Ferill 1016. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1972  —  1016. mál.
Fyrirspurn


til dómsmálaráðherra um brottvísun barna sem sótt höfðu um alþjóðlega vernd.

Frá Jóni Þór Ólafssyni.


     1.      Í hve mörgum af 317 tilfellum er varða brottvísun barna úr landi, sem sótt höfðu um alþjóðlega vernd, sbr. svar á þskj. 1637, var synjað um efnismeðferð? Í hve mörgum tilfellum var synjað um alþjóðlega vernd í kjölfar efnislegrar meðferðar? Hve mörg þessara barna voru ekki í fylgd með foreldrum sínum og á hvaða aldri voru þau?
     2.      Var í öllum tilfellum við ákvörðun í málum barnanna 317 tekin skrifleg afstaða til þess sem er barninu fyrir bestu, eins og mælt er fyrir um í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, og litið til:
                  a.      möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska,
                  b.      skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska?
     3.      Var við ákvörðun í framangreindum málum leitað samráðs við barnaverndaryfirvöld, eins og mælt er fyrir um í 5. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016? Var leitað umsagnar Barnaverndarstofu þegar um var að ræða fylgdarlaus börn, eins og skylt er að gera samkvæmt sama ákvæði?
     4.      Telur ráðherra að rökstuðningur Útlendingastofnunar í málum þessara 317 barna falli undir upplýsingalög, nr. 140/2012? Ef ekki, hvaða lagaheimildir hefur ráðherra til að birta rökstuðninginn? Hverjum má birta hann, annars vegar í heild sinni og hins vegar án persónugreinanlegra upplýsinga?


Skriflegt svar óskast.