Ferill 443. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1667  —  443. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Dóru Eyjólfsdóttur og Guðna Olgeirsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Elfu Ýri Gylfadóttur frá fjölmiðlanefnd, Egil Örn Jóhannsson frá Forlaginu, Gerði G. Óskarsdóttur frá íðorðanefnd í menntunarfræði, Guðrúnu Kvaran og Ármann Jakobsson frá Íslenskri málnefnd, Ágústu Þorbergsdóttur, Jóhann Heiðar Jóhannsson og Björgvin Andersen frá Íðorðafélaginu, Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur frá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Má Vilhjálmsson og Sigurrós Erlingsdóttur frá Menntaskólanum við Sund, Torfa Tulinius og Sigríði Sigurjónsdóttur frá íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, Sólveigu Hildi Björnsdóttur og Ingunni Guðmundsdóttur frá Mími – símenntun, Kolbrúnu Þ. Pálsdóttur og Sigurð Konráðsson frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Margréti Tryggvadóttur og Vilborgu Davíðsdóttur frá Rithöfundasambandi Íslands, Kristínu Vilhjálmsdóttur, Gunnhildi Stefánsdóttur, Birnu Imsland og Guðrúnu C. Emilsdóttur frá Bandalagi þýðenda og túlka, Gauta Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði, Elsu Maríu Guðlaugs Drífudóttur og Teit Erlingsson frá Landssamtökum íslenskra stúdenta, Hólmfríði Þórarinsdóttur frá málnefnd um íslenskt táknmál, Sigrúnu Helgadóttur og Þorstein Sæmundsson, Magnús Geir Þórðarson, Önnu Sigríði Þráinsdóttur og Sindra Bergmann frá Ríkisútvarpinu ohf., Erling Jóhannesson frá Bandalagi íslenskra listamanna, Braga Valdimar Skúlason frá Félagi tónskálda og textahöfunda, Margréti Örnólfsdóttur frá Félagi leikskálda og handritshöfunda, Vigdísi Ósk Häsler Sveinsdóttur og Þórð Kristjánsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Helga Grímsson og Sigrúnu Baldursdóttur frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, Eirík Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, Sigríði Sigurjónsdóttur, prófessor í íslenskri málfræði, Heiðar Inga Svansson og Birgittu Hassell frá Félagi íslenskra bókaútgefenda og Gunnar Helgason frá SÍUNG – Samtökum íslenskra barna- og unglingabókahöfunda.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Amtsbókasafninu á Akureyri, Bandalagi íslenskra listamanna, Bandalagi þýðenda og túlka, Eiríki Rögnvaldssyni og Sigríði Sigurjónsdóttur, Félagi íslenskra bókaútgefenda, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, fjölmiðlanefnd, Flensborgarskólanum í Hafnarfirði, Forlaginu ehf., Gauta Kristmannssyni og Ástráði Eysteinssyni, Grímsnes- og Grafningshreppi, Háskóla Íslands, Hrunamannahreppi, Hveragerðisbæ, Íslenskri málnefnd, Íðorðafélaginu, íðorðanefnd í menntunarfræði, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Landssamtökum íslenskra stúdenta, málnefnd um íslenskt táknmál, Menntaskólanum við Sund, Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Mími – símenntun, Ríkisútvarpinu, Rithöfundasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sigrúnu Helgadóttur, Þorsteini Sæmundssyni og Erni S. Kaldalóns, SÍUNG – Samtökum íslenskra barna- og unglingabókahöfunda og frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að efla íslenska tungu sem opinbert mál á Íslandi. Í tillögunni er fjallað um alls 22 aðgerðir sem hafa það að markmiði að íslenska verði notuð á öllum sviðum samfélagsins, að íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum ásamt menntun og starfsþróun kennara og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Samhljómur var á meðal umsagnaraðila um mikilvægi þingsályktunartillögu þessarar og um mikilvægi þess að ráðast í stefnumótun á þessu sviði. Við meðferð málsins var fjallað með einhverjum hætti um allar aðgerðir þingsályktunartillögunnar en auk þess var rætt um þýðingar, túlkun, menningu, rithöfunda og fleira. Nefndin vill leggja sérstaka áherslu á að samhliða eflingu íslensku sem opinbers máls verði hugað að því að fjölmargir íbúar á Íslandi hafa ekkert eða takmarkað vald á íslensku en þurfa engu að síður að vera virkir þátttakendur í samfélaginu og njóta réttinda og bera skyldur. Marka þarf stefnu sem tekur til þjónustu við þennan hóp, svo sem varðandi túlkun, þýðingar og birtingu upplýsinga á öðrum málum en íslensku.

I. Helstu markmið.
    Eitt af markmiðum þingsályktunartillögu þessarar er að íslenska verði notuð á öllum sviðum samfélagsins. Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að skilgreina yrði með nánari hætti hvaða þýðingu það markmið hefði fyrir hin ólíku og fjölmörgu svið samfélagsins, t.d. fyrir ferðaþjónustu, en jafnframt hver áhrifin gætu orðið, t.d. á mennta- og fræðaheiminn. Nefndin beinir því til ráðuneytisins við útfærslu áætlunarinnar að skilgreina þýðingu markmiðsins fyrir tiltekin svið og atvinnugreinar í víðtæku samráði við hlutaðeigandi hagsmunaaðila.

II. Aðgerðaáætlun 2019–2022.
    Við meðferð málsins var m.a. gagnrýnt að sumir liðir væru ekki tímasettir eða kostnaðarmetnir og að ábyrgðar- og samstarfsaðilar væru ekki tilgreindir. Að mati nefndarinnar er í raun um eiginlega stefnu að ræða frekar en aðgerðaáætlun. Nefndin tekur undir með þeim umsagnaraðilum sem benda á tvennt; að mikilvægt sé að gera grein fyrir þeim aðgerðum sem lagðar eru til með markmiðssetningu, kostnaðarmati og eftirfylgni; og að tilgreindir verði samstarfsaðilar og mælikvarðar slíkra aðgerða. Slík útfærsla hefði jafnvel leitt til þess að hægt hefði verið að kostnaðarmeta aðgerðirnar með einhverjum hætti eða tengja fleiri aðgerðir við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þar sem engin kostnaðaráætlun liggur fyrir um aðgerðaáætlunina í heild leggur nefndin áherslu á að ráðuneytið kostnaðarmeti hverja aðgerð fyrir sig og að ráðuneytið leggi áherslu á að ná þeim markmiðum sem aðgerðirnar taka til og geri um leið grein fyrir því í tengslum við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Auk þess leggur nefndin áherslu á að við frekari útfærslu aðgerðaáætlunarinnar verði tryggt víðtækt samráð. Þá er rétt að geta þess að nú þegar hefur verið ráðinn verkefnisstjóri verkefnisins Áfram íslenska sem hefur það hlutverk að vinna að mótun aðgerðaáætlunar með hliðsjón af þingsályktunartillögu þessari, að útfærslu markmiða hennar og að eftirfylgni aðgerða.
    Nefndin tekur fram að öflugt menningarlíf á íslensku er ein af undirstöðum fjölbreytts efnahagslífs og stuðlar að almennri velsæld samfélagsins og jöfnuði. Í menningarstefnu stjórnvalda er áhersla lögð á að skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, frumsköpun og frumkvæði á sviði lista. Þátttaka barna og ungmenna í menningarlífinu er mikilvæg til að íslensk tunga fái að vaxa og dafna, sbr. Barnamenningarsjóð Íslands og List fyrir alla. Þá er það ekki síst fyrir tilstuðlan listanna sem íslensk tunga hefur verið sameiningartákn þjóðarinnar. Jafnframt auka samkenndina myndlist, tónlist, ljóð og söngtextar, kvikmyndir, leikrit, dansverk, listgjörningar og bókmenntir sem vísa í íslenskan veruleika og efni sem flutt er á íslensku. Auk þess hefur alþjóðavæðing og fjölmenning aukið fjölbreytileika þjóðarinnar og gert hana litskrúðugri en sú þróun hefur einnig haft áhrif á tungumálið. Nefndin leggur áherslu á að íslenska er lifandi tungumál sem lagar sig að nýjum veruleika og þróast með þjóðinni. Þó verður að hlúa að henni svo að hún týnist ekki í hinni alþjóðlegu hringiðu, minna á sköpunarkraft hennar og hvetja til þess að hún verði notuð við hvers konar listsköpun. Að mati nefndarinnar þarf að styðja við menningarstarfsemi og sjóði sem styrkja hinar ýmsu listgreinar og almennt að hvetja til vitundarvakningar meðal listamanna um mikilvægt framlag þeirra til viðhalds og þróunar íslensks máls.
    Að auki leggur nefndin til að lagfæra fyrirsögn II. kafla, en fyrir liggur að aðgerðaáætlun þessi á að vera til þriggja ára en ekki fjögurra.

Menntun og skólastarf.
    Í þingsályktunartillögunni eru tilgreindar tíu aðgerðir í kaflanum Menntun og skólastarf, þ.e. Mikilvægi læsis, Íslenska sem annað mál, Skólabókasöfn, Kennaramenntun, Starfsþróun kennara, Háskólakennsla og rannsóknir, Kennsla á íslensku, Stafrænt námsefni, Íslenskunám fullorðinna innflytjenda og Íslenskukennsla erlendis. Nefndin leggur til að aðgerðin Skólabókasöfn verði felld brott úr þeim kafla en þess í stað sameinuð aðgerð um almenningsbókasöfn undir kaflanum Menning og mun nefndin gera nánari grein fyrir þeirri breytingu þar sem við á.

Mikilvægi læsis.
    Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að ekki lægi fyrir hvernig aðkoma rithöfunda ætti að vera að verkefninu Þjóðarsáttmáli um læsi. Nefndin áréttar mikilvægi þess að aðgerðir sem þessar verði unnar í víðtæku samstarfi, og að útfærsla aðgerðarinnar verði unnin í góðu samstarfi við hlutaðeigandi.
    Nefndinni var bent á að tryggja þyrfti jafnframt eftirfylgni aðgerðarinnar. Í þeim efnum komu fram sjónarmið um að hvetja þyrfti bókaútgefendur til að sinna ungum lesendum betur. Þá var jafnframt bent á mikilvægi þess að framhald yrði á störfum læsisteymis og læsisráðgjafa Menntamálastofnunar, sem var hugsað sem tímabundið verkefni til að fylgja eftir þjóðarsáttmálanum.
    Við meðferð málsins var nokkuð rætt um máltöku barna. Þá var einnig lögð áhersla á læsi í víðum skilningi, sem beint og óbeint stuðlaði að málkunnáttu og skilningi barna, hvort sem er á texta, myndum, samfélagi og menningu. Þá væri mikilvægt að gerðar yrðu rannsóknir á áhrifum ólíkra aðferða til að stuðla að aukinni málnotkun og bættum málskilningi og að lagt yrði mat á skipulagðar aðgerðir til að efla læsi.
    Að mati nefndarinnar þarf að huga sérstaklega að þeim sem eiga við námsörðugleika að stríða, svo sem lesblindu, lestrarörðugleika, málhljóðaröskun eða málþroskaraskanir. Þá verður að leggja sérstaka áherslu á fræðslu til uppalenda um mikilvægi málörvunar heima fyrir sem er lykilþáttur í máltöku og málþroska barna og síðar lestrarhæfni þeirra. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að huga að framangreindu við framkvæmd verkefnisins, þ.e. að fræðsla um máltöku verði jafnframt hluti af aðgerðinni.

Íslenska sem annað mál.
    Á fundum nefndarinnar var bent á að huga þyrfti sérstaklega að námsefni fyrir fjöltyngdan og fjölmenningarlegan nemendahóp sem jafnframt gæti nýst í sérkennslu barna sem fædd eru á Íslandi og þurfa sértæka aðstoð vegna málþroskaraskana. Þá væri einnig mikilvægt að styðja við foreldra af erlendum uppruna og fræða þá um ábyrgð þeirra við að viðhalda móðurmáli barna sinna.
    Nefndinni var einnig bent á að gera þyrfti greinarmun á börnum sem fæddust á Íslandi eða flyttust til landsins á fyrstu fimm æviárunum og notuðu annað tungumál en íslensku heima. Máltaka þeirra væri bæði á móðurmáli og á íslensku. Hins vegar væru það börn sem væru eldri þegar þau flyttust hingað til lands og lærðu íslensku sem annað mál. Þá væri þörf á heildstæðri aðgerðaáætlun um kennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku sem væri byggð á rannsóknum á þessu sviði. Auk þess þyrfti að skilgreina þá þætti sem sneru að ábyrgð skólasamfélagsins á því að kenna íslensku og að ábyrgð foreldra og forráðamanna á að viðhalda upprunatungumáli barna sinna. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að hafa framangreint í huga við útfærslu aðgerðarinnar og leggur áherslu á mikilvægi þess að marka heildarstefnu á þessu sviði.
    Við meðferð málsins var bent á að auk þess að skapa fjölbreytt tækifæri til íslenskunáms og tryggja stuðning við þarfir þyrftu námskeið að vera í boði við hæfi ólíkra nemendahópa. Í því samhengi þyrfti að huga að breyttri samsetningu innflytjenda í þessum efnum. Í tengslum við íslensku sem annað mál fyrir fullorðna innflytjendur þyrfti að þróa fleiri tækifæri til hagnýts starfstengds náms þar sem fléttað væri saman námi í íslensku og starfstengdu námi. Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin mikilvægt að huga að íslenskunámi þessa hóps og að við framkvæmd aðgerðarinnar verði jafnframt haft samstarf við þá aðila sem bjóða upp á íslenskunám í þessum efnum.
    Þá komu fram sjónarmið um að varhugavert væri að gera leik- og grunnskóla ábyrga fyrir því að styrkja og viðhalda þeim fjölmörgu upprunatungumálum barna sem eiga íslensku sem annað tungumál, sbr. umfjöllun í greinargerð. Að mati nefndarinnar er það hlutverk menntakerfisins að sinna þessu verkefni að einhverju marki. Nefndin tekur fram að góð færni í tungumáli er undirstaða annars tungumálanáms. Hægt er að læra tungumál samhliða eða hvert á eftir öðru og þurfa börn tækifæri til að ná færni í tungumálum í málumhverfi sínu. Þá er einnig mikilvægt að hvetja foreldra til að rækta og þróa eigið móðurmál og styðja við íslenskunám barna sinna. Ef það er ekki gert getur það haft áhrif á þróun lestrarfærni þeirra og námsframvindu í íslensku sem öðru máli sem og í tungumálanámi almennt. Nefndin áréttar enn og aftur mikilvægi þess að mennta- og menningarmálaráðuneytið marki heildarstefnu á þessu sviði og skoði hvaða aðgerða þurfi að grípa til svo að hægt verði að tryggja innflytjendum viðeigandi stuðning í þessum efnum, m.a. í menntakerfinu.

Skólabókasöfn.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að víkka aðgerðina og leggja áherslu á breytt hlutverk bókasafna. Bókasöfn hafa verið að breytast í þekkingarmiðstöðvar þar sem aðgangur er veittur að margs konar fræðsluefni, svo sem lesefni, hljóðefni, myndefni og hvers kyns margmiðlunarefni ásamt því að geta veitt aðgang að fjölmiðlum. Auk þess gegna almennings- og skólabókasöfn lykilhlutverki varðandi eflingu íslensks máls.
    Nefndin er fylgjandi því að aðgerðin verði útvíkkuð þannig að áhersla verði lögð á aðgang að efni almennt en ekki aðeins að lesefni. Þannig á aðgerðin einnig við um efni á íslensku táknmáli. Nefndin tekur fram að í þingsályktunartillögu þessari eru tvær aðgerðir, nánast samhljóða, sem fjalla um starfsemi bókasafna, annars vegar aðgerðin Skólabókasöfn og hins vegar aðgerðin Almenningsbókasöfn. Að því sögðu leggur nefndin til að þær aðgerðir verði sameinaðar í nýrri aðgerð sem beri fyrirsögnina Bókasöfn. Ný aðgerð sem sameinar þessar aðgerðir kemur fram í kaflanum Menning sem verði Menning og listir.
    Nefndin áréttar mikilvægi þess að aðgangur að efni þurfi að vera með viðunandi og góðum hætti á öllum skólastigum, og er þar leikskólastigið talið með. Þá þarf samhliða þessari aðgerð að huga að bókakosti og halda honum við. Í því samhengi hefur nefndinni verið bent á hvernig þessu fyrirkomulagi er háttað á Norðurlöndum að því er snertir innkaup hins opinbera fyrir bókasöfn, sem er liður í stuðningi við bæði höfunda og útgefendur. Nefndin leggur það þó í hendur ráðuneytisins að kanna hvort efni þeirrar ábendingar falli undir aðgerðina. Að auki beinir nefndin því til ráðuneytisins að skoða hvaða viðmið eða staðlar eru í gildi um starfsemi bókasafna. Að lokum áréttar nefndin að haft verði víðtækt samstarf við hlutaðeigandi aðila, þar á meðal rithöfunda.

Kennaramenntun.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að áhersla yrði lögð á að örva áhuga kennaraefna á tungumálinu og þjálfa þau í að nýta mál nemenda, málkunnáttu og sköpunargleði til að byggja upp jákvætt viðhorf þeirra til íslensku. Þá væri mikilvægt að kennarar byggju yfir hæfni til að stuðla að samskiptum og samvinnunámi sem skapaði vettvang fyrir að efla skilning og málkunnáttu nemenda og stuðlaði að sterkari málvitund þeirra.
    Þá komu fram sjónarmið um að aðgerðin virtist miða að þeim sem menntuðu sig til starfa á leik- og grunnskólastigi en mikilvægt væri að slík aðgerð næði einnig til efri skólastiga. Því var svarað þannig að nám þeirra kennara væri greinabundið og því annars eðlis. Nefndin tekur undir að kennarar gegna lykilhlutverki í því að vekja áhuga nemenda á íslensku máli. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að hafa framangreind sjónarmið til hliðsjónar við útfærslu aðgerðarinnar og athuga sömuleiðis hvort gera þurfi aðrar kröfur til íslenskukennslu kennaranema eftir því til hvaða skólastigs þeir mennta sig. Sérstaklega þarf útfærsla aðgerðarinnar að taka mið af frumvarpi til laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla (801. mál), verði það að lögum.

Starfsþróun kennara.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að íslenskukennsla væri verkefni allra kennara. Þannig þyrfti grunnmenntun kennara að taka mið af því auk þess sem starfsþróunarkostir gæfu kennurum tækifæri til að efla sig sem kennara í íslensku sem annars tungumáls. Samhliða þessu beinir nefndin því til ráðuneytisins að við útfærslu aðgerða verði hugað að eflingu starfsþróunarsjóða og þróun á stoðkerfi kennara til framtíðar og að slíkt verði gert í nánu samráði við skólasamfélagið.

Háskólakennsla og rannsóknir.
    Nefndinni var bent á að nauðsynlegt væri að leita leiða til að snúa þeirri þróun við að föstum kennurum í íslensku fer fækkandi sem og stúdentum. Það gæti leitt til þess að minni áhersla yrði lögð á brýnar rannsóknir á íslenskri tungu og stöðu hennar. Nefndin telur að ráðuneytið verði að taka þessa þróun alvarlega og skoða hana sérstaklega við útfærslu áætlunarinnar.

Kennsla á íslensku.
    Nokkuð var fjallað um íslenskukennslu. Mikilvægt væri að veita aukið fé til íslenskukennslu kennaranema enda um að ræða mikilvægar málfyrirmyndir. Einnig væri áríðandi að auka íslenskukennslu til að leggja grunn að síðara tungumálanámi. Þá þyrfti einnig að efla framboð á íslenskukennslu fyrir alþjóðlega stúdenta sem stunda hér nám, óháð námsleið eða skóla.
    Aftur á móti var nefndinni bent á að skoða þyrfti nánar hvaða áhrif slík aðgerð hefði á framhaldsskóla- og háskólastigi. Til að mynda væri mikilvægt að bjóða upp á nám á ensku á öllum stigum háskólanáms til þess að tryggja jafnt aðgengi að háskólamenntun og til þess að stuðla að alþjóðavæðingu háskólakerfisins. Því væri ekki æskilegt að einskorða nám á háskólastigi við íslensku. Við meðferð málsins kom fram að alþjóðavæðing í íslensku háskólasamfélagi væri mikilvæg til þess að efla gæði háskólanáms og tryggja samkeppnishæfni íslensks háskólakerfis á alþjóðavettvangi. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að hafa til hliðsjónar mælikvarða sem draga fram stöðu íslenskra háskóla í alþjóðlegu samfélagi.
    Þá tekur nefndin undir sjónarmið þess efnis að málhafar íslensks táknmáls fái stuðning og kennslu á táknmáli og leggur því til breytingar á aðgerðinni þannig að hún nái einnig til kennslu á íslensku táknmáli þar sem við á.

Stafrænt námsefni.
    Fram komu sjónarmið um nauðsyn þess að fram færi heildarendurskoðun á námsefnisútgáfu fyrir öll skólastig en auk þess þyrfti að skoða aukna fjölbreytni í framboði námsefnis, sérstaklega með tilliti til tækni. Þá þyrfti námsefni að höfða til nemenda og huga þyrfti að nýrri nálgun að því er snerti kennslu og námsefni. Þá var bent á að annars vegar þyrfti að efla bæði Námsgagnasjóð og Þróunarsjóð námsgagna svo að hægt yrði að ná markmiðum aðgerðarinnar, og hins vegar að gera þyrfti ráð fyrir kostnaði við útgáfu efnis.
    Nefndin leggur til að aðgerðin verði útvíkkuð með þeim hætti að hún verði ekki eingöngu bundin við stafrænt námsefni heldur nái til námsefnis almennt, ásamt því að heiti hennar verði breytt í samræmi við það. Þá áréttar nefndin enn og aftur mikilvægi þess að víðtækt samstarf eigi sér stað, þar á meðal við útgefendur, höfunda, bókasöfn og skólasamfélagið.

Íslenskunám fullorðinna innflytjenda.
    Nokkuð var rætt um mikilvægi þess að huga að auknu framboði íslenskunámskeiða fyrir fullorðna innflytjendur víða í samfélaginu sem tækju mið af bakgrunni fólks og ólíkum þörfum. Auk þess þyrfti að kanna þann möguleika að niðurgreiða slík námskeið. Mikilvægt væri að kveða á um rétt innflytjenda til íslenskukennslu í lögum. Þá væri nauðsynlegt að rafrænt matskerfi fræðsluaðila yrði staðlað en samhliða þyrfti að huga að aukinni upplýsingagjöf til innflytjenda á viðurkenningu menntunar. Auk þess þyrfti úthlutað fjármagn til málaflokksins að haldast í hendur við fjölgun útlendinga á Íslandi. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að tryggja aðgang innflytjenda að slíku námi svo að þeir geti m.a. nýtt þá menntun sem þeir hafa aflað sér.
    Nefndin leggur til minni háttar orðalagsbreytingar á aðgerðinni sem miða að því að leggja áherslu á fjölbreytt framboð námskeiða en einnig að námsefni verði fyrir ólíka miðla. Þannig er t.d. möguleiki að tengja íslenskunám fullorðinna innflytjenda við máltækni og fjölmiðla. Þá beinir nefndin því til ráðuneytisins að huga að samstarfi við þá aðila sem bjóða upp á íslenskunám fullorðinna innflytjenda en jafnvel að haft verði samráð við hlutaðeigandi frjáls félagasamtök í þessum efnum.

Menning.
    Í þingsályktunartillögunni eru tilgreindar fimm aðgerðir í kaflanum Menning, þ.e. Innlend dagskrárgerð, Einkareknir fjölmiðlar, Bókaútgáfa, Barna- og ungmennabókmenntasjóður og Almenningsbókasöfn. Nefndin leggur til nokkrar breytingar sem einkum lúta að hinum skapandi þætti tungumálsins og menningarhlutverki þess. Í fyrsta lagi leggur nefndin til að kaflinn fái fyrirsögnina Menning og listir. Í öðru lagi leggur nefndin til fjórar nýjar aðgerðir í tengslum við nýja fyrirsögn kaflans, þ.e. aðgerðir sem fjalla um eflingu íslensks máls í listgreinum á borð við tónlist, myndlist, sviðslistir, kvikmyndir og sjónvarpsefni. Í þriðja lagi leggur nefndin til að sameina aðgerðirnar Innlend dagskrárgerð og Einkareknir fjölmiðlar í aðgerð sem fái fyrirsögnina Fjölmiðlun og innlend dagskrárgerð. Í fjórða lagi leggur nefndin einnig til að aðgerðirnar Bókaútgáfa og Barna- og ungmennabókmenntasjóður verði sameinaðar í eina aðgerð, Bókmenning. Nánar verður gerð grein fyrir breytingunum þar sem við á. Að lokum eru aðgerðirnar Skólabókasöfn og Almenningsbókasöfn sameinaðar sem Bókasöfn, líkt og áður hefur verið gerð grein fyrir.

Tónlist.
    Nefndin tekur fram að tónlist er stór hluti af daglegu lífi landsmanna og textar á íslensku ýta undir vitundarvakningu, ekki síst meðal ungs fólks, um litbrigði tungumálsins. Að mati nefndarinnar þarf að styðja við tónlistarsköpun á íslensku og hvetja til flutnings á slíkri tónlist.
    Stuðningur ríkisins við tónlistarsköpun og tónlistarlíf landsmanna hefur verið margs konar. Nokkrir sjóðir starfa á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis sem ætlaðir eru tónlistarfólki: Launasjóður tónskálda og launasjóður tónlistarflytjenda veita árlega starfslaun. Samkvæmt lögum um tónlistarsjóð, nr. 76/2004, er sjóðnum ætlað að efla íslenska tónlist og stuðla að kynningu á íslenskum tónlistarmönnum og tónsköpun þeirra. Þá má nefna Hljóðritasjóð sem hefur það hlutverk að efla íslenska hljóðritagerð í tónlist. Lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, nr. 110/2016, er ætlað að efla tónlistariðnað á Íslandi með því að veita útgefendum hljóðrita tímabundinn rétt til endurgreiðslu kostnaðar sem fellur til við hljóðritun tónlistar hér á landi. Loks má nefna Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) en meðal hlutverka hennar er að kynna íslenskt tónlistarfólk, koma útgáfum með íslenskri tónlist á framfæri og vekja athygli á íslenskum tónlistarhátíðum og tónlistarviðburðum. Á vegum hennar er rekinn Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar. Þá er Sinfóníuhljómsveit Íslands meginstofnun á sviði tónlistar en meðal lögbundinna verkefna hennar er að leggja áherslu á flutning og kynningu íslenskrar tónlistar.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til að bætt verði við aðgerð sem stuðla skuli að aukinni frumsköpun í tónlist og textasmíð á íslensku.

Myndlist.
    Íslensk tunga skiptir máli þegar fjallað er um myndlist eða hún kynnt. Nefndin leggur áherslu á að hvatt verði til þess við fræðilega og listræna umræðu um myndlist að notuð verði íslensk hugtök og heiti til að gera hana aðgengilega fyrir almenning. Í því sambandi er nauðsynlegt að horfa til nýyrða sem komi í stað erlendra hugtaka sem fylgja síbreytilegum heimi myndlistarinnar. Þá má nefna hlut Listasafns Íslands, sem hefur það hlutverk að efla íslenska myndlist og stuðla að framþróun hennar, sbr. myndlistarlög, nr. 64/2012. Þá er myndlistarráði falið að úthluta styrkjum úr myndlistarsjóði. Að lokum er það hlutverk launasjóðs myndlistarmanna að veita starfslaun.
    Nefndin leggur til að bætt verði við aðgerð sem stuðli að aukinni meðvitund um mikilvægi íslensks máls í umfjöllun um myndlist og við greiningu og miðlun myndlistar.

Sviðslistir.
    Meginstofnanir á vegum ríkisins í sviðslistum eru Þjóðleikhúsið og Íslenski dansflokkurinn. Meðal lögbundinna hlutverka Þjóðleikhússins er að efla íslenska leikritun og vera til fyrirmyndar um listrænan flutning viðfangsefna og meðferð íslenskrar tungu, sbr. leiklistarlög, nr. 138/1998. Þá er hlutverk Íslenska dansflokksins skilgreint í frumvarpi til laga um sviðslistir (800. mál) þannig, að hann skuli stuðla að nýsköpun í innlendri listdanssmíði og vera vettvangur til eflingar og framþróunar danslistar á Íslandi. Þá veitir launasjóður sviðslistafólks árlega starfslaun og veittur er stuðningur til annarrar leiklistarstarfsemi, bæði atvinnumanna og áhugaleikfélaga.
    Á undanförnum árum hefur orðið mikill bræðingur milli listgreina, ekki síst á sviði danslistar. Danslistin er að því leyti ólík öðrum listgreinum að túlkunin er oft án orða. Í nýrri listsköpun er mikilvægt að auka vægi íslensku og leggur nefndin því til nýja aðgerð þar sem lögð er áhersla á að íslenskt mál verði notað sem víðast og á fjölbreyttan hátt í sviðslistum hér á landi.

Kvikmyndir og sjónvarpsefni.
    Samhljómur var meðal umsagnaraðila um að leggja þyrfti sérstaka áherslu á efni ætlað börnum og ungmennum. Þá væri kvikmynda- og sjónvarpsgerð einn áhrifaríkasti áhrifavaldur í samtímamenningu ungs fólks. Nefndin tekur undir þetta sjónarmið enda er áskorun fólgin í því að efla gerð barna- og unglingaefnis í ljósi mikilla tæknibreytinga og tilkomu samfélagsmiðla. Nefndin leggur til að bætt verði við nýjum lið þar sem stutt verði við gerð kvikmynda og sjónvarpsefnis á íslensku og hugað sérstaklega að efni fyrir yngri áhorfendur, sem og að stuðningur verði aukinn við þýðingar, textun og talsetningu slíks efnis. Þá leggur nefndin jafnframt áherslu á að slíkt verði í samstarfi við innlendar fjölmiðlaveitur. Þá er aukin framleiðsla og aðgengi að íslensku afþreyingarefni fyrir sjónvarp, svo sem framhaldsþáttum, einnig mikilvæg fyrir framþróun íslenskrar tungu. Rétt er að geta þess að það er hlutverk Kvikmyndamiðstöðvar Íslands að stuðla að kynningu og útbreiðslu á íslenskum kvikmyndum og efla kvikmyndamenningu á Íslandi, sbr. lög um kvikmyndalög, nr. 137/2001.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til að bætt verði við nýrri aðgerð, Kvikmyndir og sjónvarpsefni, þar sem stutt verði við gerð kvikmynda og sjónvarpsefnis á íslensku og hugað sérstaklega að efni fyrir yngri áhorfendur. Þá verði aukinn stuðningur við þýðingar, textun og talsetningu slíks efnis.

Innlend dagskrárgerð og einkareknir fjölmiðlar.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um mikilvægi þess að standa vörð um og efla íslenskan fjölmiðlamarkað. Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að aðgerðin Einkareknir fjölmiðlar væri í samræmi við tillögu nefndar um bætt rekstrarumhverfi þeirra. Fjárhagsstuðningur við einkarekna fjölmiðla væri mikilvægur til að einkareknir ljósvakamiðlar gætu eflt enn frekar innlenda dagskrárgerð og aðgengi að henni. Þá var áréttað að samkvæmt lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, skuli fjölmiðlaveitur efla íslenska tungu eftir því sem við á en auk þess skuli fjölmiðlar sem miðla hljóði og texta á íslensku í því skyni marka sér málstefnu. Að mati nefndarinnar er því mikið samspil milli aðgerðanna Innlend dagskrárgerð og Einkareknir fjölmiðlar. Nefndin leggur þess vegna til að þessar aðgerðir verði sameinaðar sem aðgerðin Fjölmiðlun og innlend dagskrárgerð. Sú aðgerð verði jafnframt útvíkkuð þannig að hún nái einnig yfir dagskrárgerð fyrir vef. Þá þarf einnig að tryggja aðgengi að fjölbreyttu efni á íslensku með íslensku táknmáli eða texta. Að auki leggur nefndin til að stutt verði við starfsemi einkarekinna fjölmiðla vegna öflunar og miðlunar frétta og fréttatengds efnis á íslensku. Frumvarp þess efnis hefur verið lagt fram (919. mál). Þannig er aðgerðin útvíkkuð og ráðuneytinu veitt svigrúm til að skoða fleiri leiðir til að styðja við einkarekna fjölmiðla, m.a. til að efla íslenska tungu, og aðgerðin þannig ekki afmörkuð við stuðning í formi endurgreiðslu. Að lokum áréttar nefndin mikilvægi þess að við framkvæmd þessarar aðgerðar verði hugað sérstaklega að efni sem ætlað er börnum og ungmennum.

Bókaútgáfa og Barna- og ungmennabókmenntasjóður.
    Nefndinni var bent á að bókaútgáfa gegnir margvíslegu hlutverki við eflingu íslensks máls. Þá er gert ráð fyrir því að setja á laggirnar sjóð fyrir barna- og ungmennabækur en hlutverk þess sjóðs snýr helst að útgáfu bóka. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að tryggja að sjóðurinn taki bæði til frumsaminna og þýddra bóka. Þá bendir nefndin á að huga þurfi einnig að hlutverki höfunda við framkvæmd þessarar aðgerðar.
    Þá hafa örar tækniframfarir á nýrri öld breytt afar miklu í málumhverfinu og hafa áhrif ensku margfaldast, ekki síst í netheimum og sjónvarpi. Íslenska á því í varnarbaráttu á þessum vettvangi. Því telur nefndin mikilvægi þýðinga sjaldan eða aldrei hafa verið jafnmikið. Sérstakir sjóðir hafa styrkt þennan þátt í eflingu íslensku og telur nefndin æskilegt að stutt verði enn frekar við þá, ekki síst er varðar þýðingar á afþreyingarefni fyrir börn og unglinga á vef og í sjónvarpi. Nefndin telur nauðsynlegt að styrkt verði það umhverfi sem bókmenningin þrífst í: íslensk tunga, ritun, þýðingar og útgáfa bóka á íslensku, tækniþróun í greininni, styrkjaumhverfi o.fl. Að mati nefndarinnar er æskilegt að fjallað verði með heildstæðari hætti um bókmenningu og því leggur nefndin til að aðgerðirnar Bókaútgáfa og Barna- og ungmennabókmenntasjóður verði sameinaðar í aðgerð sem beri heitið Bókmenning þar sem jafnframt verður aukin áhersla á sköpun og þýðingar.
    Að lokum bendir nefndin á lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, nr. 130/2018, sem samþykkt voru 14. desember 2018. Markmið þeirra er að efla bókaútgáfu á íslensku í ljósi mikilvægis hennar fyrir þróun málsins og bætt læsi þjóðarinnar.

Almenningsbókasöfn.
    Líkt og fram kemur í umfjöllun um Skólabókasöfn leggur nefndin til að sú aðgerð og aðgerðin Almenningsbókasöfn verði sameinaðar í eina, Bókasöfn, og vísast til þeirrar umfjöllunar.

Tækniþróun, aðgengi og nýsköpun.
    Í þingsályktunartillögunni eru tilgreindar tvær aðgerðir í kaflanum Tækniþróun, aðgengi og nýsköpun, þ.e. Máltækni – stafræn framtíð tungunnar og Orðasöfn. Nefndin leggur til breytingar á síðarnefndu aðgerðinni, þannig að aðgerðin Orðanefndir verði sameinuð aðgerðinni Orðasöfn, en nánar verður gerð grein fyrir þeirri breytingu í sérstökum kafla um Orðasöfn og orðanefndir.

Máltækni – stafræn framtíð tungunnar.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að tryggja íslensku sess í stafrænum heimi. Framfarir í máltækni munu stuðla að því að hægt verði að einfalda ferlið við birtingu skjátexta í beinum útsendingum í sjónvarpi og á vef, auk þess sem slík tækni mun gagnast heyrnarlausum og heyrnarskertum og þeim sem eru að læra íslensku. Nefndin tekur undir mikilvægi þessa og vísar til fimm ára verkáætlunar um máltækni fyrir íslensku. Nefndin bendir á í þessu samhengi að huga þurfi að samspili tölvuleikja og íslensku. Tölvuleikir hafa gríðarlega möguleika til nýsköpunar á sviði íslenskrar menningar og tungu, sbr. umsögn Samtaka leikjaframleiðenda á Íslandi sem barst vegna fjármálaáætlunar 2020–2024 (750. mál).

Orðasöfn og orðanefndir.
    Nefndinni var bent á að til að tryggja stöðu og samkeppnishæfni tungumálsins til framtíðar væri mikilvægt að tryggja ritstjórn orðasafna og endurskoðun. Þá var nefndinni bent á að þörf væri á reglulegri endurskoðun orðabóka, sem væri kostnaðarsöm vinna. Jafnframt væri mikilvægt að allir sem koma að orðabókagerð, útgáfu og birtingu vinni sameiginlega að því að tryggja ritstjórn og aðgengi almennings að efninu. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að tryggja samráð við hlutaðeigandi aðila, og að við framkvæmd aðgerðarinnar er snýr að orðasöfnum verði höfð hliðsjón af samkeppnissjónarmiðum. Þá beinir nefndin því til ráðuneytisins að kanna hvort jafnframt skorti efni um íslenska tungu fyrir snjalltæki.
    Nokkuð var rætt um starf orðanefnda. Nefndinni var bent á að slíkt starf þyrfti einna helst fjárhagslegan stuðning en ekki ætti að byggja slíkt starf á styrkjum. Þannig þyrfti að efla Málræktarsjóð og huga að skipulagðri og markvissri vinnu. Þá væri tækifæri til að gera Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að miðstöð íðorðastarfs og íðorðabanka. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að kanna með nánari hætti framangreint fyrirkomulag svo að hægt verði að ná því markmiði sem aðgerðin mælir fyrir um, þ.e. að tryggja að íslenskur fræðiorðaforði og íðorðastarf eflist.

Stefnumótun, stjórnsýsla og atvinnulíf.
    Í þingsályktunartillögu þessari eru tilgreindar fjórar aðgerðir í kaflanum Stefnumótun, stjórnsýsla og atvinnulíf, þ.e. Viðmið um málnotkun, Orðanefndir, Málstefna um íslenskt táknmál og Íslensk málstefna. Nefndin leggur til að aðgerðirnar Orðanefndir og Orðasöfn verði sameinaðar og leggur því til að fyrrnefnda aðgerðin falli brott í þessum kafla.

Viðmið um málnotkun.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að einnig þyrfti að setja viðmið um notkun íslensks táknmáls. Nefndin tekur undir slíkt og leggur til að einnig verði sett viðmið um notkun íslensks táknmáls.

Orðanefndir.
    Nefndin leggur til að þessi aðgerð verði sameinuð aðgerðinni Orðasöfn og vísast til þeirrar umfjöllunar.

Málstefna um íslenskt táknmál.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að full ástæða væri til að leggja jafnframt fram þingsályktunartillögu um að efla íslenskt táknmál. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að kanna slíkt með nánari hætti, en fram komu sjónarmið um að t.d. þyrfti að þýða fleiri bækur á íslenskt táknmál í rafbókarformi og tryggja þeim sem reiða sig á íslenskt táknmál bækur við hæfi og aðgang að nýjum íslenskum bókum.

Íslensk málstefna.
    Aðgerðin gerir ráð fyrir því að ný íslensk málstefna liggi fyrir eigi síðar en í árslok 2020. Skv. 2. mgr. 6. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011, er hlutverk Íslenskrar málnefndar m.a. að gera tillögur til ráðherra um málstefnu. Við meðferð málsins var nefndinni bent á að veita þyrfti nýrri Íslenskri málnefnd, sem tekur til starfa í janúar 2020, a.m.k. tvö ár til að endurskoða íslenska málstefnu, Íslenska til alls, sem Alþingi samþykkti 12. mars 2009. Nefndin tekur undir þessa athugasemd og leggur til við ráðuneytið að nýskipaðri nefnd verði veittur lengri frestur. Nefndin leggur til að Íslensk málnefnd skili nýrri málstefnu eigi síðar en í árslok 2021 sem yrði í samræmi við þá stefnu sem hér liggur fyrir.
    Að lokum leggur nefndin til orðalagsbreytingar til lagfæringar og leiðréttingar. Nefndin leggur til að þingsályktunartillaga þessi verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Anna Kolbrún Árnadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Jón Steindór Valdimarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 24. maí 2019.

Páll Magnússon,
form.
Willum Þór Þórsson,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson.
Birgir Ármannsson. Guðmundur Andri Thorsson. Halla Gunnarsdóttir.
Helgi Hrafn Gunnarsson. Jón Steindór Valdimarsson.