Ferill 55. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1883  —  55. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um skilgreiningu auðlinda.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið sendar umsagnir frá Landgræðslu ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Samtökum náttúrustofa og Veðurstofu Íslands.
    Samkvæmt tillögunni felur Alþingi umhverfis- og auðlindaráðherra að leggja fram lagafrumvarp á næsta löggjafarþingi þar sem skilgreint verði hvað flokkist til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru. Sérfræðingar á sviði auðlindaréttar, umhverfisfræða og umhverfisréttar vinni drög að frumvarpinu.
    Sambærilegar þingsályktunartillögur hafa áður verið lagðar fyrir Alþingi, sbr. m.a. 184. mál á 144. löggjafarþingi, og tekur orðalag tillögunnar nú mið af þeim ábendingum sem komu fram í umsögnum þá. Í þeim erindum sem nefndinni hafa borist um málið sem hér er til umfjöllunar er breytingum frá fyrri framlagningu fagnað og stuðningi lýst við framgang málsins. Í umsögnum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Samtaka náttúrustofa er sérstaklega varað við því að auðlindir verði skilgreindar á tæmandi hátt og tekur nefndin undir ábendingar í þá veru.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt.
    Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 19. júní 2019.

Jón Gunnarsson, form. Bergþór Ólason, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Hanna Katrín Friðriksson. Helga Vala Helgadóttir. Karl Gauti Hjaltason.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Vilhjálmur Árnason.