Ferill 957. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1678  —  957. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.


Frá atvinnuveganefnd.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hrinda í framkvæmd eftirfarandi aðgerðaáætlun sem miði að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu:
     1.      Innleiddar verði viðbótartryggingar gagnvart innfluttu kalkúnakjöti, kjúklingakjöti og eggjum.
     2.      Óskað verði eftir viðbótartryggingum vegna innflutts svínakjöts og nautakjöts.
     3.      Bönnuð verði dreifing alifuglakjöts nema sýnt sé fram á að ekki hafi greinst kampýlóbakter í því.
     4.      Sett verði á fót áhættumatsnefnd.
     5.      Átak verði gert til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi.
     6.      Tryggð verði skjótari innleiðing reglugerða Evrópusambandsins þegar stöðva þarf innflutning á tilteknum vörum með skömmum fyrirvara.
     7.      Innleidd verði reglugerð (EB) nr. 206/2009 um innflutning dýraafurða til einkaneyslu.
     8.      Opinberum eftirlitsaðilum verði tryggð heimild til að leggja stjórnvaldssektir á matvælafyrirtæki sem brjóta gegn banni við dreifingu alifuglakjöts án sönnunar fyrir því að ekki hafi greinst í því kampýlóbakter.
     9.      Tryggð verði aukin fræðsla til ferðamanna um innflutning afurða úr dýraríkinu.
     10.      Settur verði á fót sjóður með áherslu á eflingu nýsköpunar í innlendri matvælaframleiðslu.
     11.      Innleidd verði stefna opinberra aðila um innkaup á matvælum.
     12.      Mótuð verði matvælastefna fyrir Ísland.
     13.      Ráðist verði í átak um betri merkingar matvæla.
     14.      Könnuð verði þróun tollverndar og greind staða íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi.
     15.      Tekið verði til skoðunar að setja á fót sérstakan tryggingarsjóð vegna tjóns sem framleiðendur geta orðið fyrir vegna búfjársjúkdóma.
     16.      Tollskrá fyrir landbúnaðarvörur verði endurskoðuð.
     17.      Ráðist verði í átak um aukið eftirlit í kjölfar afnáms leyfisveitingakerfisins.
    Ráðherra flytji Alþingi skýrslu um framgang áætlunarinnar fyrir 1. nóvember 2019 og kynni hana atvinnuveganefnd.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun í því skyni að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Þingsályktunartillagan er lögð fram í tengslum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

1. Innleiddar verði viðbótartryggingar gagnvart innfluttu kalkúnakjöti, kjúklingakjöti og eggjum.
    Við íslenska matvælaframleiðsla er staðið mjög vel að fyrirbyggjandi aðgerðum til að tryggja að matvæli menguð af salmonellu berist ekki á markað. Mikilvægt er að nýta það svigrúm sem er fyrir hendi samkvæmt EES-rétti til að viðhalda því eins og unnt er.
    Í upphafi ársins 2019 samþykkti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) heimild Íslands til að beita reglum um svokallaðar viðbótartryggingar gagnvart innfluttu kjúklingakjöti, kalkúnum og eggjum. Í því felst að framleiðandi eða sendandi vörunnar til landsins tekur sýni úr sérhverri sendingu á kjúklingakjöti og kalkúnakjöti og úr eggjum sem verða rannsökuð með tilliti til salmonellu. Íslenskum stjórnvöldum er heimilt að gera kröfu um að vottorð um sýnatöku og rannsókn fylgi hverri sendingu af framangreindum afurðum. Í ljósi þessa er talið að unnt verði að viðhalda lágri tíðni salmonellusmits hér á landi.
    Nauðsynlegt er að gera ráðstafanir til þess að innleiða í íslenskan rétt viðbótartryggingar vegna salmonellu í innfluttu alifuglakjöti og eggjum. Þá þarf að auka tíðni eftirlits með viðbótartryggingum fyrstu fjóra mánuðina eftir afnám leyfisveitingakerfisins og í kjölfarið taka afstöðu til þess hvernig fyrirkomulagi eftirlits skuli háttað.

2.     Óskað verði eftir viðbótartryggingum vegna innflutts svínakjöts og nautakjöts.
    Sambærilegt kerfi viðbótartrygginga og lýst er í 1. lið er einnig til staðar vegna svínakjöts og nautakjöts en Noregur, Finnland og Svíþjóð hafa þegar fengið slíkar viðbótartryggingar. Mikilvægt er að vinna með Matvælastofnun að nauðsynlegum undirbúningi umsóknar um slíkar viðbótartryggingar fyrir Ísland. Rík áhersla er lögð á að þessi vinna sé í forgangi og leitast sé við eftir fremsta megni að þessar tryggingar fáist sem allra fyrst. Takist ekki að fá slíkar viðbótartryggingar er því beint til ráðherra að grípa til ráðstafana sem komi í veg fyrir dreifingu á salmonellusmituðu kjöti á markaði til að verja lýðheilsu – að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga.

3.     Bönnuð verði dreifing alifuglakjöts nema sýnt sé fram á að ekki hafi greinst kampýlóbakter.
    Nauðsynlegt er að tryggja sterka stöðu Íslands þegar kemur að vörnum gegn kampýlóbaktersýkingum. Mikilvægt er að í lög um matvæli, nr. 93/1995, verði fest ákvæði um að óheimilt sé að dreifa ómeðhöndluðum sláturafurðum alifuglakjöts á markaði nema sýnt sé fram á að kjötið sé frá eldishópum sem ekki eru sýktir af kampýlóbakter, eins og lagt er til í framangreindu frumvarpi. Unnt verði að sýna fram á slíkt t.d. með vottorði úr sýnatöku eldishóps eða við slátrun eða með því að leggja fram sönnur fyrir viðeigandi meðferð sláturafurðanna sem leiðir til þess að magn kampýlóbakters minnki verulega eða eyðist alveg. Brot gegn slíku ákvæði geti varðað stjórnvaldssekt og/eða innköllun á alifuglakjöti.

4. Sett verði á fót áhættumatsnefnd.
    Mikilvægt er að setja á fót áhættumatsnefnd sem mælt er fyrir um í lögum um matvæli, nr. 93/1995, og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994. Hlutverk nefndarinnar verði að veita og hafa umsjón með framkvæmd vísindalegs áhættumats á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru. Áhættumat nefndarinnar verði notað á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru til þess að stuðla að bættri áhættustjórnun og vera til ráðgjafar í tengslum við stefnumótun yfirvalda í fyrrgreindum málaflokkum.
    Lögð er áhersla á að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setji reglugerð um áhættumatsnefnd á vormánuðum 2019. Gengið verði frá skipan áhættumatsnefndar fyrir 1. júlí 2019. Seinni hluti ársins verði nýttur til að skipuleggja starf nefndarinnar, kostnaðarmeta það og tryggja nauðsynlegar fjárveitingar frá og með árinu 2020.

5. Átak verði gert til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi.
    Á síðari árum hefur ónæmi gegn sýklalyfjum farið vaxandi í heiminum sem gerir meðferð ýmissa sýkinga erfiða, kostnaðarsama og í sumum tilvikum ómögulega. Sýklalyfjaónæmi á Íslandi hefur verið umtalsvert minna vandamál en í nálægum löndum.
    Í apríl 2017 skilaði starfshópur tillögum til heilbrigðisráðherra um varnir gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Stýrihópur með skipuðum fulltrúum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis auk sóttvarnalæknis og yfirdýralæknis hefur þegar tekið til starfa og hefur það hlutverk að framfylgja stefnu stjórnvalda í málaflokknum. Stýrihópurinn hefur nú þegar skilað tillögum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra sem vinna að framgangi þeirra.
    Ísland ætlar að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Innan ramma alþjóðlegra skuldbindinga og á grundvelli lýðheilsusjónarmiða munu íslensk stjórnvöld stefna að því að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur. Þessu skal náð m.a. með banni við dreifingu tiltekinna sýklalyfjaónæmra baktería í matvælum að undangenginni greiningu á stöðunni, uppsetningu eftirlits og í samræmi við opinbera stefnu í aðgerðum gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Mikilvægt er að kallaðir séu til færustu sérfræðingar í því skyni að móta aðgerðir sem miði að því að lágmarka áhættu sem felst í sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skili Alþingi skýrslu um framgang þeirrar stefnu fyrir 1. mars 2020. Þar skulu mismunandi valkostir við framangreinda stefnu reifaðir og sett fram tímasett aðgerðaáætlun um næstu skref, m.a. hvenær bann verður sett við dreifingu matvæla sem innihalda tilteknar sýklalyfjaónæmar bakteríur. Fyrir 1. október 2020 verði settar reglur, á grundvelli framangreindrar vinnu, um það hvernig þessum markmiðum verður best náð.
    Auka þarf sýnatökur á markaði og efla innviði til að geta sinnt betur þjónustu- og vísindarannsóknum, ráðgjöf og eftirliti í tengslum við sýklalyfjaónæmi. Þannig þarf sem fyrst að stofna sýklalyfjaónæmissjóð sem hefur það hlutverk m.a. að fjármagna auknar rannsóknir. Með þeim hætti verði byggð upp sú þekking sem þarf til að sýna fram á sérstöðu íslenskrar framleiðslu með tilliti til sýklalyfjaónæmis. Einnig þarf að þróa fljótvirkar og ódýrar aðferðir til að greina sýklalyfjaónæmi í matvælum, en það er forsenda þess að lágmarka áhættu sem felst í sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum. Horfa mætti til norræns samstarfs í þeim efnum, en á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar er samvinna um baráttuna gegn sýklalyfjaónæmi.

6. Tryggð verði skjótari innleiðing reglugerða Evrópusambandsins þegar stöðva þarf innflutning á tilteknum vörum með skömmum fyrirvara.
    Mikilvægt er að tryggja að gerðir Evrópusambandsins um takmarkanir á frjálsu flæði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru vegna sjúkdómahættu fyrir menn, dýr eða plöntur öðlist gildi hér á landi á tilsettum tíma þegar ekki tekst að þýða þær í tæka tíð. Með því verði tryggt að reglur um innflutning dýraafurða frá þriðju ríkjum séu uppfærðar í tæka tíð til að koma megi í veg fyrir innflutning afurða sem ekki eru taldar öruggar.

7. Innleidd verði reglugerð (EB) nr. 206/2009 um innflutning dýraafurða til einkaneyslu.
    Mikilvægt er að vinna að upptöku og innleiðingu reglugerðar (EB) nr. 206/2009 um innflutning dýraafurða til einkaneyslu. Með henni verða sett skýr ákvæði um hvaða vörur og afurðir farþegar mega taka með sér á milli landa og í hvaða magni og jafnframt hertar reglur um innflutning kjöt- og mjólkurafurða farþega frá löndum utan EES og þeim verður almennt óheimilt að flytja þessar afurðir með sér til landsins.

8. Opinberum eftirlitsaðilum verði tryggð heimild til að leggja stjórnvaldssektir á matvælafyrirtæki sem brjóta gegn banni við dreifingu alifuglakjöts án sönnunar fyrir því að ekki hafi greinst í því kampýlóbakter.
    Með framangreindu frumvarpi verður Matvælastofnun og heilbrigðisnefndum sveitarfélaga veitt heimild til þess að leggja stjórnvaldssektir á matvælafyrirtæki sem brjóta gegn ákvæði 6. mgr. 8. gr. a laga um matvæli, nr. 93/1995, og reglugerðum settum á grundvelli laganna. Þannig verði lögð áhersla á ábyrgð matvælafyrirtækja á því að tryggja að matvæli á markaði séu örugg.

9. Tryggð verði aukin fræðsla til ferðamanna um innflutning afurða úr dýraríkinu.
    Talið er að hætta sé á að sjúkdómsvaldar flytjist til landsins með matvælum og klæðnaði ferðafólks. Sú hætta er þegar til staðar og því mikilvægt að farþegar til landsins fái fræðslu um góða sjúkdómastöðu íslenskra búfjárstofna og hversu viðkvæmir þeir eru fyrir nýju smiti. Fjármagn verði sett í átak og þannig sé brýnt fyrir fólki sem hingað kemur, jafnt Íslendingum sem erlendum ferðamönnum, hvað beri að varast varðandi matvæli og klæðnað svo sem alþekkt er í löndum sem hafa hliðstæðar áherslur að þessu leyti.

10. Settur verði á fót sjóður með áherslu á eflingu nýsköpunar í innlendri matvælaframleiðslu.
    Til að efla nýsköpun og þróun í innlendri matvælaframleiðslu er lagt til að settur verði á fót sjóður með sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Talið er að með sameiningu sjóðanna megi efla og styrkja nýsköpunar- og þróunarumhverfi atvinnugreinanna. Til að ná því markmiði verður aukið fjármagn sett í slíkan sjóð. Tryggt verði að hlutfallsleg skipting fjármagns til þessara atvinnugreina verði með sambærilegum hætti og nú er.

11. Innleidd verði innkaupastefna opinberra aðila á matvælum.
    Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt tillögu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila. Markmið stefnunnar er að tryggja neytendum matvæli úr heilnæmum afurðum með tilliti til framleiðsluhátta og umhverfisáhrifa. Innkaupastefnan tekur mið af því að opinber innkaup matvæla stuðli að minnkun kolefnisspors við framleiðslu og flutning. Stefnunni var í kjölfarið vísað til ráðherranefndar um matvælastefnu sem mun hafa það hlutverk að innleiða stefnuna. Mikilvægt er að fjármagn verði tryggt til innleiðingar stefnunnar.

12. Mótuð verði matvælastefna fyrir Ísland.
    Verkefnisstjórn um mótun matvælastefnu fyrir Ísland hefur þegar hafið vinnu sína. Tilgangur stefnunnar er að draga fram þær áherslur stjórnvalda að Ísland eigi að verða leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum ásamt því að móta framtíðarsýn, markmið og tillögur að aðgerðaáætlun til að innleiða í íslenskt atvinnulíf og stjórnkerfi. Mikilvægt er að ná til og virkja hagsmunaaðila og samtök á sem flestum sviðum í þeirri vinnu sem fram undan er og forsenda þess er m.a. að þeir ráðherrar sem fara með stjórnarmálefni sem snerta verkefnið komi með virkum hætti að mótun matvælastefnu fyrir Ísland. Því var skipuð var sérstök ráðherranefnd til að fjalla um matvælastefnu Íslands undir forustu forsætisráðherra.

13. Ráðist verði í átak um betri merkingar matvæla.
    1. febrúar sl. var undirritað samkomulag um þátttöku í átaki um betri merkingar matvæla. Aðilar samkomulagsins eru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Bændasamtök Íslands, Neytendasamtökin, Samtök verslunar og þjónustu, Félag atvinnurekenda og Samtök iðnaðarins. Markmið átaksins er að tryggja rétt neytenda til upplýsinga um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif matvæla. Verkefni samráðshóps sem skipaður hefur verið til að halda utan um verkefnið er að ráðast í átaksverkefni um merkingar og hvernig betur megi upplýsa neytendur og fyrirtæki um réttindi og skyldur á skýran og einfaldan hátt, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

14. Könnuð verði þróun tollverndar og greind staða íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi.
    Til að greina stöðu landbúnaðar er talið mikilvægt að kanna annars vegar þróun tollverndar og hins vegar stöðu íslensks landbúnaðar í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Nefndin leggur áherslu á að þeirri vinnu verði lokið haustið 2019.

15. Tekið verði til skoðunar að setja á fót sérstakan tryggingasjóð vegna tjóns sem framleiðendur geta orðið fyrir vegna búfjársjúkdóma.
    Skoða þarf þann möguleika að setja á fót sérstakan tryggingasjóð vegna tjóns sem framleiðendur geta orðið fyrir vegna búfjársjúkdóma. Í því samhengi verði litið til nágrannaríkjanna og mögulegra úrræða innan Evrópusambandsins og þeirra úrræða sem nú þegar eru í boði fyrir bændur sem verða fyrir tjóni af völdum búfjársjúkdóma.

16. Tollskrá fyrir landbúnaðarvörur verði endurskoðuð.
    Mikilvægt er að endurskoða tollskrá fyrir landbúnaðarvörur með það að markmiði að flokka betur og nákvæmar en nú er gert allan inn- og útflutning og auka þannig skilvirkni. Nefndin leggur áherslu á að þeirri vinnu verði lokið haustið 2019.

17. Ráðist verði í átak um aukið eftirlit í kjölfar afnáms leyfisveitingakerfisins.
    Ráðist verði í sérstakt átaksverkefni í fjóra mánuði eftir að framangreint frumvarp verður að lögum. Að fjórum mánuðum liðnum verði tekin afstaða til hvernig framgangur eftirlitsins hefur verið. Komi í ljós miklar brotalamir á eftirliti er mikilvægt að fyrirkomulag þess verði endurskoðað frá grunni. Þar verði lögð sérstök áhersla á sýnatökur og að skoða vottorð vegna salmonellu og kampýlóbakter og tíðni skyndiskoðana aukin samhliða því. Með þeim hætti verði áreiðanleiki framangreindra þátta treystur. Þá verði Matvælastofnun falið að útfæra leiðbeiningar fyrir innflytjendur um þau vottorð og skírteini sem þurfa að vera til staðar fyrir innflutning matvæla.