Ferill 84. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 84  —  84. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um óháða úttekt á Landeyjahöfn.


Flm.: Páll Magnússon, Birgir Þórarinsson, Ásmundur Friðriksson, Ari Trausti Guðmundsson, Oddný G. Harðardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Karl Gauti Hjaltason, Vilhjálmur Árnason, Smári McCarthy.


    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að láta hefja nú þegar óháða úttekt á Landeyjahöfn í samræmi við samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 og fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019–2023 og að henni verði lokið eigi síðar en 31. mars 2020.

Greinargerð.

    Mál þetta er endurflutt frá 149. löggjafarþingi. Með tillögunni er lagt til að úttekt óháðra aðila á Landeyjahöfn verði flýtt enda ástandið í höfninni hvorki boðlegt íbúum Vestmannaeyja né öðrum sem treysta þurfa á greiðar samgöngur milli lands og Eyja.
    Í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar um samgönguáætlun, 172. mál og 173. mál á 149. löggjafarþingi, segir í kaflanum um sjóvarnir og hafnir: „Í fyrirliggjandi samgönguáætlun er gert ráð fyrir framkvæmdum [að] endurbótum á Landeyjahöfn. Framlögum er ætlað að standa undir kostnaði við rannsóknir, öryggismál, gerð óháðrar úttektar og framkvæmdum sem auðvelda eiga að halda nægu dýpi í höfninni. Þá er gert ráð fyrir að koma upp dælum og lögnum við hafnarmynnið til að dýpka yfir veturinn.“ Tillaga þessi gengur út á það að ályktað verði að umræddri úttekt óháðra aðila skuli flýtt.
    Óskað er eftir að í úttektinni verði eftirfarandi spurningum svarað:
     1.      Er hægt að gera þær úrbætur á Landeyjahöfn að dýpkunarþörfin minnki verulega eða hverfi?
     2.      Í hverju fælust slíkar úrbætur og hver er áætlaður kostnaður við þær?
     3.      Ef slíkar endurbætur þættu ekki gerlegar, af tæknilegum eða fjárhagslegum ástæðum, til hvers konar dýpkunaraðferða þyrfti þá að grípa til að halda höfninni opinni allan ársins hring?
    Með tillögu þessari er lagt til að ráðherra taki ákvörðun um að hefja nú þegar úttekt á Landeyjahöfn og að henni verði lokið eigi síðar en 31. mars 2020.
    Að tillögunni standa þingmenn allra flokka í Suðurkjördæmi.