Ferill 52. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1677  —  52. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1998, með síðari breytingum (tíðavörur og getnaðarvarnir).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hlyn Ingason og Elínu Guðjónsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Steinþór Þorsteinsson og Hörð Davíð Harðarson frá tollstjóra, Brynhildi Ómarsdóttur frá Kvenréttindafélagi Íslands og Freyju Barkardóttur og Sigríði Finnbogadóttur frá félaginu Femínísk fjármál. Nefndinni bárust umsagnir frá Aðalsteini Baldurssyni, félaginu Femínísk fjármál, Femínistafélagi Háskóla Íslands og Kvenréttindafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að einnota og margnota tíðavörur, þ.m.t. dömubindi, tíðatappar og tíðabikarar, ásamt öllum tegundum getnaðarvarna, falli í lægra þrep virðisaukaskatts. Markmið frumvarpsins er að stuðla að bættri lýðheilsu og auknu jafnræði.
    Við umfjöllun nefndarinnar um málið kom fram almenn ánægja með frumvarpið og stuðningur við að það næði fram að ganga. M.a. komu fram sjónarmið um að tíðavörur væru nauðsynjavörur fyrir konur og því legðist skattlagning varanna samkvæmt hærra þrepi virðisaukaskatts á þær með ósanngjörnum hætti. Skattkerfið ætti ekki leggja þyngri byrðar á konur umfram aðra, sérstaklega þegar um nauðsynjavörur væri að ræða. Hvað varðar getnaðarvarnir væri lækkun þeirra í neðra þrep virðisaukaskatts einnig tímabær og sanngjörn breyting, m.a. til að auka jafnræði milli þeirra sem nota getnaðarvarnir af mismunandi gerðum.
    Til umræðu kom hvort tilefni væri til að fella virðisaukaskatt af þeim vörum sem frumvarpið varðar niður með öllu. Þar sem ekki hefur tíðkast að undanþiggja neysluvörur virðisaukaskatti með öllu telur nefndin að slík breyting krefðist ítarlegri skoðunar.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Nefndin fékk ábendingu frá fulltrúum ráðuneytisins og tollstjóra um tæknilega ágalla á tilvísunum til tollskrárnúmera í frumvarpinu og leggur, í samráði við tollstjóra, til breytingu á 1. gr. frumvarpsins því til leiðréttingar. Með breytingunni eykst svigrúm tollstjóra til að skilgreina undirflokka þeirra vara sem falla undir þá vöruliði sem fram koma í lögunum, verði frumvarpið samþykkt. Verður því m.a. unnt að skilgreina sérstaka vöruflokka fyrir tíðavörur sem nýlega hafa komið fram á sjónarsviðið, svo sem við á um margnota tíðavörur á borð við tíðanærbuxur og tíðasundföt, til að vilji löggjafans um að allar tíðavörur verði í lægra þrepi virðisaukaskatts nái fram að ganga. Hið sama á við um nýjar vörur sem fyrirsjáanlegt er að eigi eftir að koma fram á komandi árum, m.a. í ljósi tækniframfara og aukinnar umhverfisvitundar.
    Nefndin hefur verið upplýst um að embætti tollstjóra þurfi ráðrúm til að gera þær breytingar sem gildistaka frumvarpsins krefst. Leggur meiri hlutinn því til þá breytingu á 2. gr. frumvarpsins að lögin öðlist gildi 1. september 2019.
    Sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu er bæði sanngjörn og tímabær. Líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er kostnaður og tekjutap ríkissjóðs af breytingunni óverulegt. Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      Í stað orðanna „tollskrárnúmer 3006.6000 og 2937.2300“ í a-lið komi: sem falla undir vöruliði nr. 3004, 3006, 3926, 4014 og 9021 í tollskrá.
                  b.      Í stað orðanna „tollskrárnúmer 9619.0012 og 9619. 0090“ í b-lið komi: sem falla undir vöruliði nr. 3926, 4014, 6211 og 9619 í tollskrá.
     2.      2. gr. orðist svo:
                Lög þessi öðlast gildi 1. september 2019.

    Oddný G. Harðardóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara sem hún hyggst gera grein fyrir í ræðu.
    Þorsteinn Víglundsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda.

Alþingi, 31. maí 2019.

Óli Björn Kárason,
form.
Smári McCarthy,
frsm.
Þorsteinn Víglundsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Oddný G. Harðardóttir,
með fyrirvara.
Ólafur Þór Gunnarsson.
Silja Dögg Gunnarsdóttir.