Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 146  —  146. mál.
Stjórnartillaga.Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu viðbótarsamnings við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu.


Frá utanríkisráðherra.    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd viðbótarsamning við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu, sem gerður var í Brussel 6. febrúar 2019.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á viðbótarsamningi við Norður-Atlantshafssamninginn frá 4. apríl 1949 um aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu, sem gerður var í Brussel 6. febrúar 2019.
    Viðbótarsamningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.
    Hér á eftir er gerð stutt grein fyrir helstu efnisatriðum viðbótarsamningsins, ásamt aðdraganda hans og þýðingu.

Helstu efnisatriði.
    Samkvæmt 1. gr. viðbótarsamningsins skal framkvæmdastjóri Norður-Atlantshafsbandalagsins bjóða ríkisstjórn Lýðveldisins Norður-Makedóníu að gerast aðili að Norður-Atlantshafssamningnum þegar viðbótarsamningurinn hefur öðlast gildi. Kveðið er á um að hvert ríki verði aðili að Norður-Atlantshafssamningnum þann dag sem það afhendir ríkisstjórn Bandaríkjanna aðildarskjal sitt skv. 10. gr. Norður-Atlantshafssamningsins.
    Í 2. gr. viðbótarsamningsins er kveðið á um að hann öðlist gildi þegar allir aðilar Norður-Atlantshafssamningsins hafa tilkynnt ríkisstjórn Bandaríkjanna um staðfestingu sína á honum. Ríkisstjórn Bandaríkjanna er sem vörsluaðila viðbótarsamninganna gert að tilkynna öllum aðilum Norður-Atlantshafssamningsins hvenær henni berst hver einstök tilkynning um staðfestingu, svo og hvenær viðbótarsamningurinn öðlast gildi.
    Í 3. gr. kemur fram að viðbótarsamningurinn, sem gerður er á ensku og frönsku þannig að báðir textar eru jafngildir, skuli varðveittur í skjalasafni ríkisstjórnar Bandaríkjanna.

Aðdragandi og þýðing.
    Í 10. gr. Norður-Atlantshafssamningsins, sem undirritaður var í Washington D.C. 4. apríl 1949, segir m.a. að aðilar geti samþykkt samhljóða að bjóða öðrum ríkjum í Evrópu aðild að samningnum, enda stuðli það að framgangi meginreglna hans og eflingu öryggis á gildissvæði hans. Á grundvelli þessa ákvæðis var Grikklandi og Tyrklandi veitt aðild að samningnum árið 1951, Sambandslýðveldinu Þýskalandi árið 1954 og Spáni árið 1982.
    Í kjölfar þeirra miklu breytinga sem áttu sér stað í evrópskum öryggismálum með upplausn Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins og sameiningu Þýskalands hófst hröð aðlögun Atlantshafsbandalagsins að breyttum aðstæðum og fjölþættari viðfangsefnum. Bandalagið stofnaði m.a. Norður-Atlantshafssamstarfsráðið (NACC) og Friðarsamstarfið (PfP) sem fljótlega leiddi til víðtæks samstarfs við Evrópuríki utan bandalagsins. Þessi þróun varð til þess að stjórnvöld í 12 ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu lýstu á næstu árum yfir vilja til að fá aðild að bandalaginu.
    Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Brussel árið 1994 var áréttað að bandalagið stæði opið nýjum aðildarríkjum. Í kjölfar þess gerði bandalagið úttekt á forsendum og markmiðum hugsanlegrar fjölgunar aðildarríkja og var hún samþykkt árið 1995. Um svipað leyti hófu fulltrúar bandalagsins viðræður við stjórnvöld í svonefndum umsóknarríkjum til að meta pólitískar og hernaðarlegar aðstæður í einstökum ríkjum á grundvelli framangreindrar úttektar.
    Af hálfu Atlantshafsbandalagsins hefur ávallt verið lögð áhersla á að fyrirhuguð stækkun leiði til aukins stöðugleika og öryggis í Evrópu og komi til með að styrkja enn frekar þá lýðræðisþróun sem átt hefur sér stað í viðkomandi ríkjum. Bandalagið hefur jafnframt ítrekað að stækkunin sé eingöngu einn liður í margþættri viðleitni þess til að stuðla að auknum stöðugleika og öryggi í Evrópu. Í samræmi við það var ákveðið á vormánuðum 1997 að efla Friðarsamstarfið og stofna Evró-Atlantshafssamstarfsráðið (EAPC) sem kom í stað Norður-Atlantshafssamstarfsráðsins. Stofnsáttmáli Atlantshafsbandalagsins og Rússlands um formfast samstarf var undirritaður og þar með lagður grunnur að samstarfsráði bandalagsins og Rússlands (PJC) sem breytt var í sameiginlegt NATO-Rússlandsráð (NRC) í Reykjavík árið 2002. Árið 1997 var einnig sett á fót samstarfsnefnd bandalagsins og Úkraínu. Þá hefur aðlögun bandalagsins að breyttum aðstæðum haldið áfram og samstarf við ríki við Miðjarðarhaf og Persaflóa orðið til. 
    Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Madríd árið 1997 var ákveðið að bjóða Póllandi, Tékklandi og Ungverjalandi aðild að bandalaginu. Jafnframt var ítrekað að bandalagið yrði áfram opið lýðræðisríkjum í Evrópu sem gætu stuðlað að framkvæmd markmiða Norður-Atlantshafssamningsins óháð landfræðilegri legu. Viðbótarsamningar um aðild ríkjanna þriggja voru undirritaðir í Brussel í lok ársins 1997 og urðu þau formlegir aðilar að bandalaginu í mars 1999.
    Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Prag í nóvember 2002 var ákveðið að bjóða sjö ríkjum aðild að bandalaginu: Búlgaríu, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Rúmeníu, Slóvakíu og Slóveníu. Voru viðbótarsamningar um aðild ríkjanna sjö undirritaðir í Brussel í mars 2003 og urðu þau formlegir aðilar að bandalaginu í mars 2004.
    Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Búkarest 2.–4. apríl 2008 var ákveðið að bjóða Albaníu og Króatíu aðild að bandalaginu. Voru viðbótarsamningar um aðild ríkjanna undirritaðir í maí 2008 og urðu þau formlegir aðilar að bandalaginu í apríl 2009.
    Á utanríkisráðherrafundi bandalagsins í desember 2015 var ákveðið að bjóða Svartfjallalandi aðild að bandalaginu. Viðbótarsamningur um aðild var undirritaður í maí 2016 og varð Svartfjallaland formlega aðili að bandalaginu 5. júní 2017.
    Ríkið sem nú ber nafnið Lýðveldið Norður-Makedónía gerðist sjálfstætt undir nafninu Makedónía 8. september 1991 en var áður hluti Júgóslavíu. Atlantshafsbandalagið bauð ríkinu aðild að Friðarsamstarfinu (PfP) árið 1995, og starfaði það með bandalaginu allar götur síðan undir heitinu Fyrrum Júgóslavíuríkið Makedónía (FYROM) vegna andstöðu Grikkja við nafn ríkisins og höfnun viðurkenningar heitisins. Ríkinu var boðið til undirbúningsviðræðna um hugsanlegt aðildarferli og umbætur (Membership Action Plan) árið 1999. Fyrir lá að leysa yrði ágreining um nafn landsins áður en til aðildar kæmi, jafnframt umbótum í varnar- og öryggismálum og hefðbundnu aðildarferli.
    Á leiðtogafundi bandalagsins í Brussel í júlí 2018 var ákveðið að bjóða ríkinu inngöngu í bandalagið í ljósi samkomulags stjórnvalda í Aþenu og Skopje sem þau höfðu náð um nafnamálið. Formlegt heiti ríkisins yrði í framtíðinni Lýðveldið Norður-Makedónía. Aðildarviðræður fóru fram milli ríkisins og bandalagsins frá september 2018 til janúar 2019 og viðbótarsamningurinn var undirritaður 6. febrúar sl. Ríkið mun sjálft greiða kostnað við aðlögun eigin varna að samræmdu varnarkerfi bandalagsins og er ekki gert ráð fyrir að núverandi aðildarríki þurfi að breyta eigin varnaráætlunum, auka útgjöld til varnarmála eða bera á nokkurn hátt viðbótarkostnað af inngöngu Lýðveldisins Norður-Makedóníu.Fylgiskjal.


VIÐBÓTARSAMNINGUR við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu.

www.althingi.is/altext/pdf/150/fylgiskjol/s0146-f_I.pdf