Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 443  —  1. mál.
Leiðrétt tafla.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið eftir að því var vísað til hennar 16. september sl. Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem svöruðu spurningum varðandi hina ýmsu kafla frumvarpsins. Einnig voru kallaðir til fulltrúar allra ráðuneyta sem bera ábyrgð á einstökum málefnasviðum og málaflokkum ríkisútgjalda. Aðilum sem sendu nefndinni umsögn um frumvarpið var boðið að koma á fund hennar og svara spurningum nefndarmanna. Fulltrúar Hagstofu Íslands komu á fund nefndarinnar vegna nýrrar þjóðhagsspár sem gefin var út 1. nóvember sl.
    Fulltrúar frá eftirfarandi umsagnaraðilum komu á fund nefndarinnar: Alþýðusambandi Íslands, BHM, BSRB, Byggðastofnun, Samtökum atvinnulífsins, Íslandsstofu, Þroskahjálp, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Samtökum verslunar og þjónustu og Samtökum iðnaðarins. Einnig komu fulltrúar frá Viðskiptaráði Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands, Hagstofunni auk fulltrúa sem komu frá Rauða krossinum, Barnaheillum, SOS barnaþorpum og Hjálparstarfi kirkjunnar og fjölluðu sérstaklega um þróunarsamvinnu.
    Aðilar tengdir skógrækt komu á fund nefndarinnar. Þeir voru frá: Grænum skógum ehf., Skógrækt ríkisins og Skógræktarfélagi Íslands.
    Fulltrúar stjórnsýslustigs sveitarfélaga komu á fundi nefndarinnar. Þeir komu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Samtökum sveitarfélaga á Austurlandi, Norðurlandi vestra, Suðurlandi og Vestfjarðastofu. Einnig komu fulltrúar frá öllum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, þ.e. frá heilbrigðisstofnunum Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands, Austurlands, Suðurlands og Suðurnesja.
    Loks komu fulltrúar frá Lífvísindasetri Háskóla Íslands, Samtökum íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Samtökunum '78, og frá sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu.

Verklag nefndarinnar.
    Í fyrra breytti nefndin verklagi sínu er varðar fjárbeiðnir til samræmis við lög um opinber fjármál í þá veru að óska eftir afstöðu viðkomandi ráðherra og kalla eftir upplýsingum um hvort viðkomandi beiðni félli að stefnumörkun stjórnvalda í viðkomandi málaflokki. Ef svo var þá bar ráðherra að gera samning við viðkomandi aðila. Nefndin hefur nú fylgt þessu verklagi í annað sinn og mælist til þess að ráðherrar breyti verklagi sínu til samræmis við aukna fjárhagslega ábyrgð þeirra.
    Nefndin hefur einnig kallað eftir ítarlegri skýringum og svörum frá einstökum ráðuneytum vegna einstakra mála sem fram komu á fundum með fulltrúum ráðuneytanna. Það var gert í mun ríkari mæli en áður hefur tíðkast. Gera má ráð fyrir því að framvegis verði í auknum mæli kallað eftir margvíslegum viðbótargögnum frá ráðuneytunum og jafnvel einstökum umsagnaraðilum um fjárlagafrumvarpið.
    Eins og gert er ráð fyrir í lögum um opinber fjármál er tölugrunnur fjármálaáætlunar sundurliðaður með nákvæmari hætti og málefnasvið brotin niður á ráðuneyti og málaflokka í frumvarpinu. Í kafla 5.3 í greinargerð frumvarpsins koma fram útgjaldabreytingar frá fjármálaáætlun. Þar er nær eingöngu um minni háttar frávik að ræða og sýnir það að sú festa og langtímahugsun í ríkisfjármálum sem ætlunin var að ná fram með lögunum er að skila sér.
Helstu markmið frumvarpsins.
    Helstu áherslumál ríkisstjórnarinnar sem fram komu í fjármálaáætluninni og eru útfærð nánar í frumvarpinu eru:
          Markvissar skattalækkanir og breytingar á tekjuskatti einstaklinga. Breyting frá fyrri áformum felst í því að nú er gert ráð fyrir að nýtt kerfi verði innleitt á tveimur árum í stað þriggja. Núverandi grunnþrep verður að tveimur þrepum ásamt breytingum sem gerðar verða á persónuafslætti og skattleysismörkum. Í fyrra voru tekjuskattsþrep samræmd og miðuð við vísitölu neysluverðs. Framvegis munu skattleysismörkin taka mið af verðbólgu og framleiðniaukningu vinnuafls. Þannig mun þróun skattleysis- og þrepamarka fylgja sömu viðmiðum sem tryggir að sjálfvirk sveiflujöfnun kerfisins dreifist jafnar á alla tekjuhópa. Markmiðið er að auka sérstaklega ráðstöfunartekjur tekjulágra einstaklinga og er það liður í aðgerðum í stuðningi við lífskjarasamningana. Sem dæmi má nefna að einstaklingur með mánaðarlaun á bilinu 325–600 þús. kr. fær 70–120 þús. kr. í auknar ráðstöfunartekjur á ári þegar aðgerðir eru að fullu komnar til framkvæmda.
          Tryggingagjald lækkar um 0,25 prósentustig á næsta ári sem er seinni hluti 0,5 prósentustiga heildarlækkunar á tveimur árum.
          Fæðingarorlof lengist úr níu mánuðum í tíu. Einnig eykst framlag til barnabóta um 1 milljarð kr. Stofnframlög til íbúðarbygginga hækka einnig verulega.
          Myndarleg aukning verður í fjárfestingum hins opinbera á næstu árum. Eins og fram kemur í fjármálaáætluninni er brýnt að ekki myndist langtímafjárfestingahalli sem gengur gegn markmiðum um sjálfbærni opinberra fjármála. Veigamestu verkefnin eru bygging nýs Landspítala, kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, áframhaldandi uppbygging hjúkrunarheimila, smíði nýs hafrannsóknaskips og bygging Húss íslenskunnar. Í fjárlögum fyrir árið 2017 nam fjárfesting í efnislegum eignum 36,2 milljörðum kr. en í frumvarpinu núna er gert ráð fyrir fjárfestingu upp á 72,4 milljarða kr. sem er tvöföldun frá árinu 2017 og hækkunin frá árinu 2019 nemur meira en 10 milljörðum kr. sem er aukning um 17%.

Tengsl fjármálastefnu, fjármálaáætlunar og fjárlagafrumvarps.
    Frumvarpið er lagt fram í samræmi við lög nr. 123/2015, um opinber fjármál. Í 16. gr. laganna er tilgreint hvernig tölugrunnur frumvarpsins er byggður upp og settur fram. Í 14. gr. kemur fram að það skuli vera í samræmi við markmið fjármálaáætlunar.
    Við endurskoðun fjármálastefnu í vor var dregið úr fyrri áformum um afgang af heildarafkomu hins opinbera í samræmi við breyttar efnahagshorfur. Meðal áhersluatriða var að stuðla að því að aðhaldsstig opinberra fjármála yki ekki á samdrátt eða hjöðnun hagvaxtar umfram þá aðlögun sem hagkerfið gengi í gegnum.
    Til þess að auka sveigjanleika var gert var ráð fyrir sérstöku óvissusvigrúmi sem nemur 0,8% af vergri landsframleiðslu sem nær til áranna 2019–2022. Það reyndist jákvætt skref enda hefur nú komið í ljós að nauðsynlegt er að nýta það í ljósi nýrrar hagspár sem Hagstofan gaf út 1. nóvember sl.

    Meginmarkmið ríkisfjármála koma fram í fjármálaáætlun en í fjárlagafrumvarpi er fyrst og fremst verið að útfæra ramma áætlunarinnar til eins árs í senn.
    Afkomumarkmiðin sem fram koma í samþykktri fjármálastefnu eru til þess fallin að leyfa sjálfvirkum sveiflujöfnurum ríkisfjármálanna að virka á meðan hagkerfið leitar jafnvægis á ný og koma þannig í veg fyrir neikvæð áhrif á heildareftirspurn sem frekari lækkun útgjalda eða aukin skattheimta hefði í för með sér. Afkomumarkmiðin stuðla þannig að stöðugleika og að sjálfbærni opinberra fjármála verði viðhaldið til lengri tíma litið.

Efnahagsforsendur.
    Efnahagsforsendur frumvarpsins byggjast á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem birt var 10. maí sl. Eftir að frumvarpið gekk til fjárlaganefndar hefur Hagstofan birt nýja spá sem birt var 1. nóvember sl. Í eftirfarandi töflu koma fram hlutfallslegar breytingar nýjustu þjóðhagsspár Hagstofu Íslands í samanburði við fyrri spá, bæði fyrir árið í ár og árið 2020.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Spáin um breytingu á vergri landsframleiðslu (VLF) 2019 stendur óbreytt í -0,2%. Þó að hagvaxtarspáin breytist ekki á þessu ári eru innbyrðis breytingar á undirliggjandi þáttum VLF. Spáin fyrir fjármunamyndun og útflutning lækkar töluvert en á móti dregst innflutningur enn frekar saman. Minni innflutningur styrkir vöru- og þjónustujöfnuðinn sem hækkar VLF á móti lægri fjármunamyndun og útflutningi.
    Þónokkur breyting er á spá um breytingu á VLF árið 2020 en þar er lækkun úr 2,6% í 1,7% hagvöxt. Breytingar á spánni má helst rekja til breytinga á fjármunamyndun þar sem allir undirliðir 1 VLF lækka. Einnig er nú spáð minni vexti í útflutningi en í fyrri spá.
    Ekki eru gerðar verulegar breytingar á spánni um aðra liði, svo sem gengisvísitölu, atvinnuleysi og kaupmátt launa. Vísitala neysluverðs lækkar þó allnokkuð frá maíspá eða úr 3,2% í 2,6%. Áhrifa breyttrar verðbólguspár gætir víða í endurmati á tekjum og gjöldum ríkisins.

Samspil ríkisfjármálaáætlunar og peningastefnu.
    Samkvæmt 8. gr. laga um opinber fjármál skal stefnumörkun í opinberum fjármálum byggjast á opinberum hagtölum og þjóðhagsspám. Jafnframt skal hafa til hliðsjónar hagspár frá viðurkenndum fagaðilum og alþjóðastofnunum. Í samræmi við lögin hefur hagspá Hagstofu Íslands verið lögð til grundvallar við mótun hagrænna forsendna stefnumörkunar í opinberum fjármálum.
    Fjölmargir aðrir aðilar gefa út hagspár, svo sem ASÍ, greiningardeildir viðskiptabankanna, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn o.fl. Í nóvemberhefti Peningamála Seðlabanka Íslands kemur fram þjóðhagsspá sem er áþekk spá Hagstofunnar. Þar er einnig fjallað um samspil peningastefnu bankans og markmið fjárlagafrumvarpsins.
    Fram kemur að aðgerðir í ríkisfjármálum auka ráðstöfunartekjur heimila og örva eftirspurn með lækkun skatta og auknum tilfærslum (almannatryggingar, atvinnuleysisbætur o.fl.) sem nema samtals um 90 milljörðum kr. á árunum 2020–2022 eða um 2,7% af VLF. Þessi slaki á aðhaldsstigi í ríkisfjármálum mun auka ráðstöfunartekjur og almenn eftirspurn mun aukast. Seðlabankinn áætlar að þetta muni skila um 0,5% framlagi til hagvaxtar og um 2% í einkaneyslu á árunum 2020–2022. Hagvaxtaráhrifin eru minni en áhrifin á innlenda eftirspurn þar sem hluti aukinnar eftirspurnar beinist að innfluttri vöru og þjónustu. Peningastefna Seðlabankans tekur þannig mið af fjármálastefnunni við stýrivaxtaákvarðanir til þess að tryggja að verðbólgumarkmiði til meðallangs tíma verði náð.
    Meiri hlutinn bendir á að ganga ríkisfjármálastefnan og peningamálastefnan í takt ólíkt því sem stundum tíðkaðist fyrir nokkrum árum. Seðlabankinn metur það svo að samkvæmt endurskoðuðum afkomutölum Hagstofunnar hafi á síðasta ári slaknað meira á aðhaldsstigi ríkisfjármála, eins og það er mælt með hagsveifluleiðréttum frumjöfnuði ríkissjóðs, en fyrra mat hafði gefið til kynna. Aðhaldsstigið er metið nær hlutlaust í ár en horfur eru á að það slakni aftur á næstu tveimur árum í samræmi við áætlun stjórnvalda í tengslum við nýgerða kjarasamninga og til að styðja betur við þjóðarbúskapinn á samdráttarskeiði. Slökun á aðhaldsstiginu á spátímabilinu er áþekk því sem gert var ráð fyrir í maí þegar Seðlabankinn lagði síðast mat á það. Meginvextir Seðlabankans hafa lækkað töluvert undanfarna mánuði. Þeir eru nú 3% og hafa því lækkað um 1,5 prósentustig frá því í maímánuði og hafa ekki verið lægri frá árinu 1995.
    Meiri hlutinn bendir á þau skilaboð sem í þessu felast um að peningastefna og fjármálastefna stefni í sömu átt.

Tillögur til breytinga á tekjuhlið fjárlaga.
    Frá því að frumvarpið var lagt fram hafa komið nýjar upplýsingar af þrennu tagi. Hagstofan hefur gefið út nýja þjóðhagsspá, skattaálagning lá fyrir í októbermánuði og innheimtan innan ársins hefur verið uppfærð. Í kjölfarið hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið endurmetið tekjur ríkissjóðs fyrir bæði árin 2019 og 2020. Gerð verður grein fyrir endurmati tekna yfirstandandi árs í tengslum við frumvarp til fjáraukalaga.
    Að auki hafa orðið nokkrar breytingar sem tengjast nýjum áformum. Heildaráhrif framangreindra atriða á áætlaðar tekjur ríkisins 2020 eru metnar á 10,4 milljarða kr. til lækkunar og munar mest um lakari horfur í nýrri þjóðhagsspá þar sem gert er ráð fyrir heldur lægri hagvexti en miðað var við í frumvarpinu og að flestar raun- og nafnstærðir hækki þannig minna frá fyrra ári.
    Þyngst vegur að skattar á tekjur og hagnað lækka um 7,3 milljarða kr. einkum í ljósi minni umsvifa á þessu ári sem aftur hefur áhrif árið 2020. Mestu munar um lækkun á tekjuskatti fyrirtækja vegna minni hagnaðar. Áætlað er að skattar á vöru og þjónustu lækki samtals um 5,1 milljarð kr. Þrátt fyrir það er gert ráð fyrir að virðisaukaskattur skili 1,3 milljörðum kr. meira en áður var áætlað, m.a. sökum þess að neysla Íslendinga erlendis dregst saman en neysla erlenda ferðamanna hérlendis dregst ekki saman. Áætlun flestra annarra veltuskatta lækkar.
    Fallið er frá áformum um 2,5 milljarða kr. skattlagningu á ferðaþjónustu. Þá er ekki gert ráð fyrir tekjum af urðunarskatti um sinn á meðan unnið er að útfærslu innheimtunnar. Áætluð innheimta af skattlagningu á bifreiðar hefur verið endurmetin og leiðir það til 900 millj. kr. lækkunar.
    Launastofn næsta árs verður 2,5% lægri vegna minni atvinnu og lægra launastigs og er því gerð tillaga um að tryggingagjöld lækki samtals um 2,6 milljarða kr. Aðrar tekjur lækka um 4 milljarða kr. og vegur þar þyngst 2,1 milljarðs kr. lækkun veiðigjalda á grundvelli vísbendinga um væntanlegan útreiknings veiðigjalda á næsta fiskveiðiári. Álagning veiðigjalda miðast við rekstrarafkomu útgerðarfyrirtækja árið 2018 og þá var afkoman ekki góð í sögulegu samhengi, hagnaður sá lægsti síðan árið 2010. Það skýrist að hluta til af því að auknar fjárfestingar í sjávarútvegi leiddu til hærri afskrifta árið 2018. Þess má geta að ef veiðigjaldakerfið hefði byggst á eldri lögum hefði heildarinnheimta gjaldsins ekki numið hærri fjárhæð en 2 milljörðum kr. Með gildandi lögum um veiðigjöld er nú áætlað að innheimtan skili 5 milljörðum kr. á næsta ári.
    Lægra vaxtastig leiðir til 900 millj. kr. lægri vaxtatekna auk þess sem hagnaður ÁTVR var ofmetinn um 1 milljarð kr. í frumvarpinu.
    Á móti þessum lækkunum vegur 4,8 milljarða kr. hækkun vegna sölu á losunarheimildum í eigu ríkisins, en að hluta til færist sala þeirra frá árinu í ár til næsta árs. Loks er tekjufærð 4,2 milljarða kr. endurgreiðsla frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Endurgreiðslan er tekjufærð þar sem um er að ræða framlög fyrri ára sem reyndust of há mörg ár í röð. Að öllu samanlögðu er nú gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði 10,4 milljörðum kr. lægri en miðað var við í frumvarpinu.

Afkoma ríkissjóðs – tillögur til breytinga á gjaldahlið fjárlaga.
    Gerð er grein fyrir öllum breytingartillögum meiri hlutans í sérstökum kafla aftast í álitinu, en hér verða skýrðar helstu breytingar sem lagðar eru til fyrir 2. umr. frumvarpsins og birt yfirlit um hver yrðu áhrifin á afkomu ríkissjóðs í heild.
    Tillögurnar byggjast á samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið þar sem ráðuneytið hefur endurmetið og uppreiknað verðlagsforsendur frumvarpsins til lækkunar í samræmi við breytingar á hagspá, þar sem nú er spáð lægri verðbólgu eða 2,6% í stað 3,2% í fyrri spá og það lá til grundvallar í frumvarpinu.
    Gjöldin lækka samtals um 542 millj. kr. en frávik eru í báðar áttir. Til lækkunar vegur mest endurmat á framkvæmdaáætlun fyrir nýjan Landspítala en framkvæmdir hafa gengið hægar en forsendur frumvarpsins gerðu ráð fyrir og því er gerð er tillaga um 3.500 millj. kr. lækkun af þeim sökum. Næstmest vegur endurreikningur á launa-, gengis- og verðlagsliðum fjárlaga, einkum vegna þess að nú er spáð lægri verðbólgu. Verðlagsreikningurinn nemur nettó 561 millj. kr. til lækkunar. Vaxtagjöld lækka um 1.325 millj. kr. vegna lægri vaxta og verðbólgu, framlag til rammaáætlana ESB lækkar vegna leiðréttingar um 788 millj. kr. og lögbundið framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga lækkar vegna lægri tekjuáætlunar um 258 millj. kr.
    Til hækkunar munar mest um 1.878 millj. kr. útgreiðslu úr Ábyrgðasjóði launa, einkum vegna launakrafna fyrrum starfsmanna WOW air, þvínæst 1.300 millj. kr. sem skýrist af vanáætlun útgjalda Fæðingarorlofssjóðs bæði vegna fyrirhugaðrar lengingar orlofs en ekki síður vegna þess að fleiri foreldrar nýta sér nú réttindin í sjóðnum. Til að styrkja rekstrargrunn sjúkrahúsa er bætt við 600 millj. kr. og mun ráðherra ráðstafa því fé með tilliti til rekstraráætlana sjúkrahúsa. Er því ætlað að bæta mönnun sjúkrahúsa en sérstaklega hefur skort á fulla mönnun hjúkrunarfræðinga á Landspítala og lækna á sjúkrahúsinu á Akureyri.
    Aðrar hækkanir vega minna en eru þær skýrðar sérstaklega í síðasta kafla álitsins.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Samtals eru gerðar breytingartillögur við sundurliðun 1, þ.e. tekjuáætlun frumvarpsins sem nema 10.619,7 millj. kr. til lækkunar tekna og breytingartillögur við sundurliðun 2, þ.e. fjárheimildir málefnaflokka og sviða, sem samtals nema 541,6 millj. kr. til lækkunar gjalda.
    Heildarafkoman verður þá neikvæð um 9.710,7 millj. kr. en það rúmast innan þess óvissusvigrúms sem fjármálastefnan leyfir. Hallinn nemur samkvæmt þessu um 0,3% af vergri landsframleiðslu en óvissusvigrúmið hljóðaði upp á hámark 0,8% af VLF. Í töflunni koma fram breytingar á 1. gr. frumvarpsins þar sem gjöld og tekjur eru sundurliðuð samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Í töflunni koma fram breytingar á frumjöfnuði og vaxtajöfnuði. Með frumjöfnuði er átt við afkomu ríkissjóðs án vaxtagjalda og tekna. Eins og sjá má er frumjöfnuðurinn áfram jákvæður eins og hann hefur ávallt verið allt frá árinu 2012.

Útgjaldaþróun á föstu verðlagi.
    Nefndin hefur til glöggvunar á útgjaldaþróun ríkissjóðs tekið saman gögn um þróun útgjalda málefnasviða á undanförnum árum, allt frá árinu 2011.
    Frá 2011 hefur launavísitalan hækkað um 78% en neysluverðsvísitalan aðeins um 28%. Fullyrða má að hér er um einsdæmi að ræða í hagsögu landsins, þ.e. að laun hækki svona mikið umfram verðlag yfir margra ára tímabil. Þessi mismunur veldur því að ekki er einfalt að bera saman útgjöld á föstu verðlagi. Fyrir samanburðargildi slíkrar þróunar má segja að hvorug vísitalan gefi fulla mynd af raungildi útgjalda. Í því samhengi má færa rök fyrir því að skynsamlegast væri að byggja á samsettri vísitölu. Það mundi draga fram skýrari mynd af hverju málefnasviði fyrir sig þar sem vægi eftir samsetningu útgjalda er mismunandi á hverju málefnasviði. Sá hængur er á slíkum samanburði að framsetning talna í frumvarpinu og almennt á föstu verðlagi miðast að öllu jöfnu við neysluverðsvísitölu. Meiri hlutinn skoðar þess vegna sérstaklega hvernig gjöldin hafa þróast á yfirstandandi kjörtímabili frá árinu 2017. Taflan sýnir heildarútgjöld á föstu verðlagi 2020 þar sem gjöldin frá 2017 eru hækkuð upp sem nemur verðlags- og launareikningi fjárlaga. Svokölluð markaðsleiga ríkisaðila er undanskilin til þess að tölurnar séu sambærilegar við árið 2017. 2
    Samtals hækka útgjöld ríkissjóðs frá 2017 um 158 milljarða kr. sem er 18,9% að raungildi. Fram kemur að í fjárhæðum talið kemur mesta hækkunin fram hjá almennum varasjóði og sértækum fjárráðstöfunum. Undir það falla afskriftir skattkrafna. Varasjóðurinn nemur nú tæpum 11 milljörðum kr. eða um 1% af heildarútgjöldum ríkisins og er það í samræmi við 24. gr. laga um opinber fjármál. Meiri hlutinn bendir í þessu sambandi á að tilkoma varasjóðs sem nú er kominn upp í um 1% af heildargjöldum ríkissjóðs er mjög mikilvæg til þess að draga úr umfangi fjáraukalaga. Tilvist öflugs varasjóðs er því eitt að lykilatriðum laganna um opinber fjármál til þess að draga úr umframgjöldum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Næstmesta hækkunin er vegna aukins atvinnuleysis eða um 17,1 milljarð kr. og kemur hækkunin alfarið fram árið 2020 en nú er spáð 3,9% atvinnuleysi en það var 2,8% árið 2017. Þvínæst hækka framlög til örorkumála um 13,2 milljarða kr. Þar af hafa 4 milljarðar kr. verið settir sérstaklega inn til kerfisbreytinga í almannatryggingum til að bæta kjör öryrkja. Raunhækkun greiðslna nemur því rúmum 9 milljörðum kr. Fjölgun öryrkja skýrir ekki nema lítinn hluta hækkunarinnar þar sem þeim hefur fjölgað um 1% frá árinu 2017.
    Framlög til sjúkrahúsþjónustu hækka um 12,9 milljarða kr. að raungildi. Hér munar um að vegna lýðfræðilegrar þróunar er nú gert ráð fyrir um 1,8% raunaukningu framlaga til sjúkrahúsa í fjárlögum hvers árs. Fjármagnskostnaður hækkar um 11,8 milljarða kr. en fjárhæðir eru ekki samanburðarhæfar vegna breytinga á því hvernig verðlagsáhrif eru reiknuð á vaxtagjöld. Framlög til samgöngumála hækka um 11,7 milljarða kr. og er það í samræmi við stóraukin framlög sem fyrirhuguð eru á næsta ári í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og samgönguáætlun. Loks hækka framlög til málefnasviðs 29, fjölskyldumál, um 10,9 milljarða kr. sem er 35% raunhækkun á aðeins þremur árum. Þessi framlög stórhækkuðu í ár og aftur á næsta ári, aðallega með lengingu fæðingarorlofs og minni tekjuskerðingum barnabóta.
    Aðrar breytingar frá 2017 vega minna í fjárhæðum talið.

Umfjöllun um einstök málefnasvið.
Málefnasvið 05 Skatta- eigna- og fjármálaumsýsla.
    Í frumvarpinu er gerð grein fyrir umfangsmikilli raunhækkun framlaga til sviðsins sem er reyndar að verulegu leyti fjármögnuð með rekstrartekjum og hefur því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs. Meðal hækkunartilefna eru 200 millj. kr. vegna aukins skatteftirlits og er ætlunin að efla m.a. eftirlit með tekjum af útleigu íbúða til ferðamanna, gjaldfærðum kostnaði fyrirtækja, bifreiðahlunnindum, yfirferð á viðskiptum með fasteignir tengdra aðila og fylgja eftir ábendingum frá almenningi um skattaundanskot.
    Nú er gerð tillaga um 350 millj. kr. fjárheimild til sviðsins sem er ætlað að stórefla stafræna þjónustu ríkisins með því markmiði að bæta og auka skilvirkni í opinberri þjónustu með auknu framboði stafrænnar þjónustu og uppbyggingu sameiginlegra stafrænna innviða. Niðurstaða greiningar bendir til þess að með stafvæðingu 750 þjónustuferla og samruna 118 vefja ríkisins gæti ávinningur numið um 30 millj. kr. á ári. Framlagið fellur vel að stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um eflingu miðlægrar þjónustugáttar hins opinbera.

Málefnasvið 07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar.
    Framlög til málasviðsins hafa aukist um 1,9 milljarða kr. eða 14% að raungildi frá 2017, þrátt fyrir að miðað hafi verið við tímabundna 300 millj. kr. lækkun endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar.
    Í reglugerð nr. 450/2017 kemur fram að fari samþykktar endurgreiðslur á fjárlagaárinu umfram fjárveitingu er nefnd um endurgreiðslur heimilt að fresta greiðslu, annaðhvort að öllu leyti eða að hluta, yfir á næsta fjárlagaár. Verkefnin sem hefur verið samþykkt að uppfylli skilyrði missa þannig ekki rétt sinn til endurgreiðslu heldur frestast greiðslan fram á næsta fjárlagaár.
    Á árinu 2019 voru unnar tvær skýrslur sem fjalla m.a. um hvað megi fara betur við framkvæmd endurgreiðslukerfisins vegna kvikmyndagerðar. Önnur var unnin af Ríkisendurskoðun en hin af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Ráðuneytið er með þær skýrslur til skoðunar og er til athugunar hvort niðurstöður þeirra leiði til breytinga á lögunum og/eða reglugerð.

Málefnasvið 10 Réttindi einstaklinga.
    Nefndin hefur kannað nokkur mál tengd tveimur málaflokkum innan þessa málefnasviðs. Annars vegar eru mál sem tengjast sýslumönnum þar sem vakin er athygli á því að í breytingartillögum við fjármálaáætlun sl. vor var gert ráð fyrir 150 millj. kr. varanlegri hækkun á rekstrargrunni embættanna. Fjárheimildin er vistuð á safnlið í þríþættum tilgangi, í fyrsta lagi til að greiða niður uppsafnaðan rekstrarhalla, í öðru lagi til að gera rekstur sýslumannsembættanna sjálfbæran og í þriðja lagi til að auka stafræna vinnslu hjá embættum og spara þannig kostnað til lengri tíma litið. Ráðuneytið telur að það geti tekið 3–4 ár að koma þessum málum öllum í höfn. Ætlunin er að úthluta fjárveitingunni í samræmi við rekstraráætlanir og í samræmi við þann árangur sem embættin ná við endurskipulagningu á starfsemi sinni.
    Gerð er breytingartillaga um aukin framlög til þjóðkirkjunnar samtals að fjárhæð 246 millj. kr. og byggist á viðbótarsamningi ríkis og kirkju. Ekki er um nýjan samning að ræða heldur nánari útfærslu á fjárhagslegum samskiptum ríkis og kirkju. Af þeim sökum er ekki um skörun að ræða við lög um opinber fjármál. Samkomulagið bindur enda á óvissu í fjárhagslegum samskiptum ríkis og kirkju, en í allnokkur ár hefur framlagið verið leiðrétt í fjáraukalögum. Helstu atriði samkomulagsins eru í fyrsta lagi að gera breytingar sem mæta breyttu umhverfi ákvörðunar á starfskjörum starfsmanna kirkjunnar sem tengist breytingum á lögum um kjararáð. Þá er í samkomulaginu gert ráð fyrir endurskoðun þess eftir 15 ár, m.a. vegna fjölda félaga í þjóðkirkjunni, hlutverks hennar í samfélaginu og þjónustu.

Málefnasvið 11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
    Í samræmi við fjármálaáætlun er aukið verulega við fjárfestingu og viðhald í samgöngumálum. Frá árinu 2017 nemur aukningin 11,6 milljörðum kr. eða 32% að raungildi. Stærstur hluti hækkunarinnar kemur fram á næsta ári þegar sérstök 3,9 milljarða kr. aukning kemur til framkvæmda og viðhalds þar sem sérstök áhersla er lögð á að auka umferðaröryggi. Með þessari fjárveitingu verða heildarframlög til viðhalds vega um 10,5 milljarðar kr. og framlög til stofnframkvæmda um 16,5 milljarðar kr.
    Þróun útgjalda málefnasviðsins sýnir glögglega hve mikið hefur verið bætt í fjárfestingu á sl. árum. Ef skoðað er tímabil lengra aftur en frá árin 2017 kemur í ljós að að raunvirði, miðað við vísitölu neysluverðs, hafa gjöldin aukist stöðugt frá því að þau voru lægst árið 2012. Þessi aukna áhersla á innviðauppbyggingu er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og fellur vel að nauðsyn þess að ríkið dragi ekki úr framkvæmdum þótt spár um hagvöxt lækki. Einnig er þetta í samræmi við niðurstöður úr umsögnum fjölmargra aðila sem komið hafa á fund nefndarinnar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Meiri hlutinn vekur athygli á því að í breytingartillögum er gerð tillaga um 100 millj. kr. tímabundna hækkun til að halda eldri Vestmannaeyjaferju haffærri þar sem hún þarf að vera til taks ef óvænt atvik verða á meðan reynsla kemst á nýju ferjuna eða ef veðurskilyrði trufla samgöngur milli lands og Eyja.

Málefnasvið 14 Ferðaþjónusta.
    Framlög til sviðsins hækka um 242 millj. kr. eða 14% að raungildi frá 2017 þrátt fyrir að dregið sé úr framlögum til Flugþróunarsjóðs um 300 millj. kr. á næsta ári. Skýringin á því er einfaldlega sú að ekki hefur reynst þörf á greiðslum úr sjóðnum í þeim mæli sem ætlað var enn sem komið er. Eftir sem áður verður hægt að úthluta úr sjóðnum og nýta uppsafnaðan afgang fyrri ára til þess.
    Framlögin hafa að öðru leyti verið nýtt til að efla mjög alla stefnumótun og rannsóknir á málefnasviðinu. Hagsmunaaðilar hafa ásamt ráðuneytinu unnið að framtíðarsýn og leiðarljósi ferðaþjónustu til ársins 2030. Á þeim grunni er nú í vinnslu aðgerðabundin stefnumótun, með þátttöku hagsmunaaðila úr ferðaþjónustu, ráðuneyta, stofnana, sveitarfélaga og annarra aðila sem tengjast ferðaþjónustu, sem áætlað er að verði tilbúin í mars 2020.
    Í áliti meiri hluta fjárlaganefndar um fjármálaáætlunina sl. vor var gerð sú tillaga að verja 25 millj. kr. til að efla rannsóknir í ferðaþjónustu. Á undanförnum árum hefur ferðaþjónustan gegnt lykilhlutverki í gjaldeyrisöflun og haft mikil áhrif á efnahag þjóðarinnar.
    Eftirfarandi kom fram í áliti meiri hluta fjárlaganefndar við fjármálaáætlun 2020–2024: „Sérstaklega er mikilvægt að hafa sem besta yfirsýn yfir það hvernig sætaframboð í flugi um Keflavíkurflugvöll skiptist á milli farþega sem eru annars vegar að fljúga til og frá Íslandi og hins vegar þeirra sem nýta sér tengiflug á milli Evrópu og Ameríku. Um þá þróun þarf að fjalla sérstaklega og áhrif hennar á efnahagslífið og ferðaþjónustuna á Íslandi.“
    Nú virðist sú staða vera að teiknast upp að samsetning farþega Icelandair hafi breyst töluvert eftir fall WOW air. Áhersla flugfélagsins hefur verið að draga úr hlut þeirra viðskiptavina félagsins sem hafa nýtt sér tengiflugið um Keflavíkurflugvöll og fjölga þeim farþegum sem fljúga til og frá Íslandi. Miðað við tölur sem voru kynntar vegna uppgjörs þriðja ársfjórðungs hafa orðið töluvert miklar breytingar á samsetningu farþega félagsins. Þetta hefur dregið verulega úr áfallinu sem ferðaþjónustan lenti í við fall WOW air.

Málefnasvið 17 Umhverfismál.
    Framlög til málefnasviðsins hækka um 1 milljarð kr. milli áranna 2019 og 2020 eða sem svarar 5,5%. Er þá ekki meðtalin hækkun vegna launa- og verðlagsbóta sem nema tæpum 400 millj. kr. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að auka framlög til loftslagstengdra verkefna á árinu 2020 um 455 millj. kr. í samræmi við stjórnarsáttála og fjármálaáætlun 2020–2024. Þar er einkum um að ræða verkefni í tengslum við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Einnig hækka framlög til uppbyggingar innviða, rannsókna og vöktunar á svæðum íslenskrar náttúru, til landvörslu og hringrásarhagkerfisins. Í heildina hafa fjárveitingar til umhverfismála aukist um rúm 24% að raunvirði það sem af er kjörtímabilinu og gert er ráð fyrir enn frekari aukningu næstu árin.
    Meiri hlutinn telur áhersluna sem lögð er á umhverfis- og loftslagsmál afar mikilvæga, enda loftslagsmálin stórt og brýnt hagsmunamál almennings. Nauðsynlegt er að halda áfram á sömu braut og auka enn frekar aðgerðir tengdar loftslagsmálum, á öllum málefnasviðum.
    Gerðar eru tillögur um samtals 137 millj. kr. hækkun til málefnasviðsins af ýmsum tilefnum sem eru skýrð nánar í kaflanum um breytingartillögur.

Menntamál.
    Að raungildi hækka framlög til mennta- og menningarmála (málefnasvið 18 til og með 21) um 7 milljarða kr. frá árinu 2017 eða meira en 7%. Þá er búið að leiðrétta fyrir 3 milljarða kr. lækkun framlaga til Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) þar sem sjóðurinn hefur fengið framlög umfram raunþörf hans á undanförnum árum. Það hefur þó engin áhrif á útlán sjóðsins heldur er eingöngu gengið á eigið fé sem nemur rúmum 100 milljörðum kr.

Málefnasvið 20 Framhaldsskólastig.
    Framlög næsta árs eru áætluð 33,7 milljarðar kr. og í því fellst lítils háttar raunaukning frá 2017 þrátt fyrir að á sama tíma hafi námstími til stúdentsprófs verið styttur úr fjórum árum í þrjú. Það felur í sér að skólarnir halda fjárveitingum að raungildi þrátt fyrir fækkun nemenda og það gerir skólunum kleift að ráðast í tækjakaup og endurnýjun búnaðar sem hefur setið á hakanum á undanförnum árum. Áfram er unnið að menntastefnu til ársins 2030 og í henni felst m.a. styrking starfsnáms. Endurbætt reiknilíkan til að deila út fjármagni til framhaldsskóla verður tekið í notkun árið 2021.

Málefnasvið 21 Háskólastig.
    Fram kemur í töflu á bls. 8 að framlög til háskólastigsins aukast ekki að raungildi frá 2017 en skýringin felst alfarið í leiðréttingum á framlögum til LÍN. Þær eru tilkomnar vegna ofgreiddra framlaga á undanförnum árum og uppfærðri áætlun um lánveitingar í kjölfar fækkunar lánþega. Að framlögum til LÍN undanskildum hækka framlög til háskólastigsins um 3,3% að raungildi á milli ára.
    Í undirbúningi er nýtt stuðningskerfi fyrir námsmenn sem felur í sér gagnsærri og jafnari styrki til námsmanna. Námsaðstoðin sem sjóðurinn mun veita verður áfram í formi lána á hagstæðum kjörum og til viðbótar verða beinir styrkir vegna framfærslu barna og 30% niðurfelling á hluta af námslánum við lok prófgráðu innan skilgreinds tíma. Kerfið miðar að því að bæta fjárhagsstöðu háskólanema, ekki síst þeirra sem hafa börn á framfæri, og skapa hvata til að nemar ljúki námi á tilsettum tíma. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur þegar lagt fram frumvarp þessa efnis.

Heilbrigðismál.
    Forgangsröðun í heilbrigðismálum sem byggist á heilbrigðisstefnu kemur skýrt fram í frumvarpinu.
    Áfram verður haldið að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu og eru í frumvarpinu 200 millj. kr. merktar því verkefni. Áhersla verður lögð á áframhaldandi uppbyggingu geðheilsuteyma um allt land. Í ár runnu 650 millj. kr. til reksturs þeirra og nú verður bætt um betur með 100 millj. kr. framlagi til viðbótar. Þjónusta heilsugæslunnar við aldraða verður styrkt með 200 millj. kr. til að innleiða heilsueflandi heimsóknir. Framlög til að bæta heilbrigðisþjónustu við fanga, þ.m.t geðheilbrigðisþjónustu, hækka um 90 millj. kr. á næsta ári sem að hluta renna til samninga við heilsugæsluna um veitingu þjónustunnar. Reglubundin bólusetning barna við hlaupabólu hefst á næsta ári og renna til þess um 40 millj. kr.
    Unnið verður að því markmiði að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga og nema aukin framlög til þess 300 millj. kr. á næsta ári. Lækkun greiðsluþátttöku er afgerandi þáttur í því að tryggja jafnt aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu.
    Þá verður áhersla lögð á að fjölga sérhæfðum dagdvalarrýmum fyrir fólk með heilabilun og áformað er að koma á fót sveigjanlegri dagdvöl fyrir aldraða sambærilegri við dagdvöl af því tagi sem opnuð var á Akureyri á þessu ári. Í samræmi við áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma er í fjárlagafrumvarpinu gert ráð fyrir að auka framlög til uppbyggingar hjúkrunarrýma um 1,8 milljarða kr. á næsta ári. Aukin framlög til reksturs hjúkrunarrýma sem leiðir af fjölgun þeirra nema tæpum 1,9 milljörðum kr.
    Uppbygging nýs Landspítala verður áfram í forgangi. Þrátt fyrir að ekki þurfi allt það fjármagn sem áætlað var í frumvarpinu vegna seinkunar framkvæmda renna samtals um 5 milljarðar kr. til verkefnisins.

Málefnasvið 23 Sjúkrahúsþjónusta.
    Sjúkrahúsþjónusta er umfangsmesta málefnasvið ríkisins og heildargjöldin eru áætluð 106 milljarðar kr. á næsta ári. Annað árið í röð gera fjárlög nú ráð fyrir um 1,8% raunvexti vegna lýðfræðilegar þróunar, m.a. vegna öldrunar þjóðarinnar.
    Nefndin hefur sérstaklega skoðað fjárhagsstöðu Landspítalans sem er langumfangsmesta ríkisstofnun landsins og átti fundi bæði með fulltrúm heilbrigðisráðuneytis og Landspítala.
Frá árinu 2017 hafa framlög til sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu aukist um tæpa 13 milljarða kr. eða um 14%. Ekki liggur fyrir nein einhlít skýring á þessari útgjaldaþróun en skýringa er m.a. að leita í aukinni hjúkrunarþyngd á undanförnum árum m.a. vegna öldrunar þjóðarinnar. Íbúum eldri en 67 ára hefur fjölgað um 7% frá árinu 2017 og með því eykst heilbrigðiskostnaður verulega. Þá hefur skortur á hjúkrunarrýmum og heimahjúkrun leitt til þess að ekki er hægt að útskrifa sjúklinga af Landspítalanum með tilheyrandi kostnaði.
    Um árabil hefur reynst erfitt að manna spítalann með hagkvæmum hætti og hefur spítalinn farið í sérstök verkefni til þess að hækka laun hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra gegn því að þær taki á sig aukið starfshlutfall í vaktavinnu.
    Undanfarið hafa farið fram viðræður milli heilbrigðisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis um endurmat á kostnaðarmati kjarasamninga, en endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir enn sem komið er.
    Nefndin kannaði sérstaklega starfsmannakostnað Landspítala frá 2014 til 2018. Samtals hafa laun og annar starfsmannakostnaður hækkað um 19,1 milljarð kr. á því tímabili og er það 55% hækkun á fjórum árum, á sama tíma hækkar launavísitalan um 36%. Ársverkum fjölgar úr 3.733 í 4.290 eða um 15% á tímabilinu. Ef ársverkum hefði ekki fjölgað er hlutfallsleg hækkun starfsmannakostnaðar í samræmi við þróun launavísitölunnar. Nefndin telur mikilvægt að greina þróunina eftir einstökum starfsstéttum og brýnt að heilbrigðisráðuneytið í samvinnu við Landspítala skilgreini þær lykilupplýsingar um fjárhag og starfsemi spítalans sem nauðsynlegar eru til þess að geta betur fylgst með útgjaldaþróun til að unnt verði að bregðast tímanlega og fyrr við breyttum aðstæðum.

Málefnasvið 25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
    Nefndin hefur kynnt sér ítarlega margvísleg gögn vegna fjárhagsstöðu hjúkrunarheimila og telur að meiri sveigjanleika og fjölbreytni þurfi vegna hjúkrunarrýma og skoða megi fyrirkomulag stjórnsýslu, fjármögnunar og nýbygginga heimilanna.
    Mikill meiri hluti hjúkrunarheimila er rekinn með halla ár eftir ár, en afkoma er engu síður mjög misjöfn eftir heimilum. Þessi breytileiki bendir til þess að rekstur margra hjúkrunarheimila mætti vera betri. Samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndin hefur aflað sér stefnir í mun lakari afkomu á yfirstandandi ári en í fyrra. Fjölmörg sveitarfélög sem bera fjárhagslega ábyrgð á rekstri hjúkrunarheimila hafa rökstutt og bent á viðvarandi hallarekstur.
    Heilbrigðisráðuneytið fól Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) að sjá um kaup ríkisins á þjónustu hjúkrunar- og dvalarheimila í samræmi við lög nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Bæta þarf kostnaðargreiningar á rekstri hjúkrunarheimila. Fyrir nokkrum árum gaf Ríkisendurskoðun út skýrslu, auk eftirfylgni, um rekstrarafkomu og fjárhagsstöðu hjúkrunarheimila. Sú vinna leiddi m.a. til þess að heildarsamningar náðust við hjúkrunarheimilin sem nú eru fallnir úr gildi. Nú er staðan þannig að upplýsingar um afkomu og efnahag heimilanna liggja ekki fyrir með samræmdum hætti.
    Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að draga fram nýjar lausnir í húsnæðismálum málefnasviðsins. Taka þarf mið af nýtingu húsnæðis og hagkvæmni við byggingu hjúkrunarheimila. Þar kemur helst til greina að gera það hagkvæmt fyrir heimilin að breyta dvalarrýmum í hjúkrunarrými og nýta til fullnustu það húsnæði sem er nú þegar til staðar auk þess að efla þarf heimaþjónustu. Endurskoða má ýmsa aðra þætti eins og kostnaðarhlutdeild í lyfjakostnaði heimilismanna og minnka þannig misræmi á milli heimila, t.d. að fólk haldi lyfjakostnaðarþátttöku með almennum reglum um kostnaðarþátttöku.
    Í nefndaráliti meiri hluta um fjármálaáætlun var lagt til að ráðherra skipaði þverpólitíska nefnd sem færi yfir rekstur og framtíðarfyrirkomulag á byggingum og rekstri hjúkrunarheimila. Meiri hlutinn ítrekar þessi tilmæli og bendir á að fyrir næstu fjármálaáætlun verði að liggja fyrir úrræði um rekstrarvanda heimilanna enda er með skýrum hætti horft til eflingar á þessu þjónustuúrræði í stjórnarsáttmála.

Málefnasvið 27 Örorka og málefni fatlaðs fólks.
    Nefndin hefur oft fjallað ítarlega um málefni öryrkja sérstaklega í áliti sínu um fjárlagafrumvarp í fyrra. Þar var m.a. fjallað um fjölgun örorkulífeyrisþega frá árinu 2010 og framreikning á heildarfjárhæð bótagreiðslna á næstu árum. Samkvæmt nýjustu tölum hefur hins vegar hægt mjög á fjölguninni og sem hlutfall af mannfjölda lækkaði hlutfall öryrkja lítillega úr 9,9% í janúar 2018 í 9,8% í janúar á þessu ári. Fjölgunin á sl. árum er einkum meðal kvenna á aldrinum 50 til 66 ára. Horfa þarf til þessara þátta við framtíðarendurskoðun almannatryggingakerfisins. Gert er ráð fyrir að framlög til málaflokksins hækki um 2,3 milljarða kr. milli ára og þar vegur þyngst endurmat á lýðfræðilegri þróun þjóðarinnar en einnig hækka gjöldin vegna breyttra forsendna búsetuútreikninga.
    Heildartekjur örorkulífeyrisþega hafa hækkað að meðaltali um 11% frá árinu 2017, þegar allar tekjur og réttindi fyrir skatt eru tekin saman. Öryrkjabandalagið bendir á í sinni umsögn að gliðnun hafi orðið á milli lægstu taxtalauna og örorkulífeyrisgreiðslna og því er brýnt að greina betur hvernig staða mismunandi hópa þróast því þó að meðaltekjur hafi hækkað talsvert undanfarin tvö ár er ekki víst að það gefi rétta mynd af stöðu allra í hópnum. Taka þarf mið af því að hópurinn er afar fjölbreyttur og því mikilvægt að þær breytingar sem fyrirhugaðar eru nýtist sérstaklega til að bæta kjör þeirra sem verst standa. Um árabil hafa stjórnvöld haft á stefnuskrá sinni að breyta tryggingakerfum sem miða m.a. að því að taka upp einfaldara og sveigjanlegra bótakerfi vegna örorku og skertrar starfsgetu. Markmið slíkra breytinga eru tvenns konar.
    Í fyrsta lagi er markmiðið að geta veitt þeim sem ekki geta unnið nægan stuðning og í öðru lagi að styðja og hvetja þá sem geta unnið til þess að fara út á vinnumarkaðinn. Samkvæmt greiningum Hagstofu Íslands er atvinnuþátttaka öryrkja rúm 30% sem er lágt í alþjóðlegum samanburði. Breytingar á skerðingarhlutföllum í almannatryggingakerfinu sem tóku gildi á þessu ári ættu að verða til þess að auka atvinnuþátttöku.
    Unnið er að frumvarpi um breytt greiðslukerfi almannatrygginga, byggt á vinnu starfshóps sem félagsmálaráðherra skipaði. Er kerfinu ætlað að skapa hvata til atvinnuþátttöku þar sem aukin áhersla er lögð á snemmtæka íhlutun og starfsendurhæfingu með þverfaglega nálgun að leiðarljósi. Jafnframt er ábyrgð atvinnulífsins á að ráða fólk með skerta starfsgetu ítrekuð. Um fimmtungur öryrkja skilgreinir sig sem tímabundið ófæran til vinnu eða veikan svo að aðgerðir til að efla heilbrigðiskerfið og starfsendurhæfingu eru mikilvægar til að auka möguleika fólks á að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Þá er brýnt að huga sérstaklega að kjörum þess hluta örorkulífeyrisþega sem ekki getur tekið þátt á vinnumarkaði.
    Samkvæmt reglugerð nr. 1199/2018, um eingreiðslur til lífeyrisþega árið 2019, fá örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar greidda desemberuppbót 1. desember nk. Nemur desemberuppbótin 30% af fjárhæð tekjutryggingar og heimilisuppbótar hvers lífeyrisþega.
    Meiri hlutinn áformar að leggja til þá breytingu við gerð fjáraukalaga ársins 2019 að til viðbótar desemberuppbótinni verði þeim örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem fá greidda desemberuppbót á árinu 2019 einnig greidd sérstök eingreiðsla sem nemi 10.000 kr. Jafnframt leggur nefndin til að þessi sérstaka eingreiðsla teljist ekki til tekna við útreikning bóta samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, húsnæðisbóta eða sérstaks húsnæðisstuðnings sveitarfélaga. Meiri hlutinn gerir ráð fyrir að hagur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega verði bættur með aukinni áherslu á starfsendurhæfingu og innleiðingu nýs greiðslukerfis fyrir fólk með skerta starfsgetu. Slíkar breytingar munu krefjast aukins fjármagns af hálfu ríkisins og er mikilvægt að þær verði vel undirbúnar og innleiddar í góðu samráði við hagsmunasamtök öryrkja.

Málefnasvið 28 Málefni aldraðra.
    Að raungildi hækka framlög til málasviðsins um 8,9 milljarða kr. frá 2017 sem eru tæp 12% og skýrist hækkunin nær alfarið af lýðfræðilegri þróun, þ.e. fjölgun aldraðra. Fjöldi landsmanna sem eru 67 ára og eldri hefur aukist um tæp 3 þúsund manns eða 7% á tveimur síðustu árum. Gert er ráð fyrir óverulegum breytingum á næsta ári.
    Meiri hlutinn bendir á að með kerfisbreytingu á greiðslum til aldraðra sem tóku gildi árið 2017 var kerfi almannatrygginga gerbreytt og heildargreiðslur hækkaðar verulega frá því sem áður var, eða um 16 milljarða kr. sem er meira en 30% hækkun á einu ári. Það er því ekki gert ráð fyrir umtalsverðum breytingum á fjárheimildum málefnasviðsins á næstu árum, fyrir utan aukningu sem nemur fjölgun aldraðra. Þó kemur inn nýtt fjármagn, 100 millj. kr., sem ráðstafað er í að bæta kjör aldraðra sem búa við hvað lökust kjör.

Málefnasvið 35 Alþjóðleg þróunarsamvinna.
    Í fjármálaáætluninni í vor voru 300 millj. kr. millifærðar frá þróunarsamvinnu yfir á málefnasvið utanríkismála en jafnframt boðað að heildarframlag til þróunaraðstoðar yrði endurskoðað í meðferð þingsins á fjárlagafrumvarpinu. Það hefur nú verið gert og er lagt til að 300 millj. kr. bætist við framlag til þróunarsamvinnu við 2. umr.
    Útreikningar á þeim útgjöldum sem flokkast undir þróunarsamvinnu miðast við alþjóðlega skilgreiningu (DAC) sem nú er til endurskoðunar. Verulegur hluti útgjalda vegna hælisleitenda hefur flokkast undir þessa skilgreiningu og þarf að taka það til endurskoðunar í tengslum við gerð næstu fjármálaáætlunar.


Skýringar við breytingartillögur á gjaldahlið.


01 Alþingi og eftirlitsstofnanir þess.

01.10 Alþingi.
    Lagt er til að veitt verði 10 millj. kr. framlag næstu tíu árin til útgáfu á dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi í tilefni af aldarafmæli Hæstaréttar. Tillagan er í samræmi við þingsályktunartillögu sem forsætisnefnd lagði fram á yfirstandandi löggjafarþingi, sbr. þskj. 250. Hæstiréttur Íslands verður 100 ára á næsta ári, 2020. Ýmist má miða afmælisdaginn við gildistöku laga um Hæstarétt Íslands 1. janúar 1920 eða fyrsta dómþing sem var haldið 16. febrúar 1920. Rétturinn er stofnaður á grundvelli sambandslaganna frá 1918, en samkvæmt þeim átti Ísland kost á því að taka til sín æðsta dómsvald landsins sem áður var hjá Hæstarétti Danmerkur í Kaupmannahöfn. Stofnun Hæstaréttar Íslands var ákveðin með lögum frá Alþingi nr. 22/1919.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 5,7 millj. kr. til lækkunar.

01.20 Eftirlitsstofnanir Alþingis
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,4 millj. kr. til lækkunar.

02 Dómstólar.
02.10 Hæstiréttur.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,8 millj. kr. til lækkunar.

02.20 Héraðsdómstólar.
    Gerð er tímabundin tillaga um 8 millj. kr. breytingu á hagrænni skiptingu af rekstri á fjárfestingu.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1,4 millj. kr. til lækkunar.

02.30 Landsréttur.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1,5 millj. kr. til lækkunar.

02.40 Dómstólasýslan.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1 millj. kr.

03 Æðsta stjórnsýsla.
03.10 Embætti forseta Íslands.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1,1 millj. kr.

03.30 Forsætisráðuneyti.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1,9 millj. kr.

04 Utanríkismál.
04.10 Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála.
    Lagt er til veitt verði 30 millj. kr. tímabundið framlag vegna undirbúnings fyrir formennsku Íslands í Evrópuráðinu árin 2022–2023. Endurmat á kostnaðaráætlun hefur leitt í ljós töluvert vanmat á fyrri áætlunum þar sem forsendur fyrir verkefninu hafa breyst nokkuð. Í fyrsta lagi hefur nokkur óvissa ríkt um tímasetningu formennsku Íslands og hvenær þyrfti að opna fastanefnd í aðdraganda hennar. Því var einungis lögð fram gróf fjárhagsáætlun við undirbúning fjármálaáætlunar fyrir árin 2020–2024. Nú liggur fyrir að formennska Íslands verður frá nóvember 2022 til maí 2023. Í öðru lagi þarf fastanefndin að vera stærri en hefðbundnar fastanefndir vegna undirbúnings fyrir formennsku Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins, bæði vegnar rekstrar formennskuáætlunar Íslands sem og stórs ráðherrafundar Evrópuráðsins í Reykjavík í maí 2023. Upphafleg kostnaðaráætlun gerði ekki ráð fyrir leigu á skrifstofuhúsnæði fyrir fastanefndina, en slíkt er nauðsynlegt þegar svo skammur tími er fyrir undirbúning auk þess sem gera þarf ráð fyrir að þrír starfsmenn verði starfandi í Strassborg á undirbúningstímanum og meðan á formennskunni stendur. Frá því að Ísland fór með formennsku síðast árið 1999 hefur umfang verkefnisins aukist nokkuð. Við endurskoðun kostnaðaráætlunar nú var því horft til upplýsinga frá Danmörku og Finnlandi sem fóru með formennsku árin 2017–2018 og 2018–2019. Upphafleg kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir 19 millj. kr. útgjöldum árið 2020, 44,5 millj. kr. hvort ár 2021 og 2022 og 30,5 millj. kr. árið 2023. Endurskoðuð kostnaðaráætlun gerir nú ráð fyrir 49 millj. kr. árið 2020, 91 millj. kr. árið 2021, 114,5 millj. kr. árið 2022 og 110 millj. kr. árið 2023, eða samtals 364,5 millj. kr. á tímabilinu 2020–2023. Útgjöldin eru því vanáætluð um sem nemur 30 millj. kr. á næsta ári. Hvorki var gert ráð fyrir þeim í útgjaldaramma málaflokksins 4.10 Utanríkismál og stjórnsýsla utanríkismála í fjármálaáætlun 2020–2024 né frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2020.
    Lagt er til að veitt verði 15 millj. kr. fjárveiting vegna árlegs þings Hringborðs norðurslóða (Arctic Circle).
    Lagt er til að fjárveiting vegna umsókna um Schengen-áritanir til Íslands verði hækkuð um 11 millj. kr. Nýr fyrirsvarssamningur við Dani var undirritaður 11. september 2019. Í samningnum er kveðið á um 11 millj. kr. þóknun vegna þjónustu Dana við afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritanir fyrir árið 2019 sem gert er ráð fyrir að komi til greiðslu í maí 2020. Fjárhæðin tekur mið af gengi dönsku krónunnar 30. september 2019. Um er að ræða útgjöld sem komu óvænt upp við gerð fyrirsvarssamnings við Dani og ekki var hægt að ná samkomulagi um án umræddrar þóknunar. Hvorki var gert ráð fyrir umræddum útgjöldum í fjárlögum yfirstandandi árs, fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020 né í fjármálaáætlun 2020– 2024. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2019 er gerð tillaga sama efnis vegna þóknunar fyrir árið 2018.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 14,8 millj. kr. til hækkunar.

04.30 Samstarf um öryggis- og varnarmál.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 14 millj. kr. til lækkunar.

04.50 Samningsbundin framlög vegna fjölþjóðasamstarfs.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 33,8 til hækkunar.

05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla.
05.10 Skattar og innheimta.
    Sértekjur tollstjóra verða mun lægri í ár og á komandi árum en gert er ráð fyrir í fjárlögum og fjármálaáætlun. Hluti af fjárveitingum embættisins hefur verið í formi sértekna vegna tollafgreiðslu skipa og flugvéla utan almenns afgreiðslutíma. Á fyrsta ársfjórðungi hætti stór flugrekstraraðili rekstri en hann hafði verið næsthæsti greiðandi tollafgreiðslugjalda. Vonir stóðu til að önnur flugfélög mundu fylla það skarð sem myndaðist við brotthvarf flugrekstraraðilans en það hefur gengið hægar en vonir stóðu til. Í ár stefnir í að innheimtar tekjur verði 150 millj. kr. lægri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Embætti tollstjóra hefur þegar gripið til aðgerða til að takast á við þessar breyttu rekstrarforsendur, m.a. með því að ráða ekki í lausar stöður. Í frumvarpinu er byggt á sértekjuáætlun embættisins sem unnin var við gerð fjármálaáætlunar þegar ekki lá fyrir hvernig sértekjurnar mundu þróast. Nú hefur embættið uppfært sértekjuáætlun sína miðað við nýjar forsendur og gerir embættið ráð fyrir að sértekjur verði 150 millj. kr. lægri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Embættið þarf að mæta hagræðingarkröfu líkt og aðrar stofnanir á málefnasviðinu og nemur hagræðingarkrafan í frumvarpinu samtals 52,2 millj. kr.
    Að mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins er tollstjóri ekki í stakk búinn til að takast á við allan sértekjumissinn og nauðsynlegt að hækka framlag til embættisins um 90 millj. kr. Miðað við framangreindar forsendur þarf tollstjóri að hagræða sem nemur fjórum stöðugildum á árinu 2020 til viðbótar við almenna hagræðingarkröfu.
    Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála mun flytja í húsnæði yfirskattanefndar og mun hluti af heildarleigukostnaði falla á nefndina. Yfirskattanefnd millifærir þann hlutfallslega leigukostnað, 9,2 millj. kr., sem mun falla á úrskurðarnefndina af fjárheimildum sínum til nefndarinnar.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 9,5 millj. kr. til lækkunar.

05.20 Eignaumsýsla ríkisins.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,2 millj. kr. til lækkunar.

05.30 Fjármálaumsýsla ríkisins.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 6,5 millj. kr. til lækkunar.

05.40 Stjórnsýsla ríkisfjármála.
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að stafræn samskipti verði meginsamskiptaleið við hið opinbera fyrir lok árs 2020 og er gerð tillaga um 350 millj. kr. fjárheimild í tengslum við það. Verkefnastofa um stafrænt Ísland vinnur að stafvæðingu þjónustuferla og vinnur í því sambandi að innleiðingu X Road/Straumsins sem meginsamskiptaleiðar. Fyrir liggur að breyta fjölmörgum umsóknum og öðrum samskiptum við almenning í stafrænt form. Til þess að hægt verði að vinna að þessu með markvissum hætti þarf aukið fjármagn. Stefnt er að því að ljúka 365 verkefnum á árinu 2020 sem leiða mun til aukins framboðs stafrænnar þjónustu. Verkefnin eru fjölbreytt og misumfangsmikil, allt frá því að yfirfæra þjónustu af pappír yfir á rafrænt undirritað eyðublað, sjálfvirkja einfalda þjónustuferla eða innleiða heildstætt sjálfsafgreiðsluferli, t.d. fyrir Fæðingarorlofssjóð. Samkvæmt ábatagreiningu á stafvæðingu þjónustuferla er áætlað að með stafvæðingu 750 ferla og samruna 118 vefja ríkisins gæti ávinningur numið um 30 milljörðum kr. á ári. Niðurstaða greiningarinnar er að áætlaður einskiptiskostnaður stofnana og ráðuneyta gæti numið um 10 milljörðum kr. til að ná þessum árangri. Laun starfsmanna sem koma að vinnunni eru þar meðtalin.
    Millifærð er 77,1 millj. kr. vegna breytingar á hagrænni skiptingu. Um er að ræða fjárveitingu vegna fjárlagakerfis sem talið var að þyrfti að eignfæra. Nú hefur hins vegar verið horfið frá því og fjárveitingin því færð aftur yfir í rekstur.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 7,9 millj. kr. til lækkunar.

06 Hagskýrslugerð og grunnskrár.
06.10 Hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál.
    Lagt er til að 69,1 millj. kr. framlag fari til brýnna verkefna hjá Þjóðskrá Íslands er snúa m.a. að þróun þjóðskrárkerfisins, uppfærslu gagnagrunna og stýrðri miðlun gagna með tilliti til persónuverndar. Í dag getur Þjóðskrá Íslands ekki staðið undir þeim kröfum sem löggjöfin leggur á stofnunina. Ítarlegt kostnaðarmat liggur því til rökstuðnings og byggist matið á verkefnum sem má skipta í þrjá flokka, þ.e. lagabreytingar, miðlun þjóðskrár og rafræna þjónustu þjóðskrár. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður upp á 308 millj. kr. falli til á fjórum árum og að verkefninu ljúki 2023. Áætlað er að á árinu 2021 verði kostnaður 85,2 millj. kr., árið 2022 84,8 millj. kr. og árið 2023 69,2 millj. kr.
    Gerð er leiðrétting á hagrænni skiptingu hjá Landmælingum Íslands, 4,6 millj. kr. eru færðar af rekstri á stofnkostnað.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 3,2 millj. kr.

07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar.
07.10 Vísindi og samkeppnissjóðir í rannsóknum.
    Lagt er til að veitt verði 50 millj. kr. framlag til rannsókna, m.a. til að vega upp á móti aðhaldskröfu hjá Rannsóknasjóði sem gerð er í frumvarpinu. Jafnframt er gert er ráð fyrir að lækka fjárveitingu vegna tilfærslna hjá sjóðnum og hækka fjárveitingu vegna annarra gjalda um 25 millj. kr.
    Gert er ráð fyrir að lækka fjárveitingu vegna tilfærslna og hækka fjárveitingu vegna annarra gjalda um 3 millj. kr. hjá Innviðasjóði.
    Lögð er til 787,9 millj. kr. lækkun á framlagi til rammaáætlana ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun í kjölfar endurskoðaðrar kostnaðaráætlunar fyrir árið 2020. Jafnframt er gert ráð fyrir að hækka fjárveitingu vegna launa og lækka fjárveitingu vegna annarra gjalda um 10 millj. kr.
    Gerð er breyting á fjármögnun rannsóknasjóðs til að auka verðmæti sjávarfangs, AVS, í samræmi við 6. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Samkvæmt þeirri grein skulu tekjur vegna gjalds fyrir aflaheimildir til frístundaveiða renna í ríkissjóð en sjóðnum verði ákvörðuð fjárveiting samkvæmt fjárlögum hverju sinni. Með tillögu þessari er því lögð til leiðrétting á fjármögnun gjaldaheimildar sjóðsins til samræmis við þetta.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 50,1 millj. kr. til hækkunar.

07.20 Nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar.
    Lagt er til að flytja 20 millj. kr. af fjárlagaviðfangi 04-528-197 á fjárlagaviðfang 04-528-196 Hönnunarmál. Verið er að sameina framlög til hönnunarmála á einn lið.
    Fluttar eru 49 millj. kr. af rekstrarframlögum yfir á rekstrartilfærslur.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1,7 millj. kr. til lækkunar.

08 Sveitarfélög og byggðamál.
08.10 Framlög til sveitarfélaga.
    Gerð er tillaga um að fjárheimild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga lækki um 258,4 millj. kr. á verðlagi ársins 2019 í samræmi við endurskoðaða áætlun um lögboðið framlag í sjóðinn af skatttekjum ársins 2020 og útsvarsstofni árið 2019. Í frumvarpinu hefur þegar verið gert ráð fyrir 139,4 millj. kr. hækkun á framlaginu frá fjárlögum fyrir árið 2019 á verðlagi ársins 2019 þannig að með þessari tillögu lækka framlögin á föstu verðlagi um 119 millj. kr. milli ára.
    Þá er jafnframt gert ráð fyrir 125 millj. kr. lækkun vegna breytinga á verðlagshækkun framlagsins milli ára til samræmis við uppfærða þjóðhagsspá. Áætluð framlög á árinu 2020 miðast við að innheimtar skatttekjur verði 788.735 millj. kr. árið 2020 og að útsvarsstofn ársins 2019 verði 1.691.000 millj. kr. Lögbundin framlög ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eru ákvörðuð með tvenns konar hætti samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Í fyrsta lagi er 16.650 millj. kr. framlag úr ríkissjóði sem er 2,111% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs. Í öðru lagi er 4.464 millj. kr. framlag sem er 0,264% af álagningarstofni útsvars næstliðins tekjuárs. Samkvæmt því má gera ráð fyrir að lögbundin framlög til sjóðsins verði samtals 21.114 millj. kr. árið 2020.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 125 millj. kr. til lækkunar.

08.20 Byggðamál.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,7 millj. kr. til lækkunar.

09 Almanna- og réttaröryggi.
09.10 Löggæsla.
    Lagt er til að fjárheimild málaflokksins hækki um 81,4 millj. kr. þar sem kostnaður af samræmdri neyðarsvörun sem svarar til 22,4% af kostnaði af rekstri Neyðarlínunnar er ekki lengur borinn af framlögum úr jöfnunarsjóði alþjónustu. Samningar Neyðarlínunnar og dómsmálaráðuneytisins byggjast á ákvæði 3. mgr. 8. gr. laga um samræmda neyðarsímsvörun, nr. 40/2008, en þar segir að: „Kostnaður við uppbyggingu og rekstur vaktstöðvar, að því marki sem hann er ekki greiddur af tekjum fyrir þá þjónustu sem vaktstöðin veitir, greiðist úr ríkissjóði.“
    Gert er ráð fyrir að bílamiðstöð ríkislögreglustjóra verði lögð niður. Við það lækka útgjöld á rekstrarlið um 382,7 millj. kr. og tekjur að sama skapi um sömu fjárhæð. Jafnframt lækka útgjöld á stofnakostnaðarlið um 218,4 millj. kr. og tekjur að sama skapi um sömu fjárhæð.
    Gerð er tillaga um breytingu á hagrænni skiptingu hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, 28,7 millj. kr. færast af rekstri á fjárfestingu.
    Gerð er tillaga um breytingu á hagrænni skiptingu hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum, 31,3 millj. kr. færast af rekstri á fjárfestingu. Jafnframt er gerð tillaga um 13,4 millj. kr. leiðréttingu á tegundaskiptingu af öðrum gjöldum yfir á laun.
    Gerð er tillaga um breytingu á hagrænni skiptingu hjá lögreglustjóranum á Vesturlandi, 6 millj. kr. færast af rekstri á fjárfestingu.
    Gerð er tillaga um breytingu á hagrænni skiptingu hjá lögreglustjóranum á Vestfjörðum, 12,3 millj. kr. færast af rekstri á fjárfestingu.
    Gerð er tillaga um breytingu á hagrænni skiptingu hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra, 7,4 millj. kr. færast af rekstri á fjárfestingu.
    Gerð er tillaga um breytingu á hagrænni skiptingu hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra, 29,8 millj. kr. færast af rekstri á fjárfestingu.
    Gerð er tillaga um breytingu á hagrænni skiptingu hjá lögreglustjóranum á Austurlandi, 13,1 millj. kr. færast af rekstri á fjárfestingu.
    Lagt er til að embætti lögreglustjórans á Suðurlandi verði veittar 10 millj. kr. vegna vöktunar við Öræfajökul í tengslum við óvissustig vegna eldgoss. Jafnframt er gerð tillaga um breytingu á hagrænni skiptingu hjá embættinu og færast þá 26,7 millj. kr. af rekstri á fjárfestingu.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 12,8 millj. kr. til lækkunar.

09.20 Landhelgi.
    Gerð er tillaga um breytingu á hagrænni skiptingu hjá Landhelgisgæslu Íslands, 25 millj. kr. færast af rekstri á fjárfestingu.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 10 millj. kr. til hækkunar.

09.30 Ákæruvald og réttarvarsla.
    Gerð er tillaga um 45 millj. kr. viðbótarframlag til ráðningar þriggja starfsmanna á skrifstofu fjármálagreininga. Tillagan miðar að því að uppfylla skilyrði sem alþjóðlegur vinnuhópur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (FATF) setur um mönnun slíkra rekstrareininga. Afleiðingar þess að uppfylla ekki kröfur FATF eru alvarlegar og kunna m.a. að hafa áhrif á fjármálastöðugleika, millibankaviðskipti og lánshæfismat ríkisins, bankanna og íslenskra fyrirtækja auk þess að fela í sér orðsporsáhættu.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1,2 millj. kr. til lækkunar.

09.40 Réttaraðstoð og bætur.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 2,6 millj. kr. til lækkunar.

09.50 Fullnustumál.
    Gerð er tillaga um 7,3 millj. kr. breytingu á hagrænni skiptingu af rekstri á fjárfestingu hjá Fangelsismálastofnun ríkisins.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 3,1 millj. kr.

10 Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála.
10.10 Persónuvernd.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,5 millj. kr. til lækkunar.

10.20 Trúmál.
    Lögð er til 149,5 millj. kr. millifærsla framlags af fjárlagaliðnum 06.705.131 Kristnisjóður. Með viðbótarsamningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar sem hefur það að markmiði að stórauka fjárhagslegt sjálfstæði hennar og einfalda mjög allt lagaumhverfi og fyrirkomulag á þeim greiðslum sem þjóðkirkjan fær úr ríkissjóði er ekki lengur gert ráð fyrir sérframlagi til Kristnisjóðs og er fjárveitingin því færð yfir á fjárlagalið 06.701.101 Þjóðkirkjan.
    Lögð er til 315,5 millj. kr. millifærsla framlags af fjárlagaliðnum 06-705 Kirkjumálasjóður yfir á fjárlagalið 06-701 Þjóðkirkjan. Með viðbótarsamningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar sem hefur það að markmiði að stórauka fjárhagslegt sjálfstæði hennar og einfalda mjög allt lagaumhverfi og fyrirkomulag á þeim greiðslum sem þjóðkirkjan fær úr ríkissjóði er gert ráð fyrir að lög um kirkjumálasjóð verði felld úr gildi og þar með sérframlög til hans. Sama á við Jöfnunarsjóð sókna. Í stað framlaga til sjóðanna í frumvarpinu komi skv. 2. gr. viðbótarsamningsins 711,4 millj. kr. framlag miðað við árið 2018. Sú fjárhæð tekur breytingum í samræmi við almennar launa- og verðlagsforsendur sem liggja til grundvallar í fjárlögum hvers árs.
    Lögð er til 403,6 millj. kr. millifærsla framlags af fjárlagaliðnum 06-736 Jöfnunarsjóður sókna yfir á fjárlagalið 06-701 Þjóðkirkjan. Með viðbótarsamningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar sem hefur það að markmiði að stórauka fjárhagslegt sjálfstæði hennar og einfalda mjög allt lagaumhverfi og fyrirkomulag á þeim greiðslum sem þjóðkirkjan fær úr ríkissjóði er gert ráð fyrir að lög um kirkjumálasjóð verði felld úr gildi og þar með sérframlög til hans. Sama á við Jöfnunarsjóð sókna. Í stað framlaga til sjóðanna í frumvarpinu komi skv. 2. gr. viðbótarsamningsins 711,4 millj. kr. framlag miðað við árið 2018. Sú fjárhæð tekur breytingum í samræmi við almennar launa- og verðlagsforsendur sem liggja til grundvallar í fjárlögum hvers árs.
    Lögð er til 150 millj. kr. hækkun framlags á lið sóknargjalda í samræmi við viðbótarsamning milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar til að mæta skerðingu á framlagi vegna sóknargjalda.
    Lögð er til 96 millj. kr. hækkun framlags til þjóðkirkjunnar. Annars vegar er um að ræða 48 millj. kr. hækkun framlags í samræmi við viðbótarsamning milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar til að mæta skerðingu á framlagi til kirkjumálasjóðs. Hins vegar er lögð til 48 millj. kr. hækkun framlags vegna niðurfellingar aðhaldskröfu en ekki er gert ráð fyrir skerðingum framlaga samkvæmt viðbótarsamningi milli ríkis og kirkju, dags. 6. september 2019.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 9,3 millj. kr. til lækkunar.

10.30 Sýslumenn.
    Gerð er tillaga um leiðréttingu á tegundaskiptingu gjalda hjá sýslumanni Suðurlands, 22 millj. kr. færast af launum yfir á önnur gjöld.
    Gerð er tímabundin tillaga um breytingu á hagrænni skiptingu hjá sýslumanni Norðurlands eystra, 10 millj. kr. færast af rekstri á fjárfestingu.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 3,6 millj. kr. til lækkunar.

10.40 Stjórnsýsla dómsmálaráðuneytis.
    Gerð er tillaga um breytingu á hagrænni skiptingu hjá aðalskrifstofu dómsmálaráðuneytis, 2,2 millj. kr. færast af rekstri á fjárfestingu.
    Lagt er til að styrkur til Mannréttindaskrifstofu Íslands verði hækkaður um 13 millj. kr. Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur á undanförnum 25 árum gegnt mikilvægu hlutverki þegar kemur að eftirliti með stöðu mannréttindamála hér á landi. Skrifstofan hefur að nokkru leyti gegnt hlutverki sjálfstæðrar innlendrar mannréttindastofnunar og hefur íslenska ríkið ítrekað vísað til þess í svörum sínum til alþjóðlegra eftirlitsaðila á sviði mannréttindamála. Mannréttindaskrifstofan hefur á undanförnum árum fengið rekstrarstyrk frá dómsmálaráðuneyti, auk verkefnatengdra styrkja frá félagsmálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti.
    Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til að standa straum af kostnaði sem hlaust af viðgerðum og endurbótum á Dómkirkjunni í Reykjavík sem ráðist var í tengslum við 200 ára afmæli hennar. Meiri hlutinn beinir því til forsætisráðherra og dómsmálaráðherra að gera áætlun með kirkjunni um hvernig standa megi að uppgjöri vegna kostnaðar og viðhalds þessarar sögufrægu byggingar.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1,8 millj. kr. til lækkunar.

10.50 Útlendingamál.
    Lögð er til 100 millj. kr. tímabundin hækkun framlags til að stytta málsmeðferðartíma umsókna um alþjóðlega vernd er varðar börn. Tillagan byggist á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 9. júlí 2019. Gert er ráð fyrir að framlagið verði nýtt til að framlengja ráðningu þeirra starfsmanna sem ráðnir voru á yfirstandandi ári til átaksverkefnisins.
    Þá er gert ráð fyrir 73 millj. kr. millifærslu framlags frá fjárlagalið 06-398 Útlendingastofnun yfir á 06-399 Umsækjendur um alþjóðlega vernd. Framlagið er til viðbótar 135 millj. kr. millifærslu framlags frá sama fjárlagalið í fyrirliggjandi frumvarpi og tillögu um 100 millj. kr. viðbótarframlag til að stytta málsmeðferðartíma umsókna um alþjóðlega vernd er varðar börn. Heildarfjárveiting til verndarsviðsins verður þannig 308 millj. kr. Markmið breytinganna er að stytta málsmeðferðartíma umsókna með því að auka verulega sveigjanleika og getu verndarsviðsins til að mæta breytingum á fjölda umsækjenda á hverjum tíma.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 16,6 millj. kr. til lækkunar.

11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
11.10 Samgöngur.
    Lagt er til að veitt verði 100 millj. kr. tímabundið framlag á árinu 2020 til að mæta áætluðum rekstrarkostnaði við að halda eldri Herjólfi haffærum en ferjan þarf að vera til taks til að mynda ef óvænt atvik koma upp á meðan reynsla kemst á nýja ferjuna eða ef slæm veðurskilyrði trufla samgöngur milli lands og Eyja.
    Gerð er tillaga um leiðréttingu á hagrænni skiptingu, samtals 149,3 millj. kr., sem færast undir rekstrarframlag í stað rekstrartilfærslu. Við uppskiptingu innanríkisráðuneytis fluttist fjárveiting til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, við yfirflutning fjárveitinga. Í fjárlögum fyrir árið 2018 var hluti skráður sem rekstrartilfærsla en átti réttilega að vera rekstrarframlag.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 51,1 millj. kr. til lækkunar.

11.20 Fjarskipti.
    Lagt er til að Póst- og fjarskiptastofnun fái 47,4 millj. kr. fjárveitingu með framlagi úr ríkissjóði. Fái stofnunin fyrrgreint framlag fær hún að lágmarki þá fjárveitingu sem nemur áætlun stofnunar um rekstrartekjur sem er í samræmi við ákvæði laga nr. 47/2018, um afnám markaðra tekna. Stofnunin hefur ekki fengið framlag í samræmi við tekjuáætlun á árinu 2019. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2019 er lögð til breyting með það að markmiði að leiðrétta misræmið.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,6 millj. kr. til lækkunar.

11.30 Stjórnsýsla samgönguráðuneytis.
    Gerð er tillaga um að veita sveitarfélaginu Árneshreppi 5 millj. kr. tímabundið framlag vegna snjómoksturs. Árneshreppur býr við erfiðar samgöngur og takmarkaða vetrarþjónustu. Undanfarin missiri hefur sveitarfélagið tekið þátt í kostnaði Vegagerðarinnar við að opna þjóðveginn að vetrarlagi. Árneshreppur er eina sveitarfélagið á Íslandi sem með þeim hætti tekur þátt í vetrarþjónustu á þjóðvegi að og frá byggðinni. Fjárveitingin er til eins árs og er tilraun til að bæta búsetuskilyrði.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1,1 millj. kr. til lækkunar.

12 Landbúnaður.
12.10 Stjórnun landbúnaðarmála.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 84,5 millj. kr. til lækkunar.

12.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í landbúnaðarmálum.
    Gert er ráð fyrir að veita 33,3 millj. kr. tímabundið framlag til að tryggja fjármögnun sem upp á vantar svo að unnt verði að ráðast í þriggja ára átaksverkefni með það að markmiði að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Samtals er gert ráð fyrir að kostnaður við verkefnið verði um 110 millj. kr. á ári en þar af stendur eftir að fjármagna 50 millj. kr. Gert er ráð fyrir að kostnaðinum verði skipt með hliðsjón af áherslum stýrihóps um reglur og viðbrögð vegna sýklalyfjaónæmra baktería, þannig að 2/ 3 hlutar hans verði á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og 1/ 3 hluti á forræði heilbrigðisráðherra. Tillaga þessi lýtur að því að mæta hlutdeild atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í því sem upp á vantar. Hún byggist á þeirri stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að Ísland skyldi vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Þá ætluðu íslensk stjórnvöld, innan ramma alþjóðlegra skuldbindinga og á grundvelli lýðheilsusjónarmiða, að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur.
    Fluttar eru 11,8 millj. kr. af fjárlagaliðnum 04-488 yfir á fjárlagaliðinn 04-981 til einföldunar.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,4 millj. kr. til lækkunar.

13 Sjávarútvegur og fiskeldi.
13.10 Stjórnun sjávarútvegs og fiskeldis.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,3 millj. kr. til lækkunar.

13.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 9,8 millj. kr. til lækkunar.

14 Ferðaþjónusta.
14.10 Ferðaþjónusta.
    Fluttar eru 22,8 millj. kr. af rekstrarframlögum yfir á rekstrartilfærslur.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1 millj. kr. til lækkunar.

15 Orkumál.
15.10 Stjórnun og þróun orkumála.
    Gert er ráð fyrir 50 millj. kr. tímabundnu framlagi í eitt ár vegna orkuskipta á Kili og kemur það til viðbótar 50 millj. kr. framlagi sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að ríkið taki þátt í verkefninu „Orkuskipti á Kili“ í samræmi við áherslur og stefnu stjórnvalda varðandi umhverfismál, eflingu ferðaþjónustu og aukið öryggi í fjarskiptum.
    Fluttar eru 5,8 millj. kr. af öðrum gjöldum yfir á laun.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 16,3 millj. kr. til lækkunar.

16 Markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála og nýsköpunar.
16.10 Markaðseftirlit og neytendamál.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,8 millj. kr. til lækkunar.

16.20 Stjórnsýsla atvinnumála og nýsköpunar.
    Fluttar eru 10 millj. kr. af launum yfir á önnur gjöld á lið bygginga rannsóknastofnana sjávarútvegsins og einnig eru þar fluttar 2,2 millj. kr. af fjárfestingarframlagi yfir á rekstrarframlag.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1,9 millj. kr. til lækkunar.

17 Umhverfismál.
17.10 Náttúruvernd, skógrækt og landgræðsla.
    Gerð er tillaga um 28 millj. kr. tímabundið framlag til að styrkja rannsóknasvið Skógræktarinnar.
    Gerð er leiðrétting vegna rangrar hagrænnar skiptingar, 85 millj. kr. færast af öðrum gjöldum á tilfærslur.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1,9 millj. kr. til lækkunar.

17.20 Rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands.
    Lagt er til að millifæra 16 millj. kr. viðbótarframlag sem veitt var í fjárlögum fyrir árið 2019 yfir á fjárlagalið 14-403 Náttúrustofur.
    Lagt er til að millifærðar verði af fjárlagalið 14-190-190 samtals 27 millj. kr. Um er að ræða 12 millj. kr. vegna vöktunar á skriðuföllum og aukningu um 15 millj. kr. vegna vöktunar á jöklum.
    Lagt er til að veitt verði 26 millj. kr. framlag vegna reksturs á tækjum og búnaði í tengslum við vöktun á Öræfajökli.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,5 millj. kr. til lækkunar.

17.50 Stjórnsýsla umhverfismála.
    Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála mun flytja í húsnæði yfirskattanefndar og mun hluti af heildarleigukostnaði falla á úrskurðarnefnd. Leigukostnaður yfirskattanefndar mun lækka um sömu fjárhæð. Hér er því um millifærslu að ræða frá yfirskattanefnd til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 9,2 millj. kr.
    Lagt er til að millifærðar verði á fjárlagalið Veðurstofu Íslands 14-412-101 samtals 27 millj. kr. Um er að ræða 12 millj. kr. vegna vöktunar á skriðuföllum og aukningu um 15 millj. kr. vegna vöktunar á jöklum.
    Gerð er tillaga um að Rannsóknastöðinni Rifi verði veitt 10 millj. kr. tímabundið framlag.
    Lagt er til að veittar verði 50 millj. kr. tímabundið á árunum 2020–2023 vegna úrvinnslu vísindagagna og útfærslu á landgrunnskröfum Íslands á Hatton-Rockall svæðinu og norðausturhluta Reykjaneshryggjar. Samtals er gert ráð fyrir 250 millj. kr. til verkefnisins á fjórum árum, þar af 83 millj. kr. á árinu 2020.
    Lagt er til að veitt verði tímabundið til tveggja ára 17 millj. kr. framlag vegna ferðakostnaðar sem tengist vinnu við að endurbæta greinargerð til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna.
    Lagt er til að veitt verði 16 millj. kr. framlag tímabundið í eitt ár til úrvinnslu gagna og vinnu við greinargerð Íslands til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna vegna vestur-, suður- og suðausturhluta Reykjaneshryggjar.
    Lagt er til að millifæra 16 millj. kr. viðbótarframlag sem veitt var í fjárlögum fyrir árið 2019 yfir á fjárlagalið 14-403 Náttúrustofur.
    Lagt er til að millifæra innan Umhverfisstofnunar 12 millj. kr. af rekstri á fjárfestingarlið til samræmis við mat stofnunar á fjárfestingarþörf.
    Niðurfelling á tímabundnu framlagi, 10 millj. kr., er millifærð á rétt fjárlagaviðfang.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 6,8 millj. kr. til lækkunar.

18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál.
18.10 Safnamál.
    Gerð er tillaga um 15 millj. kr. tímabundið framlag til framkvæmda og viðhalds á varðskipinu Óðni til undirbúnings fyrir siglingu skipsins um sjómannadagshelgina 6. og 7. júní 2020 í tilefni þess að 60 ár eru liðin frá því að skipið kom nýtt til landsins.
    Gerð er tillaga um 6 millj. kr. tímabundið framlag til Flugsafns Íslands til stuðnings við rekstur safnsins.
    Gerð er tillaga um að veita 5 millj. kr. tímabundið framlag til uppbyggingar samkomuhússins Kirkjuhvols í Vogum á Vatnsleysuströnd.
    Gerð er tillaga um 1,5 millj. kr. tímabundið framlag til framkvæmda við Steinshús.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 9,4 millj. kr. til lækkunar.

18.20 Menningarstofnanir.
    Gerð er tillaga um 20 millj. kr. tímabundið framlag til Vínlandsseturs í Leifsbúð í Búðardal.
    Gerð er tillaga um 8 millj. kr. tímabundið framlag til endurbóta og uppsetningar Ólafsfjarðarstofu á efri hæð Pálshúss.
    Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag til hönnunar- og greiningarvinnu við menningarsal á Selfossi og undirbúnings samningagerðar. Framkvæmdin er ekki fjármögnuð árið 2020. Meiri hlutinn lagði fyrir menntamálaráðherra í áliti sínu um fjármálaáætlun að yfirfara eldri samninga um menningarhús og sali. Ráðherra hefur gert tvo samninga um verkefnið. Í fjármálaáætlun næstu ára eru framlög til hliðstæðra verkefna.
    Gert er ráð fyrir að lækka fjárfestingarheimild og hækka rekstrarframlag um 4,4 millj. kr. hjá Minjastofnun.
    Gert er ráð fyrir að lækka fjárveitingu vegna launa um 1 millj. kr., lækka fjárveitingu vegna annarra gjalda um 154,2 millj. kr. og hækka fjárveitingu vegna tilfærslna um 155,2 millj. kr. á lið samninga og styrkja til starfsemi menningarstofnana.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 14,6 millj. kr. til lækkunar.

18.30 Menningarsjóðir.
    Gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundið framlag til RIFF, Reykjavík International Film Festival.
    Gerð er tillaga um að fallið verði frá 2 millj. kr. aðhaldskröfu hjá Barnamenningarsjóði sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu til að mæta aðhaldsmarkmiði ríkisstjórnarinnar um samdrátt í ríkisútgjöldum.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 4,5 millj. kr. til lækkunar.

18.40 Íþrótta- og æskulýðsmál.
    Gert er ráð fyrir að lækka fjárveitingu vegna launa og hækka fjárveitingu vegna tilfærslna um 10,4 millj. kr.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. 1,9 millj. kr. til lækkunar.

19 Fjölmiðlun.
19.10 Fjölmiðlun.
    Lagt er til að framlag lækki um 10 millj. kr. vegna leiðréttingar á tekjuáætlun um innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 2,5 millj. kr. til lækkunar.

20 Framhaldsskólastig.
20.10 Framhaldsskólar.
    Millifært aðlögunarframlag vegna styttingar náms til stúdentsprófs. Lögð er til 30 millj. kr. millifærsla af safnlið framhaldsskólastigsins til Menntaskólans í Reykjavík og sama fjárhæð til Menntaskólans á Akureyri. Skólarnir eru þeir síðustu til þess að fara í gegnum ferli um styttingu náms til stúdentsprófs. Um er að ræða aðlögunarframlag sem gert var ráð fyrir við útdeilingu fjármuna til annarra framhaldsskóla sem voru fyrri til að stytta nám til stúdentsprófs.
    Gert er ráð fyrir að lækka rekstrarframlag og hækka fjárfestingarframlag um 20,4 millj. kr. hjá Kvennaskólanum í Reykjavík.
    Lögð er til 20 millj. kr. millifærsla af safnlið framhaldsskólastigsins til Framhaldsskólans á Laugum, m.a. vegna vanáætlaðs framlags til húsnæðis skólans.
    Gert er ráð fyrir að lækka rekstrarheimild og hækka fjárfestingarheimild um 10,8 millj. kr. hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
    Gert er ráð fyrir að lækka rekstrarheimild og hækka fjárfestingarheimild um 21,5 millj. kr. hjá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.
    Gert er ráð fyrir að lækka fjárveitingu vegna launa og hækka fjárveitingu vegna tilfærslna um 300 millj. kr. á lið sameiginlegra verkefna og þjónustu.
    Gert er ráð fyrir að hækka fjárveitingu vegna annarra gjalda og lækka fjárveitingu vegna tilfærslna um 4 millj. kr. á lið orlofs og endurmenntunar kennara.
    Gert er ráð fyrir að lækka fjárveitingu vegna launa um 50 millj. kr., hækka fjárveitingu vegna annarra gjalda um 100 millj. kr. og lækka fjárveitingu vegna tilfærslna um 50 millj. kr. á lið framlaga til námsbrauta og skóla.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 47,2 millj. kr. til lækkunar.

20.20 Tónlistarfræðsla.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,5 millj. kr. til lækkunar.

20.40 Jöfnun námskostnaðar.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 3,5 millj. kr. til lækkunar.

21 Háskólastig.
21.10 Háskólar og rannsóknastarfsemi.
    Gert er ráð fyrir að lækka rekstrarfjárveitingu og hækka fjárfestingarheimild um 2 millj. kr. hjá Tilraunastöðinni að Keldum.
    Gert er ráð fyrir að lækka fjárfestingarheimild og hækka rekstrarframlag um 40,6 millj. kr. hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands.
    Gert er ráð fyrir tímabundinni millifærslu, 12 millj. kr. til tveggja ára, af fjárlagalið 02-998-1.35 varasjóður málaflokks háskóla inn á fjárlagalið 02-209-1.01 Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum vegna fjármögnunar á stöðu íslenskukennara við Kaupmannahafnarháskóla. Skólinn hefur ákveðið að leggja niður stöðu lektors í miðaldamálfræði sem sinnt hefur íslenskukennslu. Brugðist er við þessu með framlaginu.
    Lagt er til að 41 millj. kr. verði millifærð af fjárlagalið 02-298-1.10 Styrkir á sviði háskóla- og vísindastarfsemi á fjárlagalið 02-299-1.10 Fræða- og þekkingarsetur. Tilefnið er að í nýrri reglugerð um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum er gert ráð fyrir auknu sjálfstæði Gæðaráðs íslenskra háskóla, þ.m.t. að ráðherra geti falið ráðinu að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila um að sinna verkefninu.
    Þá er gerð tillaga um að lækka fjárveitingu vegna launa og hækka fjárveitingu vegna tilfærslna um 138 millj. kr. á lið styrkja á sviði háskóla- og vísindastarfsemi og um 0,9 millj. kr. hjá fræða- og þekkingarsetrum.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 47,2 millj. kr. til lækkunar.

22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála.
22.10 Leikskóla- og grunnskólastig.
    Gert er ráð fyrir að lækka fjárveitingu vegna launa um 20 millj. kr., að lækka fjárveitingu vegna annarra gjalda um 10 millj. kr. og hækka fjárveitingu vegna tilfærslna um 30 millj. kr.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1 millj. kr. til lækkunar.

22.20 Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig.
    Gerð er tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag til Austurbrúar.
    Gerð er tillaga um 15 millj. kr. tímabundið framlag til Fjölmenntar, símenntunar- og þekkingarmiðstöðvar.
    Gerð er tillaga um 15 millj. kr. tímabundið framlag til Lýðskólans á Flateyri.
    Gerð er tillaga um að veita LungA-skólanum á Seyðisfirði 15 millj. kr. tímabundið framlag til reksturs skólans.
    Gert er ráð fyrir að lækka fjárveitingu vegna launa og hækka fjárveitingu vegna tilfærslna um 4 millj. kr.     
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 6,8 millj. kr. til lækkunar.

22.30 Stjórnsýsla mennta- og menningarmála.
    Samtals er lagt til að veita aukin framlög sem nema 100 millj. kr. til verkefna á málefnasviði 22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála, sér í lagi verkefna til að efla færni grunnskólanemenda í lestri, stærðfræði og náttúrufræði og til að styrkja stöðu nemenda með annað móðurmál en íslensku.
    Gert er ráð fyrir að lækka fjárfestingarheimild og hækka rekstrarframlag hjá Menntamálastofnun um 5 millj. kr.
    Gerð er tillaga um 1 millj. kr. tímabundið framlag til Norræna félagsins á Íslandi vegna aukinnar vinnu í tengslum við formennsku félagsins á norrænum vettvangi. Félagið verður í formennsku Föreningarnas Norden Forbund árið 2020.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 4,1 millj. kr. til lækkunar.

23 Sjúkrahúsþjónusta.
23.10 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta.
    Gerð er tillaga um millifærslu 73,5 millj. kr. fjárveitingar af lið Sjúkratrygginga Íslands, hjúkrun í heimahúsum, til Sjúkrahússins á Akureyri vegna flutnings verkefna Heimahlynningar til sjúkrahússins.
    Gerð er tillaga um millifærslu 16 millj. kr. fjárveitingar af lið sjúkraflutninga á lið Sjúkrahússins á Akureyri. Nýtt útboð á sjúkraflugi gerir ráð fyrir að kostnaður heilbrigðisstofnana hækki við sjúkraflug milli stofnana.
    Gerð er tillaga um 54 millj. kr. framlag til að styrkja rekstrargrunn Sjúkrahússins á Akureyri.
    Gerð er tillaga um flutning fjárveitingar vegna samnings um ADHD-greiningu og skimun af lið heilbrigðisráðuneytisins til Landspítala, alls 40 millj. kr.
    Gerð er tillaga um millifærslu 269,6 millj. kr. milli hagrænnar skiptingar af tilfærslum yfir á laun og önnur gjöld (70/30) hjá Landspítala.
    Gerð er tillaga um millifærslu 13 millj. kr. fjárveitingar af lið 08-202, Sjúkratryggingar Íslands til Landspítala. Umsýsla með lyfjum með S-merkingu færist til Landspítala.
    Gerð er tillaga um millifærslu tímabundinnar fjárveitingar, 411 millj. kr., af liðnum 08-379 Sjúkrahús, óskipt yfir á 08-373 Landspítali vegna reksturs sjúkrahótels á lóð Landspítala.
    Gerð er tillaga um 490 millj. kr. framlag til að styrkja rekstrargrunn Landspítala.
    Lagt er til að fjárveiting til byggingar nýs Landspítala lækki um 3.500 millj. kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun og í fjárlagafrumvarpinu. Nú liggur fyrir að frekari tafir verða á framkvæmdum frá því sem áður var þekkt þegar unnið var að fjármálaáætlun 2020–2024. Í henni er gert ráð fyrir 8,5 milljarða kr. fjárfestingarframlagi til byggingar spítalans á næsta ári. Nú er gert ráð fyrir að um 3,5 milljarðar kr. framlagsins verði ekki nýttir innan ársins og flytjist til ársins 2021. Meiri þungi framkvæmda verður því árin 2021–2024.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 69,1 millj. kr. til lækkunar.

23.20 Almenn sjúkrahúsþjónusta.
    Gerð er tillaga um 54 millj. kr. framlag til að styrkja rekstrargrunn heilbrigðisstofnana.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 5,3 millj. kr. til lækkunar.

23.30 Erlend sjúkrahúsþjónusta.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 21,8 millj. kr. til hækkunar.

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.
24.10 Heilsugæsla.
    Gerð er tillaga um millifærslu 17 millj. kr. fjárveitingar af lið 08-500 á lið Sjúkratrygginga Íslands til að standa undir kostnaði við að gera reglubundnar þjónustukannanir og til að koma á fót eftirliti með rekstri og þjónustu þeirra sem reka heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu.
    Gerð er tillaga um millifærslu 13 millj. kr. fjárveitingar af lið 08-500 á lið embættis landlæknis til að standa undir kostnaði við eftirlit með rekstri og þjónustu þeirra sem reka heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Hlutverk embættis landlæknis í fjármögnunarkerfi heilsugæslu er að fylgjast með þróun vísitölu fyrir sjúkdómsbyrði og hafa eftirlit með því að sjúkdómsgreiningar sem eru undirstaða útreikninga á þarfavísitölu séu skráðar í samræmi við lög og reglur og eðlilegt verklag.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 31,6 millj. kr. til lækkunar.

24.20 Sérfræðiþjónusta og hjúkrun.
    Gerð er tillaga um millifærslu 73,5 millj. kr. fjárveitingar af lið Sjúkratrygginga Íslands, hjúkrun í heimahúsum, til Sjúkrahússins á Akureyri vegna flutnings verkefna Heimahlynningar til sjúkrahússins.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 102 millj. kr. til lækkunar.

24.30 Sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 31,1 millj. kr. til lækkunar.

24.40 Sjúkraflutningar.
    Gerð er tillaga um 150 millj. kr. viðbótarheimild vegna sjúkraflutninga 2020. Heimildir fjárlaga ársins 2019 voru lægri en kostnaður ársins 2018 þrátt fyrir viðbót vegna nýs samnings um sjúkraflug. Þeir liðir sem mestu ráða um hallann eru fastagjald vegna samnings við Mýflug um sjúkraflug og kostnaður við langar ferðir innan lands sem greiddur er á grundvelli reglugerðar um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innan lands. Fastagjaldið er samningsbundið og verður ekki breytt. Ferðakostnaður ræðst af því að fleiri þurfa að sækja þjónustu utan heimabyggðar.
    Gerð er tillaga um millifærslu 16 millj. kr. fjárveitingar af lið sjúkraflutninga á lið Sjúkrahússins á Akureyri. Nýtt útboð á sjúkraflugi gerir ráð fyrir að kostnaður heilbrigðisstofnana hækki við sjúkraflug milli stofnana.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 8,2 millj. kr. til lækkunar.

25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
25.10 Hjúkrunar- og dvalarrými.
    Gert er ráð fyrir að 179 millj. kr. verði millifærðar af safnliðnum hjúkrunarheimili, almennt til daggjalda fyrir dagdvalarrými. Um er að ræða fjölgun um samtals 17 dagdvalarrými í Hafnarfirði og hjá MS-Setrinu. Auk þess er um að ræða 25 dagdvalarrými með sveigjanlegan opnunartíma.
    Í frumvarpinu voru millifærðar 22,1 millj. kr. af safnliðnum öldrunarstofnanir, almennt til daggjalda fyrir dagdvalarrými vegna 7 dagdvalarrýma. Þar sem fjárheimild fyrir þessum rýmum var nú þegar til staðar á daggjöldum dagdvalar er þessi millifærsla leiðrétt til baka hér.
    Gerð er tillaga að breyttri tegundaskráningu á lið 08-401.699 Bygging hjúkrunarheimila og endurhæfingarstofnana. Fjármagnstilfærsluheimild 44,1 millj. kr. færist yfir á fjárfestingarframlag. Þar sem um fjárfestingarviðfang er að ræða mun þessi fjárveiting nýtast betur sem fjárfestingarframlag í stað fjármagnstilfærsluheimildar.
    Gert er ráð fyrir að hluti launa- og verðlagsreiknings fjármála- og efnahagsráðuneytisins 0,3 millj. kr. verði skráður sem önnur gjöld í stað þess að vera skráður sem laun til samræmis við tegundaskiptingu fjárlagaliðarins í heild sinni.
    Gerð er tillaga um millifærslu 759,6 millj. kr. fjárveitingar af lið 08-419-101 Sólvangur, hjúkrunarrými yfir á 08-403-101 Öldrunarstofnanir, hjúkrunarrými. Aðilaskipti urðu á rekstri hjúkrunarheimilisins Sólvangs 1. apríl 2019. Við þessi skipti færðist rekstur hjúkrunarheimilisins frá ríki til einkaaðila.
    Lagt er til að sértekjur sem nema 64 millj. kr. á viðfangi 08-403-101 Öldrunarstofnanir daggjöld, hjúkrunarrými færist yfir á viðfang 08-403-183 Öldrunarstofnanir daggjöld, greiðslur frá vistmönnum. Sértekjur á viðfangi 08-403-101 eiga að vera 895 millj. kr. en ekki 959 millj. kr. Þessar 895 millj. kr. eru framlag Framkvæmdasjóðs aldraðra til reksturs hjúkrunarrýma og er millifært árlega frá 08-402-110 yfir á 08-403-101. Í fjárlögum fyrir árið 2018 voru sértekjur hækkaðar um 64 millj. kr. á 08-403-101 úr 895 millj. kr. í 959 millj. kr. Þessi fjárhæð hefði með réttu átt að færast á viðfang 08-403-183 Greiðslur frá vistmönnum.
    Gert er ráð fyrir að 24,5 millj. kr. verði millifærðar af daggjöldum dvalarrýma til daggjalda fyrir dagdvalarrými. Um er að ræða fjölgun um 6 dagdvalarrými og fækkun dvalarrýma.
    Í frumvarpinu voru millifærðar 40,5 millj. kr. af daggjöldum dvalarrýma til daggjalda fyrir dagdvalarrými vegna 8 dagdvalarrýma. Þar sem fjárheimild fyrir þessum rýmum var nú þegar til staðar á daggjöldum dagdvalar er þessi millifærsla leiðrétt til baka hér.
    Gerð er tillaga um millifærslu 56,6 millj. kr. fjárveitingar af lið 08-419.101 Sólvangur, hjúkrunarrými yfir á 09-381.111 Lífeyrisskuldbindingar, eftirlaun. Aðilaskipti urðu á rekstri hjúkrunarheimilisins Sólvangs 1. apríl 2019. Við þessi skipti færast lífeyrisskuldbindingar Sólvangs til fjármála- og efnahagsráðuneytis.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 50,5 millj. kr. til lækkunar.

25.20 Endurhæfingarþjónusta.
    Gerð er tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag til Hlaðgerðarkots þar sem Samhjálp rekur áfengis- og vímuefnameðferð.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 7,3 millj. kr. til lækkunar.

26 Lyf og lækningavörur.
26.10 Lyf.
    Lögð er til 53,1 millj. kr. lækkun á fjárheimild. Um er að ræða leiðréttingu á kerfislægum vexti innan málefnasviðsins.
    Gerð er tillaga um 10.819,7 millj. kr. millifærslu af 08-206-1.16 yfir á 08-212-110. Um er að ræða fjárlagatölu ársins 2019 sem flutt er yfir á annan lið vegna breytinga á umsýslu S-merktra lyfja sem fluttust í umsjá Landspítalans á árinu 2019.
    Gerð er tillaga um 129,7 millj. kr. millifærslu af 08-206.116 yfir á 08-212.110. Um er að ræða launa-, gengis- og verðlagsreikning sem færður var á 08-206 en tilheyrir 08-212. Umsýsla S-merktra lyfja var flutt til Landspítalans á árinu 2019.
    Lögð er til 147,5 millj. kr. lækkun á fjárheimild. Um er að ræða leiðréttingu á kerfislægum vexti innan málefnasviðsins.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 258,6 millj. kr. til hækkunar.

26.30 Hjálpartæki.
    Lögð er til 200,6 millj. kr. hækkun á fjárheimild. Um er að ræða leiðréttingu á kerfislægum vexti innan málefnasviðsins.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 9 millj. kr. til hækkunar.

27 Örorka og málefni fatlaðs fólks.
27.10 Bætur skv. lögum um almannatryggingar, örorkulífeyrir.
    Lagt er til að 400 millj. kr. verði bætt tímabundið við fjárheimild tekjutryggingar örorkulífeyrisþega, til tveggja ára, út af væntanlegum endurgreiðslum til öryrkja í kjölfar endurútreiknings búsetuskerðingar í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis. Áður hefur verið bætt við fjárheimild vegna framtíðargreiðslna, en hér er um að ræða einskiptisgreiðslur vegna réttinda aftur í tímann auk vaxta.

27.30 Málefni fatlaðs fólks.
    Gerð er tillaga um að falla frá 12,2 millj. kr. aðhaldskröfu sem gerð er í frumvarpinu.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,1 millj. kr. til lækkunar.

27.50 Jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða.
    Lagt er til að lækka fjárveitingu liðarins um 121 millj. kr. Lækkunin er í samræmi við útgjaldaferil sem ræðst af fyrirliggjandi tekjuáætlun. Við endurmat tekjuáætlunarinnar lækkaði tryggingagjaldsstofninn, en framlagið fylgir vexti hans. Við þessa breytingu verður framlagið af almenna tryggingagjaldinu til jöfnunar á örorkubyrði 5.134 millj. kr. á árinu 2020.

29 Fjölskyldumál.
29.20 Fæðingarorlof.
    Lögð er til 1,3 milljarða kr. hækkun framlags í Fæðingarorlofssjóð. Útgjöld Fæðingarorlofssjóðs stefna í 14.354 millj. kr. á yfirstandandi ári, en þau hafa farið vaxandi eftir því sem liðið hefur á árið. Endurskoðuð áætlun fyrir árið 2020 er 16.039 millj. kr. en þá hefur verið tekið tillit til áhrifa hækkunar hámarksgreiðslu í 600 þús. kr. og lengingar orlofsins um einn mánuð. Í grunninn virðist að um vanáætlun hafi verið að ræða, auk þess sem umsækjendum hefur fjölgað og viðmiðunartekjur foreldra hafa hækkað.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,1 millj. kr. til lækkunar.

29.40 Annar stuðningur við fjölskyldur og börn.
    Gerð er tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag til ART-verkefnisins.
    Gerð er tillaga um 18 millj. kr. tímabundið framlag til Aflsins, samtaka gegn kynferðis- og heimilisofbeldi.
    Millifærð er fjárheimild að fjárhæð 820,2 millj. kr. vegna öryggisvistunar sem hefur verið á fjárlagaviðfangi hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Reynslan sýnir að öryggisvistun tilheyrir ekki kjarnastarfsemi stöðvarinnar og á meðan unnið er að því af hálfu félagsmálaráðuneytisins að finna öryggisvistuninni varanlegan samastað í samvinnu dómsmálaráðuneytisins, fangelsisyfirvalda og sveitarfélaganna verður umsýslan flutt tímabundið til félagsmálaráðuneytisins.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 10 millj. kr. til lækkunar.

29.70 Málefni innflytjenda og flóttamanna.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 4,5 millj. kr. til lækkunar.

30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi.
30.10 Vinnumál og atvinnuleysi.
    Lögð er til 1.878 millj. kr. tímabundin hækkun framlags til Ábyrgðasjóðs launa. Fyrirséð er að umtalsverð útgjöld munu falla á sjóðinn á árinu 2020 og vegur þar þyngst gjaldþrot Flugfélagsins WOW. Á yfirstandandi ári fellur um 1 milljarður kr. á Ábyrgðasjóð launa vegna falls WOW og gera áætlanir ráð fyrir að rúmar 1.600 millj. kr. muni falla á sjóðinn á árinu 2020 vegna gjaldþrotsins. Í heildina gera spár ráð fyrir að útgjöld Ábyrgðasjóðs launa verði 2.884 millj. kr. á næsta ári að meðtöldum vöxtum. Áætluð framlög til sjóðsins í frumvarpi ársins 2020 eru 1.006 millj. kr. og fyrirséð vöntun því 1.878 millj. kr.
    Framlag til VIRK lækkar um 33 millj. kr. vegna lækkunar á gjaldstofni tryggingagjaldsins á árinu 2019 samkvæmt októberuppfærslu tekjuáætlunar.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 2,2 millj. kr. til lækkunar.

30.20 Vinnumarkaður.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,4 millj. kr. til hækkunar.

31 Húsnæðisstuðningur.
31.10 Húsnæðisstuðningur.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,2 millj. kr. til lækkunar.

32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála.
32.10 Lýðheilsa, forvarnir og eftirlit.
    Lagt er til að veitt verði 25 millj. kr. framlag vegna fjölgunar um tvö stöðugildi hjá embætti landlæknis vegna aukinna verkefna hjá embættinu vegna innleiðingar tilskipunar um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsfólks.
    Gerð er tillaga um millifærslu 13 millj. kr. fjárveitingar af lið 08-500 á lið embættis landlæknis til að standa undir kostnaði við eftirlit með rekstri og þjónustu þeirra sem reka heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Hlutverk embættis landlæknis í fjármögnunarkerfi heilsugæslu er að fylgjast með þróun vísitölu fyrir sjúkdómsbyrði og hafa eftirlit með því að sjúkdómsgreiningar sem eru undirstaða útreikninga á þarfavísitölu séu skráðar í samræmi við lög og reglur og eðlilegt verklag.
    Hlutfalli launa og annarra gjalda í framlagi er breytt í samræmi við rekstraráætlun embættis landlæknis. Rekstraráætlun embættisins gerir ráð fyrir að launakostnaður embættisins nemi 800 millj. kr. og gerð er tillaga um að hækka laun um 205,1 millj. kr. á móti samsvarandi lækkun annarra gjalda. Launakostnaður var á árinu 2017 676 millj. kr. og 742 millj. kr. á árinu 2018. Áætlað er að hann verði um 840 millj. kr. á árinu 2019 og skýrist hækkunin af fjölgun stöðugilda.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 3,2 millj. kr. til lækkunar.

32.20 Jafnréttismál.
    Gerð er tillaga um 20 millj. kr. tímabundið framlag til Samtakanna ´78.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,8 millj. kr. til lækkunar.

32.30 Stjórnsýsla heilbrigðismála.
    Gerð er tillaga um 150 millj. kr. lækkun fjárframlaga til aðalskrifstofu heilbrigðisráðuneytis. Við endurskoðun verkáætlunar framkvæmda færist flutningur ráðuneytisins á Skúlagötu 4 til ársins 2021.
    Gerð er tillaga um 63 millj. kr. lækkun sértekna heilbrigðisráðuneytisins í fjárlögum. Áformað er að breyta samningi við félagsmálaráðuneytið um sameiginlegan kostnað á næsta ári.
    Gerð er tillaga um breytta hagræna skiptingu hjá aðalskrifstofu heilbrigðisráðuneytisins.     Gert er ráð fyrir að veita 16,7 millj. kr. tímabundið framlag til að tryggja fjármögnun sem upp á vantar svo að unnt verði að ráðast í þriggja ára átaksverkefni með það að markmiði að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Samtals er gert ráð fyrir að kostnaður við verkefnið verði um 110 millj. kr. á ári en þar af stendur eftir að fjármagna 50 millj. kr. Gert er ráð fyrir að kostnaðinum verði skipt með hliðsjón af áherslum stýrihóps um reglur og viðbrögð vegna sýklalyfjaónæmra baktería, þannig að 2/ 3 hlutar hans verði á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og 1/ 3 hluti á forræði heilbrigðisráðherra. Tillaga þessi lýtur að því að mæta hlutdeild heilbrigðisráðuneytisins í því sem upp á vantar. Hún byggist á þeirri stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að Ísland skyldi vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Þá ætluðu íslensk stjórnvöld, innan ramma alþjóðlegra skuldbindinga og á grundvelli lýðheilsusjónarmiða, að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur.
    Gerð er tillaga um 8 millj. kr. lækkun á rekstrarframlagi hjá Sjúkratryggingum Íslands vegna áætlaðs fjárfestingarframlags sem hækkar samsvarandi.
    Gerð er tillaga um millifærslu 17 millj. kr. fjárveitingar af lið 08-500 á lið Sjúkratrygginga Íslands til að standa undir kostnaði við að gera reglubundnar þjónustukannanir og að koma á fót eftirliti með rekstri og þjónustu þeirra sem reka heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu.
    Lögð er til breytt hagræn skipting í fjárlögum hjá Sjúkratryggingum Íslands, 120 millj. kr. eru færðar af tilfærslum á laun og önnur gjöld.
    Gerð er tillaga um 13 millj. kr. millifærslu fjárveitingar af lið 08-202, Sjúkratryggingar Íslands til Landspítala. Umsýsla með lyfjum með S-merkingu færist til Landspítala.
    Gerð er tillaga um breytta hagræna skiptingu á lið 08-399-198 í fjárlögum. Frá öðrum gjöldum færast 79,2 millj. kr. yfir á tilfærslur. Samningur við Hjartavernd er bókaður á tilfærslur.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,1 millj. kr. til hækkunar.

32.40 Stjórnsýsla félagsmála.
    Lagt er til að Tryggingastofnun ríkisins fái 50 millj. kr. árlega næstu tvö ár vegna ráðningar á fimm nýjum starfsmönnum í tengslum við endurútreikning búsetuskerðingar í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis. Gert er ráð fyrir að verkefnið taki þrjú ár alls, 2019–2021, samtals 150 millj. kr.
    Gerð er tillaga um 12 millj. kr. tímabundið framlag til Grófarinnar, geðverndarmiðstöðvar á Akureyri.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 6,8 millj. kr. til lækkunar.

33 Fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar.
33.10 Fjármagnskostnaður.
    Lagt er til að fjárheimild vegna vaxtagjalda ríkissjóðs verði lækkuð um 1.325,5 millj. kr. á rekstrargrunni og verði 43.227,7 millj. kr. og lækki um 243 millj. kr. og verði 39.691 millj. kr. á greiðslugrunni. Ástæða lækkunarinnar er að mestu vegna áhrifa af nýrri þjóðhagsspá sem innihélt lægra vaxtastig og verðbólgu en sú sem lá til grundvallar frumvarpinu. Einnig hafa endurkaup ríkissjóðs á skuldabréfum úr flokknum RIKB 20 0205 fyrir rúmlega 8 milljarða kr. í september og október 2019 áhrif til lækkunar.

33.30 Lífeyrisskuldbindingar.
    Gerð er tillaga um millifærslu 56,6 millj. kr. fjárveitingar af lið 08-419.101 Sólvangur, hjúkrunarrými yfir á 09-381.111 Lífeyrisskuldbindingar, eftirlaun. Aðilaskipti urðu á rekstri hjúkrunarheimilisins Sólvangs 1. apríl 2019. Við þessi skipti færast lífeyrisskuldbindingar Sólvangs til fjármála- og efnahagsráðuneytis.

34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir.
34.10 Almennur varasjóður.
    Lagt er til að veita 60 millj. kr. til byggingar varnargarðs við Vík til að fyrirbyggja tjón af völdum mögulegs hamfaraflóðs sem gæti orðið við Kötlugos. Vegagerðin hefur þegar gert ráð fyrir 60 millj. kr. í vegaframkvæmdir að varnargarðinum þannig að samtals er áætlað að framkvæmdin nemi 120 millj. kr.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 43,5 millj. kr. til lækkunar.

34.20 Sértækar fjárráðstafanir.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,7 millj. kr. til lækkunar.

35 Alþjóðleg þróunarsamvinna.
35.10 Þróunarsamvinna.
    Lagt er til að fjárheimild málefnasviðsins verði hækkuð um 300 millj. kr. Við þinglega meðferð fjármálaáætlunar fyrir árin 2020–2024 í júní sl. var ákveðið að færa 300 millj. kr. frá málefnasviði 35 Alþjóðleg þróunarsamvinna til málefnasviðs 04 Utanríkismál, málaflokksins samstarf um öryggis- og varnarmál. Flutningi fjárheimildarinnar er ætlað að mæta uppsafnaðri viðhaldsþörf. Við þetta lækkaði áætlað heildarframlag til þróunarsamvinnu úr 0,30% í 0,29%. Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar segir: „Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er stefnt að því að framlag til opinberrar þróunarsamvinnu verði 0,30% sem hlutfall af vergum þjóðartekjum árið 2020, 0,32% árið 2021 og 0,35% árið 2022. Með þessum breytingum vantar aðeins 0,01% af vergum þjóðartekjum upp á að ná því hlutfalli og því er gert ráð fyrir að framlög til þróunaraðstoðar verði endurskoðuð að nýju strax við gerð fjárlaga næsta árs til þess að tryggja megi að markmið stjórnarsáttmálans nái fram að ganga.“ Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að við þinglega meðferð frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2020 verði fjárheimildir til málaefnasviðsins 35 auknar að nýju um 300 millj. kr.
    Endurmat gengis- og verðlagsforsendna fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 27,3 millj. kr. til lækkunar.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um á sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 11. nóvember 2019.

Willum Þór Þórsson,
form., frsm.
Haraldur Benediktsson. Njáll Trausti Friðbertsson.
Páll Magnússon. Steinunn Þóra Árnadóttir.

1    Atvinnuvegafjárfesting, fjárfesting í íbúðarhúsnæði og fjárfesting hins opinbera.
2    Í töflunni hefur verið leiðrétt fyrir 3 milljarða kr. lækkun til LÍN í frumvarpinu sem er til leiðréttingar á offærðum framlögum fyrri ára með því að hækka fjárhæð ársins 2020 um 3 milljarða kr. á málefnasviði 21 Háskólastig.