Ferill 409. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
149. löggjafarþing 2018–2019.
Nr. 35/149.
Þingskjal 1749 — 409. mál.
Þingsályktun
um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.
Alþingi ályktar að samþykkja eftirfarandi áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess og að gert verði ráð fyrir framkvæmd hennar við gerð fjárlaga.
I. FRAMTÍÐARSÝN OG VIÐFANGSEFNI
Við framkvæmd áætlunarinnar verði tekið mið af því að með ofbeldi sé átt við t.d. líkamlegt, kynferðislegt, andlegt, fjárhagslegt og ekki síst kynbundið ofbeldi, einelti, haturstal og myndbirtingar á stafrænum miðlum sem hvetja til ofbeldis. Horft verði meðal annars til frásagna og umræðu sem birtist í samfélaginu undir myllumerkinu #églíka/#metoo. Aðgerðir taki einkum til forvarna, fræðslu og bættrar málsmeðferðar svo og valdeflingar í kjölfar ofbeldis gagnvart fullorðnum. Aðgerðir sem lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi taki einkum til forvarna og fræðslu, auk aðgerða sem séu til þess fallnar að bæta málsmeðferð í slíkum málum.
II. MARKMIÐ OG ÁHERSLUR
1. Að ofbeldi í íslensku samfélagi verði ekki liðið.
2. Að komið verði á markvissri fræðslu og forvörnum gegn hvers konar ofbeldi, einkum í skólakerfinu, í íþrótta- og æskulýðsstarfi, á vinnustöðum, í stafrænum heimi og í nánum samböndum.
3. Að stuðlað verði að heildstæðari umgjörð um meðferð ofbeldismála innan réttarvörslukerfisins sem leiði af sér aukna skilvirkni, betri samskipti milli stofnana og upplýstara starfsumhverfi.
4. Að þolendur eigi greiðan aðgang að upplýsingum, þjónustu og úrræðum án tafar í kjölfar ofbeldis.
5. Að samstarf og samhæfing verði efld til muna í þjónustu við þolendur ofbeldis, meðal annars á milli ríkisstofnana, sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka.
Áætluninni verði skipað niður í þrjá þætti:
A. Vakningu sem felur í sér forvarnir og fræðslu með áherslu á heilbrigð samskipti, ráðgjöf og snemmtæk viðbrögð.
B. Viðbrögð við ofbeldi með áherslu á bætt verklag og málsmeðferð innan réttarvörslukerfisins.
C. Valdeflingu með áherslu á samhæfingu og þverfaglegt samstarf í þjónustu við þolendur ofbeldis.
III. AÐGERÐAÁÆTLUN
A. Vakning – fræðsla og forvarnir.
A.1. Fræðsla um ofbeldi til þeirra sem vinna með börnum í skóla-, íþrótta- og æskulýðsstarfi.
Fræðslu um ofbeldi og viðbrögð við því verði komið á og viðhaldið reglulega meðal þeirra sem vinna með börnum og ungmennum. Samstarfsaðilar tryggi að allt starfsfólk á þessum vettvangi sé upplýst um mikilvægi forvarnastarfs, helstu birtingarmyndir ofbeldis og tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum.
– Markmið: Að þeir sem vinna með börnum og ungmennum þekki helstu birtingarmyndir ofbeldis og bregðist fyrr við og á réttan hátt þegar grunur er um ofbeldi.
– Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr. árið 2019, 2 millj. kr. árið 2020, 2 millj. kr. árið 2021 og 1 millj. kr. árið 2022.
– Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, Menntamálastofnun, Barnaverndarstofa, embætti landlæknis, umboðsmaður barna, sveitarfélög, fagstéttir og stéttarfélög í skólum og í íþrótta- og æskulýðsstarfi, frjáls félagasamtök, Jafnréttisstofa og háskólasamfélagið.
– Mælikvarði: Reglubundin fræðsla verði komin á í árslok 2021.
A.2. Þekking á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins verði efld og hann verði grundvöllur í starfi með börnum.
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði reglulega kynntur börnum, foreldrum, starfsfólki í skólum og í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þar með verði hann grundvöllur í öllu starfi með börnum. Réttindaskóli Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), sem byggist á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, verði innleiddur í sem flesta skóla og sveitarfélög. Árlega verði 20. nóvember helgaður mannréttindum barna.
– Markmið: Að auka og viðhalda þekkingu á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna meðal barna, foreldra og þeirra sem vinna með börnum og að börn og ungmenni fái sterkari rödd í samfélaginu.
– Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr. árlega.
– Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Dómsmálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, sveitarfélög, Menntamálastofnun, umboðsmaður barna, UNICEF, embætti landlæknis (heilsueflandi skólar), frjáls félagasamtök, ungmennaráð, Jafnréttisstofa, Samband íslenskra sveitarfélaga og háskólasamfélagið.
– Mælikvarði: Þekking á barnasáttmálanum verði könnuð meðal barna, foreldra og þeirra sem vinna með börnum árið 2019 og eftir það á fimm ára fresti.
A.3. Gæðakröfur og vottun um fyrirmyndarstarf í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
Settar verði gæðakröfur um fyrirmyndarstarf í íþrótta- og æskulýðsstarfi með áherslu á jafnrétti, heilbrigð samskipti og menningu þar sem ofbeldi þrífist ekki. Lögð verði áhersla á víðtæka samvinnu og gæðakröfur endurskoðaðar í handbók Íþróttasambands Íslands um fyrirmyndarsamstarf frá árinu 2004. Kynning og innleiðing verði skipulögð í samráði við samstarfsaðila og viðeigandi fræðsla veitt ásamt eftirfylgni í samræmi við aðgerðir á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins í kjölfar frásagna úr íþróttahreyfingunni í tengslum við #églíka/#metoo. Fundinn verði vettvangur sem votti fyrirmyndarstarfið og hafi virkt eftirlit með því.
– Markmið: Að koma í veg fyrir hvers konar ofbeldi í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
– Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
– Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, frjáls félagasamtök í íþrótta- og æskulýðsstarfi og önnur frjáls félagasamtök, sveitarfélög, ungmennaráð og Jafnréttisstofa.
– Mælikvarði: Öll íþrótta- og æskulýðsfélög hafi fengið vottun um fyrirmyndarstarf árið 2022.
A.4. Fagráð eineltismála fyrir öll skólastig og íþrótta- og æskulýðsstarf.
Komið verði á heildstæðu fagráði eineltismála sem veiti ráðgjöf um einelti og úrlausn einstakra flókinna eineltismála sem ekki hefur tekist að leysa innan stofnunar, félags eða sveitarfélags. Fagráðið leiðbeini um gerð eineltisáætlana fyrir leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf. Byggt verði á grunni núverandi fagráðs grunn- og framhaldsskóla sem sjái til þess að fræðsluefni um forvarnir og gagnreyndar aðferðir gegn einelti verði aðgengilegt.
– Markmið: Að brugðist verði við eineltismálum á faglegan og skilvirkan hátt.
– Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr. árlega.
– Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Menntamálastofnun, sveitarfélög, umboðsmaður barna, embætti landlæknis, skólar, frjáls félagasamtök og ungmennaráð.
– Mælikvarði: Sameiginlegt fagráð fyrir öll skólastig og íþrótta- og æskulýðsstarf hafi tekið til starfa fyrir árslok 2020.
A.5. Fræðsluefni um ofbeldi fyrir leikskólabörn.
Fræðsluefni sem hentar leikskólabörnum verði útbúið og komið í notkun í leikskólum. Fræðsluefninu fylgi leiðbeiningar til starfsfólks leikskóla um notkun þess og viðbrögð í kjölfar fræðslu, þar á meðal um tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum og samskipti við forsjáraðila.
– Markmið: Að börn þekki rétt sinn til lífs án ofbeldis.
– Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr. árið 2019, 2 millj. kr. árið 2020, 2 millj. kr. árið 2021 og 1 millj. kr. árið 2022.
– Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Menntamálastofnun, Barnaverndarstofa, embætti landlæknis, sveitarfélög, háskólar, frjáls félagasamtök og Jafnréttisstofa.
– Mælikvarði: Að fræðsluefni hafi verið dreift og komið í notkun í öllum leikskólum landsins fyrir árslok 2022.
A.6. Kennsla um kynheilbrigði og kynhegðun verði efld í grunn- og framhaldsskólum.
Nemendur í grunn- og framhaldsskólum fái markvissa og viðvarandi kennslu um kynheilbrigði og kynhegðun, þ.m.t. kennslu um mikilvægi samþykkis og persónulegra marka. Einnig fari fram fræðsla um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi. Þetta stuðli að því að einstaklingar taki ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms, kynbundins ofbeldis og kynferðislegra birtingarmynda eineltis og haturstals sem og eigin framkomu á netmiðlum og birtingar myndefnis. Kennsla verði endurskipulögð í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað í samfélaginu undir myllumerkinu #églíka/#metoo, þ.m.t. kennsla til nemenda, kennara og annarra sem vinna með börnum. Við kennslu í skólum um kynheilbrigði og kynhegðun verði haft að leiðarljósi að hjálpa einstaklingum að öðlast jákvæðan skilning á kynlífi í víðri merkingu þess orðs og veita þeim þekkingu umfram það sem finna má á netmiðlum. Lögð verði áhersla á námsefnið Örugg saman sem embætti landlæknis hefur gefið út og hentar efstu bekkjum grunnskóla, fyrstu árgöngum framhaldsskóla, félagsmiðstöðvum og íþróttahópum. Þá verði notast við fræðsluefnið sem framleitt var sem hluti af vitundarvakningu um ofbeldi gegn börnum.
– Markmið: Að nemendur í grunn- og framhaldsskólum taki ábyrga afstöðu í nánum samskiptum.
– Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr. árlega.
– Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Menntamálastofnun, fjölmiðlar, kennaramenntunarstofnanir, embætti landlæknis, Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar á landsvísu, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og ungmennaráð.
– Mælikvarði: Markvissri kennslu um kynheilbrigði og kynhegðun verði komið á fyrir árslok 2020 í skólum í samræmi við aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla og grunnþáttinn Heilbrigði og velferð sem þar er að finna.
A.7. Samræmd heilsuvernd skólabarna á landsvísu.
Haldið verði áfram að styrkja heilsuvernd skólabarna á landsvísu þar sem nemendur fái samræmda skipulagða heilbrigðisfræðslu með áherslu á að hvetja til heilbrigðra lífshátta. Fjallað verði um líkamann, líkamsímynd, kynþroska, kynheilbrigði, samskipti, kvíða, tilfinningar, hópþrýsting og geðheilbrigði. Fræðslan stuðli meðal annars að því að einstaklingar taki ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms og kynbundins ofbeldis.
– Markmið: Að nemendur fái samræmda skipulagða árangursmetna fræðslu um kynþroska og kynheilbrigði.
– Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
– Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar á landsvísu, heilsugæslustöðvar, embætti landlæknis og háskólasamfélagið.
– Mælikvarði: Að nemendur í 9. bekk fái fræðslu um kynþroska og kynheilbrigði í skipulagðri heilbrigðisfræðslu fyrir árslok 2022.
A.8. Vitundarvakning í samfélaginu gegn haturstali.
Vitundarvakningu gegn haturstali í samfélaginu verði ýtt úr vör með samfélagssáttmála og fræðslu sem verði sniðin annars vegar að börnum og ungmennum og hins vegar fullorðnum. Í sáttmálanum felist yfirlýsing um að haturstal verði ekki liðið í opinberri umræðu, fjölmiðlum eða samskiptum manna í milli og að barist verði gegn því. Starfshópi á forræði Mannréttindaskrifstofu Íslands verði falið að útfæra verkefnið nánar, hann útbúi meðal annars tillögu að samfélagssáttmála og leggi til hugmyndir að ýmiss konar fræðsluefni.
– Markmið: Að samfélagið sameinist gegn haturstali.
– Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr. árið 2019, 2 millj. kr. árið 2020, 2 millj. kr. árið 2021 og 1 millj. kr. árið 2022.
– Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Mannréttindaskrifstofa Íslands, félagsmálaráðuneytið, fjölmiðlanefnd, Menntamálastofnun, SAFT (Samfélag, fjölskylda og tækni), skólar, frjáls félagasamtök í íþrótta- og æskulýðsstarfi, frjáls félagasamtök og ungmennaráð.
– Mælikvarði: Vitundarvakning hefjist fyrir árslok 2020.
A.9. Vitundarvakning um einelti og ofbeldi á vinnustöðum.
Einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum verði ekki liðið og atvinnurekendur bregðist við á grundvelli áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þegar þeir verða varir við slíka hegðun innan vinnustaðarins. Gert verði átak í fræðslu og eftirliti þar sem atvinnurekendur verði upplýstir um skyldur þeirra samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Í átakinu felist meðal annars kynning, útgáfa, fræðsla og leiðbeiningar um gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar á meðal áætlanir um forvarnir með sérstakri áherslu á sálfélagslegt vinnuumhverfi. Einnig verði lögð áhersla á þessa þætti í eftirlitsheimsóknum í fyrirtæki.
– Markmið: Að 60% vinnustaða á innlendum vinnumarkaði hafi gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar á meðal áætlanir um forvarnir með sérstakri áherslu á sálfélagslegt vinnuumhverfi, í lok árs 2020.
– Kostnaðaráætlun: Innan ramma ársins 2019, 10 millj. kr. árið 2020 og 10 millj. kr. árið 2021.
– Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Vinnueftirlitið, Jafnréttisstofa, stéttarfélög og samtök aðila vinnumarkaðarins.
– Mælikvarði: Hlutfall vinnustaða á innlendum vinnumarkaði sem hefur gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar á meðal áætlanir um forvarnir, með sérstaka áherslu á sálfélagslegt vinnuumhverfi, í lok árs 2019, 2020 og 2021.
A.10. Fræðsla um úrræði fyrir þolendur ofbeldis um allt land.
Fræðsluefni um ofbeldi og úrræði í kjölfar ofbeldis verði dreift skipulega um land allt. Fræðsluefnið verði byggt á fyrirliggjandi efni og staðfært í samvinnu við lykilaðila á þessu sviði í hverjum landshluta. Fræðsluefnið verði aðgengilegt á nokkrum tungumálum og uppfært reglulega á upplýsingavef, sbr. aðgerð C.2. Sérstök áhersla verði lögð á að fræðslan nái til fatlaðs fólks, aldraðra, fólks af erlendum uppruna, hinsegin fólks, fanga og fleiri viðkvæmra hópa.
– Markmið: Að upplýsa landsmenn um ofbeldi og úrræði í kjölfar ofbeldis.
– Kostnaðaráætlun: 4 millj. kr. árið 2020.
– Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Jafnréttisstofa, sveitarfélög og hlutaðeigandi stofnanir og frjáls félagasamtök.
– Mælikvarði: Fræðsluefni verði dreift vorið 2020.
A.11. Stofnun miðstöðvar um ofbeldi gegn börnum.
Komið verði á fót miðstöð undir forustu félagsmálaráðuneytisins og með aðkomu opinberra stofnana, frjálsra félagasamtaka, háskólasamfélagsins og annarra viðeigandi aðila. Sú miðstöð hafi það hlutverk að halda utan um upplýsingar, rannsóknir, tölfræði og fleira er varðar ofbeldi gegn börnum og verði stjórnvöldum til ráðgjafar og leggi fram tillögur þegar kemur að mótun stefnu og aðgerða í málaflokknum, m.a. er varðar barnavernd og aðra þjónustu við fjölskyldur og börn. Miðstöð þessari verði eftir atvikum falin eftirfylgni með aðgerðum í þessari áætlun.
– Markmið: Að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um rannsóknir á ofbeldi gegn börnum og þróun málaflokksins, sem verði grunnur fyrir fræðslu- og forvarnaaðgerðir. Stjórnvöld á hverjum tíma hafi ríkt aðgengi að þessum upplýsingum og faglegri ráðgjöf við stefnumótun í málaflokknum.
– Kostnaðaráætlun: 5 millj. kr. árlega.
– Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Önnur ráðuneyti, hlutaðeigandi stofnanir, frjáls félagasamtök og aðrir viðeigandi aðilar.
– Mælikvarði: Að miðstöð um ofbeldi gegn börnum hafi tekið til starfa haustið 2019.
B. Viðbrögð – verklag og málsmeðferð.
B.1. Stuðlað að menntun um ofbeldismál fyrir þá sem starfa innan réttarvörslukerfisins.
Fræðslu um ofbeldismál í víðu samhengi verði ýtt úr vör til þeirra sem starfa innan réttarvörslukerfisins. Lögð verði áhersla á að fræðslan snúist um eðli og afleiðingar ofbeldis, birtingarmyndir þess og þá einkum á sérstöðu tiltekinna viðkvæmra hópa, þ.m.t. innflytjenda, fatlaðs fólks, aldraðra og hinsegin fólks, í því skyni að efla getu starfsmanna til að bregðast við ofbeldismálum. Eftirtöldum aðilum verði falið að annast framkvæmd slíkrar fræðslu: Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar og embætti ríkissaksóknara. Aukin verði þekking þeirra sem starfa innan réttarvörslukerfisins á ofbeldismálum sem skili sér í betri rannsóknum og meðferð ofbeldismála innan réttarvörslukerfisins.
– Markmið: Bætt verklag við rannsókn og málsmeðferð ofbeldismála innan réttarvörslukerfisins.
– Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
– Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar, embætti ríkislögreglustjóra, embætti ríkissaksóknara, neyðarmóttaka og áfallateymi Landspítalans og réttindagæslumenn fatlaðs fólks.
– Mælikvarði: Reglubundin fræðsla verði komin á í árslok 2020.
B.2. Lagaákvæði og reglur um þagnarskyldu hindri ekki framvindu mála.
Dómsmálaráðuneytið kanni hvort ákvæði gildandi laga um þagnarskyldu hindri með einhverju móti eðlilega framvindu ofbeldismála innan kerfisins og geri tillögur að úrbótum verði þess talið þörf. Athugað verði sérstaklega hvort nauðsynlegt sé að rýmka heimildir lögreglu til að miðla nauðsynlegum upplýsingum til viðeigandi stofnana við rannsókn einstakra mála og öfugt. Þá verði þessi vinna unnin samhliða og með hliðsjón af innleiðingu Istanbúl-samningsins ásamt innleiðingu dómsmálaráðuneytisins á tilskipun Evrópusambandsins um vinnslu og miðlun persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.
– Markmið: Þverfaglegt samráð og samstarf sé óhindrað við rannsókn og meðferð ofbeldismála.
– Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
– Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Félagsmálaráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, embætti landlæknis, Barnaverndarstofa, embætti ríkislögreglustjóra, embætti héraðssaksóknara, lögregluembætti, embætti ríkissaksóknara og Persónuvernd.
– Mælikvarði: Niðurstaða liggi fyrir í árslok 2020.
B.3. Heimildir stofnana og félagasamtaka til að afla upplýsinga úr sakaskrá ríkisins.
Dómsmálaráðuneytið skipi starfshóp sem verði falið að greina núverandi heimildir stofnana og félagasamtaka sem starfa með börnum til að afla upplýsinga úr sakaskrá og meta þörfina á mögulegum úrbótum. Lögð verði áhersla á að starfshópurinn hafi hliðsjón af lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, við gerð tillagna til úrbóta.
– Markmið: Stofnanir geti með fullnægjandi hætti tryggt öryggi skjólstæðinga sinna með því að afla nægilegra, viðeigandi og nauðsynlegra upplýsinga úr sakaskrá ríkisins.
– Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
– Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Embætti ríkissaksóknara, Persónuvernd, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Barnaverndarstofa, embætti ríkislögreglustjóra, Samband íslenskra sveitarfélaga, hlutaðeigandi stofnanir og frjáls félagasamtök.
– Mælikvarði: Tillögur liggi fyrir árslok 2020.
B.4. Uppbyggileg réttvísi í sakamálum.
Dómsmálaráðuneytið taki til skoðunar hvaða úrræðum megi beita í ofbeldismálum sem miða að uppbyggilegri réttvísi, svo sem sáttamiðlun, og kanni hvort þörf sé á lagabreytingum, eftir atvikum með setningu sérlaga eða breytingum á lögum um meðferð sakamála. Við þá vinnu verði hliðsjón höfð af skýrslu nefndar um tilraunaverkefni um sáttamiðlun í sakamálum frá árinu 2009 og afrakstur og árangur af verkefninu metinn sérstaklega.
– Markmið: Uppbyggileg réttvísi verði nýtt í auknum mæli.
– Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
– Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Embætti ríkissaksóknara, embætti ríkislögreglustjóra, embætti héraðssaksóknara, lögregluembættin.
– Mælikvarði: Niðurstaða liggi fyrir í árslok 2020.
B.5. Bætt áverkaskráning í Slysaskrá Íslands.
Safnað verði ítarlegri upplýsingum um slys og áverka í Slysaskrá Íslands til að kortleggja betur umfang og áhættuþætti.
– Markmið: Ítarlegri upplýsingar um slys og áverka liggi fyrir og umfang og áhættuþættir verði kortlagðir.
– Kostnaðaráætlun: 10 millj. kr. árið 2021 og 10 millj. kr. árið 2022.
– Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Embætti landlæknis, heilbrigðisstofnanir, embætti ríkislögreglustjóra, Samgöngustofa, Vinnueftirlitið og frjáls félagasamtök.
– Mælikvarði: Allar viðeigandi stofnanir skrái í endurbætta Slysaskrá Íslands í lok árs 2022.
C. Valdefling – samstarf og samhæfing.
C.1. Starfsemi Bjarkarhlíðar – þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis fest í sessi.
Tilraunaverkefnið Bjarkarhlíð er þverfaglegur samstarfsvettvangur opinberra stofnana og frjálsra félagasamtaka og er mikilvægur samstarfsaðili í þessari aðgerðaáætlun. Í Bjarkarhlíð fá fullorðnir þolendur ofbeldis samhæfða þjónustu og ráðgjöf undir sama þaki en þar starfa félagsráðgjafar og rannsóknarlögreglumaður í fullu starfi, auk samstarfsaðila sem eru með reglulega viðveru. Stjórn og framkvæmdastjórn Bjarkarhlíðar vinni að því að renna stoðum undir reksturinn og tryggja starfsemi miðstöðvarinnar til frambúðar. Stjórnvöld leggi Bjarkarhlíð til 20 millj. kr. árlega á tímabilinu 2019–2021 í samræmi við Aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu.
– Markmið: Að þolendur ofbeldis fái viðeigandi þverfaglega aðstoð án tafar sem og úrlausn sinna mála í kjölfar ofbeldis í þeirri umgjörð sem boðið er upp á í Bjarkarhlíð.
– Kostnaðaráætlun: 15 millj. kr. á árinu 2019 og 20 millj. kr. árlega árin 2020–2022.
– Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Dómsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og önnur lögregluembætti, Landspítalinn, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Stígamót, Drekaslóð, Kvennaathvarfið, Kvennaráðgjöfin og fleiri frjáls félagasamtök.
– Mælikvarði: Rekstur Bjarkarhlíðar verði tryggður til frambúðar.
C.2. Upplýsingavefur um ofbeldi.
Opnaður verði upplýsingavefur með margþættu efni um ofbeldismál. Vefurinn innihaldi meðal annars upplýsingar um birtingarmyndir ofbeldis, forvarnir, feril mála innan réttarvörslukerfisins og tiltæk stuðningsúrræði í kjölfar ofbeldis. Á vefnum verði einnig birtar skýrslur og niðurstöður rannsókna á þessu sviði, bæði innlendar og erlendar. Vefurinn verði hýstur í Bjarkarhlíð – þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis.
– Markmið: Að hafa upplýsingar og fræðsluefni um ofbeldi, forvarnir og viðbrögð aðgengilegt á einum stað.
– Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr. stofnkostnaður árið 2020.
– Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Bjarkarhlíð, Jafnréttisstofa, dómsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, lögregluembætti, embætti ríkislögreglustjóra, Menntamálastofnun, Barnaverndarstofa, embætti landlæknis, Vinnueftirlitið, Mannréttindaskrifstofa Íslands, sveitarfélög, Hagstofa Íslands, háskólasamfélagið, frjáls félagasamtök og fleiri.
– Mælikvarði: Vefurinn verði opnaður árið 2020.
C.3. Stuðningur við þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi.
Tryggð verði starfsemi þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi sem staðsett er á Akureyri, þróunarverkefnis til tveggja ára sem er sambærilegt Bjarkarhlíð á höfuðborgarsvæðinu. Þar verði veitt samhæfð þjónusta og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem beittir hafa verið ofbeldi, þ.m.t. kynferðisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum, eða eru brotaþolar í mansalsmálum og/eða vændi. Þar verði einnig veitt fræðsla og fjallað um birtingarmyndir, eðli og afleiðingar ofbeldis. Þjónustumiðstöðin verði starfrækt á ábyrgð stofnaðila á Norðurlandi. Að tveimur árum liðnum verði verkefnið metið af óháðum aðila og tekin ákvörðun um áframhaldandi rekstur.
– Markmið: Að þolendur ofbeldis á Norðurlandi fái á einum stað nauðsynlega þjónustu í kjölfar ofbeldis.
– Kostnaðaráætlun: 6 millj. kr. árlega 2019 og 2020.
– Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, Akureyrarbær, Aflið, Háskólinn á Akureyri, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Kvennaráðgjöfin, Samtök um kvennaathvarf, Mannréttindaskrifstofa Íslands og dómsmálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið.
– Mælikvarði: Mat á þróunarverkefni verði gert í ársbyrjun 2021.
C.4. Viðbragðsteymi um sérhæfða ráðgjöf til þolenda ofbeldis á landsbyggðinni.
Sett verði af stað tilraunaverkefni, í umsjá Bjarkarhlíðar, þar sem myndað verði teymi félagsráðgjafa, geðlækna, sálfræðinga og eftir atvikum annarra sérfræðinga sem veiti þolendum ofbeldis á landsbyggðinni viðeigandi aðstoð í kjölfar ofbeldis. Félagsþjónusta, lögregla, heilbrigðisþjónusta og samtök sem styðja þolendur ofbeldis geti án tafar kallað eftir aðstoð sérfræðings sem kæmi á staðinn og veitti brotaþola sérhæfða ráðgjöf.
– Markmið: Að þolendur ofbeldis um allt land eigi kost á sérhæfðri ráðgjöf í kjölfar ofbeldis svo fljótt sem auðið er.
– Kostnaðaráætlun: 12 millj. kr. árlega 2020–2021.
– Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Bjarkarhlíð, heilbrigðisráðuneytið, þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi, fagfélög sérfræðinga, félagsþjónusta sveitarfélaga, lögregluembætti, neyðarmóttaka og áfallateymi Landspítala og heilsugæsla.
– Mælikvarði: Mat á verkefni fari fram í ársbyrjun 2022.
C.5. Tímabundið leyfi frá störfum í kjölfar ofbeldis.
Starfshópi verði falið að kanna og koma með tillögur um hvernig unnt sé að koma til móts við þolendur ofbeldis, sem eru virkir þátttakendur á vinnumarkaði, þegar þeir eru frá vinnu í kjölfar ofbeldis. Er hér meðal annars átt við þegar þeir þurfa að sækja sér heilbrigðis- og félagsþjónustu eða sinna erindum tengdum málsmeðferð í réttarvörslukerfinu.
– Markmið: Að gefa þolanda svigrúm til þess að vinna úr afleiðingum ofbeldis án þess að það hafi neikvæð áhrif á atvinnuþátttöku viðkomandi.
– Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
– Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Samtök aðila vinnumarkaðarins.
– Mælikvarði: Hópurinn skili tillögum í júní 2020.
C.6. Stuðningur við svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi.
Árlega verði tilteknu fjármagni af safnliðum fjárlaga vegna verkefna á sviði félagsmála varið til styrktar svæðisbundnu samstarfi eða til ákveðinna verkefna sem styðja við aðgerðir gegn ofbeldi. Samstarfsaðilar á hverju svæði geti sótt um styrki til ákveðinna verkefna sem lúta að vitundarvakningu í samfélaginu, styrkingu viðbragðsaðila og valdeflingu þolenda í kjölfar ofbeldis.
– Markmið: Að efla svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.
– Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
– Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Félagasamtök í samstarfi við opinbera aðila á hverju svæði.
– Mælikvarði: Fyrsta úthlutun fari fram vorið 2020 og mat lagt á árangur árið 2022.
C.7. Fjölbreyttari meðferðarúrræði fyrir gerendur í ofbeldismálum.
Komið verði á fjölbreyttari úrræðum fyrir gerendur í ofbeldismálum. Meðal annars verði tekið mið af niðurstöðum starfshóps sem mun kortleggja og skilgreina þjónustuþörf fyrir fullorðna gerendur í hvers kyns ofbeldismálum og þá sem eru líklegir til að fremja ofbeldisbrot.
– Markmið: Að koma í veg fyrir endurtekin ofbeldisbrot.
– Kostnaðaráætlun: 12 millj. kr. árlega frá og með árinu 2021.
– Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Heilbrigðisráðuneytið, sveitarfélög, heilbrigðisyfirvöld, fangelsismálayfirvöld, lögregluembætti, fræðslu- og símenntunarstöðvar, Vinnumálastofnun, VIRK og frjáls félagasamtök.
– Mælikvarði: Ný úrræði bjóðist gerendum eigi síðar en árið 2021.
C.8. Hagsmunagæsla aldraðra þegar grunur er um að þeir séu beittir ofbeldi.
Skipaður verði starfshópur sem kortleggi tiltæk úrræði þar sem grunur leikur á að aldrað fólk hafi verið beitt ofbeldi og komi með tillögur að úrbótum. Úrræðin verði ætluð öldruðum og þeim sem stöðu sinnar vegna, eða vegna tengsla eða starfa, verða varir við ofbeldi gegn öldruðum einstaklingi, svo sem líkamlegt, andlegt, kynferðislegt eða fjárhagslegt ofbeldi.
– Markmið: Að viðbrögð við ofbeldi gegn öldruðum verði skilvirkari.
– Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
– Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Heilbrigðisráðuneytið, Landssamband eldri borgara, lögregluembættin, embætti landlæknis, heilsugæslan, félagsþjónusta sveitarfélaga, Öldrunarfræðafélag Íslands, sérfræðingar í öldrunarþjónustu og háskólasamfélagið.
– Mælikvarði: Starfshópur skili skýrslu með tillögum í júní 2020.
C.9. Mat á þörf fyrir kvennaathvörf á landsbyggðinni.
Myndaður verði starfshópur sem kortleggi og meti þörf fyrir úrræði á borð við kvennaathvarf á landsbyggðinni. Þetta verði gert með áherslu á aðgang óháð búsetu.
– Markmið: Að ganga úr skugga um hvort fýsilegt sé að bjóða upp á kvennaathvörf víðar á landsbyggðinni.
– Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr. árið 2020.
– Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Samtök um kvennaathvarf, Bjarkarhlíð, þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi, frjáls félagasamtök, sveitarfélög og lögregluembætti.
– Mælikvarði: Starfshópur skili skýrslu í júní 2020.
C.10. Samræmd velferðarþjónusta fyrir þolendur mansals fest í sessi.
Framkvæmdateymi um einstök mansalsmál, sem félagsmálaráðuneytið hefur haft umsjón með, fái aðstöðu í Bjarkarhlíð. Velferðarþjónusta við þolendur mansals og meinta þolendur verði formgerð og samræmd í því skyni að tryggja nauðsynlega velferðarþjónustu svo fljótt sem auðið er, þ.m.t. öruggt húsnæði, framfærslu, félagslega ráðgjöf og heilbrigðisþjónustu í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi og bókun við þann samning til að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn, svokallaða Palermó-bókun. Bjarkarhlíð verði falin umsjón með verkefninu og þar verði tekið á móti þolendum sem þess óska og þjónustuaðilum veitt ráðgjöf.
– Markmið: Að tryggja þolendum mansals nauðsynlega velferðarþjónustu.
– Kostnaðaráætlun: 3 millj. kr. árlega.
– Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Heilbrigðisráðuneytið, Bjarkarhlíð, þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi, sveitarfélög, heilbrigðisstofnanir, lögregluembætti, Útlendingastofnun, stéttarfélög, dómsmálaráðuneytið og Samtök um kvennaathvarf.
– Mælikvarði: Bjarkarhlíð taki við verkefninu eigi síðar en árið 2020.
C.11. Leiðbeinandi reglur um velferðarþjónustu fyrir þolendur mansals.
Samdar verði leiðbeinandi reglur um velferðarþjónustu við þolendur mansals fyrir sveitarfélög, heilbrigðisþjónustu, stéttarfélög og eftir atvikum fleiri. Reglurnar fjalli um verklag við velferðarþjónustu við þolendur og meinta þolendur mansals, um samstarf milli hlutaðeigandi stjórnvalda og stuðning og ráðgjöf til þolenda.
– Markmið: Að samþætta og styrkja velferðarþjónustu við þolendur mansals.
– Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
– Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Heilbrigðisráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, heilbrigðisstofnanir, Útlendingastofnun, lögregluembættin, Bjarkarhlíð, sveitarfélög og stéttarfélög.
– Mælikvarði: Leiðbeinandi reglur verði tilbúnar í júní 2020.
C.12. Árlegur landssamráðsfundur um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.
Árlega verði haldinn landssamráðsfundur með fulltrúum opinberra stofnana og frjálsra félagasamtaka og öðrum viðeigandi aðilum. Á landssamráðsfundinum verði meðal annars rætt um stöðu svæðisbundins samstarfs um aðgerðir gegn ofbeldi, mál sem eru efst á baugi hverju sinni eða sérstakt málefni tekið fyrir, eftir því sem við á.
– Markmið: Að viðhalda vitundarvakningu um ofbeldi og stuðla að auknu samstarfi milli stofnana, frjálsra félagasamtaka og annarra sem láta sig ofbeldismál varða, hvort sem er á sviði vakningar, viðbragða eða valdeflingar.
– Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr. árlega.
– Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Dómsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið.
– Mælikvarði: Að fyrsti landssamráðsfundurinn verði haldinn haustið 2019.
C.13. Eftirfylgni með aðgerðaáætlun þessari.
Ráðuneytin sem eiga aðild að þessari aðgerðaáætlun beri ábyrgð á framkvæmd hennar. Ráðinn verði verkefnisstjóri og eftirfylgni tryggð í samstarfi ráðuneytanna. Verkefnisstjóri leiði einnig vinnu miðstöðvar um ofbeldi gegn börnum, sbr. aðgerð A.11, í þeim tilgangi að skapa nauðsynlegan samstarfsvettvang þarna á milli.
– Markmið: Að fylgja eftir aðgerðaáætluninni með tilliti til tímaramma og kostnaðaráætlunar.
– Kostnaðaráætlun: 10 millj. kr. árlega.
– Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Dómsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið.
– Mælikvarði: Að aðgerðaáætlunin verði komin til framkvæmda í árslok 2022.
C.14. Endurskoðun aðgerðaáætlunar þessarar.
Aðgerðaáætlun þessi verði endurskoðuð. Ráðuneytin hafi víðtækt samráð við hagsmunaaðila og sérfræðinga í málaflokknum, þar á meðal á árlegum landssamráðsfundi, sbr. aðgerð C.12. Ný aðgerðaáætlun verði lögð fyrir Alþingi eigi síðar en á haustþingi árið 2022. Ráðuneytin sem eiga aðild að þessari aðgerðaáætlun beri ábyrgð á endurskoðun hennar í samstarfi við opinberar stofnanir, frjáls félagasamtök, fræðasamfélagið og aðra viðeigandi aðila.
– Markmið: Að leggja fram endurskoðaða aðgerðaáætlun fyrir Alþingi eigi síðar en á haustþingi 2022.
– Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
– Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
– Samstarfsaðilar: Dómsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið.
– Mælikvarði: Að endurskoðuð aðgerðaáætlun taki gildi í byrjun árs 2023.
Samþykkt á Alþingi 7. júní 2019.