Ferill 450. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1057  —  450. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (staðgreiðsla, álagning o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Guðrúnu Ingu Torfadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Elínu Margréti Þráinsdóttur, Elínu Ölmu Arthursdóttur og Ingvar J. Rögnvaldsson frá Skattinum, Árna Sigurjónsson frá Marel, Sigurjón Högnason frá KPMG, Jónu Björk Guðnadóttur, Evu Margréti Ævarsdóttur og Ingibjörgu Árnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Guðbjörgu Þorsteinsdóttur og Bjarna Þór Bjarnason frá Deloitte, Lárus Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins og Benedikt S. Benediktsson og Pálma Örn Snorrason frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Nefndinni bárust umsagnir og önnur erindi um málið frá Alþýðusambandi Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Clearstream, Deloitte ehf., KPMG ehf., Marel hf., Nasdaq verðbréfamiðastöð, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands og Skattinum.
    Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á skattalögum sem tengjast bæði skattlagningu lögaðila og einstaklinga. Markmiðið með frumvarpinu er m.a. að eyða réttaróvissu og skýra löggjöf á sviði skattamála. Um efni og markmið frumvarpsins að öðru leyti vísast til greinargerðar með því.

Skattskylda og staðgreiðsluskylda af söluhagnaði fjármálagerninga.
Afnám staðgreiðsluskyldu og upplýsingaskylda milligönguaðila.
    Með 14. og 15. gr. frumvarpsins er lagt til að staðgreiðsluskylda aðila sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi af söluhagnaði íslenskra hlutabréfa og stofnbréfa, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, verði afnumin. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að tekjur ríkissjóðs af staðgreiðsluskyldunni séu litlar en að hún valdi viðkomandi aðilum óhagræði af því að eiga viðskipti með íslensk hlutabréf.
    Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja til nefndarinnar kemur fram að til þess að hlutabréf séu seljanleg á alþjóðlegum markaði verði þau að vera til umsýslu hjá alþjóðlegu greiðslumiðlunarfyrirtæki. Tvö slík fyrirtæki, Clearstream og Euroclear, séu leiðandi á þessum markaði innan Evrópu. Samtökin benda á að þrátt fyrir þá breytingu sem lögð er til með frumvarpinu verði þessum fyrirtækjum áfram skylt að skila upplýsingum um viðskipti með íslensk hlutabréf til ríkisskattstjóra skv. 2. mgr. 92. gr. tekjuskattslaga. Borið hafi á því að erlendir milligönguaðilar hafi hafnað því að taka íslensk hlutabréf í vörslu fyrir íslensk fjármálafyrirtæki þar sem þau telji sig ekki geta uppfyllt skilyrði um upplýsinga- og skýrslugjöf um söluhagnað.
    Í umsögn Clearstream er tillögu um afnám staðgreiðsluskyldunnar fagnað og nefndin hvött til þess að taka jafnframt til skoðunar afnám eða einföldun upplýsingaskyldu milligönguaðila til skattyfirvalda um söluhagnað. Þá eru í umsögninni tilgreindar þær upplýsingar sem félagið telur sér fært að afla og veita skattyfirvöldum í þessu samhengi. Í umsögn Deloitte er tekið í sama streng.
    Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar kemur fram að ráðuneytið telji þær að upplýsingar sem milliuppgjörsaðilar geti veitt samræmist kröfum Skattsins um upplýsingagjöf nái sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu fram að ganga. Meiri hlutinn gengur út frá því að þessi skilningur ráðuneytisins sé réttur og bendir á mikilvægi þess að skýrt sé hvaða upplýsingum aðilar sem hafa milligöngu um viðskipti með íslensk hlutabréf þurfi að skila til ríkisskattstjóra. Hvetur meiri hlutinn ráðuneytið og Skattinn til að hafa í huga að kröfur að þessu leyti íþyngi ekki viðkomandi aðilum meira en nauðsynlegt er.

Undanþágur frá skattskyldu vegna vaxtatekna af fjármálagerningum.
    Í 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. tekjuskattslaga kemur fram sú meginregla að greiða skuli tekjuskatt af vaxtatekjum hér á landi af bankainnstæðum, verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum, skuldabréfum eða öðrum kröfum og fjármálagerningum. Undantekningar frá skattskyldunni koma fram í 2.–3. málsl. ákvæðisins þar sem m.a. vextir af ríkisskuldabréfum og skuldabréfum sem eru gefin út í eigin nafni af fjármálafyrirtækjum eða af orkufyrirtækjum eru undanþegnir skattskyldu að nánari skilyrðum uppfylltum. Við umfjöllun nefndarinnar um málið komu fram ábendingar um að ástæða kynni að vera til að rýmka undanþágu frá skattskyldunni þannig að hún næði almennt yfir skráð skuldabréf á markaði.
    Skattskyldunni var komið á með 6. gr. laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, nr. 70/2009, sem sett voru „til að mæta því mikla tekjufalli og þeim útgjaldaauka sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna efnahagshrunsins og þeirra miklu skulda sem það skilur eftir sig“ líkt og fram kemur í greinargerð frumvarps þess er varð að þeim lögum. Meiri hlutinn telur að ástæða sé til að endurmeta forsendur skattskyldunnar, þ.e. hvort hana skuli afnema eða hvort skynsamlegt sé að gera á henni breytingar með öðrum hætti, svo sem með endurskoðun undanþága frá henni. Við slíka vinnu þarf að fara fram heildstætt mat á áhrifum þeirra breytinga sem til greina kemur að gera og hvetur meiri hlutinn til þess að slíkt mat fari fram í ráðuneytinu áður en til framlagningar frumvarps kemur.
    Meiri hlutinn leggur aftur á móti til að breyting verði gerð á því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar þannig að staðgreiðsluskylda skráðra skuldabréfa skv. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. tekjuskattslaga falli brott á sama hátt og lagt er til með 14. og 15. gr. um breytingar á 7. tölul. ákvæðisins, líkt og nánar verður vikið að í kafla um breytingartillögur meiri hlutans.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Erlendir sérfræðingar (2. gr.).
    Í 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, er kveðið á um að erlendum sérfræðingum sé heimilt að sækja um frádrátt frá skattskyldum tekjum sínum hér á landi fyrstu þrjú árin frá ráðningu í starf að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Eitt þessara skilyrða er að erlendur sérfræðingur hafi ekki verið búsettur eða heimilisfastur hér á landi í fimm ár næst á undan því almanaksári þegar hann hóf störf hér á landi, sbr. b-lið 1. mgr. 6. tölul. Með 2. gr. frumvarpsins er lagt til að í stað þess að miða við fimm ár næst á undan því almanaksári þegar viðkomandi hóf störf verði miðað við 60 mánuði fyrir upphaf starfs hér á landi „ef frá er talin búseta eða heimilisfesti á síðustu þremur mánuðum þess tímabils“. Ætlunin er sú að sérfræðingi gefist allt að þrír mánuðir til að flytja til landsins og undirbúa störf áður en hann tekur til starfa án þess að réttur hans til frádráttar samkvæmt ákvæðinu skerðist. Skatturinn leggur í umsögn sinni til að orðalagi ákvæðisins verði breytt þannig að skýrt verði tekið fram að fyrstu þrír mánuðir dvalar hérlendis teljist ekki með. Meiri hlutinn fellst á tillögu Skattsins og leggur til breytingu á orðalagi 2. gr. frumvarpsins til samræmis við hana.

Frádráttarbær rekstrarkostnaður (4. gr.).
    Með 4. gr. frumvarpsins er lagt til að ný málsgrein bætist við 49. gr. tekjuskattslaga sem kveði á um tímamark þess hvenær skilyrtir vextir annars vegar og valkvæðir hins vegar teljast gjaldfæranlegir. Í umsögn Skattsins til nefndarinnar er m.a. bent á að orðalagið „að öðrum skilyrðum uppfylltum“ sé ekki nægilega skýrt og að betur færi á að skilgreina hvaða skilyrði átt er við. Meiri hlutinn fellst á þessa tillögu Skattsins og leggur til að í ákvæðinu verði vísað til 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga.

Afnám staðgreiðsluskyldu (14.–15. gr.).
    Líkt og fjallað var um hér að framan er með 14. og 15. gr. frumvarpsins lagt til að staðgreiðsluskylda af söluhagnaði íslenskra hlutabréfa og stofnbréfa skv. 7. tölul. 1. mgr. 3. gr. tekjuskattslaga falli brott og bárust nefndinni ábendingar um að tilefni kynni að vera til að gera sams konar breytingu á skattlagningu vaxtatekna af skráðum skuldabréfum skv. 8. tölul. ákvæðisins.
    Meiri hlutinn telur að sambærileg rök og eru að baki 14. og 15. gr. frumvarpsins geti að mörgu leyti átt við um þá tillögu. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að brottfall staðgreiðsluskyldu af vaxtatekjum skráðra skuldabréfa gæti skipt miklu máli fyrir velgengni skuldabréfaútgáfu íslenskra fyrirtækja sem ekki félli undir undanþágu frá skattskyldu vaxtatekna líkt og skuldabréfaútgáfa hins opinbera, fjármálafyrirtækja og orkufyrirtækja. Þá hefðu íþyngjandi kvaðir við skattframkvæmd, svo sem í tengslum við skyldu til að halda eftir staðgreiðslu, í sumum tilvikum gert að verkum að erlendir milligönguaðilar hefðu hafnað umsýslu með slík bréf.
    Að þessu virtu leggur meiri hlutinn til að afnumin verði skylda til að halda eftir staðgreiðslu af vaxtatekjum skráðra skuldabréfa skv. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. tekjuskattslaga. Leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingar á 14. og 15. gr. frumvarpsins þar að lútandi.

Breytingar á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (nýr kafli).
    Í umsögnum KPMG, Marels og Samtaka fjármálafyrirtækja var bent á að samhliða þeim breytingum á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda sem lagðar væru til með 14. og 15. gr. frumvarpsins væri tilefni til að gera breytingar á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996.
    KPMG benti á að með sömu rökum og við ættu um brottfall staðgreiðsluskyldu samkvæmt frumvarpinu mætti endurskoða staðgreiðsluskyldu vegna arðgreiðslna á milli innlendra félaga með takmarkaðri ábyrgð hluthafa. Arður á milli slíkra félaga kæmi ekki til endanlegrar skattlagningar þar sem í 9. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga væri kveðið á um heimild móttakanda til að draga þær greiðslur frá tekjuskattsstofni. Þrátt fyrir það væri greiðanda arðs skylt að halda eftir staðgreiðslu og skila í ríkissjóð. Afdráttarskyldan fæli í raun í sér óhagræði fyrir bæði greiðanda og móttakanda arðs, auk þess sem ríkissjóður hefði ekki tekjur af þeirri staðgreiðslu sem skilað væri. Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar kemur fram að um áhugaverð rök sé að ræða.
    Í umsögn Marels til nefndarinnar er m.a. gerð tillaga um breytingu á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur í þá veru að skilaskylda staðgreiðslu af arði vegna hlutabréfa sem skráð eru rafrænt hjá verðbréfamiðstöð verði færð frá útgefendum hlutabréfa yfir á fjármálafyrirtæki. Í umsögninni eru færð rök fyrir því að af gildandi fyrirkomulagi hljótist „óhagræði sem auðveldlega mætti leysa með því að flytja skilaskyldu staðgreiðslu af arði yfir á fjármálafyrirtæki, en slíkt fyrirkomulag tíðkast víða erlendis. Fjármálafyrirtæki eru í viðskiptasambandi við hluthafa og geta því aflað upplýsinga um skattalega stöðu þeirra á einfaldari hátt en útgefendur. Auk þess hafa fjármálafyrirtækin þekkingu og búa yfir kerfum til að sjá um skattgreiðsluna hratt og örugglega, enda sjá þau þegar um útreikning og skil á skatti af vöxtum.“
    Tillaga þessi nýtur einnig stuðnings Samtaka fjármálafyrirtækja líkt og fram kemur í umsögn þeirra til nefndarinnar. Þá gera ráðuneytið og Skatturinn ekki athugasemdir við tillöguna.
    Meiri hlutinn telur þær ábendingar sem hér hafa verið raktar eiga við rök að styðjast. Leggur meiri hlutinn til að við frumvarpið bætist kafli um breytingu á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur þar sem kveðið verði á um að afnumin verði skylda þeirra félaga sem falla undir 1. tölul. 2. gr. tekjuskattslaga til að halda eftir og skila staðgreiðslu af arðgreiðslum þeirra á milli sem og að skilaskylda staðgreiðslu af arðgreiðslum rafrænt skráðra hlutabréfa færist frá útgefanda yfir á það innlenda fjármálafyrirtæki sem hefur bréfin í sinni vörslu.

Frestur til að afgreiða inneignarskýrslur (23. gr.).
    Í 23. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 25. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, um ákvörðun virðisaukaskatts, rannsókn og meðferð ríkisskattstjóra á virðisaukaskattsskýrslum o.fl. Í d-lið 23. gr. frumvarpsins er lagt til að frestur ríkisskattstjóra til að afgreiða inneignarskýrslur verði lengdur úr 21 degi í 30 daga. Í greinargerð með frumvarpinu segir að fresturinn hafi verið lengdur úr 15 dögum í 21 dag með 8. gr. laga nr. 163/2010 þar sem inneignarskýrslum hefði fjölgað verulega frá gildistöku virðisaukaskattslaga. Fram kemur að skýrslunum hafi ekki fjölgað að marki frá því þessi breyting tók gildi, hins vegar komi oft upp flóknari álitamál en áður.
    Í umsögn sinni bendir KPMG á að sá tímafrestur sem lagt er til að lengja snúi aðeins að því að gefa ríkisskattstjóra svigrúm til að ákveða hvort skýrsla skuli sæta frekari skoðun eða ekki. Í þeim tilvikum sem ekki er talin ástæða til frekari skoðunar skýrslu er hún afgreidd. Þegar ástæða er til frekari skoðunar er afgreiðslufresturinn rofinn með fyrirspurn til skattaðila. Þá mundi afnám skyldu ríkisskattstjóra til að rannsaka allar inneignarskýrslur draga úr umfangi þess þáttar í eftirlitsstörfum hans og því væri vart tilefni til að lengja afgreiðslufrestinn.
    Með hliðsjón af framangreindu telur meiri hlutinn ekki ástæðu til að framlengja umræddan frest og leggur til að d-liður 23. gr. frumvarpsins falli brott.

Gildistaka (31. gr.) og bráðabirgðaákvæði (13., 18. og 24. gr.).
    Meiri hlutinn leggur til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á gildistökuákvæði frumvarpsins þar sem tímasetning gildistöku samkvæmt ákvæðinu er liðin. Að því leyti sem tæknilega er mögulegt og ekki er um íþyngjandi breytingar að ræða verður þó kveðið á um afturvirka gildistöku frumvarpsins.
    Með 13., 18. og 24. gr. frumvarpsins er lagt til að bráðabirgðaákvæðum verði bætt við lög um tekjuskatt, lög um staðgreiðslu opinberra gjalda og lög um virðisaukaskatt. Ákvæðunum er ætlað að bregðast tímabundið við dómum Mannréttindadómstóls Evrópu sem fallið hafa á undanförnum árum og varða álitaefni um hvort meðferð skattalagabrota hér á landi sé í andstöðu við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu um bann við tvöfaldri refsingu. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðunum skal álagi samkvæmt nánar tilteknum ákvæðum ekki beitt frá 1. janúar 2020 til 1. júlí 2020 ef máli skattaðila hefur verið vísað til refsimeðferðar. Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins til nefndarinnar er lagt til að tímabilið verði lengt til 31. desember 2020 þar sem stefnt er að því að leggja fram frumvarp þar að lútandi á haustþingi 2020. Meiri hlutinn leggur til breytingu á bráðabirgðaákvæðunum þannig að efni þeirra nái til alls ársins 2020.

Endurgreiðsla vegna útflutnings F-gasa (nýr kafli).
    Með XVIII. kafla laga nr. 135/2019, sem tóku gildi 1. janúar síðastliðinn, var ákvæðum um að leggja skuli skatt á flúoraðar gróðurhúsalofttegundir (F-gös) við innflutning þeirra bætt við lög um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009. Við þinglega meðferð þess frumvarps er varð að lögum nr. 135/2019 barst nefndinni erindi frá Samtökum iðnaðarins þar sem gerðar voru athugasemdir við að ekki væru heimilaðar endurgreiðslur í þeim tilvikum þegar innflutningsaðili seldi aftur til útflutnings flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, t.d. sem hluta af tæki eða búnaði sem framleiddur væri hér á landi.
    Í greinargerð með framangreindu frumvarpi kemur fram að markmið með skattlagningunni sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að stjórnvöld geti uppfyllt skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og náð markmiðum um kolefnishlutleysi árið 2040. Jafnframt er tekið fram að álagning grænna skatta grundvallist á mengunarbótareglunni (e. polluter pays principle) sem felur í sér að sá sem veldur mengun greiði þann kostnað sem af henni hlýst.
    Meiri hlutinn telur gild rök mæla með þeim sjónarmiðum sem koma fram í framangreindu erindi Samtaka iðnaðarins um að kveða ætti á um heimild til endurgreiðslu á skattinum í ákveðnum tilfellum. Meiri hlutinn leggur því til að við frumvarpið bætist kafli um breytingu á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta þar sem lagt er til að við lögin bætist ákvæði sem heimili innflutningsaðila að sækja um endurgreiðslu á skatti vegna innflutnings F-gasa þegar hann flytur gjaldskylda vöru sannanlega úr landi.

Vörugjald af húsbílum (ný grein).
    Með lögum nr. 117/2018 voru gerðar viðamiklar breytingar á fyrirkomulagi álagningar vörugjalds á ökutæki sem flutt eru til landsins. Breytingarnar komu til vegna breyttrar aðferðafræði við mælingar á útblæstri ökutækja líkt og nánar er rakið í greinargerð þess frumvarps sem varð að lögum nr. 117/2018 (162. mál 149. löggjafarþings). Frumvarpinu var ætlað að bregðast við þeim breytingum sem urðu á skráðri losun nýrra bifreiða enda var ekki ætlunin að breytingin á aðferðafræði þeirrar mælingar yrði til þess að auka álagningu vörugjalds og þar með tekjur ríkissjóðs af gjaldinu. Í frumvarpinu kemur m.a. eftirfarandi fram: „Samkvæmt áhrifamati sem unnið var fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun upptaka nýja staðalsins hafa í för með sér að upplýsingar um mengun, losun og eldsneytiseyðslu ökutækja taka breytingum. Á þessum tímapunkti er m.a. ljóst að uppgefin koltvísýringslosun ökutækja mun hækka um 7–37% eða 21% að meðaltali.“
    Samtök ferðaþjónustunnar hafa bent nefndinni á að breytingin á aðferðafræði við mælingu losunar hafi haft í för með sér ófyrirséðar afleiðingar varðandi húsbíla. Útblástur þeirra mældist ekki í kringum 20% hærri samkvæmt nýju aðferðinni en þeirri gömlu heldur margfaldaðist hann. Þetta ylli því að húsbílar sem fluttir væru til landsins og hefðu skráða koltvísýringslosun samkvæmt nýju aðferðinni bæru líklega allir hámarksvörugjald sem er 65% samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993. Munurinn á útsöluverði til neytenda gæti hlaupið á milljónum króna vegna þessa, eftir því hvort losun viðkomandi húsbíls væri skráð samkvæmt gömlu eða nýju aðferðafræðinni. Að líkindum myndi þetta leiða til þess að innflutningsaðilar húsbíla leituðu fremur eftir eldri ökutækjum sem hefðu skráða losun samkvæmt gömlu aðferðinni. Eldri ökutæki væru að jafnaði óöruggari og menguðu í raun meira þrátt fyrir að skráð losun væri minni. Ljóst væri að bregðast þyrfti við þessari stöðu með lagasetningu.
    Meiri hlutinn tekur undir ábendingu Samtaka ferðaþjónustunnar og telur ljóst að ætlun löggjafans hafi ekki verið sú að húsbílar sættu stórauknum álögum vörugjalds samhliða upptöku nýs alþjóðlegs staðals um mælingu á losun ökutækja. Meiri hlutinn telur að vinna þurfi að varanlegri lausn vegna þessarar stöðu en leggur til að við vörugjaldslögin bætist bráðabirgðaákvæði þar sem fram komi tímabundin lausn. Í ákvæðinu verði kveðið á um að við álagningu vörugjalds á húsbíla skuli lækka skráða losun um 40%, þó þannig að hún lækki ekki niður fyrir 150 g/km. Skilyrði lækkunar verði að hið innflutta ökutæki sé skráð sem bifreið í ökutækjaskrá, það falli í flokk húsbíla eða húsbifreiða samkvæmt ákvæðum umferðarlaga og reglugerða með stoð í þeim og að ökutækið teldist grind í skilningi h-liðar 2. tölul. 4. gr. vörugjaldslaga ef það væri án yfirbyggingar til bústaðarnota. Leggur meiri hlutinn til að ný grein bætist við VII. kafla frumvarpsins í þessu skyni.
    Aðrar breytingartillögur en þær sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan eru tæknilegs eðlis og til lagfæringar en er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.
    Þorsteinn Víglundsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 3. mars 2020.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Brynjar Níelsson. Birgir Ármannsson.
Ólafur Þór Gunnarsson. Þorsteinn Víglundsson.