Ferill 771. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1768  —  771. mál.
Síðari umræða.



Breytingartillaga


við tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2019–2022.

Frá velferðarnefnd.


     1.      1. mgr. orðist svo:
                  Alþingi ályktar að unnið verði samkvæmt eftirfarandi framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar fyrir árin 2019–2022 þar sem lögð verði áhersla á að framkvæmdir í málefnum barna miði að því að börn verði sett í öndvegi í allri nálgun og stuðlað verði að snemmtækri íhlutun og samfellu í þjónustu.
     2.      Í stað orðsins „Stefnt“ í upphafi 1. mgr. A-liðar komi: Unnið.
     3.      Við C-lið.
                  a.      Orðin „sem frá hausti 2018 fer fram á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands og tekur tvö ár með vinnu“ í síðari málslið 2. mgr. liðar C.1 falli brott.
                  b.      3. mgr. liðar C.1 falli brott.
                  c.      2. málsl. 1. mgr. liðar C.2 falli brott.
                  d.      Lokamálsliður 7. mgr. liðar C.2 falli brott.
     4.      Í stað 1. og 2. málsl. 1. mgr. liðar D.1 komi einn nýr málsliður, svohljóðandi: Hafin verði innleiðing á heildstæðum stuðningi við kyn- og fósturforeldra með aðferðinni KEEP/PTC-R.
     5.      1. mgr. liðar E.1 orðist svo:
                  Stefnt verði að því að festa enn frekar í sessi MST-meðferðarúrræði fyrir fjölskyldur barna sem glíma við vaxandi eða alvarlegan hegðunar- og/eða vímuefnavanda. Meðferðarteymum MST verði fjölgað úr tveimur í þrjú á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar, ráðinn verði einn teymisstjóri og MST-meðferðaraðilum fjölgað úr átta í ellefu.
     6.      Við F-lið.
                  a.      1. mgr. liðar F.3 orðist svo:
                     Skapaðar verði forsendur til að auka stuðning og handleiðslu Barnaverndarstofu við starfsmenn barnaverndarnefnda varðandi könnun mála, gerð meðferðaráætlana og mat á meðferðar- og stuðningsþörfum barna (ESTER-matskerfið). Ráðinn verði sérfræðingur til Barnaverndarstofu svo að sinna megi verkefnunum af meiri þunga.
                  b.      1. mgr. liðar F.4 orðist svo:
                     Unnið verði að samræmdum gagnagrunni í barnavernd á landsvísu til að tryggja að upplýsingar og skráningar hjá barnaverndarnefndum landsins séu aðgengilegar og samræmdar um land allt og til að einn gagnagrunnur yfir barnaverndarmál á landsvísu sé til svo að hægt verði að rekja heildarsögu barna og fjölskyldna þeirra á einum stað óháð búsetu.
     7.      Við G-lið.
                  a.      Fyrirsögn liðar G.2 orðist svo: Mat á árangri og könnun á afdrifum barna sem notið hafa úrræða á vegum barnaverndarstofu.
                  b.      Í stað orðanna „í fóstri“ í b-lið 4. mgr. liðar G.3 komi: í fóstur.
     8.      Í stað dagsetningarinnar „1. júní 2019“ í lok H-liðar komi: 1. október 2019.