Ferill 796. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1680  —  796. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur (misnotkun á félagaformi og hæfisskilyrði).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurbjörgu Stellu Guðmundsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Guðmund Hreiðar Guðmundsson frá Samtökum atvinnulífsins, Guðnýju Hjaltadóttur frá Félagi atvinnurekenda og Theodóru Emilsdóttur og Ólaf Guðmundsson frá skattrannsóknarstjóra. Nefndinni barst sameiginleg umsögn um málið frá Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins auk umsagna frá Félagi atvinnurekenda, héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra og minnisblaðs frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Frumvarpið er liður í því að sporna við þeirri misnotkun á reglum um félög með takmarkaðri ábyrgð sem í daglegu tali kallast kennitöluflakk og byggist m.a. á sameiginlegum tillögum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um leiðir til að sporna við kennitöluflakki í atvinnurekstri, sem kynntar voru í júní 2017.
    Nefndin leggur áherslu á að frumvarpið er eingöngu liður í baráttunni gegn kennitöluflakki og undirbúningur frekari aðgerða stendur yfir. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að stefnt sé að framlagningu frumvarps til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, á komandi haustþingi, þar sem lagðar verði til breytingar sem koma til fyllingar þeim breytingum sem lagðar eru til með þessu frumvarpi. Þá hefur nefndin verið upplýst um að fleiri þættir í tillögum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands séu til skoðunar í ráðuneytinu.

Refsivernd lífeyrisiðgjalda (a-liður 1. gr.).
    Í a-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að við upptalningu í 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sem leggur refsingu við ýmsum skattalagabrotum, verði bætt tilvísun til 3. mgr. 7. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Samkvæmt því ákvæði ber launagreiðanda að halda eftir af launum iðgjaldshluta launþega og standa viðkomandi lífeyrissjóði skil á honum, ásamt iðgjaldshluta sínum. Í umsögn skattrannsóknarstjóra til nefndarinnar er saga ákvæðis 262. gr. almennra hegningarlaga rakin frá því að hún varðaði aðeins bókhaldsbrot þar til skattalagabrotum var bætt við hana með lögum nr. 35/1995, með það að markmiði að auka varnaðaráhrif og leggja refsingu við hinum alvarlegri skattalagabrotum í hegningarlögum. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 35/1995 kemur fram að 1. mgr. 262. gr. skuli taka til þeirra skattalaga sem mesta þýðingu hafa við skattsvik. Brot á öðrum skattalögum og tollalögum falli ekki undir ákvæðið og heppilegt þyki að gildissvið þess sé vel skilgreint að þessu leyti.
    Skattrannsóknarstjóri bendir á að með þeirri breytingu sem lögð er til með a-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að lífeyrissjóðsiðgjöld fái sambærilega vernd í refsiákvæði almennra hegningarlaga og vörsluskattar. Bendir skattrannsóknarstjóri á að eðlismunur er á milli lífeyrissjóðsiðgjalda og skatta. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda o.fl. ber launagreiðanda að halda eftir og standa skil á iðgjaldshluta launþega í lífeyrissjóð. Jafnframt ber að standa skil á iðgjaldshluta launagreiðandans. Eðlismunur er á þessum tveimur þáttum. Þannig er um að ræða fjárdrátt ef launagreiðandi heldur eftir iðgjaldshluta launþega án þess að gera skil á honum til lífeyrissjóðs og staðfestir dómaframkvæmd að slíkt brot heyrir undir 247. gr. almennra hegningarlaga. Haldi launagreiðandi hins vegar eftir þeim hluta iðgjalds launþega sem launagreiðanda sjálfum ber að greiða í lífeyrissjóð er um að ræða skuld launagreiðandans við lífeyrissjóðinn. Í umsögn skattrannsóknarstjóra kemur fram að ekki verði betur séð en að þessir eðlisólíku þættir séu lagðir að jöfnu í frumvarpinu. Bendir stofnunin á að hugleiða þurfi hvort skylda launagreiðanda til að standa lífeyrissjóði skil á sínum hluta iðgjalds launþega sé þess eðlis að tilefni sé til að vanræksla þeirrar skyldu sæti sömu refsiábyrgð og annarra atriða sem talin eru upp í 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Í þessu samhengi er minnt á að vangreiðsla launa er ekki refsiverð sem slík. Þá væri refsinæmi þetta í bersýnilegu ósamræmi við rétthæð krafna við gjaldþrot skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
    Fleiri aðilar, jafnt í umsögnum til nefndarinnar sem og á nefndarfundum, hafa tekið undir sjónarmið skattrannsóknarstjóra og samkvæmt upplýsingum nefndarinnar sæta þau skoðun innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis.
    Nefndin leggur til að a-liður 1. gr. frumvarpsins, þar sem fram kemur að brot gegn 3. mgr. 7. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrissjóða bætist við upptalningu þeirra brota sem sæta skulu refsingu skv. 262. gr. almennra hegningarlaga, falli brott úr frumvarpinu. Ráðuneytunum gefist þannig ráðrúm til þeirrar endurskoðunar sem nú fer fram í ljósi framangreindra aðfinnslna. Til samræmis leggur nefndin til að b-liður 2. gr., b-liður 5. gr. og a-liður 8. gr. falli einnig brott.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    A-liður 1. gr., b-liður 2. gr., b-liður 5. gr. og a-liður 8. gr. falli brott.

    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorsteinn Víglundsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda.

Alþingi, 31. maí 2019.

Óli Björn Kárason,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
frsm.
Þorsteinn Víglundsson.
Brynjar Níelsson. Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Smári McCarthy. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.