Ferill 102. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Nr. 16/150.

Þingskjal 762  —  102. mál.


Þingsályktun

um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2020–2023.


    Alþingi ályktar skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, að samþykkja eftirfarandi framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2020–2023:

A. STJÓRNSÝSLAN
1. Jafnréttissjóður Íslands.
    Gerð verði samantekt á verkefnum sem hlotið hafa styrki úr Jafnréttissjóði Íslands sem stofnaður var árið 2015 með þingsályktun nr. 13/144 í tilefni af 100 ára kosningarréttarafmæli íslenskra kvenna og breytt með þingsályktun nr. 19/149 árið 2019. Samantektin verði gerð með hliðsjón af markmiðum sjóðsins og lagt mat á hvort þeim hafi verið náð og með hvaða hætti.
     Tímaáætlun: 2021–2022.
     Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr.
     Ábyrgð: Forsætisráðuneytið.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 5 og stuðlar að samþættingu þess við önnur heimsmarkmið.

2. Framkvæmdasjóður jafnréttismála.
    Varið verði 40 millj. kr. samtals af fjárlögum til jafnréttisverkefna á vegum ráðuneyta á tímabilinu 2020–2023. Verkefnin verði samstarfsverkefni ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands eða ráðuneyta og ríkisstofnana eða háskólasamfélagsins þar sem tilgangurinn verði að nýta niðurstöður, reynslu og þekkingu á sviði jafnréttismála eða innleiða tillögur sem telja má til afraksturs verkefna í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðuneytið auglýsi eftir umsóknum frá ráðuneytum og úthluti styrkjum að undangengnu faglegu mati skrifstofu jafnréttismála. Endurskoðaðar reglur sjóðsins og umsóknareyðublöð verði kynnt ráðuneytum fyrir árslok 2019.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: 40 millj. kr.
     Ábyrgð: Forsætisráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 5 og stuðlar að samþættingu þess við önnur heimsmarkmið.

3. Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta.
    Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta, sem starfa á grundvelli 13. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, afli sér þekkingar á sviði jafnréttismála og starfi eftir samþykktri starfs- og fræðsluáætlun. Starf jafnréttisfulltrúa feli m.a. í sér að:
     a.      Fylgja eftir verkefnum framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og skila framvinduskýrslum til Jafnréttisstofu.
     b.      Taka þátt í og leiðbeina við gerð jafnréttismats á lagafrumvörpum.
     c.      Taka þátt í að móta og innleiða heildstæða áætlun um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvarðanatöku ráðuneyta og stofnana ríkisins.
     d.      Endurskoða starfsreglur og fræðsluáætlun jafnréttisfulltrúa.
     e.      Endurskoða starfsáætlun jafnréttisfulltrúa sem verði tilbúin fyrir árslok 2020. Í starfsáætlun skal samhæfa öll þau verkefni sem jafnréttisfulltrúum eru falin.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr. til fræðslu jafnréttisfulltrúa.
     Ábyrgð: Forsætisráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 5.c, 10.3 og 16.6.

4. Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins.
    Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins 2017–2020, sem gerð er í samræmi við 2. mgr. 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, verði endurskoðuð á gildistíma framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna hafi umsjón með endurskoðun og eftirfylgni jafnréttisáætlunar í umboði ráðuneytisstjóra og í samstarfi við Jafnréttisstofu.
     Tímaáætlun: Lokið vorið 2020.
     Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda ráðuneyta.
     Ábyrgð: Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta og forsætisráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Verkefnið styður einkum markmið 5.1, 5.c, 5.2, 5.5, 8.5, 8.8, 10.3, 10.4 og 16.6.

5. Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða.
    Unnið verði að gerð og innleiðingu heildstæðrar áætlunar til fjögurra ára um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvarðanatöku ráðuneyta og stofnana ríkisins. Áætlunin taki mið af þeim samþættingarverkefnum sem þegar hafa verið unnin í ráðuneytum og ríkisstofnunum, einkum verkefnum um jafnréttismat á stjórnarfrumvörpum og verkefnum í tengslum við innleiðingu á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, þ.m.t. gerð skapalóna fyrir stefnumótun og innleiðingaráætlun um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð fyrir tímabilið 2020–2023. Verkefnið verði samstarfsverkefni verkefnisstjórnar um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða og jafnréttisfulltrúa ráðuneyta auk verkefnisstjórnar um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Áætlunin feli m.a. í sér:
     a.      Tillögur um innleiðingu samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða í starfsemi og stefnumótun ráðuneyta og ríkisstofnana, einkum hvað varðar lögbundnar áætlanir og áætlanagerð ráðuneyta og ríkisstofnana.
     b.      Tillögur um hvernig betur megi hagnýta niðurstöður kynja- og jafnréttismats við frumvarpsgerð og aðra stefnumótun.
     c.      Kortlagningu og tillögur um úrbætur við söfnun og notkun kyngreindra upplýsinga og gagna, sem og hagnýtingu rannsókna, til stuðnings stefnumörkun og ákvörðunum sem taki mið af kynja- og jafnréttissjónarmiðum.
     d.      Tillögur um fræðslu og þjálfun.
     e.      Tillögur um verkefni á málefnasviði hvers ráðuneytis sem prófunarverkefni og síðan sem hluta af reglubundinni starfsemi og verklagi þar eftir.
     f.      Tillögur um eftirfylgni með verkefnum.
     g.      Tillögur um reglubundið samráð og samstarf allra þeirra sem gegna lykilhlutverki á sviði samþættingarmála.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: 4 millj. kr. til framkvæmdar verkefna auk launa sérfræðings.
     Ábyrgð: Forsætisráðuneytið, í samstarfi við jafnréttisfulltrúa ráðuneyta, og fjármála- og efnahagsráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 10.3, 10.4, 16.6, 16.7, 16.10, 16.b og stuðlar að samþættingu markmiðs 5 við önnur heimsmarkmið.

6. Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð.
    Unnið verði að kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð samkvæmt innleiðingaráætlun til fimm ára. Árlega verði unnið að jafnréttismati á málefnasviðum og málaflokkum hins opinbera og helstu niðurstöður birtar í grunnskýrslu í upphafi hvers árs sem nýtist sem grunnur að ákvörðunum varðandi markmið og áherslur innan málefnasviða og málaflokka hins opinbera. Þær áherslur birtist í fjármálaáætlun til fimm ára og fjárlagafrumvarpi hvers árs. Verkefnisstjórn geri tillögur um eftirfylgni innleiðingaráætlunar með mælikvörðum fyrir öll ráðuneyti. Á grunni reynslunnar af notkun aðferða kynjaðrar fjárlagagerðar verði aðferðafræðin nýtt frekar við umræður og ákvarðanatöku um útgjöld og tekjuöflun ríkisins. Verkefnisstjórn um kynjaða fjárlagagerð vinni í virku samráði og samstarfi við verkefnisstjórn um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvarðanatöku Stjórnarráðsins og ríkisstofnana sem og við jafnréttisfulltrúa ráðuneyta.
     Tímaáætlun: Viðvarandi verkefni.
     Kostnaðaráætlun: Laun sérfræðings í fullu starfi.
     Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneytið og verkefnisstjórn kynjaðrar fjárlagagerðar.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 5.c og 10.4.

7. Jafnrétti og byggðamál.
    Áhrif aðgerða í byggðaáætlun og úthlutana til byggðamála á jafnrétti kynjanna verði metin og feli m.a. í sér eftirfarandi:
     a.      Að aðgerðir byggðaáætlunar verði rýndar með hliðsjón af kynja- og jafnréttissjónarmiðum með það að markmiði að meta stöðu kvenna og karla, þ.m.t. hvort um kynjahalla sé að ræða, hvers eðlis hann sé og möguleg áhrif aðgerðanna á jafnrétti.
     b.      Að úthlutanir til byggðamála verði skoðaðar út frá jafnréttissjónarmiðum.
     c.      Að niðurstöður verði greindar og mótaðar leiðir í formi mótvægis- eða jafnréttisaðgerða til þess að bregðast við hugsanlegum kynjahalla í byggðaáætlun og úthlutunum með það að leiðarljósi að sjónarmiða jafnræðis og jafnréttis sé gætt.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: Allt að 3 millj. kr.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 5.a, 5.c, 8.5, 11.a, 16.6 og 16.7.

B. VINNUMARKAÐUR – LAUNAJAFNRÉTTI KYNJA
8. Jafnlaunavottun og jafnlaunastaðall.
    Unnið verði áfram að innleiðingu jafnlaunavottunar í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, eins og hún birtist í stjórnarsáttmála, og lög um jafnlaunavottun, nr. 56/2017, þannig að öll fyrirtæki og stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli hafi öðlast vottun á jafnlaunakerfum fyrir árið 2023. Unnið verði að framkvæmd og eftirfylgni eftirfarandi verkefna:
     a.      Unnið verði að fræðslu- og kynningarstarfi á faggildri vottun jafnlaunakerfa á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012 Jafnlaunakerfi – kröfur og leiðbeiningar (jafnlaunastaðall) og laga um jafnlaunavottun. Regluverk jafnlaunavottunar vegna innleiðingar jafnlaunastaðalsins verði þróað áfram á vettvangi stýrihóps Stjórnarráðsins um vottunar- og faggildingarmál sem í eiga sæti fulltrúar frá forsætisráðuneytinu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Jafnréttisstofu, svo sem með endurskoðun viðmiða til vottunaraðila og eftirliti með ferli jafnlaunavottunar.
     b.      Jafnréttisstofa safni og birti upplýsingar um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana á vefsíðu stofnunarinnar og í skýrslu ráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála.
     c.      Þróaður verði hugbúnaður fyrir starfaflokkun og launagreiningar sem auðveldi fyrirtækjum og stofnunum innleiðingu jafnlaunakerfa.
     d.      Unnið verði að uppfærslu jafnlaunastaðalsins.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: Fjármagnað.
     Ábyrgð: Forsætisráðuneytið og Jafnréttisstofa í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 8.5, 8.8, 16.5, 16.10 og 16.b.

9. Jafnrétti á vinnumarkaði.
    Unnið verði að framkvæmd og eftirfylgni verkefna sem m.a. byggjast á tillögugerð aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti sem starfaði á árunum 2012–2018:
     a.      Skipaður verði samráðshópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði.
     b.      Gerð verði rannsókn á launamun karla og kvenna sem nái til vinnumarkaðarins í heild, sbr. ákvæði um jafnlaunavottun í lögum nr. 56/2017 þar sem tekið er fram að ráðherra skuli láta framkvæma mat á árangri jafnlaunavottunar á tveggja ára fresti í samstarfi stjórnvalda, samtaka aðila vinnumarkaðarins og Hagstofu Íslands. Einnig verði skoðað sérstaklega hver séu áhrif jafnlaunavottunar á launaþróun, starfskjör og starfsþróunarmöguleika karla og kvenna, m.a. með hliðsjón af áhrifum barneigna á kjör foreldra.
     c.      Jafnréttisstofa fylgi eftir, í samstarfi við samtök aðila vinnumarkaðarins, tillögum aðgerðahóps um launajafnrétti um aðgerðir til að draga úr kynskiptu náms- og starfsvali.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: Fjármagnað.
     Ábyrgð: Forsætisráðuneytið í samstarfi við félagsmálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 5.4, 5.5, 5.a, 5.c, 8.5, 8.7, 8.8, 10.3 og 10.4.

10. Jafnrétti í stjórnun fyrirtækja.
    Unnið verði að því að meta framkvæmd á ákvæðum laga um kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja sem var bætt við lög um hlutafélög, nr. 2/1995, og lög um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með sérstökum breytingalögum, nr. 13/2010, og tóku gildi 2013. Verkefnið feli m.a. í sér eftirfarandi:
     a.      Skoðað verði hvort markmiðunum með setningu ákvæðanna hafi verið náð.
     b.      Löggjöfin verði rýnd og skoðað hver sé raunverulegur ávinningur með tilliti til markmiða jafnréttislaga um jöfn áhrif kvenna og karla í samfélaginu.
     c.      Leiðir til úrbóta verði greindar ef þörf þykir.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: Allt að 3 millj. kr.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 5.5, 5.c, 10.2, 10.3 og 10.5.

11. Jafnrétti og fæðingarorlof.
    Unnið verði að því að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði lengdur úr níu mánuðum í tólf mánuði í tveimur áföngum á tímabilinu 2020–2021. Hvort foreldri um sig eigi rétt á fimm mánaða fæðingarorlofi og foreldrar eigi að auki sameiginlega rétt á tveimur mánuðum til viðbótar sem þeir geta skipt með sér að vild. Markmiðið verði m.a. að brúa bilið sem myndast þegar foreldrar hafa fullnýtt fæðingarorlofsrétt sinn og þangað til barn fær dvöl á leikskóla og þar með tryggja báðum foreldrum möguleika á að annast barn sitt án þess að það hafi í för með sér verulega röskun á atvinnuþátttöku hvors um sig, auk jafnvægis milli atvinnuþátttöku og fjölskyldulífs.
     Tímaáætlun: 2020–2021.
     Kostnaðaráætlun: Fjármagnað.
     Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 1.3, 5.1, 5.4, 5.5, 5.c, 8.1, 8.8 og 10.4.

12. Lánatryggingasjóður kvenna.
    Stefnt verði að áframhaldandi starfsemi Svanna – lánatryggingasjóðs kvenna. Unnið verði að gerð endurskoðaðs samkomulags milli eigenda.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: Fjármagnað.
     Ábyrgð: Forsætisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í samstarfi við Reykjavíkurborg.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 5.5, 5.a, 5.c, 8.1, 8.3, 8.5, 8.10 og 9.3.

C. KYNBUNDIÐ OG KYNFERÐISLEGT OFBELDI
13. Framkvæmd Istanbúl-samningsins.
    Unnin verði stefnumarkandi landsáætlun um framfylgd samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningsins) frá 2011, sbr. 10. gr. samningsins sem kveður á um ábyrgð hins opinbera á samræmingu, framkvæmd, eftirfylgni og mati á aðgerðum og ráðstöfunum sem eru til komnar vegna samningsskuldbindinga. Landsáætlunin hafi jafnframt að markmiði að skapa heildaryfirsýn yfir innleiðingu laga, stjórnvaldsaðgerðir og aðrar ráðstafanir, þ.m.t. gagnasöfnun og rannsóknir, sbr. 11. gr. samningsins. Samhliða verði unnið að undirbúningi fyrstu fyrirtöku Íslands árið 2021 hjá eftirlitsnefnd samningsins með framkvæmd skuldbindinga hans. Landsáætlunin verði unnin í samráði við önnur ráðuneyti, ríkisstofnanir, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og aðra hlutaðeigandi og feli m.a. í sér eftirfarandi aðgerðir:
     a.      Leitað verði fyrirmynda í landsáætlunum annarra aðildarríkja Evrópuráðsins.
     b.      Mótuð verði tímasett landsáætlun með markmiðum, aðgerðum, árangursvísum og ábyrgðaraðilum.
     c.      Metin verði framfylgni ákvæða samningsins hér á landi með tilliti til löggjafar og annarra ráðstafana.
     d.      Undirbúin verði stöðuskýrsla um framkvæmd samningsins árlega.
     e.      Staðið verði fyrir kynningu og fræðslu á samningnum og landsáætlun á vef Stjórnarráðsins og víðar.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: Fjármagnað.
     Ábyrgð: Forsætisráðuneytið í samstarfi við stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi og ráðuneytin sem eiga þar sæti.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 5.2, 5.3, 5.6, 10.2, 10.3, 10.4, 16.1, 16.2, 16.3, 16.6 og 16.10.

14. Jafnrétti innan lögreglunnar.
    Unnið verði að því að fjölga konum innan lögreglunnar og tryggja að vinnumenning lögreglunnar stuðli að jöfnum tækifærum kvenna og karla til starfsframa, símenntunar og starfsþjálfunar ásamt möguleikum bæði karla og kvenna til að gegna stjórnunar- og áhrifastöðum. Markmiðið verði að jafna kynjahlutfallið í heild og innan starfsstiga lögreglunnar, m.a. með greiningu á vinnustaðamenningu, framgangi í starfi og brottfalli innan lögreglunnar út frá kyni, sbr. eftirfarandi aðgerðir:
     a.      Gerð verði framhaldsrannsókn til að kanna hvort breyting hafi orðið á vinnumenningu innan lögreglunnar frá því að ráðist var í aðgerðir í kjölfar rannsóknar frá árinu 2013 um ástæður þess að konur eru fámennar í hópi lögreglumanna, vinnumenningu og kynjatengsl innan lögreglunnar.
     b.      Kyngreindum gögnum um ráðningar, embættisskipanir, framgang í starfi, brottfall úr starfi auk ástæðna brottfalls úr lögreglunni verði safnað og þau greind þar sem markviss og skipulögð söfnun á kyngreindum gögnum er mikilvæg forsenda þess að hafa áreiðanlegar upplýsingar um stöðu karla og kvenna innan lögreglunnar og ná því markmiði að auka jafnrétti innan hennar.
     c.      Ráðningarferlið innan lögreglunnar verði greint til að stuðla að gagnsærra og betra ferli.
     d.      Unnið verði að því að jafnréttisfulltrúar embætta og jafnréttisfulltrúar í jafnréttisnefnd hafi svigrúm og tíma til að sinna hlutverki sínu.
     e.      Settar verði fram tillögur að úrbótum við niðurstöðum liða a–d hér að framan til að tryggja fjölgun kvenna í lögreglunni og auka fjölbreytileika, sbr. fyrrgreind markmið, sem og að bæta vinnumenningu innan lögreglunnar og bæta ráðningarferli.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: Fjármagnað.
     Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið í samstarfi við ríkislögreglustjóra og lögregluembætti landsins.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 5.5, 5.c, 8.8, 10.3 og 16.6.

D. JAFNRÉTTI, MENNTUN OG MENNING, ÍÞRÓTTA- OG ÆSKULÝÐSSTARF
15. Jafnrétti í skólastarfi.
15.1. Karlar og kennsla.
    Unnið verði að því að fjölga nýnemum í grunnnámi kennaranáms, sér í lagi körlum, og þar með flýta nýliðun innan kennarastéttarinnar. Tekist verði á við þær áskoranir sem hækkandi meðalaldur kennara og brotthvarf nýútskrifaðra kennara úr kennslu fela í sér og gera það m.a. að verkum að leik- og grunnskólabörn fá ekki nám við hæfi. Hugað verði sérstaklega að dreifbýli þar sem hlutfall ófaglærðra leiðbeinenda er almennt hærra en í þéttbýli. Verkefnið gangi m.a. út á eftirfarandi aðgerðir:
     a.      Nýliðun kennara verði aukin þar sem sérstaklega verði litið til þess hvernig fjölga megi körlum.
     b.      Viðurkenning á störfum kennara verði aukin.
     c.      Stuðningur við kennara á fyrstu árum í starfi verði aukinn.
     d.      Unnið verði úr tillögum um það hvernig auka megi gæði og samhæfingu starfsþróunar og bæta starfsumhverfi kennara til frambúðar.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: Fjármagnað.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 4.1, 4.2, 4.3, 4.4, 4.5, 4.a, 4.c, 5.1, 10.3, 10.4 og 16.6.

15.2. Brotthvarf drengja úr námi og nemenda með annað móðurmál en íslensku.
    Orsakir brotthvarfs úr námi á framhaldsskólastigi verði skoðaðar, sérstaklega meðal drengja og nemenda með annað móðurmál en íslensku. Samhliða verði niðurstöður rannsókna og önnur þekking um orsakir brotthvarfs nýttar fyrir stefnumótun, m.a. til að móta markvissari úrræði gegn brotthvarfi, og forvarna- og mótvægisaðgerðir.
     Tímaáætlun: 2020–2021.
     Kostnaðaráætlun: Fjármagnað.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 4.1, 4.3, 4.5, 4.6, 4.c og 5.1.

15.3. Jafnrétti og kynbundið námsval.
    Unnið verði að því að jafna kynjahlutföll í námi á framhaldsskólastigi og draga úr kynbundnu námsvali og þar með kynskiptum vinnumarkaði þar sem námsval hefur áhrif bæði á starfsval og framhaldsfræðslu.
    Aðgerðir felist m.a. í eftirfarandi:
     a.      Unnið verði að því að safna upplýsingum, rannsaka og kortleggja kynjaskiptingu í öllum nemendahópum og þjónustuliðum framhaldsfræðslukerfisins og í framhaldinu breyta framboði og fyrirkomulagi náms í framhaldsskólum og framhaldsfræðslu, m.a. með hliðsjón af þróuninni annars staðar á Norðurlöndum, með það að markmiði að vinna gegn staðalímyndum kynjanna.
     b.      Nám á sviði vísinda, tækni, verkfræði og stærðfræði sem og starfsnám á framhaldsskólastigi verði gert aðgengilegra og áhugaverðara fyrir nemendur með áherslu á aukinn hlut stúlkna með það að markmiði að jafna kynjahlutföll.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið í samstarfi við verkefnið Skólar og tækni á vegum GERT – samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytisins.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 4.1, 4.3, 4.4, 5.1 og 10.3.

15.4. Jafnrétti í félagslífi framhaldsskóla.
    Unnið verði að því að jafna þátttöku kynjanna í öllum þáttum félagslífs framhaldsskóla, þ.m.t. nemenda af erlendum uppruna og fatlaðra nemenda. Aðgerðir verði mótaðar í samvinnu við Samband íslenskra framhaldsskólanema.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 4.7, 5.1, 5.5, 5.c og 10.2.

16. Jafnrétti og öryggi.
16.1. Jafnrétti og öryggi í leik- og grunnskólum og framhaldsskólum.
    Unnið verði að eflingu fræðslu og þekkingar um kynbundna mismunun og kynferðislega áreitni, hótanir og ofbeldi meðal barna og ungmenna auk allra þeirra sem vinna í leik- og grunnskólum og framhaldsskólum. Fræðslan verði aðlöguð að aldri og þroska barna og ungmenna auk þess sem þekking á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins verði efld.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 4.1, 4.2, 4.5, 4.a, 5.1, 5.2 og 5.c.

16.2. Jafnrétti og öryggi í íþrótta- og æskulýðsstarfi og forvarnir gegn kynbundnu brotthvarfi úr íþróttum.
    Unnið verði að því að auka öryggi og jafnrétti í íþrótta- og æskulýðsstarfi með aðgerðum sem miða að því að uppræta kynbundið áreiti og ofbeldi og tryggja að allir geti leitað sér aðstoðar eða réttar síns vegna atvika og misgerða sem upp koma án ótta við afleiðingarnar. Þar með verði stuðlað að öruggu umhverfi óháð kynferði eða stöðu barna, unglinga og fullorðinna að öðru leyti innan íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar. Aðgerðir felist m.a. í eftirfarandi:
     a.      Rafrænt aðgengi að sakaskrá verði tryggt til að auðvelda íþrótta- og æskulýðsfélögum að framfylgja æskulýðslögum, nr. 70/2007, og íþróttalögum, nr. 64/1998, en samkvæmt þeim er íþrótta- og æskulýðsfélögum óheimilt að ráða til starfa einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Sama gildir um þá sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Ákvæði þetta nær einnig til þeirra sem eru sjálfboðaliðar í íþróttastarfi.
     b.      Ástæður brotthvarfs úr skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi út frá kyni og öðrum þáttum verði kannaðar sérstaklega.
     c.      Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, sem starfar á vegum mennta- og menningarmálaráðherra, tryggi að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða réttar síns vegna atvika og misgerða sem þar koma upp án ótta við afleiðingarnar.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr. auk 12 millj. kr. á ári vegna samskiptaráðgjafa.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið í samstarfi við dómsmálaráðuneytið og embætti ríkislögreglustjóra.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 5.2, 5.c og 10.2.

17. Jafnrétti á háskólastigi.
17.1. Samstarf jafnréttisfulltrúa háskóla.
    Samstarfsvettvangur jafnréttisfulltrúa háskóla haldi áfram sínu starfi. Það felst m.a. í skrifum á Wikipedia.is, jafnréttisfræðslu innan skólanna, skoðun staðalímynda í háskólum og árlegum fræðslufundi vettvangsins til að efla þekkingu og samstarf. Aðgerðir feli í sér eftirfarandi:
     a.      Samstarfsvettvangur jafnréttisfulltrúa háskólanna geri sameiginlega verkefna- og fjárhagsáætlun fyrir árin 2020–2021 og 2022–2023 með árangurstengdum markmiðum og mælikvörðum.
     b.      Samstarfsvettvangurinn vinni ársskýrslur og kynni framgang verkefna, t.d. á jafnréttisdögum háskólanna.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: 3 millj. kr.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 4.4, 4.5, 4.7, 5.1, 5.2 og 10.3.

17.2. Jafnrétti og háskólastöður.
    Kannaðar verði ástæður brotthvarfs kvenna úr vísindastarfi og ástæður þess að framgangur karla í vísindum er vanalega meiri en kvenna með því að skoða framgangskerfi háskólanna í samhengi við fjölskylduaðstæður og starfsval. Með hliðsjón af niðurstöðunum verði gerð aðgerðaáætlun til að stemma stigu við brotthvarfi kvenna úr háskólastarfi og vinna í þeim þáttum sem hafa áhrif á framgang út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 5.2, 5.4, 5.5, 5.a, 5.b, 5.c, 10.3, og 16.6.

18. Jafnrétti, menning og listir.
    Unnið verði að því að tryggja jöfn kynjahlutföll meðal listamanna þegar kemur að framboði á menningu og listum á vegum ríkisins og eftirspurn (menningarneyslu). Helstu aðgerðir verði m.a. eftirfarandi:
     a.      Menningarstofnanir á vegum ríkisins haldi kynjabókhald um menningar- og listviðburði sem þær standa fyrir. Kynjabókhaldið nái til úthlutana úr opinberum sjóðum eftir því sem við á. Kynjabókhald sem nái til menningarneyslu verði aðgengilegt á vefsvæðum stofnananna ásamt samanburði milli ára.
     b.      Umsjónaraðilar sjóða á sviði menningar og lista birti á vefsíðum sínum greiningu upplýsinga um úthlutanir er sýni kyn, fjármagn, búsetu og árangurshlutfall umsókna. Framsetning upplýsinga og greining á helstu niðurstöðum verði bætt og helstu niðurstöðum ásamt samanburði milli ára verði miðlað í texta á viðkomandi vefsvæðum.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 4.7, 5.1, 5.5, 10.3 og 16.6.

E. KARLAR OG JAFNRÉTTI
19. Karlar og #églíka (#metoo).
    Unnið verði að vitundarvakningu um ábyrgð og hlutverk karla í tengslum við #églíka (#metoo) afhjúpanir um kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi. Verkefnið taki m.a. til sambandsins milli kynbundins og kynferðislegs áreitis og ofbeldis annars vegar og hugmynda um karlmennsku, mörk og samþykki hins vegar. Verkefnið verði unnið með hliðsjón af tillögum aðgerðahóps um karla og jafnrétti og þeirri vinnu sem unnin hefur verið sem liður í viðbrögðum stjórnvalda vegna #églíka (#metoo). Jafnréttisstofa beri ábyrgð á verkefninu og framkvæmd þess í samráði og eftir atvikum samvinnu við íslenskt fræðasamfélag, aðila vinnumarkaðarins, félagasamtök og stjórnvöld.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: Fjármagnað.
     Ábyrgð: Forsætisráðuneytið og Jafnréttisstofa.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5, 10.3, 16.1, 16.2 og 16.10.

20. Karlar og heilbrigðisþjónusta.
    Notkun karla á Heilsuveru – rafrænni þjónustugátt, sem hefur þann tilgang að gera aðgang landsmanna að upplýsingum um heilsu og áhrifaþætti hennar greiðari, verði efld. Jafnframt verði stuðlað að því að auðvelda og jafna aðgang einstaklinga að gögnum úr eigin sjúkraskrám og að öruggum samskiptum við lækna eða starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar. Þannig hafi vefurinn bæði forvarna- og þjónustugildi. Verkefnið verði unnið í samstarfi við landlæknisembættið og feli í sér eftirfarandi þætti:
     a.      Skoðaðar verði ástæður að baki mismikilli notkun karla og kvenna út frá kynbundnum áhrifaþáttum.
     b.      Skoðuð verði almenn og kynskipt notkun út frá þáttum eins og aldri, hjúskaparstöðu, búsetu og uppruna.
     c.      Tillögur um sérstakar aðgerðir verði gerðar til að jafna hlut karla og kvenna og auka almenna notkun vefsins, m.a. með hliðsjón af fyrrnefndum þáttum.
     d.      Tillögur skv. c-lið verði innleiddar í kjölfarið.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda.
     Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 3.8, 5.1 og 10.3.

F. ALÞJÓÐASTARF
21. Kyn og neysla.
    Unnið verði að vitundarvakningu um hringrásarhagkerfið, umhverfis- og félagsleg áhrif tísku- og textíliðnaðar og vald neytenda til að stuðla að mannsæmandi og umhverfisvænni framleiðsluháttum með áherslu á samfélagslega ábyrga neyslu á tískufatnaði, endurnotkun og endurvinnslu. Markmið verkefnisins verði að hafa áhrif á hegðun neytenda í anda samfélagslegrar ábyrgðar til hagsbóta fyrir konur bæði sem framleiðendur og neytendur með því að upplýsa almenning, og þá sérstaklega konur, um allan þann kostnað sem fellur til í víðtækum skilningi við framleiðslu og förgun textíls. Auk þess verði markmiðið að samþætta kynjasjónarmið inn í úrgangsforvarnir þannig að draga megi úr ágangi í auðlindir og myndun úrgangs og auka endurnotkun og endurvinnslu. Þannig megi standa vörð um lífsgæði kvenna og efla enn frekar með því að skapa sóknarfæri í grænum störfum og nýsköpun með kynja- og umhverfissjónarmið að leiðarljósi, vinna gegn launamisrétti á alþjóðlegum vettvangi og hafa jákvæð áhrif á vinnuumhverfi starfskvenna í textíliðnaði. Verkefnið verði unnið í samstarfi við m.a. Umhverfisstofnun, Neytendastofu, Rauða krossinn, fyrirtækið Aftur og Listaháskóla Íslands og gangi út á eftirfarandi aðgerðir:
     a.      Gagna um framleiðslu, innkaup, notkun og neyslu textíls verði aflað.
     b.      Framsetning gagna verði útfærð þannig að nota megi í fræðslutilgangi.
     c.      Sett verði upp vefsíða þar sem finna megi upplýsingar fyrir almenning og fyrirtæki um umhverfis- og kynjaáhrif framleiðslu og neyslu textíls.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: 1,5 millj. kr.
     Ábyrgð: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuð þjóðanna: Samræmist öllum heimsmarkmiðin en styður einkum markmið 5.a, 8.4, 8.5, 8.7, 8.8, 10.3, 12.1, 12.2, 12.4, 12.5, 13.2, 13.3, 16.b, 17.14 og 17.16.

22. Þátttaka karla í jafnréttismálum.
    Utanríkisráðuneytið leggi áherslu á hlutverk karla í jafnréttismálum á alþjóðavettvangi. Í því felist m.a. að halda rakarastofuráðstefnur hjá alþjóðastofnunum sem Ísland er aðili að í þeim tilgangi að fá karla til að axla ábyrgð á kynjajafnrétti, t.d. hjá Alþjóðabankanum. Jafnframt verði haldið uppi málflutningi af hálfu Íslands um þetta málefni hjá alþjóðastofnunum sem Ísland á aðild að og í tvíhliða samskiptum við önnur ríki. Karlmenn á Íslandi verði hvattir til að taka undir markmið HeForShe-herferðar UN Women í samræmi við skuldbindingar Íslands í IMPACT-átaki UN Women og samvinna innan íslenska stjórnkerfisins og við frjáls félagasamtök verði efld. Markmið verkefnisins verði aukið eignarhald og þátttaka meðal karlmanna í málefnum er varða jafnrétti kynjanna.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: Fjármagnað.
     Ábyrgð: Utanríkisráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.

23. Innleiðing jafnréttisvottunar í þróunarsamvinnu.
    Utanríkisráðuneytið innleiði jafnréttisvottun í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands í samstarfi við Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP). Helsta markmið vottunarinnar verði að styrkja ráðuneytið og sendiráð Íslands í Lilongwe og Kampala í innra stefnumótunarstarfi í þróunarsamvinnu með sérstakri áherslu á ytra starf á sviði jafnréttismála. Innleiðingarferli hefjist árið 2020 og áætluð lok vottunarferlisins verði í janúar 2021. Ísland verði fyrst aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og þróunarsamvinnunefndar hennar (DAC) til að innleiða slíkt vottunarferli á sviði jafnréttismála.
     Tímaáætlun: 2020–2021.
     Kostnaðaráætlun: Fjármagnað.
     Ábyrgð: Utanríkisráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Samræmist öllum heimsmarkmiðum en styður einkum markmið 3.1, 3.2, 3.7, 4.1, 4.5, 4.a, 5.4, 6.1 og 6.2.

24. Jöfn tækifæri kynjanna í alþjóðaviðskiptum – „Jafnrétti til útflutnings“.
    Utanríkisráðuneytið leggi áherslu á að ryðja úr vegi kynbundnum viðskiptahindrunum og breiða út þá þekkingu sem hefur skapast á Íslandi varðandi jafnrétti, t.d. á vegum Uppbyggingarsjóðs EES. Ráðuneytið „markaðssetji“ markvisst jafnréttisverkefni í þeim 15 ríkjum sem falla undir Uppbyggingarsjóð EES í því skyni að miðla reynslu og þekkingu hérlendis til þeirra. Jafnframt verði unnið að því að nýta til fullnustu það fjármagn sem í boði er til að skerpa á jafnréttisáherslum, og efla það orðspor sem Ísland hefur byggt upp sem land jafnréttis, og þeirri hugmyndafræði sem Ísland vill vera leiðandi fyrirmynd að í alþjóðastarfi.
    Utanríkisráðuneytið beiti sér fyrir því að jafnréttisákvæði verði sett í viðskiptasamninga, bæði á vegum EFTA og í öðrum tvíhliða samningum. Jafnframt haldi utanríkisráðuneytið áfram að setja jafnrétti á dagskrá í umræðu innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og fylgja eftir yfirlýsingu um valdeflingu kvenna og þátttöku í alþjóðaviðskiptum sem yfir 120 ríki WTO sendu frá sér á ráðherrafundi stofnunarinnar árið 2017.
    Utanríkisráðuneytið vinni að því að jafna hlut kvenna í starfsemi ráðuneytisins á sviði viðskiptamála, t.d. við gerð viðskipta- og fríverslunarsamninga, setu í nefndum og vinnuhópum á sviði alþjóðaviðskiptamála og þátttöku í viðskiptasendinefndum embættismanna eða ráðherra erlendis.
     Tímaáætlun: 2020–2023.
     Kostnaðaráætlun: Fjármagnað.
     Ábyrgð: Utanríkisráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 5.4, 8.3, 8.5, 8.7 og 8.8.

Samþykkt á Alþingi 16. desember 2019.