Ferill 750. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1931  —  750. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Nú leggja ríkisstjórnarflokkarnir fram sína aðra fjármálaáætlun en þar sem hún er til fimm ára eru allar tölur í henni ansi bólgnar. Samanlagt er um að ræða ríkisútgjöld upp á tæpa 5.000 milljarða kr. Þrátt fyrir það skulu öryrkjar, aldraðir, ungt fólk, námsmenn og millitekjuhópar enn sitja eftir og eru látin taka á sig höggið af yfirstandandi samdrætti.
    Það er ljóst að íslenskt hagkerfi er á miklum óvissutímum og er fjármálaáætlunin því talsverð vonbrigði þegar kemur að því að bregðast við breyttum aðstæðum og nauðsynlegri innviðauppbyggingu.
    Tekjustofnar ríkisins eru ekki treystir með sanngjörnum hætti og skulu opinberir starfsmenn og opinber þjónusta taka á sig fyrirhugaða kólnun hagkerfisins. Verðbólga og atvinnuleysi er á uppleið og talsverð óvissa er í hagkerfinu, m.a. vegna kjarasamninga á opinberum vinnumarkaði, loðnubrests og umróts í ferðaþjónustunni.
    Þessi fjármálaáætlun er sögð vera byggð á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar en sú stefna fékk því miður afar slæmar umsagnir frá flestum hagsmunaaðilum. Fjármálastefnan var m.a. sögð vera „ógn við stöðugleikann, ábyrgðarlaus, ósjálfbær, varasöm og ótrúverðug“. Þessi stefna var það slæm og óraunhæf að hún dugði einungis í rúmlega eitt ár í stað fimm ára eins og til stóð samkvæmt lögum um opinber fjármál. Áfram byggist fjármálastefnan á of mikilli bjartsýni og óskhyggju.
    Samfylkingin vekur athygli á að framlögð fjármálastefna frá því í mars sl. var slæm en hún versnar til muna með breytingartillögum meiri hlutans.

Helstu gagnrýnisatriði Samfylkingarinnar á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar:
     1.      Húsnæðisstuðningur lækkar um 13% næstu fimm árin þrátt fyrir mikinn vanda á húsnæðismarkaði.
     2.      Nýsköpun og rannsóknir fá í breytingartillögum meiri hlutans um 3,2 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu fimm árin frá því sem eldri tillaga að fjármálaáætlun hafði gert ráð fyrir.
     3.      Umhverfismálin lækka um 1,4 milljarða kr. samanlagt næstu fimm árin í breytingartillögunum við fjármálaáætlun frá því sem hafði verið kynnt í henni. Kemur þetta verulega á óvart í ljósi mikilvægi málaflokksins og orða ráðamanna um þessi mál að undanförnu.
     4.      Framhaldsskólar fá ekki aukna fjármuni næstu fimm árin þrátt fyrir að margoft hefur verið boðuð menntasókn og loforð um að styttingarpeningar svokölluðu ættu að haldast. Í breytingartillögum meiri hlutans fá framhaldsskólar 1,2 milljarða kr. lægri upphæð samanlagt næstu fimm árin miðað við framlagða fjármálaáætlun frá því í mars sl.
     5.      Háskólastigið án framlaga LÍN mun fá svipaða upphæð 2024 og það fær 2019, þrátt fyrir háfleyg loforð um að ná meðaltali Norðurlanda og OECD-ríkja.
     6.      Menning, listir og æskulýðsmál lækka á áætlunartímanum um 7,6% þrátt fyrir augljóst gildi þessa málaflokks.
     7.      Löggæslan og réttaröryggi lækkar um 7,7% þrátt fyrir aukinn fjölda ferðamanna og flóknari verkefnum löggæslunnar.
     8.      Sjúkrahúsþjónusta hækkar um svipaða hlutfall og verður á hækkun heildarútgjalda ríkisins næstu fimm árin. Þetta gerist þrátt fyrir aukna öldrun þjóðarinnar og mikinn vilja þjóðarinnar í að setja stóraukna fjármuni í sjúkrahúsþjónustu. Við síðustu fjármálaáætlun sem er lík þessari taldi Landspítalinn sig þurfa um 87 milljarða kr. til viðbótar samanlagt til ársins 2023. Hins vegar fær Sjúkrahúsþjónusta um 2 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu fimm árin í breytingartillögunum frá því sem hafði verið lagt fram í áætluninni. Heilsugæsla og sérfræðiþjónustan fær um 1,5 milljarða kr. lækkun næstu fimm árin frá eldri tillögu fjármálaáætlunar í meðförum meiri hlutans.
     9.      Fjárframlög til öryrkja næstu fimm árin eru lækkuð samanlagt um 4,5 milljarða kr. frá því sem hafði þegar verið kynnt þegar fjármálaáætlunin var fyrst lögð fram fyrir rúmum tveimur mánuðum. Þetta hljóta að teljast vera stórpólitísk tíðindi.
                  Formaður Öryrkjabandalagsins skrifar um breytingartillögur ríkisstjórnarflokkanna eftirfarandi: „Hvernig getið þið gert þetta? Hér er jaðarsettasti og fátækasti samfélagshópurinn látinn taka á sig enn meiri skerðingar. Það er óásættanlegt að öryrkjar og fatlað fólk eigi enn eina ferðina að taka á sig þyngsta höggið. Enn og aftur er jaðarsettasti hópur samfélagsins settur í þá stöðu að vera fórnað fyrir aðra hagsmuni.“ Síðan spyr formaður ÖBÍ: „Verða þetta málalokin, verða þessar vanefndir minnisvarði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur?“
                  Í fjármálaáætluninni eru heldur ekki enn nægir fjármunir til að afnema krónu á móti krónu skerðinguna fyrir utan allar aðrar kjarabætur sem þessi hópur upp á 20 þúsund manns hefur lengi beðið eftir.
                  Öryrkjabandalag Ísland segir að þessi fjármálaáætlun ríkisstjórnarflokkanna sé „algjörlega óásættanleg og mun engu breyta um kjör fólks sem búið hefur við verulegan skort árum saman“. Þá segir ÖBÍ að öryrkjar séu einnig skildir eftir í svokölluðum lífskjarasamningum.
     10.      Aldraðir fá fyrst og fremst aukningu næstu fimm árin vegna fjölgunar í þeim hópi. Til viðbótar er niðurskurður upp á 600 millj. kr milli umræðna.
     11.      Hjúkrunarþjónusta, svo sem hjúkrunarheimili, lækka næstu fimm árin um 3,3% þrátt fyrir mikla fjölgun á eldri borgurum. Þá er rekstur 550 nýrra hjúkrunarrýma ekki fjármagnaður frá og með 2023 og þýðir það því að öllu óbreyttu lokun þessara rýma.
     12.      Skerðingar á barnabótum hjá millitekjuhópum hafa verið auknar og enn þá lendir þorri barnafólks í miklum skerðingum barnabóta.
     13.      Engin sérstök innspýting er í vaxtabæturnar. Gildandi fjárlög gera ráð fyrir minni fjármunum í vaxtabætur heldur en áætlað var á síðasta ári.
     14.      Fyrirhugað var að skera niður til sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga en þeirra verkefni snúa m.a. að fötluðum sem þurfa að líða fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar. Þegar breytingartillögur ríkisstjórnarflokkanna voru ræddar fullyrtu fulltrúar fjármálaráðuneytis að fallið hefði verið frá slíku þótt sveitarfélögin teldu í umsögn sinni að niðurskurðurinn væri 3,3 milljarðar kr. á tveimur árum en breytingartillögurnar gerðu ráð fyrir 2,2 milljörðum kr. til baka. Ekki hefur fjárlaganefndin fengið það staðfest af hálfu sveitarfélaga hvort það dugi til.
     15.      Samgöngumál lækka um 17% næstu fimm árin þrátt fyrir mikla þörf um allt land. Það vekur athygli að í breytingartillögunum fá samgöngumál 3 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu fimm árin frá því sem áætlunin gerði fyrst ráð fyrir.
     16.      Þróunarsamvinna lækkar í meðförum fjárlaganefndar frá því sem tilkynnt hafði verið fyrir rúmum tveimur mánuðum og nemur lækkunin um 1,8 milljörðum kr. samanlagt næstu fimm árin.
     17.      Skattastefna hinna ríku og fáu er staðfest í fjármálaáætluninni. Enn stendur til að lækka bankaskattinn um 7,7 milljarða kr. á ári þegar lækkunin er komin að fullu til framkvæmda þótt lagt sé til að fresta lækkuninni um einungis eitt ár. Tekjutap ríkissjóðs á fjórum árum verður yfir 18 milljarðar kr. vegna þessarar forgangsröðunar ríkisstjórnarinnar. Þá stendur enn til að vernda ríkustu einstaklinga landsins fyrir verðbólgu með breyttu fyrirkomulagi á fjármagnstekjuskatti og auðlegðarskattur er bannorð hjá þessari ríkisstjórn. Persónuafsláttur verður enn lægri en tilefni er til og veiðileyfagjaldið nálgast tóbaksgjaldið í upphæðum og fjármagnstekjuskattur er lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndunum.
     18.      Forsendur fjármálaáætlunarinnar eru afskaplega óraunhæfar. Til dæmis er gert ráð fyrir óbreyttu gengi krónunnar næstu fimm árin sem aldrei verður. Þá er byggt á forsendum um að hagkerfið taki strax við sér á næsta ári sem er bjartsýn spá. Einnig er gert ráð fyrir lítilli hækkun launa opinberra starfsmanna og að atvinnuleysi og verðbólga verði frekar lág og breytist ekki mjög mikið.
     19.      Samneysla ríkisins mun lækka sem hlutfall af landsframleiðslu næstu fimm árin samkvæmt fimm ára áætlun ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir yfirlýsingar um aukna samneyslu vegna opinberra innviða og öldrunar þjóðarinnar.
     20.      Sé litið til þróunar ríkisútgjalda næstu fimm ár kemur fram að þau munu aukast um 42 milljarða kr. en sé aukning til almenns varasjóðs tekin frá er aukningin einungis um 3 milljarðar kr. sem er um 0,8% hækkun ríkisútgjalda á tímum mikilla yfirlýsinga um innviðauppbyggingu, sveiflujafnandi hlutverk ríkisfjármála og stórsókna hingað og þangað.

Spennitreyja, spennitreyja, spennitreyja, spennitreyja, spennitreyja, spennitreyja, spennitreyja, spennitreyja, spennitreyja og spennitreyja.
    Svona oft, eða 10 sinnum, er að finna orðið „spennitreyju“ í umsögn fjármálaráðs um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þetta segir sína sögu þegar kemur að gagnrýni þessa sjálfstæða ráðs sem fjármála- og efnahagsráðherra sjálfur skipar á skorti á svigrúmi og sveigjanleika þegar kemur að breyttum aðstæðum í hagkerfinu. Fjármálaráð varar sérstaklega við þessari spennitreyju sem ríkisvaldið hefur sett sjálft sig í og hefur nú raungerst að þeirra mati. Þá er bent á að varfærni sé ekki hugtak sem virðist vera ofarlega hjá ráðherranum.
    Fjármálaráðið hefur áður vakið sérstaklega athygli á að tekjustofnar ríkisins séu veiktir og dregið sé úr aðhaldi. Þá hefur fjármálaráð sagt að sé fjárfesting í innviðum „látin sitja á hakanum er hætt við að það komi á endanum niður á framleiðni og þar með lífskjörunum auk sjálfbærni innviða“ og tekur 1. minni hluti undir þau orð.
    Í afar stuttri frávikssviðsmynd fjármálaáætlunar kemur fram að afkoma hins opinbera getur versnað um 60 milljarða kr. í lok tímabils áætlunarinnar. Ekki er ljóst hvernig ríkisstjórnin mun bregðast við slíkum samdrætti en áætlunin nefnir þó að „umtalsverðar mótvægisaðgerðir“ verði óhjákvæmilegar.
    Fyrsti minni hluti gagnrýnir að ríkisstjórnin láti ekki fylgja með nákvæmari og fjölbreyttari fráviksspár og sviðsmyndagreiningar. Sé þess einhvers staðar þörf þá er það í íslensku hagkerfi þar sem óstöðugleiki er aðalsmerkið.
    Samtök iðnaðarins benda einmitt á í umsögn sinni að íslenskt hagkerfi hefur verið sveipað óstöðugleika um langa tíð m.a. vegna einhæfni atvinnuvega og skorts á aga í hagstjórn.
    Alþýðusamband Íslands segir eftirfarandi í sinni umsögn: „Í fyrirliggjandi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára raungerist að mati ASÍ vandi þeirrar fjármálastefnu sem stjórnvöld hafa mótað á undanförnum árum. Stefna stjórnvalda í ríkisfjármálum hefur byggt á því að afgangur af ríkisrekstrinum grundvallast fyrst og fremst á tímabundinni aukningu tekna vegna mikilla umsvifa á uppgangstímum sem eiga sér fá fordæmi. Þegar tekið hefur verið tillit til hagsveiflunnar hefur rekstur ríkisins í reynd verið í járnum undanfarin ár.
    Samhliða þessu hafa tekjustofnar markvisst verið veiktir, svo sem með afnámi auðlegðarskatts, lækkun veiðigjalda og lækkun á neyslusköttum og tollum auk þess sem stjórnvöld hafa látið hjá líða að sækja auknar tekjur t.d. til ferðþjónustunnar. Sá vandi sem nú blasir við er ekki ófyrirséður og hefur ASÍ ítrekað haft uppi varnaðarorð um að afleiðingar þessa muni verða þær að þegar hægir á í efnahagslífinu muni tekjur ríkissjóðs ekki duga til að fjármagna nauðsynleg útgjöld. Til að halda afkomu ríkissjóðs innan fjármálastefnunnar muni blasi við aðhald og niðurskurður í ríkisrekstrinum.“

Fullkomlega óraunsæjar forsendur.
    Að mati 1. minni hluta er fjármálaáætlunin pólitísk tálsýn og draumsýn ríkisstjórnarinnar. Fjölmargir hagsmunaaðilar hafa gagnrýnt forsendur fjármálaáætlunarinnar og að markmiði áætlunarinnar um stöðugleika sé ekki fullnægt. Þessar forsendur byggist á að hér verði við lýði 14 ára samfleytt hagvaxtarskeið sem aldrei í sögu Íslandsbyggðar hefur náðst. Venjulega hafa hagvaxtarskeið á Íslandi enst í 3–5 ár. Nú þegar hefur forsenda um hagvöxt fyrir núgildandi ár verið breytt í samdrátt og hefur það ekki gerst síðan 2010.
    Í fjármálaáætluninni er sömuleiðis gert ráð fyrir að gengi krónunnar haldist óbreytt út spátímann sem er með ólíkindum í ljósi sögunnar. Ekkert OECD-ríki hefur upplifað eins miklar sveiflur í raungengi gjaldmiðilsins síns eins og Ísland hefur gert undanfarin 15 ár.
    Undanfarna 12 mánuði hefur gengi krónunnar veikst um 13% (raungengið lækkað um 11%) en gengislækkun krónunnar mun hækka verð á innfluttum vörum sem Ísland reiðir sig mikið á. Áhrif gengis á verðbólgu hafa stundum verið metin að þriðjungi þannig að ef gengi krónunnar lækkar um 12 próstentustig þá hækkar verðbólga um 4 prósentustig.
    Við núverandi aðstæður hefur gengi krónunnar ávallt gefið eftir en gerist það þá munu nánast allar forsendur áætlunarinnar bresta. Gengi krónunnar hefur bein áhrif á utanríkisviðskipti, verðbólgu, vexti, einkaneyslu, hagvöxt, kaupmátt, skatttekjur o.s.frv. Um 10% af heildarútflutningi Íslands fara til Bretlands og tæplega 45% til evrusvæðisins.
    Þótt erfitt sé að spá fyrir um gengi gjaldmiðla þá er ljóst að mati 1. minni hluta að eina spáin sem rætist er sú að spáin á bak við fjármálaáætlun mun ekki rætast.
    1. minni hluti minnir á hið augljósa að íslenska krónan er stærsti orsakavaldur óstöðugleika í hagkerfinu sem kostar íslensk heimili og fyrirtæki hundruð milljarða kr. á hverju ári. Fórnarkostnaður við að halda úti sjálfstæðri mynt er gríðarlegur og verður sú tilraun sem felst í að hafa íslenska krónu að teljast fullreynd. Gengisfellingar sem sumir telja til hagstjórnartækja gerast alltaf á kostnað almennings enda er þá verið að flytja fjármuni frá almenningi til útflutningsgreina, svo sem sjávarútvegsfyrirtækja og ferðaþjónustunnar.
    Eins og áður hefur verið sagt er nú spáð fyrsta samdrætti landsframleiðslu síðan 2010 í hagkerfinu. Samdráttur á að vera 0,2% á árinu 2019 samkvæmt Hagstofu Íslands en þegar síðasta fjármálaáætlun var rædd var gert ráð fyrir 2,8% hagvexti fyrir 2019 í febrúarspá 2018. Í fyrri þjóðhagsspá Hagstofunnar, sem forsendur fjármálaáætlunar byggjast á, var gert ráð fyrir 1,7% hagvexti. Fyrir hvert prósentustig minni hagvaxtar verður opinber afkoma um 15–20 milljörðum kr. lakari, svo dæmi sé tekið. Seðlabankinn gerir ráð fyrir enn meiri samdrætti fyrir árið 2019 eða um 0,4%. Viðsnúningurinn er því alger.
    Nú hefur það ræst sem Samfylkingin benti á í fyrra þegar ríkisstjórnin var gagnrýnd fyrir að gera ráð fyrir 14 ára samfleyttum hagvexti.
    Strax á næsta ári er spáð svipuðum hagvexti og var áður gert ráð fyrir eða 2,6% í stað 2,8%. Í raun er gert ráð fyrir svipuðum hagvexti næstu fimm árin og hafði verið spáð. Að mati 1. minni hluta eru mjög litlar líkur að það gerist enda eru miklar blikur á lofti. Nægir þar að nefna frekari áhrif gjaldþrots WOW, loðnubrest, kjarasamninga, óvisst olíuverð, hærri flugfargjöld o.s.frv. Í svona árferði má ætla að fólk og fyrirtæki haldi að sér höndum í neyslu, ráðningum og fjárfestingum.
    Gert er ráð fyrir nánast engum breytingum á verðbólgu frá fyrri spá. Á næsta ári er spáð að verðbólgan verði 3,2% í stað 3,3% í fyrri spá. 1. minni hluti telur ekki miklar líkur á að sú spá rætist.
    Það dregur úr hagvexti í helstu viðskiptalöndum en samkvæmt nýrri hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa efnahagshorfur versnað í flestum viðskiptalöndum Íslands.
    Óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum hefur aukist undanfarið en hana má ekki síst rekja til viðskiptadeilna Bandaríkjanna við ýmis ríki og þá sérstaklega Kína. Gagnkvæmar tollahækkanir hafa grafið undan alþjóðaviðskiptum, haft neikvæð áhrif á fjárfestingaráform fyrirtækja og hægt á framleiðnivexti eins og Seðlabankinn bendir á.
    Talsverð óvissa er um þróun olíuverðs en það hefur víðtæk áhrif á allt verðlag í heiminum og viðskiptakjör. Þrátt fyrir það er gert ráð fyrir nánast engum breytingum á olíuverði næstu árin þrátt fyrir vaxandi spennu vegna Íran og Venesúela, viðskiptastríðs milli Bandaríkjanna og Kína, breyttar neytendahegðunar o.s.frv. Verðið er nú ríflega 72 bandaríkjadalir á olíutunnu en var um 52 bandaríkjadalir undir lok síðasta árs.
    Þá er í nýlegri bráðabirgðaniðurstöðu Hagstofunnar um afkomu sveitarfélaga fyrir árið 2018 brugðið upp töluvert dekkri mynd en fyrirliggjandi fjármálaáætlun leggur upp með. Raunar er heildartap sveitarfélaganna rúmlega tvöfalt meira en gengið var út frá. Í umsögn fjármálaráðs segir m.a. að það „virðist nokkuð bratt að gera ráð fyrir jákvæðum afgangi upp á 0,2% út áætlunartímabilið“.
    Því telur 1. minni hluti það mjög gagnrýnisvert að byggja fimm ára fjármálaáætlun á svo veikum grunni og í raun á hæpnum forsendum. Í ljósi þess hversu grunnur fjármálaáætlunarinnar er veikur eru grunngildi laganna um varfærni, stöðugleika og sjálfbærni ekki uppfyllt að mati 1. minni hluta.
    Í ljósi þess að aðilar sem standa að hagspám virðast iðulega gera ráð fyrir „mjúkum lendingum“ veltir 1. minni hluti hvort þessir sömu aðilar séu e.t.v. að rugla saman „áætlun“ og „spá“. Þá er það gagnrýnisvert að fjármálaáætlun og fjármálastefna skuli byggjast á bjartsýnustu hagspá sem er þjóðhagsspá Hagstofunnar en 8. gr. laga um opinber fjármál gerir ráð fyrir að hægt sé að líta til fleiri hagspáa en það.
    Þá getur verið erfitt að sjá hvernig ríkisstjórnin ætlar sér að forgangsraða fjármunum í ákveðin verkefni og jafnframt afar flókið fyrir þá aðila sem eiga að miða sína fjárhagsáætlun við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að finna út hvað sé í vændum. Lög um opinber fjármál voru einmitt sett til að auka festu í stjórn opinberra fjármála, stuðla að góðri hagstjórn og auka gagnsæi en fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024 vinnur að þessu leyti á móti því markmiði laganna.

Kjaramál og aukið atvinnuleysi.
    Almennt séð hafa launahækkanir „lífskjarasamninganna“ nánast engin áhrif á nýja þjóðhagsspá og framlagða fjármálaætlun frá því í mars og segir það einnig sína sögu um innihald þessara samninga sem eru frá því í apríl. Áhrif „lífskjarasamninga“ eru einnig nánast engin á verðlag að mati Hagstofunnar og segir það sína sögu um þá. Seðlabanki Íslands telur viðbót vegna skattabreytinga og barnabóta vegna lífskjarasamninganna vera einungis um 3 milljarða kr. frá því sem hafði verið gert ráð fyrir í fjármálaáætlun sem kynnt var á undan lífskjarasamningnum.
    Í nýrri þjóðhagsspá Hagstofunnar segir: „Í þjóðhagsspánni er gert ráð fyrir að launahækkanir muni verða í takt við þær línur sem lagðar eru í fjármálaáætlun hins opinbera sem lögð var fyrir Alþingi í mars síðastliðnum.“ Þá segir: „Óvissa um launaþróun hefur minnkað eftir samþykkt kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og ekki gert ráð fyrir að niðurstaða þeirra hafi teljandi áhrif á verðlag umfram það sem áður var reiknað með.“ Og áfram segir í þjóðhagsspánni: „Ekki er gert ráð fyrir að nýundirritaðir kjarasamningar hafi mikil áhrif á verðlag umfram það sem gert var ráð fyrir í febrúarútgáfu þjóðhagsspár.“ Og loks segir: „Búist er við því að kaupmáttur launa hækki um 2,1% á þessu ári, 2,2% árið 2020 og 3,2% árið 2021.“
    Í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir 6,4% vexti á launavísitölu 2019 en 4,3% á árunum 2020–2024.
    Þegar kemur að launum opinberum starfsmönnum er gert ráð fyrir að þeirra laun hækki einungis um 0,5% umfram verðlag 2020–2022 og verður fróðlegt að sjá hvort samningar á hinum opinbera markaði verði með þeim hætti.
    Einnig þarf sérstaklega að huga að samkomulagi um jöfnun lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins og hvernig það kallast á við þróun á launamarkaði.
    Af þessu leiðir að verði árleg kaupmáttarþróun ríkisstarfsmanna umfram 0,5% á tímabilinu, sem er langt undir sögulegu meðaltali, er ráðuneytum gert að mæta því með aðhaldi.
    Í umsögn BSRB segir: „Forsendur fjármálaáætlunarinnar gera því ráð fyrir umtalsvert meiri launahækkunum á almennum vinnumarkaði en á hinum opinbera vegna þeirrar aðhaldskröfu sem sett verður á stofnanir ríkisins. Þessu telur BSRB að þurfi að breyta enda er enga umfjöllun að finna um það hvernig þessi tölulega forsenda hafi komið til eða hvernig hún verði útfærð.
    Fyrsti minni hluti vekur athygli á að í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um aðgerðir ríkisins í tengslum við gerð lífskjarasamninganna er sagt að þeir muni kosta sveitarfélögin miklar fjárhæðir. Samkvæmt mati Sambands íslenskra sveitarfélaga nemur útgjaldaauki sveitarfélaganna sem leiða má af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninganna um 12 milljörðum kr. á samningstímanum. Til viðbótar koma síðan að mati Sambandsins áhrif á launakostnað sem verða meiri hjá sveitarfélögum en hjá ríkinu eða sem nemur um 4 milljörðum kr.
    Í nýrri þjóðhagsspá er spáð nánast sama atvinnuleysi og áður var gert ráð fyrir og verður það að teljast vera talsverð óskhyggja. Einungis í mars urðu 1.600 manns atvinnulaus til viðbótar við 6.900 manns sem voru atvinnulausir fyrir í landinu. Það er líkt og allir á vinnumarkaði á Ísafirði hefðu orðið atvinnulausir á einu bretti. Mikil óvissa er í ferðaþjónustu og víðar en t.d. eru enn tæplega 3.000 manns sem vinna í bönkum á Íslandi sem er ekki líklegt að haldist til lengri tíma m.a. vegna breytinga í fjármálaþjónustu.
    Gæta þarf því sérstaklega að hugsanlegu auknu atvinnuleysi vegna kólnunar í hagkerfinu. 1. minni hluti minnir á ýmsar aðgerðir sem stjórnvöld réðust í eftir bankahrunið.

Vond hagstjórn.
    Fjármálaráð hefur áður gagnrýnt útgjaldavöxt í framhaldi af verulegri útgjaldaaukningu á undanförnum árum því á sama tíma er verið að veikja tekjuhliðina og þar af leiðandi minnka aðhald opinberra fjármála.
    Hagstjórnin sem birtist í fjármálaáætluninni er því að mati 1. minni hluta mikið áhyggjuefni. Í áætluninni er boðuð lækkun sumra skatta, sérstaklega á hina efnameiri og banka, á sama tíma og útgjöld ríkisins eru aukin á sumum sviðum þótt loforð um innviðafjárfestingu sé víða svikið. Þetta þrennt fer mjög illa saman að mati 1. minni hluta. Að tryggja aðhald getur ekki einungis þýtt lækkun ríkisútgjalda heldur getur aukið aðhald einnig aukið tekjur ríkisins.
    Á það er víða bent að þessi slæma hagstjórn ríkisstjórnarflokkanna getur bæði aukið ójöfnuð en einnig valdið því að Seðlabankinn neyðist til að hækka vexti. Því mun íslenskur almenningur súpa seyðið af þessari gjaldþrotastefnu ríkisstjórnarinnar sem byggist á brauðmolakenningu og skammsýni.
    Því kallar 1. minni hluti eftir skynsamlegri hagstjórn þar sem tekjugrunnar ríkisins eru tryggðir á sama tíma og nauðsynlegri innviðafjárfestingu er sinnt. Þetta er sérstaklega mikilvægt í núverandi niðursveiflu í hagkerfinu en 1. minni hluti aðhyllist kenningar Keynes um hlutverk hins opinbera í sveiflujöfnun í hagkerfinu. Ein leið sem m.a. Samtök atvinnulífisins benda á er að hægt væri að hægja á niðurgreiðslu skulda í samræmi við fjármálastefnuna.
    Frestun framkvæmda er annað form af skuldasöfnun og getur kostnaðurinn af ónægri innviðafjárfestingu því verið umtalsverður. Unnt væri að hægja á frekari niðurgreiðslu skulda og nýta fjármunina til að vinna upp fjárfestingarþörfina.
    Þá er áhugavert það sem Viðskiptaráð segir í umsögn sinni um fjármálaáætlunina: „Þannig væri óheppilegt og myndi dýpka niðursveifluna að ráðast í verulegar aðhaldsaðgerðir nú til að ná fram afgangi í ár og jafnvel næsta ári í samræmi við fjármálastefnu.“

Minni samneysla og áframhaldandi aðhaldskrafa.
    Mjög áhugavert er að skoða þróun samneyslunnar í þessari áætlun en samneysla er neysla hins opinbera og er hluti af landsframleiðslunni. Á næstu fimm árum er gert ráð fyrir að samneyslan minnki lítillega sem hlutfall af landsframleiðslu. Slíkt kemur mjög á óvart sérstaklega í ljósi orða Vinstri grænna undanfarin misseri um að hér bæri að auka samneysluna þar sem þörf væri á mikilli opinberri innviðauppbyggingu m.a. í opinberri neyslu. Forsætisráðherra hefur einnig bent á að aukin samneysla sé einnig rökrétt í ljósi breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar og gagnrýndi hún sérstaklega síðustu fjármálaáætlun fyrir minni samneyslu. Fjármálaáætlun þessa sama forsætisráðherra gerir hins vegar ráð fyrir minni samneyslu næstu árin og er það í samræmi við svik stjórnarflokkanna um mikla innviðauppbyggingu hins opinbera. Í raun verður samneyslan næstu fimm árin nálægt meðaltali síðustu 20 ára, ekkert meiri en það.
    Þá vekur það athygli að í þessari fjármálaáætlun er gert ráð fyrir áframhaldandi aðhaldskröfu á ríkisstofnanir. Í heildina nemur uppsafnað aðhald út tímabilið um 58 milljörðum kr. en árin 2020–2022 er meira að segja gerð aðhaldskrafa á heilbrigðisstofnanir, öldrunarstofnanir og skóla. Í umræðu um fyrri fjármálaáætlun gagnrýndu þingmenn Vinstri grænna aðhaldskröfu þeirrar áætlunar á þessa grunnþætti samfélagsins

Ekki tekið á misskiptingunni.
    Það vekur athygli við lestur á fjármálaáætluninni að lítið er tekið á misskiptingunni í samfélaginu.
    Mjög fróðlegt er að skoða eignaþróunina samkvæmt skattframtölum einstaklinga fyrir tekjuárin 1997–2017. Vert er að hafa í huga að eignir hinna ríku eru meiri en þarna kemur fram því að hlutabréf eru talin á nafnvirði í þessum gögnum og fasteignir eru taldar á fasteignamatsverði og síðan er ljóst að sumt er geymt í skattaskjólum.
     1.      Um 1% landsmanna á meiri hreinar eignir en 80% Íslendinga. Þessi 1% hópur er um 2.000 fjölskyldur og á hver um sig um 300 millj. kr. í hreinni eign að meðaltali.
     2.      Sé hópurinn minnkaður til muna og litið á hvað ríkasta 0,1% landsmanna, sem er um 200 fjölskyldur, á í hreinni eign, kemur í ljós að sérhver fjölskylda þarna á meira en 1.000 millj. kr. í hreinni eign, sem er meira en 1 milljarður.
     3.      Um 5% landsmanna á næstum jafn mikið í nettóeignum og hin 95%.
     4.      Í öllum tilvikum, hjá ríkasta 0,1% þjóðarinnar eða ríkasta 1% landsmanna eða ríkustu 5% einstaklinganna, hefur hlutdeild þeirra í hreinum eignum landsmanna aukist frá árinu 2005.
     5.      Tæplega helmingur allra hreinna eigna sem varð til á árinu 2016 rann til ríkustu 10% landsmanna. Meira en 11% af nýjum auði sem varð til árin 2011–2016 rann til ríkasta 1% landsmanna.
     6.      Sé litið til tekna kemur fram að heildartekjur með fjármagnstekjum hjá tekjuhæstu 5% landsmanna voru um 23% af heildartekjunum. 1%-ið var með tæp 10% af heildartekjunum og 0,1% landsmanna voru með tæp 4% af heildartekjunum.
     7.      Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo eiga einungis tíu eignamestu einstaklingar landsins tæplega þriðjung alls eigin fjár í íslenskum félögum sem eru í höndum einstaklinga.
     8.      Ísland er samkvæmt nýrri skýrslu frá Oxfam langneðst allra Norðurlandanna þegar kemur að aðgerðum til að berjast gegn ójöfnuði.
    Það er áhugavert að hafa í huga að fjármagnstekjuskattur er lægri hér á landi en víðast hvar annars staðar. Sama má segja um fyrirtækjaskatta sem eru almennt lægri hér sé litið til tekjuskatta fyrirtækja. Ísland er meira að segja undir OECD-meðaltali og við hliðina á Tyrklandi og Tékklandi. Á Íslandi er lægri tekjuskattur fyrirtækja en í Danmörku, Svíþjóð og Noregi en sami og í Finnlandi.
    Sem dæmi um hvað fjármagnstekjuskatturinn á vel við þá sem hæstar tekjur hafa má nefna að einungis 2% fjölskyldna greiddu fjármagnstekjuskatt vegna söluhagnaðar af hlutabréfum. 98% greiddu þennan hluta ekki enda tekur frítekjumark til minni viðskipta. Til viðbótar á hugsanlega að endurskipuleggja fjármagnstekjuskattskerfið þannig að fjármagnseigendur eiga að fá vernd gegn verðbólgu, vernd sem launafólk býr ekki við.
    Þá er enn gert ráð fyrir að veiðigjöld séu minna en 1% af tekjum ríkisins en það eru ekki margir eigendur auðlinda sem myndu sætta sig við að fá einungis um 1% af tekjum sínum frá meginauðlind sinni en íslenska þjóðin er látin gera það.
    Það er ljóst að á Íslandi búa tvær þjóðir. Sú þróun er hættuleg, ósanngjörn og hún dregur úr hagvexti. Aukinn jöfnuður er bæði réttlætismál en einnig góð hagfræði. Jöfn samfélög eru rík samfélög.

Barnabætur hugsaðar sem fátækrastyrkur.
    Barnabætur hafa byrjað að skerðast undir lágmarkstekjum þrátt fyrir litla hækkun þeirra. En samhliða fyrirhugaðri hækkun barnabóta eru skerðingar auknar hjá millitekjufólki á móti. Tekjuskerðingarmörk barnabóta hafa lækkað verulega að raungildi undanfarin ár. Almennt séð hefur dregið úr stuðningi og tekjujöfnunarhlutverki barnabótakerfisins á liðnum árum.
    Hér grundvallast pólitískur skoðanamunur milli Samfylkingarinnar og ríkisstjórnarflokkanna. Samfylkingin lítur ekki á barnabætur sem fátækrastuðning heldur sem mikilvægt stuðningskerfi fyrir barnafjölskyldur til að mæta þeim kostnaði sem þær verða fyrir á því tímabili í lífi sínu.
    Fjölmargir hagsmunaaðilar, svo sem ASÍ og BHM, hafa ítrekað bent á nauðsyn þess að hér þyrfti að endurreisa barnabótakerfið og að það væri röng hugsun að álíta barnbætur vera „fátækrastuðning“. Í nýrri umsögn ASÍ segir: „Áætlunin gerir ekki ráð fyrir frekari umbótum á barnabótakerfinu og markmið stjórnvalda að barnabótakerfið sé fyrst og fremst ætlað til þess að vinna gegn fátækt barna og styðja tekjulægri fjölskyldur. Í yfirlýsingu um stuðning stjórnvalda við lífskjarasamninga er því heitið að skerðingarmörk barnabóta hækki í 325 þús. kr. á mánuði á árinu 2020 og leggur ASÍ áherslu á að þess sjáist staður í fjármálaáætlun.
    ASÍ leggur þar að auki áherslu á að stuðningur við barnafólk verði áfram aukinn þannig að barnabætur séu ekki fátækrastuðningur heldur nái til allra barnafjölskyldna með lág- og millitekjur. Til að svo verði þarf áfram að draga úr tekjuskerðingum og hækka tekjuskerðingarmörk og tryggja að þau fylgi launaþróun fyrir tíma.“
    Það er þjóðarskömm hversu mörg börn búa við óviðunandi aðstæður á Íslandi en talið er að allt að 6.000 börn líði skort í okkar ríka samfélagi. Tekjur heimila, bæði laun og félagslegar bætur, eru helsti áhrifaþáttur barnafátæktar. Vanda láglaunafólks og einnig fólks með meðaltekjur mætti þó mæta með almennum hætti með því að hækka barnabætur og húsnæðisstuðning. Þrátt fyrir það hefur barnabótakerfið fengið að grotna niður undanfarin ár sem er afskaplega miður í því ljósi að barnabætur eru mjög góð leið til að aðstoða ungar fjölskyldur í landinu.
    Fyrsti minni hluti fagnar lengingu fæðingarorlofs en telur að stærri skref þurfi að taka. Sérstaklega þarf að hækka svokallaðan fæðingarstyrk sem er skammarlega lágur gagnvart námsmönnum sem fá um 170 þús. kr. og foreldrum utan vinnumarkaðar sem fá einungis um 75 þús. kr. í fæðingarstyrk.

Þak sett á vaxtabætur og húsnæðismál sett á hakann.
    Þá vekur það mikla athygli að húsnæðisstuðningur hins opinbera mun beinlínis lækka á gildistíma fjármálaáætlunarinnar um 13,3%.
    Erfiðar aðstæður ríkja þó á húsnæðismarkaði og mikill fjöldi einstaklinga býr við óviðunandi húsnæðiskjör. Það er mat Íbúðalánasjóðs að um 50 þús. einstaklingar séu á leigumarkaði og af þeim séu tekjulágir og ungt fólk í meiri hluta. Það er staðreynd að húsnæðiskostnaður er hlutfallslega hátt hlutfall af tekjum þeirra sem minnstar hafa tekjurnar. Sé hins vegar litið til vaxtabótakerfisins þá er staðan enn verri en það sem sést í barnabótakerfinu því að um helmingur þeirra sem nutu vaxtabóta fyrir nokkrum árum gera það ekki lengur. Það kom engin innspýting í vaxtabótakerfið með nýrri ríkisstjórn.
    Það er því afar sorgleg niðurstaða að fjármálaáætlunin gerir ekki ráð fyrir krónu til viðbótar í vaxtabótakerfið næstu fimm árin. Á undanförnum árum hefur helmingur þess fólks sem naut vaxtabóta dottið úr því kerfi vegna skerðinga. Húsnæðisstuðningur í gegnum vaxtabótakerfið hefur lækkað um 67% að raungildi frá árinu 2013 og heimilum sem fá greiddar vaxtabætur fækkaði um tæplega 16.000 milli áranna 2013 og 2016 og má gera ráð fyrir að þeim haldi áfram að fækka. Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að viðmiðunarfjárhæðir og eignamörk í vaxtabótakerfinu verði óbreytt á milli ára en þau hafa rýrnað verulega í samanburði við laun og fasteignaverð á undanförnum árum.
    Af umfjöllun í áætluninni má ætla að til standi að leggja niður almennan húsnæðisstuðning í gegnum vaxtabótakerfið sem hefur á undanförnum árum veikst verulega.
    Það er skemmst frá því að segja að síðast þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn voru settir 100 milljarðar króna í barna- og vaxtabótakerfið á kjörtímabilinu.

Aldraðir og öryrkjar þurfa enn að bíða.
    Öryrkjabandalag Íslands segir í umsögn sinni um þessa áætlun að hún sé „algjörlega óásættanleg og mun engu breyta um kjör fólks sem búið hefur við verulegan skort árum saman“.
    Helmingur öryrkja er með tekjur undir 270 þús. kr. fyrir skatt og 70% öryrkja með tekjur undir 300 þús. kr. fyrir skatt.
    Það hefur því lengi verið kallað eftir frekari fjármunum til öryrkja en hins vegar er einungis gert ráð fyrir 4 milljörðum til viðbótar til þessa hóps fyrir utan þá fjármuni sem eiga að mæta fjölgun öryrkja. Stefnt er að því að afnema hið svokallaða „króna á móti krónu“-kerfi en slíkt getur kostað allt að 10–14 milljarða kr. og því dugar þessi viðbót ríkisstjórnarflokkanna ekki einu sinni fyrir því, og hvað þá að bæta aðra þætti gagnvart öryrkjum, svo sem hækkun örorkulífeyris og að draga úr öðrum skerðingum.
    Þá lækka fjárframlög til öryrkja næstu fimm árin samanlagt um tæpa 4,5 milljarða kr. frá því sem hafði þegar verið kynnt þegar fjármálaáætlunin var fyrst lögð fram fyrir rúmum tveimur mánuðum í breytingartillögum meiri hlutans. Þetta hljóta að teljast vera stórpólitísk tíðindi.
    Hið aukna fjármagn til eldri borgara sem finna má í fjármálaáætluninni má fyrst og fremst rekja til fjölgunar í þeim hópi. Það verður því enn brýn þörf fyrir fjölgun hjúkrunarrýma og fjármagn skortir til rekstrar þeirra sem fyrir eru þrátt fyrir áform fjármálaáætlunarinnar um fjölgun þeirra. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögu að fjármálaáætlun eru þessi rými ekki fjármögnuð nema að takmörkuðu leyti.
    Í raun er rekstur 550 nýrra hjúkrunarrýma ekki fjármagnaður frá og með 2023 og þýðir það því að öllu óbreyttu lokun þessara rýma.
    Þar að auki er orðin knýjandi þörf á að endurbæta eldri rými og breyta í samræmi við breyttar og auknar öryggiskröfur og byggingarreglugerðir.
    Þá er ekki í áætluninni að finna mörg áform um að bæta kjör aldraðra sem þiggja ellilífeyri, hvorki hækkun á framfærslu né hækkun frítekjumarks. Þá er ekki að finna áform um afnám tekjutengingar gagnvart maka eða sambúðarfólki. Þá er mikil þörf á að efla Framkvæmdasjóð aldraðra sem hefur ekki þjónað tilgangi sínum lengi.
    ASÍ bendir á að óhóflegar tekjutengingar milli lífeyris úr samtryggingarsjóðum og almannatryggingum draga verulega úr hvata til lífeyrissparnaðar og veikja tiltrú á lífeyrissjóðakerfið. Þannig eru sem dæmi viðbótarráðstöfunartekjur ellilífeyrisþega, sem á 200.000 kr. réttindi úr samtryggingarlífeyrissjóði, um 63.000 krónur að teknu tilliti til skerðinga og skatta sem jafngilda um 68%.
    Í fjármálaáætluninni kemur fram að allt að 70% eldri borgara sem búa við lökust kjörin eru konur. Af þeim sem eru með tekjur á lægsta tekjubilinu (tekjutíund 1) eru um 8,5% af erlendum uppruna. Þessi hópur hefur unnið sér inn lítil eða engin réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðum, lifir nær eingöngu á bótum almannatrygginga og býr í leiguhúsnæði eða í mjög skuldsettu eigin húsnæði. Innflytjendum, sem af einhverjum ástæðum hafa ekki áunnið sér rétt til lífeyris í fyrra búsetulandi, hefur fjölgað. Þessir einstaklingar hafa margir mjög takmörkuð efni og úrræði sér til framfærslu og þarf sérstaklega að huga þeim.
    Í fjárlagafrumvarpi 2019 var gert ráð fyrir því að 70 millj. kr. verði aukalega varið til NPA og einungis er gert ráð fyrir að ríkið fjármagni fjórðung af kostnaði við þessa þjónustu en sveitarfélögin það sem út af stendur. Mikilvægt er að Alþingi tryggi í fjármálaáætlun 2020–2024 fulla fjármögnun á umbótunum sem felast í nýrri löggjöf um notendastýrða persónulega aðstoð.

Svikin menntasókn.
    Við stöndum frammi fyrir samfélagsbreytingum á næstu áratugum þar sem allt bendir til þess að atvinnulíf muni taka stakkaskiptum. Með aukinni sjálfvæðingu og gervigreind munu mörg störf hverfa, önnur haldast og ný verða til. Eina raunhæfa leiðin til að mæta þessari áskorun er að efla skólastarf og aðlaga það nýjum veruleika.
    Að fjármögnun íslenskra háskóla nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir 2020 er sagt vera eitt helsta markmið fjármálaáætlunarinnar hvað háskólastigið varðar. Í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar segir enn fremur að meðaltal Norðurlandanna í fjármögnun háskólastigsins skuli nást fyrir 2025.
    Í umsögn stúdentaráðs Háskóla Íslands segir: „Af samanburði á útgjaldaramma háskólastigsins fyrir þessa fjármálaáætlun sem nú er til umfjöllunar, og þeirri sem samþykkt var í fyrra og tekur til tímabilsins 2019 til 2023, virðist vera að fjárframlög til háskólastigsins lækki umtalsvert árin 2020 og 2021 frá fyrri áætlun, ásamt minni lækkun árið 2022. Í heildina litið verður Háskóli Íslands af rúmlega 1,7 milljörðum kr. á þessu tímabili, sé litið til heildarútgjaldaramma. Lækkunin er mest framan af, og er vandséð hvernig ríkisstjórnin hyggst mæta loforði sínu um að ná meðaltali OECD-ríkjanna í fjármögnun háskóla, nema forsendur útreikninga hafi breyst til muna.“
    Í fyrra var metið að til að ná meðaltalsfjármagni OECD-ríkja til háskólanna fyrir 2020 þyrfti að hækka fjárframlögin um 6,7 milljarða kr.
    Háskólastigið án framlaga LÍN mun fá svipaða upphæð 2024 og það fær 2019 í þessari fjármálaáætlun, þrátt fyrir háfleyg loforð um að ná meðaltali Norðurlanda og OECD-ríkja.
    Framhaldsskólastigið fær hins vegar nánast sömu krónutölu næstu fimm árin samkvæmt fjármálaáætluninni. Sú aukning sem rennur til sérhvers framhaldsskólanema er fyrst og fremst vegna eldri loforða um að þeir peningar sem „spöruðust“ vegna styttingar framhaldsskólans ættu að halda sér í kerfinu. Ekki er hins vegar um að ræða raunútgjaldaaukningu til skólastigsins.
    Í breytingartillögum meiri hlutans fá framhaldsskólar 1,2 milljörðum kr. lægri upphæð samanlagt næstu fimm árin miðað við framlagða fjármálaáætlun frá því í mars sl.
    Því sér 1. minni hluti fá merki um „stórsókn“ í menntamálum sem margoft hefur verið lofað. Þegar fjárlög 2018 voru afgreidd fyrir nokkrum mánuðum sögðu forsvarsmenn framhaldsskólanna að skólarnir væru í raun „komnir að þolmörkum“.
    Málefnasvið fjármálaáætlunarinnar um menningu, listir, íþrótta- og æskulýðsmál mun fá lækkun á gildistíma áætlunarinnar og sýnir það sérkennilega forgangsröðun ríkisstjórnarflokkanna.

Heilbrigðismálin enn vanfjármögnuð.
    Samfylkingin telur mikla þörf á að styðja vel við alhliða uppbyggingu á hinu opinbera heilbrigðiskerfi sem þarf sárlega á því að halda eftir hrunið sem lék samfélagið grátt. Þá vill Samfylkingin huga sérstaklega að mönnun og álagi starfsfólks innan heilbrigðiskerfisins.
    Þegar forsvarsmenn Landspítalans mátu fjármálaáætlunina sem kynnt var í fyrra og er nokkuð lík þessari áætlun var talið að markmiðin í áætluninni væru ekki fjármögnuð og í raun vantaði um 87 milljarða kr. uppsafnað á tímabilinu. Það er því ljóst að það vantar talsvert upp á að ríkisstjórnarflokkarnir tryggi nauðsynlegt fé til Landspítalans.
    Sjúkrahúsþjónusta fær um 2 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu fimm árin í breytingartillögunum frá því sem hafði verið lagt fram í áætluninni. Heilbrigðismálin voru stóra málið í síðustu kosningum og kemur þetta mjög á óvart.
    Heilsugæsla og sérfræðiþjónustan fær um 1,5 milljarða kr. lækkun næstu fimm árin frá eldri tillögu fjármálaáætlunar.
    Ef standa á við markmið um að heilsugæslan skuli vera fyrsti viðkomustaður almennings í heilbrigðiskerfinu er nauðsynlegt að endurskoða rekstrarlíkan stöðvanna, einkum á landsbyggðinni. Að auki eru málefni heilsugæslunnar sérstakt áskorunarefni í ljósi hins nýja greiðsluþátttökukerfis sem færir heilsugæslustöðvunum enn frekari verkefni sem hliðvörðum inn í heilbrigðiskerfið. Það krefst aukins viðbúnaðar, bæði hvað varðar aðstöðu og skipan fagfólks.
    Samfylkingin telur að greiðsluþátttaka allra sé nú þegar of mikil í heilbrigðisþjónustunni, nýtt kerfi sé vanfjármagnað, þakið of hátt og hætta á að hækkun á kostnaði hjá stórum hluta notenda muni leiða til þess að tekjulægri hópar neiti sér um heilbrigðisþjónustu í enn meira mæli en nú er en samkvæmt ASÍ er hlutfall þeirra sem neita sér um heilbrigðisþjónustu hér á landi margfalt hærra en í nágrannalöndunum.
    Samfylkingin vill að stefnt sé að því að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls og talaði fyrir því í aðdraganda kosninga að greiðsluþátttaka sjúklinga yrði minnkuð í áföngum. Það er sorgleg staða að í 10. ríkasta landi heims skuli fólk veigra sér við að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu vegna fátæktar.

Samgöngumálin lægri 2024 en 2019.
    Sterkir innviðir sem þjóna þörfum atvinnulífsins og heimila stuðla að aukinni samkeppnishæfni og styrkja stoðir hagvaxtar til framtíðar. Þegar fjármálaáætlunin var kynnt gerðu ríkisstjórnarflokkarnir mikið úr þeirri aukningu sem átti að renna til samgöngumála og talað var um stórsókn eins og ríkisstjórnarflokkunum er gjarnt að gera. Þó er einungis fyrirhugað að fjárfestingar nemi 43% af áætlaðri þörf, eða 120 milljörðum kr. Enn vantar því um 160 milljarða kr. til að uppfylla fjárfestingarþörfina samkvæmt mati Samtaka iðnaðarins.
    Í fjármálaáætluninni segir að uppsöfnuð viðhaldsþörf vegakerfisins sé metin vera á bilinu 5.060 milljarðar kr.
    Samgöngumál lækka um 17% næstu fimm árin þrátt fyrir mikla þörf um allt land. Það vekur athygli að samgöngumál í breytingartillögunum hljóta 3 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu fimm árin frá því sem áætlunin gerði fyrst ráð fyrir.
    Þá vekur 1. minni hluti athygli á mikilvægi uppbyggingar á almenningssamgöngum og sérstaklega er vakin athygli á borgarlínunni sem er bæði efnahagslegt mál og loftslagsmál.

Skerðing til nýsköpunar, þróunarsamvinnu og umhverfismála í breytingartillögum.
    Nýsköpun og rannsóknir fá tæpa 3,2 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu fimm árin frá því sem eldri tillaga að fjármálaáætlun hafði gert ráð fyrir í breytingartillögum meiri hlutans.
    Umhverfismálin lækka um 1 milljarð kr. samanlagt næstu fimm árin frá því sem hafði verið tilkynnt í fjármálaáætluninni í breytingartillögunum. Og kemur þetta verulega á óvart í ljósi mikilvægi málaflokksins og orða ráðamanna um þessi mál að undanförnu.
    Sérstaka athygli vekur að í fjármálaáætlun er einungis gert ráð fyrir 10% hækkun kolefnisgjalds árið 2019 og öðrum 10% árið 2020. Þar með yrði hækkunin komin í 71% árið 2020 en í fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar var gert ráð fyrir að sú hækkun yrði 100%.
    Minni hlutinn telur að hvorki með þessu né öðrum tilteknum aðgerðum í fjármálaáætlun sé verið að skapa forsendur til að ná markmiði ríkisstjórnarinnar sem er í samræmi við þátttöku í samstarfi Evrópuþjóða, um 40% samdrátt í losun koldíoxíðs.
    Það er ljóst að umtalsverða fjármuni vantar í aðgerðir í loftslagsmálum og vekur 1. minni hluti athygli á því að mengunarskattar (Pigou-skattar) eru í raun einu hagkvæmu skattarnir og þá ber að huga að markaði með framseljanlegum mengunarheimildum (e. cap-and-trade) og öðrum hagrænum hvötum til að draga úr mengun, m.a. með því að láta fyrirtæki innbyrða þann ytri kostnað sem hlýst af mengun þeirra.
    Í fjármálaáætluninni kemur fram að íslensk stjórnvöld styðji markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum sínum til þróunarsamvinnu. Minni hlutinn tekur heils hugar undir þau markmið en telur útgjaldaáætlun fyrir þennan gríðarlega mikilvæga málaflokk ófullnægjandi.
    Þróunarsamvinna lækkar, sem var ekki beysin fyrir, í meðförum fjárlaganefndar frá því sem tilkynnt hafði verið fyrir rúmum tveimur mánuðum og nemur lækkunin um 1,8 milljörðum kr. samanlagt næstu fimm árin.

Skerðing milli umræðna til löggæslu og aðrir þættir.
    Fyrsti minni hluti mótmælti harðlega fyrirhuguðum skerðingum framlaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga en skerðingin hefði haft mikil áhrif á sveitarfélögin um land allt eða samtals um 3,3 milljarða kr. Fjármunir úr jöfnunarsjóði hafa fyrst og fremst farið í að sinna verkefnum sem lúta að fötluðum og hefðu það verið ótrúleg skilaboð frá ríkisstjórninni að sá hópur ætti að taka á sig skerðingu.
    Þegar breytingartillögur ríkisstjórnarflokkanna voru ræddar fullyrtu fulltrúar fjármálaráðuneytis að fallið hefði verið frá slíku þótt sveitarfélögin teldu í umsögn sinni að niðurskurðurinn væri 3,3 milljarðar kr. á tveimur árum en breytingartillögurnar gera ráð fyrir 2,2 milljörðum kr. til baka.
    Fyrsti minni hluti lýsir áhyggjum af of lágum framlögum til löggæslunnar í landinu sem munu ekki svara þörf fyrir meiri mannafla í lögreglunni til að mæta auknum ferðamannastraumi og alls kyns nýjum og flóknari verkefnum. Almanna- og réttaröryggi lækkar um 7,7% þrátt fyrir mikla fjöglun ferðamanna og flóknari verkefni löggæslunnar.
    Töluvert vantar upp á metnað ríkisstjórnarinnar í málefnum persónuverndar og hvað varðar vernd réttinda einstaklinga og lítill áhugi virðist á því að bæta stöðu útlendinga og fanga á tímabilinu.

Skattastefna hinna ríku.
    Margir hafa komið fyrir fjárlaganefnd og bent á að skattalækkanirnar sem reiknað er með í fjármálaáætluninni séu illa ígrundaðar og betra væri að styrkja tekjuöflun ríkisins nú þegar vel árar. Þessi gagnrýni hefur m.a. sést í fyrri umsögn fjármálaráðs.
    Undanfarin ár hefur meginþungi skattalækkana verið á tekjuskattinn og hefur hann lækkað um 3 prósentustig frá 2014. Slík skattalækkun skilar mun fleiri krónum í vasa hálaunamanns heldur en hjá milli- og lágtekjufólki. Persónuafslátturinn var einungis hækkaður um 500 kr. umfram verðlag í núverandi fjárlögum.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom skýrt í ljóst hversu lítið skattatillögur ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninganna eru útfærðar.
    Með fjármálaáætluninni er verið að veikja tekjustofna ríkisins og þá með mjög ójöfnum hætti. ASÍ lýsti yfir miklum áhyggjum af því að ríkisvaldið væri ætíð að taka þær kjarabætur sem þó næðust á vinnumarkaðinum vegna stefnu sinnar í skatta- og bótamálum. Nær væri að auka jöfnunarhlutverk skattkerfisins og styðja betur við börn og fólk sem býr á dýrum og ótryggum leigumarkaði í stað þess að minnka stuðninginn við þessa viðkvæmu hópa.
    Fjármagnstekjuskattur er lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndunum. Það vekur annars athygli að fjármagnstekjuskattur skilar 2 milljörðum kr. minna í ríkiskassann árið 2019 en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun í fyrra.
    Til viðbótar á hugsanlega að endurskipuleggja fjármagnstekjuskattskerfið þannig að fjármagnseigendur fái vernd gegn verðbólgu, vernd sem launafólk býr ekki við.
    Samfylkingin vill að tekjuskattur sé þrepaskiptur og gegni því tvíþætta hlutverki að vera tekjustofn fyrir ríkissjóð og stuðla að tekjujöfnun. Þá hefur Samfylkingin viljað endurskoða bilin milli skattþrepa, fjölga skattþrepunum og tryggja sanngjarnt framlag tekjuhærri hópa og stóreignafólks til samfélagsins í gegnum skattkerfið. Þá hefur Samfylkingin talað fyrir lækkun tryggingagjalds en þannig er stutt við uppbyggingu vel launaðra starfa í mannaflsfrekum þekkingargeiranum og í alþjóðageiranum.
    Nauðsynlegt er að styrkja tekjustofna sveitarfélaga sem sinna stórum og mikilvægum verkefnum. Stærri hlutur sveitarfélaga í tekjum ríkisins af ferðamönnum væri sanngjarn, enda skilja ferðamenn eftir sig stærri spor en tekjur flestra sveitarfélaga ráða við að bæta og tekjurnar duga sjaldnast heldur til að byggja upp innviði til að fyrirbyggja eyðileggingu vegna álags.
    Þá telur 1. minni hluti það vera sérkennilega forgangsröðun að lækka bankaskattinn svokallaða en sú lækkun kostar um 7,7 milljarða kr. þegar sú lækkun er komin til framkvæmda. Hins vegar mun lækkun bankaskatts næstu árin kosta ríkissjóð meira en 18 milljarða kr. á næstu fimm árum. Ekki er nægjanlegt að fresta lækkun bankaskattsins um einungis eitt ár eins og gert er í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar.
    Gistináttagjaldið var hækkað umtalsvert árið 2017 og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er tekið skýrt fram að færa eigi gistináttagjaldið yfir til sveitarfélaga á kjörtímabilinu. Þrátt fyrir það er ekki gert ráð fyrir neinum breytingum af því tagi í fjármálaáætlun. Samfylkingin lagði slíkt til fyrir fjárlögin 2019 en felldu ríkisstjórnarflokkarnir þá tillögu.
    Fyrsti minni hluti vekur athygli á að samkvæmt fjármálaáætluninni nemur núverandi skattaívilnun ferðaþjónustunnar í gegnum lægra virðisaukaskattsþrep um 27 milljörðum kr. árlega. Til samanburðar er sú upphæð helmingi hærri en það sem ríkið ver í allan húsnæðisstuðning í landinu og er svipuð upphæð og varið er í lyf og lækningavörur í landinu.

Aukinn arður af auðlindum til þjóðarinnar.
    Fyrsti minni hluti vill árétta að það er afar mikilvægt að arðurinn af auðlindum landsins nýtist til að bæta lífskjör landsmanna og standa undir fjármögnun öflugs velferðarkerfis. Þar þarf að horfa sérstaklega til þess að ríkið innheimti sanngjarna auðlindarentu í sjávarútvegi. Þá bendir 1. minni hluti á það augljóslega glataða tækifæri sem í þessu málefnasviði liggur til aukinnar tekjuöflunar, en útgerðarfyrirtæki greiða í dag veiðigjald sem er langt undir markaðsverði kvóta.
    Það hljóta því að vera vonbrigði að í fjármálaáætlun er engin áætlun um að sanngjarn hluti auðlindarentunnar renni til þjóðarinnar. Útboð á hluta kvóta gæti nýst til að ákvarða veiðigjöld og gæti verið grundvöllur sáttar um gjaldtöku af greininni.
    Fyrsti minni hluti leggur einnig áherslu á eðlilega gjaldtöku af orkuvinnslu og að innheimtar verði tekjur af ferðamönnum, bæði til þess að standa undir uppbyggingu við ferðamannastaði og öðrum kostnaði vegna komu þeirra, svo sem í heilbrigðiskerfinu, við löggæslu og björgunarstörf og viðhald vega. 1. minni hluti telur löngu tímabært að útfærðar verði leiðir til að fá auknar tekjur af ferðamönnum. Þar sem atvinnugreinin þarf aðlögunartíma og er að ganga í gegnum breytingar skiptir hvert ár máli.
    Til að tryggja sanngjarnan arð af auðlindunum verður t.d. að horfa til útboðs aflaheimilda og álagningar nýrra raforku- eða umhverfisskatta og auka tekjur af erlendum ferðamönnum. Arðurinn ætti að ganga til sveitarfélaga, í sóknaráætlanir og til heilbrigðiskerfisins og annarrar innviðauppbyggingar sem nýtist landsmönnum öllum.

Breytingartillögur Samfylkingar við fjármálaáætlun.
    Samfylkingin leggur til 10 breytingartillögur við fjármálaáætlun sem tækju til sérhvers árs í áætluninni. En í ljósi þess að Samfylkingin er ekki í ríkisstjórn og leggur því ekki fram fullmótaða fjármálaáætlun er ekki um að ræða tæmandi upptalningu á þeim breytingum sem hún myndi annars leggja fram í 5.000 milljarða kr. fjármálaáætlun.
    Hér að neðan má einnig finna rökstuðning fyrir því hvernig Samfylkingin sér fyrir sér fjármögnun þessara breytingartillagna sem kosta um 23 milljarða kr.
    A. Fjárfestum í framtíðinni: Ein helsta gagnrýni sem Samfylkingin hefur haft uppi um ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins er skortur á framsýni. Til að íslenskt framtíðarsamfélag verði farsælt verður að horfa lengra fram í tímann en næsta kjörtímabil og fjárfesta í menntun, nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum, og að sjálfsögðu setja mun meira fjármagn í baráttuna gegn hamfarahlýnun.
     1.      Loftslagsmál hækki um 8 milljarða kr.
                  a.      Hægt er að fjármagna þessa breytingu að mestu leyti með því að fresta lækkun bankaskatts.
                  b.      Um væri að ræða tvöföldun á fjármunum ríkisstjórnarinnar í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.
                  c.      Áhersla væri lögð á grænar fjárfestingar og uppbyggingu umhverfisvænna innviða sem verður innspýting í efnahagslegri lægð.
     2.      Framhaldsskólar hækki um 1 milljarð kr.
                  Samfylkingin leggur til að fyrirhuguð lækkun á framlögum til framhaldsskóla verði dregin til baka og settir verði viðbótarfjármunir til skólanna.
     3.      Háskólar hækki um 1 milljarð kr.
     4.      Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar hækki um 1 milljarð kr.
                  Samfylkingin leggur til að fyrirhuguð lækkun á framlögum til nýsköpunar verði dregin til baka og settir verði viðbótarfjármunir til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina.
     5.      Húsnæðisstuðningur hækki um 2,5 milljarða kr.
                  Hér er lagt til að draga til baka fyrirhugaða lækkun ríkisstjórnarinnar til málaflokksins.
    B. Verjum velferðina: Samfylkingin hefur lagt áherslu á að verja velferðina á tímum niðursveiflu í hagkerfinu og á að hlífa þeim hópum sem hafa setið eftir á hagsældarskeiðinu. Ríkisstjórnin leggur aftur á móti til að framlög til öryrkja taki mestum breytingum milli umræðna, eða um heila 4,5 milljarða kr. Samfylkingin vill draga þá skerðingu til baka og bæta í ásamt því að verja sjúkrahúsþjónustuna, aldraða og barnafólk.
     6.      Öryrkjar hækki um 5,6 milljarða kr.
              Með þessari breytingartillögu væri dregin til baka 4,5 milljarða kr. lækkun á fimm árum (tæplega milljarður á ári) sem koma fram í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar og bætt 4 milljörðum við, sem er tvöföldun á því sem ríkisstjórnin segist ætla að gera.
     7.      Aldraðir hækki um 1 milljarð kr.
     8.      Fæðingarorlof með áherslu á að fæðingarstyrkur hækki um 400 millj. kr.
                  Hér er lagt til að tvöfalda það fjármagn sem rennur til fæðingarstyrks sem rennur til fólks utan vinnumarkaðar og sem er í námi
     9.      Barnabætur hækki um 1 milljarð kr.
     10.      Sjúkrahúsþjónusta og heilsugæsla hækki um 1,8 milljarða kr.

Fjármögnun breytingartillagna.
    Séu dregin saman áhrif breytingartillagna Samfylkingar eru heildaráhrifin á ríkissjóð um 23 milljarðar kr. sem hægt er að fjármagna með betri nýtingu tekjustofna ríkisins og annarri forgangsröðun.
    Tillögur þessar mætti fjármagna með tvenns konar hætti. Annars vegar með því að hætta við eða breyta fyrirhuguðum skattabreytingum fjármálaáætlunar og hins vegar með auknum tekjum ríkissjóðs.
    Ljóst er að Samfylkingin er ekki að leggja fram fullmótaða fjármálaáætlun eins og ríkisstjórnarflokkarnir hafa gert. Hefði Samfylkingin verið í ríkisstjórn hefði fjármögnun annarra og fleiri verkefna komið til. Þá hefði tekjugrunnur ríkisins verið styrktur samhliða slíkri útgjaldaaukningu en ekki verið veiktur eins og er gert í fyrirliggjandi fjármálaáætlun.
Samfylkingin vill þó reifa nokkrar hugmyndir um auknar tekjur fyrir ríkisvaldið. Áhersla er lögð á það að hlífa almenningi og litlum og meðalstórum fyrirtækjum í landinu í niðursveiflunni en sækja tekjur til útgerðarinnar, stórfyrirtækja og auðmanna.

Tekjuúrræði til að mæta auknum útgjöldum upp á 23 milljarða kr.:
     1.      Auðlindagjöld/Veiðileyfagjöld: Hækkun um 3 milljarða kr.
                  Veiðileyfagjöld verði aftur jafnhá og fyrir lækkun ríkisstjórnarflokkanna síðastliðið haust.
     2.      Fjármagnstekjuskattur: Hækkun um 3 milljarða kr. með 2% hækkun.
                  Fjármagnstekjuskattur er lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndum og yrði það áfram eftir 2% hækkun.
     3.      Tekjutengdur auðlegðarskattur: 3 milljarðar kr.
                  a.      Auðlegðarskattur var lagður á nettóeign framteljanda yfir ákveðinni upphæð. Ef hrein eign (eign - skuldir) hjóna var hærri en 120 millj. kr. lagðist auðlegðarskatturinn á og var hann 4 milljarðar kr. þegar hann var lagður á fyrst en var 10,5 milljarðar kr. þegar hann var hæstur 2014.
                  b.      Auðlegðarskatturinn var lagður af en væri núna 8 milljarðar kr. ef hann hefði verið óbreyttur.
                  c.      Samkvæmt þessari hugmynd yrði auðlegðarskatturinn tæplega fjórðungur af því sem hann var á árunum eftir hrun.
     4.      Kolefnisgjald: Hækkun um 1 milljarð kr.
             Hækkar tvöfalt umfram það sem ríkisstjórn gerði síðast.
     5.      Skatteftirlit (skattsvik nema a.m.k. 80 milljörðum kr.): 5 milljarðar kr.
     6.      Fresta lækkun bankaskatts: 8 milljarðar kr.

Enn þarf að bíða eftir réttlæti.
    Barnafólk, milli- og lágtekjufólk, námsmenn, sjúklingar, aldraðir og öryrkjar og í raun allur almenningur er illa svikinn af fjármálaáætlun Katrínar Jakobsdóttur. Þá eru tekjumöguleikar hins opinbera illa nýttir og bitnar það á nauðsynlegri uppbyggingu innviða í samfélaginu. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarflokkanna er því langt í frá að svara kalli landsmanna um frekari fjárfestingu í meginstoðum samfélagsins og er órafjarri því sem var lofað fyrir kosningar.

Alþingi, 19. júní 2019.

Ágúst Ólafur Ágústsson.