Ferill 151. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 344  —  151. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um skatt á barnagreiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvers vegna eru barnagreiðslur skv. 21. gr. laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, ekki skattfrjálsar líkt og barnalífeyrir skv. 20. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, í ljósi þess að barnagreiðslur eru tilkomnar vegna framfærsluskyldu gagnvart börnum líkt og barnalífeyrir?

    Samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra barna eða alvarlegra fatlaðra barna, nr. 22/2006, teljast foreldragreiðslur til skattskyldra tekna sem launagreiðslur og er lagður á þær tekjuskattur og útsvar eftir almennum reglum. Er það í samræmi við meginreglu skattalaga að allar tekjur, hlunnindi og fríðindi teljast til skattskyldra tekna. Frá því eru nokkrar undantekningar og er sérstaklega kveðið á um þær í lögum. Barnalífeyrir sem greiddur er skv. 20. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, ef annað hvort foreldri barns yngra en 18 ára eða bæði, eru látin eða eru örorkulífeyrisþegar telst ekki til skattskyldra tekna skv. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Sama á við um barnalífeyri sem greiddur er vegna ófeðraðs barns eða barns foreldris sem sætir gæslu- eða refsivist. Litið er á slíkar umönnunargreiðslur, sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir, sem fjárhagslega aðstoð vegna útlagðs kostnaðar. Foreldragreiðslur samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra barna eða alvarlegra fatlaðra barna, nr. 22/2006, teljast hins vegar til skattskyldra tekna sem launagreiðslur enda er þeim ætlað að vega á móti skerðingu á möguleikum foreldris til tekjuöflunar vegna sérstakrar umönnunar barns.
    Þessu til viðbótar er rétt að benda á að beinn fjárhagslegur stuðningur við barnafólk, hvort heldur sem foreldri barna er öryrki eða ekki, er fyrst og fremst í formi barnabóta. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019–2023 kemur fram að helstu áskoranir barnabóta sem málaflokks innan málefnasviðsins fjölskyldumál séu að gera bótakerfin markvissari fyrir fjölskyldur með lágar tekjur, jafnframt því að bæta kjör barnafjölskyldna sem lægstar tekjur hafa. Í ársbyrjun 2019 komu til framkvæmda lögfestar viðbótarhækkanir á tekjuviðmiðum barnabóta umfram forsendur fjármálaáætlunar sem leiddi til hækkunar heildarútgjalda ríkissjóðs vegna barnabóta úr 10,3 milljörðum kr. á árinu 2018 í 12,1 milljarð kr. á árinu 2019. Það svarar til 17,5% hækkunar milli ára, eða um 14% að raungildi. Áætlað er að fyrirhugaðar breytingar á viðmiðunarfjárhæðum barnabótakerfisins á árinu 2020 muni leiða til þess að heildarútgjöld vegna barnabóta verði 13,1 milljarður kr. á verðlagi ársins og er það hækkun um 1 milljarð kr. á milli ára. Áðurnefndar breytingar eru hagstæðari tekjulægri hópum, þ.m.t. öryrkjum, og beinast að því að auka ráðstöfunartekjur slíkra heimila. Markmiðið er að bæta afkomu þeirra sem lakast standa og beita til þess fyrirkomulagi sem skilar eins markvissum áhrifum fyrir þann hóp og kostur er, samhliða því að vera skilvirkt í framkvæmd.