Ferill 53. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Nr. 41/149.

Þingskjal 1925  —  53. mál.


Þingsályktun

um endurskoðun lögræðislaga.


    Alþingi ályktar að heildarendurskoðun lögræðislaga, nr. 71/1997, skuli fara fram með það að markmiði að gera tillögur um nauðsynlegar breytingar á lögunum sem og á öðrum lögum, þar á meðal lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, barnaverndarlögum, 80/2002, lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, og almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Alþingi samþykkir að kjósa til þess sérnefnd þingmanna skv. 32. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Í nefndina kjósi Alþingi þingmenn úr öllum þingflokkum sem sæti eiga á Alþingi og skuli nefndin hafa víðtækt samráð við hlutaðeigandi stofnanir og hagsmunaaðila við vinnu að endurskoðuninni, þar á meðal við samtök fatlaðs fólks. Nefndin hafi jafnframt samráð við dómsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið og skuli ráðuneytin vera nefndinni til ráðgjafar við mat á nauðsynlegum lagabreytingum. Auk almennrar heildarendurskoðunar verði sérstaklega litið til ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um:
     a.      afnám allrar mismununar gagnvart fólki með fötlun,
     b.      rétt fatlaðra einstaklinga til þess að njóta lögformlegs hæfis til jafns við aðra,
     c.      stuðning við ákvarðanatöku í stað staðgengilsákvarðanatöku,
     d.      rétt fatlaðra einstaklinga til frelsis til jafns við aðra,
     e.      afnám þvingandi meðferðar og lyfjameðferðar á grundvelli fötlunar og
     f.      rétt fatlaðs fólks til viðeigandi aðlögunar.
    Nefndin leggi fram frumvarp á grundvelli endurskoðunarinnar ásamt kostnaðargreiningu eigi síðar en við lok árs 2020. Nefndin leggi áherslu á að flýta eins og kostur er breytingum sem ætlað er að afnema ólögmæta mismunun gegn fötluðum og þeim sem sæta ýmiss konar þvingaðri meðferð, frelsissviptingu eða frelsisskerðingu og leggi fram frumvarp þar að lútandi svo fljótt sem auðið er. Forseti Alþingis tryggi nefndinni nauðsynlega aðstöðu og sérfræðiaðstoð til að sinna endurskoðuninni.

Samþykkt á Alþingi 19. júní 2019.