Ferill 36. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 664 — 36. mál.
Síðari umræða.
Nefndarálit
um tillögu til þingsályktunar um fræðslu um vefjagigt og endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu.
Frá velferðarnefnd.
Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Emil Thoroddsen og Stefán Vilbergsson frá Öryrkjabandalagi Íslands, Arnór Víkingsson og Sigrúnu Baldursdóttur frá Þraut ehf. – miðstöð vefjagigtar og tengdra sjúkdóma og Auði Ólafsdóttur, Jón Steinar Jónsson og Óskar Reykdalsson frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Umsagnir bárust frá Félagi sjúkraþjálfara, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Öryrkjabandalagi Íslands, Sigrúnu Baldursdóttur og Þraut ehf. – miðstöð vefjagigtar og tengdra sjúkdóma.
Með þingsályktunartillögunni er lagt til að heilbrigðisráðherra verði falið að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu.
Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að þær meðferðarstofnanir sem til staðar eru þjónustuðu að mestu leyti einungis þá sem væru með vefjagigt á illvígu stigi og hefðu litla eða enga starfsgetu. Biðlistar í sérhæfð meðferðarúrræði væru langir og gera þyrfti betur í því að þjónusta fólk á fyrri stigum til þess að vinna gegn líkamlegum verkjum, skertri starfsgetu og því sálræna álagi sem sjúkdómnum fylgir oft. Þá kom fram það sjónarmið að leggja þyrfti áherslu á að bregðast fyrr við og tryggja fólki með vefjagigt á vægari stigum meiri aðgang að viðeigandi þjónustu. Var í því sambandi bent á að auðveldara væri að ná tökum á sjúkdómnum á fyrri stigum, meðferðarúrræði væru einfaldari og skiluðu betri árangri. Með því að greina sjúkdóminn fyrr og auka fræðslu og forvarnir, sem og þekkingu innan heilsugæslunnar, væri hægt að ná góðum árangri í því að stemma stigu við verkjum og óvinnufærni. Grunnmeðferð við vefjagigt ætti að byggjast á fræðslu, hugrænni atferlismeðferð og hæfilegri en reglulegri þjálfun. Slík meðferð gæfi í flestum tilfellum góðan bata þegar hún væri veitt á fyrri stigum. Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin mikilvægt að áhersla verði lögð á að efla heilsugæsluna í greiningu, meðferð og eftirfylgni við hana. Þannig megi bregðast við og oft koma í veg fyrir að sjúkdómurinn nái illvígu stigi. Með eftirfylgni má einnig tryggja að einstaklingurinn haldi sjálfur virkni.
Í umsögn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kemur fram að heilsugæslan sé í stakk búin til að þróa og veita grunnmeðferð með læknum, sálfræðingum og hreyfistjórum. Þá kæmi einnig til greina að innleiða alþjóðlega skimunar- og matslista sem hefðu skilað góðum árangri í greiningu vefjagigtar. Nefndin er sammála um mikilvægi þeirrar vinnu og beinir því til heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir því að grunnþjónusta verði aðgengilegri innan heilsugæslunnar.
Með vísan til framangreinds leggur nefndin til að þingsályktunartillagan verði samþykkt óbreytt.
Alþingi, 4. desember 2019.
Helga Vala Helgadóttir, form. |
Halla Signý Kristjánsdóttir, frsm. |
Ólafur Þór Gunnarsson. |
Anna Kolbrún Árnadóttir. | Guðmundur Ingi Kristinsson. | Halldóra Mogensen. |
Lilja Rafney Magnúsdóttir. |