Ferill 30. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 30  —  30. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðir í þágu smærri fyrirtækja.


Flm.: Logi Einarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Einar Kárason, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að hafa forgöngu um að ríkisstjórnin undirbúi og hrindi í framkvæmd eftirtöldum aðgerðum í því skyni að styðja sérstaklega við vöxt og viðgang smærri fyrirtækja og efla nýsköpun og þekkingariðnað í landinu:
     1.      Lækka enn frekar tryggingagjald og auka rekstrarlegar ívilnanir fyrir smærri fyrirtæki.
     2.      Afnema þak á endurgreiðslur vegna nýsköpunar og þróunar.
     3.      Gera breytingar á skattalögum til að skapa hvata til fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum.
     4.      Einfalda regluverk og auka netvæðingu opinberrar þjónustu til að flýta ferlum og minnka núningskostnað án þess að það komi niður á réttmætum markmiðum löggjafar.
     5.      Kanna frekari skattahvata til að styrkja vaxandi fyrirtæki innan hugverkageirans.
     6.      Endurskipuleggja „stoðkerfi“ atvinnulífsins til að efla getu og færni þess til framþróunar og nýsköpunar.
     7.      Auka áherslu á iðn- og tæknimenntun, skapandi menntun og endurmenntun.
    Fjármála- og efnahagsráðherra kynni Alþingi aðgerðaáætlun um framgang framangreindra atriða á vorþingi 2020.

Greinargerð.

    Eitt af forgangsmálum þingflokks Samfylkingarinnar nú við upphaf þingvetrar eru stuðningsaðgerðir við örfyrirtæki (10 starfsmenn og færri) og lítil fyrirtæki (milli 11 og 49 starfsmenn). Þetta á ekki síst við um fyrirtæki í hugverkaiðnaði, svo sem fyrirtæki sem starfa á sviði líftækni, hönnunar, hugbúnaðargerðar, kvikmynda-, sjónvarps- og tölvuleikjagerðar, í alþjóðageiranum o.s.frv. Flutningsmenn leggja til aðgerðir sem miða að því að styrkja stöðu fyrirtækjanna, gera þeim mögulegt að bæta reksturinn og viðhalda eða fjölga starfsfólki. Þannig verði skotið fjölbreyttari stoðum undir atvinnulíf á Íslandi og vel launuð störf sköpuð um allt land.
    Lítil fyrirtæki eru eitt af hryggjarstykkjum íslensks samfélags. Um 42% fyrirtækja á Íslandi hafa færri en 50 starfsmenn en flest fyrirtæki hafa færri en 10 starfsmenn og teljast örfyrirtæki. 1

    Framlag smærri fyrirtækja til vergrar landsframleiðslu er verulegt. Slík fyrirtæki veita fjölbreytta þjónustu, skapa atvinnu og eru farvegur frumkvöðlastarfs því að þau hafa sveigjanleika til að laga sig hraðar að breyttum aðstæðum en stærri fyrirtæki. Þau styðja vel við stærri fyrirtækjasamstæður í „vistkerfi“ á hinum ýmsu sviðum atvinnulífs og eru auk þess öflug á landsbyggðinni. Rannsóknir hafa sýnt að töluverð fylgni er á milli hlutdeildar smárra fyrirtækja í atvinnulífinu og virðisauka sem þau skapa. 2 Margar af aðgerðunum sem flutningsmenn leggja til gagnast líka meðalstórum og stórum fyrirtækjum, en með þessari tillögu er tilraun gerð til að hugsa aðgerðir út frá þörfum smærri fyrirtækja þar sem þau eiga sér færri málsvara.
    Lítil fyrirtæki eru drifkraftur sköpunar og spretta gjarnan upp í kringum nýjungar. En lítil fyrirtæki standa oft frammi fyrir erfiðleikum sem reynast stærri fyrirtækjum ekki jafnþungbærir. Því hefur verið fleygt að launagjöld á fyrirtæki séu ígildi níunda hvers starfs. Það er eðlilegt að fyrirtæki greiði sinn skerf til ríkissjóðs svo að hægt sé að fjármagna velferðarkerfið en sérstakar stuðningsaðgerðir við lítil og meðalstór fyrirtæki þekkjast víða og eru mjög algengar í þeim ríkjum sem við berum okkur saman við. Reynslan erlendis sýnir að slíkar ívilnanir leiða á endanum til meiri skatttekna en ekki minni. Flutningsmenn leggja því til að ráðist verði í markvissar aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi örfyrirtækja og lítilla fyrirtækja, örva vöxt, fjárfestingu og nýsköpun og styðja við rannsóknir og þróun.
    Sum fyrirtæki eru og verða alltaf lítil. Þau ætla sér ekki að stækka en eru engu að síður burðarásar í íslensku samfélagi. Þetta gæti t.d. átt við um smiði, pípulagningafólk, hárgreiðslufólk og hönnuði. Slík örfyrirtæki skipta auðsjáanlega miklu máli á höfuðborgarsvæðinu þar sem fólksfjöldi er mikill en þau skipta lykilmáli í smærri samfélögum. Nauðsynlegt er að stuðla að sem hagfelldustu vinnuumhverfi fyrir þessi fyrirtæki.
    Einn helsti vaxtarsproti íslensks atvinnulífs er hugverkaiðnaðurinn en innan hans starfa fyrirtæki sem byggja samkeppnishæfni sína á hugviti þeirra sem þar starfa. Nýsköpun, menntun og tækniþekking starfsfólksins hefur lagt grunn að rekstri þessara fyrirtækja og í mörgum tilvikum gert þeim kleift að skapa virði sem stenst samanburð á erlendum mörkuðum. Þessi fyrirtæki hafa næstum ótakmarkaða vaxtarmöguleika, öfugt við aðrar útflutningsgreinar sem byggja samkeppnishæfni sína beint eða óbeint á takmörkuðum auðlindum. Mörg þeirra spretta raunar úr okkar hefðbundnu og öflugu útflutningsgreinum, t.d. sjávarútvegi. Þau þurfa oft minna fjármagn til fjárfestinga í upphafi, launakostnaður er samkeppnishæfur og fjarlægðir skipta minna máli þegar afurðirnar eru óefnislegar.
    Ísland hefur mikla möguleika á þessu sviði til að skapa útflutningsverðmæti og vel launuð, áhugaverð störf um allt land. Nýskráningum fyrirtækja í greinum tengdum nýsköpun hefur aftur á móti fækkað frá árinu 2014. Það er því sérstaklega mikilvægt að leggja áherslu á þessa þætti nú þegar hagkerfið er byrjað að kólna. Æskilegt væri að þessi fyrirtæki byggju við stöðugri gjaldmiðil sem mundi auka stöðugleika og öryggi í rekstrarumhverfi þeirra þar sem umtalsverður hluti af tekjum fyrirtækjanna er yfirleitt í erlendum gjaldmiðlum en laun oftast í íslenskum krónum.

Lækkun tryggingagjalds og annars konar stuðningur.
    Tryggingagjald leggst ofan á launagreiðslur fyrirtækja og þar af leiðandi þyngst á fyrirtæki með háan launakostnað. Hlutfall launakostnaðar af rekstrargjöldum er oft hátt í litlum fyrirtækjum, ekki síst þeim sem byggjast á þekkingu og nýsköpun.

    Flutningsmenn styðja áform ríkisstjórnarinnar þar sem gert er ráð fyrir almennri lækkun tryggingagjalds um 0,25 prósentustig árið 2020 en telja ástæðu til þess að ganga lengra og lækka gjaldið meira og hraðar hjá örfyrirtækjum og litlum fyrirtækjum. Flutningsmenn leggja því til að tryggingagjald hjá smærri fyrirtækjum lækki um eitt prósentustig á árinu 2020. Eðli málsins samkvæmt hefur aukin lækkun kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð og tryggja verður að nægt fjármagn renni í Atvinnuleysistryggingasjóð og Fæðingarorlofssjóð þrátt fyrir lækkunina. Aftur á móti gæti slík lækkun komið í veg fyrir uppsagnir eða jafnvel gjaldþrot fyrirtækja í ýmsum geirum þar sem launakostnaður vegur þungt, t.d. í ferðaþjónustu, byggingargeiranum og veitingageiranum. Ein leið til að fjármagna þessa aðgerð væri að hækka veiðileyfagjald.
    Einnig leggja flutningsmenn til að leitað verði leiða til að lækka kostnað hjá nýjum fyrirtækjum fyrstu árin á meðan þau eru að komast á legg. Þar má nefna auknar heimildir til ívilnana vegna nýfjárfestinga sem takmarkaðar voru með brottfalli eldri ívilnunarlaga og setningu nýrra árið 2015, sbr. lög nr. 41/2015, og almennar ívilnanir til lítilla fyrirtækja og fyrirtækja á sviði grænnar tækni.

Afnám þaks á endurgreiðslur vegna rannsókna og nýsköpunar.
    Íslensk þekkingar- og nýsköpunarfyrirtæki hafa gagnrýnt það þak sem er á endurgreiðslu rannsókna- og þróunarkostnaðar og fjöldi nýsköpunarfyrirtækja hefur flutt verðmæt störf til landa sem bjóða betur í því efni. Ísland er neðst á lista þeirra þjóða innan OECD sem beita endurgreiðsluaðferð til að styðja við rannsóknir og þróunarverkefni og þreföldun hámarksins dugar skammt til að breyta þeirri mynd. Reynsla þeirra landa sem hafa gengið alla leið og afnumið þak á slíkar endurgreiðslur er að sú fjárfesting hefur skilað sér í auknum tekjum ríkissjóðs til lengri tíma litið. Það er skammsýni að horfa á slíka fjárfestingu sem nettókostnað fyrir ríkið. Afnám þaks á endurgreiðslur vegna rannsókna og nýsköpunar mundi stuðla að meiri verðmætasköpun, hjálpa til við uppbyggingu öflugs þekkingariðnaðar og efla nýsköpun í landinu. Afnám þaksins hefði jákvæð áhrif á vaxandi fyrirtæki af öllum stærðum.

Breyting á skattalögum til að auka aðgengi lítilla nýsköpunarfyrirtækja að fjármagni.
    Eitt af helstu vandamálum sem lítil nýsköpunarfyrirtæki reka sig á er slæmt aðgengi að fjármunum. Hér þarf að skapa vettvang þar sem frumkvöðlar með góðar hugmyndir hafa aðgang að fjárfestum með gott aðgengi að fjármagni og öfugt. Oftar en ekki þarf aðkomu stjórnvalda til að skapa sérstakan hvata til fjárfestingar í nýjum fyrirtækjum. Hér má nefna skattafslætti sem eru í boði í mörgum löndum.
    Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur setti lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, þar sem kveðið var á um heimild skattaðila til að draga frá skattskyldum tekjum kaupverð hlutabréfa í nýsköpunarfyrirtækjum. Um þetta giltu ákveðin skilyrði en í sama skyni voru gerðar breytingar á lögum um tekjuskatt. Með lögum nr. 165/2010 var heimildin felld brott vegna athugasemdar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Fjárfesting í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum eða smærri fyrirtækjum er í eðli sínu oft áhættusöm fjárfesting. Því mundi skattafsláttur til sérhæfðra sjóða, fagfjárfesta og/eða einstaklinga sem leggja þeim til hlutafé draga úr áhættu og stuðla að auknum fjárfestingum. Flutningsmenn fela því ríkisstjórninni að leita leiða til þess að koma aftur á slíkum ívilnunum sem ætlað er að styðja við lítil nýsköpunarfyrirtæki í vexti en slíkt kerfi þyrfti að standast ríkisstyrkjareglur EES-samningsins.


Einfaldara og skýrara regluverk.
    Á Íslandi er framlag örfyrirtækja til vergrar landsframleiðslu óvenjuhátt í samanburði við Evrópusambandið. Eðli málsins samkvæmt er megnið af þeim fyrirtækjum sem hefja rekstur smáfyrirtæki áður en þau vaxa og verða stærri einingar. Til að lítil fyrirtæki geti starfað, vaxið, bætt við sig starfsfólki og aukið framlag sitt til raunhagkerfisins þarf rekstrar- og reglugerðarumhverfi þeirra að vera hagfellt og réttir hagrænir hvatar til staðar.
    Á Íslandi er umhverfi laga og reglna flókið og lítið um ívilnanir fyrir smærri rekstrareiningar. Regluverk er aftur á móti afar mikilvægt enda er því ætlað að auka velferð samfélagsins, efnahagslega og félagslega. Til að lög og reglur skili tilætluðum árangri þarf að gæta að því að þau séu skýr og einföld. Of flóknar, íþyngjandi eða kostnaðarsamar reglur geta verið hamlandi og jafnvel leitt til óheilbrigðs viðskiptalífs. 3 Margt bendir til þess að regluverk fyrir frumkvöðla sé jafnvel enn flóknara hér á landi en víða annars staðar. Þeir sem stofna til rekstrar þurfa gjarnan að sækja um leyfi hjá mörgum aðilum. Einungis í undantekningartilvikum er unnt að sækja um leyfi á einum stað. Ekki er heldur að finna á einum stað upplýsingar um kröfur sem fyrirtækin þurfa að uppfylla í starfsemi sinni.
    Flutningsmenn mælast enn fremur til þess að fyrirheitum um stafræna þjónustu hins opinbera sé hrundið í framkvæmd svo að öll þjónusta sem varðar stofnun og rekstur fyrirtækja sé í boði með stafrænum hætti eftir því sem unnt er.

Skattahvatar til að styrkja vaxandi fyrirtæki innan hugverkageirans.
    Flutningsmenn leggja til að skattahvatar sem erlend ríki hafa innleitt til að styrkja vaxandi fyrirtæki innan hugverkageirans verði kannaðir. Mörg Evrópuríki hafa tekið upp skattaívilnanir sem sérstaklega eru ætlaðar til að styrkja ákveðnar atvinnugreinar. Á Íslandi eru fordæmi fyrir endurgreiðslu kostnaðar við kvikmyndagerð og framleiðslu tónlistar. Fyrirtæki sem hanna tölvuleiki ættu einnig að geta fengið sambærilegar endurgreiðslur vegna þróunarkostnaðar en tölvuleikjagerð krefst samspils nær allra skapandi greina í einu verkefni. Þá hafa fjölmörg ríki innleitt reglur um skattafslætti, sérstök dvalar- og atvinnuleyfi og/eða aðrar ívilnanir til erlendra starfsmanna sem hafa til að bera sérstaka hæfni eða menntun sem erfitt er að öðlast í heimaríki fyrirtækisins. Flutningsmenn fagna því að skref hafi nýlega verið stigið í þessa átt með skattaívilnunum til erlendra sérfræðinga en betur má ef duga skal.
    Það er mikilvægt að stjórnvöld beiti sér fyrir aðgerðum til að gera íslenskum fyrirtækjum í hugverkaiðnaði kleift að vaxa hér á landi en með þeim er hægt að skapa sjálfbæran hagvöxt framtíðarinnar. Ísland á í harðri samkeppni um þessi fyrirtæki en fjölmörg þeirra hafa fengið tilboð um að flytjast til útlanda.
    Áríðandi er að stjórnvöld kanni til fulls hvaða möguleikar felist í skattalegum hvötum til að styðja við íslenskan hugverkaiðnað. Tvö markmið liggja þar til grundvallar, annars vegar að skapa fyrirtækjunum hagfelldan grundvöll til frekari uppbyggingar og hins vegar að minnka líkurnar á að þau flytji úr landi vegna hagstæðari skattaumhverfis erlendis.

„Stoðkerfi“ atvinnulífsins endurskipulagt.
    Íslenskt atvinnulíf er afar burðugt miðað við fólksfæð enda er einstaklingsframtakið á Íslandi öflugt og fólkið fjölhæft. Stjórnvöld geta þó vel þjónað íslensku atvinnulífi betur við nýsköpun og framþróun. Til að efla getu og færni stjórnvalda til þess þarf að bæta og endurskipuleggja stoðkerfi atvinnulífsins. Þar er þegar að finna mikla reynslu, þekkingu, alls konar þjónustu og þó nokkurt fjármagn, en kerfið sjálft er fremur flókið, sundurslitið og aðgengi að upplýsingum ekki nægilega gott. Rekstur stoðkerfisins verður að vera sveigjanlegur og þarf að geta aðlagað sig hratt að breyttum aðstæðum. Stjórnvöld, sprotafyrirtæki og frumkvöðlar þurfa að vera í reglulegum samskiptum hér innan lands til að stoðkerfið fylgi fyrirtækjum eftir því sem þau þróast. Stoðkerfið á að virka sem tæki til að koma skýrri og afmarkaðri atvinnustefnu í framkvæmd. Jafnframt verður að stuðla að og efla tengsl íslensks atvinnulífs á alþjóðlegum vettvangi. Betra aðgengi að Evrópusambandinu og þeim fjöldamörgu tækifærum sem þar er að finna, hvort sem horft er til styrkja eða samstarfs, er gríðarlega mikilvægt.

Aukin áhersla á iðn- og tæknimenntun og skapandi menntun.
    Greiður aðgangur að sérfræðimenntuðu starfsfólki er ein af grunnþörfum hugvitsdrifinna fyrirtækja. Í samhengi nýsköpunar er jafnan litið til hlutfalls einstaklinga sem hafa menntað sig á sviði raunvísinda eða tækni sem einnig hefur verið nefnt STEM (e. Science, Technology, Engineering and Mathematics). Í samanburði við önnur Evrópuríki situr Ísland aftarlega á merinni en aðeins 16% háskólamenntaðra hérlendis hafa STEM-gráðu. Nýlega hefur einnig verið talað um svokallaðar STEAM-gráður, sem innihalda þá einnig fólk með menntun á hinum skapandi sviðum (e. Arts), sem flutningsmenn telja ekki síður mikilvæga.
    Þótt flutningsmenn fagni áherslu mennta- og menningarmálaráðherra á iðn- og tækninám er vel hægt að gera betur og inn í aðgerðir ráðherra vantar auk þess algerlega þriðju stoðina; skapandi greinar.
1     Lítil fyrirtæki eru skilgreind sem fyrirtæki með færri starfsmenn en 50, enda sé ársvelta og/eða niðurstaða árlegs efnahagsreiknings ekki yfir 10 millj. evra. Örfyrirtæki eru fyrirtæki með færri en 10 starfsmenn, enda sé ársvelta og/eða niðurstaða árlegs efnahagsreiknings ekki yfir 2 millj. evra.
2     Skýrsla OECD 2018 um lítil og meðalstór fyrirtæki (mynd 1.3).
3     Stöðuskýrsla ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur frá því í september 2014.