Ferill 897. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2019  —  897. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um hreinleika laxastofns.


     1.      Hvaða skilgreiningu leggur ráðuneytið til grundvallar við skilgreiningu á hreinum laxastofni?
    Leitað var til Hafrannsóknastofnunar varðandi frekari útskýringar og byggist svarið á upplýsingum stofnunarinnar.
    Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) setti fram skilgreiningu á villtum laxastofnum árið 1996 (Report of Theices C M 1996/ Assess: 11 Ref.:M Working group on North Atlantic Salmon, Moncton, Canada 10-19 April 1996).
    Skilgreining ICES á villtum laxi (e. definition of wild salmon) er eftirfarandi:
    Villtur lax er lax sem dvalið hefur allan sinn lífsferil í villtri náttúru og er undan foreldrum sem klöktust úr hrygningu og lifðu allt sitt lífsskeið í villtri náttúru (e. Wild salmon are fish that have spent their entire life cycle in the wild and originate from parents which were also spawned and continuously lived in the wild).
     1.      Innfæddur (e. native) lax er lax sem tilheyrir stofni (e. population) án þekktra áhrifa frá viljandi eða óviljandi sleppingum (e. Native salmon are wild salmon which are members of a population with no known effects from intentional or accidental releases).
     2.      Aðlagaður lax (e. naturalized) eru fiskar sem hafa lifað allan sinn lífsferil í villtri náttúru og eru undan foreldrum, öðru eða báðum, sem eru ekki villtir eða innfæddir laxar (e. Naturalized salmon are fish that have spent their entire life cycle in the wild and originate from parents, one or both of which were not wild or native salmon).
     3.      Lax úr sleppingum eru fiskar sem eru úr greftri hrogna og/eða að eldisaðferðir hafi verið notaðar á einhverju lífsskeiði þeirra eða hefur verið sleppt viljandi út í villta náttúru (e. Stocked salmon are fish that have had artificial spawning and/or rearing techniques applied at some point of their life cycle and/or originate from intentional releases to the wild).
     4.      Strokulaxar eru fiskar sem hafa verið að hluta eða allan sinn lífsferil í eldi og eru úr slysasleppingum eða sleppingum sem ekki eru ráðgerðar í villta náttúru (e. Escaped salmon are fish that have spent some or all of their life cycle undergoing artificial propagation and originate from accidental or unplanned releases into the wild).
    Þekking hefur aukist á skyldleika laxastofna hér á landi og almennt má segja að hver á sinn stofn sem yfirleitt er skyldastur stofnum í nærliggjandi ám. Rannsóknir á erfðafræði íslenskra laxastofna og skyldleika þeirra benda þó til að lítil blöndun á milli þeirra hafi átt sér stað (Anna Daníelsdóttir o.fl. 1997, Kristinn Ólafsson o.fl. 2014). Skyldleikatré fyrir íslenska laxastofna getur að líta hér:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Skyldleikatré (DA-erfðafjarlægð) sem sýnir tengsl 48 laxastofna/áa á Íslandi. Litir við enda greina tákna landsvæði áa. Hvítir hringir á greinum tákna líkindi yfir 50% miðað við 10.000 endurúrtök (Leó Alexander Guðmundsson o.fl. 2018).

     2.      Er til yfirlit yfir ár eða vötn sem seiðum eða fiski hefur verið sleppt í en voru fisklaus áður?
    Hafrannsóknastofnun sinnir rannsóknum á fiskrækt og byggir ráðuneytið svarið á upplýsingum frá stofnuninni.
    Ekki er til yfirlit yfir ár eða vötn sem seiðum eða fiski hefur verið sleppt í en voru fisklaus áður. Þekktustu dæmin um sleppingar fiska í vötn, sem fyrir voru fisklaus, eru vötnin sunnan Tungnaár á Landmannaafrétti. Rétt er einnig að nefna að á árum áður var í einhverjum tilvikum bleikju sleppt í vötn þar sem einungis urriði var fyrir.
    Fá dæmi eru um sleppingar fiska í fisklausar ár. Nefna má vatnasvæði Eystri-Rangár. Þar er hluti laxa náttúrulegur, þ.e. elst upp í ánum, en veiði þar byggist þó að mestu á sleppingum alinna seiða. Til viðbótar má nefna að í kjölfar umhverfisslyss í maí 2017 þegar inntakslón Andakílsvirkjunar var losað í ána, er áætlað í ár og 2020 að sleppa í ána um 30.000 seiðum úr stofni árinnar til að freista þess að koma laxastofni árinnar á rétt ról að nýju.
    Það eru fimm tegundir fiska í ferskvatni hér á landi. Allar þurfa þær eða geta lifað í sjó sem hluta af lífsferli sínum. Þessar tegundir hafa komið frá sjó eftir síðustu ísöld þegar jöklar hopuðu.
    Vegna jarðfræði landsins er hlutfallslega mikið um fossa í íslenskum ám. Gerðir hafa verið fiskvegir við marga fossa hér á landi og svæði ofan fossa verið opnuð fyrir göngu laxfiska. Þannig hefur nærri þriðjungur þeirra búsvæða sem nú eru fær göngufiskum verið opnuð með þessum hætti. Flestir þessara fiskvega voru byggðir á 6. og 7. áratug síðustu aldar. Við opnun stækkuðu búsvæði göngufiska og stofnar af neðri svæðum námu land ofan fossa, þeir stækkuðu og aðlöguðust nýjum heimkynnum. Til er yfirlit yfir fiskvegi og virkni þeirra (sbr. Hafdís Hauksdóttir 1999. Fiskvegir á Íslandi. Fjöldi þeirra, virkni og opnun á búsvæðum laxa. Aðalritgerð við búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri. 46 s.).
    Dæmi eru einnig um að vatnsgæði og lífsskilyrði í ám hafi breyst vegna gerðar virkjunarlóna og vatnsmiðlana. Í kjölfarið hafi göngufiskar jafnvel stækkað búsvæði sitt eða stofnar þeirra stækkað. Sem dæmi má nefna Blöndu, Þjórsá og Jökulsá á Dal.

     3.      Er til yfirlit yfir sleppingar úr seiðaeldi eða úr öðrum ám í ár og vötn sem voru með fiski áður?
    Hafrannsóknastofnun sinnir rannsóknum á fiskrækt og byggist svarið á upplýsingum frá stofnuninni.
    Um 1960 náðu menn hér á landi fyrst tökum á seiðaeldi en fyrir þann tíma hafði fiskrækt verið stunduð með klaki hrogna í klakhúsum. Laxeldisstöð ríkisins í Kollafirði var stofnsett 1961 og til er listi yfir seiðaeldi og seiðasölur frá stöðinni frá 1961 og þar til þeirri starfsemi lauk, sbr. samantekt Þórs Guðjónssonar. * Í samantektinni kemur fram uppruni fiska í stöðinni, fjöldi seiða sem seld voru frá stöðinni og sleppt hvert ár, skipt eftir gerðum seiða og í hvaða ár þeim var sleppt. Á þessu tímabili var það Kollafjarðarstofninn sem var uppistaðan í seiðasleppingunum.
    Það má segja að það sé ekki fyrr en um 1980 að menn gera sér betur grein fyrir erfðafræðilegum mun á milli stofna. Í kjölfar þess byggðu mörg veiðifélög eldisstöðvar til þess að geta ræktað stofn úr eigin ám.
    Með lögum nr. 50/1998, um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, kom inn ákvæði í 23. gr. laganna sem skyldar þá sem stunda fiskrækt í ám og vötnum að nota stofn úr viðkomandi veiðivatni. Sama ákvæði er nú að finna í 8. gr. laga nr. 58/2006, um fiskrækt.
*     www.hafogvatn.is/static/research/files/skra_0022829pdf