Ferill 497. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 854  —  497. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um nefndir og starfs- og stýrihópa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða nefndir og starfs- og stýrihópar á málefnasviði ráðherra hafa verið sett á fót á yfirstandandi kjörtímabili og hver eru hlutverk þeirra?

    Eftirfarandi nefndir, starfs- og stýrihópar á málefnasviði forsætisráðherra hafa verið sett á fót á yfirstandandi kjörtímabili:

     1.      Sérfræðinefnd um breytingar á kynskráningu barna.
    Hlutverk nefndarinnar er að fjalla um ósk barns um breytingu á skráðu kyni sínu ef það nýtur ekki stuðnings forsjáraðila sinna, annars eða beggja, til að breyta opinberri skráningu kyns síns, sbr. 1. og 2. mgr. 9. gr. laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019.
     2.      Starfshópur um málefni barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni.
    Hlutverk starfshópsins er að fjalla um málefni barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni, þar á meðal um heilbrigðisþjónustu við þau, og gera tillögur um úrbætur. Jafnframt skal hópurinn semja frumvarp til laga um breytingar á lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, sem feli í sér að bætt verði við lögin ákvæði sem fjalli um breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni, sbr. bráðabirgðaákvæði I í lögum nr. 80/2019.
     3.      Starfshópur um mögulegar lagabreytingar skv. ákvæði til bráðabirgða II í lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019.
    Hlutverk starfshópsins er að fjalla um og gera tillögur um breytingar á lögum sem nauðsynlegar eru til að tryggja réttindi trans fólks og intersex fólks, þar á meðal barnalögum, nr. 76/2003, og lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996, svo og reglum um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna aðgerða sem tengjast kynleiðréttingu. Enn fremur er starfshópnum, m.a. í samvinnu við Barnaverndarstofu, umboðsmann barna og hagsmunasamtök hinsegin fólks, ætlað að endurskoða aldursviðmið til lækkunar vegna réttar til að breyta skráningu kyns.
     4.      Nefnd um endurskoðun laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.
    Hlutverk nefndarinnar var að endurskoða lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006, með það að leiðarljósi að tryggja betur fjármögnun og sjálfstæði stjórnmálasamtaka, efla lýðræðisleg vinnubrögð og gagnsæi í störfum þeirra og finna frekari leiðir til að takast á við nafnlausan áróður og auglýsingar. Nefndin hefur lokið starfi sínu.
     5.      Nefnd um samningu heildarlaga um starfsemi stjórnmálasamtaka.
    Verkefni nefndarinnar er að leggja drög að frumvarpi til heildarlaga um starfsemi stjórnmálasamtaka.
     6.      Nefnd um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga.
    Verkefni nefndarinnar var að skoða aðferðafræði um launatölfræði á Íslandi, alþjóðlega launatölfræði og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, þarfir vinnumarkaðarins á þessu sviði og hugmyndir um stofnun launatölfræðinefndar að erlendri fyrirmynd. Nefndin hefur lokið starfi sínu.
     7.      Stýrihópur um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi.
    Meginhlutverk hópsins er að beita sér fyrir framsæknum og samhæfðum aðgerðum stjórnvalda gegn kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri og kynbundinni áreitni og að Ísland sé í fremstu röð í baráttunni gegn hvers kyns kynbundnu ofbeldi. Stýrihópurinn mun fylgja eftir nýrri aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins, með hliðsjón af sáttmála ríkisstjórnarinnar, og undirbúa gerð áætlunar í samstarfi við sveitarfélögin um að útrýma kynbundnu ofbeldi, ekki síst stafrænu kynferðisofbeldi. Jafnframt er stýrihópnum ætlað að fylgja því eftir að Istanbúl-samningurinn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi verði fullgiltur. Þá er hópnum ætlað að hafa yfirlit yfir og samræma vinnu hópa sem skipaðir hafa verið á mismunandi sviðum innan stjórnsýslunnar í tilefni af „metoo“-umræðunni svonefndu. Stýrihópnum er ætlað, m.a. í samráði við kjara- og mannauðssýslu ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga, að tryggja skilvirka og heildstæða framkvæmd innan stjórnsýslunnar og að innleiðing úrbótaáætlana sé svo samræmd sem kostur er og taki til allra starfssviða stjórnsýslunnar hér á landi.
     8.      Nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis.
    Nefndin hefur lokið starfi sínu en hlutverk hennar var fjórþætt:
                  a.      Að fara yfir fyrirliggjandi lagafrumvörp sem stýrihópur, í kjölfar þingsályktunar nr. 23/138, um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, skilaði af sér eða hlutaðist til um að yrðu samin, leggja mat á þau með tilliti til stjórnarskrár og alþjóðlegra skuldbindinga og hvort samþykkt þeirra, með eða án breytinga, teldist til bóta miðað við núverandi lög og réttarframkvæmd. Þessi frumvörp varða ærumeiðingar, hatursáróður, gagnageymd, ábyrgð hýsingaraðila og tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna.
                  b.      Að taka til skoðunar fyrirliggjandi tillögur er lutu að tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna og eftir atvikum skyldu þeirra til að greina frá lögbrotum eða brotum á siðareglum sem þeir verða áskynja um í starfi. Nefndin skyldi leggja mat á það hvort fjallað yrði um frumvarp sem Páll Hreinsson dómari samdi um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu samhliða þessum þætti starfsins, sbr. a-lið. Gæta bar að samráði við aðra hópa innan stjórnkerfisins sem vinna að tengdum málum, þ.e. einkum starfshóp forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu og starfshóp dómsmálaráðherra um að fylgja eftir innleiðingu á alþjóðasamningum gegn mútum og spillingu.
                  c.      Að fara yfir gildandi upplýsingalög í ljósi þróunar á alþjóðavettvangi og framkvæmdar laganna og meta hvort þörf væri á lagabreytingum. Í því sambandi að kanna hvort fullgilding samnings Evrópuráðsins um aðgang að opinberum gögnum kalli á lagabreytingar hér á landi. Þá skyldi lagt mat á erindi sem forsætisráðuneytinu hafa borist á undanförnum árum varðandi endurskoðun laganna og önnur atriði sem sérstaklega hefur reynt á í framkvæmd. Má nefna frumkvæðisbirtingu stjórnvalda, undanþágur vegna gagna er lúta að málshöfðun gegn opinberum aðilum, gögn er varða útboð eða val á viðsemjendum í ljósi samkeppnisréttar og fyrirkomulag varðandi undanþágur frá gildissviði laganna.
                  d.      Að meta hverjar aðrar lagabreytingar kynnu að vera æskilegar á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Undir þennan lið féllu til dæmis heimildir til að beita fyrirfarandi tálmunum við tjáningu, svo sem í formi lögbanns.
     9.      Starfshópur um kjararáð.
    Hlutverk hópsins var að bera saman fyrirkomulag um ákvörðun launa hjá kjörnum fulltrúum, dómurum og embættismönnum í nágrannalöndum og leggja fram tillögur að breyttu fyrirkomulag launaákvarðana kjararáðs, ef annað fyrirkomulag væri talið líklegra til betri sáttar í þjóðfélaginu til framtíðar um ákvörðun launa þeirra sem stöðu sinnar vegna njóta ekki samningsréttar. Þá skyldi starfshópurinn taka til skoðunar úrskurði kjararáðs, meta með hliðsjón af launasetningu og launabreytingum þeirra stétta sem samningsfrelsis njóta og þeirri launastefnu sem samið var um við meginþorra launafólks og eftir atvikum leggja fram tillögur um úrbætur. Starfshópurinn hefur lokið starfi sínu.
     10.      Starfshópur um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.
    Hópnum var falið að fjalla um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu og þar taka mið af starfi sem unnið hefur verið í tengslum við opinber heilindi hérlendis og erlendis, til dæmis fimmtu úttektarskýrslu GRECO sem fjallar meðal annars um vernd gegn spillingu meðal æðstu handhafa framkvæmdarvalds og starf stýrihóps dómsmálaráðuneytisins um innleiðingu á alþjóðasamningum gegn mútum og spillingu. Starfshópurinn hefur lokið starfi sínu.
     11.      Nefnd um þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði.
    Verkefni nefndarinnar var að koma með tillögu að mælikvörðum sem eru lýsandi fyrir hagsæld og lífsgæði á Íslandi. Nefndin hefur lokið starfi sínu.
     12.      Framtíðarnefnd forsætisráðherra.
    Hlutverk nefndarinnar er að fjalla um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga, áhrif tækniframfara og hina svokölluðu fjórðu iðnbyltingu. Nefndin fjallar jafnframt um þróun þeirra meginstrauma sem koma til með að hafa mótandi áhrif á samfélagið til framtíðar, einkum með hliðsjón af þróun umhverfismála og lýðfræðilegum þáttum, og skal stuðla að upplýstri umræðu um tækifæri og ógnanir framtíðarinnar og vera virkur umræðuvettvangur um framtíðarfræði.
     13.      Starfshópur til að undirbúa lagasetningu um heilindi í vísindarannsóknum.
    Verkefni hópsins var að semja frumvarp til laga um vandaða starfshætti í vísindum. Nefndin hefur lokið starfi sínu.
     14.      Nefnd til að leiða viðræður og sáttaumleitanir við fyrrum sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu og aðstandendur þeirra.
     Verkefni nefndarinnar var að koma fram fyrir hönd stjórnvalda í viðræðum og sáttaumleitunum við aðila málsins og aðstandendur þeirra og gera tillögu til forsætisráðherra og ríkisstjórnar um hugsanlega greiðslu miska- og skaðabóta eða eftir atvikum svonefndra sanngirnisbóta til aðila málsins og aðstandenda þeirra. Nefndin hefur lokið starfi sínu.
     15.      Nefnd um framtíðarstarfsemi á Hrafnseyri við Arnarfjörð.
    Nefndinni var falið það verkefni að gera tillögur um framtíðarstarfsemi á Hrafnseyri og fyrirkomulag hennar ásamt því að skoða mögulega samlegð eða tengingu þeirrar opinberu menningarstarfsemi sem tileinkuð er ævi og minningu Jóns Sigurðssonar. Nefndin hefur lokið starfi sínu.
     16.      Nefnd um endurskoðun laga og reglna um eignarhald á landi og fasteignum.
    Nefndinni var ætlað að fjalla um endurskoðun laga og reglna er varða eignarhald á landi og fasteignum. Í þeirri vinnu skyldi nefndin meta lögmæti mismunandi leiða til að setja almennar takmarkanir á stærð landareigna og/eða fjölda fasteigna sem einn og sami aðili, sem og tengdir aðilar, getur haft eignar- eða afnotarétt yfir. Jafnframt að skoða, m.a. á grundvelli landsskipulagsstefnu og eigendastefnu ríkisins í jarðamálum, mögulegar leiðir til að sporna gegn því að land í landbúnaðarafnotum sé tekið til annarra nota og tryggja, ef ekki teldist grundvöllur fyrir áframhaldandi landbúnaðarafnotum, að búseta á jörð haldist enda þótt landbúnaðarafnot leggist af í því skyni að sporna gegn íbúafækkun og viðhalda byggð á viðkomandi svæði. Nefndin hefur lokið starfi sínu.
     17.      Verkefnisstjórn um peningastefnu, þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirlit.
    Nefndin starfaði á vegum ráðherranefndar um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins. Verkefni hennar var að vinna drög að frumvarpi til laga um Seðlabanka Íslands auk annarra frumvarpa sem lytu m.a. að peningastefnunni, þó ekki meginmarkmiði hennar, núverandi verkefnum Seðlabankans og yfirstjórn, fyrirkomulagi þjóðhagsvarúðar, fjármálaeftirliti og varanlegu fyrirkomulagi fjárstreymistækis. Nefndin hefur lokið starfi sínu.
     18.      Átakshópur í húsnæðismálum.
    Átakshópur um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Hópurinn hefur lokið starfi sínu.
     19.      Nefnd um aðferðafræði við útreikning vísitölu neysluverðs.
    Verkefni nefndarinnar er að skoða aðferðafræði við útreikning vísitölu neysluverðs út frá alþjóðlegum samanburði og leita álits erlendra sérfræðinga. Meðal annars verði aðferðafræði við húsnæðislið vísitölunnar tekin til athugunar auk svokallaðs vísitölubjaga.
     20.      Starfshópur um endurskoðun á reglum vegna endurgreiðslna námslána í tengslum við kjaraviðræður á opinberum markaði.
    Verkefni starfshópsins var að yfirfara reglur vegna endurgreiðslna námslána. Hópurinn tók jafnframt til athugunar samspil endurgreiðslu námslána annars vegar og barnabóta, annarra bóta og skatta hins vegar. Hópurinn hefur lokið starfi sínu.
     21.      Framkvæmdaráð um eflingu stafrænnar þjónustu.
    Ráðið skal tryggja framgang verkefna í aðgerðaáætlun um eflingu stafrænnar þjónustu hins opinbera með því að samræma aðgerðir og tryggja stuðning ráðuneyta gagnvart henni. Ráðinu er ætlað að upplýsa ráðherranefnd um samræmingu mála með reglulegum hætti um framgang áætlunarinnar.
     22.      Ritstjórn samráðsgáttar Stjórnarráðsins.
    Hlutverk ritstjórnar er meðal annars að leggja línur um framsetningu efnis sem ráðuneyti setja í gáttina og samræma meðferð og úrvinnslu ábendinga sem berast frá almenningi. Þá er ritstjórn falið að meta þörf á frekari tæknilegri þróun gáttarinnar og setja eftir atvikum fram tillögur í því efni og kostnaðarmeta þær.
     23.      Verkefnisstjórn um aðgerðir Íslands vegna fjórðu iðnbyltingarinnar.
    Verkefni hennar er að koma fram með tillögur að 20–30 aðgerðum sem marki fyrstu skref Íslands til móts við þær breytingar sem í farvatninu eru með fjórðu iðnbyltingunni. Við vinnu sína skal verkefnisstjórnin taka tillit til efnis sem þegar hefur verið unnið og vinnu annarra aðila, svo sem greiningar Vísinda- og tækniráðs á samfélagslegum áskorunum og vinnu framtíðarnefndar forsætisráðherra.
     24.      Starfshópur um eflingu björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
    Hlutverk hópsins er að taka þingsályktunartillögu um eflingu björgunarskipaflota Landsbjargar til skoðunar í samstarfi við Slysavarnafélagið Landsbjörg og leggja fram tillögur um framkvæmd verkefnisins.
     25.      Nefnd um vandaða starfshætti í vísindum.
    Hlutverk nefndarinnar er að upplýsa stjórnvöld, almenning og vísindasamfélagið um vandaða starfshætti í vísindum og um vísindasiðfræði og hafa eftirlit með því að siðferðileg viðmið séu í heiðri höfði í vísindasamfélaginu. Nefndin er stjórnvöldum og öðrum sem til hennar leita til ráðgjafar og veitir umsagnir og ráð um stefnumótun, þ.m.t. lagasetningu. Þá skal hún beita sér fyrir umræðum um málefnið innan lands og fylgjast með og taka þátt í alþjóðastarfi á sínu sviði. Nefndin skráir jafnframt viðurkennd siðferðisviðmið í rannsóknum og skilgreiningar á brotum gegn þeim. Viðmiðin skulu birt á vef nefndarinnar að fenginni umsögn Vísinda- og tækniráðs og staðfestingu ráðherra. Loks veitir nefndin álit um hvort brotið hafi verið gegn þessum siðferðisviðmiðum, sbr. 1.–4. mgr. 6. gr. laga um vandaða starfshætti í vísindum, nr. 70/2019.
     26.      Verkefnisstjórn um gildistöku laga um Seðlabanka Íslands.
    Hlutverk verkefnisstjórnar var að vinna að undirbúningi gildistöku laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, þar sem kveðið er á um sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits. Nefndin hefur lokið starfi sínu.
     27.      Ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
    Meginmarkmið ungmennaráðsins er að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, meðal jafningja og samfélagsins í heild sinni. Hlutverk ráðsins er að fræðast og fjalla um heimsmarkmiðin ásamt því að vinna og miðla gagnvirku efni á samfélagsmiðlum um markmiðin og sjálfbæra þróun. Ungmennaráðið veitir jafnframt stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf við innleiðingu markmiðanna í gegnum verkefnastjórn heimsmarkmiðanna.
     28.      Tengiliðahópur vegna ritunar skýrslu um viðbrögð stjórnvalda við ábendingum í skýrslum rannsóknarnefnda Alþingis.
    Tengiliðahópur fulltrúa forsætisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, Seðlabanka Íslands og Íbúðalánasjóðs vegna ritunar skýrslu um viðbrögð stjórnvalda við ábendingum er varða stjórnsýsluna í rannsóknarskýrslu Alþingis um orsakir falls íslensku bankanna 2008, orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna og Íbúðalánasjóðs og viðbrögð við þeim.
     29.      Stýrihópur um heildarendurskoðun jafnréttislaga.
    Hópurinn hefur yfirumsjón með heildarendurskoðun laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Stýrihópurinn starfar með fjórum starfshópum sem skipaðir eru af forsætisráðherra og falin eru tiltekin verkefni á grunni verkefnisáætlunar, sjá liði 30–33.
     30.      Starfshópur I um launajafnrétti og vinnumarkað í tengslum við heildarendurskoðun jafnréttislaga.
    Hlutverk hópsins er að fjalla um og gera tillögur að efnisinnihaldi þeirra ákvæða í frumvarpi til nýrra jafnréttislaga sem fjalla um launajafnrétti og vinnumarkað.
     31.      Starfshópur II um kæruleiðir og viðurlög í tengslum við heildarendurskoðun jafnréttislaga.
    Hlutverk hópsins er að fjalla um og gera tillögur að efnisinnihaldi þeirra ákvæða í frumvarpi til nýrra jafnréttislaga sem fjalla um kæruleiðir og viðurlög.
     32.      Starfshópur III um stjórnsýslu jafnréttismála o.fl. í tengslum við heildarendurskoðun jafnréttislaga.
    Hlutverk hópsins er að fjalla um og gera tillögur að efnisinnihaldi þeirra ákvæða í frumvarpi til nýrra jafnréttislaga sem fjalla um stjórnsýslu jafnréttismála, þ.e. Jafnréttisstofu, Jafnréttisráð, jafnréttisnefndir sveitarfélaga, jafnréttisfulltrúa o.fl.
     33.      Starfshópur IV um bann við mismunun á grundvelli kyns í tengslum við heildarendurskoðun jafnréttislaga.
    Hlutverk hópsins er að fjalla um og gera tillögur að efnisinnihaldi þeirra ákvæða í frumvarpi til nýrra jafnréttislaga sem fjalla um bann við mismunun á grundvelli kyns.
     34.      Samráðshópur um flutning velferðarráðuneytisins í húsið nr. 4 við Skúlagötu.
    Hlutverk samráðshópsins var að tryggja samráð um flutning velferðarráðuneytisins, nú annars vegar félagsmálaráðuneyti og hins vegar heilbrigðisráðuneyti, í húsið nr. 4 við Skúlagötu. Hópurinn hefur lokið starfi sínu.
     35.      Stýrihópur um skipulag á Stjórnarráðsreit.
    Hlutverk stýrihópsins er m.a. að skilgreina og miðla framtíðarsýn fyrir Stjórnarráðsreitinn og forsendur fyrir deiliskipulag og uppbyggingu á reitnum á grundvelli fyrirliggjandi stefnumörkunar í eignaumsýslu ríkisins og tengdra viðmiða. Hópurinn sér um eftirfylgni lykilþátta þessu tengda við úrvinnslu deiliskipulags og umfjöllun um einstök verkefni í undirbúningi innan reitsins.
     36.      Stýrihópur um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið.
    Hlutverk hópsins snýr að eftirfylgni og vöktun lykilþátta við fullnaðarhönnun viðbyggingar Stjórnarráðshússins.
     37.      Átakshópur um úrbætur á innviðum í framhaldi af fárviðrinu 10. og 11. desember 2019.
    Starfshópur fimm ráðuneyta sem hefur verið falið að meta hvaða aðgerðir séu færar til að efla innviði í flutnings- og dreifikerfi raforku og fjarskiptum með það að markmiði að slíkir grunninnviðir séu sem best í stakk búnir til að takast á við ofsaveður eða aðrar náttúruhamfarir. Til viðbótar við öryggi í raforku og fjarskiptum mun hópurinn jafnframt skoða samgöngur og byggðamál og dreifikerfi RÚV.