Ferill 275. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 304  —  275. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um fullgildingu heildarsamnings um efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Indónesíu.


Frá utanríkisráðherra.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd heildarsamning um efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Indónesíu sem undirritaður var 16. desember 2018.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á heildarsamningi um efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Indónesíu, sem undirritaður var 16. desember 2018. Meginmál samningsins er prentað sem fylgiskjal með tillögu þessari. Viðaukar og viljayfirlýsing við samninginn verða sendir utanríkismálanefnd og birtir á vef Alþingis.
    Samningurinn tryggir Íslandi víðtækan tollfrjálsan markaðsaðgang fyrir allar helstu útflutningsvörur Íslands. Indónesía er fjórða fjölmennasta land heims með um 260 milljónir íbúa. Útflutningur til Indónesíu árið 2018 nam 175 millj. kr., aðallega sjávarafurðir, og innflutningur sama ár 1.274 millj. kr., aðallega raftæki, skór og fatnaður. Þá hafa íslensk fyrirtæki selt tækniþekkingu á sviði jarðvarma í Indónesíu.
    Efni samningsins skiptist í 12 kafla, 17 viðauka og viljayfirlýsingu um samvinnu ríkjanna. Í samningnum er m.a. kveðið á um vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjárfestingar, verndun hugverkaréttinda, opinber innkaup, samkeppni, viðskipti og sjálfbæra þróun, auk hefðbundinna ákvæða um sameiginlega nefnd og lausn deilumála.
    EFTA-ríkin, Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss, hafa nú gert 29 fríverslunarsamninga við 40 ríki og sjálfstjórnarhéruð, að samningnum við Indónesíu meðtöldum.

Nánar um samninginn.
    Í formálsorðum samningsins er gerð grein fyrir ýmsum forsendum og markmiðum samningsaðila. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:
          Lýst er yfir vilja ríkjanna til að efla tengsl milli EFTA-ríkjanna og Indónesíu á grundvelli jafnræðis, gagnkvæms ávinnings og virðingar.
          Áréttaður er stuðningur ríkjanna við þær meginreglur og markmið sem eru sett fram í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og almennum mannréttindayfirlýsingum, m.a. um lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi.
          Samningsaðilar gera sér grein fyrir að efnahagsþróun, félagsleg þróun og umhverfisvernd eru víxltengdir þættir sjálfbærrar þróunar sem styðja hver annan.
          Samningsaðilar árétta þá skuldbindingu sína að styðja við og ýta undir þróun markmiða áætlunar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030, m.a. markmiðið um að útrýma fátækt í öllu formi og birtingarmyndum og svara þörfinni fyrir heildrænar og samþættar aðferðir til að ná fram hagvexti, félagslegri þróun og umhverfislegri sjálfbærni á lands-, svæðis- og heimsvísu, og minnast þar auki réttinda sinna og skyldna samkvæmt samningum um umhverfismál og samningum sem leiða af aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni.
          Staðfestur er vilji samningsaðila um að beita samningi þessum með það markmið að leiðarljósi að varðveita og vernda umhverfið með traustri umhverfisstjórnun og tryggja hagkvæmustu nýtingu náttúruauðlinda heimsins í samræmi við markmið um sjálfbæra þróun.
          Samningsaðilar stefna að því að skapa ný atvinnutækifæri og bæta lífskjör, ásamt því að efla heilsuvernd, öryggi og umhverfisvernd.
          Lýst er yfir vilja ríkjanna til að skapa hagstæð skilyrði fyrir þróun og fjölbreytni í viðskiptum sín á milli og til aukinnar samvinnu, bæði viðskiptalega og efnahagslega, á sviðum þar sem ríkin eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta á grundvelli jafnréttis, gagnkvæms ávinnings, jafnræðis og þjóðaréttar.
          Ríkin staðfesta þá skuldbindingu sína að koma í veg fyrir og berjast gegn spillingu í alþjóðaviðskiptum og fjárfestingum og halda á lofti meginreglum um gagnsæi og góða opinbera stjórnunarhætti.
          Ítrekað er mikilvægi góðra stjórnunarhátta fyrirtækja og samfélagslegrar ábyrgðar á sviðum sjálfbærrar þróunar til staðfestingar þess ætlunarverks ríkjanna að hvetja fyrirtæki til að virða alþjóðlega viðurkenndar viðmiðunar- og meginreglur sem alþjóðastofnanir, eins og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) og Sameinuðu þjóðirnar, hafa innleitt.
    Í 1. og 2. kafla og viðaukum I–VII við samninginn er að finna almenn ákvæði og ákvæði um niðurfellingu tolla og önnur ákvæði tengd viðskiptum með vörur. Auk ákvæða um tolla er þar meðal annars að finna ákvæði um upprunareglur, ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna, tæknilegar reglur, viðskiptaliprun, ríkisrekin fyrirtæki á sviði verslunar, styrki og jöfnunarráðstafanir, ráðstafanir gegn undirboðum og verndarráðstafanir. Kveðið er á um gagnkvæma niðurfellingu eða lækkun tolla af vörum sem framleiddar eru í ríkjum samningsaðila og fluttar inn til gagnaðila í samræmi við viðauka II–V, í viðauka II við innflutning til Indónesíu frá EFTA-ríkjunum og í viðauka III til Íslands frá Indónesíu.
    Í 3. kafla og viðaukum VIII–XV eru ákvæði um þjónustuviðskipti, þ.m.t. skuldbindingar samningsaðila um markaðsaðgang til handa þjónustuveitendum frá ríkjum gagnaðila, svo og rétt til stofnsetningar fyrirtækja í landi gagnaðila. Í þeim er að mestu byggt á skuldbindingum ríkjanna samkvæmt ákvæðum hins almenna samnings um þjónustuviðskipti (e. General Agreement on Trade and Services, GATS) Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).
    Kafli 4 og viðauki XVI fjalla um fjárfestingar.
    Í 5. kafla og viðauka XVII eru ákvæði um vernd hugverkaréttar. Hvort tveggja byggist á ákvæðum samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um hugverkarétt í viðskiptum (TRIPS).
    Í 6. kafla er fjallað um opinber innkaup. Þau ákvæði ná einungis til upplýsingaskipta og mögulegra samningaviðræðna í framtíðinni.
    Í 7. kafla er kveðið á um samkeppnismál. Áréttað er að samráð milli fyrirtækja sem leiðir til röskunar á samkeppni svo og misnotkun á markaðsráðandi stöðu samrýmist ekki markmiðum samningsins. Jafnframt er kveðið á um samvinnu milli ríkjanna á sviði samkeppnismála, m.a. með gagnkvæmum upplýsingaskiptum milli samkeppnisyfirvalda ríkjanna.
    Í 8. kafla er fjallað um viðskipti og sjálfbæra þróun. Samningsaðilar viðurkenna að efnahagsþróun, félagsleg þróun og umhverfisvernd séu sjálfstæðir þættir sem styðja með gagnkvæmum hætti við sjálfbæra þróun. Ríkin árétta skuldbindingar sínar samkvæmt fjöl-þjóðlegum samningum og grundvallarreglum á sviði umhverfis- og vinnumála og ábyrgjast að viðhalda verndarstigi þeirra, jafnframt því sem ítrekað er að ríkin hafi fullan rétt á því að setja eigin umhverfis- og vinnuverndarlöggjöf. Tekið er fram að samningsaðilar árétti skyldur sínar til að virða, efla og framfylgja þeim meginreglum um grundvallarréttindi sem er að finna í yfirlýsingu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarviðmið og réttindi við vinnu og í áréttingu stofnunarinnar sem Alþjóðavinnumálaþingið samþykkti árið 1998.
    Í 9. kafla og í viljayfirlýsingu sem fylgir samningnum er fjallað almennt um samvinnu ríkjanna.
    Í 10.–12. kafla eru meðal annars ákvæði um framkvæmd samningsins, lausn deilumála, breytingar á samningnum og gildistöku hans. Sett er á stofn sameiginleg nefnd ríkjanna sem ætlað er að fjalla um framkvæmd samningsins, t.d. einstök vandamál í viðskiptum milli ríkjanna. Kveðið er á um lausn ágreiningsmála um túlkun og beitingu samningsins í formi sáttaumleitana eða eftir atvikum með stofnun gerðardóms ef samkomulag næst ekki með öðrum hætti. Kaflarnir eru efnislega eins og í síðustu fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna.

Fylgiskjal.

Heildarsamningur um efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Indónesíu
á íslensku og ensku.


www.althingi.is/altext/pdf/150/fylgiskjol/s0304-f_I.pdf