Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 499, 149. löggjafarþing 162. mál: vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. (losunarviðmið, sendi-, vöru- og golfbifreiðar).
Lög nr. 117 27. nóvember 2018.

Lög um breytingu á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum um bifreiðagjald og lögum um virðisaukaskatt (losunarviðmið, sendi-, vöru- og golfbifreiðar).


I. KAFLI
Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með síðari breytingum.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. og 5. gr., skal lagt vörugjald miðað við skráða losun koltvísýrings (CO 2) viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra. Gjaldið skal vera sem hér segir en samanlagt ekki nema meira en 65% á hvert ökutæki:
    1. 0,37% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 74 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni.
    2. 0,34% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar samkvæmt evrópsku aksturslotunni umfram 81 gramm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni.
    3. 0,31% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 90 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni.

  3. 3. mgr. fellur brott.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. Við p-lið 1. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um golfbifreiðar sem eingöngu eru knúnar rafhreyfli.
  2. Við 1. tölul. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Sendibifreiðar samkvæmt skilgreiningu g-liðar 2. tölul. sem knúnar eru rafhreyfli að öllu leyti.
  3. G-liður 2. tölul. orðast svo: Sendibifreiðar með sambyggt stýrishús og flutningsrými, eftir atvikum búnar farþegasætum eða sætisfestingum fyrir allt að tvo farþega auk ökumanns í stýrishúsi en engum slíkum í farmrými og flutningsrými, sem eru ætlaðar til vöruflutninga og eru undir 5 tonnum að leyfðri heildarþyngd.
  4. Við 2. tölul. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Ökutæki ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna, sem ekki eru skráningarskyld samkvæmt umferðarlögum.
  5. Í stað orðsins „golfbílar“ í b-lið 3. tölul. kemur: golfbifreiðar.


3. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Vörugjald skal lagt á leigubifreiðar til fólksflutninga, bifreiðar til ökukennslu og sérútbúnar bifreiðar til fólksflutninga miðað við skráða losun koltvísýrings (CO 2) viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra. Gjaldið skal vera sem hér segir en samanlagt ekki nema meira en 30% á hvert ökutæki:
  1. 0,26% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 132 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni.
  2. 0,24% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 145 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar samkvæmt evrópsku aksturslotunni hafi losunin verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni.
  3. 0,21% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 160 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni.

     Mismunur álagningar skv. 3. gr. og þessari grein skal að hámarki nema 1.250.000 kr.
     Aðeins er heimilt að leggja vörugjald á bifreiðar samkvæmt þessari grein að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
  1. Kaupandi leigubifreiðar hefur atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða samkvæmt ákvæðum laga um leigubifreiðar og hefur akstur hennar að aðalatvinnu.
  2. Ökukennari sem kaupir bifreið til ökukennslu hefur hlotið löggildingu sem ökukennari skv. 56. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, og hefur akstur hennar að aðalatvinnu.
  3. Kaupandi bifreiðar til ökukennslu er ökuskóli með gilt starfsleyfi samkvæmt reglugerð sem sett er á grundvelli 56. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987.
  4. Kaupandi sérútbúinnar bifreiðar til fólksflutninga hefur leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða skv. 9. gr. laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017.

     Skilyrði fyrir því að vörugjald sé lagt á bifreið til ökukennslu hjá ökuskóla samkvæmt þessari grein er að skráningu á akstri bifreiðarinnar sé hagað þannig að á hverjum tíma sé unnt að gera grein fyrir akstri í þágu ökukennslu. Tollstjóri getur án fyrirvara óskað eftir gögnum þar um. Við mat á því hvort bifreið hafi einungis verið notuð til ökukennslu skal miðað við að unnt sé að gera grein fyrir a.m.k. 80% af akstri hennar í þágu ökukennslu með framvísun þar til gerðrar akstursbókar eða á annan hátt sem tollstjóri metur fullnægjandi.
     Skilyrði fyrir því að kaupandi sérútbúinnar bifreiðar til fólksflutninga njóti vörugjaldsívilnunar samkvæmt þessari grein er að bifreiðin sé eingöngu nýtt í tengslum við þjónustu við ferðamenn. Bifreiðin skal auðkennd sérstaklega í ökutækjaskrá. Skal hún bera sérstök skráningarmerki og skal útlit þeirra tilgreint nánar í reglugerð um skráningu ökutækja.
     Komi í ljós að skilyrði sem sett eru í þessari grein hafi ekki verið uppfyllt við álagningu vörugjalds samkvæmt þessari grein varðar það því að kaupandinn, hvort sem er einstaklingur eða lögaðili, missir rétt til að njóta ívilnunar vörugjalds samkvæmt þessari grein í þrjú ár frá síðasta broti.
     Sé bifreið notuð til annars en hún er ætluð skv. c- og d-lið 3. mgr., sbr. 4. og 5. mgr., skal tollstjóri leggja á skráðan eiganda hennar fullt vörugjald skv. 3. gr. eins og það hefði verið við upphaflega álagningu að viðbættu 50% álagi. Krafan fellur í gjalddaga 10 dögum eftir dagsetningu úrskurðar um álagningu vörugjalds samkvæmt þessu ákvæði. Eindagi er mánuði eftir gjalddaga. Um vexti fer skv. 125. gr. tollalaga, nr. 88/2005. Kröfunni fylgir lögveð ríkissjóðs í hlutaðeigandi bifreið í tvö ár frá gjalddaga og nær það til einnig til vaxta, dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. Um fullnustu kröfunnar fer skv. 128. og 129. gr. tollalaga, nr. 88/2005.
     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði um ökutæki sem falla undir þessa grein, svo sem um notkun ökutækis, búnað þess og hvað teljist vera aðalatvinna skv. 3. mgr., svo og ákvæði um endurgreiðslu á mismun vörugjalds samkvæmt ákvæðum 3. gr. annars vegar og þessarar greinar hins vegar ef skilyrði c- og d-liðar 3. mgr., sbr. 4. og 5. mgr., eru ekki uppfyllt.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XVI í lögunum:
  1. Í stað orðanna „miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis samkvæmt evrópsku aksturslotunni.
  2. Á eftir 1. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Hafi losunin einvörðungu verið ákvörðuð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni skal lækka skráða losun koltvísýrings ökutækis um 17,36% við ákvörðun vörugjalds en um 8,8% hafi losun verið ákvörðuð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni. Komi lækkunin ekki til framkvæmda fyrir álagningu fer um endurgreiðslu þess vörugjalds sem á milli munar skv. 125. gr. tollalaga að því undanskildu að mismunurinn ber vexti skv. 2. mgr. þeirrar greinar frá 1. apríl 2019.
  3. Í stað orðsins „Lækkunin“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: Mismunur álagningar samkvæmt aðalflokki 1. mgr. 3. gr. og undanþáguflokki.
  4. 2. mgr. orðast svo:
  5.      Sé bifreið notuð til annars en útleigu hjá ökutækjaleigu sem er skráð fyrir henni, sbr. 1. mgr., skal tollstjóri leggja á skráðan eiganda hennar fullt vörugjald skv. 3. gr. eins og það hefði verið við upphaflega álagningu að viðbættu 50% álagi. Kröfunni fylgir lögveð ríkissjóðs í hlutaðeigandi bifreið í tvö ár frá gjalddaga og nær það einnig til vaxta, dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. Um fullnustu kröfunnar fer skv. 128. og 129. gr. tollalaga, nr. 88/2005.


5. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 3. og 5. gr. skal lækka skráða losun koltvísýrings ökutækis um 17,36% við ákvörðun vörugjalds á ökutæki frá gildistöku ákvæðis þessa til ársloka 2018 hafi losunin einvörðungu verið ákvörðuð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni en um 8,8% hafi losun verið ákvörðuð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni. Komi lækkunin ekki til framkvæmda fyrir álagningu fer um endurgreiðslu þess vörugjalds sem á milli munar skv. 125. gr. tollalaga að því undanskildu að mismunurinn ber vexti skv. 2. mgr. þeirrar greinar frá 1. apríl 2019.

II. KAFLI
Breyting á lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988, með síðari breytingum.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 2. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „skráðri kolefnislosun ökutækis“ kemur: skráðri losun koltvísýrings ökutækis samkvæmt evrópsku aksturslotunni.
  2. Við bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Hafi koltvísýringslosunin verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni skal gjaldið vera 6.075 kr. fyrir losun allt að 133 grömmum af skráðri koltvísýringslosun ökutækis samkvæmt evrópsku aksturslotunni en 133 kr. fyrir hvert gramm af losun umfram það. Hafi koltvísýringslosunin einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni skal gjaldið vera 6.075 kr. fyrir losun allt að 146 grömmum af skráðri koltvísýringslosun ökutækis en 121 kr. fyrir hvert gramm af losun umfram það.


III. KAFLI
Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

7. gr.

     2. tölul. 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögunum orðast svo: Við innflutning og skattskylda sölu tengiltvinnbifreiðar skal skráð losun slíkrar bifreiðar á koltvísýringi vera 50 g eða minna á hvern ekinn kílómetra samkvæmt evrópsku aksturslotunni. Hafi koltvísýringslosunin verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni skal skráð losun slíkrar bifreiðar á koltvísýringi samkvæmt evrópsku aksturslotunni vera 55 g eða minna á hvern ekinn kílómetra. Hafi koltvísýringslosunin einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni skal skráð losun slíkrar bifreiðar á koltvísýringi vera 60 g eða minna á hvern ekinn kílómetra.

IV. KAFLI
Gildistaka.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Ákvæði 1., 3., 6. og 7. gr. öðlast þó gildi 1. janúar 2019.

Samþykkt á Alþingi 21. nóvember 2018.