Ferill 270. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1941  —  270. mál.




Frumvarp til laga


um póstþjónustu.

(Eftir 2. umræðu, 20. júní.)


I. KAFLI

Markmið, gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að hagkvæmri, virkri og áreiðanlegri póstþjónustu um land allt og til og frá landinu, m.a. með því að tryggja notendum aðgang að alþjónustu eins og hún er skilgreind á hverjum tíma og með því að efla samkeppni á markaði fyrir póstþjónustu.

2. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um póstþjónustu í atvinnuskyni og starfsemi sem henni tengist.
    Póstsendingar innan fyrirtækis eða félags, þ.m.t. milli mismunandi starfsstöðva þess, falla ekki undir ákvæði laga þessara ef viðkomandi fyrirtæki eða félag annast póstsendinguna.

3. gr.

Stjórn póstmála.

    Ráðherra fer með yfirstjórn póstmála.
    Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara og fer um eftirlitið samkvæmt ákvæðum laga um Póst- og fjarskiptastofnun.

4. gr.
Orðskýringar.

    Merking hugtaka í lögum þessum er sem hér segir:
     1.      Afgreiðslustaður: Aðstaða, t.d. húsnæði, bifreið eða sjálfvirkur afgreiðslukassi, þar sem einstaklingar og lögaðilar geta fengið póstþjónustu.
     2.      Alþjónusta: Lágmarkspóstþjónusta sem notendum póstþjónustu skal standa til boða á jafnræðisgrundvelli, sbr. 9. gr.
     3.      Alþjónustuveitandi: Aðili sem falið er af stjórnvöldum að sinna alþjónustu.
     4.      Ábyrgðarsending: Póstsending sem póstrekandi ábyrgist með fyrir fram ákveðnum skilmálum.
     5.      Blindrasending: Póstsending sem inniheldur einvörðungu upplýsingaefni fyrir blinda og sjónskerta.
     6.      Bréf: Skrifleg boðskipti rituð á hvers konar miðil sem senda á og afhenda á heimilisfang sem sendandi hefur gefið til kynna á bréfinu eða umbúðum þess. Ekki er litið á bækur, verðlista, dagblöð og tímarit sem bréf.
     7.      Bréfakassasamstæða: Tveir eða fleiri bréfakassar sem staflað er eða raðað upp hlið við hlið til móttöku á póstsendingum. Kassarnir geta verið staðsettir innan eða utan húss eða á svæði sem tilgreint hefur verið af viðkomandi sveitarstjórn sem móttökustaður póstsendinga.
     8.      Bréfakassi: Aðstaða, t.d. kassi eða lúga, sem viðtakendur setja upp til viðtöku á póstsendingum.
     9.      Dreifikerfi: Aðföng og kerfi sem póstrekandi notar til að koma póstsendingum til skila, svo sem flokkunarstöðvar, afgreiðslustaðir, flutningsleiðir, póstnúmer, pósthólf, póst- og bréfakassar, gagnagrunnar um heimilisföng, upplýsingar um breytingar á heimilisföngum, aðgangur að áframsendingarþjónustu og þjónusta í tengslum við endursendingu bréfa.
     10.      Endastöðvargjald: Þóknun póstrekanda fyrir dreifingu póstsendinga frá útlöndum.
     11.      Erlend póstsending: Póstsending til landsins, innan alþjónustu.
     12.      Fjölpóstur: Óáritaðar sendingar, t.d. auglýsingapóstur.
     13.      Fríblað: Dagblað og vikublað sem borið er út til viðtakanda án þess að viðkomandi hafi óskað eftir því.
     14.      Frímerki: Tegund gjaldmerkis fyrir póstþjónustu sem er ávísun á ákveðna þjónustu.
     15.      Gjaldmerki: Merki sem límt er eða stimplað á póstsendingar eða fylgibréf þeirra sem tákn um að greitt hafi verið fyrir viðkomandi póstþjónustu. Gjaldmerki getur einnig verið rafrænn kóði.
     16.      Móttaka: Móttaka og söfnun póstsendinga sem lagðar eru inn á afgreiðslustöðum.
     17.      Notandi: Einstaklingur eða lögaðili sem nýtir sér póstþjónustu sem sendandi eða viðtakandi.
     18.      Póstkassi: Póstkassi sem ætlaður er fyrir söfnun póstsendinga.
     19.      Póstnúmer: Númer, eða kerfi númera, sem notað er fyrst og fremst til landfræðilegrar afmörkunar, til að staðsetja viðtakanda og auðvelda dreifingu póstsendinga.
     20.      Póstrekandi: Aðili sem veitir póstþjónustu í skilningi laga þessara.
     21.      Póstsending: Sending með eða án áritunar á umbúðir hennar. Auk bréfa upp að 2 kg teljast til póstsendinga bækur, verðskrár, dagblöð, tímarit og pakkar upp að 20 kg sem innihalda varning hvort sem hann er einhvers virði eða ekki.
     22.      Póstþjónusta: Þjónusta sem nær til móttöku og söfnunar, flokkunar, flutnings og dreifingar á póstsendingum gegn greiðslu.
     23.      Rekjanleg sending: Skráð póstsending sem gerir sendanda eða viðtakanda kleift að fylgjast með henni frá móttöku póstrekanda og til afhendingar til viðtakanda.
     24.      Sendandi: Einstaklingur eða lögaðili sem sendir póstinn upphaflega, sbr. þó ákvæði 9. mgr. 27. gr.
     25.      Skráð sending: Póstsending með einkvæmu auðkenni.
     26.      Tryggð sending: Póstsending sem póstrekandi tryggir gegn tapi, þjófnaði eða skemmdum samkvæmt því verðgildi sem sendandi tilgreinir.
     27.      Útburður: Starfsemi sem hefst að jafnaði með flokkun póstsendinga í póstmiðstöð og lýkur með afhendingu þeirra á tilgreindum afhendingarstað.

II. KAFLI

Almenn heimild til veitingar póstþjónustu.

5. gr.

Skráningarskyld starfsemi.

    Rekstur póstþjónustu í atvinnuskyni hér á landi er háður skráningarskyldu hjá Póst- og fjarskiptastofnun.
    Póst- og fjarskiptastofnun heldur, birtir opinberlega og uppfærir reglubundið skrá yfir póstrekendur hér á landi.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að hafna skráningu og/eða afskrá aðila af lista yfir póstrekendur og stöðva rekstur, eftir atvikum með aðstoð lögreglu, ef hann eða stjórnendur eða eigendur starfseminnar hafa á síðustu fimm árum verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum þessum. Sama á við ef aðili leggur niður starfsemi eða brýtur ítrekað gegn ákvæðum laga þessara, svo og ef póstrekandi brýtur ítrekað gegn skyldum sínum sem alþjónustuveitandi, að undangenginni skriflegri aðvörun og að liðnum viðeigandi fresti til úrbóta.
    Nú lætur póstrekandi undir höfuð leggjast að skrá sig hjá Póst- og fjarskiptastofnun og skal þá stofnunin gefa póstrekandanum færi á að bæta úr innan tveggja vikna.
    Nú verður póstrekandi ekki við fyrirmælum Póst- og fjarskiptastofnunar og getur þá stofnunin ákveðið póstrekanda dagsektir skv. 12. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, þar til bætt er úr.
    Póst- og fjarskiptastofnun setur nánari reglur um framkvæmd skráningar samkvæmt grein þessari.

6. gr.
Almenn heimild.

    Lögaðilar sem staðfestu hafa innan Evrópska efnahagssvæðisins eða í aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hafa almenna heimild til veitingar póstþjónustu hér á landi, til og frá landinu, að uppfylltum skilyrðum laga þessara.
    Almenn heimild felur í sér réttindi til að starfrækja póstþjónustu samkvæmt ákvæðum laga þessara og reglugerða og reglna sem settar eru samkvæmt þeim.

7. gr.
Skilyrði almennrar heimildar.

    Skilyrði almennrar heimildar til veitingar póstþjónustu eru eftirtalin:
     a.      Póstrekandi auðkenni sig skilmerkilega sem póstrekanda á viðeigandi hátt.
     b.      Almennir viðskiptaskilmálar og gjaldskrá sem um þjónustuna gilda séu aðgengilegir, t.d. á vefsíðu.
     c.      Ákvæði laga þessara séu uppfyllt, þar á meðal ákvæði um þjónustu- og gæðakröfur.
     d.      Rekstrargjald hafi verið greitt, eða samið um greiðslu á því, í samræmi við lög um Póst- og fjarskiptastofnun og lög um aukatekjur ríkissjóðs.

8. gr.
Tilkynning um starfsemi.

    Aðilar sem hyggjast starfrækja póstþjónustu samkvæmt almennri heimild skulu tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um það eigi síðar en tveimur vikum áður en fyrirhugað er að veita þjónustuna og veita upplýsingar sem nauðsynlegar eru til skráningar á viðkomandi póstrekanda og starfsemi hans. Í tilkynningu skal upplýst um stofnendur, hluthafa og hlutfallslegt eignarhald þeirra, hver sé fyrirhuguð þjónusta, þ.m.t. hvort aðili hyggist veita þjónustu sem skilgreind er sem alþjónusta, og til hvaða svæða þjónustan nær. Svæði skulu tilgreind eftir póstnúmerum.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal staðfesta skráningu aðila á skrá yfir póstrekendur innan tveggja vikna frá móttöku tilkynningar skv. 1. mgr., enda sé það mat stofnunarinnar að skilyrði laga þessara teljist uppfyllt.
    Póstrekandi sem hyggst leggja niður starfsemi, að hluta til eða í heild, skal tilkynna stofnuninni það með þriggja mánaða fyrirvara en í tilviki alþjónustu með sex mánaða fyrirvara.

III. KAFLI

Alþjónusta.

9. gr.

Inntak alþjónustu.

    Allir notendur póstþjónustu á Íslandi eiga rétt á alþjónustu sem uppfyllir gæðakröfur og er á viðráðanlegu verði. Samsvarandi þjónusta skal standa til boða notendum sem búa við sambærilegar aðstæður. Alþjónusta skal á hverjum tíma taka mið af tækni- og samfélagsþróun, hagrænum þáttum og þörfum notenda.
    Í alþjónustu felst a.m.k. eftirtalin þjónusta:
     1.      Aðgangur að afgreiðslustað og póstkössum.
     2.      Alþjónusta nær til bæði póstsendinga innan lands og milli landa, þar á meðal ábyrgðarsendinga og tryggðra sendinga. Í henni felst póstþjónusta vegna bréfa allt að 2 kg, pakka allt að 10 kg innan lands en 20 kg milli landa og sendinga fyrir blinda og sjónskerta allt að 2 kg.
     3.      Miða skal dreifingu innan alþjónustu við tvo daga í viku til einstaklinga sem hafa fasta búsetu, sbr. lög um lögheimili og aðsetur. Á sama hátt skal bera út póstsendingar til lögaðila sem hafa fasta atvinnustarfsemi í viðkomandi húsnæði.
     4.      Alþjónustuveitendur skulu tryggja að póstkassar sem falla undir alþjónustu séu tæmdir a.m.k. tvisvar í viku eða að losun sé í samræmi við fjölda dreifingardaga á viðkomandi svæði að teknu tilliti til eftirspurnar eftir þjónustu.
    Fara ber eftir reglum Alþjóðapóstsambandsins (UPU) um stærð og frágang póstsendinga sem falla undir alþjónustu.
    Póst- og fjarskiptastofnun birtir árlega upplýsingar um alþjónustu og alþjónustuveitendur, þ.m.t. hvaða þjónusta fellur undir alþjónustu, auk upplýsinga um verð og gæði. Póst- og fjarskiptastofnun tilkynnir einnig Eftirlitsstofnun EFTA hverjir sinna alþjónustu hér á landi.

10. gr.
Undantekningar frá alþjónustu.

    Þjónustuskylda sem felst í 9. gr. er aðeins virk ef viðtakandi er með þekkt heimilisfang sem skráð er sem lögheimili og/eða aðsetur í þjóðskrá eða heimilisfang í fyrirtækjaskrá og ef bréfakassi/bréfalúga er merkt með nafni í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur sem gildir á hverjum tíma eða ef samið hefur verið um annan afhendingarstað við þjónustuveitanda.
    Þjónustuskylda skv. 9. gr. tekur eingöngu til virkra daga (mánudags til föstudags). Skyldan getur einnig fallið niður tímabundið við sérstakar aðstæður sem koma í veg fyrir að póstþjónusta sé veitt eða gera hana óhóflega kostnaðarsama.

11. gr.
Val á þjónustuveitanda sem skylt er að veita alþjónustu.

    Ráðherra ákveður hvort hann gerir samning við fyrirtæki með almenna heimild, eitt eða fleiri, til að sinna þeim skyldum sem kveðið er á um í 9. gr. Við samningsgerð getur ráðherra notið liðsinnis Póst- og fjarskiptastofnunar og m.a. falið stofnuninni að meta og skera úr um kostnað við samninginn. Ráðherra getur einnig falið Póst- og fjarskiptastofnun að útnefna fyrirtæki til að sinna þjónustunni. Jafnframt getur ráðherra ákveðið að bjóða hana út.
    Við val á þjónustuveitanda eða þjónustuveitendum skv. 1. mgr. skal viðhafa opið, gagnsætt og hlutlægt ferli þar sem gætt er jafnræðis. Skyldu til veitingar alþjónustu má afmarka við tiltekna landshluta, póstnúmer og/eða tiltekna þætti póstþjónustu.
    Ráðherra getur látið framkvæma markaðskönnun þar sem metið er hvort nauðsynlegt er að tryggja alþjónustu með samningi, útnefningu eða útboði.

12. gr.
Umsóknir útnefnds fyrirtækis um fjárframlög vegna alþjónustu.

    Ef póstrekandi sem er útnefndur, sbr. 11. gr., telur að alþjónusta sem honum er skylt að veita hafi í för með sér hreinan kostnað getur hann sótt um til Póst- og fjarskiptastofnunar að honum verði með fjárframlögum tryggt sanngjarnt endurgjald fyrir þá starfsemi sem um ræðir. Útreikningar þjónustuveitanda skulu taka mið af viðauka II við lög þessi. Jafnframt þarf umsækjandi að sýna fram á að reiknað tap, ef eitthvert er, hafi í för með sér ósanngjarna byrði á fjárhag alþjónustuveitanda.
    Með hreinum kostnaði er í 1. mgr. átt við kostnað póstrekanda við að veita alþjónustu að frádregnum beinum tekjum af þjónustunni og markaðsávinningi sem alþjónustuveitandi hefur af því að veita alþjónustu.
    Um ósanngjarna byrði í skilningi 1. mgr. er að ræða þegar alþjónustukvöð á póstrekanda með almenna heimild um að veita tilteknum notendum eða notendahópum póstþjónustu eða veita hana á tilteknum svæðum leiðir til taps eða til aðstæðna sem ekki mundu skapast ef venjuleg viðskiptasjónarmið væru lögð til grundvallar. Tapið eða aðstæðurnar verða að teljast hafa veruleg áhrif á rekstrargetu fyrirtækisins og samkeppnismöguleika eða stofna efnahag þess í hættu.
    Með markaðsávinningi er í 2. mgr. m.a. átt við æviferilsáhrif, alnánd, ímynd og vörumerki. Við mat á markaðsávinningi umsækjanda skal m.a. taka mið af framkvæmd innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Ráðherra getur látið gera nýja markaðskönnun ef talið er að forsendur hennar hafi breyst verulega frá því að gerður var samningur um alþjónustu eða fyrirtæki útnefnt með skyldu til að veita alþjónustu.
    Hreinn kostnaður vegna alþjónustukvaðar greiðist úr ríkissjóði samkvæmt heimild í fjárlögum.
    Þrátt fyrir 1. mgr. getur póstrekandi sem er útnefndur, sbr. 11. gr., ekki farið þess á leit að honum verði með fjárframlögum tryggt endurgjald fyrir þjónustu vegna erlendra póstsendinga, sbr. 3. og 10. mgr. 17. gr.

IV. KAFLI

Nauðsynleg aðstaða.

13. gr.

Aðgangur að dreifikerfi og nauðsynlegri aðstöðu.

    Ef nauðsynlegt þykir, til að vernda hagsmuni notenda eða fyrirtækja á póstþjónustumarkaði og til að koma á virkri samkeppni, getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt kvaðir á póstrekendur sem eru skilgreindir sem alþjónustuveitendur um veitingu aðgangs að dreifikerfi sínu og nauðsynlegri aðstöðu. Við setningu slíkra kvaða skal gæta jafnræðis og gagnsæis. Aðgangur að eftirfarandi aðstöðu getur fallið hér undir, þ.e. aðgangur að:
     1.      Pósthólfum.
     2.      Póst- og bréfakössum.
     3.      Áframsendingarþjónustu.
     4.      Þjónustu í tengslum við endursendingu bréfa.
    Íhlutun Póst- og fjarskiptastofnunar getur m.a. tekið til ákvörðunar um gjald fyrir aðgang, þ.m.t. ákvörðunar endurgjalds fyrir aðgang, sem og skilyrða fyrir aðgangi, enda hafi viðkomandi aðilar ekki náð samkomulagi um gjald fyrir aðgang eða skilyrði þar að lútandi.
    Við málsmeðferð Póst- og fjarskiptastofnunar skulu m.a. eftirfarandi sjónarmið lögð til grundvallar:
     1.      Sanngirni þeirra skilyrða sem tengjast viðkomandi aðgangsbeiðni.
     2.      Þarfir notenda.
     3.      Þörf á að tryggja og viðhalda hagkvæmri þjónustu í tengslum við alþjónustu.
     4.      Aðrir möguleikar á hliðstæðum aðgangi fyrir aðgangsbeiðanda.
     5.      Samkeppni á markaði fyrir póstþjónustu.
     6.      Möguleikar til að veita umræddan aðgang.
     7.      Fjárfestingar alþjónustuveitanda.

14. gr.

Frímerki og gjaldmerki.

    Póst- og fjarskiptastofnun veitir póstrekendum heimild til útgáfu frímerkja og annarra gjaldmerkja. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að kveða á um að alþjónustuveitandi skuli gefa út frímerki og fer um þá kvöð skv. III. kafla.
    Öll íslensk frímerki bera áletrunina „ÍSLAND“.
    Um skipti á frímerkjum við erlend póstþjónustufyrirtæki fer eftir reglum sem Alþjóðapóstsambandið (UPU) kann að setja.
    Gjaldmerki önnur en frímerki bera heiti viðkomandi póstrekanda eða númer sem Póst- og fjarskiptastofnun úthlutar honum.

15. gr.

Póstnúmeraskrá.

    Póst- og fjarskiptastofnun ákvarðar landfræðileg mörk póstnúmera og gefur út póstnúmeraskrá og landfræðilega þekju póstnúmera. Breytingar á póstnúmeraskrá skulu ekki gerðar nema að höfðu samráði við Þjóðskrá Íslands.


V. KAFLI

Viðskiptaskilmálar, gjaldskrár og bókhald alþjónustuveitanda.

16. gr.

Viðskiptaskilmálar.

    Alþjónustuveitandi birtir opinberlega almenna viðskiptaskilmála og gjaldskrá sem gildir um alþjónustu sem hann sinnir á hverjum tíma. Ákvæði 1. málsl. telst uppfyllt ef upplýsingar eru aðgengilegar á vefsíðu hlutaðeigandi alþjónustuveitanda.
    Telji Póst- og fjarskiptastofnun skilmála brjóta gegn lögum, reglugerðum, almennum heimildum eða skyldum alþjónustuveitanda gerir stofnunin alþjónustuveitanda grein fyrir niðurstöðu sinni og gefur honum færi á að bæta úr ágöllum viðskiptaskilmála innan hæfilegs frests. Sama gildir hvað varðar ágalla á birtingu skv. 1. mgr.

17. gr.

Gjaldskrá alþjónustuveitanda.

    Gjöld fyrir alþjónustu skulu vera viðráðanleg fyrir notendur þannig að þeir geti notfært sér þjónustuna.
    Gjaldskrá fyrir alþjónustu skal vera sú sama um allt land.
    Gjaldskrár fyrir alþjónustu, þar á meðal gjaldskrár vegna erlendra póstsendinga, skulu taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Gjaldskrár skulu vera auðskiljanlegar og gæta skal jafnræðis og tryggja gagnsæi.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að krefjast þess að alþjónustuveitandi geri grein fyrir kostnaðargrundvelli gjaldskrár fyrir þjónustu innan alþjónustu. Alþjónustuveitandi skal að því er varðar gjaldskrár vegna erlendra póstsendinga gera Póst- og fjarskiptastofnun grein fyrir kostnaðargrundvelli gjaldskrár eigi síðar en fimm virkum dögum áður en hún tekur gildi.
    Alþjónustuveitanda er heimilt að setja sérstaka gjaldskrá fyrir fyrirtæki sem afhenda mikið magn bréfa í einu eða fyrirtæki sem safna saman bréfum mismunandi viðskiptavina og afhenda alþjónustuveitanda til dreifingar. Slík gjaldskrá getur tekið til dreifingar um land allt sem og svæðisbundinnar dreifingar. Alþjónustuveitanda er heimilt að miða við ákveðið dreifingarhlutfall bréfa eftir landsvæðum við útreikninga á sérstakri gjaldskrá.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist þess að alþjónustuveitandi geri kostnaðarlíkan til útreiknings á verði. Póst- og fjarskiptastofnun getur við útreikninga á kostnaði tekið mið af rekstri sambærilegrar þjónustu sem telst rekin á hagkvæman hátt, tekið mið af gjaldskrám á sambærilegum samkeppnismörkuðum og notað kostnaðargreiningaraðferðir sem eru óháðar aðferðum póstrekanda.
    Telji Póst- og fjarskiptastofnun gjaldskrá alþjónustu ekki uppfylla skilyrði þessarar greinar gerir stofnunin kröfu um úrbætur.
    Nánar er kveðið á um bókhald og gjaldskrár í reglugerð, m.a. um einstaka vöruflokka á einstaklingsmarkaði sem falla undir kvöð um samræmda gjaldskrá, um aðferðir við eignamat, afskriftir, ávöxtunarkröfu og gerð kostnaðarlíkana.
    Nú verður alþjónustuveitandi ekki við fyrirmælum Póst- og fjarskiptastofnunar samkvæmt grein þessari og getur þá stofnunin ákveðið póstrekanda dagsektir skv. 12. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, þar til bætt er úr.
    Gjald sem alþjónustuveitanda er heimilt að leggja á erlendar póstsendingar skv. 3. mgr. skal greitt af viðtakanda sendingar.

18. gr.

Um breytingar á gjaldskrá innan alþjónustu.

    Breytingar á gjaldskrá innan alþjónustu fyrir einstök bréf og pakka upp að 10 kg skal tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun með að lágmarki tíu daga fyrirvara áður en gjaldskrá tekur gildi. Slíkum breytingum á gjaldskrá skal fylgja fullnægjandi rökstuðningur.
    Breytingar á gjaldskrá fyrir magnpóst, þ.m.t. breytingar á verði og skilmálum, skal tilkynna með að lágmarki 30 daga fyrirvara. Alþjónustuveitandi skal fyrir sömu tímamörk senda Póst- og fjarskiptastofnun fullnægjandi rökstuðning fyrir breytingum sem gerðar eru.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að yfirfara útreikninga alþjónustuveitanda og getur eftir atvikum kveðið á um breytingar á tilkynntu verði ef útreikningar alþjónustuveitanda eru ekki réttir eða gefa ekki tilefni til þeirrar hækkunar sem tilkynnt var. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að samþykkja og/eða synja beiðni um gjaldskrárbreytingu að hluta eða í heild. Póst- og fjarskiptastofnun hefur 30 virka daga til að bregðast við tilkynningum um breytingu á gjaldskrá.
    Breytingar á gjaldskrá innan alþjónustu ásamt rökstuðningi skulu birtar á vefsíðu Póst- og fjarskiptastofnunar.

19. gr.

Fyrirkomulag bókhalds alþjónustuveitanda.

    Bókhald alþjónustuveitanda skal byggjast á hlutlægum reikningsskilareglum í samræmi við viðurkenndar aðferðir. Ársreikningar alþjónustuveitanda skulu gerðir í samræmi við lög um bókhald og lög um ársreikninga og birtir opinberlega.
    Alþjónustuveitandi skal í bókhaldi sérgreina kostnað og tekjur fyrir sérhverja tegund þjónustu sem fellur undir alþjónustu. Bókhaldsleg aðgreining er forsenda þess að alþjónustuveitandi geti sótt um fjárframlag vegna alþjónustu sem honum er skylt að veita og hann telur ósanngjarna byrði á fjárhag sinn.

20. gr.

Upplýsingar um starfsemi og rekstur.

    Alþjónustuveitandi veitir Póst- og fjarskiptastofnun upplýsingar um rekstur sinn og fjárhag svo að stofnunin geti haft eftirlit með starfsemi hans, þ.m.t. um fjárhagsstöðu með tilliti til hættu á rekstrarstöðvun. Póst- og fjarskiptastofnun eða löggiltum endurskoðanda í umboði stofnunarinnar skal hvenær sem er og án fyrirvara heimilaður aðgangur að bókhaldi alþjónustuveitanda í þeim tilgangi að sannreyna að aðgreining kostnaðar fari rétt fram og til að kanna hver sé kostnaður við alþjónustu.
    Alþjónustuveitandi lætur Póst- og fjarskiptastofnun í té upplýsingar um gæði alþjónustu, sbr. 21. gr. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að birta slíkar upplýsingar í úttekt sinni.
    Alþjónustuveitandi birtir opinberlega helstu upplýsingar um alþjónustu sem hann sinnir, þar á meðal forsendur og gæðakröfur á hverjum tíma. Ákvæði 1. málsl. telst uppfyllt ef upplýsingar eru aðgengilegar á vefsíðu hlutaðeigandi alþjónustuveitanda.

VI. KAFLI

Kröfur um þjónustu og gæði.

21. gr.

Gæðakröfur.

    Ráðherra setur reglugerð um kröfur um gæði útburðar bréfa í lægsta þyngdarflokki innan alþjónustu. Þar er m.a. kveðið á um hver skuli vera lengstur tími frá móttöku póstsendinga til útburðar miðað við ákveðinn hundraðshluta, lágmarksafgreiðslutíma póstafgreiðslustaða, hversu oft póstkassi er tæmdur, hámarkstíma frá því að póstur berst til landsins þar til hann er borinn út og hámarkstíma frá móttöku póstsendinga til útlanda þangað til þær eru afhentar flutningsaðila. Þá er kveðið á um veitingu undanþágu frá gæðakröfum um tímalengd og tilkynningar slíkra undanþágna til eftirlitsstofnana erlendis.
    Gæðakröfur sem varða bréf í lægsta þyngdarflokki innan alþjónustu milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins skulu vera í samræmi við ákvæði viðauka I við lög þessi.
    Alþjónustuveitandi lætur árlega óháðan aðila kanna gæði dreifingar lægsta þyngdarflokks bréfa innan alþjónustu.
    Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með því að gæðakröfur séu virtar og birtir opinberlega skýrslu um niðurstöður sínar.
    Póst- og fjarskiptastofnun skulu veittar nauðsynlegar upplýsingar vegna skráningar og eftirlits. Þar á meðal eru tölfræðilegar upplýsingar um starfsemi, svo sem heildartölur um fjölda póstlagðra sendinga í mismunandi þjónustu- og þyngdarflokkum, tölur um afgreiðslumagn einstakra afgreiðslustaða, upplýsingar um dreifingu á mismunandi stöðum o.fl.

22. gr.
Staðlar.

    Póstrekendur skulu hafa að leiðarljósi staðla um póstmál sem staðfestir eru af Staðlaráði Íslands. Ráðherra getur áskilið í reglugerð að sama gildi um staðla sem birtir eru í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, einkum þegar efni þeirra fellur undir ákvæði 27. gr.

23. gr.
Öryggi póstsendinga.

    Póstrekendur skulu tryggja örugga meðferð allra póstsendinga meðan þær eru í vörslu þeirra og verktaka þeirra.
    Póstrekandi sem hyggst bjóða upp á rafræna meðhöndlun bréfa, svo sem með því að yfirfæra þau á stafrænt form og birta í rafrænu pósthólfi, skal tryggja öryggi rafrænna pósthólfa með viðeigandi ráðstöfunum sem geta m.a. falist í dulkóðun, auðkenningu notenda og notkun öryggisstaðla.
    Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur um öryggi póstsendinga og öryggismál á póstafgreiðslustöðum.

24. gr.
Póstleynd.

    Einungis má veita upplýsingar um póstsendingar og notkun póstþjónustu að undangengnum dómsúrskurði eða samkvæmt heimild í öðrum lögum.
    Öllum sem starfa við póstþjónustu er óheimilt að gefa óviðkomandi aðilum upplýsingar um póstsendingar eða gefa öðrum tækifæri til þess að verða sér úti um slíka vitneskju. Enn fremur er þeim óheimilt að opna eða lesa það sem afhent er til póstsendingar. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    Póstrekanda er heimilt að senda hérlendum og erlendum tollyfirvöldum, flutningsaðila eða póstrekanda erlendis upplýsingar skv. a–e-lið til að flýta fyrir tollafgreiðslu sendinga og tryggja öryggi póstflutninga á sjó, landi og í lofti eða með vísan til allsherjarreglu:
     a.      tengiupplýsingar um sendanda,
     b.      tengiupplýsingar um viðtakanda,
     c.      upplýsingar um innihald,
     d.      upplýsingar um verðmæti,
     e.      upplýsingar um auðkenni póstsendingar.
    Póstrekanda er heimilt að taka við upplýsingum skv. 3. mgr. frá sömu aðilum og þar er getið.
    Ráðherra getur með reglugerð ákveðið, að höfðu samráði við Persónuvernd, að heimila sendingu og viðtöku á öðrum upplýsingum en skv. a–e-lið 3. mgr. og ákveða í hvaða tilgangi heimilt er að senda upplýsingar skv. 3. mgr.
    Vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt lögum þessum skal uppfylla kröfur laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

25. gr.
Undanþágur frá póstleynd.

    Þrátt fyrir ákvæði 24. gr. er heimilt að opna án dómsúrskurðar póstsendingar sem ekki er unnt að koma til skila í því skyni að freista þess að komast að því hverjir sendendur eru svo að hægt sé að endursenda þær. Enn fremur er heimilt að leyfa að sendingar séu opnaðar þegar það er óhjákvæmilegt vegna flutnings þeirra eða til að kanna hugsanlegar skemmdir á innihaldi. Sama á við þegar rökstuddur grunur leikur á um að ekki hafi verið forsvaranlega búið um sendinguna vegna innihalds hennar eða að sending innihaldi hluti sem hættulegt getur verið að senda. Póstrekandi skal halda skrá yfir póstsendingar sem eru opnaðar án dómsúrskurðar.
    Um opnun á póstsendingum vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda fer samkvæmt ákvæðum tollalaga.
    Póstsendingar til einstaklinga sem úrskurðaðir hafa verið gjaldþrota má afhenda skiptastjórum eftir beiðni þeirra enda beri þær með sér að varða fjárhagsmálefni þrotamanns. Sendingar til látinna manna skal á sama hátt afhenda skiptastjóra þegar um opinber skipti er að ræða. Þegar um einkaskipti er að ræða skulu allar póstsendingar afhentar forráðamanni dánarbús nema þær beri með sér að vera einkabréf. Skal sending þá endursend með viðeigandi skýringu áritaðri á sendinguna sjálfa.

26. gr.
Skylda til að flytja póstsendingar.

    Hverjum þeim sem heldur uppi reglubundnum flutningum innan lands eða til útlanda er skylt, ef þess er óskað, að flytja póstsendingar innan alþjónustu milli staða enda komi eðlileg greiðsla fyrir. Slíkar póstsendingar skulu njóta forgangs fram yfir annan póst- eða vöruflutning. Flutningsaðilar sem annast póstflutninga skulu tryggja örugga meðferð pósts.
    Ef upp kemur ágreiningur á milli flutningsaðila og alþjónustuveitanda, t.d. um hvað telst eðlileg greiðsla, geta aðilar borið ágreiningsefnið undir Póst- og fjarskiptastofnun.

27. gr.
Móttaka og afhending póstsendinga.

    Póstrekendum er heimilt að setja í skilmála ákvæði um frágang póstsendinga sem þeir taka á móti. Skilmálarnir skulu vera skýrir og jafnræðis gætt. Póstrekendur skulu við móttöku ganga úr skugga um að frágangur sendingar sé þannig að hægt verði að koma sendingunni til viðtakanda.
    Skylt er að dagstimpla póstsendingar sem teljast til almenns bréfapósts upp að 2 kg sé því lofað að póstsending berist fyrir tiltekinn tíma. Dagstimplun sýnir móttökudag póstsendinga.
    Póstsendingu skal komið til þess sem hún er stíluð á eða hefur umboð til viðtöku hennar, í bréfakassa eða pósthólf viðtakanda, á afgreiðslustað eða sjálfsafgreiðslukassa, með skönnun á afhendingarstað ef við á, eða þangað sem utanáskrift segir að öðru leyti til um. Ekki er skylt að krefja um undirskrift viðtakanda nema fyrir sendingar þar sem greitt hefur verið fyrir slíka viðbótarþjónustu, þ.e. kvittun fyrir afhendingu.
    Móttakendum póstsendinga er skylt að setja upp bréfakassa eða bréfalúgu svo að póstrekendur geti komið póstsendingum til skila á hagkvæman hátt. Um staðsetningu bréfakassa eða bréfalúgu fer að jafnaði eftir ákvæðum byggingarreglugerðar. Um staðsetningu bréfakassa í dreifbýli, t.d. fjarlægð frá heimili eða atvinnuhúsnæði, sem og staðsetningu í fjölbýlishúsum, er kveðið á í reglugerð um alþjónustu.
    Alþjónustuveitanda er heimilt að setja upp á einum stað bréfakassasamstæður fyrir alla móttakendur póstsendinga í þéttbýli. Slík bréfakassasamstæða skal vera aðgengileg með tilliti til umferðar og umhverfis. Hafa skal samráð við viðkomandi sveitarstjórnir um staðsetninguna. Bréfakassasamstæður eru settar upp á kostnað alþjónustuveitanda. Nánar er kveðið á um útfærslu í reglugerð um alþjónustu, t.d. um póstnúmer þar sem þetta er heimilt, frágang bréfakassasamstæðna, stærð, fjarlægðarmörk og staðsetningu.
    Póstrekendum er heimilt að endursenda póstsendingar ef bréfakassar eða bréfalúgur viðtakanda eru ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar eða reglugerðar um alþjónustu.
    Póstsending telst vera í vörslu póstrekanda og á ábyrgð hans frá móttöku og þar til hún hefur verið afhent á tilgreindum afhendingarstað.
    Sendandi telst eigandi póstsendingar sem hann hefur afhent póstrekanda þar til hún hefur verið afhent viðtakanda. Sendandi hefur jafnframt ráðstöfunarrétt yfir sendingunni og er heimilt að gefa póstrekanda ný fyrirmæli um póstmeðferð þar til hún hefur verið afhent tilgreindum viðtakanda.
    Í tilfellum þar sem viðtakandi hefur pantað póstsendinguna, t.d. í netverslun, telst hann sendandi. Póstrekanda er heimilt að innheimta aukagjald vegna kostnaðar sem hlýst af nýjum fyrirmælum frá sendanda eða viðtakanda eða vegna atvika sem varða viðtakandann og koma í veg fyrir að hægt sé að veita þjónustuna í samræmi við skilmála hennar.

28. gr.
Óumbeðnar fjöldasendingar.

    Póstrekendum er skylt að virða merkingar notenda sem kveða á um að viðkomandi viðtakandi óski ekki eftir óumbeðnum fjöldasendingum, svo sem fjölpósti, fríblöðum eða almennu kynningarefni frá fyrirtækjum.
    Tilkynningar veitufyrirtækja, t.d. fjarskipta-, vatns- og rafmagnsveitna, falla ekki hér undir ef verið er að tilkynna um tímabundið rof á þjónustu vegna framkvæmda og því um líkt. Sama gildir um kynningarefni vegna kosninga á vegum stjórnvalda, tilkynningar sveitarfélaga til íbúa sinna og tilkynningar stjórnvalda sem varða almannahag og almannaöryggi.

29. gr.
Óskilasendingar.

    Póstrekandi setur sér reglur um meðferð óskilasendinga sem uppfylla skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Póstrekendur skulu gera allar eðlilegar ráðstafanir til að koma póstsendingum til skráðra viðtakenda. Ef ekki tekst að koma póstsendingu til skila vegna rangra eða ófullkominna upplýsinga um nafn og heimilisfang eða vegna þess að skráður viðtakandi hefur flust búferlum skal póstrekandi endursenda hana til sendanda. Póstrekendum er heimilt að endursenda til sendanda póstsendingar sem póstlagðar eru án þess að burðargjald hafi verið innt af hendi. Þegar póstsending í óskilum er ekki merkt sendanda og ekki er hægt að endursenda hana er póstrekanda heimilt að opna póstsendinguna í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Við gerð og beitingu þessara reglna skal þess gætt að óskilasendingar geta innihaldið viðkvæmar persónuupplýsingar.
    Póstsendingar sem fyrir mistök komast í hendur annars póstrekanda en ætlað var að flytja sendinguna skulu sendar réttum póstrekanda strax og unnt er.

30. gr.
Óheimilar póstsendingar.

    Óheimilt er að afhenda póstrekanda sendingar með innihaldi sem er hættulegt eða brýtur í bága við ákvæði laga að hafa undir höndum.

31. gr.
Umbúðir póstsendinga.

    Ganga skal tryggilega frá póstsendingum sem afhentar eru póstrekendum í umbúðum. Póstrekendur geta hafnað því að veita póstsendingum móttöku ef hætta er talin á að umbúðir muni skemmast í höndum póstrekandans. Móttaka póstsendingar með innihaldi sem getur valdið skaða, smiti eða veikindum er skilyrt því að rétt sé búið um sendinguna og hún merkt í samræmi við innihald. Dæmi um slíkt innihald eru lífræn, auðskemmd efni, smitefni og geislavirk efni.

VII. KAFLI

Meðferð kvartana og skaðabætur.

32. gr.

Meðferð kvartana.

    Póstrekendur skulu semja reglur um meðferð kvartana frá notendum og birta opinberlega.
    Reglur skv. 1. mgr. skulu gefa kost á skjótri og sanngjarnri lausn deilumála með endurgreiðslum eða skaðabótum þegar þær eiga rétt á sér.
    Telji notendur póstþjónustu eða aðrir sem hafa hagsmuna að gæta að póstrekandi brjóti gegn lögum, skilyrðum sem mælt er fyrir um í almennum heimildum eða réttindum þeirra getur hlutaðeigandi beint kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar um að hún láti málið til sín taka á grundvelli laga um Póst- og fjarskiptastofnun.

33. gr.

Skaðabætur.

    Póstrekendum er ekki skylt að greiða skaðabætur fyrir óskráðar póstsendingar sem glatast eða seinkar vegna óviðráðanlegra aðstæðna eða atburða (force majeure).
    Sendendur skráðra póstsendinga geta átt rétt á skaðabótum fyrir slíkar sendingar sem glatast eða eyðileggjast að einhverju eða öllu leyti í vörslu póstrekenda.

34. gr.

Ábyrgðartakmarkanir.

    Póstrekendum er heimilt að setja viðmið í viðskiptaskilmála um hámark skaðabótaábyrgðar sem tryggð er eins og á við um einstakar tegundir póstsendinga.

35. gr.

Óbeint tjón.

    Skaðabótaskylda samkvæmt þessum kafla nær aðeins til þess hlutar verðmætis sem glatast hefur eða rýrnunar sem stafar af skemmdum á sendingunni hjá póstrekanda. Ekki er skylt að bæta fyrir ábata- eða afnotamissi, tjón vegna rýrnunar á verðgildi peninga eða verðbréfa eða aðrar óbeinar afleiðingar.

36. gr.

Póstsendingar milli landa.

    Um skaðabætur fyrir póstsendingar milli landa fer eftir gildandi milliríkjasamningum. Glatist sending eða skemmist hjá póstrekanda á íslensku landsvæði greiðast þó skaðabætur eins og um innlenda sendingu sé að ræða enda sé það hagstæðara fyrir tjónþola.

37. gr.

Fyrning skaðabótakröfu.

    Skylda til greiðslu skaðabóta fellur niður sé þeirra ekki krafist innan sex mánaða frá því að viðkomandi póstsending var afhent til flutnings.

VIII. KAFLI

Milliríkjasamningar, viðurlög o.fl.

38. gr.
Póstþjónusta við önnur lönd.

    Ákvæði laga þessara gilda einnig um póstþjónustu við önnur lönd.
    Ráðherra getur falið Póst- og fjarskiptastofnun að útnefna póstrekanda samkvæmt lögum þessum til að fara með réttindi og skyldur samkvæmt alþjóðapóstsamningnum.
    Við gerð samninga um endastöðvargjöld fyrir póstsendingar milli landa sem falla undir alþjónustu og/eða alþjóðapóstsamninginn skal útnefnt fyrirtæki hafa til viðmiðunar eftirtaldar grundvallarreglur:
     1.      Endastöðvargjöld skulu taka mið af kostnaði við póstmeðferð, þ.m.t. útburð.
     2.      Upphæð gjalda skal vera í samræmi við gæði þjónustu.
     3.      Endastöðvargjöld skulu vera gagnsæ og jafnræðis gætt.

39. gr.
Heimild til rekstrarstöðvunar.

    Póstrekendur með almenna heimild til veitingar póstþjónustu skulu að beiðni Póst- og fjarskiptastofnunar veita stofnuninni upplýsingar samkvæmt lögum um Póst- og fjarskiptastofnun sem nauðsynlegar eru til þess að ganga úr skugga um að farið sé eftir skilyrðum laga þessara.
    Komist Póst- og fjarskiptastofnun að þeirri niðurstöðu að póstrekandi fari ekki að skilmálum almennra heimilda eða skilyrðum sem tengjast réttindum eða sérstökum kvöðum skal stofnunin tilkynna póstrekandanum um þessa niðurstöðu og gefa honum tækifæri til að koma skoðun sinni á framfæri eða lagfæra brot sitt innan eins mánaðar frá dagsetningu tilkynningar eða skemmri tíma sem aðilinn samþykkir eða Póst- og fjarskiptastofnun kveður á um þegar um endurtekið brot er að ræða eða lengri tíma sem Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir.
    Við alvarleg og endurtekin brot á skilmálum almennrar heimildar eða skilyrðum sem tengjast réttindum eða sérstökum kvöðum þegar ráðstafanir til að tryggja að farið verði að lögum hafa mistekist getur Póst- og fjarskiptastofnun stöðvað rekstur eða þjónustu póstrekanda, afskráð hann af lista yfir póstrekendur eða afturkallað réttindi tímabundið eða varanlega.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur, ef sannanir liggja fyrir um brot á skilmálum almennrar heimildar eða skilyrðum sem tengjast réttindum eða sérstökum kvöðum sem leiðir til yfirvofandi hættu fyrir öryggi og heilsu almennings eða getur skapað alvarleg fjárhagsleg eða rekstrarleg vandamál fyrir aðra póstrekendur eða notendur, tekið bráðabirgðaákvarðanir til að bæta úr ástandinu áður en endanleg ákvörðun er tekin. Póstrekandanum sem í hlut á skal að lokinni bráðabirgðaákvörðun veitt tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og leggja til úrbætur. Þegar við á getur Póst- og fjarskiptastofnun staðfest bráðabirgðaákvörðun sína.

40. gr.
Viðurlög.

    Brot á ákvæðum 2. og 3. mgr. 9. gr. og 19., 20., 23., 24., 29. og 30. gr. og reglugerða settra samkvæmt þeim varða sektum. Stórfelld brot eða ítrekuð varða fangelsi allt að tveimur árum. Með stórfelldu broti er m.a. átt við það þegar brot er framið í tengslum við skipulagða brotastarfsemi.
    Gáleysisbrot skulu eingöngu varða sektum.
    Nú er brot skv. 1. mgr. framið í starfsemi lögaðila og má þá gera lögaðilanum fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Tilraun til brota og hlutdeild í brotum skv. 1. mgr. er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

41. gr.
Almenn reglugerðarheimild.

    Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:
     1.      Alþjónustu og val á alþjónustuveitanda.
     2.      Nánari útfærslu á þjónustu sem fellur undir alþjónustu skv. 9. gr., þar á meðal um gæði, þjónustusvæði, söfnun póstsendinga, skilyrði fyrir fækkun dreifingardaga, tegundir þjónustu sem fellur undir alþjónustu innan lands og milli landa, aðgengi að póstafgreiðslustöðum, notkun auðkennisins póstlúður, útgáfu frímerkja, móttöku og afhendingu póstsendinga, staðsetningu bréfakassa í dreifbýli, póstnúmer o.fl. skv. 9., 10., 27. og 29. gr.
     3.      Bókhald og gjaldskrár alþjónustuveitenda, þar á meðal um aðferðir við eignamat, afskriftir, ávöxtunarkröfu og gerð kostnaðarlíkana skv. 17. gr.
     4.      Aðgreiningu tekna og kostnaðar milli alþjónustu og annarrar þjónustu skv. 19. gr.
     5.      Gæðakröfur til alþjónustu skv. 21. gr.
     6.      Móttöku og afhendingu póstsendinga, skv. 27. gr.
     7.      Pakkasendingar milli landa skv. 38. gr. þar sem m.a. er heimilt að kveða á um eftirfarandi:
                  a.      Upplýsingaskyldu póstrekanda vegna gjaldskrár um pakkasendingar milli landa, t.d. verð, skilmála, veltu, starfsmannafjölda o.fl.
                  b.      Fresti til að láta upplýsingar í té og um birtingu þeirra opinberlega.
                  c.      Viðmið um hvernig eftirlitsaðilar eiga að meta hvort gjaldskrá sé viðráðanleg fyrir neytendur.
                  d.      Innleiðingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/644 um pakkasendingar yfir landamæri.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:
     1.      Undantekningar frá dreifingarskyldu innan alþjónustu skv. 9. gr. til einstaklinga og lögaðila, að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum, þannig að alþjónustuskylda teljist uppfyllt með öðrum hætti.
     2.      Aðgang að nauðsynlegri aðstöðu og þjónustu og bókhaldslega aðgreiningu á aðgangi að nauðsynlegri aðstöðu skv. 13. gr.
     3.      Bókhald alþjónustuveitanda í samræmi við 14. og 15. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 97/67/EB, með síðari breytingum, og aðgreiningu tekna og kostnaðar á milli alþjónustu og annarrar þjónustu skv. 19. gr.
     4.      Staðla sem birtir eru í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins skv. 22. gr., sbr. 27. gr.
     5.      Meðferð óskilasendinga.
     6.      Ólögmætt innihald póstsendinga skv. 30. gr.
     7.      Annað sem kann að varða framkvæmd póstþjónustu, svo sem um frágang, umbúðir og merkingar, skv. 31. gr.

42. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020. Um leið falla úr gildi lög um póstþjónustu, nr. 19/2002, með síðari breytingum.
    Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast ákvæði til bráðabirgða þegar gildi.

43. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum: 7. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna orðast svo: Póstþjónusta vegna bréfasendinga, svo sem móttaka og dreifing á árituðum bréfum, þ.m.t. póstkortum, blöðum og tímaritum.
     2.      Lög um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, með síðari breytingum:
                  a.      Í stað orðanna „eða rekstrarleyfum“ í 6. mgr. 5. gr. laganna kemur: rekstrarleyfum eða skilgreindum alþjónustukvöðum.
                  b.      Í stað orðanna „rekstrarleyfishafa í póstþjónustu“ í 1. málsl. 7. mgr. 5. gr. laganna kemur: póstrekanda.
                  c.      Í stað orðanna „rekstrarleyfi fyrir póstþjónustu“ í 8. mgr. 5. gr. laganna kemur: afskráð hann af lista yfir póstrekendur.
                  d.      Í stað orðsins „rekstrarleyfi“ í 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: rekstrarleyfi eða skilgreindum alþjónustukvöðum.
                  e.      Í stað orðanna „útgáfu rekstrarleyfa“ í 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: tilnefningu alþjónustuveitanda.
                  f.      Í stað „0,34%“ í 1. málsl. 4. mgr. 14. gr. laganna kemur: 0,4%.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Íslandspóstur ohf. skal afhenda Póst- og fjarskiptastofnun upplýsingar um gildandi póstnúmerakerfi eigi síðar en 1. nóvember 2019.

Viðauki I.
Gæðakröfur fyrir póstsendingar milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Gæðakröfur fyrir póstsendingar milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins skulu í hverju landi settar um lengsta tíma fyrir póstmeðferð frá móttökustað til afhendingarstaðar og er hann mældur fyrir póstsendingar sem eru í hraðasta flokki samkvæmt jöfnunni D + n þar sem D merkir móttökudag og n fjölda virkra daga sem líða milli móttökudags og afhendingar sendingarinnar til áritaðs móttakanda.
    Móttökudagur telst sá dagur þegar póstsendingin er lögð inn svo framarlega sem það á sér stað fyrir þann tíma sem tilkynnt hefur verið að síðasta söfnun póstsendinga á þeim móttökustað sem um ræðir muni eiga sér stað. Þegar sending er lögð inn eftir þennan tíma skal móttökudagur teljast næsti söfnunardagur.
    Þær gæðakröfur eru gerðar að 85% bréfa séu afhent samkvæmt fyrirkomulagi D + 3 og 97% samkvæmt fyrirkomulagi D + 5.

Viðauki II.
Leiðbeiningar um útreikning á hreinum kostnaði alþjónustu, ef einhver er.

A-hluti: Útreikningur á hreinum kostnaði.
    Leita skal leiða til að tryggja póstrekendum viðeigandi hvatningu til að rækja alþjónustuskyldur á sem skilvirkastan hátt að því er kostnað varðar.
    Hreinn kostnaður alþjónustuskyldna er allur kostnaður sem tengist og er óhjákvæmilegur við rekstur alþjónustu. Hreinn kostnaður alþjónustuskyldna er reiknaður sem mismunur á hreinum kostnaði alþjónustuveitanda sem samið er við eða gert skylt að veita alþjónustu og kostnaði sama póstrekanda án skyldu til að veita alþjónustu.
    Útreikningarnir skulu fela í sér alla aðra viðkomandi þætti, þ.m.t. rétt á sanngjörnum hagnaði, hvata til kostnaðarhagkvæmni, óefnislegan ávinning og markaðsávinning, sem falla til póstrekanda sem er tilnefndur til að veita alþjónustu.
    Vandlega skal hugað að því að meta rétt kostnað sem alþjónustuveitandi hefði kosið að komast hjá hefði ekki verið um neinar alþjónustuskyldur að ræða. Við útreikning á hreinum kostnaði er metinn ávinningur, þ.m.t. óefnisleg hlunnindi, sem póstrekandi sem veitir alþjónustu nýtur.
    Útreikningur grundvallast á kostnaði sem hægt er að heimfæra á:
    i.         Þætti í viðkomandi þjónustu sem aðeins er hægt að veita með tapi eða hafa í för með sér meiri kostnað en eðlilegt getur talist í viðskiptum. Þessi flokkur getur falið í sér þjónustuþætti, svo sem þjónustu sem skilgreind er í A-hluta tilskipunarinnar.
    ii.    Tiltekna notendur eða hópa notenda sem aðeins er hægt að þjóna með tapi eða með meiri kostnaði en eðlilegt getur talist í viðskiptum, að teknu tilliti til kostnaðar og tekna af starfrækslu viðkomandi þjónustu og viðeigandi samræmdra gjalda.
    Undir þennan flokk falla notendur og hópar notenda sem fengju enga þjónustu hjá póstrekanda sem starfaði á viðskiptagrundvelli og væri ekki skylt að veita alþjónustu.
    Útreikningur á hreinum kostnaði við afmarkaða þætti alþjónustuskyldu skal fara fram aðskilið og þannig að komist sé hjá því að tvítelja hvers kyns bein eða óbein hlunnindi og kostnað. Hreinn heildarkostnaður tilnefnds veitanda alþjónustu, sem hlýst af alþjónustuskyldu, er reiknaður sem summan af hreinum kostnaði sem hlýst af tilteknum þáttum alþjónustuskyldu, að teknu tilliti til hvers kyns óefnislegra hlunninda. Stjórnvöld sannprófa hver er hreinn kostnaður. Veitandi alþjónustu á samstarf við stjórnvöld til að gera þeim kleift að sannprófa hreinan kostnað.

B-hluti: Hreinn kostnaður við alþjónustuskyldu endurheimtur.
    Endurheimt eða fjármögnun hreins kostnaðar við alþjónustuskyldu getur krafist þess að viðsömdum eða tilnefndum veitendum alþjónustu sé bættur kostnaður við þjónustu sem þeir veita en er ekki veitt á venjulegum viðskiptagrundvelli. Þar sem slíkar bætur fela í sér tilfærslu fjár skal tryggja að þær séu gerðar þannig að þær séu hlutlægar, gagnsæjar, án mismununar og hlutfallsbundnar. Þetta hefur í för með sér að tilfærslurnar valda, að því marki sem það er unnt, minnstu mögulegu röskun á samkeppni og eftirspurn.