Ferill 385. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 830  —  385. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um eftirlit með gjaldeyrisútboðum Seðlabanka Íslands.


    Við vinnslu svarsins aflaði ráðuneytið upplýsinga frá Seðlabanka Íslands.

     1.      Hvernig var háttað eftirliti með því að í gjaldeyrisútboðum Seðlabanka Íslands væri fylgt ákvæðum skilmála bankans um gjaldeyrisviðskipti samkvæmt fjárfestingarleið við losun gjaldeyrishafta, m.a.:
                  a.      um uppruna fjármuna með vísan til reglna um eftirlit með peningaþvætti, og
                  b.      um það að fjárfestir hafi verið raunverulegur eigandi fjármuna svo að viðskipti hafi verið framkvæmd fyrir eigin reikning fjárfestis en ekki fyrir hönd annars aðila, sbr. skýrslu Seðlabanka Íslands frá því í ágúst 2019 um gjaldeyrisútboð bankans?

    Þátttakendur í útboðum fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands þurftu að uppfylla fjölmörg skilyrði sem giltu um gjaldeyrisviðskipti í tengslum við þær fjárfestingar og undirrita skilmála þar um. Seðlabankinn gerði í upphafi útboða fjárfestingarleiðarinnar samninga við milligönguaðila (fjármálafyrirtæki) þar sem skilgreindur var rammi um kaup bankans á erlendum gjaldeyri fyrir krónur í útboðsviðskiptum sem seljendur gjaldeyrisins verðu til langtímafjárfestingar í íslensku atvinnulífi. Formlega var þátttaka í útboðunum í nafni innlends fjármálafyrirtækis og réttarstaðan því sú að það var gagnaðili Seðlabankans í viðskiptunum. Viðkomandi fjármálafyrirtæki hafði milligöngu um umsóknir fjárfesta um þátttöku í útboðum fjárfestingarleiðarinnar til Seðlabankans og bar m.a. að gæta þess að fyrirhuguð fjárfesting uppfyllti sett skilyrði. Fjármálafyrirtækjunum var m.a. skylt að kanna fjárfesta, þ.e. viðskiptamenn sína, með tilliti til laga nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og staðfesta það gagnvart Seðlabankanum.
    Samkvæmt skilmálum um gjaldeyrisviðskipti samkvæmt fjárfestingarleiðinni kannaði Seðlabankinn m.a. hvort umsókn væri á því formi sem mælt var fyrir um og uppfyllti útboðsskilmála og einnig hvort augljósir annmarkar væru á fylgigögnum. Ef Seðlabankinn taldi umsókn ekki uppfylla sett skilyrði var umsóknin endursend ásamt stuttum rökstuðningi fyrir því hvers vegna svo væri. Fjárfestir gat þá sent aðra umsókn og ferlið mátti endurtaka svo oft sem þurfa þótti þar til umsókn fullnægði öllum skilyrðum. Þannig kallaði Seðlabankinn eftir frekari gögnum við afgreiðslu slíkra þátttökuumsókna ef þær þóttu ekki gefa nógu glögga mynd af því hvort skilyrðin væru uppfyllt.
    Áður en umsókn um þátttöku í fjárfestingarleiðinni var afgreidd þurfti að liggja fyrir staðfesting fjárfestis á að hann væri raunverulegur eigandi viðkomandi fjármuna og einnig staðfesting milligönguaðila á að hann hefði upplýsingar um raunverulegan eiganda fjármunanna. Ef Seðlabankinn taldi vafa leika á um uppruna fjármuna eða hvort fjárfestir væri raunverulegur eigandi þeirra var kallað eftir frekari upplýsingum.
    Sérstakir eftirlitsferlar voru til staðar innan bankans þar sem gengið var úr skugga um, í tengslum við hvert útboð, að skilyrði g-liðar 4. gr. skilmála um gjaldeyrisviðskipti samkvæmt fjárfestingarleið væri uppfyllt. Í þeim lið er þess krafist að fjárfestir, eða lögaðili þar sem hann á eða átti sæti í stjórn eða er eða var í forsvari fyrir, liggi ekki undir rökstuddum grun hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans um meint brot, hafi ekki verið ákærður af handhafa ákæruvalds eða kærður til lögreglu af Seðlabankanum, og máli vegna þess sé enn ólokið hjá ákæruvaldi eða lögreglu, eða vanefnt verulega óuppgerða stjórnvaldssekt eða sátt; allt vegna meintra brota á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, og reglum settum á grundvelli þeirra. Á meðal gagna sem voru afhent í þessum tilgangi voru gögn sem staðfestu raunverulega eigendur fjármuna.

     2.      Telur ráðherra koma til greina að birta nöfn raunverulegra eigenda sem fengu samþykkt tilboð og nutu með þeim hætti þeirra kjara sem buðust af hálfu Seðlabanka Íslands í umræddum gjaldeyrisviðskiptum?
    Ekki er heimilt samkvæmt gildandi lögum að birta upplýsingar sem spurt er um vegna ákvæðis um þagnarskyldu í 35. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Um þetta hefur verið úrskurðað af úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. úrskurð nr. 774/2019, sem komst að þeirri niðurstöðu að listi yfir nöfn einstaklinga og lögaðila, ásamt fjárhæðum sem hver aðili flutti til landsins eftir fjárfestingarleið Seðlabankans, félli undir þagnarskylduákvæði bankans.