Ferill 462. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1705  —  462. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um vestnorrænt samstarf á sviði íþrótta barna og unglinga.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón S. Brjánsson, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Bylgju Árnadóttur, ritara Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Sigurð Ólafsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins, og Ragnheiði Helgu Þórarinsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Með tillögunni er skorað á ríkisstjórnina að efla samstarf Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði íþrótta barna og unglinga. Tillagan er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2018 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 5. september 2018 í Þórshöfn í Færeyjum.
    Í greinargerð með tillögunni kemur m.a. fram að til að tengja vestnorrænu þjóðirnar enn betur saman væri hægt að koma á kerfisbundnu íþróttasamstarfi, t.d. með því að bjóða ungu íþróttafólki frá Grænlandi og Færeyjum að taka þátt í þeim mótum sem haldin eru á Íslandi eða stofna til vestnorrænna íþróttamóta sem væru haldin til skiptis í löndunum þremur. Á þennan hátt væri hægt að efla tengsl landanna í gegnum ungu kynslóðina sem byggi að því alla tíð. Einnig gæti góður árangur Íslendinga á heimsvísu í hópíþróttum verið stökkpallur fyrir hinar vestnorrænu þjóðirnar. Með því að deila reynslu landanna af uppbyggingu innviða, þjálfunar og aðstöðu geta vestnorrænu löndin bætt árangur sinn á þessum vettvangi til framtíðar.
    Nefndin tekur undir tillöguna en vekur jafnframt athygli á því lofsverða framtaki sem sýnt hefur verið á þessu sviði. Má þar t.d. benda á skákkennslu Hróksins á Grænlandi og samstarf nokkurra íslenskra og grænlenskra sveitarfélaga um sundkennslu grænlenskra barna á Íslandi. Hvoru tveggja mætti styrkja enn frekar og byggja upp fleiri verkefni af líkum toga.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Smári McCarthy og Silja Dögg Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. júní 2019.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Logi Einarsson, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Gunnar Bragi Sveinsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir.