Ferill 121. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 121  —  121. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um mótun klasastefnu.


Flm.: Willum Þór Þórsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Ásmundur Friðriksson, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Björn Leví Gunnarsson, Bryndís Haraldsdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Inga Sæland, Karl Gauti Hjaltason, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þorsteinn Víglundsson, Þórarinn Ingi Pétursson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta opinbera klasastefnu. Stefnan feli í sér fyrirkomulag um hvernig hið opinbera efli stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið, rannsóknar- og menntastofnanir, sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila sem málið snertir. Stefnan verði unnin í tengslum við stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2017–2019. Markmið nýrrar klasastefnu verði:
     a.      að ráðstafa fjármunum til atvinnuuppbyggingar og byggðaþróunar með markvissum hætti,
     b.      að efla samvinnu vísinda og atvinnulífs,
     c.      að efla nýsköpun,
     d.      að efla samkeppnishæfni fyrirtækja, atvinnugreina og þjóðarinnar,
     e.      að efla hagsæld.
    Ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps í lok maí 2020.

Greinargerð.

    Mál þetta var áður flutt á 144., 145., 146. og 149. löggjafarþingi (28. mál) þar sem málið gekk til atvinnuveganefndar.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að mótuð verði opinber klasastefna og að ríkisstjórnin skipi starfshóp færustu sérfræðinga á þessu sviði. Lagt er til að klasastefnan verði mótuð í tengslum við stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2017–2019. 1 Jafnframt er ráðgert að við vinnuna verði litið til reynslu Dana, Norðmanna og þeirra þjóða sem lengst eru komnar í mótun opinberrar klasastefnu. Gert er ráð fyrir að ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps í lok maí 2020.
    Klasi er „landfræðileg þyrping tengdra fyrirtækja, birgja, þjónustuaðila, fyrirtækja í tengdum atvinnugreinum og stofnana á sérhæfðum sviðum sem eiga í samkeppni og einnig í samvinnu“. 2 Ýmsar rannsóknir og skýrslur staðfesta að klasasamstarf er vænlegt tæki til að efla nýsköpun og samkeppnishæfni smærri og meðalstórra fyrirtækja. Klasasamstarf hefur því í auknum mæli verið nýtt til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar um allan heim og til að efla samkeppnishæfni fyrirtækja, atvinnugreina, landsvæða og þjóða. Mikil áhersla er lögð á nýsköpun í nútímaklasastjórnun enda skiptir nýsköpun sköpum í langtímauppbyggingu atvinnugreina.
    Hugmyndafræðin er þekkt hér á landi. Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem er leiðandi stofnun á sviði rannsóknar og þróunarstarfs, hefur gefið út leiðbeiningarhandbók um klasastjórnun. 3 Ýmis góð klasatengd verkefni hafa litið dagsins ljós hérlendis, bæði að frumkvæði hins opinbera og atvinnulífsins, þar sem „sjálfsprottnir“ klasar á borð við sjávarklasann, jarðvarmaklasann og ferðaklasann hafa náð góðum árangri og sannað gildi sitt. Stefna ætti að aukinni áherslu á samvinnu milli rannsóknarstarfs og þeirra klasa sem þegar hafa náð fótfestu og nýta þann grunn.
    Umsagnir sem bárust um málið á 149. löggjafarþingi voru jákvæðar og lýstu ánægju með þingsályktunartillöguna. Var m.a. bent á að klasar hvetji til öflugrar samvinnu og séu því árangursrík leið til að efla tengslanet fyrirtækja, háskóla og stofnana. Nýsköpun sé ein meginforsenda framleiðniaukningar og verðmætasköpunar og því sé nauðsynlegt að stjórnvöld marki skýra stefnu á þessu sviði.
    Þrátt fyrir ágætis viðleitni hins opinbera til að efla klasasamstarf, m.a. með styrkjum, hefur Ísland enn sem komið er ekki markað sér markvissa klasastefnu. Mótun opinberrar klasastefnu er í fullu samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá 30. nóvember 2017. Í stefnuyfirlýsingunni er lögð áhersla á að hvetja til nýsköpunar á sviði opinberrar þjónustu og stjórnsýslu en þar segir: „Sett verður af stað vinna við að undirbúa klasastefnu fyrir Ísland þar sem unnið er með styrkleika ólíkra atvinnugreina í samvinnu menntakerfis, rannsóknastofnana, atvinnulífs, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila.“
    Annars staðar á Norðurlöndum hefur þegar verið tekin upp slík stefna. Norðmenn hafa farið mjög athyglisverða leið í uppbyggingu opinberrar klasastefnu. Stefnan var unnin að frumkvæði þarlendrar ríkisstjórnar undir forustu tveggja ráðuneyta. Norðmenn skilgreina eftirfarandi þrenns konar klasaform í klasastefnu sinni:
     a.      Héraðsklasar: Einstök landsvæði hafa styrk umfram önnur. Með opinberum, faglegum og fjárhagslegum stuðningi og mótframlagi frá fyrirtækjum og atvinnulífi á svæðunum sammælast menn um að einbeita sér að uppbyggingu atvinnulífs í kringum atvinnugrein á svæðinu og skylda starfsemi.
     b.      Landsklasar: Með samvinnu ólíkra klasa í sömu atvinnugrein má styrkja innviði klasasamstarfs sem bætir starfsskilyrði heildarinnar á ólíkum sviðum. Þar má nefna nýsköpun, menntun, markaðsmál, stjórnendaupplýsingar og fleira.
     c.      Alþjóðlegir klasar: Noregur er í fararbroddi í heiminum í olíuvinnslu, siglingum og fleiri greinum. Markvisst er hlúð að þessum lykilatvinnugreinum til að auka samkeppnishæfni Noregs í krafti klasasamstarfs.
    Danir tóku sömuleiðis upp opinbera klasastefnu árið 2013. Danir, líkt og Norðmenn, skipta klösum í héraðsklasa, landsklasa og alþjóðlega klasa. Danska mennta- og vísindaráðuneytið gaf út nýsköpunarstefnu í desember 2012. Framtíðarsýn danskra stjórnvalda er að styrkja samvinnu og smíða brýr milli vísindarannsókna, menntunar og nýsköpunar í atvinnulífinu. Lausnir á sviði nýsköpunar eiga að vera lykill að vexti og hagsæld. Meginmarkmiðin eru:
     a.      að samfélagslegar áskoranir séu hvati til nýsköpunar,
     b.      að vísindin umbreytist í verðmæti,
     c.      að menntun auki hæfni til nýsköpunar. 4
    Í dönsku fjárlögunum fyrir árið 2015 náðist sátt milli allra þeirra ólíku stjórnmálaflokka sem á danska þinginu sitja um fjárframlög sem byggjast á þessari stefnu. Ítarleg klasastefna er ein af lykilstoðum nýsköpunarstefnunnar. Nú hefur tekið gildi uppfærð klasastefna í Danmörku fyrir árin 2016–2018. 5
    Þingsályktun um mótun klasastefnu er ætlað að móta farveg vinnu við eflingu nýsköpunar og atvinnulífsins vítt og breitt um Ísland. Með opinberri klasastefnu er hægt að efla samvinnu vísinda og atvinnulífs í þágu verðmætasköpunar sem leiðir af sér aukna framleiðni og hagsæld.
1     Stefna og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2017–2019:
     www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=7997a35e-54d8-11e7-9410-005056bc4d74
2     Nýsköpunarmiðstöð Íslands: Klasar: Handbók um þróun og stjórnun klasa. Reykjavík 2013, bls. 4.
3     www.nmi.is/static/files/Vefverslun/Stjornun_og_rekstur/klasahandbok-web_small.pdf
4     ufm.dk/publikationer/2012/danmark-losningernes-land/danmark-losningernes-land
5     ufm.dk/publikationer/2016/klyngestrategi-2-0-strategi-for-danmarks-klynge-og-netvaerksindsats-2016-2018