Ferill 37. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 37  —  37. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um gjaldfrjálsar krabbameinsmeðferðir.


Flm.: Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir því að krabbameinsmeðferðir verði gjaldfrjálsar.

Greinargerð.

    Tillagan var áður lögð fram á 149. löggjafarþingi (807. mál).
    Kostnaður við krabbameinsmeðferð er mörgum þungur baggi og er kostnaðarhlutdeild krabbameinssjúklinga í lyfjakostnaði og allri heilbrigðisþjónustu hér á landi há og hækkar ár frá ári. Kostnaðurinn reynist sjúklingum oft mestur í upphafi veikinda, þegar þeir eru ekki farnir að njóta niðurgreiðslu frá hinu opinbera, en það getur tekið marga mánuði, allt eftir því hvað einstaklingurinn hefur áunnið sér í réttindi. Á þeim tíma fá sjúklingarnir engar niðurgreiðslur, hvorki á meðferðum né hjálpartækjum sem þeir kunna að þurfa. Afleiðingar krabbameinsmeðferða eru þær að einstaklingar þurfa oft að leggja út fyrir ýmsum vörum vegna aukaverkana, t.d. kaupum á hárkollum og/eða gerð varanlegra augabrúna vegna hármissis og einnig er kostnaður við viðtalsmeðferðir sem oft bjóðast fjarri heimabyggð. Kostnaður vegna kaupa á ýmiss konar hjálpartækjum og kostnaður við sjúkraþjálfun getur einnig verið mikill. Með því að gera meðferðina sjálfa gjaldfrjálsa eiga sjúklingar fjárhagslega auðveldara með kaup á nauðsynlegum aukahlutum og að greiða kostnað við ferðalög, svo að ekki sé minnst á þá aðstoð sem nauðsynleg er fyrir fjölskyldu viðkomandi. Samanlagður kostnaður getur því orðið svo mikill að þess eru dæmi að vegna fjárhags síns taki fólk þá ákvörðun að kaupa ekki þá þjónustu sem talin er nauðsynleg. Ofan á útlagðan kostnað bætist síðan tekjutap sjúklingsins.
    Nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu tók gildi 1. maí 2017. Samkvæmt kerfinu er hámarksgreiðsla í byrjun 26.100 kr., en greiðslur geta þó aldrei orðið hærri en 73.950 kr. á ári. Greiðslur sjúkratryggðra einstaklinga fyrir þjónustu vegna þjálfunar, læknishjálpar o.fl. telja saman upp í hámarksgjald. 1
    Þegar einstaklingur hefur greitt 62.000 kr. vegna lyfja innan 12 mánaða tímabilsins fær hann lyfin ókeypis það sem eftir er af tímabilinu. Þau lyf sem falla undir greiðsluþrepin eru þau sem Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í að greiða, önnur lyf greiða einstaklingar sjálfir að fullu, sbr. eftirfarandi töflu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Rúmlega einn af hverjum þremur greinist með krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni og á hverju ári greinast að meðaltali 1.450 ný tilfelli. Allt til síðustu aldamóta fjölgaði tilfellum ár frá ári óháð hækkandi meðalaldri og fjölgun þjóðarinnar. Undanfarinn áratug hefur tíðnin hins vegar lækkað og er ein meginástæðan fækkun reykingamanna sem skilar sér beint í lægri tíðni lungnakrabbameins og fleiri krabbameina.
    Með betri greiningartækni og áhrifaríkari meðferðarúrræðum hafa lífslíkur aukist verulega. Í árslok 2015 voru á lífi meira en 13 þúsund Íslendingar sem greinst hafa með krabbamein. Um 66% karla og 70% kvenna sem fá krabbamein lifa í fimm ár eða lengur eftir greiningu sjúkdómsins en það er breytilegt eftir tegundum krabbameina. Fyrir fjórum áratugum voru sambærileg hlutföll einungis 27% fyrir karla og 44% fyrir konur. Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengasta krabbameinið hjá körlum og brjóstakrabbamein hjá konum. Um 200 karlar og um 200 konur greinast með þessi mein ár hvert.
    Skurðaðgerð er algengasta meðferð ef um afmörkuð föst æxli er að ræða. Oft er meðferðin samsett af skurðaðgerð, lyfjameðferð, geislameðferð og/eða hormónameðferð. Blóðkrabbamein er oftast meðhöndlað með lyfjum. Tiltölulega ný meðferðarúrræði eru sértæk lyf sem beinast að tiltekinni starfsemi frumunnar og draga þannig úr vexti og dreifingu sjúkdómsins.

Greiðsluþátttaka annars staðar á Norðurlöndum.
    Upphæðir í eftirfarandi texta miðast við gengi 16. október 2018.

Noregur.
    Í Noregi eru afsláttarkort vegna heilbrigðisþjónustu í tveimur flokkum. Kortin virka ekki saman og þarf því að safna upp á báðum stöðum. Afsláttarkort 1 er vegna læknisþjónustu, sálfræðiþjónustu, röntgenmyndatöku, lyfseðilsskyldra lyfja o.fl. Hámarksgreiðsla á ári er 32.239 kr. Undanþegin greiðsluþátttöku eru börn yngri en 16 ára, börn yngri en 18 ára sem eru í sjúkraþjálfun, konur í meðgöngueftirliti og þeir sem koma vegna alvarlegra smitsjúkdóma eða gruns um slíka (t.d. ákveðna kynsjúkdóma). Þeir sem eru með atvinnutengda sjúkdóma eða skaða borga ekki fyrir ákveðna þjónustu sem fellur í þennan flokk og sama á við um öryrkja (t.d. greiða þeir ekkert fyrir læknisheimsóknir).
    Afsláttarkort 2 er t.d. vegna sjúkraþjálfunar, ákveðinnar tannlæknaþjónustu og meðferðar á endurhæfingarstöð. Þar er hámarksgreiðsluþátttaka á ári 28.912 kr. Börn yngri en 16 ára og þeir sem eru með atvinnutengda sjúkdóma eða skaða borga ekki fyrir sjúkraþjálfun en frá árinu 2017 var greiðsluþátttöku krafist af öllum öðrum hópum.


Danmörk.

    Í Danmörku er almenn læknisþjónusta og þjónusta flestra sérfræðilækna ókeypis en hlutagreiðslur eru t.d. vegna tannlæknaþjónustu og þjónustu sálfræðinga og sjúkraþjálfara. Munur er á greiðsluþátttöku sem fer eftir því hvort einstaklingar hafa valið að skrá sig hjá heimilislækni, og þurfa þá tilvísun til sérfræðilæknis. Þeir sem ekki eru skráðir hjá heimilislækni fá niðurgreidda sömu upphæð og aðrir vegna læknisþjónustu en geta þurft að greiða mismun á gjaldskrá þess læknis sem þeir leita til.
    Greiðsluþátttaka fullorðinna einstaklinga vegna lyfseðilsskyldra lyfja á 12 mánaða tímabili er 50% vegna upphæða á bilinu 17.408–28.773 kr., 25% vegna upphæða á bilinu 28.774–62.328 kr., 15% vegna upphæða á bilinu 62.329–72.701 kr., en fari upphæð yfir efri mörkin verður niðurgreiðsla 100%. Þessar reglur gilda almennt. Frá árinu 2003 hafa öryrkjar getað sótt um endurgreiðslu vegna útgjalda sem sjúkdómurinn eða færniskerðingin leiðir til hafi þeir greitt meira en 115.600 kr. yfir árið vegna þessa. Inni í þeirri fjárhæð geta verið lyf, sérstakt mataræði og ferðakostnaður til vinnu eða skóla. Hægt er að sækja um niðurgreiðslu á lyfjum sem ekki eru á lista yfir niðurgreidd lyf og vegna lausasölulyfja ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi (t.d. lífeyrisþegar og þeir sem þjást af ákveðnum sjúkdómum, svo sem húðsjúkdómum). Að framangreindu undanskildu eru um 2,5 milljónir Dana félagar í Sygeforsikringen “danmark” sem endurgreiðir allt að 100% lyfjakostnaðar fyrir félagsmenn sína ef þeir greiða iðgjald í flokki 1 og 2.

Svíþjóð.
    Í Svíþjóð bera sýslurnar ábyrgð á heilbrigðisþjónustu á sínu svæði og því á valdi hverrar sýslu að ákveða greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu. Getur kostnaður því verið mismunandi eftir búsetu. Þak á greiðslum eru 14.349 kr. á 12 mánaða tímabili en sýslur geta ákveðið að hafa þakið lægra. Eftir það er þjónustan ókeypis sé hún sótt til heilbrigðisþjónustu á vegum hins opinbera, að undanteknum innlögnum á sjúkrahús, en þar er greitt að hámarki 1.300 kr. á sólarhring. Þak á greiðslum vegna lyfseðilsskyldra lyfja fyrir 18 ára og eldri er 29.351 kr. á 12 mánaða tímabili, þannig að afsláttur eykst á hverju þrepi, líkt og í Danmörku, þar til þakinu er náð. Hægt er að safna upp í greiðslumörkin um allt land, ekki bara í þeirri sýslu þar sem einstaklingurinn býr.
    Fyrir utan ýmsa læknisþjónustu fyrir börn og á meðgöngu getur greiðsluþátttaka verið mismunandi eftir sýslum og einnig geta reglur um lægra greiðsluþak fyrir þá sem þurfa mikla heilbrigðisþjónustu verið ólíkar eftir sýslum.

Finnland.
    Í Finnlandi er hægt að velja milli ríkisrekinnar og sjálfstætt rekinnar læknisþjónustu þar sem læknisheimsóknir eru ókeypis í ríkiskerfinu en heimsóknir til lækna sem reka eigin stofur eru niðurgreiddar um u.þ.b. 20%.
    Vegna kaupa á lyfseðilsskyldum lyfjum á hverju 12 mánaða tímabili er 40% grunnafsláttur við lyfjakaup, en 65% eða 100% afsláttur fari upphæð yfir 6.730 kr., eftir því um hvers konar meðferð er að ræða. Þó greiða einstaklingar 400–600 kr. fyrir hverja úttekt. Flest krabbameinslyf eru í 100% afsláttarflokki. 2
    Greiðsluþak vegna lyfseðilsskyldra lyfja er 81.450 kr. á 12 mánaða tímabili.


Greiðsluþátttaka í Bretlandi.

    Í breska heilbrigðiskerfinu, NHS, eru engin komugjöld á heilsugæslustöðvar og ekki þarf að borga fyrir blóðprufur, myndatökur eða lyf.

Að lokum.
    Flutningsmenn telja brýnt að ráðist verði í að gera krabbameinsmeðferðir á Íslandi gjaldfrjálsar til þess að allir geti fengið viðeigandi meðferð við sjúkdómnum óháð efnahag. Hér á landi eru bestu mögulegu úrræði þegar notuð við krabbameinsmeðferðir og mundi breytingin því ekki leiða til þess að sjúklingar veldu sér dýrari meðferðir.
1     www.krabb.is/media/radgjafarthjonustan/Rettindi-krabbameinsveikra-upplysingarfjarmalfelagsl egtendurhaefing-13-2-2019-fyrir-vefinn.pdf
2     Lista má sjá hér: www.kela.fi/web/sv/752