Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. september 2018. Útgáfa 148c. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
2006 nr. 64 14. júní
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 23. júní 2006 nema 12. gr. sem tók gildi 1. janúar 2007. EES-samningurinn: tilskipun 2005/60/EB. Breytt með l. 77/2008 (tóku gildi 19. júní 2008), l. 98/2009 (tóku gildi 1. okt. 2009 nema 69. og 70. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2010), l. 116/2009 (tóku gildi 29. des. 2009), l. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011), l. 120/2011 (tóku gildi 1. des. 2011; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2007/64/EB), l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011), l. 41/2012 (tóku gildi 15. júní 2012; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2007/64/EB), l. 17/2013 (tóku gildi 1. apríl 2013; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2009/110/EB), l. 6/2016 (tóku gildi 5. febr. 2016) og l. 91/2018 (tóku gildi 29. júní 2018).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Tilgangur.
Tilgangur laga þessara er að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með því að skylda aðila sem stunda starfsemi er kann að verða notuð til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka til að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og tilkynna um það til bærra yfirvalda verði þeir varir við slíka ólögmæta starfsemi.
2. gr. Gildissvið.
Undir lög þessi falla eftirtaldir aðilar:
a. Fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki.
b. Líftryggingafélög og lífeyrissjóðir.
c. Vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn samkvæmt lögum um miðlun vátrygginga þegar þeir miðla líftryggingum eða öðrum söfnunartengdum tryggingum … 1)
d. [Útibú erlendra fyrirtækja sem staðsett eru á Íslandi og falla undir [a–c- og m–n-lið]. 2)] 3)
e. Einstaklingar eða lögaðilar sem í atvinnuskyni stunda gjaldeyrisviðskipti eða yfirfærslu peninga og annarra verðmæta.
f. Lögmenn og aðrir lögfræðingar í eftirfarandi tilvikum:
i. þegar þeir sjá um eða koma fram fyrir hönd umbjóðanda síns í hvers kyns fjármála- eða fasteignaviðskiptum;
ii. þegar þeir aðstoða við skipulagningu eða framkvæmd viðskipta fyrir umbjóðanda sinn hvað varðar kaup og sölu fasteigna eða fyrirtækja, sjá um umsýslu peninga, verðbréfa eða annarra eigna umbjóðanda síns, opna eða hafa umsjón með banka-, spari- eða verðbréfareikningum, útvega nauðsynlegt fjármagn til að stofna, reka eða stýra fyrirtækjum eða stofna, reka eða stýra fjárvörslusjóðum, fyrirtækjum og áþekkum aðilum.
g. Endurskoðendur.
h. … 4)
i. Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasalar.
j. Einstaklingar eða lögaðilar sem í atvinnuskyni selja hluti sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 15.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
k. [Aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu, sbr. skilgreiningu í 3. gr.] 4)
l. Einstaklingar eða lögaðilar sem hlotið hafa starfsleyfi á grundvelli laga um happdrætti, eða til reksturs fjársafnana og happdrætta á grundvelli sérlaga þegar greiddir eru út vinningar.
[m. [Greiðslustofnanir og umboðsaðilar þeirra samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu.] 3)] 5)
[n. Rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum um útgáfu og meðferð rafeyris.] 2)
[o. Þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla.
p. Þjónustuveitendur stafrænna veskja.] 6)
Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að aðilar sem falla undir [a–e- [og m–p-lið] 6) 1. mgr.] 3) og taka þátt í fjármálastarfsemi aðeins stöku sinnum eða að mjög takmörkuðu leyti og starfsemin felur í sér litla hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka séu undanþegnir ákvæðum laga þessara.
Skylt er þeim sem falla undir ákvæði þessara laga að veita alla nauðsynlega aðstoð til að ákvæðum laganna verði framfylgt.
1)L. 6/2016, 1. gr. 2)L. 17/2013, 47. gr. 3)L. 41/2012, 1. gr. 4)L. 116/2009, 1. gr. 5)L. 120/2011, 81. gr. 6)L. 91/2018, 1. gr.
3. gr. Orðskýringar.
Í lögum þessum merkir:
1. [ Peningaþvætti: Þegar einstaklingur eða lögaðili tekur við eða aflar sér eða öðrum ávinnings með broti sem er refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum. Hér er einnig átt við það þegar einstaklingur eða lögaðili umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu, ráðstöfun eða flutningi ávinnings eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíkum refsiverðum brotum.] 1)
2. Fjármögnun hryðjuverka: Öflun fjár í þeim tilgangi eða með vitneskju um að nota eigi það til að fremja brot sem er refsivert [skv. 100. gr. a – 100. gr. c] 1) almennra hegningarlaga.
3. Ávinningur: Hvers kyns hagnaður og eignir hverju nafni sem nefnast, þ.m.t. skjöl sem ætlað er að tryggja rétthafa aðgang að eignum eða öðrum réttindum sem meta má til fjár.
4. [ Raunverulegur eigandi: Einstaklingur, einn eða fleiri, sem í raun á starfsemina eða stýrir þeim viðskiptamanni, lögaðila eða einstaklingi, í hvers nafni viðskipti eða starfsemi eru stunduð eða framkvæmd.] 2) Raunverulegur eigandi telst m.a. vera:
a. Einstaklingur eða einstaklingar sem í raun eiga eða stjórna lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild að meira en 25% hlut í lögaðilanum, ráða yfir meira en 25% atkvæðisréttar eða teljast á annan hátt hafa yfirráð yfir lögaðila. Ákvæðið á þó ekki við um lögaðila sem skráðir eru á skipulegum markaði samkvæmt skilgreiningu [laga um kauphallir]. 1)
b. Einstaklingur eða einstaklingar sem eru framtíðareigendur að 25% eða meira af eignum fjárvörslusjóðs eða svipaðs löglegs fyrirkomulags, eða hafa yfirráð yfir 25% eða meira af eignum hans. Í tilvikum þar sem ekki hefur enn verið ákveðið hverjir munu njóta góðs af slíkum fjárvörslusjóði telst raunverulegur eigandi vera sá eða þeir sem sjóðurinn er stofnaður fyrir eða starfar fyrir.
5. Tilkynningarskyldir aðilar: Aðilar sem taldir eru upp í 1. mgr. 2. gr.
6. [ Aðili á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu:] 3) Einstaklingur eða lögaðili sem veitir eftirfarandi þjónustu gegn gjaldi:
a. stofnun fyrirtækja eða annarra lögaðila,
b. gegnir eða útvegar annan aðila til að gegna stöðu forstjóra eða framkvæmdastjóra fyrirtækis, stöðu meðeiganda í félagi eða sambærilegri stöðu hjá annarri tegund lögaðila,
c. útvegar lögheimili eða annað skráð heimilisfang sem á svipaðan hátt er notað til að hafa samband við fyrirtækið, eða aðra tengda þjónustu,
d. starfar sem eða útvegar annan einstakling til að starfa sem fjárvörsluaðili sjóðs eða annars löglegs fyrirkomulags,
e. starfar sem eða fær annan einstakling til að starfa sem tilnefndur hluthafi fyrir annan aðila en fyrirtæki sem skráð er á skipulegum markaði,
[f. skattaráðgjöf.] 3)
[7. Gjaldeyrisskiptastöð: Starfsemi þar sem í atvinnuskyni fer fram kaup og sala innlends og erlends gjaldeyris.
8. Peninga- og verðmætasendingarþjónusta: Starfsemi þar sem í atvinnuskyni er á einum stað tekið við reiðufé, tékkum eða annars konar verðmætum sem eru ígildi peninga og andvirði þess er á öðrum stað greitt til viðtakanda í reiðufé eða ígildi peninga með aðstoð hvers kyns skilaboða, millifærslu eða í gegnum greiðslukerfi sem hlutaðeigandi peninga- og verðmætasendingarþjónusta á aðild að [og sérstök lög gilda ekki um, önnur en lög um greiðsluþjónustu]. 4) Yfirfærsla sem framkvæmd er af peninga- og verðmætasendingarþjónustu getur farið um hendur eins eða fleiri milligönguaðila áður en lokagreiðsla á sér stað til móttakanda.] 1)
[9. Viðurkennd persónuskilríki: Gild persónuskilríki sem gefin eru út af stjórnvöldum eða eru viðurkennd af stjórnvöldum. Til gildra persónuskilríkja skulu teljast vegabréf, ökuskírteini, nafnskírteini gefin út af Þjóðskrá Íslands og rafræn skilríki sem innihalda fullgild rafræn vottorð sem varðveitt eru á öruggum undirskriftarbúnaði, sbr. III. og IV. kafla laga um rafrænar undirskriftir.] 2)
[10. Millifærsla fjármuna: Hvers konar færsla fjármuna með rafrænum hætti í gegnum greiðslukerfi aðila skv. a-, m- og n-lið 1. mgr. 2. gr., innan lands eða yfir landamæri, sem framkvæmd er af greiðanda sem getur verið einstaklingur eða lögaðili og ætlað er að veita viðtakanda aðgang að fjármunum. Viðtakandi getur verið sá sami og greiðandi.] 5)
[11. Sýndarfé: Hvers konar stafrænt fé sem er hvorki rafeyrir í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris né gjaldmiðill.
12. Gjaldmiðill: Seðlar, mynt og aðrir gjaldmiðlar sem seðlabankar eða aðrir til þess bærir opinberir aðilar gefa út og er viðurkenndur lögmæltur gjaldmiðill.
13. Þjónustuveitandi stafrænna veskja: Einstaklingur eða lögaðili sem býður upp á vörsluþjónustu á auðkennum sýndarfjár, hvort sem er með hugbúnaði, kerfi eða annars konar miðli til að halda utan um, geyma og flytja sýndarfé.] 6)
1)L. 77/2008, 2. gr. 2)L. 41/2012, 2. gr. 3)L. 116/2009, 2. gr. 4)L. 120/2011, 81. gr. 5)L. 6/2016, 2. gr. 6)L. 91/2018, 2. gr.
II. kafli. Könnun á áreiðanleika viðskiptamanna.
4. gr. [Tilvik er áreiðanleikakönnun skal fara fram.]1)
Tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum skulu kanna áreiðanleika viðskiptamanna sinna í samræmi við ákvæði þessa kafla í eftirfarandi tilvikum:
a. Við upphaf viðvarandi samningssambands.
b. Vegna einstakra viðskipta að fjárhæð 15.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleirum sem virðast tengjast hver annarri.
c. Vegna gjaldeyrisviðskipta að fjárhæð 1.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleirum sem virðast tengjast hver annarri.
d. Þegar grunur leikur á um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, án tillits til undanþágna eða takmarkana af neinu tagi.
e. Þegar vafi leikur á því að fyrirliggjandi upplýsingar um viðskiptamann séu réttar eða nægilega áreiðanlegar.
[f. Við millifærslu fjármuna, þegar um einstök viðskipti er að ræða, hvort sem um er að ræða færslu fjármuna innan lands eða yfir landamæri, að fjárhæð 150.000 kr. eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.] 2)
[Tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum eru ekki skyldugir til að kanna áreiðanleika viðskiptamanna í samræmi við ákvæði þessa kafla í tilvikum þar sem um er að ræða færslu fjármuna með greiðslukortum, farsíma eða hvers konar sambærilegum stafrænum búnaði eða upplýsingatæknibúnaði, þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
1. kort eða búnaður er eingöngu notaður til að greiða fyrir vörur eða þjónustu, og
2. kortanúmer eða númer búnaðar fylgir öllum færslum sem leiðir af viðskiptunum.] 2)
1)L. 77/2008, 3. gr. 2)L. 6/2016, 3. gr.
5. gr. [Könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn.]1)
[Áður en samningssambandi er komið á eða áður en viðskipti eiga sér stað skal tilkynningarskyldur aðili gera kröfu um að nýr viðskiptamaður sanni á sér deili með eftirfarandi hætti:
a. [Einstaklingar: Með framvísun viðurkenndra persónuskilríkja.] 2)
b. Lögaðilar: Með framlagningu vottorðs úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra eða sambærilegri opinberri skrá með heiti, heimilisfangi og kennitölu eða sambærilegum upplýsingum. Prókúruhafar og aðrir þeir sem hafa sérstaka heimild til að koma fram fyrir hönd viðskiptavinar gagnvart fjármálafyrirtæki, þar með taldir framkvæmdastjórar og stjórnarmenn, skulu sanna á sér deili. Jafnframt skulu aðilar sýna fram á að þeir séu réttilega að prókúru eða sérstakri heimild komnir.
[Tilkynningarskyldur aðili skal ávallt afla fullnægjandi upplýsinga um raunverulegan eiganda skv. 4. tölul. 3. gr. og grípa til réttmætra ráðstafana til að staðfesta kennsl hans. Tilkynningarskyldur aðili skal meta með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um hinn raunverulega eiganda séu réttar og fullnægjandi og hann skilji eignarhald og stjórnskipulag þeirra viðskiptavina sem eru lögaðilar. Í tilvikum þar sem ekki er ljóst af framlögðum gögnum hver endanlegur móttakandi fjár verður skal krefjast frekari upplýsinga um það atriði. Í tilvikum þar sem ekki er ljóst af framlögðum gögnum hver raunverulegur eigandi er skal tilkynningarskyldur aðili krefjast frekari upplýsinga. Ef ekki er mögulegt að finna raunverulegan eiganda, t.d. vegna svo dreifðs eignarhalds að engir einstaklingar eiga eða stýra viðskiptamanni í skilningi laga þessara, skal tilkynningarskyldur aðili grípa til réttmætra ráðstafana til að afla fullnægjandi upplýsinga um einstaklinga sem í raun stjórna starfsemi viðskiptamanns.] 3)] 1)
Afla skal upplýsinga um tilganginn með fyrirhuguðum viðskiptum hjá verðandi viðskiptamanni.
[Tilkynningarskyldur aðili skal gera kröfu um að viðskiptamaður sem þegar er í viðskiptum sanni á sér deili skv. 1. mgr. [og afli upplýsinga um raunverulegan eiganda skv. 2. mgr.], 4) hafi hann ekki þegar gert það.] 1)
Hafi einstaklingur eða starfsmaður tilkynningarskylds aðila vitneskju um eða ástæðu til að ætla að tiltekin viðskipti fari fram í þágu þriðja manns skal viðskiptamaður í samræmi við a- og b-lið 1. mgr. krafinn upplýsinga um hver sá þriðji maður er.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu [varðveita afrit] 1) af persónuskilríkjum og öðrum gögnum sem krafist er, eða fullnægjandi upplýsingar úr þeim, í a.m.k. fimm ár frá því að [viðskiptasambandi lýkur eða einstök viðskipti hafa átt sér stað]. 1)
1)L. 77/2008, 4. gr. 2)L. 41/2012, 3. gr. 3)L. 6/2016, 4. gr. 4)L. 116/2009, 3. gr.
6. gr. Reglubundið eftirlit tilkynningarskyldra aðila.
[Tilkynningarskyldir aðilar skulu hafa reglubundið eftirlit með samningssambandinu við viðskiptamenn sína. Þeir skulu afla fullnægjandi upplýsinga og grípa til réttmætra ráðstafana til að staðreyna þær til að tryggja að viðskipti þeirra séu í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar, t.d. með athugun á viðskiptum sem eiga sér stað á meðan á samningssambandinu stendur.] 1) Upplýsingar um viðskiptamenn skulu uppfærðar og frekari upplýsinga aflað í samræmi við lög þessi eftir því sem þörf krefur.
1)L. 6/2016, 5. gr.
7. gr. Áhættumat.
Tilkynningarskyldum aðilum er heimilt að beita ákvæðum 5. og 6. gr. og ákvæðum III. og IV. kafla á grundvelli áhættumats þar sem umfang upplýsingaöflunar og annarra ráðstafana samkvæmt lögum þessum gagnvart hverjum viðskiptamanni byggist á mati á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Nýti þeir sér slíka heimild er þeim skylt að setja sér reglur um framkvæmd þess og ber aðilum sem tilgreindir eru í a–d-lið 1. mgr. 2. gr. að fá reglurnar samþykktar af Fjármálaeftirlitinu og aðilum sem tilgreindir eru í e–l-lið 1. mgr. 2. gr. að fá reglurnar samþykktar af lögreglu.
[Auk þeirra tilvika sem nefnd eru í III. kafla, um auknar kröfur til könnunar á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamann, er tilkynningarskyldum aðila ávallt skylt að gera auknar kröfur til könnunar á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamann þegar aðstæður eru í eðli sínu þannig að aukin hætta er, samkvæmt áhættumati, á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka. Skal þá, við stofnun samningssambands eða áður en millifærsla er framkvæmd, aflað viðbótargagna um viðskiptamann og þess krafist að fyrsta færsla verði framkvæmd í nafni viðkomandi viðskiptamanns og af reikningi er hann hefur sjálfur stofnað til í starfandi fjármálafyrirtæki.] 1)
1)L. 116/2009, 4. gr.
8. gr. [Tímabundin frestun á að sannreyna áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn.]1)
Nýr viðskiptamaður skal sanna á sér deili í samræmi við 5. gr. áður en samningssambandi er komið á. Til að trufla ekki eðlilegan framgang viðskipta má þó fresta því þar til samningssamband hefur stofnast í þeim tilvikum þar sem lítil hætta er talin á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka. Viðskiptamaður skal í slíkum tilvikum sanna á sér deili eins fljótt og því verður komið við.
Heimilt er að opna bankareikning fyrir viðskiptamann þrátt fyrir að skilyrðum 1. mgr. sé ekki fullnægt að því tilskildu að tryggt sé að færslur á hann verði ekki framkvæmdar fyrr en hann hefur sannað á sér deili skv. 5. gr.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt þegar um viðskipti með líftryggingar er að ræða að rétthafi samkvæmt líftryggingarsamningnum sanni á sér deili þegar samningssambandi við viðskiptamann hefur verið komið á. Í slíkum tilvikum skal rétthafi sanna deili á sér eigi síðar en þegar líftrygging er greidd út eða áður en rétthafi hyggst nýta sér rétt þann sem felst í tryggingunni.
1)L. 77/2008, 5. gr.
9. gr. Skilyrði könnunar á áreiðanleika upplýsinga ekki uppfyllt.
Hafi ekki reynst mögulegt að fullnægja skilyrðum 1. og 2. mgr. 5. gr. er óheimilt að framkvæma viðskipti eða stofna til samningssambands við viðkomandi. [Hafi þegar verið stofnað til viðskiptasambands skal þá þegar binda enda á það.] 1) Skal jafnframt metið hvort ástæða sé til að senda lögreglu tilkynningu skv. 17. gr.
1. mgr. gildir ekki um störf lögmanna við athugun þeirra á lagalegri stöðu umbjóðenda sinna eða þegar þeir koma fram fyrir hönd þeirra í dómsmáli eða í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar þeir veita ráðgjöf um hvort höfða eigi dómsmál eða komast hjá dómsmáli.
1)L. 77/2008, 6. gr.
III. kafli. Auknar kröfur til könnunar á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamann.
10. gr. Fjarsala.
Við upphaf viðskipta með fjarsölu, stofnun samninga með notkun fjarskiptaaðferða eða á annan sambærilegan hátt þar sem viðskiptamaðurinn er ekki á staðnum til að sanna á sér deili ber að afla viðbótargagna um viðskiptamann … 1) svo og krefjast þess að fyrsta greiðsla skuli gerð í nafni viðskiptamanns og af reikningi sem hann hefur stofnað í starfandi fjármálafyrirtæki.
Í reglum sem tilkynningarskyldum aðilum er skylt að setja um innra eftirlit fyrir starfsemina, sbr. 1. mgr. 23. gr., skal þegar það á við kveða nánar á um viðskipti með notkun fjarskiptaaðferða og varðveislu gagna um slík viðskipti.
1)L. 77/2008, 7. gr.
11. gr. Millibankaviðskipti.
Í millibankaviðskiptum yfir landamæri, við aðila frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, skulu fjármálafyrirtæki sem lög þessi gilda um uppfylla eftirtalin skilyrði:
a. afla upplýsinga um starfsemi gagnaðilans og meta út frá opinberum gögnum orðstír viðkomandi og [staðreyna] 1) gæði eftirlits hjá honum,
b. leggja mat á eftirlit gagnaðilans [og fullvissa sig] 1) með því að ekki fari fram peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,
c. afla samþykkis frá yfirstjórn áður en millibankaviðskiptum er komið á,
d. skrásetja skyldur hvors aðila fyrir sig samkvæmt lögum þessum, og
e. fá staðfest, þegar um greiðslustreymisreikninga er að ræða, að gagnaðilinn [hafi fullnægt skilyrðum 1. og 2. mgr. 5. gr. um áreiðanleikakönnun] 1) og meti reglulega upplýsingar um viðskiptamenn sem hafa beinan aðgang að reikningum hjá fjármálafyrirtæki sem lög þessi gilda um, og geti veitt viðeigandi upplýsingar um viðskiptamann sé þess óskað.
1)L. 77/2008, 8. gr.
12. gr. [Einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.]1)
Ef samningssamband eða viðskipti eru við einstaklinga sem teljast vera í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla sinna og eru búsettir í öðru landi skulu tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum fullnægja eftirtöldum skilyrðum, auk skilyrða II. kafla:
a. meta hvort viðskiptamaður telst vera í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla sinna, en til þess hóps teljast þeir sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu og nánasta fjölskylda þeirra eða einstaklingar sem vitað er að eru nánir samstarfsmenn þeirra,
b. afla samþykkis frá yfirstjórn áður en stofnað er til viðskipta við þá,
c. grípa til viðeigandi ráðstafana til að sannreyna uppruna fjármuna sem notaðir eru í samningssambandinu eða viðskiptunum,
d. hafa reglubundið aukið eftirlit með samningssambandinu.
[Breytist staða viðskiptamanns eftir að samningssambandi hefur verið komið á þannig að hann teljist einstaklingur í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla sinna á 1. mgr. jafnframt við. Skal þá þegar afla samþykkis frá yfirstjórn, sbr. b-lið 1. mgr., áður en viðskiptasambandi er haldið áfram.] 1)
1)L. 77/2008, 9. gr.
13. gr. Millibankaviðskipti við lánastofnun án raunverulegrar starfsemi.
Lánastofnunum sem lög þessi gilda um er óheimilt að stofna til eða halda áfram millibankaviðskiptum við lánastofnun eða annan aðila með sambærilega starfsemi sem stofnaður er innan lögsögu þar sem hann hefur enga raunverulega starfsemi eða stjórn og er ótengdur eftirlitsskyldri fjármálasamstæðu. Þeim er jafnframt óheimilt að eiga í millibankaviðskiptum við banka sem heimilar slíkri lánastofnun að nota reikninga sína.
14. gr. Nafnleynd í viðskiptum.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu sýna sérstaka varúð þegar um er að ræða [nýja tækni], 1) vöru eða viðskipti þar sem hvatt er til nafnleyndar og skulu … 1) gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að slík viðskipti séu notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka.
1)L. 77/2008, 10. gr.
IV. kafli. [Einfölduð könnun á áreiðanleika viðskiptamanna.]1)
1)L. 77/2008, 14. gr.
15. gr. [Viðskiptamenn sem lúta einfaldaðri könnun á áreiðanleika.
Þegar tilkynningarskyldur aðili hefur aflað fullnægjandi upplýsinga um að viðskiptamaður falli undir eftirfarandi er heimilt að beita einfaldaðri áreiðanleikakönnun:
a. [Lögaðilar sem falla undir a-lið 1. mgr. 2. gr., líftryggingafélög og samsvarandi lögaðilar sem hlotið hafa starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu [og gerðar eru sambærilegar kröfur til og í lögum þessum]. 1)] 2) Sama gildir um eftirlitsskyld fjármálafyrirtæki frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem til eru gerðar kröfur sambærilegar við kröfur laga þessara.
b. Félög sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir.
c. Íslensk stjórnvöld.
Við einfaldaða áreiðanleikakönnun gilda ekki ákvæði 5. og 6. gr. Ávallt skal þó skrá nafn einstaklings eða lögaðila, kennitölu og heimilisfang.] 3)
1)L. 41/2012, 4. gr. 2)L. 116/2009, 5. gr. 3)L. 77/2008, 11. gr.
[15. gr. a. Tilvik þar sem beita má einfaldaðri könnun á áreiðanleika viðskiptamanna.
Í eftirfarandi tilvikum er heimilt að beita einfaldaðri könnun á áreiðanleika viðskiptamanna, sbr. 2. mgr. 15. gr.:
1. Þegar staðfest er að greiðsla fyrir viðskipti verði færð til skuldar á viðskiptareikningi á nafni viðskiptamanns í starfandi fjármálafyrirtæki eða samsvarandi lögaðila sem hlotið hefur starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu, nema grunur leiki á að viðskiptin tengist peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.
2. Við gerð líftryggingarsamnings hjá fjármálastofnun, sem hlotið hefur starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu, ef árlegt iðgjald viðskiptamanns frá Evrópska efnahagssvæðinu er lægra en 1.000 evrur, miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, eða ef um er að ræða eingreiðslu iðgjalds sem er lægri en 2.500 evrur, miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni. Ef árlegt iðgjald er hækkað, þannig að það verði hærra en 1.000 evrur, miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, skal krefjast framvísunar skilríkja, sbr. 5. gr.
[3. Við útgáfu rafeyris, í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris, þegar fjárhæð rafeyris sem geymd er á greiðslumiðli fer ekki yfir 250 evrur þegar um er að ræða greiðslumiðil sem ekki er hægt að endurhlaða, eða fjárhæð rafeyris sem geymd er á greiðslumiðli fer ekki yfir 500 evrur þegar um er að ræða greiðslumiðil sem ekki er hægt að endurhlaða og einungis er notaður í greiðslur innan sama lands, eða heildarfjárhæð rafeyris sem geymd er á greiðslumiðli fer ekki yfir 2.500 evrur á almanaksárinu þegar um er að ræða endurhlaðanlegan greiðslumiðil, nema þegar handhafi innleysir rafeyri að hærri fjárhæð en 1.000 evrur innan sama almanaksárs.] 1)] 2)
1)L. 17/2013, 47. gr. 2)L. 77/2008, 12. gr.
16. gr. Upplýsingar frá þriðja aðila.
Tilkynningarskyldur aðili þarf ekki [áður en viðskipti hefjast] 1) að kanna áreiðanleika viðskiptamanns skv. 1.–3. mgr. 5. gr. ef samsvarandi upplýsingar um áreiðanleika hans koma fram fyrir tilstilli fjármálafyrirtækis sem hlotið hefur starfsleyfi á Íslandi, [greiðslustofnunar], 2) [rafeyrisfyrirtækis] 3) eða samsvarandi lögaðila sem hlotið hefur starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu. Sama gildir um upplýsingar sem koma fram fyrir tilstilli eftirlitsskyldrar lána- eða fjármálastofnunar frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem gerðar eru sambærilegar kröfur til og í lögum þessum. Endanleg ábyrgð á könnun á áreiðanleika viðskiptamanns skv. 1.–3. mgr. 5. gr. hvílir á viðtakanda upplýsinganna. [Áður en upplýsingar eru fengnar skal tilkynningarskyldur aðili leitast við að tryggja að þriðji aðili fullnægi kröfum sambærilegum við þær sem gerðar eru í lögum þessum og lúti eftirliti sambærilegu við eftirlit með íslenskum fjármálafyrirtækjum.] 1)
Þriðji aðili sem veitir upplýsingar skv. 1. mgr. skal, ef viðtakandi upplýsinganna óskar eftir því, án tafar gera upplýsingarnar aðgengilegar eða áframsenda afrit af viðeigandi persónuupplýsingum og öðrum viðeigandi gögnum sem sanna hver viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi er. [Tilkynningarskyldur aðili skal tryggja að þriðji aðili uppfylli þessa skyldu sína og gera um það skriflegan samning þar sem kveðið er nánar á um framkvæmd upplýsingagjafarinnar.] 1)
1)L. 77/2008, 13. gr. 2)L. 41/2012, 5. gr. 3)L. 17/2013, 47. gr.
V. kafli. Tilkynningarskylda og aðrar skyldur aðila.
17. gr. Almenn tilkynningarskylda.
Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að láta athuga gaumgæfilega öll viðskipti [og fyrirhuguð viðskipti] 1) sem grunur leikur á að rekja megi til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka og tilkynna lögreglu um viðskipti þar sem slík tengsl eru talin vera fyrir hendi. Gildir þetta einkum um viðskipti sem eru óvenjuleg, mikil eða flókin, með hliðsjón af venjubundinni starfsemi viðskiptamannsins eða virðast ekki hafa fjárhagslegan eða lögmætan tilgang. [Kanna skal bakgrunn og tilgang slíkra viðskipta að því marki sem unnt er.] 1)
[Samkvæmt skriflegri beiðni lögreglu, sem tekur á móti tilkynningum um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka og greinir þær, skulu tilkynningarskyldir aðilar láta í té allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru taldar vegna greiningarinnar.] 2)
1. mgr. gildir ekki um upplýsingar sem lögmenn öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings, þ.m.t. þegar þeir veita ráðgjöf um hvort höfða eigi dómsmál eða komast hjá dómsmáli, eða upplýsingar sem þeir öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við dómsmálið. Sama gildir um upplýsingar sem aðilar skv. [g-lið 1. mgr. 2. gr. og þeir sem nefndir eru í k-lið sömu málsgreinar þegar þeir veita þjónustu skv. f-lið 6. tölul. 3. gr.] 3) öðlast þegar þeir veita lögmanni sérfræðiráðgjöf fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls.
1)L. 77/2008, 15. gr. 2)L. 6/2016, 6. gr. 3)L. 116/2009, 6. gr.
18. gr. Skylda til að forðast viðskipti.
Forðast skal viðskipti þegar fyrir hendi er vitneskja eða grunur um að rekja megi þau til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka. Skal tilkynna um þau til lögreglu og taka fram í tilkynningunni innan hvaða frests tilkynningarskyldum aðilum er skylt að framkvæma viðskiptin. Ef ekki er unnt að koma í veg fyrir viðskiptin eða stöðvun þeirra gæti hindrað lögsókn á hendur þeim sem hafa hagnað af viðskiptunum skal lögreglu tilkynnt um viðskiptin um leið og þau hafa farið fram.
19. gr. Meðferð tilkynninga o.fl.
Lögreglu ber að staðfesta skriflega móttöku tilkynningar skv. 17. og 18. gr. Lögreglu er heimilt ef brýn nauðsyn krefur að óska eftir því að viðskipti sem tilkynnt hefur verið um skv. 17. og 18. gr. verði ekki framkvæmd fyrr en að loknum þeim fresti sem tilgreindur er í tilkynningunni. Lögregla skal tafarlaust gera tilkynnanda viðvart telji hún ekki þörf á hindrun viðskipta.
Nánar skal mælt fyrir um móttöku tilkynninga, greiningu og miðlun upplýsinga um hugsanlegt peningaþvætti í reglugerð 1) sem [ráðherra er fer með málefni lögreglu og löggæslu] 2) setur.
1)Rg. 175/2016. 2)L. 126/2011, 431. gr.
20. gr. Bann við upplýsingagjöf.
Tilkynningarskyldum aðilum og stjórnendum, starfsmönnum og öðrum sem vinna í þágu þeirra er skylt að sjá til þess að viðskiptamaður eða annar utanaðkomandi aðili fái ekki vitneskju um að lögreglu hafi verið sendar upplýsingar skv. 17. og 18. gr. um að rannsókn sé hafin vegna gruns um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka eða að slíkri rannsókn kunni að verða hrundið af stað.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er miðlun framangreindra upplýsinga heimil til eftirtalinna aðila:
a. til Fjármálaeftirlitsins,
b. innan samstæðu eins og hún er skilgreind í lögum um ársreikninga,
c. milli aðila sem nefndir eru í f- og g-lið 1. mgr. 2. gr. og sinna starfi sínu hjá sama lögaðila eða sama neti fyrirtækja,
d. milli aðila sem nefndir eru í a–g-lið 1. mgr. 2. gr. að því tilskildu að öllum eftirtöldum skilyrðum sé fullnægt:
1. að báðir aðilar tilheyri sömu starfsgrein,
2. að málið varði einstakling eða lögaðila sem er viðskiptavinur hjá báðum aðilum,
3. að upplýsingarnar varði viðskipti sem snerta báða aðila,
4. að báðir aðilar hafi sambærilegar skyldur hvað varðar þagnarskyldu og vernd persónuupplýsinga, og
5. að upplýsingarnar séu eingöngu notaðar í þeim tilgangi að hindra peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Eingöngu er heimilt að miðla upplýsingum skv. 2. mgr. til einstaklings eða lögaðila með heimili í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins ef einstaklingurinn eða lögaðilinn er bundinn af sambærilegum reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og lög þessi mæla fyrir um.
Aðilar nefndir í f- og g-lið 1. mgr. 2. gr. sem ráða viðskiptavinum sínum frá því að taka þátt í ólöglegu athæfi teljast ekki hafa brotið 1. mgr. um bann við upplýsingagjöf.
21. gr. Undantekning frá þagnarskyldu.
Þegar tilkynningarskyldur aðili veitir lögreglu upplýsingar í góðri trú samkvæmt lögum þessum telst það ekki brot á þagnarskyldu sem hann er bundinn lögum samkvæmt eða með öðrum hætti. Slík upplýsingagjöf leggur hvorki refsi- né skaðabótaábyrgð á herðar hlutaðeigandi einstaklingum, lögaðilum eða starfsmönnum þeirra.
22. gr. Tilnefning ábyrgðarmanns.
Tilkynningarskyldir aðilar bera ábyrgð á því að ákvæðum laga þessara og reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim sé framfylgt. Þeim er skylt að tilnefna einn úr hópi stjórnenda sem sérstakan ábyrgðarmann sem að jafnaði annast tilkynningar í samræmi við ákvæði 17. og 18. gr. og [hefur skilyrðislausan aðgang að áreiðanleikakönnun viðskiptamanna, viðskiptum eða beiðnum um viðskipti ásamt öllum þeim gögnum er skipt geta máli vegna tilkynningar]. 1) Lögreglu skal tilkynnt um tilnefningu ábyrgðarmanns. [Ábyrgðarmaður skal sjá til þess að mótaðar séu samræmdar starfsaðferðir er stuðli að góðri framkvæmd laganna.] 1)
1)L. 77/2008, 16. gr.
23. gr. Innra eftirlit o.fl.
Tilkynningarskyldum aðilum ber skylda til þess að setja sér skriflegar innri reglur og hafa innra eftirlit sem miðar að því að koma í veg fyrir að starfsemi þeirra sé notuð til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka. [Þar skal m.a. fjallað um áreiðanleikakönnun viðskiptamanna, tilkynningarskyldu, varðveislu gagna og viðskipti sem krefjast sérstakrar varúðar.] 1)
[Tilkynningarskyldir aðilar skulu sjá til þess að starfsmenn hljóti sérstaka þjálfun í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þjálfunin skal fara fram við upphaf starfs og reglulega á starfstímanum, til að tryggja að starfsmenn þekki skyldur tilkynningarskyldra aðila samkvæmt lögum þessum, áreiðanleikakönnun viðskiptamanna og tilkynningarskyldu ásamt því sem þeir fái upplýsingar um þróun innan málaflokksins og nýjustu aðferðir við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.] 1) [Stundi einstaklingur sérfræðistörf, sem launamaður, hjá tilkynningarskyldum aðila skulu skyldur þær sem greinin kveður á um eiga við um hinn tilkynningarskylda aðila en ekki um viðkomandi launamann.] 2)
Tilkynningarskyldum aðilum ber skylda til þess að gera skriflegar skýrslur um allar grunsamlegar og óvenjulegar færslur sem verða við framkvæmd viðskipta í starfsemi þeirra. Um varðveislu slíkra gagna fer samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 5. gr.
Lögaðilar sem nefndir eru í 1. mgr. 2. gr. skulu búa yfir kerfi sem gerir þeim kleift að bregðast skjótt við fyrirspurnum frá lögreglu eða öðrum lögbærum yfirvöldum. Um varðveislu slíkra gagna, þ.m.t. upplýsinga um einstök viðskipti viðskiptamanna, fer samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 5. gr.
Lögaðilum sem nefndir eru í 1. mgr. 2. gr. ber við ráðningu starfsfólks að setja sérstakar reglur um hvaða athuganir skuli gerðar á ferli umsækjenda um stöður hjá fyrirtækjunum og í hvaða tilvikum skuli krafist sakavottorðs eða annarra sambærilegra skilríkja um feril og fyrri störf.
1)L. 77/2008, 17. gr. 2)L. 116/2009, 7. gr.
24. gr. Útibú og dótturfélög í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
Aðilar sem tilgreindir eru í a–c-lið 1. mgr. 2. gr. skulu tryggja að útibú þeirra og dótturfélög í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins kanni áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn sína með sambærilegum hætti og mælt er fyrir um í lögum þessum eða eins sambærilegum hætti og lög viðkomandi ríkis heimila.
Ef löggjöf ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem útibú eða dótturfélag er staðsett heimilar ekki sambærilega könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn og mælt er fyrir um í lögum þessum skal viðkomandi aðili senda Fjármálaeftirlitinu tilkynningu um það. Jafnframt skal viðkomandi aðili tryggja að hlutaðeigandi útibú eða dótturfélag bregðist við hættunni á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka eftir öðrum leiðum. [Séu lög og reglur sem beinast gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka strangari í hinu erlenda ríki, þar sem útibú eða dótturfélag er staðsett, skal þeim fylgt.] 1)
[Aðilar sem tilgreindir eru í a–c-lið 1. mgr. 2. gr. skulu sjá til þess að útibú þeirra og dótturfélög í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins setji sér skriflegar innri reglur sambærilegar þeim sem krafist er í 1. mgr. 23. gr.] 2)
1)L. 77/2008, 18. gr. 2)L. 116/2009, 8. gr.
VI. kafli. [Eftirlit, skráningarskylda o.fl.]1)
1)L. 77/2008, 21. gr.
25. gr. [Fjármálaeftirlitið og Neytendastofa.]1)
Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að aðilar sem tilgreindir eru í [a–e- [og m–p-lið] 2) 1. mgr. 2. gr.] 3) fari að ákvæðum laga þessara og reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim. Um eftirlitið fer samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og þeim sérlögum sem um starfsemi eftirlitsskyldra aðila gilda.
Fjármálaeftirlitinu er heimilt að beita eftirlitsúrræðum sem kveðið er á um í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi við eftirlit samkvæmt lögum þessum.
[Neytendastofa hefur eftirlit með því að þeir sem falla undir j-lið 1. mgr. 2. gr. fari að ákvæðum laga þessara, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim og setur nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins.] 1)
1)L. 77/2008, 19. gr. 2)L. 91/2018, 3. gr. 3)L. 41/2012, 6. gr.
[25. gr. a. [Skráningarskylda.]1)
Einstaklingar og lögaðilar sem starfrækja gjaldeyrisskiptastöð eða peninga- og verðmætasendingarþjónustu [og þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla og þjónustuveitendur stafrænna veskja] 1) eru skráningarskyldir hjá Fjármálaeftirlitinu.
Undanþegin skráningarskyldu eru fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki, sbr. a-lið 1. mgr. 2. gr.
Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur 2) um framkvæmd og skilyrði skráningar og framkvæmd viðskipta.] 3)
1)L. 91/2018, 4. gr. 2) Rgl. 670/2018. 3)L. 77/2008, 20. gr.
[25. gr. b.
Fjármálaeftirlitið skal neita um skráningu skv. 25. gr. a ef skráningarskyldir aðilar eða stjórnendur eða raunverulegir eigendur starfseminnar hafa á síðustu fimm árum verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum þessum, löggjöf um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot, opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
Fjármálaeftirlitið skal fella skráðan aðila af skrá skv. 25. gr. a ef um skráningarskylda aðila eða stjórnendur eða raunverulega eigendur starfseminnar háttar svo sem um getur í 1. mgr.] 1)
1)L. 77/2008, 20. gr.
26. gr. Tilkynningar eftirlitsaðila.
Fái Fjármálaeftirlitið, önnur stjórnvöld eða aðrir fagaðilar sem hafa eftirlit með starfsemi tilkynningarskyldra aðila í störfum sínum vitneskju um viðskipti sem tengjast peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka eða upplýsingar um viðskipti sem grunur leikur á að tengist peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal það tilkynnt til lögreglu.
Fjármálaeftirlitið gefur út tilkynningar og leiðbeiningar ef þörf er á sérstakri varúð í viðskiptum við ríki eða ríkjasvæði sem ekki fylgja alþjóðlegum tilmælum og reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti. Tilkynningarskyldum aðilum ber jafnframt að gefa sérstakan gaum að ríkjum eða ríkjasvæðum sem ekki fylgja alþjóðlegum tilmælum og reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti.
VII. kafli. Viðurlög.
27. gr. Viðurlög.
Vanræki tilkynningarskyldur aðili af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi að kanna áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn sína skv. II. og III. kafla, tilkynningarskyldu eða aðrar skyldur skv. V. kafla eða vanræki hann að veita upplýsingar eða láta í té aðstoð, skýrslur eða gögn svo sem kveðið er á um í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim skal hann sæta sektum.
[Vanræki aðili skráningarskyldu skv. 25. gr. a, haldi hann starfsemi sinni áfram þrátt fyrir að hafa verið felldur út af skrá Fjármálaeftirlitsins eða vanræki hann að veita upplýsingar eða láta í té aðstoð svo sem kveðið er á um í lögum þessum skal hann sæta sektum.] 1)
Þegar brot á lögum þessum er framið í starfsemi lögaðila, og í þágu hans, má gera lögaðilanum sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðila. Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má einnig gera lögaðilanum sekt ef brotið var í þágu hans.
1)L. 77/2008, 22. gr.
VIII. kafli. Ýmis ákvæði.
28. gr. Reglugerðarheimild.
[Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð 1) nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal:
1. um framkvæmd könnunar á áreiðanleika viðskiptamanna skv. II. kafla,
2. um auknar kröfur til könnunar á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamann skv. III. kafla,
3. um einfaldaða könnun á áreiðanleika viðskiptamanna skv. IV. kafla,
4. um framkvæmd tilkynningarskyldu og aðrar skyldur aðila skv. V. kafla,
5. hvaða upplýsingar um sendanda skulu fylgja millifærslum,
6. sérstakar reglur um tilkynningar á millifærslum til eða í þágu einstaklinga eða lögaðila sem hafa tengsl við ríki eða ríkjasvæði sem ekki er með viðunandi reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,
7. sérstakar reglur um bann eða takmarkanir á heimildum tilkynningarskyldra aðila til að stofna til samningssambands eða framkvæma millifærslur til einstaklinga eða lögaðila sem hafa tengsl við ríki eða ríkjasvæði sem ekki er með viðunandi reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,
8. sérstakar reglur um bann við því að tilkynningarskyldir aðilar miðli upplýsingum til einstaklinga eða lögaðila sem hafa tengsl við ríki eða ríkjasvæði sem ekki hafa sambærilegar reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og lög þessi mæla fyrir um.] 2)
1)Rg. 811/2008. Rg. 386/2009. 2)L. 6/2016, 8. gr.
29. gr. Innleiðing.
Með lögum þessum eru tekin upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/60/EB, um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis og til fjármögnunar hryðjuverka, [og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB, um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, um breytingu á tilskipunum 97/7/EB, 2002/65/EB, 2005/60/EB og 2006/48/EB og niðurfellingu tilskipunar 97/5/EB]. 1)
1)L. 41/2012, 7. gr.
30. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 12. gr. öðlast gildi 1. janúar 2007. …
[Ákvæði til bráðabirgða.
Þjónustuveitendur sem við gildistöku þessa ákvæðis bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla og þjónustuveitendur stafrænna veskja skulu óska eftir skráningu hjá Fjármálaeftirlitinu samkvæmt lögum þessum eigi síðar en einum mánuði frá gildistöku þessa ákvæðis. Fjármálaeftirlitið skal taka afstöðu til skráningarinnar innan 30 daga eftir að umsókn berst.] 1)
1)L. 91/2018, 5. gr.