðsluþegi: Einstaklingur sem fær greiðslur samkvæmt lögum þessum.
 3. Bætur: Bætur greiddar í peningum og aðstoð sem veitt er á annan hátt.
 4. Tekjutengdar bætur: Bætur þar sem tekjur hafa áhrif á fjárhæð greiðslna.
 5. Búseta: Lögheimili í skilningi laga um lögheimili nema sérstakar ástæður leiði til annars.
 6. Hjón: Einstaklingar í hjúskap samkvæmt hjúskaparlögum.
 7. Óvígð sambúð: Sambúð tveggja einstaklinga, sem skráð er í þjóðskrá, enda eigi þeir barn saman, eigi von á barni saman eða hafi verið í sambúð samfleytt lengur en eitt ár.
 8. Tekjur: Tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað telst ekki til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum; einnig sams konar tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi.
 9. Atvinnutekjur: Endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu skv. 1. tölul. A-liðar og B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt sem og greiðslur sem koma í stað slíks endurgjalds.
 10. Lífeyrissjóðstekjur: Greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.
 11. Fjármagnstekjur: Tekjur skv. C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt.

     
     c. (3. gr.)
Gildissvið.
     Lög þessi gilda um lífeyristryggingar almannatrygginga, ráðstöfunarfé, dvalarframlag og fyrirframgreiðslu meðlaga og annarra framfærsluframlaga.
     
     d. (4. gr.)
Tryggðir samkvæmt lögunum.
     Sá sem búsettur er hér á landi, sbr. 5. tölul. 2. gr., telst tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum laga þessara nema annað leiði af milliríkjasamningum.
     Tryggingavernd fellur niður þegar búseta er flutt frá Íslandi nema annað leiði af milliríkjasamningum eða ákvæðum þessa kafla.
     Tryggingastofnun ákvarðar hvort einstaklingur telst tryggður hér á landi samkvæmt lögum þessum.
     
     e. (5. gr.)
Sérákvæði um tryggingavernd.
     Sá sem er tryggður samkvæmt lögum þessum telst áfram tryggður í allt að fimm ár þótt hann uppfylli ekki skilyrði 4. gr. meðan hann stundar viðurkennt nám erlendis, enda njóti hann ekki tryggingaverndar í almannatryggingum námslandsins. Sama gildir um maka námsmanns sem var tryggður hér á landi við upphaf námsins og börn undir 18 ára aldri sem með honum dveljast.
     Heimilt er að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur sem er tryggður samkvæmt lögum þessum sé áfram tryggður í allt að eitt ár frá brottför af landinu þótt hann uppfylli ekki skilyrði 4. gr., enda leiði milliríkjasamningar ekki til annars. Skilyrði þessa er að viðkomandi hafi haft samfellda fasta búsetu hér á landi eigi skemur en fimm ár fyrir brottför og að tilgangur farar sé ekki að leita læknismeðferðar.
     Heimilt er að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur sem er tryggður samkvæmt lögum þessum sé áfram tryggður í allt að fimm ár þótt hann uppfylli ekki skilyrði 4. gr., enda starfi viðkomandi erlendis fyrir aðila sem hefur aðsetur og starfsemi á Íslandi og tryggingagjald, sbr. lög um tryggingagjald, sé greitt hér á landi af launum hans. Sama gildir um maka hans og börn undir 18 ára aldri sem voru tryggð hér á landi og fara með honum til dvalar erlendis.
     
     f. (6. gr.)
Dánarbú.
     Ákvæði þessara laga gilda um dánarbú eftir því sem við á.
     
     g. (7. gr.)
Reglugerðir.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerðir um einstök ákvæði þessa kafla, m.a. um skráningu tryggingaréttinda, tryggingavernd, hvað teljast skuli viðurkennt nám og um tímabundna dvöl erlendis.

2. gr.

     II. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Stjórnsýsla, orðast svo, ásamt greinarfyrirsögnum:
     
     a. (8. gr.)
Yfirstjórn.
     Ráðherra fer með yfirstjórn lífeyristrygginga og annarra málefna sem kveðið er á um í lögum þessum og markar stefnu innan ramma laganna. Ráðherra fer jafnframt með yfirstjórn Tryggingastofnunar.
     
     b. (9. gr.)
Hlutverk Tryggingastofnunar.
     Tryggingastofnun annast framkvæmd lífeyristrygginga almannatrygginga og annarra málefna sem kveðið er á um í lögum þessum. Þá skal stofnunin sinna þeim verkefnum sem henni eru falin með öðrum lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.
     Tryggingastofnun skal einnig annast aðra stjórnsýslu lífeyristrygginga, m.a. að:
 1. vera ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar og upplýsingar um mál sem heyra undir stofnunina,
 2. veita almenningi þjónustu og ráðgjöf um réttindi og skyldur samkvæmt þeim lögum sem stofnunin starfar eftir,
 3. kynna almenningi réttindi sín með upplýsingastarfsemi,
 4. birta upplýsingar um starfsemina með reglubundnum hætti,
 5. gera árlega starfs- og fjárhagsáætlun,
 6. gera árlega áætlun um bótagreiðslur hvers árs.

     
     c. (10. gr.)
Rekstur Tryggingastofnunar.
     Kostnaður af rekstri Tryggingastofnunar greiðist úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni.
     Reikningar Tryggingastofnunar fyrir síðastliðið ár skulu jafnan fullgerðir eigi síðar en 1. júlí ár hvert. Skulu þeir endurskoðaðir á sama hátt og reikningar annarra ríkisstofnana.
     
     d. (11. gr.)
Stjórn.
     Ráðherra skipar fimm menn í stjórn Tryggingastofnunar og skal einn skipaður formaður stjórnar og annar varaformaður. Skipaðir skulu jafnmargir menn til vara.
     Stjórn Tryggingastofnunar staðfestir skipulag stofnunarinnar, árlega starfsáætlun og fjárhagsáætlun og markar stofnuninni langtímastefnu. Skal stjórnin hafa eftirlit með starfsemi Tryggingastofnunar og að rekstur hennar sé í samræmi við stefnuna og innan ramma fjárlaga á hverjum tíma.
     Formaður stjórnar skal reglulega gera ráðherra grein fyrir starfsemi stofnunarinnar, sbr. 2. mgr. Þá skal formaður stjórnar einnig gera ráðherra viðvart ef starfsemi, þjónusta eða rekstur stofnunarinnar er ekki í samræmi við lög eða stjórnvaldsfyrirmæli.
     Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim. Forstjóri situr fundi stjórnarinnar með málfrelsi og tillögurétt.
     Ráðherra setur stjórninni starfsreglur og ákveður þóknun til stjórnarmanna sem skal greidd af rekstrarfé stofnunarinnar.
     
     e. (12. gr.)
Forstjóri.
     Ráðherra skipar forstjóra Tryggingastofnunar til fimm ára í senn að fenginni tillögu stjórnar. Forstjóri skal hafa lokið námi á háskólastigi og búa yfir reynslu af rekstri og stjórnun sem nýtist í starfi ásamt því að hafa þekkingu á sviði velferðarmála.
     Ráðherra setur forstjóra erindisbréf þar sem tilgreind skulu helstu markmið í rekstri stofnunarinnar og verkefni hennar bæði til lengri og skemmri tíma litið. Í erindisbréfi skal enn fremur kveðið á um samskipti forstjóra og stjórnar stofnunarinnar.
     Forstjóri ræður starfsmenn stofnunarinnar og annast daglegan rekstur hennar. Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar og að hún starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf skv. 2. mgr. Forstjóri skal sjá til þess að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma séu í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.
     
     f. (13. gr.)
Stjórnsýslukærur.
     Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögum þessum kveður úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr.
     Kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála skal vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Hjá Tryggingastofnun og þjónustustöðvum hennar skulu liggja frammi eyðublöð í þessu skyni og skulu starfsmenn stofnunarinnar veita nauðsynlega aðstoð við útfyllingu þeirra.
     Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en stjórnsýslukæra frestar þó aðför á grundvelli ákvörðunar Tryggingastofnunar um endurkröfu ofgreiddra bóta, sbr. 55. gr.
     Úrskurðir úrskurðarnefndar velferðarmála um endurkröfur ofgreiðslna skv. 1. mgr. eru aðfararhæfir.
     Að kröfu málsaðila getur nefndin ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en tíu dögum frá birtingu úrskurðar. Skal frestun á réttaráhrifum úrskurðar vera bundin því skilyrði að málsaðili beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestunarúrskurði og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga. Sé mál höfðað vegna úrskurðar nefndarinnar er henni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála, sem eru til meðferðar hjá henni, þar til dómur gengur í málinu.
     Tryggingastofnun getur höfðað dómsmál til að fá hnekkt úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála.
     
     g. (14. gr.)
Reglugerðir.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerðir um einstök ákvæði þessa kafla, m.a. um framkvæmd almannatrygginga, starfsemi Tryggingastofnunar og hlutverk hennar.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „vasapeninga“ í c-lið 2. mgr. kemur: ráðstöfunarfjár.
 2. Á eftir orðunum „samkvæmt lögum þessum“ í 3. og 4. mgr. kemur: lögum um slysatryggingar almannatrygginga.


4. gr.

     Í stað orðanna „sbr. II. kafla“ tvívegis í 1. mgr. 17. gr., í 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 22. gr. laganna kemur: sbr. I. kafla.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „skv. 34. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga.
 2. Í stað orðanna „og 34. gr.“ í 4. málsl. 1. mgr. kemur: eða lögum um slysatryggingar almannatrygginga.


6. gr.

     Við 1. málsl. 1. mgr. 22. gr. laganna bætist: eða lögum um slysatryggingar almannatrygginga.

7. gr.

     IV. kafli laganna, Slysatryggingar, fellur brott, ásamt fyrirsögn og millifyrirsögnum.

8. gr.

     47. gr. laganna flyst fremst í VI. kafla þeirra og orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Stjórnsýslulög.
     Þegar teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur samkvæmt lögum þessum gilda stjórnsýslulög nema umsækjanda eða greiðsluþega sé veittur betri réttur samkvæmt þessum lögum eða öðrum lögum sem við eiga. Gæta skal samræmis við ákvörðun sambærilegra mála.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. laganna:
 1. 1.–4. mgr. orðast svo:
 2.      Enginn getur samtímis notið fleiri en einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt lögum þessum og lögum um slysatryggingar almannatrygginga vegna sama atviks eða fyrir sama tímabil nema annað sé þar sérstaklega tekið fram. Þó getur lífeyrisþegi samhliða lífeyrisgreiðslum notið bóta og styrkja sem er ætlað að mæta útlögðum kostnaði vegna sama atviks.
       Eigi greiðsluþegi rétt á fleiri tegundum bóta en einni samkvæmt lögum þessum eða lögum um slysatryggingar almannatrygginga sem ekki geta farið saman skal greiða honum hærri eða hæstu bæturnar.
       Njóti einstaklingur bóta samkvæmt öðrum lögum fyrir sama tímabil og bætur eru greiddar samkvæmt þessum lögum skulu þær teljast til tekna við útreikning tekjutengdra bóta samkvæmt nánari ákvæðum laga þessara.
       Hafi lífeyrisþegi þegar fengið greiddan lífeyri samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga skal taka tillit til þess við útreikning örorkulífeyris vegna almennrar örorku fyrir sama tímabil.
 3. Á eftir orðinu „sjúkrahúsi“ í 1. málsl. 8. mgr. kemur: eða stofnun fyrir aldraða.
 4. Í stað orðsins „vasapeninga“ í 1. málsl., tvívegis í 2. málsl. og í 6. málsl. 8. mgr. kemur, í viðeigandi beygingarfalli: ráðstöfunarfé; í stað orðanna „Vasapeningar falla“ í 3. málsl. sömu málsgreinar kemur: Ráðstöfunarfé fellur; og í stað orðsins „vasapeningana“ í 5. málsl. sömu málsgreinar kemur: ráðstöfunarféð.
 5. Millifyrirsögn á undan greininni fellur brott.
 6. Greinin fær fyrirsögnina: Ósamrýmanleg réttindi og skörun bóta.


10. gr.

     49. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Réttarstaða sambýlisfólks.
     Einstaklingar sem eru í óvígðri sambúð, sbr. 7. tölul. 2. gr., njóta sömu réttinda og bera sömu skyldur og hjón samkvæmt lögum þessum. Um fjármagnstekjur sambýlisfólks fer skv. 16. gr.
     Sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum lengur en eitt ár skal lagt að jöfnu við skráningu sambúðar í þjóðskrá.

11. gr.

     50. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Greiðslur til þriðja aðila.
     Ef talin er hætta á að greiðslur sem ætlaðar eru greiðsluþega eða framfæranda til framfærslu séu notaðar á þann hátt að eigi samrýmist tilgangi laga þessara er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða þær eða hluta þeirra öðrum en greiðsluþega eða framfæranda. Slíkar ákvarðanir skulu ávallt vera tímabundnar og teknar í samráði við félagsþjónustu hlutaðeigandi sveitarfélags eða barnaverndarnefnd ef um er að ræða greiðslur vegna framfærslu barna.

12. gr.

     5. mgr. 52. gr. laganna fellur brott.

13. gr.

     53. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Upphaf og lok bótaréttar og greiðslufyrirkomulag.
     Réttur til bóta stofnast frá og með þeim degi er umsækjandi telst uppfylla skilyrði til bótanna og skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Bætur falla niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur.
     Greiðslur skulu inntar af hendi fyrir fram fyrsta dag hvers mánaðar.
     Heimilt er, að ósk umsækjanda eða greiðsluþega, að fresta greiðslu bóta og greiða bætur í einu lagi eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur umsækjanda eða greiðsluþega á árinu liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.
     Bætur skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.

14. gr.

     1. mgr. 54. gr. laganna fellur brott.

15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
 1. Orðin „eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin“ tvívegis í 1. mgr. og í 4. mgr. og orðin „eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnuninni“ í 4. mgr. falla brott.
 2. Í stað orðanna „almannatrygginga, sbr. 7. gr.“ í 4. mgr. kemur: velferðarmála, sbr. 13. gr.
 3. Í stað tilvísunarinnar „7. mgr. 8. gr.“ í 6. mgr. kemur: 13. gr.


16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Nú afplánar lífeyrisþegi refsingu í fangelsi eða kemur sér viljandi undan því að afplána refsingu og skulu þá falla niður allar bætur til hans, sbr. 53. gr. Sæti lífeyrisþegi gæsluvarðhaldi eða sé hann á annan hátt úrskurðaður til dvalar á stofnun skulu falla niður allar bætur til hans eftir fjögurra mánaða samfellt gæsluvarðhald eða dvöl. Þegar bætur hafa verið felldar niður er heimilt að greiða ráðstöfunarfé í samræmi við 8. mgr. 48. gr. Verði lífeyrisþegi ekki dæmdur til fangelsisvistar í kjölfar gæsluvarðhalds skulu bætur til hans greiddar fyrir það tímabil þegar gæsluvarðhaldsvist stóð yfir.
 3. Orðin „eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin“ í 2. mgr. falla brott.
 4. Fyrirsögn greinarinnar verður: Fangelsisvist.


17. gr.

     57. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Bann við framsali og veðsetningu bótakrafna.
     Óheimilt er að framselja eða veðsetja bótakröfur samkvæmt lögum þessum og hvorki má kyrrsetja þær né gera í þeim fjárnám eða halda bótafé til greiðslu opinberra gjalda.

18. gr.

     58. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Útflutningur og skörun bóta.
     Greiða skal bótaþegum, búsettum í þeim ríkjum sem ríkisstjórn gerir samninga við eða ráðherra hefur samið við með stoð í 68. gr., bætur í samræmi við nánari ákvæði samninganna.
     Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að frá bótum, sem bótaþegi á rétt á hér á landi, dragist bætur sem hann fær samkvæmt erlendri löggjöf fyrir sama tímabil og bætur eru greiddar fyrir hér á landi.

19. gr.

     59.–62. gr. og 65.–67. gr. laganna falla brott ásamt millifyrirsögnum á undan 59. og 62. gr.

20. gr.

     68. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Milliríkjasamningar.
     Ríkisstjórninni er heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögum þessum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Í þeim má m.a. veita undanþágur frá ákvæðum laganna og heimila takmarkanir á beitingu þeirra.
     Í samningum skv. 1. mgr. má m.a. kveða á um að búsetu-, atvinnu- eða tryggingatímabil í öðru samningsríki skuli talin jafngilda búsetutíma á Íslandi. Enn fremur er heimilt að kveða þar á um rétt til bótagreiðslna við búsetu í öðru samningsríki, jafnræði við málsmeðferð, skörun bóta og hvaða löggjöf skuli beita. Í samningum skv. 1. mgr. er enn fremur heimilt að semja um fyrirframgreiðslu meðlags milli samningsríkja, sbr. 63. gr., eins og um bætur almannatrygginga væri að ræða.
     Við framkvæmd laga þessara skal tekið tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að.

21. gr.

     70. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Reglugerðarheimild.
     Ráðherra er heimilt að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara í reglugerðum.

22. gr.

     Á eftir 70. gr. laganna kemur ný grein sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Innleiðing EES-reglugerða.
     Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð almannatryggingareglur Evrópusambandsins eins og þær eru felldar inn í viðauka VI við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, með síðari breytingum, sbr. einnig ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2011 frá 1. júlí 2011 sem fellir undir samninginn reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004, um samræmingu almannatryggingakerfa, með síðari breytingum, og nr. 987/2009 um framkvæmd hennar. Reglugerðir Evrópusambandsins, sem teknar verða upp í samninginn og fela í sér breytingar eða viðbætur við þær reglugerðir, er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama á við um almannatryggingareglur stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.

23. gr.

     Fyrirsögn VI. kafla laganna verður: Almenn ákvæði.

24. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2016.

25. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
 1. Lög um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, með síðari breytingum: Á eftir 2. mgr. 12. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 2.      Ráðherra er heimilt að fela Vinnumálastofnun að semja við fyrirtæki eða stofnanir um að þau ráði til vinnu öryrkja sem fá greiddan örorkulífeyri, örorkustyrk, endurhæfingarlífeyri eða slysaörorkubætur undir 50% og hafa vinnugetu sem ekki hefur nýst á vinnumarkaði og ekki verulegar aðrar tekjur til lífsviðurværis en lífeyri almannatrygginga. Lækkun lífeyrisgreiðslna á starfstímabilinu fer eftir almennum reglum um lækkun á hverjum tíma.
 3. Lög um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum: 2. málsl. 13. gr. laganna orðast svo: Einnig skal beita V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laga þessara.
 4. Lög um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum:
  1. Orðin „sbr. 24. gr.“ í 20. gr. laganna falla brott.
  2. 24. gr. laganna fellur brott.
  3. 2. málsl. 8. mgr. 26. gr. laganna orðast svo: Ef dvalarframlag hefur verið ofgreitt skal um endurheimtu fara skv. 5. mgr. 45. gr. og 1. og 2. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.
 5. Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum:
  1. Í stað orðanna „14. og 30. gr. laga um almannatryggingar og 3. gr. laga um félagslega aðstoð“ í 2. tölul. A-liðar 7. gr. laganna kemur: 20. gr. laga um almannatryggingar, 3. gr. laga um félagslega aðstoð og lögum um slysatryggingar almannatrygginga.
  2. Í stað orðanna „14. gr. laga um almannatryggingar“ tvívegis í 2. tölul. A-liðar 7. gr. laganna kemur: 20. gr. laga um almannatryggingar.
 6. Lög um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum:
  1. Í stað orðanna „9. gr. b laga nr. 117/1993, um almannatryggingar“ í 4. mgr. 4. gr. laganna kemur: 1. mgr. 5. gr. laga um almannatryggingar.
  2. Orðin „þar með talið fæðingarorlof“ í 2. tölul. 9. gr. laganna falla brott.
  3. Á eftir orðinu „sjúkratryggingar“ í 2. tölul. 9. gr. laganna kemur: slysabætur samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga.
 7. Lög um bifreiðagjald, nr. 39/1988, með síðari breytingum: Í stað orðanna „43. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar“ í a-lið 4. gr. laganna kemur: 8. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar.
 8. Lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum:
  1. Í stað orðanna „Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar“ í c-lið 2. mgr. 13. gr. a laganna kemur: sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga.
  2. Í stað orðanna „Tryggingastofnun ríkisins metur á grundvelli laga um almannatryggingar“ í 4. mgr. 13. gr. a laganna kemur: Sjúkratryggingastofnunin metur á grundvelli laga um sjúkratryggingar og laga um slysatryggingar almannatrygginga.
  3. Í stað orðsins „almannatryggingar“ í 2. mgr. 33. gr. laganna kemur: slysatryggingar almannatrygginga.
 9. Lög um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, með síðari breytingum:
  1. Í stað orðanna „Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar“ í c-lið 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga.
  2. Í stað orðanna „Tryggingastofnun ríkisins, sbr. lög um almannatryggingar“ í 1. málsl. 4. mgr. 9. gr. laganna kemur: Sjúkratryggingastofnunin, sbr. lög um sjúkratryggingar og lög um slysatryggingar almannatrygginga.
  3. Í stað orðsins „almannatryggingar“ í 2. málsl. 4. mgr. 9. gr. laganna kemur: sjúkratryggingar.
 10. Lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, með síðari breytingum: Í stað orðsins „almannatryggingar“ í 1. mgr. 51. gr. laganna kemur: slysatryggingar almannatrygginga.
 11. Lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum: Í stað orðanna „samkvæmt II. og III. kafla laga um almannatryggingar“ í 1. mgr. 25. gr. laganna kemur: skv. III. kafla laga um almannatryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga.
 12. Siglingalög, nr. 34/1985, með síðari breytingum:
  1. Í stað orðanna „a-lið 1. mgr. 35. gr. laga um almannatryggingar“ í c-lið 1. tölul. 2. mgr. 172. gr. laganna kemur: lögum um slysatryggingar almannatrygginga.
  2. Í stað orðanna „c-lið 1. mgr. 35. gr. laga um almannatryggingar“ í d-lið 1. tölul. 2. mgr. 172. gr. laganna kemur: lögum um slysatryggingar almannatrygginga.
  3. Í stað orðanna „33. gr. laga um almannatryggingar“ í a-lið 2. tölul. 2. mgr. 172. gr. laganna kemur: lögum um slysatryggingar almannatrygginga.
 13. Skaðabótalög, nr. 50/1993, með síðari breytingum: Í stað orðanna „almannatrygginga, sbr. 5. mgr. 34. gr. laga nr. 100/2007“ í 4. mgr. 5. gr. laganna kemur: slysatrygginga samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga.


Samþykkt á Alþingi 2. júlí 2015.