Ferill 957. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Nr. 40/149.

Þingskjal 1924  —  957. mál.


Þingsályktun

um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hrinda í framkvæmd eftirfarandi aðgerðaáætlun sem miði að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu:
     1.      Innleiddar verði viðbótartryggingar gagnvart innfluttu kalkúnakjöti, kjúklingakjöti og eggjum.
     2.      Óskað verði eftir viðbótartryggingum vegna innflutts svínakjöts og nautakjöts.
     3.      Bönnuð verði dreifing alifuglakjöts nema sýnt sé fram á að ekki hafi greinst kampýlóbakter í því.
     4.      Sett verði á fót áhættumatsnefnd.
     5.      Átak verði gert til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi.
     6.      Tryggð verði skjótari innleiðing reglugerða Evrópusambandsins þegar stöðva þarf innflutning á tilteknum vörum með skömmum fyrirvara.
     7.      Innleidd verði reglugerð (EB) nr. 206/2009 um innflutning dýraafurða til einkaneyslu.
     8.      Opinberum eftirlitsaðilum verði tryggð heimild til að leggja stjórnvaldssektir á matvælafyrirtæki sem brjóta gegn banni við dreifingu alifuglakjöts án sönnunar fyrir því að ekki hafi greinst í því kampýlóbakter.
     9.      Tryggð verði aukin fræðsla til ferðamanna um innflutning afurða úr dýraríkinu.
     10.      Settur verði á fót sjóður með áherslu á eflingu nýsköpunar í innlendri matvælaframleiðslu.
     11.      Innleidd verði stefna opinberra aðila um innkaup á matvælum.
     12.      Mótuð verði matvælastefna fyrir Ísland.
     13.      Ráðist verði í átak um betri merkingar matvæla.
     14.      Könnuð verði þróun tollverndar og greind staða íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi.
     15.      Tekið verði til skoðunar að setja á fót sérstakan tryggingarsjóð vegna tjóns sem framleiðendur geta orðið fyrir vegna búfjársjúkdóma.
     16.      Tollskrá fyrir landbúnaðarvörur verði endurskoðuð.
     17.      Ráðist verði í átak um aukið eftirlit í kjölfar afnáms leyfisveitingakerfisins.
    Ráðherra flytji Alþingi skýrslu um framgang áætlunarinnar fyrir 1. nóvember 2019 og kynni hana atvinnuveganefnd.

Samþykkt á Alþingi 19. júní 2019.